Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn í heil­brigðis­kerfinu

Deila grein

02/04/2024

Fram­sókn í heil­brigðis­kerfinu

Fyrir síðustu kosningar var heilbrigðiskerfið mikið til umfjöllunar enda stærsta sameiginlega verkefni þjóðarinnar. Verkefni heilbrigðiskerfisins eru ærin og þurfa stöðugrar skoðunar við og þar má aldrei slá slöku við hvorki í umbótum, þróun eða nýsköpun. Við í Framsókn vorum tilbúin til að taka við heilbrigðisráðuneytinu og það var heilla skref að Willum Þór Þórsson var valinn Heilbrigðisráðherra. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa borist margar jákvæðar fréttir úr heilbrigðiskerfinu og langar mig að draga nokkrar þeirra saman á einn stað, þótt aðeins verði stiklað á stóru.

Samningar tryggja jafnt aðgengi

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er kveðið á um að hið opinbera skuli tryggja öllum landsmönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Eftir áralangt samningsleysi við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustu. Síðastliðið sumar var loks gengið frá samningum við sérfræðilækna sem höfðu verið samningslausir allt frá árinu 2019, með þessum samningum lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga sem hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Þessi samningur styrkir umgjörð um starfsemi sérfræðilækna og stuðlar að framþróun þjónustunnar ásamt því að tryggja aðgengi að henni.

Þá var annar tímamótasamningur gerður á síðasta ári þegar 24 ára stöðnun var rofin með þriggja ára samningum milli Sjúkratrygginga Íslands og tannréttingasérfræðinga. Þar með sköpuðust forsendur til að auka greiðsluþátttöku ríkisins í tannréttingum og voru styrkir til almennra tannréttinga nær þrefaldaðir. Þessir samningar fylgja eftir markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr kostnaði sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu.

Biðlistar styttast

Markvisst hefur verið unnið að því að fjölga lýðheilsutengdum aðgerðum í þeim tilgangi að tryggja tímanlegt aðgengi að þjónustunni, stytta biðlista og bæta þannig skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Hér er um að ræða aðgerðir líkt og liðskiptaaðgerðir, aðgerðir á augasteinum, kvennaaðgerðir s.s. vegna endómetríósu, sem og ýmsar hrygg- og efnaskiptaaðgerðir. Segja má að þessar aðgerðir séu liður í viðhaldi góðrar lýðheilsu. Aðgerðir af þessu tagi geta verið undirstaða lífsgæða, tryggt virkni einstaklinga jafnt í lífi og starfi og því mikilvægt að þeir sem þurfa á þeim að halda þurfi ekki að bíða.

Í þessu samhengi má nefna að aldrei hafa verið framkvæmdar jafn margar valkvæðar liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám eins og árið 2023 en þær voru samtals 2.138. Aukningin nam tæpum 60% á milli ára en aðgerðum fjölgaði um rúmlega 800. Þá fór meðalbiðtími eftir liðskiptaaðgerð úr 9,5 mánuðum í 4,6 mánuði á Landsspítala á árinu 2023. Megináherslan hefur verið að ná niður biðlistum, stytta bið sjúklinga eftir aðgerðum og tryggja aðgang óháð efnahag. Hér er mikilvægt að halda því til haga að stefnan er að tryggja öllum þjónustuna sem á þurfa að halda en ekki að fjölga aðgerðum utan opinberra stofnanna og því síður að einkavæða þjónustu.

Þetta eru ekki einu biðlistarnir sem þurft hefur að ná niður. Með breyttu skipulagi og auknu fjármagni hefur tekist að stytta verulega biðtíma barna eftir göngudeildarþjónustu hjá barna- og unglingadeild Landsspítalans (BUGL). Biðtími á BUGL var orðin óásættanlegur en að jafnaði biðu um 100-130 börn eftir þjónustu og þurftu þau oft að bíða mánuðum saman. Undir lok janúarmánaðar voru 26 börn sem biðu og biðin eftir þjónustu innan við einn og hálfur mánuður. Starfsfólk BUGL á hrós skilið fyrir ómetanlega vinnu sem hefur gert þetta kleift.

Áframhaldandi umbætur

Það er stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra og farið hefur verið í ýmsar aðgerðir sem miða að því markmiði. Má þar nefna breytingar á reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda innanlands sem fjölgar endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár. Þá hefur greiðsluþáttöku verið komið á vegna aðgerða til að fjarlægja brjóstapúða sem komið hefur verið fyrir í fegrunarskyni ef það telst vera læknisfræðilega nauðsynlegt. Vinnuhópur hefur mótað drög að landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Henni er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu við einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Þá hefur ráðherra skipað starfshóp til að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum. Eins og sjá má er brugðist við á fjölbreyttum sviðum og í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.

Ekki er hægt að slá botninn í þessa grein án þess að nefna hjúkrunarheimilin. En heilbrigðisráðherra hefur með samkomulagi við fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Nú er áformað að ríkið leigi húsnæði af aðilum sem þá sjá þá alfarið um að byggja, viðhalda og reka húsnæðið. Rekstur húsnæðis gæti þá orðið óháður þeim sem veitir hjúkrunarþjónustuna. Hjúkrunarþjónustan verður eftir sem áður ýmist veitt af fyrirtækjum í velferðarþjónustu og sveitarfélögum samkvæmt þjónustusamningum við ríkið, eða af ríkisreknum heilbrigðisstofnunum. Áskorunin er að hraða uppbyggingu hjúkrunarrýma vegna vaxandi þarfar og til að tryggja þjónustu við aldraða á réttum stað og á réttum tíma

Eins og ég sagði í upphafi er aldrei hægt að slá slöku við í heilbrigðismálum en hér að framan hef ég nefnt nokkra mikilvæga áfanga sem hafa náðst á kjörtímabilinu, með öflugri forystu og í góðri samvinnu við fólkið sem starfar í kerfinu af fagmennsku og ósérhlífni.

Við í þingflokki Framsóknar munum áfram halda okkar manni við efnið og vitum að keppnismaður eins og Willum Þór mun halda áfram við umbætur í heilbrigðiskerfinu af fullum krafti út kjörtímabilið.

Líneik Anna Sævarsdóttir, situr í velferðarnefnd Alþingis og er þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Menntun innflytjenda – falinn fjársjóður

Deila grein

08/02/2024

Menntun innflytjenda – falinn fjársjóður

Í janú­ar sá ég viðtal við tann­lækni frá Úkraínu sem kom til Íslands sem flóttamaður vorið 2022 og hef­ur nú fengið leyfi land­lækn­is til að starfa sem tann­lækn­ir hér á landi. Þetta eru virki­lega já­kvæðar frétt­ir. En því miður heyri ég sam­hliða of marg­ar sög­ur um að inn­flytj­end­ur fái fyrra nám eða starfs­rétt­indi ekki met­in á Íslandi. Hingað til hef­ur oft verið óljóst hvert eigi að snúa sér til að fá fyrra nám metið. Það er því mikið fagnaðarefni að í byrj­un fe­brú­ar var opnuð þjón­ustugátt fyr­ir mat á námi og starfs­rétt­ind­um á Is­land.is.

At­vinnuþátt­taka inn­flytj­enda er mik­il

Inn­flytj­end­ur eru nú um 18 pró­sent af heild­ar­fjölda lands­manna en hlut­fallið er mjög breyti­legt á milli byggðarlaga. Hæst er hlut­fall inn­flytj­enda yfir 60% í Mýr­dals­hreppi, í all­mörg­um sveit­ar­fé­lög­um er það yfir 30% en þar sem hlut­fall inn­flytj­enda er lægst fer það niður fyr­ir fimm pró­sent. Sveit­ar­fé­lög með hæst hlut­fall inn­flytj­enda eru öll á lands­byggðinni en ekk­ert sveit­ar­fé­lag á höfuðborg­ar­svæðinu fer yfir 20% nema Reykja­vík. Seinni hluta síðasta árs voru inn­flytj­end­ur um 23% af heild­ar­fjölda starf­andi á Íslandi. Al­menn at­vinnuþátt­taka á Íslandi er 82% en at­vinnuþátt­taka inn­flytj­enda er enn meiri, eða tæp­lega 87%, og er það mun hærra hlut­fall en í öðrum nor­ræn­um ríkj­um. Ekki hefði verið mögu­legt að manna mik­il­væg störf síðustu ár án aðkomu inn­flytj­enda, t.d. í fisk­vinnslu, iðnaði, ferðaþjón­ustu og í vax­andi mæli í heil­brigðis- og vel­ferðarþjón­ustu.

Mennt­un­arstig inn­flytj­enda er áþekkt mennt­un­arstigi inn­lendra

Marg­ir inn­flytj­end­ur sinna störf­um þar sem ekki er gerð rík krafa um mennt­un og það oft þrátt fyr­ir að vera jafn­vel með sér­hæfða mennt­un sem mik­il þörf er fyr­ir á ís­lensk­um vinnu­markaði. Það þarf að nýta þenn­an mannauð bet­ur. Staðreynd­in er sú að um 42% inn­flytj­enda hér á landi vinna störf sem ekki krefjast sér­stakr­ar mennt­un­ar þrátt fyr­ir að hlut­fall þeirra inn­flytj­enda sem hér búa og ekki hafa lokið sér­tækri mennt­un sé 17%. Þá vek­ur það at­hygli að mennt­un­arstig inn­lendra og inn­flytj­enda á Íslandi er áþekkt. Þá er ekki mark­tæk­ur mun­ur á mennt­un­arstigi þeirra sem koma hingað frá svæðum utan EES og inn­an EES.

Bylt­ing við mat á mennt­un og færni

Eins og áður sagði var þjón­ustugátt fyr­ir mat á námi og starfs­rétt­ind­um opnuð í byrj­un fe­brú­ar. Með þjón­ustugátt­inni er verið að tengja um­sækj­end­ur í gegn­um miðlæga síðu við alla þá sem koma að mati og viður­kenn­ingu á námi hér á landi. Þannig batn­ar aðgengi fólks sem vill fá mennt­un frá út­lönd­um metna, óháð því hvort um er að ræða inn­flytj­end­ur eða inn­fædda. Hér er um að ræða mjög mik­il­vægt skref til ein­föld­un­ar og loks verður hægt að sjá á ein­um stað all­ar upp­lýs­ing­ar um kröf­ur sem gerðar eru til viður­kenn­ing­ar á mennt­un eða færni. Ég fagna þessu skrefi sem hér hef­ur verið tekið en legg áherslu á að frek­ari um­bóta er þörf. Matið heyr­ir und­ir þrjú ráðuneyti, heil­brigðisráðuneytið varðandi starfs­leyfi heil­brigðis­stétta; há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti varðandi starfs­rétt­indi iðngreina; og mennta- og barna­málaráðuneytið varðandi starfs­leyfi fyr­ir leik-, grunn- og fram­halds­skóla­kenn­ara. Verk­efnið dreif­ist víða og þess vegna er brýnt að skil­greina vel hlut­verk skóla við mat á námi, leiðbein­ing­ar og þjón­ustu. Ég er sann­færð um að hér eru frek­ari tæki­færi til úr­bóta og auk­inn­ar skil­virkni án þess að slaka á kröf­um til þekk­ing­ar og færni.

Við þurf­um á þekk­ingu allra íbúa að halda

Fé­lags- og vinnu­markaðsráðuneytið ber ábyrgð á mót­töku inn­flytj­enda, og þar hef­ur nú verið unn­in græn­bók um stöðuna í mál­efn­um inn­flytj­enda og unnið er að stefnu­mót­un í nánu sam­starfi við ráðherra­nefnd í mála­flokkn­um. Á kjör­tíma­bil­inu hafa nú þegar verið samþykkt­ar laga­breyt­ing­ar á grunni þeirr­ar vinnu til að auðvelda ráðningu sér­fræðinga frá út­lönd­um, þjón­ustug­átt­in er kom­in og unnið að efl­ingu raun­færni­mats og skil­virk­ara mati á námi og starfs­rétt­ind­um. Þessi vinna er í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar en þar seg­ir: „Tryggja þarf að inn­flytj­end­ur sem hér vilja búa og starfa fái tæki­færi til aðlög­un­ar og geti nýtt hæfi­leika sína, þekk­ingu og reynslu.“ Það er mik­il­vægt að fjár­festa í fólki eins og við í Fram­sókn leggj­um áherslu á. Við þurf­um á þekk­ingu allra að halda þar sem við á og kannski leyn­ist þekk­ing sem hef­ur skort í sum byggðarlög nú þegar meðal íbúa.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Dreifingu fjölpósts hætt

Deila grein

09/01/2024

Dreifingu fjölpósts hætt

Íslandspóstur ákvað að hætta alfarið að dreifa fjölpósti við upphaf árs 2024. Fyrir fjórum árum var hætt að dreifa fjölpósti á suðvesturhorni landsins. Íbúar á því svæði urðu þó ekki varir við það enda er þar virk samkeppni um verkefnið og önnur fyrirtæki tóku að sér að dreifa fjölpósti. Það má hins vegar ætla að víða í dreifbýli og á minni þéttbýlisstöðum muni enginn grípa boltann. Því muni íbúum ekki lengur berast fjölbreytt efni sem hingað til hefur verið dreift með fjölpósti.

Pósturinn segir í tilkynningu að þessi ákvörðun sé í takt við umhverfisstefnu Póstsins og þar með sé verið að draga úr sóun og losun koltvísýrings. Vissulega er það þannig að þeim fækkar sem senda frá sér fjölpóst en nýta þess í stað rafræna miðla til að koma upplýsingum á framfæri. Það er þó erfitt að koma auga á umhverfisábata þar sem landpóstar munu eftir sem áður keyra um dreifbýlið tvisvar í viku.

Sparnaður á kostnað íbúa í dreifbýli eða tekjutap póstsins?

Það er ekki nóg að vísa til umhverfisstefnu þegar kemur að slíkri þjónustuskerðingu á landsbyggðinni. Í nóvember fóru fulltrúar Framsóknar í umhverfis og samgöngunefnd Alþings fram á að nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum um forsendur ákvörðunar Íslandspóst, um að hætta alfarið dreifingu fjölpósts þann 1. janúar 2024. Nefndin óskaði í framhaldi eftir upplýsingum um hvað þessi ákvörðum myndi spara félaginu, annars vegar við að hætta dreifingu fjölpósts í dreifbýli og hins vegar í þéttbýli með 1000 eða færri íbúum. Svarið sem barst var að fyrirtækið sjái ekki ástæðu til að taka saman þær upplýsingar sem beðið var um og vísar til þess að um sé að ræða upplýsingar sem Alþingi eigi ekki rétt á þar sem fyrirtækið væri nú opinbert hlutafélag.

Í tengslum við fyrirspurnina bendir Íslandpóstur á að dreifing fjölpósts fellur ekki undir alþjónustu, sem Íslandspósti er skylt að veita um land allt skv. lögum. Ákvörðun um hvort dreifa eigi fjölpósti eða ekki, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu, þéttbýli eða dreifbýli á landsbyggðinni er því í öllum tilvikum rekstrarleg ákvörðun sem tekin er af stjórn og stjórnendum félagsins. Þessi ákvörðun félagsins sætir því engri sérstakri ytri skoðun, og gildir þá einu hvort um er að ræða Byggðastofnun eða Alþingi.

Dreifum gleðinni

Eitt að slagorðum Íslandspósts er „Dreifum gleðinni“ og hlutverk hans er að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög. Samkvæmt lögum veitir Íslandspóstur viðskiptavinum alhliða póstþjónustu, óháð staðsetningu og framtíðarsýnin er að vera fyrsta val viðskiptavina með því að veita framúrskarandi þjónustu. Íslandspóstur er opinbert fyrirtæki og starfar undir lögum um póstþjónustu. Skylda Póstsins er að veita alþjónustu sem nær til bréfa allt að 2 kg og pakka allt að 10 kg innan lands. Þannig að dreifing fjölpósts fellur ekki þar undir. Eftir breytingarnar verður eftir sem áður hægt að senda markpóst, t.d. bæklinga og auglýsingarefni, sem almennt bréf en hann mun þá lúta skilmálum bréfa varðandi verðskrá, dreifingarplan og nafnamerkingu og kostar því bæði meira að undirbúa sendingar og dreifa þeim. Íslandspóstur dreifir því „fjölpósti“ en gjaldskráin hefur hækkað að því marki að það borgar sig varla að nýta sér þá þjónustu þar sem kostnaðurinn eykst um allt að 600%.

Gleðin daprast þegar ákvörðunin kemur sannarlega niður á þeirri þjónustu sem Pósturinn hefur veitt s.s. við dreifingu héraðsfréttamiðla og Bændablaðsins. Það fer að þrengjast um rekstur slíkra miðla þegar það svarar engan veginn kostnaði að dreifa þeim til lesenda og ólíklegt að þeir nýti póstinn til þess áfram. Hvort skyldi ríkisjóður nú þurfa að greiða minna eða meira með rekstri Íslandspósts eftir þessa ákvörðun?

Dreifum menningu og upplýsingum

Það er staðreynd að bréfapósti hefur fækkað mikið en það má ekki koma niður á þeirri þjónustu sem er þó enn nýtt. Það er mikilvægt hlutverk póstsins að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög og veita þjónustu óháð staðsetningu. Að tengja saman fólk og samfélög er að miðla upplýsingum og fréttum það er m.a. gert með svæðisbundnum miðlum. Félagssamtök gefa einnig út blöð og bæklinga og svo ekki sé talað um blöðunga sem er dreift fyrir kosningar. Þar eru mikilvægar upplýsingar sem þurfa að komast til fólks.

Það er mikilvæg að dreifa gleðinni, upplýsingum og fréttum. Pósturinn hefur staðið sig vel í því hlutverki í aldir og það er mikilvægt að missa ekki sjónar af því. Pósturinn þarf líka að svara því hvað þessi ákvörðun skiptir miklu í rekstrarlegu tilliti og hvað sparast í útblæstri við ákvörðunina. Við hin getum alveg reiknað út hvað þetta þýðir í þjónustuskerðingu fyrir hinar dreifðu byggðir.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Deila grein

01/11/2023

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Skólastarf hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár eins og endurspeglast í menntastefnu til 2030, en þar segir „Menntun er lykill að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns.“ Þannig má álykta að samkeppnishæfni þjóða byggi á menntun og sama á við um samkeppnishæfni landshluta.

Á dögunum sótti ég málstofu um menntun á Hringborði norðurslóða. Kom þar fram að munur væri á þróun samfélaga með og án háskóla en beita þyrfti öðrum aðferðum í háskólastarfi í dreifbýli en borgum til að ná fram samfélagsáhrifum.

Fjarnám

Framboð á fjarnámi á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugi og hef ég fylgst með því hvernig menntuðum kennurum, félagsliðum, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað í mínu nær umhverfi, séð marga byrja á að ná í framhaldsskólaeiningar í fjarnámi og komast á háskólastigið. Ég hef líka átt samtöl við marga sem ekki hafa komist í það nám sem mestur áhugi er fyrir, vegna búsetu, starfs eða fjölskylduaðstæðna. Fólk sem séð hefur hvar skóinn kreppir og viljað sækja þekkingu sem vantar í samfélagið þar sem það býr, s.s. master í sálfræði, talmeinafræði eða félagsráðgjöf. Ég hef líka talað við fólk sem ekki hefur fengið að taka vettvangsnám á landsbyggðinni þó það vilji einmitt vera undirbúið fyrir störf þar, á þetta t.d. við um heilbrigðisgreinar, tölvunarfræði og íþróttafræði.

Það er ekki alltaf auðvelt að nálgast upplýsingar um framboð á fjarnámi og lengi var svarið, „þú getur bæði farið í hjúkrun og kennslu, en þú getur líka prófað að skrá þig í eitthvað annað og sjá hvað kennararnir segja“. Þetta hefur sem betur fer aðeins breyst en vonbrigði mín eru hvað breytingar á framboði fjarnáms og sveigjanlegs náms hafa verið hægar.

Mikill munur í framboði á fjarnámi milli háskóla

Í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur frá því í mars 2023, kemur fram að mikill munur sé á hlutfalli þeirra námskeiða sem aðgengileg eru í fjarnámi eftir háskólum. Hæst er hlutfallið í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst eða 100% og lægst, eða 0% í Listaháskóla Íslands. Sérstaka athygli vekur að við HÍ er aðeins 15,9% námskeiða aðgengileg í fjarnámi og niðurstaðan er að 75% námskeiða við háskóla á Íslandi eru einungis aðgengileg í staðnámi.

Í meira en 100 ár höfum við sem samfélag lagt áherslu á jafnrétti til náms eins og endurspeglast í menntastefnunni til 2030, þar sem m.a. er lögð áhersla á jöfn tækifæri fyrir alla og framúrskarandi menntun alla ævi. Í því ljósi getur ekki talist ásættanlegt að aðeins 25% námskeiða við íslenska háskóla séu í boði í fjarnámi, hvorki fyrir einstaklinginn né samfélagið.

Framboð á fjarnámi frá íslenskum háskólum þarf að stór auka. Einnig er þörf á að bæta umgjörð og upplýsingagjöf um hvaða nám er hægt að nálgast í fjarnámi.

Fimmtudaginn 2. nóvember fer Byggðaráðstefnan 2023 fram í Reykjanesbæ og ráðstefnan verður í beinu streymi. Þemað að þessu sinni er Búsetufrelsi og þar verður samspil háskólanáms og búsetufrelsis meðal umræðuefna og vil ég hvetja alla til að fylgjast með.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Virkjum allt unga fólkið

Deila grein

16/10/2023

Virkjum allt unga fólkið

Mikill meirihluti ungs fólks er í skóla og vinnur hluta úr ári, auk þess að sinna fjölbreyttu tómstundastarfi. Á hverjum tíma er þó ákveðin hópur sem einhverra hluta vegna hefur lítil tækifæri til virkni. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður líkt og áföll, langtíma eða skammtímaveikindi, taugaraskanir, flutningur milli samfélaga eða hreinlega eitthvað allt annað. Það sem skiptir máli fyrir hvert samfélag er að sinna þessum hópi og það á forsendum hvers og eins. Þá þarf að virða að ástæður þess að fólk er ekki virkt eru mismunandi. Allir þessir einstaklingar hafa sína einstöku sögu og þurfa að fá sín tækifæri til þess að ná að vera virkir í samfélaginu. Þessi hópur hefur ekki verið stór hér á landi í samanburði við önnur lönd en við verðum samt stöðugt að vera á vaktinni við að sinna honum.

Það sem hentar einum hentar ekki öllum

Mörgum framhaldsskólum hefur tekist vel við að grípa fólk sem á erfitt með að fóta sig í skóla en sú leið hentar ekki endilega öllum. Það er því mikið fagnaðarefni að á dögunum var undirritaður samningur sem tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir þann hóp sem oft er skilgreindur sem NEET hópurinn (fólk sem ekki er í vinnu, virkni eða námi og þurfa sérhæfða einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu). Um er að ræða þríhliða samning um samvinnu milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda. Samningurinn er liður í tveggja ára tilraunaverkefni heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi aukna samþættingu endurhæfingarþjónustu milli ráðuneyta og endurhæfingarúrræða. Gert er ráð fyrir að árlegt fjármagn til þjónustunnar nemi um 330 milljónum króna.

Janus endurhæfing mun veita þjónustuna sem stendur til boða alla virka daga. Þjónustan er sérstaklega ætluð þeim ungmennum sem eru með þráláta, kvíða- og/eða þráhyggju- og árátturöskun, fælni, þunglyndi, persónuleika- og/eða tilfinningavanda eða ungmennum með röskun á einhverfurófi sem jafnframt eru með hamlandi geðræn vandamál. Þá er í endurhæfingunni lögð sérstök áhersla á náið samstarf og samráð við heilbrigðiskerfið og VIRK sem gefur möguleika á góðri, faglegri, heildrænni nálgun og samfellu í þjónustunni. Árangur verkefnisins verður metinn á sex mánaða fresti á samningstímanum með það að markmiði að halda áfram að bæta þjónustu við þennan mikilvæga hóp ungmenna.

Markmið samningsins er skýrt, það er að hjálpa ungu fólki sem hefur átt erfitt með að fóta sig í lífinu til að ná upp virkni og getu. Takist það, aukast lífsgæði þess og opnar fyrir því möguleika til að njóta sín betur í framtíðinni. Samvinnan sem hér á sér stað er mikilvægt skref í samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og það er óhætt að segja að við munum öll uppskera ef vel tekst til.

Allir eiga rétt á tækifæri

Verkefnið er í samræmi við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 um að efla gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði. Endurhæfingarráð hefur leitt undirbúninginn og þátttakendur í því eru m.a. geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðferðareining lyndisraskana á Landspítala og VIRK. Vinnan hefur m.a. falist í að meta þörf einstaklinga fyrir þessa þjónustu ásamt því að sérsníða þjónustuna að þörfum þeirra. Þá er verkefnið mikilvægt í tengslum í breytingum á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu sem m.a. gengur út á að styðja ungt fólk til atvinnu með sérhæfðum stuðningi. Fyrir utan að auka, færni og sjálfstraust er hér lagt upp með að bæta líðan og lífsgæði. Verkefnið getur komið í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og skapað sjálfbærara samfélag. Við í Framsókn viljum, að öll eigi raunveruleg tækifæri til að vera virk í samfélaginu.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Vinna að jafnrétti

Deila grein

11/03/2023

Vinna að jafnrétti

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrr í þessari viku. Þessi dagur gefur ávallt tilefni til að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum.

Það er sláandi að þessa dagana berast þau tíðindi frá 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna.

Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við þó enn langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni. Það verður aldrei þannig að við getum hallað okkur aftur og sagt að öllum markmiðum hafi verið náð, því þá er hætta á að áunnin réttindi tapist og framþróun stöðvist. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.

Áskoranirnar hér á landi eru margar, launamunur og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja þarf eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem nú er í gangi, eftir að við höfum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi.

Þessi misserin sjáum við bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til tafarlausra og samræmdra aðgerða til þess að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna og um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.

Hjá UN Women er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að virða sáttmála sem varðar réttindi kvenna og stúlkna. Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð. Stóra óskin er að konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Umbætur í bráðaþjónustu

Deila grein

15/02/2023

Umbætur í bráðaþjónustu

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á landsvísu skilaði nýlega af sér skýrslu og tillögum sem hafa verið kynntar í ríkisstjórn og fyrir velferðarnefnd Alþingis.

Heilbrigðisráðherra skipaði viðbragðsteymið sumarið 2022 og í því sitja fulltrúar aðila sem koma að bráðaþjónustu í landinu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri vera til staðar til að efla, bæta og ekki síst samræma bráðaþjónustuna á landsvísu. Tillögurnar snúast einnig um að auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun, og fleira. Vinnan hefur nú þegar skilað ákveðnum umbótum en í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur.

Tillögur viðbragðsteymis

Umfangsmesta tillagan gengur út á að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði lögð á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, þar á meðal við þá sem sinna sjúkraflutningum og við heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Einnig eru settar fram einfaldari tillögur eins að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu allra hjartastuðtækja í landinu þannig að Neyðarlínan 112 geti alltaf vísað á næsta tæki.

Þó skýrslan sé nýlega komin út var strax farið í ákveðnar umbætur samhliða vinnu teymisins. Heilbrigðisráðherra hefur nú þegar ráðstafað tæpum 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land og farið hefur verið í ýmsar skipulagsbreytingar.

Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hefur tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum í síma. Það sem nefnt er betri vegvísun. Þá standa yfir frekari umbætur á vegvísun í heilbrigðisþjónustu, þar sem stefnt að auknu samræmi í upplýsingagjöf og aukinni samvinnu til að dreifa álagi á heilbrigðiskerfið.

Styrking viðbragðs á Austurlandi

Liður í vinnunni var að setja viðmið um búnaðarþörf á mismunandi heilsugæslustöðvum um land allt og gera úttekt á stöðunni. Úttektin leiddi bæði í ljós þörf á að uppfæra búnað og bæta við búnaði á minni og stærri starfsstöðvum. Í kjörfarið var fjármagni ráðstafað til úrbóta. Þannig kom fram að sjúkrahúsið í Neskaupstað vantaði ytri-öndunarvél (BIPAP) og var fjármagni veitt til kaupa á slíku tæki en áður höfðu verið gerðar ráðstafanir til kaupa á nýju sneiðmyndatæki.

Úttekt á heilsugæslustöðvunum á Austurlandi leiddi í ljós þörf fyrir ýmsan búnað til að styrkja bráðaviðbragð, og voru 35 milljónir settar í það verkefni á fjárlögum. Fjármagnið er m.a. ætlað til kaupa á hjartastuðtækjum og hjartalínuritum samkvæmt nánari ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Samræming búnaðar bætir öryggi sjúklinga og vinnuaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks auk þess að stuðla að markvissara samstarfi á milli starfsstöðva.

Rétt þjónusta á réttum stað

Þessi nálgun á verkefnið, þar sem horft er á áskoranir um allt land og brugðist við þeim með umbótum á smáum og stórum heilbrigðisstofnunum, endurspeglar vel áherslur Framsóknar. Þær áherslur birtasta einmitt í stjórnarsáttmálanum þar sem fram kemur að heilbrigðisstofnanir verði styrktar til að veita rétta þjónustu á réttum stað og að jafna skuli aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt.

Vinnu viðbragðsteymisins verður fylgt eftir enda er hún afskaplega mikilvægt innlegg í viðbragð og þróun heilbrigðiskerfisins, til lengri og skemmri tíma. Ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar COVID með aukinni tíðni óvenjulegra og bráðra sýkinga.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður Velferðarnefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 14. febrúar 2023.

Categories
Greinar Uncategorized

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Deila grein

09/11/2022

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir: „Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um.“

Sam­starf á norður­slóðum er okk­ur Íslend­ing­um afar mik­il­vægt enda nauðsyn­legt að sam­tal og sam­vinna fari fram um sam­eig­in­leg mál­efni svæðis­ins. Með þeim um­hverf­is­breyt­ing­um sem nú eiga sér stað auk ut­anaðkom­andi áhrifa standa íbú­ar norður­slóða frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um. Mik­il­vægt er að við sem búum þar störf­um sam­an að því að bæta lífs­kjör íbúa á norður­slóðum og styrkja fé­lags­lega og menn­ing­ar­lega þróun á svæðinu.

Eins og mörg­um er kunn­ugt ligg­ur starf Norður­skauts­ráðsins og þing­mannaráðstefn­unn­ar um norður­skauts­mál niðri um þess­ar mund­ir vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Þrátt fyr­ir að form­legt sam­starf liggi niðri sótti þing­manna­nefnd um norður­skauts­mál ráðstefnu um mál­efni norður­skauts­ins sem hald­in var á Græn­landi í sept­em­ber.

Ráðstefn­an var hald­in af danska þing­inu og bar yf­ir­skrift­ina: Ráðstefna þing­manna á norður­slóðum – nor­rænt og norður­am­er­ískt sam­starf. Á ráðstefn­unni komu sam­an þing­menn frá Norður­lönd­un­um og Norður-Am­er­íku og ræddu mál­efni norður­skauts­ins. Þar voru ýmis áhuga­verð verk­efni sem unnið er að á norður­slóðum kynnt með sér­stakri áherslu á Græn­land.

Áhersla á lausn­ir

Til­gang­ur ráðstefn­unn­ar var að deila reynslu og hug­mynd­um, eins og tíðkast hef­ur á þing­mannaráðstefn­unni, sem að jafnaði er hald­in annað hvert ár og hef­ur verið sam­starfs­vett­vang­ur þing­manna aðild­ar­ríkja Norður­skauts­ráðsins frá 1993. Meg­in­viðfangs­efni voru lofts­lags­breyt­ing­ar, sjálf­bær efna­hagsþróun og mann­líf á norður­slóðum. Í því sam­bandi var komið inn á margt áhuga­vert, með áherslu á lausn­ir á áskor­un­um sem fólk á norður­slóðum glím­ir við. Fjallað var um mik­il­vægi þess að íbú­ar við norður­skautið verði í for­ystu við að leita lausna við græna og end­ur­nýj­an­lega orku­öfl­un, fyr­ir stór og smá sam­fé­lög. Dæmi um slík verk­efni eru frek­ari nýt­ing vatns­afls, til­raun­ir með sólarraf­hlöður sem koma skemmti­lega á óvart, rækt­un græn­met­is í gróður­hús­um í Nuuk og hug­mynd­ir um að nýta „jöklamjöl“ til áburðar.

Mörg og mik­il­væg mál­efni

Rétt­indi og varðveisla menn­ing­ar frum­byggja var til umræðu og þar á meðal mik­il­vægi þess að þeir væru sýni­leg­ir í kvik­mynd­um og fjöl­miðlum. Það er svo mik­il­vægt að skoða ver­öld­ina frá sjón­ar­hóli fólks­ins á norður­slóðum. Þá var lögð mik­il áhersla á að halda áfram að yf­ir­stíga mikl­ar fjar­lægðir norður­slóða og byggja upp mögu­leika dreif­býl­is­sam­fé­laga með góðum netteng­ing­um til að efla fjar­heil­brigðis- og vel­ferðarþjón­ustu og ra­f­ræna náms­mögu­leika.

Und­ir­rituð tók þótt í umræðu um geðheil­brigðismál og greindi meðal ann­ars frá ís­lenska for­varn­ar­mód­el­inu í vímu­vörn­um, vinnu að breyt­ing­um í mál­efn­um barna og ný­samþykktri stefnu í geðheil­brigðismál­um. Þar var einnig sagt frá áhuga­verðum rann­sókn­um Græn­lend­inga við að greina þætti sem styrkja geðheil­brigði fólks á norður­slóðum og fjallað um þró­un­ar­verk­efni til sjálfs­efl­ing­ar fólks sem ekki finn­ur sig í skóla­kerf­inu.

Íslenska sendi­nefnd­in sam­an­stend­ur af þrem­ur þing­mönn­um sem eru, auk und­ir­ritaðrar, Eyj­ólf­ur Ármanns­son og Berg­lind Ósk Guðmunds­dótt­ir. Með nefnd­inni starfar alþjóðarit­ar­inn Arna Gerður Bang. Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um. Ég get full­yrt að all­ir ráðstefnu­gest­ir hafi farið heim með mik­il­vægt vega­nesti inn í kom­andi verk­efni og stærra tengslanet en áður.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður þing­manna­nefnd­ar um norður­skauts­mál.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 7. nóvember 2022.