Categories
Fréttir Greinar

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Deila grein

01/11/2023

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Skólastarf hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár eins og endurspeglast í menntastefnu til 2030, en þar segir „Menntun er lykill að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns.“ Þannig má álykta að samkeppnishæfni þjóða byggi á menntun og sama á við um samkeppnishæfni landshluta.

Á dögunum sótti ég málstofu um menntun á Hringborði norðurslóða. Kom þar fram að munur væri á þróun samfélaga með og án háskóla en beita þyrfti öðrum aðferðum í háskólastarfi í dreifbýli en borgum til að ná fram samfélagsáhrifum.

Fjarnám

Framboð á fjarnámi á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugi og hef ég fylgst með því hvernig menntuðum kennurum, félagsliðum, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað í mínu nær umhverfi, séð marga byrja á að ná í framhaldsskólaeiningar í fjarnámi og komast á háskólastigið. Ég hef líka átt samtöl við marga sem ekki hafa komist í það nám sem mestur áhugi er fyrir, vegna búsetu, starfs eða fjölskylduaðstæðna. Fólk sem séð hefur hvar skóinn kreppir og viljað sækja þekkingu sem vantar í samfélagið þar sem það býr, s.s. master í sálfræði, talmeinafræði eða félagsráðgjöf. Ég hef líka talað við fólk sem ekki hefur fengið að taka vettvangsnám á landsbyggðinni þó það vilji einmitt vera undirbúið fyrir störf þar, á þetta t.d. við um heilbrigðisgreinar, tölvunarfræði og íþróttafræði.

Það er ekki alltaf auðvelt að nálgast upplýsingar um framboð á fjarnámi og lengi var svarið, „þú getur bæði farið í hjúkrun og kennslu, en þú getur líka prófað að skrá þig í eitthvað annað og sjá hvað kennararnir segja“. Þetta hefur sem betur fer aðeins breyst en vonbrigði mín eru hvað breytingar á framboði fjarnáms og sveigjanlegs náms hafa verið hægar.

Mikill munur í framboði á fjarnámi milli háskóla

Í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur frá því í mars 2023, kemur fram að mikill munur sé á hlutfalli þeirra námskeiða sem aðgengileg eru í fjarnámi eftir háskólum. Hæst er hlutfallið í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst eða 100% og lægst, eða 0% í Listaháskóla Íslands. Sérstaka athygli vekur að við HÍ er aðeins 15,9% námskeiða aðgengileg í fjarnámi og niðurstaðan er að 75% námskeiða við háskóla á Íslandi eru einungis aðgengileg í staðnámi.

Í meira en 100 ár höfum við sem samfélag lagt áherslu á jafnrétti til náms eins og endurspeglast í menntastefnunni til 2030, þar sem m.a. er lögð áhersla á jöfn tækifæri fyrir alla og framúrskarandi menntun alla ævi. Í því ljósi getur ekki talist ásættanlegt að aðeins 25% námskeiða við íslenska háskóla séu í boði í fjarnámi, hvorki fyrir einstaklinginn né samfélagið.

Framboð á fjarnámi frá íslenskum háskólum þarf að stór auka. Einnig er þörf á að bæta umgjörð og upplýsingagjöf um hvaða nám er hægt að nálgast í fjarnámi.

Fimmtudaginn 2. nóvember fer Byggðaráðstefnan 2023 fram í Reykjanesbæ og ráðstefnan verður í beinu streymi. Þemað að þessu sinni er Búsetufrelsi og þar verður samspil háskólanáms og búsetufrelsis meðal umræðuefna og vil ég hvetja alla til að fylgjast með.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Virkjum allt unga fólkið

Deila grein

16/10/2023

Virkjum allt unga fólkið

Mikill meirihluti ungs fólks er í skóla og vinnur hluta úr ári, auk þess að sinna fjölbreyttu tómstundastarfi. Á hverjum tíma er þó ákveðin hópur sem einhverra hluta vegna hefur lítil tækifæri til virkni. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður líkt og áföll, langtíma eða skammtímaveikindi, taugaraskanir, flutningur milli samfélaga eða hreinlega eitthvað allt annað. Það sem skiptir máli fyrir hvert samfélag er að sinna þessum hópi og það á forsendum hvers og eins. Þá þarf að virða að ástæður þess að fólk er ekki virkt eru mismunandi. Allir þessir einstaklingar hafa sína einstöku sögu og þurfa að fá sín tækifæri til þess að ná að vera virkir í samfélaginu. Þessi hópur hefur ekki verið stór hér á landi í samanburði við önnur lönd en við verðum samt stöðugt að vera á vaktinni við að sinna honum.

Það sem hentar einum hentar ekki öllum

Mörgum framhaldsskólum hefur tekist vel við að grípa fólk sem á erfitt með að fóta sig í skóla en sú leið hentar ekki endilega öllum. Það er því mikið fagnaðarefni að á dögunum var undirritaður samningur sem tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir þann hóp sem oft er skilgreindur sem NEET hópurinn (fólk sem ekki er í vinnu, virkni eða námi og þurfa sérhæfða einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu). Um er að ræða þríhliða samning um samvinnu milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda. Samningurinn er liður í tveggja ára tilraunaverkefni heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi aukna samþættingu endurhæfingarþjónustu milli ráðuneyta og endurhæfingarúrræða. Gert er ráð fyrir að árlegt fjármagn til þjónustunnar nemi um 330 milljónum króna.

Janus endurhæfing mun veita þjónustuna sem stendur til boða alla virka daga. Þjónustan er sérstaklega ætluð þeim ungmennum sem eru með þráláta, kvíða- og/eða þráhyggju- og árátturöskun, fælni, þunglyndi, persónuleika- og/eða tilfinningavanda eða ungmennum með röskun á einhverfurófi sem jafnframt eru með hamlandi geðræn vandamál. Þá er í endurhæfingunni lögð sérstök áhersla á náið samstarf og samráð við heilbrigðiskerfið og VIRK sem gefur möguleika á góðri, faglegri, heildrænni nálgun og samfellu í þjónustunni. Árangur verkefnisins verður metinn á sex mánaða fresti á samningstímanum með það að markmiði að halda áfram að bæta þjónustu við þennan mikilvæga hóp ungmenna.

Markmið samningsins er skýrt, það er að hjálpa ungu fólki sem hefur átt erfitt með að fóta sig í lífinu til að ná upp virkni og getu. Takist það, aukast lífsgæði þess og opnar fyrir því möguleika til að njóta sín betur í framtíðinni. Samvinnan sem hér á sér stað er mikilvægt skref í samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og það er óhætt að segja að við munum öll uppskera ef vel tekst til.

Allir eiga rétt á tækifæri

Verkefnið er í samræmi við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 um að efla gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði. Endurhæfingarráð hefur leitt undirbúninginn og þátttakendur í því eru m.a. geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðferðareining lyndisraskana á Landspítala og VIRK. Vinnan hefur m.a. falist í að meta þörf einstaklinga fyrir þessa þjónustu ásamt því að sérsníða þjónustuna að þörfum þeirra. Þá er verkefnið mikilvægt í tengslum í breytingum á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu sem m.a. gengur út á að styðja ungt fólk til atvinnu með sérhæfðum stuðningi. Fyrir utan að auka, færni og sjálfstraust er hér lagt upp með að bæta líðan og lífsgæði. Verkefnið getur komið í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og skapað sjálfbærara samfélag. Við í Framsókn viljum, að öll eigi raunveruleg tækifæri til að vera virk í samfélaginu.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Vinna að jafnrétti

Deila grein

11/03/2023

Vinna að jafnrétti

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrr í þessari viku. Þessi dagur gefur ávallt tilefni til að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum.

Það er sláandi að þessa dagana berast þau tíðindi frá 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna.

Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við þó enn langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni. Það verður aldrei þannig að við getum hallað okkur aftur og sagt að öllum markmiðum hafi verið náð, því þá er hætta á að áunnin réttindi tapist og framþróun stöðvist. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.

Áskoranirnar hér á landi eru margar, launamunur og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja þarf eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem nú er í gangi, eftir að við höfum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi.

Þessi misserin sjáum við bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til tafarlausra og samræmdra aðgerða til þess að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna og um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.

Hjá UN Women er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að virða sáttmála sem varðar réttindi kvenna og stúlkna. Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð. Stóra óskin er að konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Umbætur í bráðaþjónustu

Deila grein

15/02/2023

Umbætur í bráðaþjónustu

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á landsvísu skilaði nýlega af sér skýrslu og tillögum sem hafa verið kynntar í ríkisstjórn og fyrir velferðarnefnd Alþingis.

Heilbrigðisráðherra skipaði viðbragðsteymið sumarið 2022 og í því sitja fulltrúar aðila sem koma að bráðaþjónustu í landinu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri vera til staðar til að efla, bæta og ekki síst samræma bráðaþjónustuna á landsvísu. Tillögurnar snúast einnig um að auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun, og fleira. Vinnan hefur nú þegar skilað ákveðnum umbótum en í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur.

Tillögur viðbragðsteymis

Umfangsmesta tillagan gengur út á að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði lögð á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, þar á meðal við þá sem sinna sjúkraflutningum og við heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Einnig eru settar fram einfaldari tillögur eins að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu allra hjartastuðtækja í landinu þannig að Neyðarlínan 112 geti alltaf vísað á næsta tæki.

Þó skýrslan sé nýlega komin út var strax farið í ákveðnar umbætur samhliða vinnu teymisins. Heilbrigðisráðherra hefur nú þegar ráðstafað tæpum 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land og farið hefur verið í ýmsar skipulagsbreytingar.

Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hefur tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum í síma. Það sem nefnt er betri vegvísun. Þá standa yfir frekari umbætur á vegvísun í heilbrigðisþjónustu, þar sem stefnt að auknu samræmi í upplýsingagjöf og aukinni samvinnu til að dreifa álagi á heilbrigðiskerfið.

Styrking viðbragðs á Austurlandi

Liður í vinnunni var að setja viðmið um búnaðarþörf á mismunandi heilsugæslustöðvum um land allt og gera úttekt á stöðunni. Úttektin leiddi bæði í ljós þörf á að uppfæra búnað og bæta við búnaði á minni og stærri starfsstöðvum. Í kjörfarið var fjármagni ráðstafað til úrbóta. Þannig kom fram að sjúkrahúsið í Neskaupstað vantaði ytri-öndunarvél (BIPAP) og var fjármagni veitt til kaupa á slíku tæki en áður höfðu verið gerðar ráðstafanir til kaupa á nýju sneiðmyndatæki.

Úttekt á heilsugæslustöðvunum á Austurlandi leiddi í ljós þörf fyrir ýmsan búnað til að styrkja bráðaviðbragð, og voru 35 milljónir settar í það verkefni á fjárlögum. Fjármagnið er m.a. ætlað til kaupa á hjartastuðtækjum og hjartalínuritum samkvæmt nánari ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Samræming búnaðar bætir öryggi sjúklinga og vinnuaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks auk þess að stuðla að markvissara samstarfi á milli starfsstöðva.

Rétt þjónusta á réttum stað

Þessi nálgun á verkefnið, þar sem horft er á áskoranir um allt land og brugðist við þeim með umbótum á smáum og stórum heilbrigðisstofnunum, endurspeglar vel áherslur Framsóknar. Þær áherslur birtasta einmitt í stjórnarsáttmálanum þar sem fram kemur að heilbrigðisstofnanir verði styrktar til að veita rétta þjónustu á réttum stað og að jafna skuli aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt.

Vinnu viðbragðsteymisins verður fylgt eftir enda er hún afskaplega mikilvægt innlegg í viðbragð og þróun heilbrigðiskerfisins, til lengri og skemmri tíma. Ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar COVID með aukinni tíðni óvenjulegra og bráðra sýkinga.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður Velferðarnefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 14. febrúar 2023.

Categories
Greinar Uncategorized

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Deila grein

09/11/2022

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir: „Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um.“

Sam­starf á norður­slóðum er okk­ur Íslend­ing­um afar mik­il­vægt enda nauðsyn­legt að sam­tal og sam­vinna fari fram um sam­eig­in­leg mál­efni svæðis­ins. Með þeim um­hverf­is­breyt­ing­um sem nú eiga sér stað auk ut­anaðkom­andi áhrifa standa íbú­ar norður­slóða frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um. Mik­il­vægt er að við sem búum þar störf­um sam­an að því að bæta lífs­kjör íbúa á norður­slóðum og styrkja fé­lags­lega og menn­ing­ar­lega þróun á svæðinu.

Eins og mörg­um er kunn­ugt ligg­ur starf Norður­skauts­ráðsins og þing­mannaráðstefn­unn­ar um norður­skauts­mál niðri um þess­ar mund­ir vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Þrátt fyr­ir að form­legt sam­starf liggi niðri sótti þing­manna­nefnd um norður­skauts­mál ráðstefnu um mál­efni norður­skauts­ins sem hald­in var á Græn­landi í sept­em­ber.

Ráðstefn­an var hald­in af danska þing­inu og bar yf­ir­skrift­ina: Ráðstefna þing­manna á norður­slóðum – nor­rænt og norður­am­er­ískt sam­starf. Á ráðstefn­unni komu sam­an þing­menn frá Norður­lönd­un­um og Norður-Am­er­íku og ræddu mál­efni norður­skauts­ins. Þar voru ýmis áhuga­verð verk­efni sem unnið er að á norður­slóðum kynnt með sér­stakri áherslu á Græn­land.

Áhersla á lausn­ir

Til­gang­ur ráðstefn­unn­ar var að deila reynslu og hug­mynd­um, eins og tíðkast hef­ur á þing­mannaráðstefn­unni, sem að jafnaði er hald­in annað hvert ár og hef­ur verið sam­starfs­vett­vang­ur þing­manna aðild­ar­ríkja Norður­skauts­ráðsins frá 1993. Meg­in­viðfangs­efni voru lofts­lags­breyt­ing­ar, sjálf­bær efna­hagsþróun og mann­líf á norður­slóðum. Í því sam­bandi var komið inn á margt áhuga­vert, með áherslu á lausn­ir á áskor­un­um sem fólk á norður­slóðum glím­ir við. Fjallað var um mik­il­vægi þess að íbú­ar við norður­skautið verði í for­ystu við að leita lausna við græna og end­ur­nýj­an­lega orku­öfl­un, fyr­ir stór og smá sam­fé­lög. Dæmi um slík verk­efni eru frek­ari nýt­ing vatns­afls, til­raun­ir með sólarraf­hlöður sem koma skemmti­lega á óvart, rækt­un græn­met­is í gróður­hús­um í Nuuk og hug­mynd­ir um að nýta „jöklamjöl“ til áburðar.

Mörg og mik­il­væg mál­efni

Rétt­indi og varðveisla menn­ing­ar frum­byggja var til umræðu og þar á meðal mik­il­vægi þess að þeir væru sýni­leg­ir í kvik­mynd­um og fjöl­miðlum. Það er svo mik­il­vægt að skoða ver­öld­ina frá sjón­ar­hóli fólks­ins á norður­slóðum. Þá var lögð mik­il áhersla á að halda áfram að yf­ir­stíga mikl­ar fjar­lægðir norður­slóða og byggja upp mögu­leika dreif­býl­is­sam­fé­laga með góðum netteng­ing­um til að efla fjar­heil­brigðis- og vel­ferðarþjón­ustu og ra­f­ræna náms­mögu­leika.

Und­ir­rituð tók þótt í umræðu um geðheil­brigðismál og greindi meðal ann­ars frá ís­lenska for­varn­ar­mód­el­inu í vímu­vörn­um, vinnu að breyt­ing­um í mál­efn­um barna og ný­samþykktri stefnu í geðheil­brigðismál­um. Þar var einnig sagt frá áhuga­verðum rann­sókn­um Græn­lend­inga við að greina þætti sem styrkja geðheil­brigði fólks á norður­slóðum og fjallað um þró­un­ar­verk­efni til sjálfs­efl­ing­ar fólks sem ekki finn­ur sig í skóla­kerf­inu.

Íslenska sendi­nefnd­in sam­an­stend­ur af þrem­ur þing­mönn­um sem eru, auk und­ir­ritaðrar, Eyj­ólf­ur Ármanns­son og Berg­lind Ósk Guðmunds­dótt­ir. Með nefnd­inni starfar alþjóðarit­ar­inn Arna Gerður Bang. Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um. Ég get full­yrt að all­ir ráðstefnu­gest­ir hafi farið heim með mik­il­vægt vega­nesti inn í kom­andi verk­efni og stærra tengslanet en áður.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður þing­manna­nefnd­ar um norður­skauts­mál.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 7. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Deila grein

30/09/2022

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og um nýliðna helgi glímdu landsmenn sannarlega við þau. Illviðri gekk yfir, mikill vindstyrkur sem sumstaðar fylgdi mikil úrkoma og há sjávarstaða. Þetta leiddi til margs konar tjóns s.s. skriðufalla á Vestfjörðum, flóða á Akureyri, skemmda á uppskeru og gríðarlegs foktjóns. Austfirðir urðu hvað verst úti enda náði vindstyrkur þar ótrúlega víða viðmiðum fárviðris. Þegar verðrið stóð sem hæst varð auk þess rafmagnslaust á nálægt helmingi landsins, með tilheyrandi óöryggi, beinu og óbeinu tjóni.

Við getum þakkað fyrir að ekki varð manntjón um liðna helgi. Veðurspár, veðurviðvaranir, lokanir vega og vinna viðbragðsaðila komu í veg fyrir að enn meira tjón hlytist af og fyrir það ber að þakka. Viðbrögð og þrotlaus vinna björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila skiptu sköpum á meðan á veðrinu stóð. Starfsmenn sveitarfélaga brugðust einnig við með fjölbreyttum hætti og mikið mun mæða á sveitarfélögum við hreinsunarstarf næstu daga og vikur.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Forvarnir eins og vöktun, spár, lokanir, varnarmannvirki og uppkaup mannvirkja eru dæmi um slíkt. Náttúruhamfaratrygging Íslands gegnir svo lykilhlutverki í tryggingavernd auk þess sem verklag stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu er í stöðugri þróun. Þá spila lögboðnar og valfrjálsar tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina.

Orðið náttúruhamfarir samkvæmt lögum hefur ekki endilega sömu merkingu og í daglegu tali. Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir þannig tjón á eignum af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða en ekki foktjón. Húseignir á Íslandi eru vátryggðar, en innbú og lausafé er það aðeins ef það er brunatryggt hjá sjálfstæðu tryggingarfélögunum. Staða atvinnurekanda er mun óljósari bæði hvað varðar lausamuni og framleiðslutjón og sérstaklega þarf að skoða stöðu bænda en 2009 urðu breytingar á Bjargráðasjóði sem veiktu stöðu þeirra.

Verkefni tengd náttúruhamförum falla undir starfsvið margra ráðuneyta t.d. umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, matvælaráðuneytis, innviðaráðuneytis, auk þess sem fleiri ráðuneyti geta komið að málum. Ítrekað hefur verið gagnrýnt að yfirsýn og ábyrgð á samræmi og samhæfingu verkefna tengdri náttúruvá sé óljós.

Tillaga um heildarúttekt á tryggingarvernd

Í kjölfar óveðursins í desember 2019 var ráðist í afar umfangsmiklar aðgerðir til að greina og byggja upp áfallaþol samfélagsins alls. Meta þarf það verklag sem notast hefur verið við á síðustu árum við samhæfingu aðgerða og læra af reynslunni til frekari framfara.

Við álítum mikilvægt og tímabært að gera heildarúttekt á verklagi og aðgerðumog leggjum því í þriðja sinn fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Meðflutningsmenn koma úr öllum þingflokkum og á síðasta löggjafarþingi bárust 10 umsagnir sem styðja tillöguna og draga fram að fara þarf í aðgerðir sem flýtt geta úrvinnslu eftir tjón, stuðlað að frekara jafnræði og sanngirni og fækkað úrlausnarefnum sem stafa af óljósum reglum.

Samhliða því munum við beita okkur fyrir að samræmi í viðbrögðum við náttúruvá verði bætt og ágallar lagfærðir.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar og íbúar í NA kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. september 2022.

Categories
Greinar

Loksins lög um nikó­tín­púða

Deila grein

15/08/2022

Loksins lög um nikó­tín­púða

Eitt af þeim mikilvægu málum sem urðu að lögum við þinglok í júní var breyting á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur þegar nikótínvörum var bætt við lögin. Þar með voru nikótínpúðar í fyrsta sinn settir undir skýrar reglur. Komið var á reglum um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum og þar eru púðarnir að mestu felldir undir sömu reglur og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Vissulega sýnist sitt hverjum um reglur varðandi meðferð og markaðssetningu tóbaks og skyldra vara sem oft eru kallaðar staðgönguvörur tóbaks.

Það eru þó allir sammála, jafnt söluaðilar sem og fólk sem vinnur að forvörnum, um mikilvægi þess að um þessar vörur gildi skýrt regluverk og að leitað sé leiða til að draga úr líkum á að börn og ungmenni verði háð neyslu vöru af þessu tagi.

Hvað tafði?

Margir furða sig á að löggjafinn hafi ekki sett lög um notkun nikótínpúða fyrir löngu, en þegar nánar er að gáð hefur þessi vara aðeins verið á markaði í tæplega 3 ár. Þrátt fyrir það hafa heilbrigðisyfirvöldum borist fjölmörg erindi er varða nikótínpúða og fyrirspurnir um lagaumhverfi þeirra, hugsanlega leyfisskyldu fyrir sölu og markaðssetningu þeirra. Eftirlitsstofnanir sem fylgjast með öryggi vöru á markaði lentu í vandræðum því varan féll hvorki undir lög um lyf, matvæli eða tóbak. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum átti í vandræðum við að móta reglur um neyslu, þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, vegna skorts á leiðsögn í löggjöfinni.

Hvað breytist?

Með lagabreytingunni eru settar skýrar reglur um meðferð, sölu og markaðssetningu nikótínpúða og er ætlunin að tryggja eftir fremsta megni öryggi neytenda varanna og annarra sem til þeirra gætu náð, þar á meðal barna.

Nú liggur fyrir að einungis einstaklingum 18 ára og eldri er heimilt að kaupa nikótínvörur og sama gildir um þá sem selja nikótínvörur. Óheimilt er að hafa á umbúðum nikótínvara texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna, að tryggt sé að nikótínvörur séu ekki staðsettar þar sem börn nái til og sýnileikabann gildi um vörurnar á sölustöðum þannig að þær verði ekki sýnilegar viðskiptavinum. Þá er skýrt að: „Notkun nikótínvara er óheimil þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, svo sem í dagvistun, félags-, íþrótta- og tómstundastarfi, eins og til dæmis leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, vinnuskólum og annarri sambærilegri starfsemi fyrir börn yngri en 18 ára.“

Þar með hefur allur vafi verið tekinn af um að notkun nikótínpúða sé óheimil alls staðar þar sem börn og ungmenni koma saman í dagvistun, sem og í skipulögðu skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi, hvort sem það á sér stað innan dyra eða utan. Þá er smásalan felld undir sambærilegar reglur og tóbak og neftóbak og á nú ekki að vera sýnileg í verslunum, nema um sérverslanir sé að ræða.

Við samþykkt málsins voru álitamálin leyst af virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og með mikilvægi forvarna að leiðarljósi. Forvarnir og lýðheilsa eru viðvarandi verkefni sem þarf að halda áfram að vinna að og horfa samtímis til öryggis, samræmis og jafnræðis varðandi reglur um sölu, auglýsingar og eftirlit.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Bætum verklag eftir náttúruhamfarir

Deila grein

06/07/2022

Bætum verklag eftir náttúruhamfarir

Í byrjun árs mælti ég fyrir til þingsályktunartillögu á Alþingi, um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara. Málið er eitt af þeim málum sem þingflokkur Framsóknarflokksins setti í forgang enda varðar það fjölmarga íbúa þessa lands, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Málið var ekki afgreitt á Alþingi en hlaut umfjöllun í þingsal og í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Alþingi bárust umsagnir um málið og er skemmst frá því að segja að allir umsagnaraðilar töldu brýnt að ráðast í heildar úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna. Í umsögnunum er sett fram mikið af upplýsingum sem geta gagnast við slíka úttekt. Ég mun því áfram leita leiða til að koma verkefninu í gang.

Lærum af reynslunni

Á Íslandi höfum við alla tíð þurft að glíma við náttúruöflin og sambúðin með þeim hefur reynst landsmönnum áskorun. Náttúruhamfarir valda hér ítrekað umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni. Þar nægir að nefna óveðrið í desember 2019 sem kom verst niður á Norður- og Norðvesturlandi en hafði áhrif víða um land, snjóflóð á Flateyri, flóð í Þingeyjarsveit haustið 2021 og aurflóð á Seyðisfirði í desember 2020.

Árið 2020 voru tilkynnt tjón vegna 14 atburða en 11 á árinu 2021 samkvæmt ársskýrslum Náttúruhamfaratryggingar Íslands en slíkir atburðir hafa að meðaltali verið um 7 á ári frá árinu 1987. Tjón af völdum náttúruhamfara getur reynst hvort sem er einstaklingum eða rekstraraðilum ofviða og ógnað heilu samfélögunum. Tryggingarvernd vegna náttúruhamfara er því gríðarlega mikilvæg auk skilvirkrar og sanngjarnrar úrvinnsla strax í kjölfar hamfaranna.

Farið hefur verið í margvíslegar aðgerðir til að koma á samtryggingu og verjast náttúruhamförum hér á landi. Má þar nefna ýmis konar vöktun náttúruvár og viðfangsefni Náttúruhamfaratryggingar Íslands, Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóð, þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga einstakra atburða, ásamt lögboðnum og valfrjálsum tryggingum.

Mikil reynsla hefur safnast upp á undanförnum árum sem mikilvægt er að læra af og nýta til að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði komu fram ýmsar nýjar áskoranir , ásamt öðrum sem voru þekktar. Þar má nefna ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum, þ.e. húsnæði sem er á hættusvæði og verður að hætta notkun á. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnufyrirtækja og atvinnuhúsnæðis. 

Áfram veginn

Stöðugt er unnið að umbótum hjá aðilum sem sinna viðbrögðum vegna náttúruvár, en nú er tímabært að skoða heildarmyndina, gera úttekt á viðbrögðum og mögulegum götum í kerfinu. Markmiðið er að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í úrvinnslu tjóna ásamt leiðum til að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til þeirra sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum.

Það er mikilvægt að fækka gráu svæðunum eins og mögulegt er, þó að ófyrirsjáanleiki náttúrunnar komi nú sennilega í veg fyrir að það takist 100%. Aðgerðir til úrbóta gætu t.d. falist í breytingu á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum, betri miðlun upplýsinga, fræðslu og kynningarverkefnum.

Við þurfum alltaf að nýta uppsafnaða þekkingu og reynslu til frekari framfara.

Líneik Anna Sævarsdóttir,  þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júlí 2022.

Categories
Greinar

Getum við dreift störfum um landið eins og saltkornum úr bauk?

Deila grein

22/01/2022

Getum við dreift störfum um landið eins og saltkornum úr bauk?

Stutta svarið við þessari spurningu er já og þangað stefnum við ótrauð.

Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins, en stefnan er að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Ég veit að margir fagna, enda mikil lífsgæði fólgin í því að búa í því byggðarlagi þar sem fólki líður best. Það er stefna stjórnvalda að fólk eigi raunverulegt val um hvar þar býr og hvar þar starfar.

Stjórnarsáttmálinn styður við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu. Lögð er áhersla á að styðja við frjótt umhverfi um allt land. Það er hagur samfélagsins alls að í hverju byggðarlagi búi fólk með ólíka þekkingu og færni. Þar geta grónar atvinnugreinar dafnað við hlið nýrra starfa, samfélög vaxið og ný tækifæri orðið til.

Blanda má staðbundnum verkefnum og fjarvinnu

Staðbundin störf eru hvers konar umönnun, eftirlits-, þjónustu- og afgreiðsluverkefni sem krefjast samskipta í sama rými. Mörg þessara starfa er þó ekki bundin tilteknum stað heldur tilteknu landsvæði og þau geta flust á milli staða eftir búsetu starfsmanns. Við skilgreiningu staðbundinna starfa getur verið gagnlegt að skipta störfunum í nokkra flokka:

  • Blanda staðbundins hlutastarfs og fjarvinnu.
  • Starf bundið tilteknu landsvæði en hægt að vinna hvar sem er á viðkomandi svæði.
  • Verkefni sem mögulegt er að flytja til stofnana, útibúa eða lögaðila víða um land.
  • Starf sem hægt er að vinna hvaðan sem er óháð staðsetningu.

Fyrsta spurningin varðandi öll opinber verkefni ætti alltaf að vera hvort til staðar sé verkefni í dreifðri byggð sem betra væri að leysa með blöndu af staðbundnum verkefnum og fjarvinnu. Er starfsmaðurinn sem er hæfastur í verkið kannski þegar í starfi hjá opinberum aðila? Slík nálgun gæti sparað opinberum aðilum fé, í vinnuaðstöðu og ferðalög.

Fyrst þarf að skilgreina störfin

Sérhæfð störf og opinber verkefni geta svo sannarlega dreifst um landið með fjarvinnu óháð búsetu. Það er þó engan veginn sama hvernig við skilgreinum staðbundin störf. Þar þarf algerlega að snúa hugsuninni við frá því sem almennt hefur tíðkast. Það þarf að byrja á því að skilgreina störf sem eru staðbundin í dreifbýlustu samfélögunum en ekki öfugt. Störf þar sem hægt er að nota fjarvinnu til að efla og styrkja þjónustu sem eðlilegt er að dreifist um landið.

Fyrst er mikilvægt að greina opinber verkefni sem krefjast viðveru starfsmanna á tilteknum stað á landinu án þess að þörf sé á fullu starfi. Þarna býður tæknin upp á ótal tækifæri til þess að skapa eftirsóknarverð störf þar sem staðbundin þjónusta væri tryggð og viðkomandi starfsmaður nýtir vinnuaðstöðu við að leysa fleiri verkefni.

Það eru til mörg dæmi um lausnir af þessu tagi. Til dæmis hefur starfsmaður Sýslumannsins á Norðurlandi eystra á Þórshöfn lokið rafrænni skönnun fjölskyldumála á landsvísu samhliða því að þjónusta íbúa Langnesbyggðar. Hjúkrunarfræðingurinn á Borgarfirði eystra sinnir símaþjónustu og fleiri verkefnum hjá HSA frá Borgarfirði eystra og smærri framhaldsskólar hafa lengi nýtt fjarkennslu til að miðla sérhæfðri þekkingu milli skóla.

Starfstöðvaklasar eða samvinnuhús

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram að styðja eigi uppbyggingu starfsstöðvaklasa. Ýmsar áskoranir fylgja flutningi starfa. Ein þeirra er aðgengi að aðlaðandi vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu. Til að mæta þeirri áskorun hefur starfstöðvaklösum eða samvinnuhúsum verið komið upp víða, og annars staðar er slík aðstaða í undirbúningi. Þar eru starfstöðvar, útibú eða aðstaða fyrir stök störf hjá opinberum eða einkaaðilum. Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um slíka aðstöðu og sett fram á sérstöku korti. Á kortinu eru nú um 100 mögulegar starfsstöðvar og uppbygging samvinnuhúsa á að verða hluti af byggðaáætlun.

Horfum til framtíðar

Leiðarstefið birtist í stjórnarsáttmálanum, og ég hlakka til að fylgja því eftir í mínum störfum á Alþingi á kjörtímabilinu. Ef rétt er á málum haldið geta sett markmið valdið straumhvörfum í rekstri opinberra verkefna og byggðaþróun. Það þarf stefnu og aðgerðir, þekkingu og tækni, en stærsta verkefnið er að breyta hugsun og menningu þeirra sem ákveða hvar störf eru unnin. Það þarf fólk til að færa störf.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. janúar 2022.

Categories
Greinar

Hverjir erfa Ísland?

Deila grein

06/09/2021

Hverjir erfa Ísland?

Land er tak­mörkuð auðlind og óum­deilt að meðferð og notk­un lands skipt­ir íbúa jarðar­inn­ar miklu máli til langr­ar framtíðar. Það þarf því eng­an að undra að á síðustu árum hef­ur ásókn í jarðir auk­ist og ein­stak­ling­ar sem ráða yfir miklu fjár­magni sjá tæki­færi í að fjár­festa í jarðnæði hér á landi.

Skorður sett­ar á landa­kaup

Til að bregðast við var ráðist í breyt­ing­ar á jarðalög­um sem samþykkt­ar voru sum­arið 2020. Gerð var mik­il­væg breyt­ing á mark­miðskafla lag­anna að því leyti að mark­mið þeirra er nú fyrst og fremst að stuðla að nýt­ingu lands, í sam­ræmi við land­kosti, með hags­muni sam­fé­lags­ins og kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi.

Í lög­un­um voru einnig sett­ar skorður á jarðakaup þannig að fast­eigna­kaup­andi get­ur ekki eign­ast land ef hann eða tengd­ir aðilar eiga fyr­ir land sem er sam­an­lagt 10 þúsund hekt­ar­ar að stærð nema með sér­stakri und­anþágu frá ráðherra. Einnig þurfa lögaðilar sem eign­ast jörð eða jarðir hér á landi, nú að upp­lýsa Skatt­inn um raun­veru­lega eig­end­ur fé­lags og þá stjórn­ar­menn sem í því sitja.

Með þess­um þörfu breyt­ing­un­um er reynt að sporna við að of marg­ar jarðir safn­ist á fárra hend­ur en Ísland er ekki eina landið sem hef­ur stigið þessi skref. Í mörg­um Evr­ópu­ríkj­um hef­ur verið lögð vax­andi áhersla á varðveislu land­búnaðar­lands og rækt­ar­lands til nota fyr­ir mat­væla­fram­leiðslu og til að tryggja fæðuör­yggi.

Bet­ur má ef duga skal

Sam­kvæmt nú­gild­andi lagaum­hverfi þá geta rúm­lega 500 millj­ón­ir manna keypt land og aðrar fast­eign­ir hér á landi með sömu skil­yrðum og Íslend­ing­ar. Illu heilli hef­ur borið á því, und­an­far­in ár, að jarðir hafi verið keypt­ar upp án þess að eig­end­ur setj­ist þar að eða nýti landið og eign­ir sem þar eru. Það er því nauðsyn­legt að skoða al­var­lega hvort setja eigi frek­ari skil­yrði fyr­ir kaup­um er­lendra aðila á jörðum hér á landi, s.s. að þeir eigi hér lög­heim­ili. Aðrar þjóðir geta verið okk­ur til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Einnig er brýnt að yf­ir­fara skör­un jarðalaga og annarra laga sem varða land­búnað og land­nýt­ingu, eins og laga um nátt­úru­vernd, land­græðslu og skóg­rækt. Ein­föld­un á reglu­verki get­ur til að mynda skapað fjöl­breytt­ari tæki­færi til ný­sköp­un­ar í strjál­býli og aukið verðmæta­sköp­un í sveit­ar­fé­lög­um hring­inn í kring­um landið. Al­mennt þekkja bænd­ur sitt land best, hvað er verðmæt­asta rækt­ar­landið, hvað væri ástæða til að vernda af öðrum ástæðum og hvað gæti hentað til annarr­ar land­nýt­ing­ar. Umráðamenn búj­arða eiga að hafa tæki­færi til að nýta jarðir til verðmæta­sköp­un­ar á upp­byggi­leg­an og sjálf­bær­an hátt.

Nýt­um landið

Lagaum­gjörð um jarðir og auðlind­ir á landi er grund­vall­ar mál sem þarf að vera sí­fellt á dag­skrá. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vill vera leiðandi í þeirri umræðu. Mik­il ásókn er í auðlind­ir okk­ar og mik­il­vægt að við selj­um þær ekki frá okk­ur. Við vilj­um tryggja að kom­andi kyn­slóðir muni erfa land sem er vel búið til sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar og verðmæta­sköp­un­ar.

Ingibjörg Isaksen, skipar 1. sæti B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.