Categories
Greinar

Getum við dreift störfum um landið eins og saltkornum úr bauk?

Deila grein

22/01/2022

Getum við dreift störfum um landið eins og saltkornum úr bauk?

Stutta svarið við þessari spurningu er já og þangað stefnum við ótrauð.

Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins, en stefnan er að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Ég veit að margir fagna, enda mikil lífsgæði fólgin í því að búa í því byggðarlagi þar sem fólki líður best. Það er stefna stjórnvalda að fólk eigi raunverulegt val um hvar þar býr og hvar þar starfar.

Stjórnarsáttmálinn styður við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu. Lögð er áhersla á að styðja við frjótt umhverfi um allt land. Það er hagur samfélagsins alls að í hverju byggðarlagi búi fólk með ólíka þekkingu og færni. Þar geta grónar atvinnugreinar dafnað við hlið nýrra starfa, samfélög vaxið og ný tækifæri orðið til.

Blanda má staðbundnum verkefnum og fjarvinnu

Staðbundin störf eru hvers konar umönnun, eftirlits-, þjónustu- og afgreiðsluverkefni sem krefjast samskipta í sama rými. Mörg þessara starfa er þó ekki bundin tilteknum stað heldur tilteknu landsvæði og þau geta flust á milli staða eftir búsetu starfsmanns. Við skilgreiningu staðbundinna starfa getur verið gagnlegt að skipta störfunum í nokkra flokka:

  • Blanda staðbundins hlutastarfs og fjarvinnu.
  • Starf bundið tilteknu landsvæði en hægt að vinna hvar sem er á viðkomandi svæði.
  • Verkefni sem mögulegt er að flytja til stofnana, útibúa eða lögaðila víða um land.
  • Starf sem hægt er að vinna hvaðan sem er óháð staðsetningu.

Fyrsta spurningin varðandi öll opinber verkefni ætti alltaf að vera hvort til staðar sé verkefni í dreifðri byggð sem betra væri að leysa með blöndu af staðbundnum verkefnum og fjarvinnu. Er starfsmaðurinn sem er hæfastur í verkið kannski þegar í starfi hjá opinberum aðila? Slík nálgun gæti sparað opinberum aðilum fé, í vinnuaðstöðu og ferðalög.

Fyrst þarf að skilgreina störfin

Sérhæfð störf og opinber verkefni geta svo sannarlega dreifst um landið með fjarvinnu óháð búsetu. Það er þó engan veginn sama hvernig við skilgreinum staðbundin störf. Þar þarf algerlega að snúa hugsuninni við frá því sem almennt hefur tíðkast. Það þarf að byrja á því að skilgreina störf sem eru staðbundin í dreifbýlustu samfélögunum en ekki öfugt. Störf þar sem hægt er að nota fjarvinnu til að efla og styrkja þjónustu sem eðlilegt er að dreifist um landið.

Fyrst er mikilvægt að greina opinber verkefni sem krefjast viðveru starfsmanna á tilteknum stað á landinu án þess að þörf sé á fullu starfi. Þarna býður tæknin upp á ótal tækifæri til þess að skapa eftirsóknarverð störf þar sem staðbundin þjónusta væri tryggð og viðkomandi starfsmaður nýtir vinnuaðstöðu við að leysa fleiri verkefni.

Það eru til mörg dæmi um lausnir af þessu tagi. Til dæmis hefur starfsmaður Sýslumannsins á Norðurlandi eystra á Þórshöfn lokið rafrænni skönnun fjölskyldumála á landsvísu samhliða því að þjónusta íbúa Langnesbyggðar. Hjúkrunarfræðingurinn á Borgarfirði eystra sinnir símaþjónustu og fleiri verkefnum hjá HSA frá Borgarfirði eystra og smærri framhaldsskólar hafa lengi nýtt fjarkennslu til að miðla sérhæfðri þekkingu milli skóla.

Starfstöðvaklasar eða samvinnuhús

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram að styðja eigi uppbyggingu starfsstöðvaklasa. Ýmsar áskoranir fylgja flutningi starfa. Ein þeirra er aðgengi að aðlaðandi vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu. Til að mæta þeirri áskorun hefur starfstöðvaklösum eða samvinnuhúsum verið komið upp víða, og annars staðar er slík aðstaða í undirbúningi. Þar eru starfstöðvar, útibú eða aðstaða fyrir stök störf hjá opinberum eða einkaaðilum. Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um slíka aðstöðu og sett fram á sérstöku korti. Á kortinu eru nú um 100 mögulegar starfsstöðvar og uppbygging samvinnuhúsa á að verða hluti af byggðaáætlun.

Horfum til framtíðar

Leiðarstefið birtist í stjórnarsáttmálanum, og ég hlakka til að fylgja því eftir í mínum störfum á Alþingi á kjörtímabilinu. Ef rétt er á málum haldið geta sett markmið valdið straumhvörfum í rekstri opinberra verkefna og byggðaþróun. Það þarf stefnu og aðgerðir, þekkingu og tækni, en stærsta verkefnið er að breyta hugsun og menningu þeirra sem ákveða hvar störf eru unnin. Það þarf fólk til að færa störf.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. janúar 2022.

Categories
Greinar

Hverjir erfa Ísland?

Deila grein

06/09/2021

Hverjir erfa Ísland?

Land er tak­mörkuð auðlind og óum­deilt að meðferð og notk­un lands skipt­ir íbúa jarðar­inn­ar miklu máli til langr­ar framtíðar. Það þarf því eng­an að undra að á síðustu árum hef­ur ásókn í jarðir auk­ist og ein­stak­ling­ar sem ráða yfir miklu fjár­magni sjá tæki­færi í að fjár­festa í jarðnæði hér á landi.

Skorður sett­ar á landa­kaup

Til að bregðast við var ráðist í breyt­ing­ar á jarðalög­um sem samþykkt­ar voru sum­arið 2020. Gerð var mik­il­væg breyt­ing á mark­miðskafla lag­anna að því leyti að mark­mið þeirra er nú fyrst og fremst að stuðla að nýt­ingu lands, í sam­ræmi við land­kosti, með hags­muni sam­fé­lags­ins og kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi.

Í lög­un­um voru einnig sett­ar skorður á jarðakaup þannig að fast­eigna­kaup­andi get­ur ekki eign­ast land ef hann eða tengd­ir aðilar eiga fyr­ir land sem er sam­an­lagt 10 þúsund hekt­ar­ar að stærð nema með sér­stakri und­anþágu frá ráðherra. Einnig þurfa lögaðilar sem eign­ast jörð eða jarðir hér á landi, nú að upp­lýsa Skatt­inn um raun­veru­lega eig­end­ur fé­lags og þá stjórn­ar­menn sem í því sitja.

Með þess­um þörfu breyt­ing­un­um er reynt að sporna við að of marg­ar jarðir safn­ist á fárra hend­ur en Ísland er ekki eina landið sem hef­ur stigið þessi skref. Í mörg­um Evr­ópu­ríkj­um hef­ur verið lögð vax­andi áhersla á varðveislu land­búnaðar­lands og rækt­ar­lands til nota fyr­ir mat­væla­fram­leiðslu og til að tryggja fæðuör­yggi.

Bet­ur má ef duga skal

Sam­kvæmt nú­gild­andi lagaum­hverfi þá geta rúm­lega 500 millj­ón­ir manna keypt land og aðrar fast­eign­ir hér á landi með sömu skil­yrðum og Íslend­ing­ar. Illu heilli hef­ur borið á því, und­an­far­in ár, að jarðir hafi verið keypt­ar upp án þess að eig­end­ur setj­ist þar að eða nýti landið og eign­ir sem þar eru. Það er því nauðsyn­legt að skoða al­var­lega hvort setja eigi frek­ari skil­yrði fyr­ir kaup­um er­lendra aðila á jörðum hér á landi, s.s. að þeir eigi hér lög­heim­ili. Aðrar þjóðir geta verið okk­ur til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Einnig er brýnt að yf­ir­fara skör­un jarðalaga og annarra laga sem varða land­búnað og land­nýt­ingu, eins og laga um nátt­úru­vernd, land­græðslu og skóg­rækt. Ein­föld­un á reglu­verki get­ur til að mynda skapað fjöl­breytt­ari tæki­færi til ný­sköp­un­ar í strjál­býli og aukið verðmæta­sköp­un í sveit­ar­fé­lög­um hring­inn í kring­um landið. Al­mennt þekkja bænd­ur sitt land best, hvað er verðmæt­asta rækt­ar­landið, hvað væri ástæða til að vernda af öðrum ástæðum og hvað gæti hentað til annarr­ar land­nýt­ing­ar. Umráðamenn búj­arða eiga að hafa tæki­færi til að nýta jarðir til verðmæta­sköp­un­ar á upp­byggi­leg­an og sjálf­bær­an hátt.

Nýt­um landið

Lagaum­gjörð um jarðir og auðlind­ir á landi er grund­vall­ar mál sem þarf að vera sí­fellt á dag­skrá. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vill vera leiðandi í þeirri umræðu. Mik­il ásókn er í auðlind­ir okk­ar og mik­il­vægt að við selj­um þær ekki frá okk­ur. Við vilj­um tryggja að kom­andi kyn­slóðir muni erfa land sem er vel búið til sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar og verðmæta­sköp­un­ar.

Ingibjörg Isaksen, skipar 1. sæti B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Deila grein

27/08/2021

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Undanfarna áratugi hefur ríkt viðvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land með þeim afleiðingum að atvinnuuppbygging og eðlileg samfélagsþróun hefur tafist. Til þess að bregðast við þessari þróun hefur Framsókn sett húsnæðismál á landsbyggðinni á oddinn síðustu ár. Árangurinn af þessum aðgerðum er farinn að sjást víða um land. Sú stöðnun sem áður var í húsbyggingum í landsbyggðunum hefur nú verið rofin með fjölþættum aðgerðum stjórnvalda.

Vandinn staðfestur

Í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins, sem kom út í vetur, er það augljósa staðfest, þ.e. að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum margra byggðarlaga. Í sömu skýrslu er einnig farið yfir ástæður þess að uppbygging á landsbyggðinni hefur verið sáralítil í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

„Helstu ástæður má rekja til þess að víða á landsbyggðinni stendur söluverð eigna ekki undir byggingarkostnaði, seljanleiki eigna er minni og fólksfækkun hefur verið í sumum sveitarfélögum sem veldur minni eftirspurn. Á sama tíma hefur fjölgun verið í öðrum sveitarfélögum sem hefur skapað húsnæðisskort. Þá hafa lánastofnanir haft minni áhuga á að lána til íbúðarkaupa og íbúðauppbyggingar á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni

Framsókn gengur í verkið

Þær aðgerðir sem komnar eru til framkvæmda í húsnæðismálum undir forystu Framsóknar snúa einmitt að þessum þáttum sem bent er á og ráðast að rót vandans. Þær eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og tilraunaverkefni á vegum HMS í samstarfi við sveitarfélög.

Finna má yfirlit yfir allar þessar aðgerðir á vefnum Tryggð byggð, tryggdbyggd.is, sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni. Vefur verkefnisins sýnir árangurinn af þessum aðgerðum svart á hvítu, en framkvæmdir eru hafnar við yfir 400 íbúðir í 36 sveitarfélögum og heildarfjárfestingin eru rúmlega 10 milljarðar. Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem hugsa til húsbygginga á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum.

Þróum verkefnin áfram

Það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut og tryggja aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskostum við hæfi, óháð búsetu. Allar þær aðgerðir sem nú eru farnar í gang eru hugsaðar sem langtímaverkefni. Mikil tækifæri liggja í að þróa verkefnin áfram. Til dæmismætti útfæra hlutdeildarlán enn frekar fyrir hópa sem hafa átt erfitt með að eignast hentugt húsnæði.

Þá liggur fyrir að finna þurfi leiðir til að greiða aðgengi einstaklinga að lánsfjármagni óháð búsetu því margir vilja og þurfa sjálfir að byggja sitt húsnæði.

Við komumst þangað saman.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og í 2. sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 26. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Hamfarir og tryggingarvernd

Deila grein

28/06/2021

Hamfarir og tryggingarvernd

Nátt­úru­ham­far­ir hafa alla tíð reynst Íslend­ing­um áskor­un og valdið um­tals­verðu eigna- og rekstr­artjóni, en þar næg­ir að nefna aðventu­storm­inn í des­em­ber 2019, snjóflóð á Flat­eyri og aur­flóð á Seyðis­firði. Sam­kvæmt nýj­ustu árs­skýrslu Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands urðu 14 stór­tjón á ár­inu 2020, en frá ár­inu 1987 hafa slík tjón verið að meðaltali sjö á ári.

Sam­ræmi í trygg­ing­ar­vernd

Mik­il­vægt er að sam­ræm­is gæti í trygg­ing­ar­vernd vegna nátt­úru­ham­fara og að öll úr­vinnsla í kjöl­far ham­fara sé eins skil­virk og sann­gjörn og mögu­legt er. Nátt­úru­ham­far­ir geta ógnað til­vist heilu sam­fé­lag­anna og tjón af þeirra völd­um hafa oft reynst ein­stak­ling­um, fyr­ir­tækj­um eða ann­arri starf­semi ofviða.

Farið hef­ur verið í marg­vís­leg­ar aðgerðir til að koma á sam­trygg­ingu og verj­ast nátt­úru­ham­förum hér á landi. Má þar nefna viðfangs­efni Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands, Of­an­flóðasjóðs og Bjargráðasjóðs, þróun verklags stjórn­valda í viðbrögðum og úr­vinnslu af­leiðinga ein­stakra at­b­urða, ásamt lög­boðnum og val­frjáls­um trygg­ing­um.

En bet­ur má ef duga skal. Mik­il reynsla hef­ur safn­ast upp við úr­vinnslu tjóna, sem mik­il­vægt er að læra af og nýta til að bæta vinnu­brögð. Eft­ir skriðuföll­in á Seyðis­firði hafa komið fram ýms­ar áskor­an­ir sem ekki hafa endi­lega verið til umræðu áður, ásamt öðrum sem vakið hef­ur verið máls á áður. Þar má nefna ósam­ræmi í bót­um til þeirra sem missa hús­næði sitt í ham­förum og þeirra sem þurfa að flytja úr hús­næði vegna hættu á ham­förum. Þá er margt óljóst varðandi vernd og trygg­ing­ar at­vinnu­lífs­ins, at­vinnu­tækja og at­vinnu­hús­næðis.

Mik­il­vægi út­tekt­ar

Ljóst er að til­efni er til þess að gerð verði út­tekt á þess­um mál­um. Í slíkri út­tekt þyrfti að greina hverju helst er ábóta­vant í trygg­ing­ar­vernd og úr­vinnslu tjóna og leita leiða til úr­bóta. Meta þyrfti sam­ræmi í viðbrögðum, mögu­leg göt í kerf­inu, hvað ekki fæst bætt og hvers vegna, og á hverja kostnaður vegna hreins­un­araðgerða og annarra verk­efna í kjöl­far ham­fara fell­ur. Mark­miðið væri að auka skil­virkni, jafn­ræði og sann­girni í úr­vinnslu tjóna vegna nátt­úru­ham­fara ásamt því að finna leiðir til að bæta upp­lýs­inga­gjöf og fræðslu til þeirra sem búa við nátt­úru­vá eða hafa lent í ham­förum. Þá er mik­il­vægt að upp­lýs­ing­ar um tjón á fast­eign­um séu skráðar skipu­lega, þótt farið sé í viðgerðir.

Í vor lagði und­ir­rituð fram þings­álykt­un­ar­til­lögu ásamt fleiri þing­mönn­um Fram­sókn­ar, um að ríkið léti fram­kvæma slíka út­tekt, til­lag­an hlaut ekki af­greiðslu á Alþingi. Ég mun áfram leggja mikla áherslu á að slík út­tekt verði gerð, enda löngu tíma­bær. Það þarf að nýta upp­safnaða þekk­ingu og reynslu til frek­ari fram­fara.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, alþingismaður Fram­sókn­ar og fram­bjóðandi flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. júní 2021.

Categories
Greinar

Við­brögð við náttúru­ham­förum

Deila grein

11/06/2021

Við­brögð við náttúru­ham­förum

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og þar eru síðustu ár engin undantekning. Náttúruhamfarir hafa valdið umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni, en þar nægir að nefna aðventustorminn í desember 2019, snjóflóð á Flateyri og aurflóð á Seyðisfirði. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Náttúruhamfaratryggingar Íslands voru 14 stórtjón á árinu 2020, en frá árinu 1987 hafa slík tjón verið að meðaltali sjö á ári.

Samræmi í tryggingarvernd er nauðsyn

Tjón af völdum náttúruhamfara geta reynst hvort sem er einstaklingum, fyrirtækjum eða annarri starfsemi ofviða og þar með ógnað heilu samfélögunum. Tryggingarvernd vegna náttúruhamfara hefur því verulega þýðingu hér á landi, sem og skilvirk og sanngjörn úrvinnsla í kjölfar hamfara.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Má þar nefna ýmiss konar vöktun náttúruvár, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, verkefni Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóð ásamt þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga einstakra atburða. Þá spila tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina, bæði lögboðnar tryggingar og valfrjálsar tryggingar.

Þó við séum miklu betur í stakk búin fyrir glímuna við náttúruöflin núna heldur en lengst af í Íslandssögunni þá er ljóst að enn er hægt er að gera betur. Mikilvægar upplýsingar verða til hjá heimamönnum jafnt og stjórnvöldum í kjölfar hvers atburðar. Mikilvægt er að læra af reynslunni til að halda áfram að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa komið fram ýmsar áskoranir sem við höfum ekki séð áður, ásamt öðrum sem við höfum margoft heyrt umræður um. Þar má nefna að ítrekað hefur verið bent á ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnutækja og atvinnuhúsnæðis.

Tillaga um úttekt á tryggingarvernd og verklagi

Ég álít að það sé löngu tímabært að gerð verði úttekt á þessum málum og hef því, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknar, lagt fram þingsályktunartillögu um úttekt á tryggingarvernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Markmið tillögunnar er að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingarvernd og úrvinnslu tjóna og að draga fram leiðir til úrbóta. Þar þarf að meta samræmi í viðbrögðum, hvort einhvers staðar séu göt í kerfinu, hvað hefur ekki fengist bætt og hvers vegna ekki, og á hverja kostnaður vegna hreinsunaraðgerða og annarra verkefna í kjölfar hamfara fellur.

Þá er lagt til að í úttektinni verði metið hvernig hægt sé að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í viðbrögðum vegna náttúruhamfara til framtíðar, svo sem með breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum. Þá væri þarft að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til einstaklinga og fyrirtækja sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum. Úttekt sem þessi er löngu orðin tímabær. Það er margt hægt að læra af liðnum atburðum og mikilvægt er að nýta reynsluna til frekari framfara.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og frambjóðandi flokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. júní 2021.

Categories
Greinar

Klárum leikinn með samvinnu

Deila grein

06/05/2021

Klárum leikinn með samvinnu

Framsóknarflokkurinn hefur allt síðasta ár lagt áherslu á stuðningsaðgerðir til að fleyta fólkinu í landinu í gegnum kreppuna sem Covid skapar. Nú þegar við sjáum til lands í glímunni við farsóttina er mikilvægt að halda út og brúa síðustu vikurnar með lokaspretti sem tengir saman aðgerðir, viðheldur tekjum fólks og auðveldar fyrirtækjum að hefja vöxt.

Stjórnvöld hafa nú kynnt á annan tug aðgerða sem miða að þessu markmiði. Lokunarstyrkir verða framlengdir, fleiri geta sótt um viðspyrnustyrki, endurráðningar í fyrra starfshlutfall styrktar, bætt í ýmsar félagslegar ráðstafanir og úrræðum í menntakerfinu framhaldið.

Fjárfestum í fólki

Það er mikilvægt að fjárfesta í fólki með því að tryggja afkomu heimila, en samhliða því þarf að vinna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á einstaklinga. Það er best gert með því að tryggja fólki tækifæri til sjálfseflingar hvort sem er í gegnum nám, félagslega þátttöku eða þjónustu heilbrigðiskerfisins. Í gegnum allan faraldurinn hefur verið lögð áhersla á tækifæri til menntunar, þátttöku barna í íþróttum og ýmis félagsleg úrræði.

Ákveðið er að hlutabótaleiðin falli nú inn í atvinnuátakið „Hefjum störf“. Þannig að þeir sem nýta hlutabótaleiðina geta farið í fyrra starfshlutfall hjá vinnuveitanda og að hann fær styrk á móti í allt að fjóra mánuði. Stuðningurinn er þá bæði við fólk og fyrirtæki.

Bætt verður í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir fyrir viðkvæma hópa þar sem sérstök áhersla verður lögð á geðheilbrigðismál barna og ungmenna. Í því skyni verður 600 milljóna króna viðbótarframlagi veitt til geðheilbrigðismála og 200 milljónum inn í aðgerðaáætlun um viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á börn, eldri borgara, öryrkja og fólk af erlendum uppruna.

Ákveðið er að í sumar verði boðið upp á sumarlán fyrir námsmenn hjá Menntasjóði námsmanna eins og á síðasta ári. Auk þess verða tiltekin viðbótarlán í boði.

Fólk grípur tækifærin

Úrræðin sem gripið hefur verið til hafa nýst samfélaginu vel af því að fólk er tilbúið að nýta þau. Það liggur fyrir að fólk er sveigjanlegt, bregst við þegar einar dyr lokast og endurskoðar sín framtíðarplön.

Þannig fjölgaði nemendum töluvert bæði á framhalds- og háskólastigi milli skólaára. Ársnemum í framhaldsskóla fjölgaði um 1.340 og háskólanemum um 1.800 á haustönn 2020 frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. Ef þessi fjölgun nemenda hefði komið fram í atvinnuleysi hefði það aukist um 1,5%. Þannig var ein af lykilákvörðun síðasta árs yfirlýsing Menntamálaráðherra um að tekið yrði við öllum nemum sem skólarnir gætu tekið við og nauðsynlegt fjármagn tryggt til kennslu þeirra.

Það liggur svo fyrir að þau mörgu félagslegu úrræði sem gripið hefur verið til hafa reynst það vel að þau eru komin til að vera. Einkum úrræði sem efla viðkvæma hópa samfélagsins.

Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. mai 2021.

Categories
Greinar

Að rjúfa stöðnun á hús­næðis­markaði

Deila grein

26/03/2021

Að rjúfa stöðnun á hús­næðis­markaði

Stöðnun á húsnæðismarkaði á landsbyggðinni er og hefur verið viðvarandi vandamál í mörgum byggðum landsins undanfarna áratugi og hefur hindrað atvinnuuppbyggingu og eðlilega samfélagsþróun.

Að rjúfa þá stöðnun er brýnt og stórt byggðaverkefni sem kallar á fjölþættar aðgerðir stjórnvalda.

Við upphaf kjörtímabilsins settum við húsnæðismál á landsbyggðinni á oddinn. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að stuðla skuli að eflingu og auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði, óháð búsetu.

Í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins, sem kom út á dögunum, er það augljósa staðfest, þ.e. að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum margra byggðarlaga. Í sömu skýrslu er einnig farið yfir ástæður þess að uppbygging á landsbyggðinni hefur verið sáralítil í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

„Helstu ástæður má rekja til þess að víða á landsbyggðinni stendur söluverð eigna ekki undir byggingarkostnaði, seljanleiki eigna er minni og fólksfækkun hefur verið í sumum sveitarfélögum sem veldur minni eftirspurn. Á sama tíma hefur fjölgun verið í öðrum sveitarfélögum sem hefur skapað húsnæðisskort. Þá hafa lánastofnanir haft minni áhuga á að lána til íbúðakaupa og íbúðauppbyggingar á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni

Þær aðgerðir sem við höfum farið í á þessu kjörtímabili í húsnæðismálum undir forystu Framsóknar snúa einmitt að þessum þáttum og ráðast að rót vandans. Það eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og tilraunaverkefni á vegum HMS í samstarfi við sveitafélög. Á dögunum kynnti svo Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra nýtt verkefni, Tryggð Byggð, sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni.

Vefur verkefnisins sýnir svart á hvítu að árangurinn af þessum aðgerðum hefur ekki látið á sér standa en framkvæmdir eru hafnar við yfir 400 íbúðir í 34 sveitafélögum og heildarfjárfestingin nálgast 10 milljarða.

Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem huga að byggingu húsnæðis á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum. Það er mikilvægt að við höldum áfram á þessari braut inn í framtíðina og tryggjum aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskostum við hæfi, óháð búsetu.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2021.

Categories
Greinar

Af toppi Herðubreiðar

Deila grein

01/03/2021

Af toppi Herðubreiðar

Herðubreið er fallegt fjall og merkilegt og útsýnið af toppnum svíkur ekki.

Þegar litið er fjær sést til Vatnajökuls, Tröllasaga, Grímseyjar, út á Langnes og yfir Austfjarðafjallgarðinn. Það sést meira og minna yfir allt Norðausturkjördæmi. Áskoranir og tækifæri blasa við. Mismunandi byggðir og byggðakjarnar. Kjördæmið er stórt og verkefnin krefjandi en áhugaverð.

Sérstaða fái notið sín

Í störfum mínum sem alþingismaður hef ég ávallt unnið að sameiginlegum hagsmunum íbúa en á sama tíma lagt áherslu á að hver byggð fái notið sinnar sérstöðu og geti ræktað hana. Hver byggð er mikilvægur hlekkur, þar er þekking á aðstæðum og auðlindum lands og sjávar og tækifæri til verðmætasköpunar. Hlutverk opinberra aðila er að skapa umhverfi sem stuðlar að því að fólk og fyrirtæki vaxi og dafni.

Til þess þarf tryggar samgöngur, trygga raforku, örugg fjarskipti og aðgang að grunnþjónustu. Það eru grundvallarréttindi að fólk geti valið sér búsetu þar sem það kýs. Fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu jafnar búsetuskilyrði. Leikreglurnar sem hið opinbera setur atvinnulífinu þurfa að taka tillit til ólíkra aðstæðna, hvort sem markmið þeirra er að tryggja jafnræði á markaði, heilnæmi matvara, skynsamlega nýtingu náttúrunnar eða sjálfbærni.

Jafnrétti óháð búestu

Ég legg áherslu á jafnrétti óháð búsetu. Þar skiptir sköpum að aftur er kominn skriður á samönguframkvæmdir. Í Umhverfis- og samgöngunefnd hef ég tekið virkan þátt í mótun áætlana um stórauknar samgönguframkvæmdir. Ég er stolt af þeirri vinnu og nefni sérstaklega Loftbrúna í því samhengi, en með henni bjóðast íbúum landsbyggðarinnar niðurgreidd flugfargjöld innanlands. Framkvæmdir við vegi, brýr, flugvelli og hafnir eru komnar á skrið og þeim þarf að halda áfram að krafti. Það er mín sannfæring að góðar samgöngur eru undirstaða þess að fólk geti valið búsetu þar sem það kýs.

Víðtæk samvinna

Hér í Norðausturkjördæmi er gott að búa og ég álít að við sem hér búum getum gert enn betur með víðtækari og betri samvinnu.

Það var heillandi að horfa yfir af toppi Herðubreiðar hér um árið og í störfum mínum sem Alþingismaður í sex ár hefur verið skemmtilegt að kynnast bæði mann- og atvinnulífi á svæðinu. Ég hef brennandi áhuga á að vinna áfram með íbúum kjördæmisins og að mótun samfélags sem stuðlar að því að íbúar geti gripið öll þau tækifæri sem hér eru til staðar.

Þess vegna sækist ég eftir því að leiða lista öflugra frambjóðenda Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi fyrir næstu kosningar.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 26. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Háskólinn á Akureyri með tryggt fjármagn til vaxtar

Deila grein

28/12/2020

Háskólinn á Akureyri með tryggt fjármagn til vaxtar

Samkeppnishæfni byggða og þjóða byggir á menntun íbúa, fjárfesting í menntun er því fjárfesting til framtíðar. Skipulag skólastarfs hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár.

Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur, samskiptafærni, vellíðan og forvitni er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla ævi. Grunnurinn er og verður mikilvægur ekki síst ef takast á að grípa tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar. Um allt land er lagður mikilvægur grunnur í leik-, grunn- og tónlistarskólastarfi en allar byggðir landsins þurfa tækifæri til að byggja ofan á grunninn.

Háskólastarf er lykill dreifbýlisins að vísinda- og nýsköpunarsamfélaginu

Öflugt háskólastarf byggir á sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélög. Atvinnuþróun og nýsköpun sem sprettur úr háskólastarfi fer fram í sambúð atvinnuvega og skóla en ekki fjarbúð. Til að landsbyggðirnar hafi raunverulegan aðgang að því fjármagni sem ríkið úthlutar nú í gegnum samkeppnissjóði í vísindum og nýsköpun þarf virkt háskólasamfélag.

Í dreifbýlum samfélögum á norðlægum slóðum hefur þróunin víðast orðið sú að háskólar hafa fengið skilgreint hlutverki í þjónustu við dreifbýl svæði. Þetta hlutverk er á leyst með því að starfrækja net háskólasvæða (campusa), nokkur útibú eða samstarfsnet, má þar benda á Tromsö í Noregi, Oulu í Finnlandi, nokkra skóla í Kanada og dreifbýli Skotlands.

Tækifærin framundan

Nemendum Háskólans á Akureyri hefur fjölgað jafnt og þétt frá 2014, og eru nú rúmlega 2.500 eftir að hafa verið um 1.500 árin 2009-2013. Um 60% nemenda skólans eru nú búsettir á landsbyggðinni en um 40% á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölgun nemenda kallar á aukið fjármagn. Það er því sérstaklega ánægjulegt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2021 var Háskólanum á Akureyri tryggt fjármagn til að fylgja nemendafjölgun síðustu ára eftir og þar með gert mögulegt að efla mannauð skólans og styrkja starfið.

Það er brýnt að auka tengsl háskólasamfélagsins enn frekar við byggðir um allt land. Möguleg leið til þess er að bjóða upp á tæknifræðinám sem byggir ofan á sterkt verknám framhaldskólanna og sífellt tæknivæddara atvinnulíf. Þá verður að finna leiðir til að þjónusta innflytjendur, þannig að þeir geti bæði bætt við sig þekkingu og nýtt þá þekkingu og hæfni sem þeir flytja með sér til landsins.

Menntamálaráðherra hefur boðað breytingu á lögum varðandi aðgangsskilyrði í íslenska háskóla til að auka jafnræði nemenda sem fara mismunandi námsleiðir í bók- og starfsnámi. Þá geta skapast hvatar fyrir háskóla til að skilgreina aðgangsviðmið í mismunandi nám, í samræmi þarfir nemenda og atvinnulífs.

Nýlega undirritaði menntamálaráðherra samning um stofnun háskólaútibús á Austurlandi, með það að markmiði að koma á virku háskólasamfélagi í samstarfi við sveitarfélög og nokkur stór fyrirtæki á svæðinu. Stefnt er að því að kennsla í hagnýtri iðnaðartæknifræði hefjist á Austurlandi haustið 2022 og frumgreinadeild taki til starfa haustið 2021. Þetta verkefni er meðal annars unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Það eru spennandi verkefni framundan við að efla háskólastarf á landsbyggðinni ásamt því að styrkja samstarf skóla og atvinnulífs.

Að lokum vil ég hrósa starfsfólki HA fyrir úthaldið og seigluna og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem ásamt Alþingi greip boltann og tryggði fjármagn til eflingar Háskólans á Akureyri.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér – áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Framsóknarflokkinn.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 23. desember 2020.

Categories
Greinar

Verjum störf og sköpum ný

Deila grein

15/12/2020

Verjum störf og sköpum ný

Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að atvinna sé undirstaða velferðar. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á skjót viðbrögð stjórnvalda. Ríkisstjórnin hefur nú þegar bætt verulega í fjárveitingar til nýsköpunar. Þá hefur verið farið í ýmsar aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu, til að viðhalda störfum, verkefnum og fyrirtækjum sem eiga framtíð fyrir sér. Þrátt fyrir ofangreindar aðgerðir er þörf á frekari hvötum til tekju- og atvinnuskapandi verkefna sem komast hratt til framkvæmda.

Samdráttur í atvinnuvegafjárfestinga

Það liggur fyrir að verulegur samdráttur hefur orðið í atvinnuvegafjárfestingu. Verulega hefur dregið úr útlánum til fyrirtækja vegna minnkandi efnahagsumsvifa og arðsemiskröfu fjármálastofnanna til fyrirtækjalána. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að samdráttur atvinnuvegafjárfestinga haldi áfram á komandi ári. Af þessu má daga þá ályktun að einkaaðilar glími við skort á fjármagni til atvinnuþróunar og tregða sé í lánveitingum fjármálastofna til atvinnulífsins. Því liggur atvinnuþróun á Íslandi í dái eins og er.

Ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar

Stjórnvöld verða að bregðast við og hvetja fjármálastofnanir og lífeyrissjóði til útlána. Það má gera með aðgerðum sem senda skýr skilaboð um að framtíðin á Íslandi sé björt og skynsamlegt sé að nota það fjármagn sem til staðar er í landinu til atvinnuþróunar. Í þessum tilgangi hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram tillögu um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar.

Aðgerðin gengur út að auka möguleika einkaaðila sem hyggjast fara í nýungar í sínum rekstri við að nálgast lánsfjármagn með ríkisábyrgðum á lánum til atvinnuþróunarverkefna. Atvinnuþróunarverkefni þyrftu að vera skýr og afmörkuð verkefni til þróunar á vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð, geta skapað störf og aukið gjaldeyristekjur. Þannig myndu stjórnvöld deila áhættu af atvinnuþróun á óvissutímum með fjármálastofnunum og atvinnurekendum.

Allar líkur eru á því að aðgerðin hefði jákvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs til lengri tíma litið. Beinar og óbeinar tekjur af þeim atvinnuþróunarverkefnum sem vaxa og dafna í kjölfar viðspyrnuláns ættu að verða vel umfram þann kostnað sem fellur á ríkissjóð vegna verkefna sem ekki heppnast. Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokkins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. desember 2020.