Categories
Greinar

Ólafur, ertu að grínast?

Deila grein

06/12/2020

Ólafur, ertu að grínast?

Þótt heims­far­ald­ur kór­ónu­veiru hafi í und­an­tekn­ing­ar­til­fell­um haft áhrif á dag­legt líf bænda stefn­ir í af­komu­brest í land­búnaði. Það mun hafa lang­tíma­áhrif á ís­lensk­an land­búnað verði ekk­ert að gert. Íslensk­ur land­búnaður er ekki bara kjöt í búð. Ein­stak­ling­ar, fjöl­skyld­ur og heilu byggðarlög­in byggja af­komu sína á land­búnaði. Öflug­ur ís­lensk­ur land­búnaður er verðmæti.

Áhrif far­ald­urs­ins á af­komu bænda og afurðastöðva staf­ar af hruni í komu ferðamanna og breyt­inga á mörkuðum vegna sótt­varnaaðgerða. Þannig dróst sala á kjöti (ali­fugla-, hrossa-, svína-, naut­gripa- og lamba­kjöti) sam­an um 9,1% á tíma­bil­inu ág­úst til októ­ber. Sam­spil auk­ins inn­flutn­ings er­lendra búvara og hruns í komu ferðamanna skap­ar eitrað sam­spil á kjöt­markaði. Auk þess hef­ur komið upp ágalli í toll­fram­kvæmd.

Vill ein­hver að ís­lensk­um land­búnaði blæði út?

Nei, ekki á okk­ar vakt. Þær al­mennu aðgerðir sem stjórn­völd hafa þegar farið í nýt­ast bænd­um og afurðastöðvum að tak­mörkuðu leyti. Enda ekki mögu­legt að leggja rekst­ur sem bygg­ist á bú­vöru­fram­leiðslu í tíma­bund­inn dvala. Stjórn­völd verða að bregðast við og þá blasa við tvær meg­in­leiðir; bæta starfs­um­hverfið eða bæta í bein­an stuðning rík­is­ins við bænd­ur.

Það eru tæki­færi til um­bóta í tolla­mál­um sem má skipta í þrennt.

1. Fyr­ir­komu­lag útboða þarf að vera skýrt en jafn­framt þurfa að vera til staðar heim­ild­ir til að bregðast við tíma­bundnu ójafn­vægi og fresta útboðum. Inn­flutn­ing­ur á sam­bæri­legu magni á mat­vöru er­lend­is frá í ár og síðasta ár leiðir ein­fald­lega til mat­ar­sóun­ar og enn verri af­komu bænda og taps á störf­um hjá afurðastöðvum.

2. Toll­skrá þarf að vera í sam­ræmi við alþjóðlega toll­skrá. Það er hag­ur jafnt inn­flytj­enda og bænda að hún sé skýr. Þannig er hægt að kom­ast bæði hjá mis­tök­um og ásök­un­um um vís­vit­andi svindl. Þetta er ekki flókið, ost og aðra mat­vöru sem flutt er til Íslands á að flokka í rétt­an toll­flokk í sam­ræmi við alþjóðlega toll­skrá. Öllu skipt­ir að toll­fram­kvæmd sé rétt þannig að raun­veru­leg toll­vernd sé til staðar í sam­ræmi við ákvæði tolla­laga og milli­ríkja­samn­inga. Þá hef­ur rétt tollaf­greiðsla áhrif á skrán­ingu hagtalna og ákveðna þætti mat­væla­eft­ir­lits.

3. End­ur­skoða þarf tolla­samn­inga við ESB í kjöl­far Brex­it. Það er satt að þegar bráðabirgðafr­íversl­un­ar­samn­ing­ur Íslands og Bret­lands tek­ur gildi munu rík­in veita hvort öðru gagn­kvæma toll­kvóta. Áfram standa samt tolla­samn­ing­ar við ESB, en helm­ing­ur alls kinda­kjöts sem flutt hef­ur verið út fór á Bret­lands­markað og toll­kvót­ar fyr­ir skyr voru fyrst og fremst hugsaðir fyr­ir Bret­land. Með til­komu Brex­it munu þeir tak­mörkuðu toll­kvót­ar sem samið var um fyr­ir ís­lensk­ar bú­vör­ur á Evr­ópu­markaði ekki nýt­ast eins og til stóð. Það er for­sendu­brest­ur.

Ná­granna­lönd­in styðja við land­búnað í far­aldr­in­um

Staða bænda í ná­granna­lönd­un­um er á marg­an hátt betri en á Íslandi, einkum í Nor­egi og aðild­ar­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Stjórn­völd þar hafa mun meiri heim­ild­ir til að grípa til aðgerða vegna tíma­bund­ins ójafn­væg­is á markaði, auk þess sem gripið hef­ur verið til viðamik­illa stuðningsaðgerða.

Þessi aðstöðumun­ur birt­ist með al­menn­um hætti í Nor­egi þar sem bænd­ur og afurðasölu­fyr­ir­tæki eru und­anþegin gild­is­sviði sam­keppn­islaga. Þá hef­ur verið gripið til um­fangs­mik­illa stuðningsaðgerða á meg­in­landi Evr­ópu þar sem bein­ir fjár­styrk­ir og hag­stæð lána­fyr­ir­greiðsla stend­ur bænd­um til boða. Vegna ójafn­væg­is á mörkuðum með land­búnaðar­vör­ur hef­ur verið inn­leidd tíma­bund­in und­anþága frá evr­ópsk­um sam­keppn­is­regl­um fyr­ir land­búnaðinn.

Ganga þyrfti miklu lengra hér á landi

Nú ligg­ur frum­varp land­búnaðarráðherra um tíma­bundn­ar breyt­ing­ar á lagaum­hverfi við út­hlut­un samn­ings­bund­inna toll­kvóta fyr­ir Alþingi. Það er sagt eiga að lág­marka áhrif far­ald­urs­ins á inn­lenda fram­leiðslu land­búnaðar­af­urða og draga úr því tjóni sem inn­lend­ir fram­leiðend­ur hafa nú þegar orðið fyr­ir. Það er vissu­lega skref í rétta átt og viður­kenn­ing á stöðunni en það verður að ganga lengra.

Væri ekki áhrifa­rík­ara að fresta öll­um útboðum toll­kvóta meðan þessi al­var­lega staða er uppi? Til þess þarf vissu­lega laga­breyt­ingu en það mun varla vefjast fyr­ir Alþingi. Þá er ekki eft­ir neinu að bíða með að koma á heim­ild til sam­vinnu á kjöt­markaði eins og þing­menn Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ít­rekað lagt til. Eða drífa í að kanna sér­stak­lega hag­kvæmni og skil­virkni í mat­væla­fram­leiðslu eins og boðað var í yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar í til­efni af viðræðum um for­send­ur lífs­kjara­samn­ings­ins í haust.

Þannig væri hægt að bæta stöðuna veru­lega og auðvelda bænd­um sjálf­um að bregðast við, koma í veg fyr­ir mat­ar­sóun og fækk­un starfa í land­inu. Það gæti sparað sam­fé­lag­inu millj­arða. Ef ekki verða um­bæt­ur á starfs­um­hverf­inu þyrfti að stór­auka bein­an rík­is­stuðning til bænda. Varla ætl­umst við til að bænd­ur eigi ein­ir stétta að bera all­an skaðann sem þeir verða fyr­ir vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru.

Ein af já­kvæðum áhrif­um ástands­ins er að versl­un í land­inu hef­ur auk­ist. Ætla Sam­tök at­vinnu­lífs­ins virki­lega að leggj­ast gegn því að brugðist verði við vanda bænda í heims­far­aldri?

Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, alþingismenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. desember 2020.

Categories
Greinar

Jafn­réttinu rigndi ekki yfir okkur

Deila grein

25/11/2020

Jafn­réttinu rigndi ekki yfir okkur

Við getum öll verið sammála um að jafnrétti ætti að vera sjálfsagður hlutur, en hvorki Ísland né önnur ríki heims hafa náð fullkomnu jafnrétti milli kynjanna. Við getum þó verið stolt af því að Ísland skori hæst þjóða á alþjóðlegum mælikvörðum um jafnrétti kynjanna og hefur gert í allmörg ár. Jafnréttinu rigndi samt ekki yfir okkur af himnum ofan, það hefur verið barist fyrir því í grasrótinni. Leikreglum samfélagsins hefur verið breytt m.a. með lögum og reglum, til að koma okkur þangað sem við erum í dag. Barátta fyrir jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni, það birtast nýjar áskoranir og það fæðast nýjar kynslóðir.

Sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs

Nú erum við í miðri umræðunni um áframhaldandi framþróun fæðingarorlofsins og þá er holt að rifja upp að þrátt fyrir sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs í fjölda ára voru alltof fáir feður sem nýttu sér réttinn fyrr en þeir fengu sjálfstæðan orlofsrétt. Rannsóknir sýna að fáar aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til annarra eins framfara í jafnrétti kynjanna eins og sjálfstæður réttur foreldra til orlofs, sem komið var á 2001, jafnt á vinnumarkaði og inn á heimilum. Ýmsir telja að foreldrar ættu að geta að skipta orlofinu á milli sín eins og hverri fjölskyldu sýnist. Rökin fyrir því eru gjarnan að það muni svo miklu á tekjum, náum við einhvern tíma jafnrétti í launum ef fæðingarorlofinu verður skipt milli foreldra með þessum rökum?

Vissulega hafa almenn viðhorf til orlofs feðra breyst en það er samt langt í land með jafnrétti á kynjaskiptum vinnumarkaði þar sem launamunur er enn alltof mikill. Þá tryggir sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs börnum nauðsynleg tengsl við báða foreldra á fyrstu mánuðum ævinnar. Rannsóknir hafa á síðustu árum sýnt okkur fram á tengslamyndun við foreldra á þessu tímabili skiptir enn meira máli fyrir farsæla ævi en lengst af var viðurkennt.

Við höfum svo sannarlega verið minnt á það á COVID tímum að ekki er sjálfgefið að jafnréttinu miði alltaf fram á við og að allar framfarir í jafnréttismálum haldi. Það er margt sem bendir til bakslags í jafnréttismálum á heimsvísu á árinu 2020. Verjum þann árangur sem við höfum náð og höldum í sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs samhliða framþróun íslenskrar fæðingarorlofslöggjafar. Vinnum saman að auknu jafnrétti og tengslamyndun barna við báða foreldra.

Fæðingarorlofið er afurð jafnréttisbaráttunnar og þarf að vera liður í henni áfram, það er hornsteinn jafnréttis bæði á vinnumarkaði sem og í samfélaginu öllu. Jafnréttismál verða aldrei strikuð út af verkefnalista stjórnmálanna.

Fæðingarorlofið var ekki dregið upp úr hatti, það er mannanna verk og þar hefur Framsóknarflokkurinn sannarlega lagt sitt að mörkum m.a. með frumvarpi Páls Pétursson árið 2000 og frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar 2020.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2020.

Categories
Fréttir

Frábært skref – menntastefna fyrir árin 2020-2030

Deila grein

18/11/2020

Frábært skref – menntastefna fyrir árin 2020-2030

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls á framkominni menntastefnu, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir árin 2020-2030 í störfum þingsins í dag.

„Stefnan er metnaðarfull og leiðarljós hennar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. Ég tel afskaplega mikilvægt að stefnan fái ítarlega og markvissa umfjöllun á Alþingi, en einnig að hún verði afgreidd hratt og vel þannig að hún fari að skila árangri sem fyrst. Við þurfum skýra menntastefnu á hverjum tíma,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna fagnaði því sérstaklega að texti menntastefnunnar væri stuttur og hnitmiðaðar. Það væri merki um vel ígrundaða og skýra stefnu. Jafnframt væri það góð tilbreyting fyrir skólafólk að fá hnitmiðaðan texta til að vinna eftir á máli sem allir skyldu.

„Ég vil líka nota þetta tækifæri og vekja athygli á tengslum menntastefnunnar við vinnu að umbótum í málefnum barna sem fram fer á vegum félags- og barnamálaráðherra. Áhersla menntastefnu um snemmbæran stuðning sem lið í jöfnum tækifærum fyrir alla og áhersla á ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa til að tryggja gæði er einmitt í fullu samræmi og beinum tengslum við vinnu að umbótum í málefnum barna,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Fréttir

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Deila grein

16/11/2020

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni á Alþingi í liðinni viku að hollt væri að rifja upp allt það sem vel hefur tekist til í óvæntum aðstæðum. Fór hún sérstaklega yfir þær félagslegu aðgerðir sem farið hefur verið í vegna Covid.

„Stjórnvöld hafa nú þegar notað rúmlega 22 milljarða í úrræði til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þar vegur hlutabótaleiðin þyngst en alls hafa yfir 35.000 launþegar hjá 6.600 atvinnurekendum fengið greiddar hlutabætur frá því að lögin voru samþykkt en gera má ráð fyrir að 79% þeirra séu enn í ráðningarsamning við vinnuveitenda. Laun hafa verið greidd í sóttkví og tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn orðið til hjá ríki og sveitarfélögum,“ sagði Líneik Anna.

Benti Líneik Anna á að framfærendur fatlaðra og langveikra barna hafi getað sótt um eingreiðslu vegna aukinnar umönnunar. Þá voru í vor settar 386 milljónir í ýmsar félagslegar aðgerðir, svo sem Hjálparsíma, 1717, unnið var með Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, að fjarkennslu og heimanámsaðstoð og upplýsingar um Covid gerðar aðgengilegar á ýmsum tungumálum. Raunin varð að mikið var óskað eftir þessari þjónustu.

Sagði Líneik Anna ótal margar aðrar aðgerðir sem snúa sérstaklega að vernd heimila, vinnumarkaðsmálum, tómstundastarfi og innflytjendum hafi jafnframt heppnast vel.

„Það er ljóst að þegar allir leggjast á eitt finnast leiðir til að koma okkur í gegnum Covid. Mörg þessara verkefna og aðgerða þarf svo að þróa áfram meðan Covid stendur yfir og sumar eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum,“ sagði Líneik Anna að lokum.

  • Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.
Categories
Greinar

Rann­saka þarf inn­flutning land­búnaðar­vara

Deila grein

22/10/2020

Rann­saka þarf inn­flutning land­búnaðar­vara

Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd hefur fjallað um misræmi í tölum ESB um útflutning á landbúnaðarvörum til Íslands og innflutningstölum Hagstofu Íslands á tveimur fundum, að frumkvæði þingmanna Framsóknarflokksins. Undirrituð situr í nefndinni fyrir hönd Framsóknarflokks og er verulega umhugað um þessi mál.

Umfjöllun nefndarinnar hefur nú þegar sýnt fram á að það þarf að bæta verklag við tollafgreiðslu matvöru, það þarf að yfirfara alla tollskrána fyrir matvæli og gæta betur að samræmi við alþjóðatollskrá því það er allra hagur að tollflokkun sé rétt. Allir tollasamningar byggja á því að alþjóðleg tollskrá tryggi samræmi milli landa. Það ætti því ekki að vera flókið að bæta verklag. Nefndin mun halda áfram umfjöllun um málið og kalla eftir frekari upplýsingum frá tollayfirvöldum um verklag og framkvæmd.

Ostur tollaður sem jurtaostur

Nefndinni barst minnisblað frá Bændasamtökum Íslands, þar kemur fram að árið 2019 hafi verið flutt inn mikið af jurtaosti og grunsemdir vöknuðu um að það væri vara þar sem uppistaðan væri mozarella ostur úr kúamjólk. Bændasamtök Íslands hafa snúið sér til fjármálaráðuneytisins sem nú hefur brugðist við. Fram til þessa hefur þessi ostur verið fluttur inn án tolla, en fjármálaráðuneytið hefur nú tekið af allan vafa um að ostur af þessu tagi fellur í tollflokk sem ber toll hér á landi.

Árið 2019 nam innflutningur á þessum osti 299 tonnum, til framleiðslunnar þarf um 3.000.000 lítra af mjólk en það svarar til ársframleiðslu 8-10 íslenskra kúabúa. Tollur af þessum osti gæti numið 200- 300 milljón kr. það árið þ.e. tekjur sem ættu að renna í ríkissjóð. Það hefur líka komið fram að yfirvöld tollamála hafa heimild til endurákvörðunar tolla allt að 6 ár aftur í tímann ef vara reynist hafa verið ranglega afgreidd. Ekki hefur verið staðfest hvað veldur þessu misræmi.

Yfirvöld tollamála þurfa að bregðast við

Skýringar geta vissulega legið í ýmsu, en ég legg mikla áherslu á yfirvöld tollamála bregðist við, rannsaki málin aftur í tímann og tryggi að hér eftir verði þessi ostur og önnur matvara sem flutt er til Íslands flokkuð í réttan tollflokk í samræmi við alþjóðlega tollskrá. Það verður að bregðast hratt við.

Áfram veginn og veljum íslenskt.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. október 2020.

Categories
Fréttir

Fólk um land allt er tilbúið í atvinnuþróun – útlánsvextir fjármálastofnana hamla

Deila grein

03/09/2020

Fólk um land allt er tilbúið í atvinnuþróun – útlánsvextir fjármálastofnana hamla

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði okkur hafa séð magnaða samvinnu og samstarf við úrlausn aðkallandi verkefna í gegnum Covid. Íslendingum hafi auðnast að byggja ákvarðanir á bestu fáanlegum upplýsingum á hverjum tíma í sóttvörnum og í viðspyrnu við kófinu. Enda hafi það sýnt sig að þær aðgerðir hafi skilað árangri. Þetta kom fram í ræðu hennar í umræðu um störf þingsins á Alþingi í gær.

„Verkefni stjórnvalda er áfram mikilvægt, að hlúa að einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu en einnig verður að tryggja rekstraraðilum viðunandi starfsumhverfi til að afla samfélaginu gjaldeyristekna. Við þurfum virka atvinnuþróun og nýsköpun,“ sagði Líneik Anna.

„Ný vísinda- og tæknistefna sem ríkisstjórnin kynnti í gær og yfirlýsing um 50% aukningu fjárveitinga til nýsköpunar næsta ár er mikið fagnaðarefni og grunnur framtíðartekna,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna sagði mjög vont að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtæki hafi ekki lengur aðgang að lánsfjármagni. 

„Útlánsvextir fjármálastofnana til fyrirtækja hafa ekki lækkað í takt við vexti Seðlabankans og jafnvel virðist skorta vilja til lánveitinga. Ég álít að stjórnvöld verði að bregðast við. Til er fólk um land allt sem er tilbúið í atvinnuþróun og stjórnvöld verða að sjá til þess að sá möguleiki sé til staðar,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns:

„Virðulegi forseti. Síðastliðið hálft ár höfum við séð magnaða samvinnu á heimsvísu og innan lands. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að hvetja til samstarfs við úrlausn aðkallandi verkefna því með öflugu samstarfi getum við haldið samfélaginu í eins miklu jafnvægi og mögulegt er í gegnum Covid. Margar ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir og viðspyrnu við kófinu orka tvímælis á hverjum tíma en okkur hefur auðnast að byggja þær ákvarðanir sem við höfum tekið á grunni bestu fáanlegu upplýsinga hverju sinni. Það hefur svo ítrekað sýnt sig að þær aðgerðir skila árangri. Eins og staðan er núna fer innanlandssmitum fækkandi og ekki hefur dregið eins mikið úr landsframleiðslu og spáð var í vor.

Verkefni stjórnvalda er áfram mikilvægt, að hlúa að einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu en einnig verður að tryggja rekstraraðilum viðunandi starfsumhverfi til að afla samfélaginu gjaldeyristekna. Við þurfum virka atvinnuþróun og nýsköpun. Gott er að sjá fréttir af árangri einstakra fyrirtækja við að sækja sér erlent fjármagn til nýsköpunar. Ný vísinda- og tæknistefna sem ríkisstjórnin kynnti í gær og yfirlýsing um 50% aukningu fjárveitinga til nýsköpunar næsta ár er mikið fagnaðarefni og grunnur framtíðartekna. Á hinn bóginn er mjög vont að sjá fréttir um að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtæki hafi ekki lengur aðgang að lánsfjármagni. Útlánsvextir fjármálastofnana til fyrirtækja hafa ekki lækkað í takt við vexti Seðlabankans og jafnvel virðist skorta vilja til lánveitinga. Ég álít að stjórnvöld verði að bregðast við. Til er fólk um land allt sem er tilbúið í atvinnuþróun og stjórnvöld verða að sjá til þess að sá möguleiki sé til staðar.“