Categories
Fréttir Greinar

Síðasti bóndinn í dalnum?

Deila grein

02/06/2023

Síðasti bóndinn í dalnum?

Saga íslenska bóndans nær langt aftur, allt aftur til landnáms, og hefur verið í lykilhlutverki við að móta íslenska menningu og samfélag. Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar aðlagað búskaparhætti sína að náttúrulegum aðstæðum landsins og skapað með því djúpa tengingu milli náttúrunnar og þjóðarinnar. Það er fátt íslenskara en hin íslenska lopapeysa og lambalæri með brúnni. Íslenskur landbúnaður hefur ekki bara verið mikilvægur út frá hagfræðilegum sjónarmiðum og skapað atvinnutækifæri heldur hefur hann haft djúpstæð áhrif á sjálfsmynd okkar sem þjóð. Það sjáum við einna best í áhrifum hans á menningu landsins enda á hann margar birtingarmyndir í skáldskap, tónlist, kvikmyndum, myndlist og handverki. Ferðamaðurinn sem sækir Ísland heim vill fá að njóta alls þess sem við höfum upp á að bjóða, hann vill íslenskan mat á diskinn sinn ekki innflutta kengúru eða lopapeysu frá Kína.

Hvers virði eru góð orð?

Sá sem hér skrifar hefur velt fyrir sér í ljósi núverandi ástands hvort öll sú umræða um fæðuöryggi þjóðarinnar og mikilvægi þess að vera sjálfbær sé bara innantómt hjal sem draga megi fram á tyllidögum. Á sólardögum berjum við okkur á brjóst og segjumst standa fyrir dýravelferð, viljum að sú fæða sem við neytum sé án sýklalyfja og að aðbúnaður sé góður, bæði fyrir dýr og þá einstaklinga sem vinna við greinina. Við gerum ríkar kröfur til íslensk landbúnaðar og það er vel, því sætir það furðu að margir hverjir snúa blinda auganu við þegar hingað flæðir inn innfluttar landbúnaðarvörur sem margar hverjar koma úr stórverksmiðju búskap sem á ekkert skylt við öll okkar grunngildi.

Innflutningur gerir út af við innlendan landbúnað

Síðasta sumar samþykkti Alþingi að fella niður tolla af landbúnaðarvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Úkraínu. Tilgangurinn með þessum aðgerðum var að efla vöruviðskipti milli landanna og halda efnahag Úkraínu gangandi þrátt fyrir stríðsátök. Með þessum aðgerðum var svo litið á að Alþingi sameinaðist um sýna Úkraínu stuðning í verki. Við mat á áhrifum frumvarpsins var ekki talið líklegt að áhrifin yrðu veruleg en annað hefur síðan komið á daginn. Í dag er það ljóst að niðurfelling á tollum á vörum frá Úkraínu hefur haft veruleg áhrif á framleiðendur landbúnaðarvara hér á landi, sér í lagi vegna gríðarlegs innflutnings á kjúklingakjöti sem ekki var talið líklegt að fluttur yrði inn. Flutt hafa verið inn um 200 tonn af kjúklingakjöti frá því að lögin tóku gildi og út febrúar á þessu ári. Það er 200 tonn á sex mánuðum. Þar sem tölur fyrir mars, apríl og maí liggja ekki fyrir má gera ráð fyrir enn meira magn hafi komið til landsins. Það er erfitt ef ekki ómögulegt fyrir innlenda bændur að keppa við innflutningsverð á kjúklingi frá Úkraínu, en meðalinnflutningsverð hefur verið um 540 kr. og er það talsvert undir framleiðsluverði á Íslandi. Íslenskir alifuglabændur eiga ekki roð erlend stórfyrirtæki sem framleiða á einum degi sama magn og íslenskur bóndi framleiðir á einu ári.

Við þurfum að breyta um stefnu

Sem betur fer hefur ekki borið á innflutningi á mjólkur- og undanrennudufti á þessum tíma, það kann þó að vera sökum þess að verð á mjólkur- og undanrennudufti hækkaði mjög í upphafi árs 2022 en hefur nú farið lækkandi aftur. Útflutningur á undanrennu- og nýmjólkurdufti frá Úkraínu árið 2022 var um 24.600 tonn en það er 18 föld innanlandssala á Íslandi. Það tekur um 4 mánuði að byggja upp viðskiptasambönd og við sjáum það að ef við ætlum okkur að halda áfram þessum táknræna stuðningi sem þessum tekur það ekki langan tíma að gera út af við innlenda framleiðslu. Fréttir eru einnig að berast af því að öllu óbreyttu sé nautakjötið einnig á leiðinni frá Úkraínu. Það má ekki verða þannig að táknrænar aðgerðir Íslands í alþjóðasamfélaginu kippi hreinlega stoðunum undan heilu atvinnugreinunum hérlendis. Hér þurfum við frekar að líta til nágranna okkar í Noregi sem í staðinn fyrir að fórna innlendum landbúnaði með niðurfellingu tolla hefur styrkt Úkraínu og þannig úkraínska bændur með fjárframlögum í gegnum alþjóðastofnanir.

Vissulega er breytinga þörf

Í staðinn fyrir óheftan og gegndarlausan innflutning á landbúnaðarvörum til landsins þurfum við að gera betur við íslenskan landbúnað, og við viljum gera vel. Til marks um það liggur nú fyrir Alþingi Landbúnaðarstefna til ársins 2040, þessi stefna rímar margt í hverju við stefnu Framsóknar í landbúnaðarmálum síðustu ár. Stefnan markar nokkuð vel þann veg sem skynsamlegt er að fara við að nýta landið, auðlindir landsins, til góðra verka. Það gerum við með því að nýta landið til þess að framleiða matvæli. Nokkur umræða hefur verið síðustu misseri um stuðningskerfi landbúnaðarins, það fyrirkomulag sem við höfum í dag er að mínu mati svo sannarlega ekki meitlað í stein. Það er þörf á að gera breytingar á því með það að markmiði að hvetja bændur til þess að framleiða hollar og góðar afurðir, stuðningurinn á ekki að vera reiknaður út frá fjöldi ærgilda o.s.frv. heldur sé til þess fallin að hvetja bændur til þess að framleiða næg matvæli og að bændur hafi afkomu af sínum búskap. Í því samhengi er mikilvægt fyrir stjórnvöld að horfa á hvernig starfsumhverfið er í greininni. Við eigum að vera ófeiminn að ræða stuðning við landbúnað og við bændur þurfum að koma að þessu samtali líka með stjórnvöldum.

Að lokum, landbúnaður er ekki bara kjöt og mjólk, hann er einnig akuryrkja, garðyrkja, skógrækt og landgræðsla. Líkt og ég kom að í upphafi er landbúnaður eining hluti af menningu okkar og aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Með íslenskum landbúnaði, með því að nýta auðlindir landsins höfum við rík tækifæri til verðmætasköpunar ásamt því að tryggja afkomu þjóðarinnar. Töpum ekki niður því sem við höfum byggt upp frá landnámi, stöndum vörð um innlenda framleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. júní 2023.

Categories
Greinar

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Deila grein

05/05/2023

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Í lok liðins mánaðar voru staðfest þau gleðilegu tíðindi að Íslensk Erfðagreining muni taka þátt í því að rannsaka riðu í íslensku sauðfé, en riða er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á sauðfé og veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Sjúkdómurinn er erfiður viðureignar og ekki hefur verið fundið upp bóluefni til þess að verjast honum. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi, þegar upp hefur komið riða á bæ, hefur verið að slátra öllu fé á bænum, fara í jarðvegsskipti, hreinsa, brenna og sótthreinsa. Hér er um er að ræða verulega íþyngjandi aðgerð með tilheyrandi áfalli fyrir alla sem málið snertir.

Verndandi arfgerð

Fram til þessa höfum við ekki haft önnur úrræði við að uppræta sjúkdóminn en að aflífa stofninn. Í kjölfarið á því að fundist hefur arfgerð sem er verndandi gegn riðu eru nú loksins möguleikar á breyttri aðferðarfræði við útrýmingu á riðuveiki. ARR-arfgerðin hefur hlotið viðurkenningu sem verndandi arfgerð en til eru fleiri arfgerðir sem ekki eru viðurkenndar en unnið er að rannsóknum á þeim. Það er mat þeirra sem hér skrifa undir að mikilvægt sé að styðja við enn frekari rannsóknir og vinnu við að greina íslenska fjárstofninn. Þannig má rækta upp stofn sem er ónæmur gegn riðunni. Á þeim forsendum hefur Íslensk Erfðagreining nú komið að borðinu.

Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar mikilvæg

Það er mikið fagnaðarefni að fá Íslenska Erfðagreiningu til liðs við sauðfjárbændur, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) og fleiri sem hafa látið sig málið varða. Aðkoma Íslenskrar Erfðagreiningar er mjög mikilvæg þar sem hægt er setja aukinn þunga í að arfgerðagreina íslenska fjárstofninn með öflugra og ódýrari hætti þar sem fyrirtækið hefur yfir að ráða aflmiklum tækjum og sérfræðingum á þessu sviði. Það þekkjum við frá heimsfaraldri covid. Íslensk Erfðagreining sannar nú enn og ný mikilvægi sitt en nú í þágu íslensku sauðkindarinnar.

Ljósið við endann

Verkefnið nú er að finna allar þær kindur sem bera riðuþolna arfgerð. Í framhaldi af því verður svo hægt að dreifa þeim um landið og byggja upp sterkan fjárstofn sem tekur ekki riðu. Fyrirséð er að þetta verkefni komi til með að taka nokkur ár. Þrátt fyrir dimma daga sem gengið hafa yfir sjáum við nú loks ljósið við enda ganganna, og í kjölfarið breytt vinnubrögð sömuleiðis. Niðurskurður mun vonandi von bráðar tilheyra fortíðinni. Framtíðin er samvinnuverkefni bænda, vísindamanna og stjórnvalda.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Stefán Vagn Stefánsson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Framsókn stendur með bændum

Deila grein

22/04/2023

Framsókn stendur með bændum

Nú er sumarið komið og senn líður að þinglokum, tíminn líður hratt og kjörtímabilið er áður en við vitum af hálfnað. Ég hef fengið þann heiður að fá að vera þingmaður Framsóknar síðustu tvö ár eftir að hafa verið varaþingmaður árin á undan. Í grunninn er ég þó bóndi og baráttan fyrir bættum kjörum bænda var það sem dreif mig áfram til þess að bjóða mig fram til þings.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði, og mun ávallt og er því rétti flokkurinn fyrir mig til þess að starfa með. Framsókn á uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Á þessu kjörtímabili hafa þingmenn Framsóknar gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Ætla ég mér hér að tæpa á nokkrum málum sem það snertir á þessu kjörtímabili en umfangið er það mikið að það kemst ekki fyrir í einni grein. Fyrir þá sem er enn áhugasamari bendi ég á að á vef Alþingis þar sem finna má snyrtilega upp sett öll þingmál og ræður einstakra þingmanna.

Breyting á búvörulögum

Sá sem hér skrifar hefur lagt fram nokkur þingmannamál á yfirstandandi kjörtímabili sem snúa að landbúnaði og má þar fyrst og helst nefna frumvarp til breytingar á búvörulögum. Um er að ræða tillögu sem þingmenn Framsóknar hafa ítrekað lagt fram og er þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Þessi tillaga hefur ekki náð í gegn en hún gæti skilað mun betri afkomu afurðastöðva sem skilar sér bæði til bænda og neytenda. Það er mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi að landbúnaður innan ESB er að miklu leyti undanþeginn samkeppnislögum. Um þetta mál hafa þingmenn Framsóknar fjallað um í ræðustól Alþingis og skrifað margar greinar m.a. þessa grein þar sem ég hvet áfram matvælaráðherra til að vinna í þágu íslensks landbúnaðar og koma með frumvarp til þingsins um undanþágu frá samkeppnisákvæðum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði líkt og gert hafði verið ráð fyrir á þingmálaskrá. Ef við ætlum okkur ekki að staðna er mjög mikilvægt að ganga í verkin!

Fleiri þingmannamál

Auk þess hefur undirritaður lagt fram tvær þingsályktunartillögur er snúa að dýralæknum, annars vegar heildarendurskoðun á vaktakerfi dýralækna og hins vegar tillögu sem snýr að því að veita sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi. Þeir sem vilja glöggva sig frekar á þeim málum geta lesið hér smá greinarstúf sem ég skrifaði að því tilefni. Í haust mælti ég svo fyrir tillögu um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Tillagan snýr að því að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 með það að markmiði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni. En ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geta gert það að verkum að flutningsleiðir til landsins stöðvist. Við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma. Um þetta hef ég oft komið inn á í ræðustól Alþingis og fjallað um í greinum.

Þess utan hef ég lagt fram þrjár aðrar tillögur er snúa að landbúnaði með einum eða öðrum hætti, það er um refa- og minkaveiðileyfi til að veiða álft o.fl. utan hefðbundins veiðitíma og þjóðarátak í landgræðslu. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál frekar mæli ég með að fylgja tenglunum áfram til að lesa. Líneik Anna Sævarsdóttir lagði svo fram í annað sinn á þessu þingi þingsályktunartillögu er varðar úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara. En þar er komið inn á vernd til bænda í kjölfar náttúruhamfara. Lesa má frekar um uppruna tillögunnar í þessari grein sem við Líneik Anna og Ingibjörg Isaksen skrifuðum síðasta vetur.

Eftirlitshlutverk þingmanna

Alþingismenn rækja eftirlitshlutverk sitt með sérstökum umræðum í þingsal við ráðherra um mál sem þeir bera ábyrgð á, með fyrirspurnum og/eða skýrslubeiðnum. Þingmenn Framsóknar hafa verið duglegir við fyrirspurnir til ráðherra varðandi hin ýmsu mál er snúa að landbúnaði. Fyrir áhugasama má kynna sér fyrirspurnir sem þingmenn Framsóknar hafa lagt fyrir ráðherra á þessu kjörtímabili en þær er; förgun dýraafurða og dýrahræjasamanburður á framleiðslu á innlendu og innfluttu kjötikornræktkolefnisbindingutryggingarvernd til bænda, aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslukolefnisjöfnun landgræðslunnarraforka til garðyrkjubændaframlag vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlumfæðuöryggiaukin nýting lífræns úrgangs til áburðarendurheimt votlendisnýting lífræns úrgangs til áburðar, og staða kjötframleiðenda. Þá hefur sá sem hér skrifað efnt til sérstakra umræðna um innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

Þess utan hafa þingmenn Framsóknar skrifað fjölda greina sem birst hafa á öldum ljósvakans síðustu ár til þess að vekja athygli almennings á málefnum bænda enda koma þau okkur öllum við. Nú síðast birti sá sem hér skrifar grein ásamt Höllu Signýju Kristjánsdóttur um nýja nálgun til þess að verjast riðu. Þá skrifaði Halla Signý grein um íslenska matvöru á páskum sem svar við grein þar sem vegið var að íslenskri matvælaframleiðslu. Þingmenn Framsóknar hafa verið ötulir við að benda á að staða íslenskra bænda sé grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Við höfum bent á að ef við viljum í alvöru standa með neytendum og innlendri framleiðslu þá er til leið. Ég þreytist ekki á að standa upp í ræðustól Alþingis og benda á að fæðuöryggi sé þjóðaröryggismál, það hefur Stefán Vagn Stefánsson einnig fjallað um, ásamt Ingibjörgu Isaksen. Þá hefur Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir m.a. gert að umtalsefni sínu erfiðri stöðu ungra bænda. Við vitum og höfum bent á að meginþorri þjóðarinnar vill ekki fórna landbúnaði, bændum og landsbyggðinni fyrir hagsmuni fámennar heildsalaklíku, við viljum standa vörð um innlendan landbúnað og matvælaframleiðslu þjóðinni til heilla. Að lokum langar mig einnig að minnast baráttu Framsóknar á síðasta kjörtímabili fyrir banni á dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum, en við breytingu á lögum um innflutning matvæla settu þingmenn Framsóknar það skilyrði að aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna yrði samþykkt fyrir afgreiðslu málsins og þar með að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Öflugur landbúnaður er grundvöllur farsældar

Líkt og sagði hér í upphafi þá verður hér ekki tæmandi talið öll þau mál, ræður, greinar og erindi sem þingmenn Framsóknar hafa staðið fyrir til þess að standa vörð um innlendan landbúnað og matvælaframleiðslu. Við þingmenn getum gert okkar, en betur má ef duga skal. Okkar verkefni er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi. Við Íslendingar höfum frá landnámi lifað á því að rækta jörðina, halda skepnur og sækja sjóinn. Dugnaður, útsjónarsemi og hyggjuvit hafa verið okkar besta veganesti. Við í Framsókn ætlum okkur ekki að tapa niður því sem þau sem á undan okkur gengu byggðu upp. En til þess þarf samstöðu því með sundrung komumst við ekkert áfram.

Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 21. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Deila grein

18/04/2023

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Á dögunum bárust okkur þær hræðilegu fréttir að riðusmit hafi greinst Miðfjarðarhólfi, en það svæði hefur verið talið musteri sauðfjárræktar í landinu. Það er ávallt áfall þegar riða greinist í sauðfé og aflífa þarf allan stofninn, áfall sem ekki nokkur bóndi á að þurfa að ganga í gegnum. Miðfjarðarhólf var fram að þessu talið hreint svæði og því er erfitt að kyngja þessum nýju tíðindum og hugur okkar er hjá bændum sem nú þurfa að drepa allt sitt fé nokkrum dögum fyrir sauðburð.

Riða hefur verið greind hér á landi í sauðfé í meira en öld, um er að ræða banvænan og ólæknandi sjúkdóm sem ekki hefur fundist lækning við. Því þarf þegar riða greinist á býli að fella allan stofninn auk þess sem mikillar varúðar þarf að gæta í mörg ár því smit getur dvalið í umhverfi og legið sem falin eldur í áratugi.

Á sama tíma er förgun á dýrahræjum í ólestri og einungis ein brennslustöð til taks á landinu til að taka við dýrahræjum til brennslu. Brennsla er nauðsynleg þegar um sýktar afurðir er að ræða. Þá er heldur ekki ásættanlegt að flytja sýkt dýrahræ milli varnarhólfa til förgunar með tilheyrandi áhættu.

Hin verndandi arfgerð

Þau tímamót urðu á síðasta ári að verndandi arfgerð gegn riðu var fundin í kind hér landi, það er að fundist hafa kindur hér á landi með ákveðnar stökkbreytingar sem eru ónæmar fyrir sjúkdómnum. Þessi breytileiki erfist og því væri hægt að rækta riðu úr íslenska sauðfjárstofninum á nokkrum árum. Til þess að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað öflugt verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni. Því eru það ánægjulegar fréttir að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining hafa sýnt því áhuga að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu í öllu íslensku sauðfé. Íslensk erfðagreining er öflugt fyrirtæki með færa sérfræðinga og tæki og tól til að vinna að slíku verkefni.

Íslenski sauðfjárstofninn er nærri 100 % skrásettur og því hægt að vinna hratt og örugglega við að rækta upp riðþolinn stofn hér á landi. Öflug greining gæti líka komið í veg fyrir að það þyrfti að farga heilbrigðu fé og eins og nú er gert. Hægt yrði að grisja úr sýkt fé og koma þannig í veg fyrir sársaukafullar aðgerðir.

Mikilvægt frumkvæði

Fyrir tveimur árum síðan var farið í að safna sýnum úr kindum. Þetta er vinna sem bændur sjálfir hrundu á stað og kostuðu að frumkvæði og forystu Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar styrkti verkefnið og tekin voru sýni úr tæplega 30.000 kindum víða um land. Með Karólínu hafa unnið fulltrúar frá þýskri rannsóknarmiðstöð, riðusérfræðingar frá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins auk þess sem fleiri erlendir sérfræðingar hafa komið að verkefninu. Um er að ræða frumkvöðlastarf sem getur verið upphafið að breytingu sem beðið hefur verið eftir í áratugi við að útrýma riðu í sauðfé hér á landi.

Verkefni sem skiptir máli

Riðutilfelli hér á landi eru ávallt alvarleg, sérstaklega nú þegar sauðfjárræktun stendur höllum fæti vegna annarra ytri komandi þátta. Síðasta áratug hefur verið erfiður rekstrargrundvöllur í sauðfjárrækt og þær aðstæður sem eru nú uppi í efnahagsmálum hvetja bændur enn frekar til að bregða búi og leita á önnur mið. Riðusmit á öflugustu sauðfjársvæðum landsins er fráhrindandi raunveruleiki fyrir unga bændur að búa við.

Undirrituð telja að ríkið verði því að stiga inn með fjármagn í arfgerðargreingar. Við búum við þá góðu stöðu að hér á landi er til staðar þekking og vilji til þess að vinna á þessum vanda. Það er arðsamt verkefni fyrir ríkið að fara í slíkt verkefni enda fylgir því nokkur kostnaður að fara í niðurskurð á þúsundum kinda á nokkrum árum ásamt því að greiða tilheyrandi bætur.

Íslenska lambakjötið er dýrmæt afurð

Íslenska lambakjötið er merkileg vara og það hefur nýlega verið staðfest en í síðasta mánuði fékk íslenska lambakjötið, fyrst íslenskra afurða, upprunatilvísun og er eina matvaran á landinu sem hlotið hefur slíka merkingu. Um er að ræða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu og er íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum líkt og parmaskinku, parmesanosti, kampavíni og fetaosti. Hér er um að ræða gríðarlega stóra viðurkenningu sem kemur til með að skapa aukin verðmæti íslensk lambakjöts ásamt því að festa í sessi stöðu þess á erlendum mörkuðum.

Viðurkenningin er afrakstur mikillar vinnu sem hófst hjá Bændasamtökunum fyrir sex árum og hún kemur til með að auka virði lambakjötsins og eftirspurn. Hér er um að ræða gríðarmikla sönnun á því sem við þó vissum fyrir, að við erum með dýrmæta afurð hérlendis sem við verðum með öllu hætti að vernda. Þessi viðurkenning blæs okkur vonandi byr í seglin við að styðja frekar við og auka framleiðslu á íslensku lambakjöti til þess að standast aukinni eftirspurn. Ásamt því að leita allra leiða til þess að uppræta riðu hérlendis í eitt skipti fyrir öll.

Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Það þarf að ganga í verkin!

Deila grein

28/03/2023

Það þarf að ganga í verkin!

Það eru mörg verkefnin á hverjum tíma sem við sem þjóð þurfum að leysa, en okkur gengur misvel að leysa þau hratt og örugglega. Það á einna helst við innan þess opinbera og þörf er á því að breyta áherslum með það að markmiði að auka skilvirkni í kerfinu og leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í stað þess að vera sífellt að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru á hverjum tíma.

Stjórnvöld hafa úrslitavaldið í mörgum málum, en það er eins og kerfið glími við ákveðna ákvörðunarfælni þegar kemur að ýmsum málum. Í því samhengi má velta fyrir sér hvort stjórnvöld hafi sett sér of íþyngjandi reglur þegar kemur að minnstu málum, allt þarf að rannsaka og rýna ofan í kjölinn með tilheyrandi töfum. Þá er einnig mörgum rangfærslum haldið á lofti í fjölmiðlum og í umræðunni sem flækja málin og verða til þess að þau tefjast enn frekar. Í þessu samhengi langar mig að benda á mál sem krefjast tafarlausra úrlausna en hafa þó beðið fullnaðarafgreiðslu í alltof langan tíma.

Sameining í kjötiðnaði

Það hefur legið fyrir um tíma að staða bænda hefur farið versnandi á síðustu árum og það hefur verið margrætt en lítið að gert. Rekstrargrundvöllurinn er hverfandi með hverjum mánuði, nýliðun er lítil sem engin og bændur kalla ítrekað eftir aðgerðum til að koma starfsgreininni aftur í fyrra horf. Nú hafa okkur borist fréttir að nýjar greiningar bendi til þess að stefnu skorti við framleiðslu á íslensku, svína-, nautgripa- og kindakjöti. Það þvert á markmið ríkisstjórnarinnar um að styðja við bændur og tryggja fæðuöryggi landsins til framtíðar.

Sá sem hér skrifar hefur ásamt fleiri aðilum ítrekað bent á þau tækifæri sem fólgin eru í sameiningu afurðastöðva. En með slíkum aðgerðum er hægt að ná fram sambærilegri hagræðingu og hefur náðst í kringum mjólkuriðnaðinn. Þeir sem starfa innan kjötiðnaðarins hafa bent á að slík hagræðing geti komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs og bættri afkomu bænda. Af hverju er þessi leið ekki farin?

Orkuþörfin

Þá liggur það fyrir að við þurfum meiri orku, bæði til þess að mæta markmiðum okkar um kolefnishlutleysi og orkuskipti en einnig til fylgja eftir náttúrulegri fólksfjölgun ásamt því að styðja við hagvöxt. Við erum öll meðvituð um orkuþörfina, sem mun aðeins aukast í náinni framtíð. Hins vegar virðist vera talsverð tregða við að hefja framkvæmdir á nýjum virkjunum og ferlið er allt of þungt í vöfum. Sem dæmi má nefna Hvammsvirkjun, en það hefur tekið 16 mánuði að fá framkvæmdaleyfi fyrir henni og hún er svo sannarlega ekkert einsdæmi í kerfinu. Ef við ætlum okkur að ná settum markmiðum og tryggja áframhaldandi hagvöxt í landinu þá þurfum við að fara tala minna og vinna meira. Það er alltaf hægt að skoða og rýna, gera stefnur og ferla, en núverandi staða krefst skjótrar ákvarðanatöku.

Gangnagerð

Greiðar samgöngur eru forsendur vaxta og eru lífæðar hvers samfélags, sér í lagi fyrir hinar dreifðari byggðir þar sem góðar samgöngur eru forsenda þess að byggja upp öflugt atvinnulíf á hverju svæði fyrir sig. Íbúar á landsbyggðinni vita allt um erfiðar samgöngur, en það veltur á veðráttu þann daginn hvort hægt sé að ferðast milli staða. Oft þarf yfir erfiða fjallvegi að fara með tilheyrandi vandkvæðum og mörg svæði bíða eftir jarðgöngum til þess að tryggja betri samgöngubætur. En það kostar að fara í framkvæmdir sem þessar og því þarf að forgangsraða verkefnum með þeim afleiðingum að lítið gerist. Fjöldi gangna hafa beðið talsverðan tíma án hreyfingar og það tekur áratugi fyrir göng að raungerast frá hugmynd þar til hægt er að taka þau í notkun.

Við þurfum að horfa til þeirra nágrannaríkja okkar sem standa okkur framar í þessum efnum og sjá hvernig þau bregðast við sömu áskorunum, hvort sem það snýr að forvinnu vegna ganga eða að fjármögnun. Í því samhengi vil ég einnig hvetja lífeyrissjóðina til þess að taka þátt í samfélagslega arðbærum verkefnum en við þurfum að vera duglegri að nýta okkur samvinnuverkefni PPP í auknum mæli. Ég er er tilbúin til þess að greiða leið fleiri verkefna í gegnum Alþingi með þeim hætti. Það gengur ekki að íbúar bíði fjórðung lífs síns eftir göngum og öðrum samgöngubótum í sínu nærumhverfi.

Munurinn milli okkar og Norðmanna

Stór munur er á milli Íslands og nágrannaþjóða okkar. Hann grundvallast í framkvæmdatíma, það er að það sem tekur Íslendinga talsverðan tíma að klára tekur t.d. Norðmenn mun styttri tíma. Norðmenn eru gott dæmi, en þó fjárhagslegar aðstæður þeirra eru betri þá er munurinn aðallega fólginn í því að ákvarðanir eru teknar fyrr. Ef fiskeldisleyfi eru sérstaklega tekin til álita þá er furðulegt að hér á landi taki 8 ár að veita fiskeldisleyfi þegar það tekur að hámarki 26 mánuði í Noregi. Þetta kemur fjárhagsaðstæðum ekkert við. Rannsóknir taka minni tíma. Öll skoðun og vinna fram að leyfisveitingu tekur mun minni tíma. Þessi mismunur einskorðast ekki við veitingu leyfa. Við þurfum að finna punktinn í ferlinu þar sem tregða við að taka lokaákvörðun myndast og breyta áherslum.

Við þurfum að fara að ganga í þau verk sem fyrir okkur liggja og láta þau raungerast, framkvæmdarleysi, of mikið tal og ákvörðunarfælni leiðir til stöðnunar og þar vill engin vera.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Dýralæknar á Íslandi

Deila grein

24/02/2023

Dýralæknar á Íslandi

Dýralæknar gegna mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi við umönnun dýra. Margar áskoranir hafa verið til staðar þar sem erfiðlega hefur gengið að manna dýralæknaþjónustu en síðustu ár hefur hörgull á dýralæknum hér á landi verið mikið í umræðunni. Tengist sú umræða sérstaklega þeirri miklu umræðu um fæðuöryggi þjóðarinnar. Skortur á dýralæknum getur m.a. haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir aðgengi bænda og almennings að dýralæknaþjónustu sem gætu haft alvarleg og óafturkræf áhrif á heilsu og velferð dýra, auk fjárhagslegs tjóns fyrir bændur. Að þessu tilefni hef ég nú lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem snúa að mönnun og starfsaðstæðum dýralækna hér á landi.

Skortur á dýralæknum og ívilnanir

Fyrri tillagan snýr að því að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við matvælaráðherra og innviðaráðherra, að vinna skýrslu með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um sérstakar tímabundnar ívilnanir um endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi. En í 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, er að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er ætluð til þess að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun með því að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til þess að sækja sér téða menntun, eða til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Til þess að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi skort í ákveðinni starfsstétt eða að hann sé fyrirsjáanlegur. Þar með er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla sem byggi meðal annars á framangreindum upplýsingum; unnin af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda. Tilgangur skýrslunnar er að varpa ljósi á aðstæður og greina þörf á viðbrögðum við skorti eða fyrirsjáanlegum skorti innan starfsstétta dýralækna.

Þá er í 28. gr. sömu laga að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er af sama meiði og að framan hefur verið rakinn, þ.e. til að gefa ráðherra tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á sérmenntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Má rekja fyrirmyndina til Noregs þar sem kennarar sem starfa í hinum dreifðari byggðum, Finnmörk eða Norður-Tromsfylki, eiga möguleika á að fá afskrifaðan hluta af námslánum sínum ef þeir starfa sem kennarar í 50% starfi samfellt í a.m.k. tólf mánuði. Til þess að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Markmið og efni tillögunnar snýr að því að gerð verði skýrsla sem tiltekur upplýsingar um það hvaða áhrif skortur á dýralæknum muni hafa á íslenskan landbúnað og atvinnuhætti í íslenskum landbúnaði á næstunni sem og til framtíðar. Þá er markmiðið jafnframt að varpa ljósi á aðstæður í hinum dreifðari byggðum þar sem skortur er á dýralæknum og stór eftirlitssvæði eru á höndum fárra. Full þörf er á að löggjafinn gæti þess að ívilnandi aðgerðir stjórnvalda nýtist öllum á grundvelli sjónarmiða um jafnræði og að þær tali beint inn í byggða- og atvinnustefnu út um allt land.

Vaktakerfi dýralækna

Seinni tillagan fjallar um stofnun starfshóps um heildarendurskoðun á vaktakerfi dýralækna en í tillögunni er lagt til að fela matvælaráðherra að setja af stað vinnu til að greina þjónustu dýralækna hér á landi. Á meðal dýralækna er almenn óánægja með vaktafyrirkomulag og bakvaktaálag starfsstéttarinnar og hefur svo verið um allnokkra hríð. Á það við um allt land og einskorðast ekki við eitt svæði eða dreifðari byggðir. Stórdýravaktin, sem m.a. snertir á fæðuöryggi þjóðarinnar og eins velferð dýra, hefur verið rekin með miklum halla undanfarin ár þar sem greiðslur úr vaktasjóðum duga skammt. Þetta hefur gert það verkum að ekki hefur tekist að manna t.a.m. höfuðborgarsvæðið, og leita þarf til umdæma í næsta nágrenni til að manna bakvaktir. Í hinum dreifðari byggðum eru einstaka svæði einungis með einn dýralækni á vakt allt árið um kring með því gríðarlega bakvaktarálagi sem því fylgir. Sum staðar á landinu eru eftirlitssvæðin svo stór að einn dýralæknir getur með engu móti sinnt starfi sínu. Skipulag vaktamála er á ábyrgð Matvælastofnunar. Það er hins vegar ljóst að stofnuninni hefur ekki tekist að uppfylla hlutverk sitt í að skipuleggja bakvaktir í samráði við dýralækna á öllum svæðum, og þar með tryggja nauðsynlega grunnþjónustu um land allt. Dýralæknar eru meðvitaðir um skyldur sínar þegar kemur að því að hjálpa dýrum í neyð. Hins vegar séu tilfellin of mörg þar sem dýralæknar eru settir í vonlausa stöðu gagnvart þeim starfsskyldum sem á herðar þeirra eru lagðar. Nágrannaþjóðir okkar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa öll sett af stað umfangsmikla vinnu við að greina vandann og þær áskoranir sem fylgja því að færri dýralæknar fást í störf úti á landi, og um leið færri dýralæknar sem gefi kost á sér í bakvaktaþjónustu. Það er því afar mikilvægt að farið verði í þá vinnu og snýr markmið og efni tillögunnar þar með að því að hrundið verði af stað heildarendurskoðun á dýralæknaþjónustu hér á landi.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nú er komið að okkur

Deila grein

17/02/2023

Nú er komið að okkur

Nýlega birtust fréttir þess efnis að matvælaráðherra hafi ákveðið að sleppa framlagningu frumvarps um sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði og tekið það úr málaskrá ráðuneytisins. Þetta eru vissulega vonbrigði þar sem hagræðing af slíkri sameiningu í þágu matvælaframleiðenda og neytenda hefur fengið mikla umfjöllun, bæði á Alþingi og á vettvangi bænda. Þegar við tölum um þessa hagræðingu þá erum við að tala um milljarða. Upphæðir sem geta skipt sköpum fyrir bændur og framtíð íslensks kjötiðnaðar.

Bóndinn tryggir fæðu

Skilaboð ríkisstjórnarinnar um mikilvægi þess að tryggja fæðu- og matvælaöryggi hér á landi hefur verið skýrt. Mikilvægt er að við getum reitt okkur á íslenska matvælaframleiðslu, og við sjáum á nýliðnum atburðum erlendis að aðstæður heillar þjóðar geta breyst á augnabliki. Að vera sjálfum okkur nóg með nauðsynjar á borð við mat getur skipt sköpum.

Þeir sem tryggja matvæla- og fæðuöryggi landsins eru bændur. Innlendir matvælaframleiðendur, sem hafa tryggt okkur gæða afurð í áranna raðir þrátt fyrir marga erfiða tíma. Í dag, á tímum mikillar samkeppni við erlendar stórverksmiðjur, eykst mikilvægi þess að innlendir framleiðendur, sem uppfylla allar þá kröfur sem við gerum til okkar fæðu hvað varðar öryggi og gæði, hafi ríkisstjórnina með þeim í liði.

Milljarða króna hagræðing

Framsókn hefur lengi talað fyrir að sameining afurðastöðva í kjötiðnaði verði gerð heimil hér á landi. Tölfræðin og framtíðarspár liggja fyrir. Sú hagræðing getur komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs. Í núverandi stöðu geta bændur ekki selt sína vöru á sama verði og innfluttar vörur eru keyptar á. Aðstöðumunurinn er gífurlegur þegar við horfum til erlendra stórverksmiðja, þar sem ekki eru gerðar sömu kröfur til öryggis, staðla og dýraverndar á mörgum stöðum. Framleiðslukostnaður þeirra er, eðli máls samkvæmt, lægri per kíló en hjá íslenskum fjölskyldubónda.

Þeir sem setja fyrirvara á framtíðarspárnar geta horft á þá raunverulegu hagræðingu, sem hefur átt sér stað í kjölfar sameiningar afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þar hafa mjólkurframleiðendur náð að hagræða milljörðum króna, sem skilar sér bæði til framleiðenda og bænda.

Deila um samkeppni

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur gert athugasemdir við veitingu ofangreindrar heimildar, en þar eru gerðar athugasemdir við að sameining afurðastöðva gæti dregið verulega úr samkeppni á þeim markaði, með tilheyrandi áhrifum. Það er vissulega hlutverk SKE að fylgjast með samkeppni hér á landi og tryggja jafnvægi á markaði. Hins vegar þurfum við að geta horft á raunverulegar aðstæður, til dæmis hvað varðar samkeppnisbaráttu innlendrar matvælaframleiðslu við innflutt matvæli. Samkeppni sem má líkja við Davíð og Golíat. Það er komið að okkur að standa með Davíð og rétta honum slöngvuna. Í þessu máli eigum við frekar að líta til búvörulaga en samkeppnislaga, en markmið búvörulaga er einmitt að tryggja innlenda framleiðslu landbúnaðarvara og afkomu íslenskra bænda.

Lög og túlkun þeirra

Í málum sem varða matvælaframleiðslu og landbúnað hefur sú regla almennt gilt að landbúnaðarstefna skuli hafa forgang fram yfir samkeppnisákvæði. Þennan forgang hefur Evrópusambandið m.a. staðfest.

Í umfangsmikilli umsögn SKE, sem margir leggja grundvöll á í þessu máli, er meginþunginn lagður á túlkun samkeppnislaga. Það er skiljanlegt, enda samkeppnislögin þau lög sem stofnunin byggir almennt sínar ákvarðanir og athugasemdir á. Hins vegar gilda sérlög um landbúnað hér á landi, þ.e. búvörulögin, sem eiga að njóta forgangs. Við í Framsókn höfum margsinnis lagt það til að undanþága frá samkeppnisákvæðum verði sett í búvörulög, 71. gr. A búvörulaga sem veitir slíka undanþágu, og með því verði sameining afurðastöðva gerð heimil.

Skjaldborgin

Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að styðja við íslenskan landbúnað, neytendur og tryggja fæðuöryggi landsins. Með lagagjöf sem þessari eflum við íslenskan kjötiðnað til muna, gerum hann samkeppnishæfari á innlendum og alþjóðlegum markaði ásamt því að gera íslenskar afurðir aðgengilegri neytendum. Það er skjaldborgin sem við eigum að slá og við höfum engan tíma að missa. Ég vil því hvetja matvæla­ráðherra áfram í að vinna í þágu íslensks landbúnaðar og koma með frumvarp til þingsins um undanþágu frá samkeppnisákvæðum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtis fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Sýndu mér fjárlögin

Deila grein

17/12/2022

Sýndu mér fjárlögin

Í dag voru fjárlög fyrir árið 2023 samþykkt á Alþingi. Í kjölfar þeirrar afgreiðslu minnist ég þess sem formaður Samfylkingarinnar sagði fyrr í þessum mánuði:

„Sýndu mér bara fjárlögin þín og ég skal segja þér hvað skiptir þig máli.“

Nú hefur ríkisstjórnin sýnt spilin með samþykkt fjárlaganna, og þau gefa skýra mynd á því hvert við stefnum. Fingraför Framsóknar sjást um öll þessi fjárlög þar sem ábyrg og skynsöm fjárhagsstjórnun mætir fjárfestingu í fólki, velferð og heilbrigði.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins

Heilbrigðiskerfið hefur þurft að þola þung högg síðastliðin ár. Þá sérstaklega í kjölfar heimfaraldurs kórónaveirunnar. Einnig hefur það legið fyrir þörf er á breytingum og nýjum áherslum svo hægt er að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar.

Vegna þessa hefur ríkisstjórnin hækkað framlög til heilbrigðismála um rúma 17 milljarða króna, sem fara í endurreisn heilbrigðiskerfisins, frekari eflingu þess og endurheimt okkar mikilvæga heilbrigðisstarfsfólks. Þessi framlög undirstrika þá áherslu ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um heilbrigðiskerfið og að tryggja samfélaginu sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Þar ber helst að nefna 2,3 milljarða styrkingu á rekstrargrunni Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri til að gera þeim betur kleift að sinna sínum mikilvægu verkefnum innan heilbrigðiskerfisins.

Stigin verða stór skref í að stytta biðlista ásamt því að efla endurhæfingarstarfsemi og heimahjúkrun. Markmið sem við öll erum sammála um.

Velferðarfjárlög

Það sést í fjárlögum þessum að velferð fólks skiptir ríkisstjórnina máli. Framlög til félags- og velferðarmála eru aukin talsvert, og með því stöndum við vörð um viðkvæma hópa samfélagsins og fjárfestum í fólki. Það skiptir máli að sjá til þess að allir hafi tækifæri og hljóti stuðning þegar þess þarf. Það hafa verið blikur á lofti síðustu árin og með þessum fjárlögum er ríkisstjórnin að bregðast við.

Staðan á leigumarkaði hefur versnað og margir eiga erfitt með að standa straum af síhækkandi leigukostnaði samhliða hækkandi útgjöldum heimilanna. Því hefur verið ákveðið að auka húsnæðisbætur um 1,5 milljarða króna. Þannig jöfnum við stöðu fólks á leigumarkaði og hlúum að þeim sem þurfa mest á frekari stuðningi að halda.

Lengi hefur verið kallað eftir auknum tækifærum öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega á atvinnumarkaði. Það er verðugt verkefni að stuðla að slíkri aukningu, sem minnkar félagslega einangrun þeirra og tryggir okkur aukna þátttöku öflugs mannauðs í samfélaginu og atvinnulífinu.

Einnig verður samningum um notendastýrðra persónulegra aðstoðar við fatlað fólk (NPA) fjölgað með auknum framlögum til málaflokksins. Talið er að ráðstöfunin fjölgi samningum um 50%, sem þýðir að mikill fjöldi þeirra, sem þurfa þessa aðstoð á að halda, geti nýtt sér hana.

Að auki hafa framlög í Fæðingarorlofssjóð verið hækkuð til að stuðla að bættri nýtingu fæðingarorlofs og jafnari skiptingu þess milli foreldra. Þessi hækkun getur bætt stöðu barnafólks til muna, og þá sérstaklega unga foreldra sem eru með marga bolta á lofti, lítið á milli handanna og eru að ná fótfestu bæði á húsnæðismarkaði og í atvinnulífinu.

Ábyrg stjórnun

Þó svo að allt sé reynt til að efla íslenskt samfélag og veita sem bestu þjónustu innan opinbera geirans þá er einnig mikilvægt að við sinnum ábyrgri og skynsamri stjórnun fjármagns. Slík stjórnun er nauðsynleg til lengri tíma þar sem við verðum að tryggja sterkan ríkissjóð til frambúðar og lækka skuldir.

Það er einmitt það sem ríkisstjórnin er að gera. Með fjárlögum þessum er verið að endurheimta styrk ríkissjóðs með lækkun rekstrarhalla og stöðvun á hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Ríkisfjármálum er beitt gegn þenslu og þeirri verðbólgu sem við höfum öll orðið vör við. Dregið verður úr verðbólguþrýstingi og þannig styðjum við efnahag heimilanna og samfélagsins í heild, en það er okkur mikilvægt að styðja við viðkvæma hópa samfélagsins, sem finna mest fyrir áhrifum verðbólgunnar. Lögð er áhersla á að innviðir og grunnþjónusta séu styrkt og viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga.

Fjárlög til bóta

Nú hefur ríkisstjórnin sýnt fjárlögin sín og hvað skiptir hana máli. Það hefur ekki verið einfalt að ná öllum þessum markmiðum í erfiðum aðstæðum þegar hver einasta króna skiptir sköpum. Með skynsemina og markmiðið um að fjárfesta í fólki að leiðarljósi getum við horft bjartsýn til næsta árs. Hjólin eru aftur farin að snúast eftir erfiða tíma. Við ætlum okkur að ná fyrri styrk og byggja á honum, samfélaginu til heilla.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og aðalmaður í fjárlaganefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2022.

Categories
Greinar

SOS allt í neyð

Deila grein

10/11/2022

SOS allt í neyð

Í þessari viku mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Með tillögunni er matvælaráðherra falið af Alþingi að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu á hverjum tíma.

 Mikilvægi endurskoðunar

Á undanförnum árum höfum við orðið verulega vör við það að ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geti haft það í för með sér að flutningsleiðir til landsins geti stöðvast. Það er því ekkert launungamál að við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun október sl. er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur, leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma. Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Útfært fyrirkomulag gæti falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf mismunandi leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða. Í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér 2021 var fjallað um fæðuöryggi og hvað þarf til að uppfylla viðmið þess efnis. Þar kemur fram að við stöndum okkur að mörgu leyti vel en við erum og verðum áfram háð innflutningi á ákveðnum vörum sem og aðföngum til að geta framleitt ýmsar vörur innan lands.

Fæðuöryggi landsins

Við þurfum að taka ríkari ábyrgð vegna fæðuöryggis landsins. Byggja upp frekari innviði og fyrirkomulag sem gerir það að verkum að við eigum neyðarbirgðir af þeim matvælum sem við getum framleitt hér á landi hverju sinni. Þessi umræða hefur kviknað oft undanfarin ár en minna hefur orðið úr aðgerðum til þess að mæta henni. Nú er kominn tími til að koma sér að verki í þessum málum og er ég þess fullviss að hæstvirtur matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, muni taka þessari tillögu minni vel og hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Deila grein

30/09/2022

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og um nýliðna helgi glímdu landsmenn sannarlega við þau. Illviðri gekk yfir, mikill vindstyrkur sem sumstaðar fylgdi mikil úrkoma og há sjávarstaða. Þetta leiddi til margs konar tjóns s.s. skriðufalla á Vestfjörðum, flóða á Akureyri, skemmda á uppskeru og gríðarlegs foktjóns. Austfirðir urðu hvað verst úti enda náði vindstyrkur þar ótrúlega víða viðmiðum fárviðris. Þegar verðrið stóð sem hæst varð auk þess rafmagnslaust á nálægt helmingi landsins, með tilheyrandi óöryggi, beinu og óbeinu tjóni.

Við getum þakkað fyrir að ekki varð manntjón um liðna helgi. Veðurspár, veðurviðvaranir, lokanir vega og vinna viðbragðsaðila komu í veg fyrir að enn meira tjón hlytist af og fyrir það ber að þakka. Viðbrögð og þrotlaus vinna björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila skiptu sköpum á meðan á veðrinu stóð. Starfsmenn sveitarfélaga brugðust einnig við með fjölbreyttum hætti og mikið mun mæða á sveitarfélögum við hreinsunarstarf næstu daga og vikur.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Forvarnir eins og vöktun, spár, lokanir, varnarmannvirki og uppkaup mannvirkja eru dæmi um slíkt. Náttúruhamfaratrygging Íslands gegnir svo lykilhlutverki í tryggingavernd auk þess sem verklag stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu er í stöðugri þróun. Þá spila lögboðnar og valfrjálsar tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina.

Orðið náttúruhamfarir samkvæmt lögum hefur ekki endilega sömu merkingu og í daglegu tali. Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir þannig tjón á eignum af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða en ekki foktjón. Húseignir á Íslandi eru vátryggðar, en innbú og lausafé er það aðeins ef það er brunatryggt hjá sjálfstæðu tryggingarfélögunum. Staða atvinnurekanda er mun óljósari bæði hvað varðar lausamuni og framleiðslutjón og sérstaklega þarf að skoða stöðu bænda en 2009 urðu breytingar á Bjargráðasjóði sem veiktu stöðu þeirra.

Verkefni tengd náttúruhamförum falla undir starfsvið margra ráðuneyta t.d. umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, matvælaráðuneytis, innviðaráðuneytis, auk þess sem fleiri ráðuneyti geta komið að málum. Ítrekað hefur verið gagnrýnt að yfirsýn og ábyrgð á samræmi og samhæfingu verkefna tengdri náttúruvá sé óljós.

Tillaga um heildarúttekt á tryggingarvernd

Í kjölfar óveðursins í desember 2019 var ráðist í afar umfangsmiklar aðgerðir til að greina og byggja upp áfallaþol samfélagsins alls. Meta þarf það verklag sem notast hefur verið við á síðustu árum við samhæfingu aðgerða og læra af reynslunni til frekari framfara.

Við álítum mikilvægt og tímabært að gera heildarúttekt á verklagi og aðgerðumog leggjum því í þriðja sinn fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Meðflutningsmenn koma úr öllum þingflokkum og á síðasta löggjafarþingi bárust 10 umsagnir sem styðja tillöguna og draga fram að fara þarf í aðgerðir sem flýtt geta úrvinnslu eftir tjón, stuðlað að frekara jafnræði og sanngirni og fækkað úrlausnarefnum sem stafa af óljósum reglum.

Samhliða því munum við beita okkur fyrir að samræmi í viðbrögðum við náttúruvá verði bætt og ágallar lagfærðir.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar og íbúar í NA kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. september 2022.