Categories
Fréttir Greinar

Nýr tækni­skóli rís við Flensborgarhöfn í Hafnar­firði

Deila grein

29/06/2024

Nýr tækni­skóli rís við Flensborgarhöfn í Hafnar­firði

Það má segja að vegferðin hafi farið af stað sumarið 2021 þegar viljayfirlýsing um framtíðarhúsnæði Tækniskólans var undirrituð hér í Hafnarfirði, m.a. af þáverandi menntamálaráðherra. Það var því stór stund í Hafnarfirði síðastliðinn fimmtudag þegar stjórnvöld, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn undirrituðu skuldbindandi samkomulag þess efnis að nýr Tækniskóli verði staðsettur í Hafnarfirði og verkefnið fari nú af stað af fullum krafti í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Vinna verkefnisstjórnar

Núverandi mennta- og barnamálaráðherra skipað verkefnisstjórn um framtíðarhúsnæði Tækniskólans sem skipuð var fulltrúum þeirra ráðuneyta sem hafa haft aðkomu að málum; forsætisráðuneytinu, mennta- og barnamálaráðuneytinun og fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hafnarfjarðarbæ og fulltrúum Tækniskólans. Verkefnisstjórnin skilaði af sér fyrir ári síðan og frá þeim tíma hefur verið unnið í samræmi við þá áætlun sem lagt var upp með. Það má því segja að afrakstur mikillar vinnu síðustu ára sé nú að koma í ljós og ánægjulegt að sjá raungerast.

Ég er þakklátur mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir að hafa treyst mér fyrir því að leiða verkefnisstjórn um þetta mikilvæga verkefni sem skilar svo þessari niðurstöðu. Hann hefur haft mikla trú á verkefninu frá upphafi og fylgt því fast eftir.

Þörf á nýju húsnæði fyrir Tækniskólann

Hér er um risavaxið skref í eflingu verk- og starfsnáms í landinu að ræða og hefur það verið forgangsverkefni menntamálaráðherra og Framsóknar á kjörtímabilinu. Ljóst er eftirspurnin er til staðar, bæði meðal nemenda og atvinnulífsins og því ánægjulegt að við stígum þetta mikilvæga skref til að mæta þeirri þörf og svara því ákalli sem við heyrum svo skýrt. Tækniskólinn er einn af burðarásum iðn-, starfs- og tæknináms á höfuðborgarsvæðinu og býr nú við húsakost sem er kominn til ára sinna. Í dag fer starfsemi skólans fram í átta byggingum á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Bygging nýs Tækniskóla markar því umbyltingu í aðstöðu til iðn-, starfs- og tæknináms á höfuðborgarsvæðinu. Hér er markmiðið skýrt; hér á að efla námið og aðstöðu, koma allri starfseminni fyrir á einum stað, bregðast við aukinni eftirspurn eftir náminu og mæta þörfum atvinnulífsins. Nú hefst undirbúningur við hönnun og framkvæmdir með áætluð verklok haustið 2029.

Ekkert gerist af sjálfu sér – mikil samgöngubót

Ég hef lengi talað við fyrir því að opinberum stofnunum, skólum og stórum vinnustöðum sé dreift með skynsamlegum hætti um landið. Það er gamaldags hugsun að halda að allt þurfi að staðsetja í miðborg Reykjavíkur. Við verðum að hætta að keyra alla í sömu átt snemma morguns og til baka seinni part dags. Við þekkjum þetta of vel. Hér er verið að vinna í samræmi við þetta og ég veit að framkvæmd sem þessi mun skipta íbúa á höfuðborgarsvæðinu gríðarlegu máli, svo ég tali nú ekki um nemendur og starfsfólk sem kemur af Suðurnesjum eða annars staðar frá.

Það er líka rétt að vissulega mun bygging og starfsemi sem þessi hafa áhrif á innviði í Hafnarfirði. Ég treysti bæjaryfirvöldum vel til þess að leysa farsællega úr þeim málum, en slíkar áhyggjur mega aldrei draga úr krafti okkar sem berjumst fyrir aukinni uppbyggingu, kröftugu atvinnulífi og betra samfélagi. Nýbygging Tækniskólans í Hafnarfirði er lyftistöng fyrir Hafnarfjörð og því ber að fagna.

Hér er rétt að þakka ráðherrum og öllum öðrum sem að málum hafa komið á einhverju stigi þessa verkefnis. Hér er framsýni í forgrunni og auðvitað ber líka að þakka bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði, bæði núverandi og þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili, fyrir staðfestu og stuðning – þvert á flokka. Svona vinnur Framsókn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar, frv. formaður verkefnisstjórnar um framtíðarhúsnæði Tækniskólans, frv. bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Árangurs­ríkur þingvetur skilar sam­fé­laginu í rétta átt

Deila grein

26/06/2024

Árangurs­ríkur þingvetur skilar sam­fé­laginu í rétta átt

Á Íslandi er gott að búa og hér höfum við byggt upp öflugt velferðarsamfélag; samfélag sem gefur atvinnulífi og einstaklingum súrefni til að vaxa og dafna, samhliða því að styðja við barnafjölskyldur og þá hópa sem höllum fæti standa. Um það sjást augljós merki nú við þinglok. Hér á landi er meiri hagvöxtur en í nágrannaríkjunum, atvinnustig er sterkt og hér hefur verið vaxandi kaupmáttur heimilanna ár eftir ár. Allt skiptir þetta máli og þegar ég horfi á stóru myndina er ég stoltur af okkar góða samfélagi sem hefur vissulega þurft að glíma við áskoranir síðustu misseri líkt og samfélög um heim allan.

Verjum lífskjör og velferð

Utanaðkomandi þættir sem við höfum litla sem enga stjórn á hafa haft óvenju mikil áhrif á okkar daglega líf. Verkefni stjórnvalda er að bregðast við með skynsamlegum aðgerðum sem miða að því að milda áhrifin á samfélagið og létta þeim byrðar sem þyngstar bera nú um stundir.

Hér ætla ég að nefna sérstaklega nýgerða langtímakjarasamninga. Þeir auka á fyrirsjáanleika þar sem markmiðið er að ná niður vöxtum og verðbólgu samhliða því að verja lífskjör og velferð hér á landi. Við gerð þessara samninga var lögð sérstök áhersla á vaxandi velsæld og stuðning við barnafjölskyldur, t.a.m. með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hækkun barnabóta, sérstökum vaxtastuðningi og stuðningi við leigjendur ásamt hærri fæðingarorlofsgreiðslum. Fyrir þessum raunverulegu aðgerðum hefur fólk fundið.

Fjárhagsleg staða eldri borgara á Íslandi er almennt sterk og hafa kjör hópsins batnað umtalsvert síðastliðinn áratug. Gildir það hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu. Kjör hópsins á ýmsum sviðum hafa batnað umfram yngri aldurshópa. Samhliða hafa útgjöld almannatrygginga til eldri borgara aukist verulega. Kaupmáttur 67 ára og eldri hefur undanfarinn áratug vaxið um að jafnaði tæplega 4% á ári. Sömuleiðis hafa útgjöld ríkisins til málefna aldraðra aukist um 25% að raunvirði frá árinu 2017 og um 91% frá árinu 2014.

Margar jákvæðar fréttir

Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú verið samið við sérgreinalækna, sjúkraþjálfara og tannlækna. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Að draga úr greiðsluþátttöku almennings við heilbrigðisþjónustu er liður í því að jafna aðgengi að þjónustunni óháð efnahag. Á þeim forsendum var styrkur til almennra tannréttinga tæplega þrefaldaður og hækkaði úr 150 þúsund krónum í 430 þúsund krónur þann 1. september síðastliðinn. Við breytinguna lækkar kostnaðarþátttaka almennings í almennum tannréttingum um 500 milljónir á ári.

Risastór skref hafa verið tekin á þessu kjörtímabili í þágu menningar í landinu. Það hefur sýnt sig að ógrynni tækifæra felast í því að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Verkefni af þessum toga eru atvinnu- og gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðari ímynd og auknum gjaldeyristekjum vegna komu ferðamanna hingað til lands. Það er morgunljóst að stuðningur við listir og skapandi greinar skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.

Áfram er unnið að því að efla verk- og starfsnám. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum síðustu ár og atvinnulífið kallar á slíka menntun. Mennta- og barnamálaráðherra hefur af því tilefni lagt ríka áherslu á uppbyggingu verk- og starfsnámsaðstöðu og stefnt er að byggja 12.000 fm fyrir námið um land allt auk þess sem nýr Tækniskóli mun rísa í Hafnarfirði.

Lífeyrissjóðir og heilbrigður leigumarkaður

Alþingi samþykkti nú fyrir þinglok breytingar á ákvæðum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Þar er lagt til að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta hluta eignasafns síns í félögum sem hafa það að meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til einstaklinga og til viðbótar að þeim verði heimilt að eiga stærri hlut en 20% í hverju leigufélagi sem hefur þá meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til langs tíma til einstaklinga. Hlutur hvers lífeyrissjóðs má þó ekki vera stærri en 50% í slíku félagi.

Ég hef á undanförnum árum skrifað fjölmargar greinar um stöðuna á húsnæðismarkaði og komið með tillögur að aðgerðum sem ég hef talið nauðsynlegt að ráðast í. Ein af þeim tillögum er meðal annars að auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í leigufélögum sem ég tel bæði mjög skynsamlega og brýna aðgerð á þeirri vegferð að byggja upp heilbrigðari leigumarkað en hér hefur verið til staðar með meira öryggi og fyrirsjáanleika fyrir fólk.

Það var því sérstaklega ánægjulegt að vera framsögumaður á þessu mikilvæga máli og að um málið hafi verið samstaða, þvert á flokka, í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það skiptir máli, enda skref í rétta átt.

Við höfum enn verk að vinna

Verðbólga hefur lækkað, en hún er enn of há. Það verður áfram verkefni okkar stjórnmálamanna þar sem við þurfum að halda áfram að vinna að því að ná henni enn frekar niður með skynsamlegum og raunhæfum aðgerðum. Við getum í því sambandi nefnt stöðuna á húsnæðismarkaði, en þar eru að mínu mati áskoranir sem hægt er að leysa hratt og örugglega sé viljinn til staðar. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að taka höndum saman – af mun meiri krafti og festu en hingað til. Hér þarf að halda áfram þeim góðu opinberu aðgerðum stjórnvalda til að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði, en jafnframt skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði.

Fólki á Íslandi er að fjölga hratt og það er fyrirséð að hér þurfi að byggja meira. Við vorum á réttri leið, en það hefur komið bakslag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á byggingarhæfum lóðum á nýjum svæðum. Þar hefur höfuðborgin á vakt Samfylkingarinnar borið mesta ábyrgð. Seðlabankinn hefur boðið upp á eitraðan kokteil með sinni stefnu. Hátt vaxtastig sem meðal annars eykur kostnað við byggingu húsnæðis og dregur úr vilja framkvæmdaaðila og hert lánþegaskilyrði sem torvelda kaupendum að stíga skref inn á fasteignamarkaðinn. Þannig hefur verið hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þvert á það sem þörf er á.

Að lokum

Við höfum þann eiginleika að vera tiltölulega bjartsýn þjóð. Við búum í góðu samfélagi og ég hef hér farið yfir margar góðar aðgerðir en líka þá hlið þar sem við þurfum að gera betur. Það er hægt. Við skulum tala samfélagið okkar upp, en ekki niður.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Categories
Fréttir Greinar

Nýr langtímasamningur við sjúkraþjálfara

Deila grein

29/05/2024

Nýr langtímasamningur við sjúkraþjálfara

Nýr samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjúkraþjálfara til fimm ára hefur verið undirritaður og staðfestur af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Þá hefur samningurinn verið samþykktur af Félagi sjúkraþjálfara sem lýsir yfir ánægju með samninginn. Samningurinn er svo sannarlega gleðileg tíðindi eftir fjögurra ára samningsleysi sem hefur bitnað hvað verst á þeim sem þurfa á þjónustu sjúkraþjálfara að halda.

Aukagjöld heyra sögunni til

Samningurinn tryggir að frá og með 1. júní næstkomandi falla niður aukagjöld sem lögð hafa verið á notendur þjónustunnar og tryggir hann þannig aðgengi þeirra sem þurfa hvað mest á henni að halda. Það má því segja að samningurinn stuðli að auknum jöfnuði. Fyrir mér er það lykilatriði. Á þeim tíma sem enginn samningur hefur verið í gildi við sjúkraþjálfara hafa Sjúkratryggingar tekið þátt í kostnaði við þjónustu þeirra samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Sjúkraþjálfarar hafa á þeim tíma innheimt aukagjald við hverja komu sem hefur gjarnan numið á bilinu 1.500 – 3.000 kr. Líkt og fyrr segir munu sjúkraþjálfarar hætta að innheimta þessi aukagjöld frá og með 1. júní.

Mikilvægt hlutverk

Sjúkraþjálfarar gegna mjög mikilvægu hlutverki á mjög víðtæku sviði endurhæfingar og viðhalda virkni einstaklinga með margvíslega sjúkdóma og afar mikilvægt að tryggja aðgengi að þjónustu þeirra óháð efnahag. Samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Heimsóknirnar voru mun fleiri, eða um 928.000. Árið 2022 leituðu 55.752 til sjúkraþjálfara sem er aukning um 11,3% á milli ára. Það sem af er ári 2024 hafa nú 41.964 farið í sjúkraþjálfun sem er 3,9% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Þá kemur fram að bætt aðgengi að sjúkraþjálfun með aukinni greiðsluþátttöku ríkisins árið 2017 hafi dregið úr nýgengi á örorku vegna stoðkerfissjúkdóma. Það má því með sanni segja að gott aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara sé hagkvæm ráðstöfun opinberra fjármuna.

Aukið þróunar- og gæðastarf

Samningurinn kveður líka á um margvíslegt þróunar- og gæðastarf þjónustunnar í þágu notenda, en það felst meðal annars í þarfa- og kostnaðargreiningu og mótun aðferða við forgangsröðun þjónustu. Auk þess sem efla á möguleika til fjölbreyttari þjónustuleiða til að mæta ólíkum þörfum skjólstæðinga og auka gæði. Hér er um að ræða afar mikilvægt skref til framtíðar og viðurkenning á mikilvægi sjúkraþjálfunar sem þó lengi hefur verið vitað um. Eitt er víst að þessi samningur kemur til með að hafa jákvæð áhrif á stöðu fjölmargra Íslendinga, hvort sem það er á fjárhag eða heilsu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á dv.is 29. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stutt við barna­fjöl­skyldur

Deila grein

10/05/2024

Stutt við barna­fjöl­skyldur

Á Alþingi var vikunni mælt fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024, en við vinnslu fjárlaga lá ekki fyrir með hvaða hætti stjórnvöld myndu koma að gerð kjarasamninga. Með frumvarpi til fjáraukalaga er nú verið að leita aukinna fjárheimilda til Alþingis vegna samninganna. Það má með sanni segja að hluti þeirra aðgerða sem mælt er hér fyrir miði að því að bæta hag barnafjölskyldna á landinu, enda er hér lögð sérstök áhersla á að stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Hér er fullt tilefni til að vekja sérstaklega athygli á þeim góðu og jákvæðu skrefum sem hér eru stigin í þá átt.

Vaxtastuðningur

Ungt fólk sem komið hefur inn á fasteignamarkaðinn síðustu ár hefur fundið mikið fyrir auknum vaxtakostnaði síðustu mánuði. Þessi aukni kostnaður leggst sérstaklega hart á barnafólk sem samhliða því að koma undir sér og sínum þaki yfir höfuðið þarf m.a. að greiða fyrir leikskóla, fæði, íþróttir og tómstundir svo eitthvað sé nefnt. Til þess að mæta auknum vaxtakostnaði verða á árinu greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en að heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma.

Barnabætur hækka

Barnabótakerfið hefur á kjörtímabilinu verið einfaldað og stuðningur efldur, nú á að bæta um betur. Hækka á barnabætur á samningstímanum ásamt því að draga úr tekjuskerðingu, þannig mun foreldrum sem fá stuðning með þessum hætti fjölga um 10.000. Í heildina munu framlög til barnabóta hækka um 3 milljarða króna á þessu ári og um 2 milljarða króna á árinu 2025 og verða þá orðin um 21 milljarður króna á ári.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Frá og með ágúst á þessu ári verða skólamáltíðir grunnskólabarna gjaldfrjálsar út árið 2027 í samræmi við gildistíma kjarasamninga á almennum markaði. Með þessum aðgerðum munu öll börn eiga kost á hollum og góðum skólamáltíðum. Börn búa vissulega við misjöfn kjör og koma úr mismunandi aðstæðum, en holl og staðgóð næring er þýðingarmikil fyrir þroska og starfsorku og óhætt er að fullyrða að vel nærð börn séu betur undirbúin til náms. Fyrir þessu hef ég talað frá því ég hóf minn feril í stjórnmálum og voru stigin markviss skref í þessa átt kjörtímabilið 2018-2022 í Hafnarfirði þegar systkinaafsláttur var í fyrsta skipti innleiddur í skólamáltíðir grunnskólabarna. Það er því sérstakt fagnaðarefni að nú sé skrefið stigið til fulls, en hér er að mínu mati um jafnréttis- og lýðheilsumál að ræða sem samhliða mun auka ráðstöfunartekjur venjulegs fjölskyldufólk umtalsvert.

Hærri greiðslur í fæðingarorlofi

Til þess að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þann 1. apríl 2024 voru þær hækkaðar úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr.

Hækkun húsnæðisbóta

Margar ungar barnafjölskyldur eru fastar á leigumarkaði. Til þess að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar. Aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar með fjölgun bótaflokka frá 1. júní n.k. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda eru hækkaðar um 25% og með því að taka tillit til fjölskyldustærðar verða þannig greiddar húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Betri skilyrði fyrir barnafjölskyldur

Stjórnvöld vilja skapa góð skilyrði fyrir barnafjölskyldur á Íslandi til þess að vaxa og dafna. Samhliða þessum aðgerðum leggja stjórnvöld ríka áherslu á að stuðla að minni verðbólgu og lækkun vaxta. Við sem stöfum á Alþingi vitum að róðurinn hefur verið þungur síðustu misseri og því er farið í markvissar aðgerðir sem þessar, þar sem markmiðið er að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera nú um stundir. Aðgerðirnar sem hér hefur verið farið yfir munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum eða um 500 þúsund kr. á ári.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Af húsnæðismarkaði og aðgerðum

Deila grein

18/04/2024

Af húsnæðismarkaði og aðgerðum

Ný­verið mælti Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra fyr­ir frum­varpi sem fel­ur í sér rýmk­un á heim­ild­um líf­eyr­is­sjóða til að fjár­festa í fé­lög­um þar sem meg­in­starf­sem­in er lang­tíma­leiga íbúðar­hús­næðis til ein­stak­linga. Það er rík ástæða til að fagna þessu frum­varpi og ég hef áður bent á mik­il­vægi þess í ræðu og riti. Líf­eyr­is­sjóðir þurfa að fá rýmri heim­ild til fjár­fest­inga á hús­næðismarkaði og taka þátt í því mik­il­væga verk­efni að byggja hér upp traust­an leigu­markað til framtíðar. Það er afar brýnt að ná tök­um á stöðunni á hús­næðismarkaði og hef ég bent á leiðir til þess svo hægt sé að ná tök­um á verðbólg­unni til lengri tíma. Þessi heim­ild sem nú hef­ur verið mælt fyr­ir er einn liður í þeirri veg­ferð, en meira þarf til.

Lengi hef­ur verið rætt um skort á leigu­hús­næði á Íslandi og meira ör­yggi á þeim markaði, ásamt fjöl­breytt­ari úrræðum á hús­næðismarkaði. Með því að veita líf­eyr­is­sjóðum heim­ild til þess að fjár­festa í leigu­hús­næði skap­ast aukn­ar for­send­ur fyr­ir því að líf­eyr­is­sjóðir beini fjár­magni í fjár­fest­ingu á leigu­hús­næði og raun­ger­ist slíkt, má vel halda því fram að slíkt muni halda aft­ur af verðhækk­un­um á fast­eigna­markaði. Aukið fram­boð á leigu­hús­næði fjölg­ar val­mögu­leik­um ein­stak­linga til að finna sér hent­ugt bú­setu­form. Þá eru fjár­sterk­ir lang­tíma­eig­end­ur mjög ákjós­an­leg­ir kaup­end­ur að hús­næði og það eitt kann að flýta fyr­ir upp­bygg­ingu íbúða.

Mark­viss skref

Lengi hef­ur verið kallað eft­ir því að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Að því hef­ur verið unnið síðustu ár á vakt Fram­sókn­ar og er óum­deilt. Það var meðal ann­ars gert með fram­lagn­ingu hús­næðis­stefnu síðastliðið haust en þar er um að ræða fyrstu heild­ar­stefnu í hús­næðismál­um til 15 ára og aðgerðaáætl­un til fimm ára. Með stefn­unni má stuðla að skil­virk­ari stjórn­sýslu þannig að stefna, áhersl­ur og aðgerðir í hús­næðismál­um skapi skil­yrði til að öll­um sé tryggt aðgengi að góðu og ör­uggu hús­næði með viðráðan­leg­um hús­næðis­kostnaði sem hent­ar ólík­um þörf­um hvers og eins. Það frum­varp tengt aukn­um heim­ild­um líf­eyr­is­sjóða sem Sig­urður Ingi fjár­mála- og efna­hags­ráðherra mælti fyr­ir ný­verið er í sam­ræmi við þá stefnu. Alls hafa níu frum­vörp sem eru hluti aðgerðanna í til­lögu til þings­álykt­un­ar um hús­næðis­stefnu verið í vinnslu eða verið lögð fram á Alþingi. Frum­vörp­in styðja við þau mark­mið sem stefn­an bygg­ist á.

Þá hafa ýms­ar aðrar aðgerðir komið til fram­kvæmda og má þar nefna að alls eru 2.643 nýj­ar leigu­íbúðir komn­ar í notk­un af þeim 3.486 íbúðum sem hafa fengið stofn­fram­lög frá ríki og sveit­ar­fé­lög­um á síðustu átta árum. Lang­flest­ar íbúðanna, eða um 2.227, eru á höfuðborg­ar­svæðinu. Þá hafa 806 íbúðir verið fjár­magnaðar í hlut­deild­ar­lána­kerf­inu, sem er nýtt kerfi og er leið fólks til að kom­ast inn á fast­eigna­markaðinn sem á ekki eða á erfitt með að safna fyr­ir fullri út­borg­un en get­ur greitt mánaðarleg­ar af­borg­an­ir. Skil­yrðin eru að vera að kaupa íbúð í fyrsta skipti eða að hafa ekki átt íbúð síðustu fimm ár. Það er aug­ljóst að hið op­in­bera hef­ur á und­an­förn­um árum verið að gera sitt til að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði og óum­deilt að án styrkr­ar for­ystu Fram­sókn­ar í upp­bygg­ingu nýs hús­næðis­kerf­is fyr­ir tekju- og eigna­litla væri staðan mun verri fyr­ir þá hópa sem hér er um rætt.

Við þurf­um Seðlabank­ann með

Stærsta áskor­un sam­fé­lags­ins í hús­næðismál­um á kom­andi árum snýr að því að tryggja nægt fram­boð af fjöl­breyttu hús­næði og skapa um­hverfi svo fýsi­legt sé fyr­ir fram­kvæmdaaðila á al­menn­um markaði að byggja hús­næði. Við vor­um á réttri leið, en það hef­ur komið bak­slag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á lóðum á nýj­um svæðum, vaxtaum­hverf­is og hertra lánþega­skil­yrða. Með öðrum orðum; það vant­ar lóðir, láns­fjár­magn er orðið mjög dýrt sem hef­ur letj­andi áhrif á fram­kvæmdaaðila og fólki hef­ur verið gert erfiðara um vik að kom­ast í gegn­um greiðslu­mat vegna hertra lánþega­skil­yrða. Þetta er eitraður kokteill í nú­ver­andi ástand þar sem nauðsyn­legt er að byggja til að anna eft­ir­spurn. Seðlabank­inn hef­ur að und­an­förnu, með aðgerðum sín­um, hlaðið í snjó­hengju kyn­slóða sem bíða eft­ir tæki­færi til að kom­ast út á markaðinn á sama tíma og hann hef­ur tafið fyr­ir þeirri nauðsyn­legu upp­bygg­ingu sem fram und­an er.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Góðar að­gerðir skila árangri, en meira þarf til

Deila grein

12/04/2024

Góðar að­gerðir skila árangri, en meira þarf til

Í gær mælti Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir frumvarpi sem veitir lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í félögum þar sem meginstarfsemin er langtímaleiga íbúðarhúsnæðis til einstaklinga. Ég fagna þessu frumvarpi enda hef ég áður í ræðu og riti bent á mikilvægi þess að veita lífeyrissjóðum rýmri heimild til fjárfestinga á húsnæðismarkaði og taka þátt í því mikilvæga verkefni að byggja hér upp traustan leigumarkað. Þá hefur það verið mér mikið kappsmál að benda á leiðir til þess að ná tökum á stöðunni á húsnæðismarkaði. Það er afar brýnt svo hægt sé að ná tökum á verðbólgunni til lengri tíma. Þessi heimild sem nú hefur verið mælt fyrir nú er einn liður í þeirri vegferð.

Auknar forsendur fyrir fjárfestingu

Lengi hefur verið rætt um skort á leiguhúsnæði á Íslandi ásamt fjölbreyttari úrræðum á húsnæðismarkaði. Með því að veita lífeyrissjóðum heimild til þess að fjárfesta í leiguhúsnæði skapast auknar forsendur fyrir því að lífeyrissjóðir beini fjármagni í fjárfestingu á leiguhúsnæði og er til þess fallið að halda aftur af verðhækkunum á fasteignamarkaði. Aukið framboð af leiguhúsnæði fjölgar valmöguleikum einstaklinga til að finna sér hentugt búsetuform. Þá eru fjársterkir langtímaeigendur mjög ákjósanlegir kaupendur að húsnæði og það eitt kann að flýta fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði.

Markviss skref

Lengi hefur verið kallað eftir að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Sigurður Ingi vann að því marki sem innviðaráðherra og þá ráðherra húsnæðismála. Það var meðal annars gert með framlagningu húsnæðisstefnu en þar er um að ræða fyrstu heildarstefnu í húsnæðismálum til 15 ára og aðgerðaáætlunar til 5 ára. Með stefnunni má stuðla að skilvirkari stjórnsýslu þannig að stefna, áherslur og aðgerðir í húsnæðismálum skapi skilyrði til að öllum sé tryggt aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins. Það frumvarp sem mælt var fyrir í gær er í samræmi við þá stefnu.

Alls hafa níu frumvörp sem eru hluti aðgerðanna í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu verið í vinnslu í ráðuneytinu eða hafa verið lögð fram á Alþingi. Frumvörpin styðja við þau markmið sem stefnan byggir á. Þá hafa ýmsar aðrar aðgerðir komið til framkvæmda og má þar nefna að alls eru 2.643 nýjar leiguíbúðir komnar í notkun af þeim 3.486 íbúðum sem hafa fengið stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum á síðustu átta árum. Langflestar íbúðanna, eða um 2.227 eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa 806 íbúðir verið fjármagnaðar í hlutdeildarlánakerfinu, sem er nýtt kerfi og er leið fólks til að komast inn á fasteignamarkaðinn sem á ekki, eða á erfitt með að safna fyrir fullri útborgun en getur greitt mánaðarlegar afborganir. Skilyrðin eru að vera kaupa íbúð í fyrsta skipti eða að hafa ekki átt íbúð síðustu 5 ár.

Það er augljóst að hið opinbera hefur á undanförnum árum verið að gera sitt til að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og óumdeilt að án styrkrar forystu Framsóknar í uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis fyrir tekju- og eignalitla væri staðan mun verri fyrir þá hópa sem hér er um rætt.

Það þurfa allir að dansa með

Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði. Við vorum á réttri leið, en það hefur komið bakslag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á lóðum á nýjum svæðum, vaxtaumhverfis og hertra lánþegaskilyrða. Með öðrum orðum; það vantar lóðir, lánsfjármagn er orðið mjög dýrt sem hefur letjandi áhrif á framkvæmdaaðila og það hefur verið gert fólki erfiðara um vik að komast í gegnum greiðslumat vegna hertra lánþegaskilyrða. Þetta er eitraður kokteill í núverandi ástand þar sem nauðsynlegt er að byggja til að anna eftirspurn.

Halda má því fram að Seðlabankinn hafi á undanförnu hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að komast út á markaðinn á sama tíma og hann hefur tafið fyrir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem fram undan er. Það er kominn tími til að vakna.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrsta lands­á­ætlun Ís­lands um sjald­gæfa sjúk­dóma

Deila grein

03/04/2024

Fyrsta lands­á­ætlun Ís­lands um sjald­gæfa sjúk­dóma

Skömmu fyrir páska skilaði vinnuhópur á vegum Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, drögum að landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Landsáætlun er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu við einstaklinga og aðstandendur þeirra sem falla undir skilmerki um sjaldgæfa sjúkdóma.

Sjaldgæfir sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á aðstandendur og eykst álagið með versnandi sjúkdómi og miklu varðar að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjaldgæfa sjúkdóma. Oft og tíðum hefur verið talað um hversu flókið það getur verið að afla sér upplýsinga og fá viðeigandi þjónustu. Með þessari landsáætlun eru nú lagðar fram tillögur sem fela í sér umtalsverðan sparnað í vinnuframlagi þeirra fjölmörgu sem að koma við greiningu á sjaldgæfum sjúkdómum ásamt tillögum sem minnka álag á sjúklinga og aðstandendur. Nóg er það fyrir.

Skýr heildarsýn

Í landsáætluninni er fjallað um fimm áhersluþætti og dregnar fram helstu áskoranir, tillögur til úrbóta og væntan ávinning af framkvæmd þeirra. Áherslurnar eru eftirfarandi:

  • Stuðla að hraðri og öruggri greiningu hjá þeim sem grunur er um að hafi sjaldgæfan sjúkdóm.
  • Tryggja aðgengi að meðferð og eftirfylgd sem taki mið af þörfum notenda.
  • Sjá til þess að þjónusta sé samfelld.
  • Bæta daglegt líf þeirra sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma.
  • Vinna að góðri skráningu og samræmdum kóða fyrir sjúkdóma og meðferð.

Hópurinn leggur einnig til að stórefla Miðstöð sjaldgæfra sjúkdóma við Landspítalann með því að miðstöðin verði miðja þekkingar, greininga og heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra. Áhersla er lögð á að einfalda núverandi þjónustukerfi þannig að hægt sé að sækja þekkingu og þjónustu sem mest á einum stað. Enn fremur er lagt til að upplýsingar um sjaldgæfa sjúkdóma, réttindi, þjónustu o.fl. verði gerðar sem aðgengilegastar þannig að hægt sé að nálgast þær á einum stað.

Líta verður á áætlunina sem viðmið fyrir varanlegar breytingar fyrir sjaldgæfa sjúkdóma. Sjaldgæfir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að greining, meðferð, endurhæfing og eftirfylgd krefst sérhæfðar þekkingar og mikillar þverfaglegrar samvinnu sem nær út fyrir heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan mikilvægi þess að hafa þjónustu sem þessa til staðar þá getur áætlun sem þessi sparað töluverðan kostnaður í heilbrigðiskerfinu og þjóðfélaginu almennt með markvissari þjónustu við þau sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra

Mikilvægt framfaraskref

Það er afar mikilvægt er að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til þess að bregðast við sjaldgæfum sjúkdómum svo að þeir sem greinast með þá verði ekki hornreka í heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar Evrópu eru sjaldgæfir sjúkdómar (e. orphan diseases) sjúkdómar sem eru lífshættulegir eða valda langvarandi fötlun hjá fimm eða færri af hverjum 10.000 manns á EES-svæðinu. Þekking á þessum sjúkdómum er oft fágæt, rannsóknir á þeim takmarkaðar og lækning fjarlæg. Með þessari landsáætlun, sem er mikið framfaraskref, er verið að styrkja umgjörðina um þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra, ásamt því að tryggja að betur sé fylgst með öllum sjaldgæfum sjúkdómum og séð til þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að nýjustu þekkingu í meðferðum við þeim.

Um leið og ég fagna þessari góðu vinnu sem ég veit að skiptir gríðarlegu máli fyrir þá sem hana snertir, þá er mikilvægt að fylgja henni vel eftir og tryggja að þær aðgerðir sem þar eru lagðar til komist til framkvæmda.

Ágúst Bjarni Garðarssonþingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Mark­vissar að­gerðir munu skila árangri á hús­næðis­markaði

Deila grein

28/03/2024

Mark­vissar að­gerðir munu skila árangri á hús­næðis­markaði

Of hátt vaxtastig og hert lánþegaskilyrði hafa haft letjandi áhrif á framkvæmdaaðila með þeim afleiðingum að við erum ekki að byggja nauðsynlegt magn íbúða til að anna eftirspurn. Á sama tíma sjáum við marga sem hafa góða greiðslugetu og mikinn vilja til að komast út á markaðinn og eignast húsnæði falla á greiðslumati. Hér er um að ræða fjölda fólks sem nú þegar eru að greiða háa húsaleigu. Það má segja að Seðlabankinn hafi á undanförnu hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að komast út á markaðinn á sama tíma og hann hefur tafið fyrir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem fram undan er. Þetta mun hafa afleiðingar. Þess utan hefur nú heilt bæjarfélag bæst við sem eykur enn á hlið eftirspurnar eftir húsnæði. Hér má vel spyrja sig að því hvort Seðlabankanum hafi ekki verið færð of mikil völd í hendur.

Kröftugar aðgerðir hins opinbera

Stjórnvöld liðkuðu fyrir gerð langtíma kjarasamninga með ýmsum aðgerðum þar sem aðgerðir á húsnæðismarkaði voru fyrirferðarmiklar. Til að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði verður ráðist í aðgerðir sem nema um 50 milljörðum króna á samningstímanum. Þar er markmiðið helst að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis. Þá verður ráðist í öfluga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis þar sem stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlána. Þar mun ríkissjóður leggja til 7-9 milljarða króna í stofnframlög á ári og tryggja hlutdeildarlán til að treysta húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað. Þessu til viðbótar og því semég fagna alveg sérstaklega er að vinna er hafin við skilvirkari stjórnsýslu húsnæðis- og byggingarmála auk þess sem veita á lífeyrissjóðum rýmri heimild til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.

Auknum vaxtakostnaði heimila mætt

Á árinu 2024 verða greiddir út allt að 7 milljarðar í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Sérstakur vaxtastuðningur kemur til afgreiðslu í tengslum við álagningu í maí 2024.

Aðferð húsaleiguígilda tekin upp frá og með júní​ Ársverðbólga hækkaði nokkuð óvænt nú í marsmánuði þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða. Reiknuð húsaleiga, það er kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hefur vegið þungt í útreikningum á vísitölu neysluverðs. Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að reiknuð húsaleiga væri ekki reiknuð inn í vísitölu með þessum hætti, heldur tekin upp betri og sanngjarnari leið. Hagstofa Íslands hefur um nokkurt skeið unnið að endurskoðun aðferða við mat á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs. Frá og með júní næstkomandi verður aðferð húsaleiguígilda notuð þess í staðvið útreikning á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs og munu niðurstöður sem birtar verða 27. júní 2024 því byggja á þeirri aðferð.

Húsaleiguígildi byggja á gagnasafni leigusamninga sem finna má í nýrri leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), en breytingar á húsleigulögum árið 2022 veitti HMS greiðari aðgang að upplýsingum um stóran hluta leigumarkaðsins. Vonast er til þess að nýja aðferðafræði dragi úr áhrifum sem skammtímasveiflur á fjármálamörkuðum hafa haft á mat Hagstofunnar á húsnæðisliðnum.

Ég hef fjallað um það í fjölda greina hversu mikilvægt það er að ná tökum á húsnæðismarkaðnum sem er stór liður í því verkefni að ná tökum á verðbólgu og þar samhliða lækkun vaxta. Þá er það augljóst að án styrkrar forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, í uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis fyrir tekju- og eignalitla væri staðan mun verri. Markvissar aðgerðir á húsnæðismarkaði líkt og farið hefur verið í munu skila árangri en Seðlabankinn þarf einnig að fara hugsa til framtíðar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.