Categories
Fréttir Greinar

Fyrsta lands­á­ætlun Ís­lands um sjald­gæfa sjúk­dóma

Deila grein

03/04/2024

Fyrsta lands­á­ætlun Ís­lands um sjald­gæfa sjúk­dóma

Skömmu fyrir páska skilaði vinnuhópur á vegum Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, drögum að landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Landsáætlun er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu við einstaklinga og aðstandendur þeirra sem falla undir skilmerki um sjaldgæfa sjúkdóma.

Sjaldgæfir sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á aðstandendur og eykst álagið með versnandi sjúkdómi og miklu varðar að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjaldgæfa sjúkdóma. Oft og tíðum hefur verið talað um hversu flókið það getur verið að afla sér upplýsinga og fá viðeigandi þjónustu. Með þessari landsáætlun eru nú lagðar fram tillögur sem fela í sér umtalsverðan sparnað í vinnuframlagi þeirra fjölmörgu sem að koma við greiningu á sjaldgæfum sjúkdómum ásamt tillögum sem minnka álag á sjúklinga og aðstandendur. Nóg er það fyrir.

Skýr heildarsýn

Í landsáætluninni er fjallað um fimm áhersluþætti og dregnar fram helstu áskoranir, tillögur til úrbóta og væntan ávinning af framkvæmd þeirra. Áherslurnar eru eftirfarandi:

  • Stuðla að hraðri og öruggri greiningu hjá þeim sem grunur er um að hafi sjaldgæfan sjúkdóm.
  • Tryggja aðgengi að meðferð og eftirfylgd sem taki mið af þörfum notenda.
  • Sjá til þess að þjónusta sé samfelld.
  • Bæta daglegt líf þeirra sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma.
  • Vinna að góðri skráningu og samræmdum kóða fyrir sjúkdóma og meðferð.

Hópurinn leggur einnig til að stórefla Miðstöð sjaldgæfra sjúkdóma við Landspítalann með því að miðstöðin verði miðja þekkingar, greininga og heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra. Áhersla er lögð á að einfalda núverandi þjónustukerfi þannig að hægt sé að sækja þekkingu og þjónustu sem mest á einum stað. Enn fremur er lagt til að upplýsingar um sjaldgæfa sjúkdóma, réttindi, þjónustu o.fl. verði gerðar sem aðgengilegastar þannig að hægt sé að nálgast þær á einum stað.

Líta verður á áætlunina sem viðmið fyrir varanlegar breytingar fyrir sjaldgæfa sjúkdóma. Sjaldgæfir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að greining, meðferð, endurhæfing og eftirfylgd krefst sérhæfðar þekkingar og mikillar þverfaglegrar samvinnu sem nær út fyrir heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan mikilvægi þess að hafa þjónustu sem þessa til staðar þá getur áætlun sem þessi sparað töluverðan kostnaður í heilbrigðiskerfinu og þjóðfélaginu almennt með markvissari þjónustu við þau sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra

Mikilvægt framfaraskref

Það er afar mikilvægt er að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til þess að bregðast við sjaldgæfum sjúkdómum svo að þeir sem greinast með þá verði ekki hornreka í heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar Evrópu eru sjaldgæfir sjúkdómar (e. orphan diseases) sjúkdómar sem eru lífshættulegir eða valda langvarandi fötlun hjá fimm eða færri af hverjum 10.000 manns á EES-svæðinu. Þekking á þessum sjúkdómum er oft fágæt, rannsóknir á þeim takmarkaðar og lækning fjarlæg. Með þessari landsáætlun, sem er mikið framfaraskref, er verið að styrkja umgjörðina um þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra, ásamt því að tryggja að betur sé fylgst með öllum sjaldgæfum sjúkdómum og séð til þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að nýjustu þekkingu í meðferðum við þeim.

Um leið og ég fagna þessari góðu vinnu sem ég veit að skiptir gríðarlegu máli fyrir þá sem hana snertir, þá er mikilvægt að fylgja henni vel eftir og tryggja að þær aðgerðir sem þar eru lagðar til komist til framkvæmda.

Ágúst Bjarni Garðarssonþingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Mark­vissar að­gerðir munu skila árangri á hús­næðis­markaði

Deila grein

28/03/2024

Mark­vissar að­gerðir munu skila árangri á hús­næðis­markaði

Of hátt vaxtastig og hert lánþegaskilyrði hafa haft letjandi áhrif á framkvæmdaaðila með þeim afleiðingum að við erum ekki að byggja nauðsynlegt magn íbúða til að anna eftirspurn. Á sama tíma sjáum við marga sem hafa góða greiðslugetu og mikinn vilja til að komast út á markaðinn og eignast húsnæði falla á greiðslumati. Hér er um að ræða fjölda fólks sem nú þegar eru að greiða háa húsaleigu. Það má segja að Seðlabankinn hafi á undanförnu hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að komast út á markaðinn á sama tíma og hann hefur tafið fyrir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem fram undan er. Þetta mun hafa afleiðingar. Þess utan hefur nú heilt bæjarfélag bæst við sem eykur enn á hlið eftirspurnar eftir húsnæði. Hér má vel spyrja sig að því hvort Seðlabankanum hafi ekki verið færð of mikil völd í hendur.

Kröftugar aðgerðir hins opinbera

Stjórnvöld liðkuðu fyrir gerð langtíma kjarasamninga með ýmsum aðgerðum þar sem aðgerðir á húsnæðismarkaði voru fyrirferðarmiklar. Til að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði verður ráðist í aðgerðir sem nema um 50 milljörðum króna á samningstímanum. Þar er markmiðið helst að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis. Þá verður ráðist í öfluga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis þar sem stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlána. Þar mun ríkissjóður leggja til 7-9 milljarða króna í stofnframlög á ári og tryggja hlutdeildarlán til að treysta húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað. Þessu til viðbótar og því semég fagna alveg sérstaklega er að vinna er hafin við skilvirkari stjórnsýslu húsnæðis- og byggingarmála auk þess sem veita á lífeyrissjóðum rýmri heimild til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.

Auknum vaxtakostnaði heimila mætt

Á árinu 2024 verða greiddir út allt að 7 milljarðar í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Sérstakur vaxtastuðningur kemur til afgreiðslu í tengslum við álagningu í maí 2024.

Aðferð húsaleiguígilda tekin upp frá og með júní​ Ársverðbólga hækkaði nokkuð óvænt nú í marsmánuði þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða. Reiknuð húsaleiga, það er kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hefur vegið þungt í útreikningum á vísitölu neysluverðs. Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að reiknuð húsaleiga væri ekki reiknuð inn í vísitölu með þessum hætti, heldur tekin upp betri og sanngjarnari leið. Hagstofa Íslands hefur um nokkurt skeið unnið að endurskoðun aðferða við mat á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs. Frá og með júní næstkomandi verður aðferð húsaleiguígilda notuð þess í staðvið útreikning á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs og munu niðurstöður sem birtar verða 27. júní 2024 því byggja á þeirri aðferð.

Húsaleiguígildi byggja á gagnasafni leigusamninga sem finna má í nýrri leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), en breytingar á húsleigulögum árið 2022 veitti HMS greiðari aðgang að upplýsingum um stóran hluta leigumarkaðsins. Vonast er til þess að nýja aðferðafræði dragi úr áhrifum sem skammtímasveiflur á fjármálamörkuðum hafa haft á mat Hagstofunnar á húsnæðisliðnum.

Ég hef fjallað um það í fjölda greina hversu mikilvægt það er að ná tökum á húsnæðismarkaðnum sem er stór liður í því verkefni að ná tökum á verðbólgu og þar samhliða lækkun vaxta. Þá er það augljóst að án styrkrar forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, í uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis fyrir tekju- og eignalitla væri staðan mun verri. Markvissar aðgerðir á húsnæðismarkaði líkt og farið hefur verið í munu skila árangri en Seðlabankinn þarf einnig að fara hugsa til framtíðar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Skörp stefnu­breyting Sam­fylkingarinnar

Deila grein

20/02/2024

Skörp stefnu­breyting Sam­fylkingarinnar

Enn á ný er nýr tónn sleginn hjá Samfylkingunni og nú eru það útlendingamálin. Það er ekki bara Evrópusambandsaðild og „nýja stjórnarskráin“ sem er komin ofan í kassa og inn í geymslu, því nú hefur flokkurinn tekið upp nýja stefnu í útlendingamálum sem reynt er að mála upp sem einhvers konar stefnumótun. Gamla stefna Samfylkingarinnar lúrir þó enn á heimasíðu flokksins, en þeim finnst betra að viðra aðra stefnu opinberlega, stefnu sem er orðin ansi keimlík stefnu Framsóknar.

Vindar blása í allar áttir

Á sínum tíma lýsti Logi Einarsson fyrrv. formaður Samfylkingarinnar því yfir að hann væri fullkomlega ósammála formanni systurflokks Samfylkingarinnar í Danmörku, Mette Frederiksen, þegar danskir jafnaðarmenn kynntu nýjar tillögur í útlendingamálum. Nú segist formaður Samfylkingarinnar vera að einhverju leyti sammála stefnu Mette Frederiksen hvað málefni útlendinga varðar. Þetta kemur á óvart þar sem meðlimir þingflokks Samfylkingarinnar hafa hingað til verið ósammála þeirri nálgun. Nú þegar kostnaður við málaflokkinn hefur aukist gríðarlega og ólga er farin að myndast í umræðum í samfélaginu þá er Samfylkingin tilbúin að hoppa á vagninn, þrátt fyrir að sami flokkur hafi ítrekað komið í veg fyrir mikilvægar kerfisbreytingar í þessum málaflokki næðu fram að ganga á Alþingi.

Hvað á formaðurinn við?

Ég furða mig á nálgun formanns Samfylkingarinnar. Hún talar í sífellu um innflytjendur og að fjölgun þeirra sé stórt vandamál, en reynir eftir fremsta megni að skauta fram hjá rót vandans, sem er það kerfi sem byggt hefur verið upp í kringum hælisleitendur. Formaðurinn gefur í og dregur úr á sama tíma. Þá gagnrýnir hún atvinnustefnu stjórnvalda og talar um atvinnugreinar sem við sjálf viljum ekki taka þátt í. Hvað á formaður Samfylkingarinnar við með þessum orðum? Er formaður Samfylkingarinnar að leggja til að lögð verði niður störf á landsbyggðinni, líkt og í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, iðnaði og svo framvegis? Öflugt atvinnulíf um land allt er forsenda byggðar um land allt. Það skulum við hafa í huga.

Við þurfum á innflytjendum að halda

Ég tel afar brýnt í umræðunni að rugla ekki saman innflytjendum og hælisleitendum. Sá sem hér skrifar getur ekki séð fyrir sér það samfélag sem við hér byggjum án innflytjenda. Staðreyndin er sú að innflytjendur halda uppi lífskjörum og hagvexti hér á landi. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar er hlutfall erlends starfsfólks í nær öllum íslenskum atvinnugreinum almennt orðið um 30-40%. Hingað til lands kemur vel menntað fólk sem vill setjast að í okkar góða samfélagi og við þurfum að nýta þá þekkingu. Hér má nefna nýsköpun sem dæmi svo eitthvað sé nefnt.

Tölum ekki niður innflytjendur, þeir eru fjársjóður fyrir okkur sem þjóð. Þegar að kemur að umræðu um innflytjendur þurfum við að beina spjótum okkar að því hvernig við getum hjálpað því fólki sem hér vill búa og skila til baka til samfélagsins. Hingað til hafa þeir flóttamenn sem hingað koma farið hratt inn á vinnumarkaðinn, en það hefur breyst á síðustu tveimur árum vegna tilhæfulausra umsókna sem erfitt hefur verið að ná tökum á. Ástæðan; ekki hefur verið hægt að gera nauðsynlegar breytingar á útlendingalöggjöfinni vegna meðal annars mjög mikillar andstöðu frá þingmönnum Samfylkingarinnar.

Heildarsýn í útlendingamálum

Að lokum er rétt að minnast á að ríkisstjórnin hefur nú sammælst um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Á grundvelli þeirra aðgerða verður tekið utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti með aukinni samhæfingu á milli ráðuneyta og stofnana. Ætlunin er að fækka umsóknum sem ekki uppfylla skilyrði um vernd og auka skilvirkni í afgreiðslu á umsóknum. Þannig má spara fé sem að hluta til verður nú nýtt í aukna íslenskukennslu, aðstoð við börn í skólum og samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk. Þá verður afgreiðslutími umsókna um alþjóðlega vernd styttur í 90 daga að meðaltali á hvoru stjórnsýslustigi fyrir sig.

Markmiðið er að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd innan málaflokksins, og bættri þjónustu til að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Með þessari heildarsýn er lögð áhersla á mannúð og virðingu og unnið gegn skautun í íslensku samfélagi. Horft verður sérstaklega til framkvæmdar þessara mála á Norðurlöndum þannig að aukið samræmi sé á milli landa.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­þarfa sóun úr sam­eigin­legum sjóðum?

Deila grein

15/02/2024

Ó­þarfa sóun úr sam­eigin­legum sjóðum?

Forstjóri Ríkiskaupa skrifaði um margt áhugaverð grein í tilefni Viðskiptaþings 2024. Það er fullt tilefni til að taka undir margt sem fram kemur í þeirri grein og ég hjó sérstaklega eftir þeim kafla er fjallaði um þær miklu fjárhæðir sem ríkið greiðir árlega í leigu á húsnæði. Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í grein Söru Lindar, forstjóra Ríkiskaupa, en þar segir:

„Árið 2023 keypti ríkið vörur, þjónustu og framkvæmdir fyrir ríma 260 milljarða og greiddi um 27 milljarða í leigu á húsnæði. Það er því eftir miklu að slægjast við að taka stjórn á þessum fjármunum og ráðstafa þeim með eins skynsamlegum hætti og frekast er unnt. Það er ekki einungis sjálfsögð krafa að farið sé vel með skattfé heldur getur aukið aðhald á þessu sviði skilað gríðarlegum fjármunum til samfélagsins, fjármunum sem nýta má þá til áframhaldandi styrkingar og uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum þess samfélags sem við viljum búa í.“

Þarna má segja að forstjórinn hafi hitt naglann á höfuðið eins og sagt er. Það er öllum, að minnsta kosti okkur flestum, augljóst að þarna sé svigrúm til að fara betur með okkar sameiginlegu sjóði og hef ég meðal annars lagt fram þingsályktun hvað þetta varðar sem myndi lækka þennan árlega kostnað umtalsvert.

Hugmyndafræði klasasamstarfs getur nýst

Umrædda þingsályktunartillögu hef ég lagt fram síðastliðin þrjú þing, en hún fjallar um það hvernig nýta megi hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana og stuðla þannig að hagræðingu. Þar erum við að tala um uppbyggingu opinbers klasa sem myndi tryggja hagræðingu í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum. Því til viðbótar getur opinbert klasasamstarf má nefna aukna framleiðni og nýsköpun sem leiðir til aukinnar verðmætasköpunar öllum til heilla.

Hér má sjá fyrir sér 5.000–6.000 m2 skrifstofuhúsnæði þar sem ynnu 250–300 starfsmenn nokkurra lítilla opinberra fyrirtækja og stofnana. Þetta er ekki meitlað í stein, en með slíkri útfærslu mætti þó ná fram hagræðingu með þeim samlegðaráhrifum sem yrðu í rekstri þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar yrðu. Þar má nefna alveg sérstaklega sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis og svo framvegis.

Lægstbjóðendur verða undir af óljósum ástæðum

Ég hef heyrt það víða að þegar ríkið hefur auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir hinar ýmsu stofnanir sé ekki alltaf samið við lægstbjóðendur. Þetta var tilefni fyrirspurnar til fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta þingi þar sem meðal annars var óskað eftir yfirlit yfir það hversu oft á síðustu tíu árum ríkið hafi gert samninga við aðra en lægstbjóðendur sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því hvers vegna ekki hafi verið samið við lægstbjóðanda. Svarið staðfesti það að í tíu tilfellum hafi ekki verið samið við lægstbjóðanda og ástæðurnar voru einu sinni nálægð við samstarfsaðila en níu sinnum hafi lægstbjóðandi ekki staðist kröfur húslýsingar.

Gott og vel, fyrir því kunna að vera málefnalegar ástæður en röksemdirnar eru við fyrstu sýn ansi þunnar þegar við berum saman við meðferð á opinberu fé. Svarið var því tilefni síðari fyrirspurnar minnar um hið sama mál þar sem ég óskaði eftir frekari skýringum á því hvaða kröfur það voru nákvæmlega sem lægstbjóðendur hefðu ekki uppfyllt ásamt upphæð lægstbjóðanda og þess tilboðs sem var tekið. Þeirri fyrirspurn minni var ekki svarið og í ljósi þess sem ég hef hér farið yfir þá tel ég fullt tilefni til þess að endurvekja hana og fá það upp á yfirborðið hvað það eru sem veldur því að ríkið hafi gert leigusamning við aðila sem buðu hærra verð. Fyrirspurnar læt ég fylgja hér með:

Fyrri fyrirspurn

Seinni fyrirspurn

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tölum um hvalrekaskatt

Deila grein

07/02/2024

Tölum um hvalrekaskatt

Hvalrekaskattar á banka hafa verið lagðir á í ýmsum ríkjum Evrópu að undanförnu og áform um slíkt hefur víða komið til tals. En hvað er hvalrekaskattur? Um að ræða sérstakan skatt sem stjórnvöld geta lagt á atvinnugreinar eða fyrirtæki sem hagnast óvænt vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna hækkana á vöruverði, hagstæðra breyting á reglum eða annarra ytri þátta sem leitt geta til óvenjulegrar aukningar á hagnaði og hafa í raun ekkert með daglegt rekstrarumhverfi fyrirtækja og ákvarðanir því tengdu að gera.

Ein helstu rökin fyrir notkun hvalrekaskatts eru að með honum er tímabundið hægt að vinna bug á tekjuójöfnuði með því að beina spjótum sínum að fyrirtækjum eða atvinnugreinum sem hagnast óeðlilega vegna fyrrnefnda ástæðna á kostnað heimila, fyrirtækja, neytenda eða skattgreiðenda. Stjórnvöld geta þannig með hvalrekaskatti stuðlað að sanngjarnari skiptingu byrða milli fólks og fyrirtækja.

Þaulreynd aðferðafræði

Hvalrekaskattur er ekki nýtt fyrirbæri en til hans hefur oft verið gripið á undanförnum áratugum í löndum sem við berum okkur saman við vegna óvenjulegra aðstæðna og aukningar í hagnaði af sérstökum aðstæðum. Skatturinn er samofinn ýmsum efnahagslegum og pólitískum viðburðum sem margir kannast við. Má þar nefna hvalrekaskatt á olíufyrirtæki í kjölfar olíukreppunnar árið 1970 sem var tilkomin vegna viðskiptabanns OPEC ríkjanna og leiddi til verulegrar hækkunar olíuverðs. Þá var skatturinn meðal annars settur á í Bandaríkjunum og Bretlandi. Aftur var hvalrekaskattur lagður á olíufyrirtæki í Bretlandi vegna óeðlilegs hagnaðar árið 1981 þegar hægristjórn Margrétar Thatcher var við völd. Þá kom Tony Blair, fyrrv. forsætisráðherra Breta og formaður verkamannaflokksins, hvalrekaskatti til leiðar á veitufyrirtæki.

Undanfarið ár hefur talsverð umræða átt sér stað víða í heiminum um hvalrekaskatta og fjölmörg lönd í Evrópu hafa innleitt þá á orkufyrirtæki vegna mikillar hækkunar raforkuverðs og stóraukins hagnaðar orkufyrirtækja sem að stórum hluta má rekja til árásarstríðs Rússa í Úkraínu. Skattinum er þannig ætla að koma til móts við almenning sem tekið hefur á sig talsvert þyngri byrðar vegna hás orkuverðs.

Ekki spurning um hægri eða vinstri

Það er sannfæring mín og okkar í Framsókn að þegar óvenjulegur hagnaður verður vegna tímabundins ójafnvægis á markaðnum eða annarra tímabundinna ytri þátta getur hvalrekaskattur hjálpað til við að leiðrétta slíka röskun og stuðlað að meira jafnvægi í efnahagslífinu, heimilum og fyrirtækjum til hagsbóta. Slíkt er ekki spurning um hægri eða vinstri strauma í stjórnmálum eins og dæmin sanna erlendis frá, heldur eðlileg viðbrögð ríkisins við óvenjulegu ástandi í samfélaginu.

Á tímum þar sem að stýrivextir hafa hækkað mikið og vaxtamunur bankanna hér á landi hafa aukist tel ég eðlilegt og sanngjarnt að íslensk stjórnvöld fari þá leið að setja á hvalrekaskatt með það að markmiði að styðja betur við þau heimili sem verst hafa orðið fyrir barðinu á hækkun vaxta. Til að mynda hafa hreinar vaxtatekjur íslensku bankanna margfaldast á árinu 2023 og hafa verið yfir arðsemismarkmiðum, það segir ákveðna sögu. Ég tel rétt á sama tíma að geta þess að ríkisstjórnin lagðist á árarnar á Covid tímabilinu og studdi við bakið á fyrirtækjum í landinu og nutu bankarnir þannig óbeint verulegs stuðnings frá hinu opinbera og hafa frá síðasta ári notið uppskeru þeirra aðgerða.

Skattheimta getur stuðlað að jöfnum tækifærum

Einn helsti átakapunktur stjórnmálanna snýr að skattheimtu og réttlátri skiptingu. Umræðu um skattheimtu hverju sinni, hvort sem hún snýr að fólki eða fyrirtækjum, þarf að taka með (fyrirsjáanlegum) yfirveguðum og málefnalegum hætti hverju sinni. Slæmar og illa ígrundaðar ákvarðanir í skattastefnustefnu stjórnvalda geta haft slæm áhrif á fyrirtæki og samfélagið í heild. Það gefur auga leið að slíkt er engu samfélagi til gagns. Það er hins vegar engum vafa undirorpið að skattheimta getur stuðlað að jöfnum tækifærum, félagslegum jöfnuði og sterkari samfélögum. Það eru til dæmis Norðurlöndin þekkt fyrir á heimsvísu sem við Íslendingar viljum oft og tíðum bera okkur saman við.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tals­maður nýrra skatta, eða sann­girni?

Deila grein

20/01/2024

Tals­maður nýrra skatta, eða sann­girni?

Undanfarið hefur mér verið tíðrætt um svokallaðan hvalrekaskatt. Að setja á tímabundinn skatt, við þær óvenjulegar aðstæður sem nú eru uppi, á hagnað fjármálafyrirtækja sem sömuleiðis er tilkominn vegna óvenjulegra aðstæðna. Fyrir þetta hef ég fengið hvatningu, en líka gagnrýni þar sem ég er hluti af stjórnarmeirihluta og stjórnarþingmaður og þannig hafi ég þetta á mínu valdi. Ég hef líka verið kallaður popúlisti. Ég skil þetta allt saman, þrátt fyrir að vera einlægt ósammála því síðasta.

Ég ætla mér ekki að fara í vörn enda stend ég staðfastur með því sem ég segi. Hins vegar held ég að flestir þeir sem til mín þekkja viti vel að ég er ekki talsmaður óþarflega hárra skatta eða óþarfa skatta almennt. Aðrir hafa séð um það. Þetta geta allir séð sem skoða fyrri verk mín og okkar. Ég get sérstaklega bent á tíma minn sem formaður bæjarráðs í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili þar sem við vorum í góðu meirihlutasamstarfi. Það tímabil lækkuðum við til að mynda skatta á fyrirtæki umtalsvert og héldum sköttum á fólki hóflegum. Það sést vel þegar litið er til þess að lítil sem engin eftirspurn hafði verið eftir atvinnulóðum í bænum, en eftir 17 punkta lækkun á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði, þar sem við fórum úr 1,57 í 1,40, sóttu í Hafnarfjörð öflug fyrirtæki með tilheyrandi auknum umsvifum í bæjarfélaginu. Ég hef gagnrýnt sveitarfélög fyrir of miklar gjaldskrárhækkanir um áramótin við núverandi aðstæður. Hafa þau efni á því að „afsala“ sér þeim tekjum? Nei, í rauninni ekki þar sem hér hafa verið gerðar auknar kröfur um þjónustu án þess að tekjustofnar sveitarfélaga hafi breikkað. Hafa þau efni á því að vera með háa vexti á sínum lánum? Nei, það hafa þau svo sannarlega ekki, þar sem sveitarfélög eru mörg hver þegar of skuldug og hver prósenta í hærri vöxtum hefur þar umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélaga.

Það sem ég er hér að segja er þetta; það er verkefni allra að ná niður verðbólgu og vöxtum og styðja viðkvæma hópa. Geta bankar létt undir með fólki, já. Geta sveitarfélög og ríki lagt hönd á plóg, já. Geta önnur fyrirtæki tekið þátt með því að sleppa því að setja allar hækkanir beint út í verðlag – svarið hér er líka já og þar skiptir engu hvort um sé að ræða fyrirtæki á almennum eða opinberum markaði. Þetta gerum við einungis öll saman ef vel á að takast til og ná markmiðinu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Deila grein

11/01/2024

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Verðbólga og háir vextir hafa áhrif á samfélagið allt þar sem byrðar fólks og fyrirtækja þyngjast með hverjum deginum. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum að stjórnmálin um heim allan eru með vindinn í fangið þessi misserin. Hækkanir á hækkanir ofan dynja á almenningi víða um heim og við hér á Íslandi erum ekki undanskilin og finnum fyrir þeim. Þá gildir einu hvort við séum að horfa á húsnæðislánin okkar, matarkörfuna, tryggingarnar eða hvað eina annað. Afleiðingar af þessum hækkunum eru að almenningur í landinu fær minna fyrir krónurnar sínar.

Við höfum oft og tíðum rætt um „venjulegt“ fólk og hina „venjulegu“ fjölskyldu; fólkið sem af einhverjum ástæðum fellur oft á milli skips og bryggju í hinni daglegu umræðu. Hér er um að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, hugsar um fjölskylduna, eldar matinn og borgar reikninga. Þessa hversdagslegu hluti og lífið gengur sinn vanagang dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli.

Við teljum að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta haft hátt um stöðuna eða telja sig jafnvel ekki eiga rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á gangandi og það er því til mikils að vinna að grípa inn í og létta undir þeim sem þyngstar bera byrðarnar í því árferði sem nú geisar.

Hvalrekaskattur – „við og þið“ eða „við og hinir“

Okkur hefur verið það tíðrætt síðustu mánuði að ef við ætlum okkur að ná tökum á ástandinu þurfa allir að taka þátt í því verkefni. Að taka þátt þýðir m.a. að stíga ölduna með fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Við erum að sjá mikinn hagnað viðskiptabankanna þriggja þar sem bæði þjónustutekjur og vaxtatekjur þeirra eru að hækka umtalsvert. Þetta er tilkomið vegna þess að vaxtabyrði „venjulegs“ fólks er að aukast. Það er ekki annað að skynja á umræðunni að upplifun fólks sé sú að hér á landi sé að skapast samfélag sem megi kalla „við og þið“ eða „við og hinir“. Við fréttir sem þessar verður það upplifun fólks, sem alls ekki má vanmeta, að hér séu ekki allir að taka þátt og leggja sitt að mörkum til að rétta skútuna og það er vont að finna fyrir þeirri tilfinningu. Almenningur er að taka á sig auknar byrðar með ýmsum hætti og það gengur ekki að hér séu aðilar, stórfyrirtæki og aðrir, sem halda að þeir séu eyland í þessu samfélagi sem við byggjum saman. Við erum í tímabundnu ástandi, sem kallar á óvenjulegar tímabundnar aðgerðir. Af þessari ástæðu teljum við það koma vel til greina að skattleggja hagnað og arðgreiðslur alveg sérstaklega og styðja enn markvissari hætti við þá hópa sem nú standa í miðjum ólgusjó. Annað er hreinlega ósanngjarnt.

Gerð langtíma kjarasamninga

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu til lengri tíma er óumdeilanlega að ná niður vöxtum.

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Þar teljum við meðal annars nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt sem yrði samfélagslega mjög dýrt.

Húsnæðismarkaður í jafnvægi

Líkt og fyrr segir þá heldur enginn hér á fríspili; ekki ríkið, ekki sveitarfélög, ekki Seðlabankinn og ekki fyrirtækin í landinu. Ábyrgðin er okkar allra. Rörsýn Seðlabankans hefur verið of mikil og of mikill skortur er á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og þora að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa haft verulega neikvæð áhrif á framboðshlið húsnæðis og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á öðrum enda. Annars vegar er dýrt að byggja íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er erfitt að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og hefur letjandi áhrif á uppbyggingaraðila og þar með fasteignamarkaðinn sem er alls ekki það sem við þurfum núna. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

Snjóhengja kynslóða er að myndast sem mun svo á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn, stíflan mun bresta og þá, ef ekki verður gefið vel í með annars vegar opinberum aðgerðum líkt og innviðaráðherra hefur ráðist í með aðgerðum í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin, og hins vegar á almennum byggingamarkaði. Þurfum að þora að taka ákvarðanir sem byggja á framtíðarsýn því ef við stígum ekki þessi nauðsynlegu skref þá munum við sjá skarpari sveiflu með tilheyrandi neikvæðum áhrif á landsmenn en þær sem við þegar þekkjum og erum að reyna að komast út úr.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar  
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 10. janúar 2024.