Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Deila grein

23/05/2024

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Upp­bygg­ing verk- og starfs­námsaðstöðu um allt land hef­ur verið al­gjört for­gangs­atriði mitt sem mennta­málaráðherra. Mark­miðið er að byggja um 12.000 fer­metra við flesta verk- og starfs­náms­skóla á land­inu á næstu árum. Nú þegar hef­ur verið skrifað und­ir samn­inga um stækk­un Mennta­skól­ans á Ísaf­irði, Fjöl­brauta­skóla Norður­lands vestra, Verk­mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri og Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja um sam­tals allt að 5.800 fer­metra auk þess sem fram­kvæmd­ir við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti eru á næsta leiti. Til viðbót­ar verða nýj­ar höfuðstöðvar Tækni­skól­ans byggðar í Hafnar­f­irði.

Að auka fram­boð og fjöl­breytni iðnnáms hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um okk­ar á þessu kjör­tíma­bili og hef­ur það skilað sér í bæði auk­inni aðsókn og mik­illi umræðu um mik­il­vægi þess að byggja upp sterkt og öfl­ugt iðnnám um allt land. Það er liðin tíð að umræðan snú­ist um að iðnnám sé síðri val­kost­ur fyr­ir ungt fólk. Nú eru nýir tím­ar, aðsókn hef­ur aldrei verið jafn mik­il og vísa þarf hundruðum um­sækj­end­um frá ár hvert. Við verðum að gera bet­ur, það er ekki nóg að benda á mik­il­vægi þess­ara greina, við sem sam­fé­lag verðum að tryggja að þeir sem hefja nám geti lokið því og gera sem flest­um kleift að sækja sér nám sem þeir hafa áhuga á.

Við sem skóla­sam­fé­lag verðum að skapa um­hverfi inn­an skól­anna sem ger­ir þeim kleift að bregðast við fram­förum í tækni og þörf­um vinnu­markaðar­ins. Þessi áform okk­ar um upp­bygg­ingu og stækk­un starfs­námsaðstöðu er til marks um að við ætl­um að bregðast við þessu ákalli og þess­ari þörf. Hverj­um hefði dottið það í hug um alda­mót að raf­magns­bíl­ar yrðu jafn vin­sæl­ir og þeir eru í dag en breyt­ing á starfi bif­véla­virkja er ein­mitt gott dæmi um iðnnám þar sem heil starfs­stétt hef­ur þurft að bregðast við hröðum tækni­breyt­ing­um. Að sama skapi þurfa málm- og vél­tækni­grein­ar sí­fellt að færa sig nær tölvu­stýrðum verk­fær­um og svo mætti lengi telja. Við þurf­um að geta boðið upp á nám sem bregst við ákalli sam­tím­ans og horf­ir til framtíðar.

Rétt und­ir 50 þúsund manns vinna í iðnaði á Íslandi í dag og hef­ur upp­bygg­ing sjald­an verið jafn mik­il. All­ar okk­ar spár gefa sterk­lega til kynna að sú upp­bygg­ing komi til með að halda áfram á næstu árum og ára­tug­um. Við eig­um ekki og ætl­um ekki að sitja og bíða eft­ir að aðstaða til verk- og starfs­náms springi og biðlist­ar inn í verk­nám leng­ist enn frek­ar. Lát­um verk­in tala, sýn­um vilja í verki og lyft­um upp því öfl­uga fólki sem kem­ur til með að stunda verk- og starfs­nám í framtíðinni.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Deila grein

11/03/2024

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur mik­il­vægi þess að skapa styðjandi vinnu­um­hverfi fyr­ir fjöl­skyld­ur aldrei verið meira. Sem mennta- og barna­málaráðherra er ég stolt­ur stuðnings­maður þeirr­ar mik­il­vægu vinnu sem áunn­ist hef­ur með ný­und­ir­rituðum kjara­samn­ing­um breiðfylk­ing­ar­inn­ar og sam­taka at­vinnu­lífs­ins, með öfl­ugri aðkomu rík­is og sveit­ar­fé­laga. Þeir samn­ing­ar sem hér um ræðir eru ekki aðeins lög­fræðileg skjöl; þeir eru vitn­is­b­urður um skuld­bind­ingu of­an­greindra aðila við að byggja sam­fé­lag sem met­ur vel­ferð hverr­ar fjöl­skyldu og hvers barns.

Fram­ganga sveit­ar­stjórn­ar­fólks Fram­sókn­ar á þess­ari veg­ferð hef­ur fyllt mig stolti. Enn frem­ur er full ástæða til að hrósa aðilum vinnu­markaðar og þá sér­stak­lega breiðfylk­ing­unni og verka­lýðshreyf­ing­unni í heild fyr­ir að taka skýra af­stöðu með börn­um og fjöl­skyld­um þeirra, en ekki síður að hafa tekið af full­um þunga þátt í því að skapa grund­völl fyr­ir vel­sæld og stöðug­leika í land­inu.

Ég er full­viss um að af­drátt­ar­laus aðkoma rík­is og sveit­ar­fé­laga að samn­ing­un­um hafa í för með sér fram­fara­skref fyr­ir þjóðina og er það á ábyrgð okk­ar allra nú að leggj­ast á eitt til að ná þeim mark­miðum sam­an. Um­fram allt er það mikið fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórn­valda sé skýr áhersla á að fjár­festa í börn­um og barna­fjöl­skyld­um. Það hef­ur aldrei verið brýnna að for­gangsraða í þágu jafnra tæki­færa og lífs­gæða þess hóps, sam­hliða því sem við sjá­um auk­in merki þess að efn­is­leg­ur skort­ur og ójöfnuður meðal barna sé að aukast.

Aðgerðapakki stjórn­valda mun stuðla að aukn­um lífs­gæðum og jöfnuði meðal barna- og fjöl­skyldna. Ein af stærri áhersl­um aðgerðapakk­ans er breyt­ing­ar á barna­bóta­kerf­inu. Barna­bæt­ur verða hækkaðar, sam­hliða því sem dregið verður úr tekju­skerðingu þeirra. Um 10.000 fleiri for­eldr­ar og for­sjáraðilar munu fá greidd­ar barna­bæt­ur.

Öllum börn­um á grunn­skóla­aldri verða tryggðar gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir. Reynsla ná­granna­ríkja á borð við Finn­land hef­ur sýnt að hér er um að ræða risa­stórt skref í átt að aukn­um jöfnuði fyr­ir öll börn. Skóla­kerfið er lang­öflug­asta jöfn­un­ar­tækið okk­ar og með því að fjár­festa í gjald­frjáls­um skóla­máltíðum efl­um við það enn frek­ar. Það er gam­an að geta þess að þessi aðgerð er einnig í sam­ræmi við eitt af áherslu­atriðum Barnaþings. Barnaþings­menn síðustu ára hafa lagt ríka áherslu á að komið verði á gjald­frjáls­um skóla­máltíðum, með jöfnuð að leiðarljósi.

Þá verða fæðing­ar­or­lofs­greiðslur hækkaðar í þrem­ur áföng­um yfir samn­ings­tím­ann, til að treysta mark­miðið um sam­vist­ir barna við báða for­eldra. Þá er samstaða allra samn­ingsaðila um að vinna sam­an að mót­un aðgerða til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla á samn­ings­tím­an­um. Það er okk­ur sem sam­fé­lagi lífs­nauðsyn­legt og þar ber sér­stak­lega að hrósa sveit­ar­fé­lög­un­um fyr­ir vilja þeirra til að ráðast í það verk­efni.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti horn­steinn þess að hægt sé að skapa sam­fé­lag á Íslandi sem gef­ur svig­rúm fyr­ir jafn­vægi í lífi vinn­andi for­eldra og for­sjáraðila. Þeir eru rammi utan um þá þætti sem stuðla að aukn­um lífs­gæðum, sveigj­an­leika vinnu­tíma og sam­vist­um for­eldra og barna. Slík­ar ráðstaf­an­ir gera for­eldr­um kleift að taka virk­ari þátt í lífi barna sinna, allt frá því að mæta á skóla­at­b­urði og að geta verið viðstödd þau augna­blik sem mestu máli skipta.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti upp­skrift að því hvernig sam­fé­lag varðveit­ir gildi sín um það sem skipt­ir mestu máli fyr­ir lífs­gæði og vel­sæld. Það þarf ekki að fara mörg­um orðum hversu stóru hlut­verki slík­ur sam­fé­lags­sátt­máli gegn­ir í lífi barna og fjöl­skyldna. Þegar við horf­um fram á veg­inn skul­um við halda áfram að vinna sam­an – ríkið, sveit­ar­fé­lög­in, at­vinnu­lífið og verka­lýðsfé­lög – til að móta sam­fé­lag sem end­ur­spegl­ar sam­eig­in­leg gildi og von­ir okk­ar. Með þann hugs­un­ar­hátt að leiðarljósi erum við ekki aðeins að auka lífs­gæði nú­ver­andi kyn­slóða, held­ur einnig að ryðja veg­inn fyr­ir framtíð þar sem hvert barn á Íslandi get­ur dafnað.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Deila grein

31/08/2023

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Flest þekkjum við þau áhrif og tæknibreytingar sem þróun snjallsíma hefur haft á líf okkar, við erum orðin vön því að hafa allar upplýsingar, bæði gagnlegar og ógagnlegar við höndina. Við þekkjum líka flest hversu auðvelt það er að ánetjast símanum og eyða miklu meira tíma en við viljum í marklausu vafri um samfélagsmiðla og vefsíður. Langflest börn í dag eiga síma alveg eins og við fullorðna fólkið, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Símunum fylgja auðvitað ýmsir kostir en líka áskoranir sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum, og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn ásamt andlegri og líkamlegri heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólumbæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.

Stuðlum gegn neikvæðum áhrifum farsímanotkunar á börn

Þess vegna hef ég kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Reglurnar verðaunnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar er að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.

Skiptar skoðanir

Það er vissulega margt sem er verulega jákvætt við nýja tækni en við þurfum að kunna að umgangast hana eins og allt annað. Við þurfum að vinna gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi, sérstaklega hjá börnum. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Markmiðið með þeirri vinnu sem nú fer af stað er að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við og umgangast þessa tækni af ábyrgð og þekkingu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðveldið og framtíðin

Deila grein

17/06/2023

Lýðveldið og framtíðin

Það var fram­sýnt og þýðing­ar­mikið skref sem Alþingi Íslend­inga steig fyr­ir 79 árum, þegar tek­in var ákvörðun um stofn­un lýðveld­is­ins Íslands. Þar með lauk bar­áttu þjóðar­inn­ar fyr­ir fullu frelsi og nýr kafli í sögu henn­ar hófst. Það er enn rík ástæða til þess að fagna þess­um tíma­mót­um. Við fögn­um þess­um áfanga í dag en hverj­um þjóðhátíðar­degi má líkja við vörðu á veg­ferð frels­is og fram­fara til þess að gera ís­lenskt þjóðfé­lag betra í dag en það var í gær.

Saga fram­fara

Sum­um þótti það svaðilför og fjar­stæðukennt á sín­um tíma að þjóð sem taldi inn­an við 130 þúsund manns í svo stóru og víðfeðmu landi gæti dafnað og vaxið sem sjálf­stæð þjóð. Þegar litið er yfir tíma­bilið frá lýðveldis­töku þá er niðurstaðan skýr og ótví­ræð. Íslend­ing­um hef­ur farn­ast vel við að reisa þrótt­mikið og öfl­ugt sam­fé­lag sem þykir einkar far­sælt til bú­setu. All­ar göt­ur frá lýðveld­is­stofn­un hafa alþjóðateng­ing­ar verið sterk­ar og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni og lífs­kjör mjög góð í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Staða Íslands er sterk í sögu­legu sam­hengi þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir og skap­andi grein­ar blómastra. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn held­ur ligg­ur að baki þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið.

Ábyrgð stjórn­mál­anna

Stjórn­mála­mönn­um hvers tíma er fal­in mik­il ábyrgð að halda á því fjör­eggi sem stjórn lands­ins er. Her­mann Jónas­son, fyrr­ver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra, komst vel að orði í blaðagrein sinni Lýðveldið og framtíðin í 17. júní út­gáfu Tím­ans árið 1944. Þar rit­ar Her­mann; „Í stað bar­átt­unn­ar fyr­ir því að öðlast sjálf­stæðið, hefst ný bar­átta því til varn­ar. Það er sá þátt­ur, sem nú er að hefjast. Það verður meg­in­hlut­verk okk­ar, er nú lif­um, – að tryggja hinu fengna frelsi ör­ugg­an, efna­leg­an og menn­ing­ar­leg­an grund­völl og skila því síðan óskertu til óbor­inna kyn­slóða“. Þetta eru orð að sönnu sem ávallt eiga er­indi við stjórn­mál­in. Að und­an­förnu höf­um við verið minnt á að frjáls sam­fé­lags­gerð er ekki sjálf­gef­in, meðal ann­ars með ófyr­ir­leit­inni og ólög­legri inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Árás­in vek­ur upp ófriðardrauga fortíðar frá tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar og kalda stríðsins. Þessi ógn­vekj­andi at­b­urðarás alþjóðamál­anna hef­ur sýnt enn frek­ar fram á mik­il­vægi breiðrar sam­vinnu þjóða til að rækta þau grunn­gildi sem mestu máli skipta: Frelsi, lýðræði og mann­rétt­indi.

Aðals­merki þjóðar­inn­ar

Tveir af horn­stein­um lýðræðis­sam­fé­lags­ins eru frjáls­ar kosn­ing­ar og öfl­ug­ir fjöl­miðlar. Það er eng­um vafa und­ir­orpið að öfl­ug­ir fjöl­miðlar skiptu sköp­um í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar. Miðlun frétta á þjóðtung­unni okk­ar, ís­lensku, var ein helsta rök­semd þess að Íslend­ing­ar væru sér­stök þjóð og að sjálf­stæðis­kröf­ur okk­ar væru rétt­mæt­ar. Vék Her­mann Jónas­son einnig að þessu í fyrr­nefndri þjóðhátíðarút­gáfu Tím­ans árið 1944: „Eitt er víst. Blaðakost­ur á Íslandi er til­tölu­lega sterk­ur. Hann mót­ar móður­málið okk­ar, sem er aðals­merki þjóðar­inn­ar og grund­vall­ar­rétt­ur henn­ar til sjálf­stæðis. Það eru og blöðin sem ráða lang­mestu um góðvilja milli manna og flokka. Blöðin ráða miklu um það, hvaða stefnu áhuga­mál al­menn­ings taka. Þau hafa eins, eins og nú er komið, mik­il áhrif á hugs­an­ir alls al­menn­ings, móta þær eða setja á þær sinn blæ viðkom­andi mönn­um og mál­efn­um. Þau eru skóli og upp­eld­is­stofn­un þjóðar – góður eða vond­ur.“ Það er áhuga­vert að lesa þessi orð Her­manns, 79 árum eft­ir að hann ritaði þau, og heim­færa upp á sam­tím­ann þar sem örar tækni­breyt­ing­ar, eins og í gervi­greind, hafa leitt af sér stór­ar áskor­an­ir fyr­ir fjöl­miðla hér á landi sem og tungu­málið okk­ar.

Stærsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða

Það er mik­il­vægt fyr­ir grund­völl lýðræðis­ins að tak­ast á við slík­ar áskor­an­ir af festu. Her­mann Jónas­son gerði sér grein fyr­ir nauðsyn þess að sjá fyr­ir hætt­ur og tak­ast á við þær frá fyrsta degi. Með það fyr­ir aug­um ritaði hann eft­ir­far­andi: „Það er ekki vanda­laust svo fá­mennri þjóð að vernda sjálf­stæði sitt og lifa menn­ing­ar­lífi sem sjálf­stæð þjóð. Þess­um vanda vilj­um við gera okk­ur grein fyr­ir þegar í upp­hafi. Hætt­urn­ar hverfa því aðeins að menn sjái þær nógu snemma til að af­stýra þeim.“ Í þess­um anda hafa þýðing­ar­mik­il skref verið tek­in á und­an­förn­um árum til þess að styðja við rit­stýrða einka­rekna fjöl­miðla til þess að gera þá bet­ur í stakk búna til þess að tak­ast á við hið breytta lands­lag, sinna lýðræðis­legu hlut­verki sínu og miðla efni á ís­lenskri tungu. Fjöl­miðlastefna og aðgerðir henni tengd­ar verða kynnt­ar í haust. Að sama skapi hef­ur ís­lensk tunga verið sett í önd­vegi með marg­háttuðum aðgerðum til þess að snúa vörn í sókn í henn­ar nafni, meðal ann­ars með mál­tækni­áætl­un stjórn­valda sem stuðlar að því að ís­lensk­an verði gerð gjald­geng í heimi tækn­inn­ar. Viðhald og vöxt­ur ís­lensk­unn­ar er um­fangs­mikið verk­efni sem er mik­il­vægt að heppn­ist vel. Ljóst er að það er ekki á færi ör­fárra ein­stak­linga að vinna slíkt verk, held­ur er um að ræða helsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða. Það er mik­il­vægt að vel tak­ist til enda geym­ir ís­lensk tunga sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar og er und­ir­staða lýðræðis­legr­ar umræðu hér á landi.

Lær­dóm­ar forfeðranna

Til­koma lýðveld­is­ins fyr­ir 79 árum síðan var heilla­drjúgt skref og aflvaki fram­fara. Sú staðreynd, að við get­um fjöl­mennt í hátíðarskapi til þess að fagna þess­um merka áfanga í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­sögð. Það bar­áttuþrek, sú þraut­seigja og bjart­sýni á framtíð Íslands, sem end­ur­speglaðist í orðum og gjörðum forfeðra okk­ar í sjálf­stæðis­bar­átt­unni, geym­ir mik­il­væga lær­dóma. Þar voru öfl­ug­ir fjöl­miðlarn­ir og þjóðtung­an í lyk­il­hlut­verki. Með sam­vinn­una að leiðarljósi ætl­um við í Fram­sókn að halda áfram að leggja okk­ar af mörk­um til þess að treysta stoðir Íslands, líkt og flokk­ur­inn hef­ur gert í tæp 107 ár, enda skipt­ir lýðveldið og framtíðin okk­ur öll miklu máli. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir og Ásmund­ur Ein­ar Daðason.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2023.

Categories
Greinar

Ný Þjóðar­höll tekur á sig mynd

Deila grein

17/01/2023

Ný Þjóðar­höll tekur á sig mynd

Það var fagnaðarefni að kynna mikilvægan áfanga í átt að nýrri Þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir í gær, ásamt forsætisráðherra og borgarstjóra. Við gerum öll kröfu til okkar íþróttafólks um framúrskarandi árangur og eðlilegt að okkar íþróttafólk geri kröfu til okkar um framúrskarandi aðstöðu til æfinga og keppni. Það er mér kappsmál að greiða götu þessarar uppbyggingar og erum við nú einu skrefi nær. Frumathugun er lokið og hefur Þjóðarhöllin tekið á sig mynd.

Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra íþróttamála var að skipa stýrihóp um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga fyrir innanhússíþróttir, knattspyrnu og frjálsíþróttir. Ákveðið var að byrja á Þjóðarhöllinni og vinna áfram að undirbúningi þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum samhliða.

Verkefnið er unnið í breiðu samstarfi ríkis, borgar og íþróttahreyfingarinnar. Framkvæmdanefndin hóf störf í ágúst í kjölfar viljayfirlýsingar ríkis og borgar um byggingu nýrrar Þjóðarhallar. Hún nýtur ráðgjafar sérfræðinga í íþróttastarfi og skilar tillögum til stýrihópsins.

Laugardalshöllin, eins vel og hún hefur þjónað þjóðinni, er komin til ára sinna og uppfyllir ekki alþjóðakröfur. Ný höll verður stærri með 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 manns á tónleikum í 19.000m2 húsnæði með bætta aðstöðu fyrir íþróttafólk, áhorfendur, skipuleggjendur og fjölmiðla.

Laugardalurinn, verður sem og áður, hjarta íþróttastarfs hérlendis. Þjóðarhöllin er fyrirhuguð sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut. Þannig næst góð tenging við almenningssamgöngur og önnur mannvirki á svæðinu.

Áhersla er á að Þjóðarhöllin verði fjölnota, að hún uppfylli þarfir íþróttafélaga og landsliða og alþjóðakröfur en nýtist einnig fyrir stóra viðburði s.s. tónleika og sýningar. Gert er ráð fyrir greiðu aðgengi almennings dagsdaglega með veitingarekstri, möguleikum til æfinga og góðu flæði milli Þjóðarhallar, Laugardalshallar og Frjálsíþróttarhallar sem áfram munu nýtast vel.

Málefni þjóðarleikvanga hafa lengi verið í umræðunni og málið brýnt. Gott samstarf stjórnvalda, borgar og íþróttahreyfingarinnar hefur gegnt lykilhlutverki í framgangi málsins og að finna útfærslu sem mætir þörfum samfélagsins. Við erum komin á góða ferð en nú þarf kné að fylgja kviði. Næstu skref eru að klára deiliskipulag og hefja útboð. Markmiðið er fyrirmyndaraðstaða til íþróttaiðkunar og keppni. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Deila grein

11/01/2023

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Íþróttir eru gríðarlega mikilvægar þegar kemur að uppeldi barna og unglinga og forvarnargildi þeirra er margsannað. Íþróttafélög um allt land halda úti ómetanlegu starfi sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Þegar Covid-19 faraldurinn reis sem hæst stóð íþróttahreyfingin hins vegar frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum sem höfðu veruleg áhrif á starf íþróttafélaga um allt land.

Af þessum sökum lagði ég fram tillögur þess efnis að ráðist yrði í aðgerðir til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög landsins vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur valdið á starf þeirra.

Nú í byrjun árs er mennta- og barnamálaráðuneytið að ljúka greiðslum á síðustu styrkjum til íþróttahreyfingarinnar til að bæta upp það tekjutap sem hún varð fyrir vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Lokagreiðslan nemur alls 450 milljónum króna. Sambærileg úthlutun að upphæð 450 milljónir króna átti sér stað vorið 2020 og önnur úthlutun að upphæð 300 milljónir króna í árslok sama ár. Þá fengu íþróttafélög rúmlega 1,6 milljarða króna í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Að auki var 100 milljónum sérstaklega úthlutað á fjáraukalögum 2021 til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða sem féllu utan framangreindra styrkja og sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga. Alls nemur stuðningurinn því tæpum þremur milljörðum króna vítt og breitt innan hreyfingarinnar.

Markmiðið með stuðningnum var að gera íþróttafélögum kleift að brúa það gat sem myndaðist þegar allt starf féll niður vegna samkomutakmarkana og að tryggja að sem minnstar raskanir yrðu á íþróttaiðkun barna til lengri tíma litið. Stjórnvöld þurftu að stíga fast til jarðar svo að starfsemi íþróttafélaga myndi ekki leggjast af og að viðspyrnan yrði sem best eftir faraldurinn. Það tókst. Við búum áfram við öflugt íþróttastarf sem þakka má elju starfsfólks og þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að starfi íþróttahreyfingarinnar á hverjum degi. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tíma­mót í barna­vernd

Deila grein

28/12/2022

Tíma­mót í barna­vernd

Nú um áramótin koma til framkvæmda umfangsmiklar breytingar á barnaverndarlögum sem samþykktar voru á Alþingi árið 2021. Breytingarnar eru mikilvægur hluti þeirrar kerfisbreytingar sem unnið er að í málefnum barna. Pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir munu heyra sögunni til og þess í stað taka til starfa þrjú ný umdæmisráð barnaverndar. Eitt í Reykjavík, annað fyrir aðra hluta höfuðborgarsvæðisins og hið þriðja fyrir landsbyggðirnar.

Hlutverk umdæmisráða verður að kveða upp úrskurði um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir í barnaverndarmálum, til að mynda um vistanir barna utan heimila og ákvarðanir um umgengni barna í varanlegu fóstri við kynforeldra sína. Umdæmisráðin verða sjálfstæðar stjórnsýslueiningar, aðskildar frá starfsemi barnaverndarþjónustu, sem mun fara með daglega meðferð og vinnslu barnaverndarmála.

Fagþekking skilyrði í umdæmisráðum

Hingað til hafa barnaverndarnefndir verið pólitískt skipaðar og þeir starfsmenn barnaverndarkerfisins sem fara með daglega vinnslu mála verið starfsmenn þeirra nefnda. Formlegur aðskilnaður milli þessara tveggja stiga, barnaverndarþjónustu og umdæmisráða, á að tryggja betri gæði ákvarðana og efla faglegar forsendur fyrir þeim.

Hvert umdæmisráð verður skipað einum lögfræðingi, sem einnig mun vera formaður ráðsins, einum félagsráðgjafa og einum sálfræðingi. Skipað er í ráðin til fimm ára í senn. Ríkar kröfur eru gerðar um fagþekkingu og hæfni þessara aðila þar sem reikna má með að allra þyngstu mál barnaverndarkerfisins rati fyrir ráðin. Ráðin munu hafa það hlutverk að leysa úr málunum með skjótum og vandvirkum hætti.

Ég er ótrúlega ánægður með að þær stóru kerfisbreytingar á umhverfi barna sem við höfum unnið að undanfarin ár séu byrjaðar að skila sér. Verkefnið fram undan er svo að bæta enn frekar hvernig við veitum börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu.

Ásmundur Einar Daðason.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra.

Categories
Greinar

Takk sjálfboðaliðar!

Deila grein

05/12/2022

Takk sjálfboðaliðar!

Ásmund­ur Ein­ar Daðason: „Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar.

Í dag er alþjóðleg­ur dag­ur sjálf­boðaliðans. Af því til­efni hef­ur mennta- og barna­málaráðuneytið beint sjón­um að mik­il­vægi sjálf­boðaliða fyr­ir íþrótta- og æsku­lýðsstarf með kynn­ingar­átaki und­ir yf­ir­skrift­inni „al­veg sjálfsagt“. Það er til um­hugs­un­ar um vinnu­fram­lag sem er aðdá­un­ar­vert og hreint ekki sjálfsagt. Í dag fer fram ráðstefna ráðuneyt­is­ins um þær áskor­an­ir sem skipu­leggj­end­ur starfs sem reiðir sig á sjálf­boðaliða standa frammi fyr­ir.

Með því að fagna deg­in­um vilja Sam­einuðu þjóðirn­ar benda á mik­il­vægi sjálf­boðastarfs fyr­ir sam­fé­lagið og heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna um sjálf­bæra þróun. Evr­ópuk­ann­an­ir gefa til kynna að um 30% Íslend­inga eldri en 18 ára vinni sjálf­boðastörf á hverj­um tíma. Við minn­umst með þakk­læti og hlýju þeirra ótal sjálf­boðaliða sem á hverj­um degi verja tíma sín­um í marg­vís­leg sam­fé­lags­leg verk­efni af um­hyggju og ein­stakri ósér­hlífni.

Í heims­far­aldr­in­um kom mik­il­vægi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs fyr­ir sam­fé­lagið allt ber­lega í ljós. Þegar við sigl­um út úr far­aldr­in­um er mik­il­vægt að skoða hvort starf með sjálf­boðaliðum hafi breyst og hvaða áskor­an­ir eru fram und­an.

Við þurf­um að hlúa vel að sjálf­boðastarf­inu okk­ar og búa þannig um að það haldi áfram að vera eft­ir­sókn­ar­vert. Áfram þarf að und­ir­búa nýj­ar kyn­slóðir und­ir kom­andi verk­efni þar sem sjálf­boðastarf verður áfram mik­il­vægt. Sjálf­boðaliðar þurfa að geta öðlast þekk­ingu og reynslu sem nýt­ist til lífstíðar og að tak­ast á við spenn­andi og krefj­andi verk­efni á eig­in for­send­um. Ekki síður er mik­il­vægt að þátt­taka í sjálf­boðastarfi geti áfram skapað tæki­færi til að kynn­ast nýju fólki og skapa vina­tengsl til fram­búðar. Í sam­fé­lagi þar sem sam­keppni um tíma fólks og at­hygli verður sí­fellt meiri er áskor­un að ná til ein­stak­linga sem reiðubún­ir eru að taka að sér sjálf­boðastörf og finna verk­efni við hæfi.

Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar. Fögn­um því að búa í sam­fé­lagi þar sem þátt­taka í sjálf­boðastarfi er jafn sjálf­sögð og raun ber vitni.

Takk sjálf­boðaliðar!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. desember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

Deila grein

09/11/2022

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn var fyrst haldinn formlega hérlendis árið 2011 og hefur verið haldinn árlega síðan. Einelti kemur okkur öllum við og það er góð hugmynd að huga sérstaklega að því, til dæmis á eigin vinnustað, hvort forvarnir og viðbragðsáætlanir gegn einelti séu til staðar og uppfærðar. Þá vil ég einnig hvetja vinnustaði til þess að standa fyrir fræðslu og viðburðum sem hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu og samstöðu í tilefni dagsins.

Einelti getur falist í útilokun, ofbeldi, stafrænu einelti og fleiru. Ekkert form af einelti er betra eða verra en annað – einelti á hvergi að líðast.

Í lögum um grunnskóla segir meðal annars að allir nemendur eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan og að grunnskólar skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eigi rétt á að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Barn sem verður fyrir einelti í skóla finnur ekki til öryggis og nýtir ekki að fullu hæfileika sinna eða nýtur að fullu bernsku sinnar. Það er lagaskylda á þeim sem starfa í skólum að fylgjast með líðan og almennri velferð nemenda og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við sé vegið að þeim atriðum.

Barn sem verður fyrir einelti getur glímt við afleiðingar þess um alla ævi, líkt og við höfum séð ótal dæmi um þegar hugrakkir einstaklingar stíga fram og segja sína sögu. Börn eiga ekki að þurfa að glíma við einelti sem þau verða fyrir sjálf, heldur er það skylda okkar fullorðinna að grípa inn í, hafi einelti átt sér stað, og ekki síður að fyrirbyggja að komi til eineltis.

Allir skólar eiga að búa yfir áætlunum gegn einelti og er gott að nýta tækifærið á degi eineltis til að yfirfara þær áætlanir og sjá hvort þurfi að uppfæra þær eða kynna þær betur innan skólanna. Takist skóla, eða sveitarfélaginu sem rekur skólann, ekki að uppræta einelti á eigin vegum er hægt að leita til fagráðs eineltismála sem hefur aðsetur í Menntamálastofnun. Fagráðið er stuðningsaðili við skólasamfélagið, og veitir meðal annars almenna ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar auk þess að gefa út ráðgefandi álit á grundvelli gagna sem berast um einstök mál. Fyrirhugað er að efla enn frekar hlutverk fagráðsins en starf þess hefur gefið góða raun.

Það er ekki hægt að skrifa grein um einelti án þess að ræða sérstaklega um stafrænt einelti, sem eðli máls samkvæmt hefur aukist mjög á undanförnum árum. Við sem foreldrar þekkjum fæst hvernig stafrænu einelti er beitt meðal barnanna okkar af eigin raun þar sem sú tækni sem nú er hluti hversdags barna okkar var ekki til staðar þegar við vorum á þeirra aldri. Við þurfum að fylgjast vel með því sem börnin okkar eru að gera á samfélagsmiðlum og grípa inn í strax ef okkur grunar að barn sé að verða fyrir eða beita stafrænu einelti. Á því berum við ábyrgð. Ekki hvað síst þurfum við að sýna í verki að hvers lags niðurrif gagnvart öðru fólki er ekki í boði.

Verum fyrirmyndir!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2022.