Categories
Greinar

Ný Þjóðar­höll tekur á sig mynd

Deila grein

17/01/2023

Ný Þjóðar­höll tekur á sig mynd

Það var fagnaðarefni að kynna mikilvægan áfanga í átt að nýrri Þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir í gær, ásamt forsætisráðherra og borgarstjóra. Við gerum öll kröfu til okkar íþróttafólks um framúrskarandi árangur og eðlilegt að okkar íþróttafólk geri kröfu til okkar um framúrskarandi aðstöðu til æfinga og keppni. Það er mér kappsmál að greiða götu þessarar uppbyggingar og erum við nú einu skrefi nær. Frumathugun er lokið og hefur Þjóðarhöllin tekið á sig mynd.

Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra íþróttamála var að skipa stýrihóp um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga fyrir innanhússíþróttir, knattspyrnu og frjálsíþróttir. Ákveðið var að byrja á Þjóðarhöllinni og vinna áfram að undirbúningi þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum samhliða.

Verkefnið er unnið í breiðu samstarfi ríkis, borgar og íþróttahreyfingarinnar. Framkvæmdanefndin hóf störf í ágúst í kjölfar viljayfirlýsingar ríkis og borgar um byggingu nýrrar Þjóðarhallar. Hún nýtur ráðgjafar sérfræðinga í íþróttastarfi og skilar tillögum til stýrihópsins.

Laugardalshöllin, eins vel og hún hefur þjónað þjóðinni, er komin til ára sinna og uppfyllir ekki alþjóðakröfur. Ný höll verður stærri með 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 manns á tónleikum í 19.000m2 húsnæði með bætta aðstöðu fyrir íþróttafólk, áhorfendur, skipuleggjendur og fjölmiðla.

Laugardalurinn, verður sem og áður, hjarta íþróttastarfs hérlendis. Þjóðarhöllin er fyrirhuguð sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut. Þannig næst góð tenging við almenningssamgöngur og önnur mannvirki á svæðinu.

Áhersla er á að Þjóðarhöllin verði fjölnota, að hún uppfylli þarfir íþróttafélaga og landsliða og alþjóðakröfur en nýtist einnig fyrir stóra viðburði s.s. tónleika og sýningar. Gert er ráð fyrir greiðu aðgengi almennings dagsdaglega með veitingarekstri, möguleikum til æfinga og góðu flæði milli Þjóðarhallar, Laugardalshallar og Frjálsíþróttarhallar sem áfram munu nýtast vel.

Málefni þjóðarleikvanga hafa lengi verið í umræðunni og málið brýnt. Gott samstarf stjórnvalda, borgar og íþróttahreyfingarinnar hefur gegnt lykilhlutverki í framgangi málsins og að finna útfærslu sem mætir þörfum samfélagsins. Við erum komin á góða ferð en nú þarf kné að fylgja kviði. Næstu skref eru að klára deiliskipulag og hefja útboð. Markmiðið er fyrirmyndaraðstaða til íþróttaiðkunar og keppni. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Deila grein

11/01/2023

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Íþróttir eru gríðarlega mikilvægar þegar kemur að uppeldi barna og unglinga og forvarnargildi þeirra er margsannað. Íþróttafélög um allt land halda úti ómetanlegu starfi sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Þegar Covid-19 faraldurinn reis sem hæst stóð íþróttahreyfingin hins vegar frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum sem höfðu veruleg áhrif á starf íþróttafélaga um allt land.

Af þessum sökum lagði ég fram tillögur þess efnis að ráðist yrði í aðgerðir til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög landsins vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur valdið á starf þeirra.

Nú í byrjun árs er mennta- og barnamálaráðuneytið að ljúka greiðslum á síðustu styrkjum til íþróttahreyfingarinnar til að bæta upp það tekjutap sem hún varð fyrir vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Lokagreiðslan nemur alls 450 milljónum króna. Sambærileg úthlutun að upphæð 450 milljónir króna átti sér stað vorið 2020 og önnur úthlutun að upphæð 300 milljónir króna í árslok sama ár. Þá fengu íþróttafélög rúmlega 1,6 milljarða króna í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Að auki var 100 milljónum sérstaklega úthlutað á fjáraukalögum 2021 til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða sem féllu utan framangreindra styrkja og sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga. Alls nemur stuðningurinn því tæpum þremur milljörðum króna vítt og breitt innan hreyfingarinnar.

Markmiðið með stuðningnum var að gera íþróttafélögum kleift að brúa það gat sem myndaðist þegar allt starf féll niður vegna samkomutakmarkana og að tryggja að sem minnstar raskanir yrðu á íþróttaiðkun barna til lengri tíma litið. Stjórnvöld þurftu að stíga fast til jarðar svo að starfsemi íþróttafélaga myndi ekki leggjast af og að viðspyrnan yrði sem best eftir faraldurinn. Það tókst. Við búum áfram við öflugt íþróttastarf sem þakka má elju starfsfólks og þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að starfi íþróttahreyfingarinnar á hverjum degi. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tíma­mót í barna­vernd

Deila grein

28/12/2022

Tíma­mót í barna­vernd

Nú um áramótin koma til framkvæmda umfangsmiklar breytingar á barnaverndarlögum sem samþykktar voru á Alþingi árið 2021. Breytingarnar eru mikilvægur hluti þeirrar kerfisbreytingar sem unnið er að í málefnum barna. Pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir munu heyra sögunni til og þess í stað taka til starfa þrjú ný umdæmisráð barnaverndar. Eitt í Reykjavík, annað fyrir aðra hluta höfuðborgarsvæðisins og hið þriðja fyrir landsbyggðirnar.

Hlutverk umdæmisráða verður að kveða upp úrskurði um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir í barnaverndarmálum, til að mynda um vistanir barna utan heimila og ákvarðanir um umgengni barna í varanlegu fóstri við kynforeldra sína. Umdæmisráðin verða sjálfstæðar stjórnsýslueiningar, aðskildar frá starfsemi barnaverndarþjónustu, sem mun fara með daglega meðferð og vinnslu barnaverndarmála.

Fagþekking skilyrði í umdæmisráðum

Hingað til hafa barnaverndarnefndir verið pólitískt skipaðar og þeir starfsmenn barnaverndarkerfisins sem fara með daglega vinnslu mála verið starfsmenn þeirra nefnda. Formlegur aðskilnaður milli þessara tveggja stiga, barnaverndarþjónustu og umdæmisráða, á að tryggja betri gæði ákvarðana og efla faglegar forsendur fyrir þeim.

Hvert umdæmisráð verður skipað einum lögfræðingi, sem einnig mun vera formaður ráðsins, einum félagsráðgjafa og einum sálfræðingi. Skipað er í ráðin til fimm ára í senn. Ríkar kröfur eru gerðar um fagþekkingu og hæfni þessara aðila þar sem reikna má með að allra þyngstu mál barnaverndarkerfisins rati fyrir ráðin. Ráðin munu hafa það hlutverk að leysa úr málunum með skjótum og vandvirkum hætti.

Ég er ótrúlega ánægður með að þær stóru kerfisbreytingar á umhverfi barna sem við höfum unnið að undanfarin ár séu byrjaðar að skila sér. Verkefnið fram undan er svo að bæta enn frekar hvernig við veitum börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu.

Ásmundur Einar Daðason.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra.

Categories
Greinar

Takk sjálfboðaliðar!

Deila grein

05/12/2022

Takk sjálfboðaliðar!

Ásmund­ur Ein­ar Daðason: „Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar.

Í dag er alþjóðleg­ur dag­ur sjálf­boðaliðans. Af því til­efni hef­ur mennta- og barna­málaráðuneytið beint sjón­um að mik­il­vægi sjálf­boðaliða fyr­ir íþrótta- og æsku­lýðsstarf með kynn­ingar­átaki und­ir yf­ir­skrift­inni „al­veg sjálfsagt“. Það er til um­hugs­un­ar um vinnu­fram­lag sem er aðdá­un­ar­vert og hreint ekki sjálfsagt. Í dag fer fram ráðstefna ráðuneyt­is­ins um þær áskor­an­ir sem skipu­leggj­end­ur starfs sem reiðir sig á sjálf­boðaliða standa frammi fyr­ir.

Með því að fagna deg­in­um vilja Sam­einuðu þjóðirn­ar benda á mik­il­vægi sjálf­boðastarfs fyr­ir sam­fé­lagið og heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna um sjálf­bæra þróun. Evr­ópuk­ann­an­ir gefa til kynna að um 30% Íslend­inga eldri en 18 ára vinni sjálf­boðastörf á hverj­um tíma. Við minn­umst með þakk­læti og hlýju þeirra ótal sjálf­boðaliða sem á hverj­um degi verja tíma sín­um í marg­vís­leg sam­fé­lags­leg verk­efni af um­hyggju og ein­stakri ósér­hlífni.

Í heims­far­aldr­in­um kom mik­il­vægi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs fyr­ir sam­fé­lagið allt ber­lega í ljós. Þegar við sigl­um út úr far­aldr­in­um er mik­il­vægt að skoða hvort starf með sjálf­boðaliðum hafi breyst og hvaða áskor­an­ir eru fram und­an.

Við þurf­um að hlúa vel að sjálf­boðastarf­inu okk­ar og búa þannig um að það haldi áfram að vera eft­ir­sókn­ar­vert. Áfram þarf að und­ir­búa nýj­ar kyn­slóðir und­ir kom­andi verk­efni þar sem sjálf­boðastarf verður áfram mik­il­vægt. Sjálf­boðaliðar þurfa að geta öðlast þekk­ingu og reynslu sem nýt­ist til lífstíðar og að tak­ast á við spenn­andi og krefj­andi verk­efni á eig­in for­send­um. Ekki síður er mik­il­vægt að þátt­taka í sjálf­boðastarfi geti áfram skapað tæki­færi til að kynn­ast nýju fólki og skapa vina­tengsl til fram­búðar. Í sam­fé­lagi þar sem sam­keppni um tíma fólks og at­hygli verður sí­fellt meiri er áskor­un að ná til ein­stak­linga sem reiðubún­ir eru að taka að sér sjálf­boðastörf og finna verk­efni við hæfi.

Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar. Fögn­um því að búa í sam­fé­lagi þar sem þátt­taka í sjálf­boðastarfi er jafn sjálf­sögð og raun ber vitni.

Takk sjálf­boðaliðar!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. desember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

Deila grein

09/11/2022

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn var fyrst haldinn formlega hérlendis árið 2011 og hefur verið haldinn árlega síðan. Einelti kemur okkur öllum við og það er góð hugmynd að huga sérstaklega að því, til dæmis á eigin vinnustað, hvort forvarnir og viðbragðsáætlanir gegn einelti séu til staðar og uppfærðar. Þá vil ég einnig hvetja vinnustaði til þess að standa fyrir fræðslu og viðburðum sem hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu og samstöðu í tilefni dagsins.

Einelti getur falist í útilokun, ofbeldi, stafrænu einelti og fleiru. Ekkert form af einelti er betra eða verra en annað – einelti á hvergi að líðast.

Í lögum um grunnskóla segir meðal annars að allir nemendur eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan og að grunnskólar skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eigi rétt á að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Barn sem verður fyrir einelti í skóla finnur ekki til öryggis og nýtir ekki að fullu hæfileika sinna eða nýtur að fullu bernsku sinnar. Það er lagaskylda á þeim sem starfa í skólum að fylgjast með líðan og almennri velferð nemenda og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við sé vegið að þeim atriðum.

Barn sem verður fyrir einelti getur glímt við afleiðingar þess um alla ævi, líkt og við höfum séð ótal dæmi um þegar hugrakkir einstaklingar stíga fram og segja sína sögu. Börn eiga ekki að þurfa að glíma við einelti sem þau verða fyrir sjálf, heldur er það skylda okkar fullorðinna að grípa inn í, hafi einelti átt sér stað, og ekki síður að fyrirbyggja að komi til eineltis.

Allir skólar eiga að búa yfir áætlunum gegn einelti og er gott að nýta tækifærið á degi eineltis til að yfirfara þær áætlanir og sjá hvort þurfi að uppfæra þær eða kynna þær betur innan skólanna. Takist skóla, eða sveitarfélaginu sem rekur skólann, ekki að uppræta einelti á eigin vegum er hægt að leita til fagráðs eineltismála sem hefur aðsetur í Menntamálastofnun. Fagráðið er stuðningsaðili við skólasamfélagið, og veitir meðal annars almenna ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar auk þess að gefa út ráðgefandi álit á grundvelli gagna sem berast um einstök mál. Fyrirhugað er að efla enn frekar hlutverk fagráðsins en starf þess hefur gefið góða raun.

Það er ekki hægt að skrifa grein um einelti án þess að ræða sérstaklega um stafrænt einelti, sem eðli máls samkvæmt hefur aukist mjög á undanförnum árum. Við sem foreldrar þekkjum fæst hvernig stafrænu einelti er beitt meðal barnanna okkar af eigin raun þar sem sú tækni sem nú er hluti hversdags barna okkar var ekki til staðar þegar við vorum á þeirra aldri. Við þurfum að fylgjast vel með því sem börnin okkar eru að gera á samfélagsmiðlum og grípa inn í strax ef okkur grunar að barn sé að verða fyrir eða beita stafrænu einelti. Á því berum við ábyrgð. Ekki hvað síst þurfum við að sýna í verki að hvers lags niðurrif gagnvart öðru fólki er ekki í boði.

Verum fyrirmyndir!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Deila grein

25/10/2022

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Hinn 17. október sl. kynnti ég áform um viðamiklar breytingar á menntakerfinu og ný heildarlög um skólaþjónustu. Uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um allt land, sem byggð er á þrepaskiptum stuðningi, er ein af meginaðgerðum menntastefnu til ársins 2030. Að baki menntastefnunni var umfangsmikið samráð og greiningarvinna við að þróa og byggja upp íslenska menntakerfið til framtíðar. Nú er kominn tími til að hrinda þessum verkþætti í framkvæmd og ná þannig mikilvægum áfanga í þágu farsældar barna.

Markmið nýrra laga er að tryggja jafnræði í þjónustu við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum óháð aldri, uppruna og búsetu, mæta ákalli um aukna ráðgjöf og stuðning við starfsfólk og stjórnendur á vettvangi skólans, efla þverfaglega samvinnu og samþættingu milli skóla- og þjónustustiga í þágu farsældar barna og tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum.

Í þeirri vinnu sem er fram undan er mikilvægt að fá fram sjónarmið sem flestra til að ná farsælli niðurstöðu. Samráð við hlutaðeigandi gegnir lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir haghafa skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa. Nú fyrir helgi sendi ég boð til haghafa um allt land og hvet öll sem hafa áhuga til að taka þátt í samráði og móta skólaþjónustu til framtíðar.

Á næstu vikum taka til starfa samráðshópar þar sem kallað er eftir víðtæku samráði við börn og ungmenni, foreldra, kennara, stjórnendur og starfsfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólaþjónustu og öðrum þjónustukerfum.

Þau sem hafa áhuga á því að taka þátt í þessari vinnu eru hvött til að senda inn ábendingar eða skrá sig til þátttöku í samráðshópum með því að senda póst á netfangið mrn@mrn.is með „Skólaþjónusta“ í efnislínu fyrir lok dags 4. nóvember nk.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Ný þjóðar­höll í í­þróttum

Deila grein

29/09/2022

Ný þjóðar­höll í í­þróttum

Við Íslendingar höfum átt öflugt íþróttafólk í gegnum tíðina í mörgum íþróttum sem náð hefur undraverðum árangri undir fána smáþjóðar. Samkeppnin harðnar stöðugt og í dag er ekki lengur nóg að hafa hæfileika og metnað til að komast í fremstu röð. Fyrsta flokks aðstaða til íþróttaiðkunar skiptir einnig höfuðmáli.

Málefni þjóðarleikvanga í íþróttum hafa verið til umræðu um alllangt skeið. Kjarni málsins er að okkar fremsta afreksfólk og landslið hafa ekki aðgang að æfingaraðstöðu eða mannvirkjum sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar aðstöðu í dag. Núverandi þjóðarleikvangar eru komnir til ára sinna og aðstaðan úrelt. Kröfurnar snúa ekki eingöngu að aðstöðu til íþróttaiðkunar heldur einnig að aðstöðu og aðgengi fyrir fjölmiðla, öryggi og jákvæðri upplifun áhorfenda. Með auknum kröfum vegna alþjóðlegrar keppni er jafnframt hætta á því að heimaleikir íslenskra landsliða, sem nú eru haldnir á undanþágu, geti ekki farið fram hér á landi. Við það verður ekki unað og það er forgangsverkefni að hraða byggingu þjóðarleikvanga í íþróttum eins og kostur er.

Boltinn fer að rúlla

Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra íþróttamála var að skipa stýrihóp um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga fyrir innanhússíþróttir, knattspyrnu og frjálsíþróttir. Víðtækt samtal átti sér stað við íþróttahreyfinguna og Reykjavíkurborg og er myndin byrjuð að skýrast. Byrjað verður á þjóðarhöll í innanhússíþróttum en undirbúningur fyrir nýja þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum heldur áfram samhliða.

Þann 6. maí síðastliðinn var undirrituð viljayfirlýsing með forsætisráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur um byggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir í Laugardalnum. Viljayfirlýsingin er fjórþætt. Í fyrsta lagi að ráðist verði í byggingu Þjóðarhallar í samstarfi ríkis og Reykjavíkurborgar, í annan stað að Þjóðarhöllin verði í Laugardal, í þriðja lagi að skipuð verði framkvæmdanefnd og í fjórða lagi að framkvæmdum ljúki árið 2025.

Framkvæmdanefndin hefur hafið störf og það var ánægjulegt að taka þátt í fyrsta fundi nefndarinnar í ágúst. Mikill hugur, kraftur og jákvæðni var í hópnum. Hún vinnur nú að því að skilgreina mannvirkið, ákvarða rekstrarform og áætla kostnað. Fyrsti fasi verkefnisins er í fullum gangi og samkvæmt áætlun.

Ný þjóðarhöll þarf að rísa hratt og örugglega

Við Íslendingar gerum miklar kröfur til íþróttafólks um afrek og framúrskarandi árangur. Það er eðlilegt að íþróttafólk og hreyfingin öll geri kröfur til stjórnvalda um viðunandi aðstöðu til að hámarka árangur.

Eins vel og Laugardalshöllin hefur þjónað íslensku íþróttalífi er hún barn síns tíma. Með nýrri höll í Laugardalnum verður umgjörð fyrir faglega þætti starfsins, fjölmiðla og áhorfendur eins og best verður á kosið. Við ætlum að klára verkefnið og sjá til þess að afreksíþróttafólk okkar Íslendinga geti notið aðstöðu á heimsmælikvarða.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og ritari Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. september 2022.

Categories
Greinar

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Deila grein

16/08/2022

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Sambandsslit og skilnaðir foreldra eru áfall fyrir börn. Alvarleiki þess konar áfalls og áhrifin af því geta hins vegar verið mjög mismunandi. Það er sérstaklega erfitt þegar illdeilur koma upp milli foreldra og þá geta áhrifin verið alvarleg og langvarandi. Það getur stundum verið flókið að feta stíg samskipta við fyrrum maka þannig að börn verði ekki fyrir slæmum áhrifum. Til þess að aðstoða foreldra sem eru í þessari stöðu þá er nú búið að tryggja framtíð úrræðisins Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (samvinnaeftirskilnad.is), en þar býðst foreldrum ráðgjöf til að draga úr ágreiningi í kjölfar skilnaðar með farsæld barna að leiðarljósi.

Barnið verði hjartað í kerfinu

Í upphafi árs 2020 fór ég til Danmerkur og skrifaði undir samning við danskt fyrirtæki sem býður upp á stafrænar lausnir í ráðgjöf til að draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli með farsæld barnanna að leiðarljósi. Úrræðið hafði þegar gefið mjög góða raun í Danmörku og hafði verið skylduferli fyrir foreldra sem skildu. Bæði hafði úrræðið aukið skilning foreldra á því hvernig samskiptum skyldi best háttað og þannig komið börnum til góða en auk þess lá fyrir hversu mikið hafði dregið úr vanlíðan foreldranna sjálfra eftir skilnað, dregið úr þunglyndi, dregið úr veikindadögum frá vinnu, og margt fleira.

Upphaflega var úrræðið sett upp sem tilraunaverkefni í tveimur sveitarfélögum á Íslandi til tveggja ára. Það var síðan útvíkkað til átta sveitarfélaga og er nú í boði á landsvísu. Foreldrum í skilnaðarferli er nú boðið upp á aðgang að rafrænum námskeiðum og félagslegri ráðgjöf hjá sérstökum ráðgjöfum innan sveitarfélaganna. Úrræðið fellur mjög vel að nýjum lögum um farsæld barna sem miða að því að beita sem allra mest snemmbærri aðstoð og fyrirbyggjandi aðgerðum í stað þess að glíma við flóknari vanda síðar meir.

Nær til yfir 800 barna í dag

Nú eru 764 notendur skráðir á stafræna vettvanginn, foreldrar sem eiga að meðaltali 2,1 barn saman, og haldin hafa verið átta námskeið fyrir fagfólk sem hafa veitt 142 aðilum ráðgjafaréttindi á þessu sviði til þess að veita enn frekari aðstoð en stafræni vettvangurinn býður upp á. Yfir 800 börn á Íslandi njóta þar með góðs af því að foreldrar þeirra njóta um þessar mundir leiðsagnar sérfræðinga um algeng mistök sem foreldrar gera í samskiptum í kjölfar skilnaðar. Þá er ótalið hversu jákvæð áhrif slíkt getur haft á foreldrana sjálfa, líðan þeirra og þátttöku í samfélaginu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greining birtist fyrst á frettabladid.is 13. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Samvinna er hugmyndafræði

Deila grein

20/06/2022

Samvinna er hugmyndafræði

Á þess­um hátíðar­degi fögn­um við því að 78 ár eru liðin frá ákvörðun Alþing­is um að stofna lýðveldið Ísland. Hver þjóðhátíðardag­ur mark­ar tíma­mót í sögu lands­ins og veit­ir okk­ur tæki­færi til þess að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Saga ís­lenska lýðveld­is­ins er saga fram­fara. All­ar göt­ur frá stofn­un þess hafa lífs­kjör auk­ist veru­lega og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni. Staða Íslands er sterk í sögu- og alþjóðlegu sam­hengi, þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn, held­ur ligg­ur þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið hon­um að baki.

Mann­gildi ofar auðgildi

Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn lýðræðis­sam­fé­lags. Virk lýðræðisþátt­taka er eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt sam­fé­lag. Marg­ir stíga sín fyrstu skref í fé­lags­störf­um með þátt­töku í starfi stjórn­mála­hreyf­inga með það að leiðarljósi að hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið sitt. Í meira en heila öld hef­ur Fram­sókn fylgt þjóðinni og verið far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að taka þátt í stjórn­mála­starfi. Sýn Fram­sókn­ar grund­vall­ast á sam­vinnu­hug­sjón­inni; að fólk geti náð meiri ár­angri með því að vinna sam­an og aukið styrk sinn. Sam­vinna bygg­ist ekki aðeins á trausti milli aðila held­ur einnig á góðum og mál­efna­leg­um umræðum sem leiðar til far­sælla niðurstaða.

Við trú­um því að jöfn tæki­færi séu eina leiðin til tryggja sann­girni í sam­fé­lag­inu. Brýnt er að dreifa valdi, án til­lits til auðs, stétt­ar, kyns eða annarra breyta. Mann­gildi ofar auðgildi. All­ar rann­sókn­ir sýna að öfl­ugt mennta­kerfi tryggi mest­an jöfnuð og það vilj­um við tryggja.

Ræt­ur sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar og frelsið

Fyrstu regn­hlíf­ar sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar, sam­vinnu­fé­lög­in, litu dags­ins ljós á Bretlandi. Það var hóp­ur vefara árið 1844 í bæn­um Rochdale á Norður-Englandi sem kom á lagg­irn­ar fyrsta sam­vinnu­fé­lag­inu. Vefar­arn­ir stóðu frammi fyr­ir lé­leg­um starfsaðstæðum, bág­um kjör­um og háu hrá­efn­is­verði. Í stað þess að starfa hver í sínu horni form­gerðu þeir sam­vinnu sína með sam­vinnu­fé­lagi, sam­nýttu fram­leiðsluþætti og juku þannig slag­kraft sinn til þess til þess að stunda viðskipti. Þeir opnuðu versl­un, eða kaup­fé­lag, og deildu hlut­deild í vel­gengni versl­un­ar­inn­ar með viðskipta­vin­um sín­um sem meðlim­ir í fé­lag­inu. Viðskipta­vin­irn­ir öðluðust jafn­an at­kvæðarétt í fé­lag­inu og áttu þannig sam­eig­in­legra hags­muna að gæta. Sam­vinnu­fé­lög urðu að sam­hjálp til sjálfs­bjarg­ar og höfðu al­mannaþjón­ustu að leiðarljósi með áherslu á nærum­hverfið. Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðfrels­is­bar­áttu okk­ar Íslend­inga. Bænd­ur í Þing­eyj­ar­sýslu voru vel lesn­ir í evr­ópsk­um frels­is­fræðum og árið 1882 stofnuðu þeir fyrsta kaup­fé­lagið til að ráða sjálf­ir versl­un og viðskip­um. Þar voru all­ir jafn­ir og sam­einaði þetta ný­inn­flutta form sjálf­stæði, fram­fara­vilja og lýðræði. Í kjöl­farið óx sam­vinnu­hreyf­ing­unni fisk­ur um hrygg hér­lend­is, sam­vinnu­fé­lög­um fjölgaði ört um allt land og urðu þau fyrstu keppi­naut­ar er­lendra kaup­manna hér á landi.

Kröf­ur tíðarand­ans

Þrátt fyr­ir áskor­an­ir og öldu­dali, sem sam­vinnu­hreyf­ing­in hér­lend­is gekk í gegn­um á árum áður, hef­ur þörf­in fyr­ir sterka sam­vinnu­hug­sjón sjald­an verið jafn rík og nú. Fyr­ir­mynd­ar­sam­vinnu­fé­lög eru rek­in hér á landi og sam­vinnu­hreyf­ing­in hef­ur haldið áfram að dafna er­lend­is, til að mynda í Evr­ópu og vest­an­hafs. Þannig eru Banda­rík­in merki­leg­ur jarðveg­ur ný­sköp­un­ar í sam­vinnu­starfi. Jafn­vel fyr­ir­tæki í tækni­grein­um, hug­búnaði og fjöl­miðlun sækja fyr­ir­mynd­ir í kaup­fé­lög og gera þannig sam­vinnu og lýðræði að horn­stein­um. Ung­ar og upp­lýst­ar kyn­slóðir okk­ar tíma sækja inn­blást­ur í sam­vinnu­formið og álíta það spenn­andi val­kost til að tak­ast á við áskor­an­ir sam­tímas. Klasa­starf­semi og sam­vinnu­hús af ýmsu tagi eru dæmi um það. Krafa tím­ans er enn meira sjálf­stæði, sterk­ari rétt­ur al­menn­ings og sam­fé­lags, fram­far­ir á öll­um sviðum með lýðræði og jafn­rétti að leiðarljósi – rétt eins og í Þing­eyj­ar­sýslu forðum daga.

Fjöl­breytt­ir far­veg­ir til ár­ang­urs

Með of­an­greint í huga mun viðskiptaráðherra meðal ann­ars hrinda af stað end­ur­skoðun á lög­um um sam­vinnu­fé­lög á kjör­tíma­bil­inu til að auðvelda fólki við að vinna að sam­eig­in­leg­um hug­ar­efn­um sín­um. Sam­vinnu­fé­lags­formið get­ur verið hent­ug­ur far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að tak­ast á við áskor­an­ir og bæta sam­fé­lagið. Heim­ur­inn stend­ur frammi fyr­ir fjöl­mörg­um úr­lausn­ar­efn­um sem ekki verða leidd til lykta nema með sam­vinnu, hvort sem um er að ræða í um­hverf­is­mál­um, mennta­mál­um, alþjóðaviðskipt­um eða öðru. Stjórn­völd eiga að tryggja eld­hug­um og hug­sjóna­fólki fjöl­breytta far­vegi til þess að tak­ast sam­eig­in­lega á við slík út­lausn­ar­efni.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Tæp­um 106 árum frá því að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður, höld­um við enn tryggð við þá sam­vinnu­hug­sjón sem flokk­ur­inn spratt upp úr. Það er ekki sjálfsagt fyr­ir stjórn­mála­afl að ná svo háum aldri. Fram­sókn er fjölda­hreyf­ing og 13.000 fé­lag­ar í flokkn­um, hring­inn í kring­um landið, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á praktísk­ar og öfga­laus­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til þess að bæta sam­fé­lagið ásamt því að sýna sterka for­ystu í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi. Það hef­ur flokk­ur­inn margoft gert með góðum ár­angri; að brúa bilið milli ólíkra sjón­ar­miða við aðra flokka til þess að ná ár­angri fyr­ir land og þjóð. Við í Fram­sókn segj­um gjarn­an að sam­fé­lag sé sam­vinnu­verk­efni og í því er fólg­inn mik­ill sann­leik­ur.

Vilji fólks­ins

Stjórn­mála­flokk­ur þarf á hverj­um tíma að geta rýnt sjálf­an sig með gagn­rýn­um hætti, aðlag­ast nýj­um áskor­un­um sam­tím­ans, hlustað á grasrót sína og virt vilja fé­lags­manna. Það sama á við um þjóðfé­lag sem vill ná langt. Sú staðreynd að við get­um fjöl­mennt á sam­kom­ur víða um land til þess að fagna þess­um merka áfanga, sem full­veldið er í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­gefið. Sú elja og þraut­seigja sem forfeður okk­ar sýndu í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar lagði grunn­inn að þeim stað sem við erum á í dag. Lýðveldið Ísland á sér bjarta framtíð og Fram­sókn mun halda áfram að vinna í þágu sam­fé­lags­ins með hug­mynda­fræði sam­vinn­unn­ar að leiðarljósi. Þau tæki­færi sem eru fyr­ir hendi til þess að sækja fram fyr­ir sam­fé­lagið eru fjöl­mörg. Það er okk­ar sam­eig­in­lega verk­efni sem þjóðar að grípa þau og tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða heims og fagni full­veldi sínu um ókomna tíð. Í þess­um efn­um geym­ir saga sam­vinnu­starfs á Íslandi og víðar um ver­öld­ina dýr­mæta lær­dóma – fjár­sjóð á veg­ferð okk­ar til framtíðar. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra og rit­ari Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. júní 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Far­sæl börn á höfuð­borgar­svæðinu

Deila grein

12/05/2022

Far­sæl börn á höfuð­borgar­svæðinu

Á laugardaginn fara fram sveitarstjórnarkosningar og er mikilvægt að hver og einn einstaklingur kjósi þá forystu sem viðkomandi vill sjá í sínu nærumhverfi. Sveitarstjórnir landsins stýra og/eða framkvæma stóran hluta af þeirri þjónustu sem við, sem íbúar á Íslandi, njótum í nærumhverfi okkar daglega og því mikilvægt að við nýtum öll okkar raddir á laugardaginn og höfum áhrif á næstu fjögur ár.

Kjósendur vilja fjárfestingar í fólki

Stutt er liðið frá Alþingiskosningum og þar var skýrt hvað kjósendur vildu sjá. Kjósendur vildu sjá fjárfestingar í fólki og innviðum. Að fólkið í landinu fái sem allra besta þjónustu sem hægt er að veita og að fólkið og fjölskyldur þessa lands séu miðpunktur allrar vinnu sem ríkið innir af hendi. Ég hef fulla trú á því að svo gildi einnig um komandi sveitarstjórnarkosningar.

Stórar lagabreytingar samþykktar

Á síðasta kjörtímabili var meðal annars unnið að stórum breytingum í þágu barna. Samþykkt voru lög sem boða nýja hugsun og nýja nálgun í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru nefnd „farsældarlöggjöfin“. Þau lög boða skyldu til þess að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að viðeigandi þjónustu þvert á þjónustukerfi og án hindrana og að þjónustan komi til barnsins en ekki öfugt.

Með farsældarlöggjöfinni var lögfest samstarf þjónustukerfa sem bæði á að skapa skilyrði til að unnt sé að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða áskorunum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir, en einnig er þar að finna nýmæli um að öll börn og foreldrar þeirra sem á þurfi að halda hafi rétt til aðgangs að aðila sem getur aðstoðað þau við að fá viðeigandi þjónustu og haldið utan um mál þeirra. Þetta er afar mikilvægt enda hafa forráðamenn barna oft lýst baráttu sinni fyrir fullnægjandi þjónustu fyrir börn sín sem ferðalagi um völundarhús þar sem hver vísar á annan og lítil eða engin samskipti eru á milli ýmissa mikilvægra þjónustuaðila.

Innleiðing fram undan

Ef ákvæði farsældarlöggjafarinnar eiga að verða meira en bara falleg orð á blaði þarf mikla og markvissa vinnu við innleiðingu þeirra stóru breytinga sem í henni felast. Sú vinna er þegar hafin undir stjórn mennta – og barnamálaráðuneytisins, en það er alveg ljóst að árangur innleiðingarinnar mun að miklu leyti ráðast af því hvernig til tekst í nærumhverfi barna og fjölskyldna, á sveitarstjórnarstigi. Það skiptir máli að velja til þess verks aðila sem hafa sýnt að þau muni forgangsraða því verkefni og fylgja eftir af krafti, í þágu farsældar barna. Að sveitarfélagið muni fjárfesta í fólki, börnum, fjölskyldum og innviðum fram yfir allt annað.

Við sem skrifum þessa grein heitum því að leggja allt okkar í að fjárfesting í fólki verði meginstefið á komandi kjörtímabili sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu fáum við umboð til þess að stýra þeim.

Er ekki bara best að fjárfesta í fólki?

  • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
  • Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík
  • Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar í Kópavogi
  • Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði
  • Brynja Dan Gunnarsdóttir, oddviti Framsóknar í Garðabæ
  • Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. maí 2022.