Categories
Fréttir Greinar

Tíma­mót í barna­vernd

Deila grein

28/12/2022

Tíma­mót í barna­vernd

Nú um áramótin koma til framkvæmda umfangsmiklar breytingar á barnaverndarlögum sem samþykktar voru á Alþingi árið 2021. Breytingarnar eru mikilvægur hluti þeirrar kerfisbreytingar sem unnið er að í málefnum barna. Pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir munu heyra sögunni til og þess í stað taka til starfa þrjú ný umdæmisráð barnaverndar. Eitt í Reykjavík, annað fyrir aðra hluta höfuðborgarsvæðisins og hið þriðja fyrir landsbyggðirnar.

Hlutverk umdæmisráða verður að kveða upp úrskurði um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir í barnaverndarmálum, til að mynda um vistanir barna utan heimila og ákvarðanir um umgengni barna í varanlegu fóstri við kynforeldra sína. Umdæmisráðin verða sjálfstæðar stjórnsýslueiningar, aðskildar frá starfsemi barnaverndarþjónustu, sem mun fara með daglega meðferð og vinnslu barnaverndarmála.

Fagþekking skilyrði í umdæmisráðum

Hingað til hafa barnaverndarnefndir verið pólitískt skipaðar og þeir starfsmenn barnaverndarkerfisins sem fara með daglega vinnslu mála verið starfsmenn þeirra nefnda. Formlegur aðskilnaður milli þessara tveggja stiga, barnaverndarþjónustu og umdæmisráða, á að tryggja betri gæði ákvarðana og efla faglegar forsendur fyrir þeim.

Hvert umdæmisráð verður skipað einum lögfræðingi, sem einnig mun vera formaður ráðsins, einum félagsráðgjafa og einum sálfræðingi. Skipað er í ráðin til fimm ára í senn. Ríkar kröfur eru gerðar um fagþekkingu og hæfni þessara aðila þar sem reikna má með að allra þyngstu mál barnaverndarkerfisins rati fyrir ráðin. Ráðin munu hafa það hlutverk að leysa úr málunum með skjótum og vandvirkum hætti.

Ég er ótrúlega ánægður með að þær stóru kerfisbreytingar á umhverfi barna sem við höfum unnið að undanfarin ár séu byrjaðar að skila sér. Verkefnið fram undan er svo að bæta enn frekar hvernig við veitum börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu.

Ásmundur Einar Daðason.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra.