Categories
Fréttir Greinar

Hugrekki til að takast á við framtíðina

Deila grein

31/12/2022

Hugrekki til að takast á við framtíðina

Kæri lesandi.

Árið 2022 kveður okkur með hörkufrosti, víða snjókomu. Minnir okkur á að við búum á íslandi. Minnir okkur á að máttur náttúruaflanna er mikill. Við gleymum oft þessu afli. Gleymum þeim hörmungum sem fyrri kynslóðir gengu í gegnum, þegar eldgos, óveður og jarðskjálftar tortímdu jafnvel heilu fjölskyldunum, sveitunum. Í því merka riti, Hrakningar á heiðavegum, eftir þá Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson, má lesa frásögn Þórðar Kárasonar á Litla-Fljóti um vetrarferð yfir Hellisheiði árið 1914. Þórður, eins og margir Sunnlendingar, fór til Reykjavíkur á vetrarvertíð. Segir Þórður að leiðin til Reykjavíkur hafi verið farin á þremur dögum. Fyrsta daginn var farið úr Biskupstungum niður á Selfoss, gist í Tryggvaskála. Annan daginn gengið suður yfir Hellisheiði og gistínáttstað á Kolviðarhóli. Síðasta daginn var farið frá Kolviðarhóli til Reykjavíkur. Þegar göngumenn komu upp á Kamba byrjaði að snjóa. Vildu þá einhverjir í hópnum stytta sér leið og fara vestur úr Reykjaskarði leið sem í góðu veðri gat stytt ferðatímann nokkuð. Þórður segir í frásögn sinni: „Ég lét í ljós sem áður, að ég vildi heldur fara veginn, og segir þá sá, sem sótti málið fastast: „Ertu hræddur?“ Ekki kvað ég það vera. En þetta tilsvar var nóg til þess, að ég lagði ekki meira til málanna, og lagði svo allur hópurinn af stað út í bylinn, sem var að skella á, og kennileitislausa hvítuna.“

Það er skemmst frá því að segja að hópurinn villtist en komst með erfiðismunum í Kolviðarhól. Minnstu mátti muna að illa færi.

Af hverju að rifja upp frásögn af vetrarferð sem farin var fyrir rúmlega 100 árum? Ástæðan er margþætt. Ein er sú að það er alltaf mikilvægt að rifja upp hvað fyrri kynslóðir gengu í gegnum. Önnur að sama hvaða tíma við lifum þá hefur veðrið mikil áhrif á líf okkar. Þriðja að maður eigi ekki að ana út í óvissuna, hvað þá að láta mana sig til þess. Fjórða að það sé mikilvægt að skynsemin ráði för.

Sátt um nauðsynlegar breytingar

Við sem búum á Íslandi eigum náttúrunni allt að þakka. Hún er undirstaða efnahags okkar. Samfélag okkar og velmegun hvílir á þremur stoðum sem eiga allt sitt undir náttúrunni: Sjávarútvegur, orkuframleiðsla og ferðaþjónusta. Það er lán okkar sem nú byggjum þetta land að fyrri kynslóðir hafa nýtt tækifærin sem náttúran hefur að bjóða. Við eigum sjávarútveg sem er í fremstu röð í heiminum. Fáar þjóðir, ef einhverjar, hafa náð að skapa jafnmikil verðmæti í sjávarútvegi en byggja um leið á hugmyndinni um sjálfbærni. Það kerfi sem við höfum náð að byggja upp er þó ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Verkefni þessarar ríkisstjórnar er enda að ná sátt um nauðsynlegar breytingar á kerfinu. Réttlæti getur nefnilega ekki verið skörinni neðar en hagnaður greinarinnar.

Öryggi í fyrsta sæti

Ferðaþjónustan hefur sýnt það á síðustu tveimur áratugum hvers hún er megnug. Vöxtur hennar hjálpaði samfélaginu hratt út úr efnahagslegum vanda hrunsins. Ferðaþjónustan tók hratt við sér eftir heimsfaraldurinn og á heiðurinn af stórum hluta af þeim hraða efnahagslega viðsnúningi sem hefur náðst. Einhverjir verkir fylgja ávallt hröðum vexti. Það tekur á þegar milljónir manna bætast við sem notendur innviða fámenns lands. Þrátt fyrir fordæmalausa fjárfestingu ríkisins í samgöngum á síðustu árum þarf enn meira til. Mörg stór og mikilvæg verkefni eru á dagskrá á næstu árum. Ekkert þó stærra en Sundabraut sem er byrjað að undirbúa og styttist í hönnun og framkvæmdir. Markmiðið með allri uppbyggingu er greiðar samgöngur sem tengja byggðir en í fyrsta sæti er ætíð öryggi fólks. Líf og heilsa hljóta alltaf að vera í fyrsta sæti.

Við viljum vera kynslóðin sem framkvæmdi

Við getum verið þakklát fyrir þann stórhug sem fyrri kynslóðir sýndu með rafvæðingu landsins og ekki síður hitaveituvæðingu þess á síðustu öld. Fáar þjóðir búa við eins mikið orkuöryggi og við á Íslandi. Hér þarf ekkert gas, ekkert jarðefnaeldsneyti, til að kynda hús okkar og lýsa. Og þau orkuskipti sem standa fyrir dyrum munu gera það að verkum að við getum náð fullu orkusjálfstæði. Til þess þurfum við að sýna hugrekki og framsýni til að verða ekki eftirbátar fyrir kynslóða. Það er spennandi að fylgjast með þeim verkefnum sem eru á teikniborðinu og miða að því að framleiða hér á landi rafeldsneyti sem yrði notað til að knýja stærri farartæki og vinnuvélar á landi, skip og flugvélar. Ljóst er að til þess þarf meiri orku. Það er líka ljóst að til þess að viðhalda þeim lífsgæðum sem við höfum öðlast og helst auka þau þá þarf meiri orku. Sáttin um þá orkuöflun verður til á miðjunni, með skynsamlegum öfgalausum samræðum en þó fyrst og fremst skynsamlegum aðgerðum. Við viljum að framtíðarkynslóðir horfi til okkar tíma og sjái framsýni en dæmi okkur ekki sem kynslóðina sem ræddi vandann í drep en hafði ekki dug til að framkvæma.

Kvikmyndagerð í vexti

Síðasta vor urðu breytingar á lagaumhverfi kvikmyndagerðar á Íslandi sem fólust í að hækka hlutfall endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Nú þegar hafa þessar breytingar aukið veltu íslensks kvikmyndaiðnaðar til mikilla muna og fjölgað störfum sem tengist kvikmyndagerð beint og óbeint. Þessi þróun hefur áhrif víða um landið. Hækkun á endurgreiðsluhlutfalli hefur ekki aðeins þau áhrif að laða til landsins erlenda fjárfestingu heldur styrkir hún íslenska kvikmyndagerð. Það sýnir sagan okkur. Þegar Framsókn stóð fyrir því um síðustu aldamót að endurgreiðslukerfi kvikmynda var komið á fót var stigið skref sem breytti gangi íslenskrar kvikmyndasögu. Íslenskum kvikmyndum fjölgaði enda var þarna komin nýr þáttur í fjármögnun kvikmynda og sjónvarpsefnis. Það er gaman að sjá þessa mikilvægu grein sem hefur gríðarlegt efnahagslegt og ekki síður menningarlegt gildi fyrir þjóðina okkar vaxa og dafna.

Ný sköpun – ný tækifæri

Frá árinu 2017 hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að skapa frjótt umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Sú áhersla sem lögð hefur veriðánýsköpun er mikilvægur hluti þess að skapa spennandi og verðmæt störf sem eru hluti af hátæknisamfélagi framtíðarinnar. Við sjáum þessa fjórðu stoð hugverkaiðnaðarins eflast hratt en innan þess iðnaðar eru ólíkar greinar eins og lyfjaiðnaður, fjártækni og tölvuleikjagerð. Það segir sig sjálft að þessi fjórða stoð skapar aukið jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Vinna, vöxtur, velferð

Við í Framsókn höfum alltaf lagt mikla áhersluáatvinnulíf í okkar stefnu. Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar: Vinna, vöxtur, velferð. Samfélagið okkar er flókinn vefnaður. Samfélagið okkar er gott eins og sést á því að það er ofarlega í alþjóðlegum samanburði þátta sem mæla lífsgæði. En það má alltaf gera betur. Og það gerum við með markvissum aðgerðum sem mæta ekki aðeins kröfum um sjálfbært samfélag heldur skila okkur auknum lífsgæðum og fjölbreyttum og spennandi tækifærum fyrir komandi kynslóðir.

Framtíðin ræðst á miðjunni

Þórður Kárason á Litla-Fljóti skrifaði um „kennileitislausa hvítuna“ í grein sinni um vetrarferðir á Hellisheiði. Það má kannski tala um framtíðina sem kennileitislausa hvítu en hlutverk stjórnmála samtímans er að marka leiðina til aukinna lífsgæða fyrir þjóðina. Við í Framsókn vinnum áfram af heilindum að því að bæta samfélagið með samvinnuhugsjónina sem leiðarljós. Við trúum því að samvinnan sé besta leiðin til að ná fram sátt um hvert skuli haldið. Við trúum því að framtíðin ráðist á miðjunni.

Lesandi góður, ég óska þér og þínum farsæls komandi árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2022.