Categories
Greinar

Áfram unnið að velsæld barna

Deila grein

16/05/2024

Áfram unnið að velsæld barna

Í Suður­nesja­bæ hafa bæj­ar­stjórn­ar­menn unnið að mark­viss­um aðgerðum til að stuðla að vel­sæld barna í sam­fé­lag­inu. Ein af mik­il­væg­ustu breyt­ing­un­um var aukn­ing niður­greiðslu á máltíðum nem­enda í grunn­skól­um bæj­ar­ins, sem hækkaði úr 50% í 60%. Þar að auki var fjöl­skyldu­afslátt­ur inn­leidd­ur um síðustu ára­mót. Svo nú 1. ág­úst verður ennþá stærra skref stigið þegar öll grunn­skóla­börn á land­inu fá gjald­frjáls­an há­deg­is­mat, sem mun gera það að verk­um að þau fá jafn­ari aðgang að nær­ingu og orku. Þess­ar aðgerðir eru ekki ein­ung­is hag­kvæm­ar fyr­ir ein­staka fjöl­skyld­ur held­ur styrkja þær líka sam­fé­lagið í heild.

Bæj­ar­stjórn hef­ur einnig unnið mark­visst að öðrum mál­um sem snerta börn og barna­fjöl­skyld­ur. Þar má nefna að hækkaðar hafa verið umönn­un­ar­bæt­ur fyr­ir for­eldra sem ekki nýta dag­vist­un hjá dag­for­eldr­um. Sú upp­hæð hækk­ar úr 45 þúsund krón­um í 100 þúsund fyr­ir hvern mánuð. Greiðsl­un­um er háttað þannig að fyrsta greiðsla er að lokn­um rétt­ind­um til fæðing­ar­or­lofs og greidd­ar þar til barn fær inn­göngu í leik­skóla eða verður tveggja ára. Hér er skref tekið til að brúa bilið sem oft kem­ur til eft­ir að fæðing­ar­or­lofi lýk­ur og þar til barn fær inn­göngu í leik­skóla. Mik­il­vægt er að gera for­eldr­um kleift að vera heima með börn­um sín­um fyrstu tvö árin ef þau kjósa svo og er þetta mik­il fram­för í þeim efn­um. Þá er niður­greiðsla dag­vist­ar­gjalda hjá dag­for­eldr­um hækkuð. Eft­ir að barn hef­ur náð 18 mánaða aldri er niður­greiðsla hækkuð úr 80 þúsund­um í 112 þúsund á mánuði m.v. átta klst. vist­un þar til að barni verður boðin inn­ganga í leik­skóla. Allt eru þetta mik­il­væg­ir þætt­ir í því að styðja við barna­fjöl­skyld­ur og á sama tíma, eins og hef­ur komið fram, brúa bilið sem oft reyn­ist erfitt eft­ir að fæðing­ar­or­lofi lýk­ur.

Það er okk­ur gríðarlega mik­il­vægt sem sam­fé­lagi að stíga þessi skref til að styðja við for­eldra fyrstu árin með börn­um sín­um. Þess­ar aðgerðir styðja við barna­fjöl­skyld­ur og hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið í heild. Við í Fram­sókn erum stolt af þess­um breyt­ing­um og höf­um lofað að halda áfram að stuðla að því að í Suður­nesja­bæ sé gott að búa. Með þess­um aðgerðum hef­ur bæj­ar­stjórn­in skapað um­hverfi sem stuðlar að vel­sæld barna í Suður­nesja­bæ.

Frí­stunda­akst­ur milli byggðar­kjarna í Suður­nesja­bæ

Bæj­ar­stjórn Suður­nesja­bæj­ar samþykkti um ára­mót að hefja frí­stunda­akst­ur milli byggðar­kjarna í Suður­nesja­bæ. Frí­stunda­akst­ur er fyr­ir unga iðkend­ur sem þurfa að fara á milli byggðar­kjarna til að sækja íþróttaæf­ing­ar. Í mál­efna­samn­ingi B- og D-lista kem­ur fram að „komið verði á frí­stunda­bíl til að efla og auka mögu­leika barna í sveit­ar­fé­lag­inu á íþrótta- og tóm­stundaiðju“. Frí­stunda­akst­ur­inn fer mjög vel af stað og er hon­um ætlað að efla íþrótt­astarf í sveit­ar­fé­lag­inu til framtíðar.

Sum­ar­frí­stund fyr­ir elstu börn leik­skóla

Á síðasta fundi bæj­ar­stjórn­ar Suður­nesja­bæj­ar nú í maí var samþykkt að hefja sum­ar­frí­stund fyr­ir elstu börn leik­skóla eft­ir að fræðsluráð bæj­ar­ins tók til um­fjöll­un­ar að leita leiða fyr­ir börn sem ljúka leik­skóla­göngu sinni á vor­in og eru á leið í grunn­skóla. Flest leik­skóla­börn ljúka leik­skóla­göngu um sum­ar­frí og koma ekki aft­ur til baka, en alltaf eru ein­hverj­ir for­eldr­ar sem nauðsyn­lega þurfa að leita að vist­un fyr­ir þau á meðan þau bíða eft­ir byrj­un grunn­skól­ans. Þetta er vegna þess að fríið sem þessi börn njóta er mun lengra en hefðbundið sum­ar­frí vinn­andi for­eldra. Öllum börn­um sem eru á leið í fyrsta bekk er gef­inn kost­ur á að sækja um að taka þátt í sum­ar­frí­stund eft­ir versl­un­ar­manna­helgi. Sum­ar­frí­stund­in verður í boði frá 6. ág­úst til 21. ág­úst 2024 sem reynslu­verk­efni og verður spenn­andi að sjá hvernig hún kem­ur út.

At­vinnu­tengt nám

Einnig voru samþykkt­ar á síðasta fundi bæj­ar­stjórn­ar starfs­regl­ur um at­vinnu­tengt nám í Suður­nesja­bæ og var af­greiðsla bæj­ar­ráðs samþykkt sam­hljóða.

Í sveit­ar­fé­lag­inu er nauðsyn­legt að fjölga úrræðum vegna ung­linga sem standa frammi fyr­ir sér­stök­um áskor­un­um í námi og skóla­færni af öðrum or­sök­um en fötl­un. Mark­mið verk­efn­is­ins er að veita þeim sem á þurfa að halda tæki­færi til að sýna hvað í þeim býr og mæta þörf­um þeirra sem þurfa að kom­ast í gegn­um skóla­starfið, hvort sem er á skemmri eða lengri tíma. Með nýj­um lög­um um samþætta þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna er mik­il­vægt að styrkja grunnþjón­ustu, og þessi úrræði eru hluti af því að auka fjöl­breytni og verk­færi skól­anna.

Anton Kristinn Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ og formaður bæj­ar­ráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16.5.2024.

Categories
Fréttir

Frumvarp um gististaði samþykkt: Rekstrarleyfi gististaða einskorðast við atvinnuhúsnæði í þéttbýli

Deila grein

07/05/2024

Frumvarp um gististaði samþykkt: Rekstrarleyfi gististaða einskorðast við atvinnuhúsnæði í þéttbýli

Frumvarp um gististaði samþykkt: Rekstrarleyfi gististaða einskorðast við atvinnuhúsnæði í þéttbýli - mynd
Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (rekstrarleyfisskylda gististarfsemi) var samþykkt í vikunni.

Með frumvarpinu verður sú lagalega breyting að rekstrarleyfisskyld gististarfsemi skal vera í samþykktu atvinnuhúsnæði og því ekki lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði.

Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur leigir út hluta af heimili sínu í þéttbýli t.d. í gegnum Airbnb getur viðkomandi áfram gert það í allt að 90 daga á ári eða sem nemur 2 milljónum króna í leigutekjur. Eftir að því marki er náð getur viðkomandi ekki sótt um rekstrarleyfi gististaða líkt og eitthvað hefur borið á.

Rekstrarleyfi gististaða verða aðeins gefin út ef um atvinnuhúsnæði er að ræða eða ef útleigueiningin er í dreifbýli t.d. bændagisting. Vakin er athygli á að heimagisting er alltaf skráningarskyld og sækja þarf um heimagistingarleyfi og endurnýja það árlega.

Frumvarpið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis, á suðvesturhorni landsins, og liður í því að mæta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.

„Með þessari lagabreytingu verða skýrari skil á milli íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis þegar kemur að gistingu og horft er til raunverulegrar notkunar húsnæðis. Því er ekki lengur hægt að kaupa íbúðarhúsnæði í þéttbýli og gera það út sem gististað umfram 90 daga regluna líkt og gerst hefur í miðborginni þar sem jafnvel heilu íbúðablokkirnar hafi breyst í hótel,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Categories
Fréttir

Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs

Deila grein

07/05/2024

Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um eflingu afreksíþróttastarfs - mynd
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um eflingu afreksíþróttastarfs

Skýrsla starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks var kynnt á blaðamannafundi í Laugardalshöll í dag. Hlutverk starfshópsins var að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem hópurinn taldi þurfa til að stuðningur við afreksíþróttafólk á Íslandi verði í fremstu röð. Hópurinn hefur skilað meðfylgjandi skýrslu þar sem staða og umgjörð afreksíþrótta á Íslandi er greind og settar fram tillögur að nýrri nálgun í afreksmálum og aðgerðum til nokkurra ára.

Vésteinn Hafsteinsson, fv. afreksíþróttamaður og -þjálfari, leiðir starfshópinn. Tillögur hópsins eru umfangsmiklar og lúta m.a. að aðgerðum sem tengjast stöðu íþróttafólks og réttindum, starfsemi íþróttafélaga og sérsambanda, umgjörð afreksíþrótta fyrir mismunandi aldurshópa og einnig að hlutverki ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Einn af lykilþáttum í tillögunum er stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands (AMÍ) innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). AMÍ er ætlað mikilvægt hlutverk í faglegri umgjörð utan um afreksfólk og þjálfara þeirra.

Starfshópurinn telur að fyrirhugaðar breytingar muni ekki aðeins styrkja afreksíþróttastarf og stuðla að auknum árangri í framtíðinni heldur einnig hafa jákvæð áhrif á allt íþróttastarf á Íslandi. Í umfjöllun starfshópsins er horft til fyrirkomulags sem þekkist víða erlendis með góðum árangri sem sniðið er að íslenskum aðstæðum.

Tillögur starfshópsins eru byggðar á breiðri og þverfaglegri nálgun og telur starfshópurinn að þær breytingar sem lagðar eru til muni hafa umtalsvert forvarnargildi, efla almenna heilsu, farsæld og lýðheilsu á Íslandi til lengri tíma litið, og á sama tíma draga úr útgjöldum heilbrigðiskerfisins. Í þessu samhengi má einnig nefna önnur mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif sem sterkt íþróttalíf og uppbygging íþróttainnviða getur skapað t.d. með starfsemi á sviði íþróttatengdrar ferðaþjónustu o.fl.

Í vinnu starfshópsins hefur verið lögð rík áhersla á samráð og upplýsingaöflun meðal innlendra sem og erlendra hagaðila og álitsgjafa. Mat starfshópsins er að skapa þurfi breiða samstöðu og aðkomu aðila að verkefninu til framtíðar svo unnt verði að ná framúrskarandi árangri á alþjóðlegum vettvangi íþrótta.

Blaðamannafundur í Laugardalshöll

Fjölmargar tillögur eru settar fram í skýrslu hópsins en þær mikilvægustu að mati starfshópsins eru:

  • Afreksmiðstöð Íslands (AMÍ) verði stofnuð og skilgreint skýrt hlutverk innan ÍSÍ. Markmið AMÍ verður að afreksíþróttafólk nái betri árangri í íþróttum, auk þess að efla faglega umgjörð afreksstarfs á Íslandi og þannig auka þekkingu og nýsköpun á sviði afreksíþrótta.
  • Stofnaður verði launasjóður afreksíþróttafólks og þjálfara í íþróttum. Markmiðið er að skapa sambærilegt starfsumhverfi og þekkist í nágrannalöndunum og tryggja um leið vinnumarkaðstengd réttindi.
  • Komið verði til móts við kostnaðarþátttöku íþróttafólks í landsliðsverkefnum með auknum stuðningi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Markmiðið er að allir hafi jafnan möguleika á að taka þátt í landsliðsverkefnum í íþróttum.
  • Fagleg umgjörð afrekssviða í grunn- og framhaldsskólum verði efld og tengd við íþróttafélög og sveitarfélög. Markmiðið er að hlúa betur að efnilegu íþróttafólki og draga úr brotthvarfi ungmenna úr íþróttum.
  • Aðkoma atvinnulífsins að afreksíþróttum verði efld. Fleiri fyrirtæki verði virkir þátttakendur í uppbyggingu afreksíþrótta.
  • Að núverandi skipulag íþróttahreyfingarinnar á Íslandi verði skoðað. Markmiðið er að meta fyrirkomulagið og hvort nýta megi betur það fjármagn sem íþróttahreyfingin fær frá stjórnvöldum í dag.

Í framhaldinu mun mennta- og barnamálaráðherra skipa þverpólitískan stýrihóp sem ásamt ÍSÍ er ætlað að leggja fram áætlun til að útfæra og fjármagna aðgerðir. Gert er ráð fyrir að innleiðing hefjist af krafti 1. janúar 2025. Áætlað er að drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun liggi fyrir 15. ágúst og að hún verði lögð fram á Alþingi á haustdögum.

Að þessu tilefni hafði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra þetta að segja á facebook síðu sinni:

,,Áfram Ísland – Við ætlum að umbylta umhverfi afreksíþrótta!

Ég hef lagt ríka áherslu á aukinn stuðning við íþróttastarf í landinu. Það var þessvegna mjög ánægjulegt í gær þegar Vésteinn Hafsteinsson kynnti tillögur sem hann og fleiri hafa unnið að fyrir stjórnvöld og íþróttahreyfinguna um hvernig bæta megi stöðu og réttindi afreksíþróttafólks á Íslandi.

Tillögurnar eru metnaðarfullar og því mikið gleðiefni að sama dag var samþykkt í ríkisstjórn að taka þær föstum tökum og vinna að því markmiði að innleiðing og framkvæmd geti hafist strax í upphafi árs 2025. Ég er sannfærður um að þessar breytingar munu verða til þess fallnar að jafna stöðu íþróttafólksins okkar miðað við nágrannalönd og að þær verði í raun algjör umbylting á allri umgjörð og stuðningskerfi íþrótta á Íslandi.

Það er ljóst að við höfum staðið höllum fæti í samanburði við nágrannalönd þegar kemur að fjárfestingu í íþróttafólkinu okkar. Við þurfum stór skref til að breyta þessari staðreynd og þau skref höfum við og munum halda áfram að taka. Við erum t.d. búin að tryggja yfir 8 milljarða í byggingu nýrrar þjóðarhallar, fjárfestingu í nýju svæðaskipulagi íþróttahreyfingarinnar, hvatasjóði til að auka þáttöku barna í íþróttum o.fl. Nú þurfum við að taka þessar tillögur með sama hætti og tryggja að þær komist til framkvæmda!

Öflugt íþróttastarf er stórt forvarnarmál en íþróttafólkið okkar er líka mikið þjóðarstolt og það er skylda okkar sem samfélags að tryggja að umgjörðin sé sambærileg og í öðrum löndum.

🇮🇸 ÁFRAM ÍSLAND!”

Categories
Fréttir

Aðgerðir í neytendamálum

Deila grein

02/05/2024

Aðgerðir í neytendamálum

Neyt­enda­mál voru einn af þeim mála­flokk­um sem sett­ir voru í brenni­dep­il við stofn­un menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins í fe­brú­ar árið 2022. Þannig hef­ur stuðning­ur við sam­tök á sviði neyt­enda­mála, eins og Neyt­enda­sam­tök­in og Hags­muna­sam­tök heim­il­anna, verið auk­inn, ráðist var í út­tekt gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna til að varpa ljósi á þró­un­ina á þeim markaði, stutt hef­ur verið við verðlags­eft­ir­lit ASÍ í þágu neyt­enda, í gangi er út­tekt á hvernig staðið er að upp­lýs­inga­gjöf og leiðbein­ing­um gagn­vart neyt­end­um í tengsl­um við lán­veit­ing­ar út frá mis­mun­andi lána­form­um, áhrif­um vaxta, verðbólgu o.s.frv.

Á Alþingi í vor mælti ég einnig fyr­ir frum­varpi um ný markaðssetn­ing­ar­lög sem marka ákveðin tíma­mót. Megin­áhersl­an í þeim er að efla neyt­enda­vernd. Sérá­kvæði verður um óhæfi­lega samn­ings­skil­mála, sem þýðir til dæm­is að ef samn­ings­skil­mál­ar í vöru- og þjón­ustu­kaup­um eru ósann­gjarn­ir gagn­vart neyt­end­um þá get­ur Neyt­enda­stofa gripið til aðgerða. Annað sem skipt­ir mig miklu máli og teng­ist ís­lensk­unni er að það er skerpt á þeirri meg­in­reglu að all­ar aug­lýs­ing­ar skuli vera á ís­lensku. Þá er ætl­un­in að draga úr hindr­un­um í gild­andi reglu­verki en lög­in séu ein­föld, skýr, aðgengi­leg og tækni­hlut­laus og leggi ekki óþarfa byrðar á at­vinnu­lífið. Einnig er lögð áhersla á að tryggja eins og kost­ur er að ákvæði lög­gjaf­ar um að þessi mál séu í sam­ræmi við lög­gjöf í Evr­ópu. Er þannig stutt við það meg­in­mark­mið í stefnu stjórn­valda að styrkja sam­keppni inn­an­lands, tryggja stöðu neyt­enda bet­ur í nýju um­hverfi netviðskipta og efla alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs.

Í vik­unni voru birt í sam­ráðsgátt drög að nýrri heild­ar­stefnu í neyt­enda­mál­um sem ég stefni á að mæla fyr­ir á Alþingi nú á vorþingi. Sam­hliða er sett fram aðgerðaáætl­un sem unnið verði eft­ir til árs­ins 2030. Um er að ræða níu skil­greind­ar aðgerðir sem ná yfir frek­ari upp­færslu og nú­tíma­væðingu lög­gjaf­ar á sviði neyt­enda­mála, aukna áherslu á netviðskipti og staf­væðingu, aukna neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu og áherslu á fjár­mála­læsi, og sér­stak­ar þarf­ir viðkvæmra hópa neyt­enda svo dæmi séu tek­in. Í því sam­hengi lang­ar mig sér­stak­lega að nefna að reglu­verk um smá­lán verður tekið til end­ur­skoðunar til að vernda þá sem höll­um fæti standa og setja skýr­ari leik­regl­ur á því sviði. Ýmis skref hafa verið stig­in á und­an­förn­um árum í þeim efn­um en ljóst að ýmis tæki­færi eru til frek­ari úr­bóta á því sviði.

Mik­il vinna hef­ur átt sér stað inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins á und­an­förn­um árum til þess að und­ir­byggja raun­veru­leg­ar aðgerðir í þágu neyt­enda til dags­ins í dag og til framtíðar. Ég er sann­færð um að þær aðgerðir sem við mun­um halda áfram að hrinda í fram­kvæmd munu bæta sam­fé­lagið okk­ar og neyt­enda­vernd í þágu okk­ar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmenn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2024.

Categories
Fréttir

Bjartsýnisverðlaun Framsóknar 2024

Deila grein

24/04/2024

Bjartsýnisverðlaun Framsóknar 2024

Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi voru veitt Bjartsýnisverðlaun Framsóknar. Bjartsýnisverðlaun Framsóknar eru veitt aðilum utan flokksins sem hafa lagt eitthvað jákvætt að mörkum til íslensks samfélags.

Þann 20. apríl, á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar voru verðlaunin veitt Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefnið: Frú Ragnheiður.

Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna.   

Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga. Lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari neysluhegðun og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum eru á meðal þess ávinnings sem hlýst af verkefninu án mikils tilkostnaðar. 

Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, veitti verðlaunum viðtöku og óskar Framsókn henni og Rauða krossinum innilega til hamingju með verðlaunin.

Categories
Fréttir

Jafnréttisviðurkenning Framsóknar

Deila grein

24/04/2024

Jafnréttisviðurkenning Framsóknar

Á 37. Flokksþingi Framsóknar síðastliðna helgi var jafnréttisviðurkenning Framsóknar veitt.

Jafnréttisnefnd Framsóknar veitir verðlaunin á hverju flokksþingi einstaklingi sem hefur skarað fram úr að framgengi jafnréttisáætlunar flokksins. Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Norðvestur kjördæmis, veitti verðlaunin fyrir hönd nefndarinnar.

Guðný Sverrisdóttir á Grenivík fékk verðlaunin að þessu sinni og hafði Halla Signý þetta um hana að segja við afhendinguna:

„Hún hefur brotið marga múra í gegnum tíðina og glerþökin hafa splundrast með þátttöku hennar í sínum störfum og ekki síst í félagsstarfi. Guðný hefur setið í stjórnum á landsvísu á vegum sveitarfélaga og þá vil ég helst nefna stjórnarsetu í Jöfnunarsjóðnum og fleira mætti telja.

Ég man eftir að heyra í Guðnýju í fjölmiðlum, kjarnyrt og bjó ekki viðtölin í neinn skrautpappir, ég sá haft eftir henni að það væri hreint ótrúlegt hvað spyrlar í fjölmiðlum vissu lítið um landsbyggðina, þarna fór kona sem barðist fyrir sínu landssvæði og gerði það vel.

Þegar Guðný tók við sveitastjórastöðunni árið1987 var hún eina konan á landinu sem sem gegndi framkvæmdastjórastöðu í  sveitarfélagi og var það um árabil eða þangað til Ingibjörg Sólrún tók við borgarstjórastólnum 1994.

Guðný gegndi þeirri stöðu  í 27 ár en, þá stofnaði hún ásamt tveimur öðrum konum , ráðgjafafyrirtækið Ráðrík og þar voru samankomnar konur með miklu reynslu úr stjórnsýslunni.  Ég spurði hana einu sinni af hverju hún hefði stofnað þetta fyrirtæki, og hún svaraði að bragði; ,,Nú eftir að ég hætti sem Sveitastjóri þá var ég 64 ára og ég bara nennti því ekki að hætta að vinna.“ Mér fannst þetta gott svar og öðrum hvatning.

Ég hringdi í Guðnýju til að fara yfir nokkrar staðreyndir, og spurði þá hvað hún gæti helst státað sig af. ,,Nú ég hef nú bara verið ég sjálf”.

Hún hefur sem sagt alltaf starfað við það sem við viljum öll vera. Við sjálf.“

Framsókn óskar Guðnýju Sverrisdóttur innilega til hamingju.

Categories
Fréttir

Gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn

Deila grein

23/04/2024

Gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn

Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi var gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn.

Ritari Framsóknar skal veita gullmerki Framsóknar einstaklingi sem um árabil hefur unnið framúrskarandi og óeigingjarnt starf með sérstaka áherslu á innra starf flokksins, störf í grasrót og skal viðkomandi hafa sýnt áralangt óyggjandi traust við flokkinn. Á flokksþingi var ákveðið að veita tveimur einstaklingum fyrstu gullmerki Framsóknar og afhenti Ásmundur Einar Daðason, ritari Framsóknar, þeim Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur gullmerki Framsóknar á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar þann 20. apríl.

Við afhendinguna hafði Ásmundur Einar þessi orð um að segja um feril Einars Gunnars fyrir Framsókn:

,,Einar gerðist félagi í Framsókn fyrir alþingiskosningarnar 1987 og hefur hann starfað fyrir flokkinn frá árinu 2002, fyrst á skrifstofu flokksins og nú fyrir þingflokkinn.

Einar hefur einnig sinnt ótal trúnaðarstörfum fyrir Framsókn, hann sat í miðstjórn, stjórn og framkvæmdastjórn SUF og endaði ferilinn þar sem skoðunarmaður reikninga. Þá var hann formaður í svæðisfélagi FUF og formaður kjördæmissambands ungra framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi. Þá hefur hann setið sem miðstjórnarfulltrúi. Einar hefur unnið með sjö formönnum Framsóknar og sex framkvæmdastjórum.

Það er einkennandi fyrir Einar, að þegar hann er spurður um hvaða skilaboðum hann vilji koma til ungs fólks sem er að íhuga þátttöku í stjórnmálum eða öðru sjálfboðaliðsstarfi. Þar setur hann unga fólkið sjálft í forgang, að það þurfi fyrst af öllu að huga að menntun sinni, en spennandi og kraftmikið stjórnmálastarf sé gott með. Þar gefist umfram allt tækifæri til að mynda tengsl við fólk á öllum aldri og alls staðar af landinu.

Ósérhlífnin og dugnaðurinn birtist í svari Einars þegar hann er spurður um hvað honum þyki skemmtilegast í flokksstarfinu. Þar svara hann því til að kosningabarátta sé allra skemmtilegasti tíminn. Þar sem liðmönnum sé skipað í framlínuna, í stuðnings- og bakvarðasveit. Tengsl sem verða til í kosningabaráttu endist í áratugi. Eins sé gaman að kynnast nýju fólki sem skipar sér í hlutverk í flokknum, sjá það vaxa til taka að sér skýrari og viðameiri verkefni í flokksstarfinu.

Þá segir Einar, þegar hann er beðinn að lýsa Framsókn: Þetta er fyrst og fremst hópur fólks sem vill með hugsjónir samvinnu og jafnaðar að leiðarljósi gera samfélagið enn betra. Horfa fram veginn, sjá fyrir verkefnin og úrlausnir þeirra og takast á við flókna og óvænta viðburði af heiðarleika, fordæmalaust og án allra kreddukenninga. Við erum hópur fólks sem tökumst á, en að því loknu erum við heild sem talar einni röddu. Einar endurspeglar þetta sterkt með sínu óeigingjarna starfi sem hann hefur lagt til Framsóknar.

Að lokum, til að undirstrika stöðugleika Einars í flokksstarfinu, þá mætti hann á sitt fyrsta flokksþing 1988, sem var það tuttugasta í sögu flokksins, nú erum við mætt á 37. Flokksþing Framsóknar og hefur Einar aðeins misst af einu þingi allan þennan tíma.

Það var heiður að fá að sæma Einar Gunnar Einarsson gullmerki Framsóknar.”

Við afhendingu á gullmerkinu til Sigrúnar Magnúsdóttur hafði Ásmundur Einar þetta að segja:

,,Sigrún gerðist félagi í Framsókn í upphafi áttunda áratugarins og hefur hún starfað af krafti fyrir flokkinn frá þeim tíma. Áður hafði hún boðið sig fram í sveitarstjórnarkosningum fyrir óháðan lista vestur á fjörðum þar sem hún var reyndar alltaf kölluð Framsóknarkonan!

Félag framsóknarkvenna í Reykjavík var eitt af fyrstu félögunum sem Sigrún gekk til liðs við innan flokksins. Í framboðsmálum þá bauð hún sig fyrst fram til borgarstjórnar og varð varaborgarfulltrúi fyrst og svo borgarfulltrúi í 16 ár. Sigrún hefur verið formaður félags framsóknarkvenna, flokksfélagsins og fulltrúaráðs Reykjavíkur en þaá sat hún einnig í framkvæmdastjórn flokksins. Sigrún varð fyrst varaþingmaður 1979 og kom inn á þing 1980 og 1982. Hún var síðan kjörin á Alþingi árið 2013 og var Umhverfis- og auðlindaráðherra frá árinu 2014-2017. Hún hefur þá sérstöðu að hafa flutt ræður á Alþingi með meira en 30 ára millibili.

Sigrún hefur verið fulltrúi í miðstjórn í mörg ár og nú síðast hefur hún staðið vaktina á síðdegisvatkinni hér í Reykjavík. Sigrún lýsir störfum sínum fyrir flokkinn þannig: „Líf mitt hefur snúist meira og minna um framsókn“

Hún hefur unnið með öllum formönnum frá því að hún gekk til liðs við flokkinn og svo nefndi hún sérstaklega að hún hafi óbeint unnið með Eysteini á sinum tíma og að áhugi hans og stuðningum við stofnun félags framsóknarkvenna hafi verið dýrmætur.

Skilaboð hennar til ungs fólks sem íhugar að taka þátt í stjórnmálum eru skýr. Það efli mann og þroski, geri ekkert nema gott þó stundum blási á móti. Þá sé varla til betri reynsla en að störf á vegum Framsóknar og því að kynnast starfi stjórnmálaafls.

Hún lýsir því sem einu aðalsmerki Framsóknar hversu öflug félagsmálataugin sé í okkur, það sjáist á fyrrverandi þingmönnum, engir séu jafn virkir þar eins og Framsókn.

Aðspurð um hvað henni þyki skemmtilegast við að starfa í flokknum þá segir hún að það sé ótrúleg tilfinning að tilheyra svona félagsmálaafli. Ekkert sé jafn skemmtilegt og að mæta á flokksþing, skemmtilegasta sem hún gerir er að hitta félaga alls staðar af landinu. Þá vill hún lýsa flokknum sem einfaldlega fólkinu sem er í honum, fólk sem vill keyra á samvinnu og félagshyggju og binst þeim samtökum.

Sigrún segist ekki sjá eftir þeim tíma sem hefur farið í Framsókn, og hún sé þakklát fyrir að hafa gengið í flokkinn og að hafa fengið að eyða ævinni í þessum einstaka félagsskap.

Það var heiður að fá að sæma Sigrúnu Magnúsdóttir gullmerki Framsóknar.”

Framsókn óskar Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur innilega til hamingju með verðlaunin og þakkar þeim fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í gegnum árin.

Categories
Greinar

Blessuð sértu, sveitin mín

Deila grein

20/03/2024

Blessuð sértu, sveitin mín

Sérstaða ís­lenskra mat­vara er ein­stök á heimsvísu þar sem lyfja- og eit­ur­efna­notk­un í land­búnaði á Íslandi er með því minnsta sem þekk­ist í heim­in­um, auk þess sem notk­un vaxt­ar­horm­óna er bönnuð. Það er risa­stórt heil­brigðismál að komið sé í veg fyr­ir út­breiðslu sýkla­lyfja­ónæmra bakt­ería á Íslandi með ströng­um ráðstöf­un­um, en við sjá­um að sýkla­lyfja­ónæmi er ört vax­andi ógn í heim­in­um.

Í fyrra fékk ís­lenskt lamba­kjöt upp­runa­vott­un frá Evr­ópu­sam­band­inu. Um er að ræða vott­un með til­vís­un til upp­runa eða „Protected Designati­on Of Orig­in“ (PDO), og fær ís­lenskt lamba­kjöt nú að bera merki vott­un­ar­inn­ar í markaðssetn­ingu. Það á að stuðla að neyt­enda­vernd, auka virði afurða og koma í veg fyr­ir órétt­mæta viðskipta­hætti.

Aukinn innflutningur vinnur gegn bændum

Innflutningur á kjöti hefur færst í vöxt á undanförnum árum og er það bæði selt í matvöruverslunum hérlendis og einnig á veitingamarkaði, meðal annars mötuneytum og veitingahúsum. Færst hefur og í vöxt að minni kjötvinnslur kaupi slíkar afurðir og endurselji á veitingamarkaði, þíði kjötið sem kemur frosið til landsins, leggi í kryddlög og selji svo til stóreldhúsa og matvöruverslana. Slíkt athæfi, ásamt öðrum innflutningi á kjötvörum, vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda og getur um leið verið afar villandi fyrir neytendur þar sem pakkningar sem erlenda kjötið eru í eru oft á tíðum með íslenskum fánaröndum eða allavega íslenskt nafn á kjötvinnslunni.

Stórauka þarf stuðning við bændur og draga þarf markvisst fram sérstöðu íslenskra matvæla með áherslu á rekjanleika, heilnæmi og gæði. Mikið hefur verið rætt og ritað um landbúnaðinn á undanförnum árum og hafa íslenskir bændur verið að keppa í ójöfnum leik í samkeppni við innflutning þar sem vinnuafl er mun ódýrara víðast hvar annars staðar í heiminum. Íslenskum bændum fækkar með hverju árinu sem líður; íslensku sveitirnar eru að deyja út, meðalaldur bænda hækkar og enginn tekur við. Fæðuöryggið og sjálfbærni þjóðar undir

Fæðuöryggið og sjálfbærni þjóðar undir

Ég held að við séum komin á þann stað að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að stuðla að tilvist matvælaframleiðslu á íslandi. Tel ég að við þurfum að innleiða löggjöf sem gerir að verkum að óheimilt verði að flytja inn til landsins kjötafurðir frá öðrum löndum. Einnig að auka verndartolla á öðrum landbúnaðarvörum sem framleiddar eru hérlendis, meðal annars grænmeti og mjólkurafurðum, með það að markmiði að stórefla innlenda matvælaframleiðslu. Eina rétta í stöðunni væri að leggja áherslu á að auka tollvernd á íslenskum landbúnaðarafurðum til að tryggja tækifæri til atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Við sem þjóð þurfum á því að halda og landsbyggðin þarf á því að halda.

Með því að auka matvælaframleiðslu hérlendis getum við styrkt fæðuöryggi þjóðarinnar. Við þurfum aðgerðir strax og setja í gang markvissa vinnu til þess að minnka innflutning á matvælum hingað til lands, með sjálfbærni og minni útblástur gróðurhúsalofttegunda að leiðarljósi.

Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga
Engið, fjöllin, áin þín,
yndislega sveitin mín,
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga
Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga.

(Sigurður Jónsson frá Arnarvatni)

Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2024.

Categories
Greinar

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir stórt fram­fara­skref í þágu barna

Deila grein

12/03/2024

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir stórt fram­fara­skref í þágu barna

Samfélag samvinnu og jafnaðar.

Grunnskóla er ætlað það hlutverk að leggja grunn að virkri þátttöku barna í lýðræðissamfélagi og veita viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri fyrir frekara nám eða störf á vinnumarkaði.

Næring er ein af grunnþörfum mannsins, öll þurfum við góða næringu til þess að geta fengist við verkefni dagsins. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna og er næring lykilatriði fyrir nemendur og hún á að vera í boði á jafnréttisgrundvelli á grunnskólastiginu án aðgreiningar og endurgjalds.

Öll viljum við að börnin okkar séu vel nærð í amstri dagsins og höfum við í Suðurnesjabæ unnið markvisst að því að auka niðurgreiðslu skólamáltíða á kjörtímabilinu, um síðustu áramót var kostnaðarhlutfall sveitarfélags hækkað úr 50% í 60% og systkinaafsláttur innleiddur þar sem foreldrar borga fyrir 2 börn en 3+ án gjalds Við í Framsókn höfum talað skýrt fyrir því að okkur þykir sjálfsagt að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Suðurnesjabæjar og var það eitt af okkar helstu baráttumálum fyrir síðustu kosningar. Með gjaldfrjálsum skólamáltíðum stuðlum við að jafnræði á milli heimila óháð efnahag og stöðu foreldra.

Grunnskólamenntun án aðgreiningar og endurgjalds

Hugsjón okkar Framsóknar í Suðurnesjabæ er sú að á íslandi er skólaskylda og teljum við það í raun hreint og klárt velferðar og jafnréttismál að bjóða upp á raunverulega gjaldfrjálsa grunnskólamenntun á Íslandi án aðgreiningar og endurgjalds. þannig stuðlum við að jafnræði barna óháð stöðu foreldra og tryggjum einnig að börn fái heita máltíð yfir daginn, en það er því miður veruleikinn á íslandi að öll börn búa ekki við slík lífsgæði. Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska, grundvallarlífskjara og náttúrugæða óháð uppruna, heilsu og efnahags.

Stutt er síðan að breytingar voru gerðar á lögum um grunnskóla nr. 91 frá 12. júní 2008 en þar kom inn ákvæði í 31. gr laganna sem fjallar um “Kostnað í skyldunámi kemur fram að Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá.

Fram­sókn hvatti sveitar­fé­lög til að styðja gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Sveitastjórnarráð Framsóknarflokksins hvatti sveitarstjórnarfólk um land allt til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, sem hafi það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu. Sveitarstjórnarráð Framsóknar studdi að ríki og sveitarfélög myndu tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórnin hafði samþykkt.

Við erum að stíga gríðarlega mikilvægt skref með því að innleiða gjaldfrjálsar skólamaltíðir á Íslandi og lýsi ég yfir ánægju með nýja kjarasamninga sem tryggja aukin lífskjör í landinu sem munu leiða af sér lækkun verðbólgu og vaxta, En þeir munu líka um leið tryggja börnunum okkar bjarta framtíð með jöfnu aðgengi að næringarríkum og hollum mat.

Ríki og sveitarfélög ættu að líta á verkefnið sem lausn sameiginlegs viðfangsefnis þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jöfnuðar

Framsókn er hreyfiafl framfara í samfélaginu og setur barnafjölskyldur í forgang

Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.