Categories
Fréttir

Jafnréttisviðurkenning Framsóknar

Deila grein

24/04/2024

Jafnréttisviðurkenning Framsóknar

Á 37. Flokksþingi Framsóknar síðastliðna helgi var jafnréttisviðurkenning Framsóknar veitt.

Jafnréttisnefnd Framsóknar veitir verðlaunin á hverju flokksþingi einstaklingi sem hefur skarað fram úr að framgengi jafnréttisáætlunar flokksins. Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Norðvestur kjördæmis, veitti verðlaunin fyrir hönd nefndarinnar.

Guðný Sverrisdóttir á Grenivík fékk verðlaunin að þessu sinni og hafði Halla Signý þetta um hana að segja við afhendinguna:

„Hún hefur brotið marga múra í gegnum tíðina og glerþökin hafa splundrast með þátttöku hennar í sínum störfum og ekki síst í félagsstarfi. Guðný hefur setið í stjórnum á landsvísu á vegum sveitarfélaga og þá vil ég helst nefna stjórnarsetu í Jöfnunarsjóðnum og fleira mætti telja.

Ég man eftir að heyra í Guðnýju í fjölmiðlum, kjarnyrt og bjó ekki viðtölin í neinn skrautpappir, ég sá haft eftir henni að það væri hreint ótrúlegt hvað spyrlar í fjölmiðlum vissu lítið um landsbyggðina, þarna fór kona sem barðist fyrir sínu landssvæði og gerði það vel.

Þegar Guðný tók við sveitastjórastöðunni árið1987 var hún eina konan á landinu sem sem gegndi framkvæmdastjórastöðu í  sveitarfélagi og var það um árabil eða þangað til Ingibjörg Sólrún tók við borgarstjórastólnum 1994.

Guðný gegndi þeirri stöðu  í 27 ár en, þá stofnaði hún ásamt tveimur öðrum konum , ráðgjafafyrirtækið Ráðrík og þar voru samankomnar konur með miklu reynslu úr stjórnsýslunni.  Ég spurði hana einu sinni af hverju hún hefði stofnað þetta fyrirtæki, og hún svaraði að bragði; ,,Nú eftir að ég hætti sem Sveitastjóri þá var ég 64 ára og ég bara nennti því ekki að hætta að vinna.“ Mér fannst þetta gott svar og öðrum hvatning.

Ég hringdi í Guðnýju til að fara yfir nokkrar staðreyndir, og spurði þá hvað hún gæti helst státað sig af. ,,Nú ég hef nú bara verið ég sjálf”.

Hún hefur sem sagt alltaf starfað við það sem við viljum öll vera. Við sjálf.“

Framsókn óskar Guðnýju Sverrisdóttur innilega til hamingju.