Categories
Greinar

Vaxtarsvæðið Suðurnes – þjónusta ríkisins þarf að fylgja með

Deila grein

12/05/2023

Vaxtarsvæðið Suðurnes – þjónusta ríkisins þarf að fylgja með

Á Suðurnesjum er íbúafjöldinn nú 31.891 manns þann 1. maí. Þetta gerir 3,0% fjölgun á Suðurnesjum á tímabilinu frá 1. desember 2022 til 1. maí 2023 eða 929 manns. Íbúa fjöldinn á svæðinu vex ásmegin. Fólk kýs að flytja til suðurnesja frá höfuðborgarsvæðinu í leit að hagstæðara verði á íbúðarhúsnæði, friðsælla umhverfi sem er í nærumhverfi við náttúruna, enda eru suðurnes einstök með allri sinni náttúrudýrð og margir sem kjósa ekki búsetu í allri þeirri umferð og þéttingu sem höfuðborgarsvæðið hefur upp á að bjóða. Því hefur verið beint til sveitarstjórnarmanna á svæðinu að eiga nægilegt lóðaframboð til að mæta eftirspurn sem ríkir á húsnæðismarkaði slík uppbygging kallar einnig á aukna þjónustuþætti að hálfu sveitarfélaga sem er mjög kostnaðarsöm  fyrir utan gatnagerð má nefna stækkun grunnskóla, nýbyggingar á mannvirkjum t.d leikskólum, íþróttasvæðum og svo mætti lengi telja.

Alþingi þarf líka að horfa til suðurnesja, því ber að fagna að Innviðarráðherra hefur sett tvöföldun Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns á dagskrá og er áætlað að sú framkvæmd verði tilbúin sumarið 2026.
En betur má en duga skal, vaxandi samfélag eins og á suðurnesjum þurfa líka aukið fjármagn til heilbrigðismála, menntamála og í málefnum fatlaðs fólks, en málefni fatlaðra er nú alfarið kominn yfir til sveitarfélaga, sá málaflokkur er  algjörlega vanfjármagnaður að hálfu ríkisins og sveitarfélög sitja uppi með gríðarlegan kostnað eftir þá yfirfærslu.

Það sem brennur á suðurnesjamönnum öllum er aukið fé til heilbrigðismála og efling heilsugæslunnar á svæðinu. Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er staðsett í Suðurnesjabæ með öllum þeim tilburða mikla ferðamanna straumi, Aukning ferðamanna ásamt fjölgjun íbúa á svæðinu hefur sett gríðarlegt álag á HSS í Reykjanesbæ. Það hefur orðið til þess að íbúar á Suðurnesjum sitja á hakanum eftir þjónustu í heimabyggð.

Það er algjörlega fráleitt að næst stærsta sveitarfélag á suðurnesjum Suðurnesjabær sem telur nú um 4000 íbúa hafi enga heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, hvorki heilsugæslu né hjúkrunarheimili, þessu þarf að breyta og stuðla þannig að bættri þjónustu við íbúa á svæðinu og færa fólkinu sem býr á suðurnesjum aukið aðgengi að grunnþáttum samfélagsins sem snýr að ríkinu.

Anton Guðmundsson oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ.

Categories
Fréttir

Vorfundur miðstjórnar

Deila grein

11/05/2023

Vorfundur miðstjórnar

Landsstjórn Framsóknar hefur samþykkt að boða til vorfundar miðstjórnar föstudaginn 2. júní næstkomandi. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík, en að fundi loknum verður móttaka fyrir miðstjórnarfulltrúa að Hverfisgötu 33.

Við viljum ítreka að aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

Þá viljum við biðja þá fulltrúa sem skrá sig að taka fram hvort þeir sjá fram á að taka þátt í kvöldverðarhlaðborði á Grand Hótel.

Fulltrúar greiða sjálfir fyrir matinn við mætingu á fundinn, verð á mann er 6.900 kr.

Þá minnum við á að eftir lagabreytingu flokksins þá er allt sveitarstjórnarfólk Framsóknar sjálfkjörið í miðstjórn.

Drög að dagskrá fundarins:

18:00– Setning fundarins

18:05 – Kosning fundarstjóra og ritara

18:10 –Ræða formanns – Sigurður Ingi Jóhannsson 

18:25 – Ræða varaformanns – Lilja Dögg Alfreðsdóttir 

18:35 – Yfirlit yfir málefna- og innrastarf – Ásmundur Einar Daðason 

18:45 – Almennar stjórnmálaumræður 

20:15 – Kvöldverður á Grand Hótel Reykjavík

21:30 – Móttaka að Hverfisgötu 33 

Categories
Fréttir Greinar

Hvar liggur björgunarviljinn?

Deila grein

11/05/2023

Hvar liggur björgunarviljinn?

Allt frá árinu 2019 hefur verið í bígerð tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu með það að markmiði að veita bráðveikum og slösuðum sérhæfða þjónustu með sem skjótustum hætti. Árið 2019 var heilbrigðisráðherra ásamt fjármála- og efnahagsráðherra falið í ríkisstjórn að útfæra fjármögnun og tímasetningu verkefnisins. Síðan eru liðin á að verða fjögur ár en ákveðið var að bíða með verkefnið þegar heimsfaraldur Covid skall á.

Fjármögnun ekki tryggð

Í haust hafði undirrituð í hyggju að setja fram þingsályktunartillögu um tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi, búið var að óska eftir meðflutningsmönnum þegar ég ákvað að draga tillöguna til baka þar sem ég hafði fréttir af því innan úr heilbrigðisráðuneytinu að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra væri á fullu við að vinna að slíku tilraunaverkefni um sjúkraþyrlur í samræmi við tillögur sem Svandís Svavarsdóttir kynnti í ríkisstjórn árið 2019. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafði þegar skipaði samráðshóp samkvæmt tillögu starfshóps frá 2018, um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. En því miður hafa þær tillögur og hugmyndir sem þar hafa komið fram runnið út í sandinn þar sem fjármálaráðherra hefur ekki haft vilja til þess að tryggja fjármögnun verkefnisins. En tilraunaverkefni um sérhæfða sjúkraþyrlu hefur verið lagt fram í fjármálaáætlun síðustu tveggja ára en fjármögnun verkefnisins hefur ekki verið samþykkt. Eðli málsins samkvæmt getur heilbrigðisráðherra ekki tekið verkefnið lengra meðan fjármálaráðherra hefur ekki vilja til þess að tryggja því fjármögnun.

Það þarf að dekka álagssvæði

Landhelgisgæslan sinnir mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og almenningur í landinu vill standa vörð um hana líkt og bersýnilega kom fram þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætlaði sér í vetur að selja eftirlitsvél Landhelgisgæslunnar vegna fjárskorts. Almenningur í landinu vill heldur sjá verkefni landhelgisgæslunnar efld heldur en hitt, enda hefur hún löngum sannað mikilvægi sitt. Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á síðasta þingi kom fram að fyrrgreindur starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem skilaði af sér skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 var sammála um mikilvægi þess að efla sjúkraflutninga með þyrlum en ekki um leiðir að því marki. Meirihlutinn, eða fimm af sjö meðlimum, vildi ná markmiðinu með þyrlum LHG sem einnig sinna leit og björgun en minnihlutinn vildi starfrækja sérstaka sjúkraþyrlu utan Landhelgisgæslunnar.

Sú sem hér skrifa telur afar mikilvægt að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifbýli, sér í lagi á álagssvæðum líkt og á Suðurlandi en útköll á svæðinu vegna slysa og bráðra veikinda hafa aukist verulega vegna sí stækkandi hóps ferðamanna á svæðinu. Yfir sumartímann ríflega þrefaldast fólksfjöldi landshlutans og það á þeim tíma sem sérfræðingar á sjúkrastofnunum eru margir hverjir í sumarfríum og erfitt reynist að tryggja mönnun reynslumikilla starfsmanna á þessu víðfeðma svæði. Ef ekki er hægt að fjármagna sjúkraþyrlu á svæðinu má velta upp þeim möguleika að bæta við starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Suðausturlandi en þannig mætti dekka enn stærra svæði en hægt er í dag og þar með efla björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Það þarf líka að tryggja að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar fái tafarlaust viðhald og viðgerðir þegar svo ber við og að þær séu allar nothæfar. Það skortir ekki vilja eða frumkvæði af hálfu heilbrigðisráðherra í þessu máli og er vel tilbúinn að setja slíkt verkefni af stað. Boltinn er nú hjá fjármálaráðherra sem þarf að svara hvort og þá hvenær hann muni tryggja fjármögnun á sjúkra- eða björgunarþyrlum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tækifæri tónlistarinnar

Deila grein

10/05/2023

Tækifæri tónlistarinnar

Í einni stærstu tónlistarviku ársins er viðeigandi að skrifa um þau risastóru skref sem við höfum tekið á Alþingi síðustu daga, í þágu íslenskt tónlistarlífs.

Við höfum unnið og samþykkt ný lög um tónlist og nýja tónlistarstefnu. Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenskt samfélag og tónlistarlíf.

Tónlist hefur fylgt mannkyninu í þúsundir ára og fólk nýtir hana til afþreyingar, til að hlýja sálina, græða sár eða koma sér í gírinn. Til eru fjölmargar tegundir og undirtegundir af tónlist og það þyrfti að leita lengi til að finna einstakling sem hefur ekki gaman af tónlist.

Íslendingar hafa lengi framleitt eigin tónlist, og síðastliðin ár hefur íslensku tónlistarfólki fjölgað umtalsvert. Íslensk tónlist hefur skapað sér sérstöðu á heimsmælikvarða og vinsældir hennar fara aukandi, hvort sem það er á sviði rappsins, poppsins, kvikmyndatónlistar eða hvaða sviði sem er. Með fjölgandi tækifærum og fleiri einstaklingum sem framleiða hér tónlist að atvinnu er tímabært að stjórnvöld marki heildarramma fyrir málefni tónlistar, styðji við upprennandi tónlistarmenn og búi til hagstæð skilyrði til frekari sköpunar.

Tónlistin er hluti af menningunni

Tónlist er ríkur hluti af menningararfi hvers samfélags. Við þekkjum það vel sem Íslendingar að gömul lög mynda arfleið Íslendinga. Við tengjum við lögin og þekkjum sögurnar sem þau segja. Lögin verða hluti af ógleymanlegum augnablikum í lífi okkar. Ekki er hægt að verðleggja menningu þjóðar þó að við vitum hversu verðmæt hún er.

Ásamt þessu er tónlist, eins og aðrar skapandi greinar, atvinnuskapandi. Hún skapar tónlistarmönnunum sjálfum atvinnu ásamt því að geta skapað afleidd störf. Tónlistin er mikilvæg útflutningsgrein og af henni getum við styrkt samfélagið og skapað frekari tekjur sem áður voru ekki staðar.

Styrkjum stöðu íslenskrar tónlistar

Í ljósi mikilvægi tónlistarinnar bæði á sviði menningar og atvinnu lagði menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fram þingsályktunartillögu um tónlistarstefnu fyrir árin 2023-2030 og frumvarp til tónlistarlaga. Málin hafa verið í umræðu hjá okkur í allsherjar- og menntamálanefnd. Nú höfum við samþykkt bæði tónlistarstefnuna og ný tónlistarlög. Markmiðið er skýrt; að mynda umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar hér á landi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Ný tónlistarmiðstöð

Í nýjum tónlistarlögum var samþykkt að setja á stofn tónlistarmiðstöð. Markmið hennar er að vera samstarfvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar. Einnig á tónlistarmiðstöðin að hafa utanumhald með tónlistarsjóði, tónlistarfólki, fyrirtækjum, verkefnum og markaðsstarfi. Það verður spennandi að sjá áhrif tónlistarsmiðstöðvarinnar á næstu árum á íslenskt menningarlíf.

Að auki tekur regluverk og styrkjakerfi hvað varðar tónlist breytingum með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu og tryggja frekari hvata til sköpunar. Með framangreindri stefnu og lagabreytingum tryggjum við kjörskilyrði til tónlistarsköpunar, styðjum upprennandi tónlistarfólk við að finna sitt hljóð og sjáum vonandi tónlistasenuna blómstra enn frekar með áframhaldandi sköpunargleði óttaleysi við að fara nýjar leiðir í tónlist, sem hefur verið hugmyndafræði íslenskrar tónlistar í áranna raðir.

Til hamingju með þessi stóru skref í þágu íslenskrar menningu og gleðilega Eurovisionviku!

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 10. maí 2023.