Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Gervigreind á þingi

Deila grein

12/10/2023

Gervigreind á þingi

Hvernig geta þing­menn notað gervi­greind til dag­legra starfa? Þetta var ein af spurn­ing­un­um sem spurt var á ný­af­stöðnu heimsþingi framtíðar­nefnda þjóðþinga. Á fund­inn mættu þing­menn alls staðar að úr heim­in­um til þess að ræða tæki­færi og hætt­ur gervi­greind­ar og hvernig við gæt­um nýtt hana okk­ur í hag. Gervi­greind­in get­ur nefni­lega gert ótrú­lega hluti. Hún get­ur aðstoðað okk­ur við ræðuskrif, frum­varpa­gerð og reiknað út svör við ýms­um fyr­ir­spurn­um. Ég tók þátt í pall­borði á heimsþing­inu um mögu­leika gervi­greind­ar­inn­ar á þjóðþing­um. Ég talaði um þær hætt­ur sem fæl­ust í því ef þing­menn færu að nota gervi­greind­ina í þessa vinnu án þess að gjalda var­hug við henni. Gervi­greind­in er byggð á gögn­um sem eru nú þegar til á net­inu, mörg ár aft­ur í tím­ann. Stór hluti þess­ara gagna er þó mjög nei­kvæður í garð sumra hópa, t.d. kvenna og hinseg­in fólks. Því meira af nei­kvæðum gögn­um sem gervi­greind­in finn­ur, því lík­legra er það til þess að end­ur­spegl­ast í svör­un­um sem gervi­greind­in gef­ur okk­ur. Ef við leggj­um fullt traust á gervi­greind­ina til að aðstoða okk­ur þá gæti það leitt til auk­inn­ar upp­lýs­inga­óreiðu því gervi­greind­in met­ur ekki mann­lega þátt­inn og sann­leik­ann í þeim gögn­um sem hún vinn­ur úr.

Ég ræddi einnig um stöðu barna gagn­vart gervi­greind­inni í pall­borðinu. Fyrr á heimsþing­inu höfðu starfs­menn stærstu tæknifyr­ir­tækja heims mætt í pall­borð til að segja af­stöðu sinna fyr­ir­tækja gagn­vart gervi­greind­inni og töluðu um hana nær al­farið á já­kvæðu nót­un­um. Sú staðreynd að þessi fyr­ir­tæki hafa safnað gögn­um um hvert ein­asta manns­barn sem not­ar sam­fé­lags­miðla þeirra í mörg ár var lítið rædd í pall­borði tæknifyr­ir­tækj­anna. Áhugi þeirra á laga­setn­ingu í kring­um gervi­greind var líka mjög tak­markaður. En það er líka mjög erfitt að setja lög í kring­um gervi­greind. Ég nefndi að við gæt­um þó ein­blínt á þá hluta sem við gæt­um sett lög um; eins og per­sónu­vernd og gagna­söfn­un stór­fyr­ir­tækja. Á Íslandi nota 98% barna, eldri en 9 ára, síma. Sem þýðir að gagna­söfn­un um þau hefst mjög snemma og það er mjög lítið um alþjóðleg lög til að tak­ast á við það. Það er mik­il­vægt að all­ar þjóðir fari að huga að því að setja tækn­inni höml­ur – án þess þó að stöðva ný­sköp­un og tækni­fram­far­ir. Miðlalæsi, laga­setn­ing og alþjóðlegt sam­starf skipta sköp­um þegar kem­ur að gervi­greind­inni. Gervi­greind­in get­ur verið eitt af okk­ar helstu verk­fær­um til framþró­un­ar en ef við ger­um ekk­ert þá get­ur þetta orðið vopn sem snýst í hönd­un­um á okk­ur.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tækifæri tónlistarinnar

Deila grein

10/05/2023

Tækifæri tónlistarinnar

Í einni stærstu tónlistarviku ársins er viðeigandi að skrifa um þau risastóru skref sem við höfum tekið á Alþingi síðustu daga, í þágu íslenskt tónlistarlífs.

Við höfum unnið og samþykkt ný lög um tónlist og nýja tónlistarstefnu. Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenskt samfélag og tónlistarlíf.

Tónlist hefur fylgt mannkyninu í þúsundir ára og fólk nýtir hana til afþreyingar, til að hlýja sálina, græða sár eða koma sér í gírinn. Til eru fjölmargar tegundir og undirtegundir af tónlist og það þyrfti að leita lengi til að finna einstakling sem hefur ekki gaman af tónlist.

Íslendingar hafa lengi framleitt eigin tónlist, og síðastliðin ár hefur íslensku tónlistarfólki fjölgað umtalsvert. Íslensk tónlist hefur skapað sér sérstöðu á heimsmælikvarða og vinsældir hennar fara aukandi, hvort sem það er á sviði rappsins, poppsins, kvikmyndatónlistar eða hvaða sviði sem er. Með fjölgandi tækifærum og fleiri einstaklingum sem framleiða hér tónlist að atvinnu er tímabært að stjórnvöld marki heildarramma fyrir málefni tónlistar, styðji við upprennandi tónlistarmenn og búi til hagstæð skilyrði til frekari sköpunar.

Tónlistin er hluti af menningunni

Tónlist er ríkur hluti af menningararfi hvers samfélags. Við þekkjum það vel sem Íslendingar að gömul lög mynda arfleið Íslendinga. Við tengjum við lögin og þekkjum sögurnar sem þau segja. Lögin verða hluti af ógleymanlegum augnablikum í lífi okkar. Ekki er hægt að verðleggja menningu þjóðar þó að við vitum hversu verðmæt hún er.

Ásamt þessu er tónlist, eins og aðrar skapandi greinar, atvinnuskapandi. Hún skapar tónlistarmönnunum sjálfum atvinnu ásamt því að geta skapað afleidd störf. Tónlistin er mikilvæg útflutningsgrein og af henni getum við styrkt samfélagið og skapað frekari tekjur sem áður voru ekki staðar.

Styrkjum stöðu íslenskrar tónlistar

Í ljósi mikilvægi tónlistarinnar bæði á sviði menningar og atvinnu lagði menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fram þingsályktunartillögu um tónlistarstefnu fyrir árin 2023-2030 og frumvarp til tónlistarlaga. Málin hafa verið í umræðu hjá okkur í allsherjar- og menntamálanefnd. Nú höfum við samþykkt bæði tónlistarstefnuna og ný tónlistarlög. Markmiðið er skýrt; að mynda umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar hér á landi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Ný tónlistarmiðstöð

Í nýjum tónlistarlögum var samþykkt að setja á stofn tónlistarmiðstöð. Markmið hennar er að vera samstarfvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar. Einnig á tónlistarmiðstöðin að hafa utanumhald með tónlistarsjóði, tónlistarfólki, fyrirtækjum, verkefnum og markaðsstarfi. Það verður spennandi að sjá áhrif tónlistarsmiðstöðvarinnar á næstu árum á íslenskt menningarlíf.

Að auki tekur regluverk og styrkjakerfi hvað varðar tónlist breytingum með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu og tryggja frekari hvata til sköpunar. Með framangreindri stefnu og lagabreytingum tryggjum við kjörskilyrði til tónlistarsköpunar, styðjum upprennandi tónlistarfólk við að finna sitt hljóð og sjáum vonandi tónlistasenuna blómstra enn frekar með áframhaldandi sköpunargleði óttaleysi við að fara nýjar leiðir í tónlist, sem hefur verið hugmyndafræði íslenskrar tónlistar í áranna raðir.

Til hamingju með þessi stóru skref í þágu íslenskrar menningu og gleðilega Eurovisionviku!

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 10. maí 2023.

Categories
Greinar

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Deila grein

05/05/2023

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Í lok liðins mánaðar voru staðfest þau gleðilegu tíðindi að Íslensk Erfðagreining muni taka þátt í því að rannsaka riðu í íslensku sauðfé, en riða er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á sauðfé og veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Sjúkdómurinn er erfiður viðureignar og ekki hefur verið fundið upp bóluefni til þess að verjast honum. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi, þegar upp hefur komið riða á bæ, hefur verið að slátra öllu fé á bænum, fara í jarðvegsskipti, hreinsa, brenna og sótthreinsa. Hér er um er að ræða verulega íþyngjandi aðgerð með tilheyrandi áfalli fyrir alla sem málið snertir.

Verndandi arfgerð

Fram til þessa höfum við ekki haft önnur úrræði við að uppræta sjúkdóminn en að aflífa stofninn. Í kjölfarið á því að fundist hefur arfgerð sem er verndandi gegn riðu eru nú loksins möguleikar á breyttri aðferðarfræði við útrýmingu á riðuveiki. ARR-arfgerðin hefur hlotið viðurkenningu sem verndandi arfgerð en til eru fleiri arfgerðir sem ekki eru viðurkenndar en unnið er að rannsóknum á þeim. Það er mat þeirra sem hér skrifa undir að mikilvægt sé að styðja við enn frekari rannsóknir og vinnu við að greina íslenska fjárstofninn. Þannig má rækta upp stofn sem er ónæmur gegn riðunni. Á þeim forsendum hefur Íslensk Erfðagreining nú komið að borðinu.

Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar mikilvæg

Það er mikið fagnaðarefni að fá Íslenska Erfðagreiningu til liðs við sauðfjárbændur, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) og fleiri sem hafa látið sig málið varða. Aðkoma Íslenskrar Erfðagreiningar er mjög mikilvæg þar sem hægt er setja aukinn þunga í að arfgerðagreina íslenska fjárstofninn með öflugra og ódýrari hætti þar sem fyrirtækið hefur yfir að ráða aflmiklum tækjum og sérfræðingum á þessu sviði. Það þekkjum við frá heimsfaraldri covid. Íslensk Erfðagreining sannar nú enn og ný mikilvægi sitt en nú í þágu íslensku sauðkindarinnar.

Ljósið við endann

Verkefnið nú er að finna allar þær kindur sem bera riðuþolna arfgerð. Í framhaldi af því verður svo hægt að dreifa þeim um landið og byggja upp sterkan fjárstofn sem tekur ekki riðu. Fyrirséð er að þetta verkefni komi til með að taka nokkur ár. Þrátt fyrir dimma daga sem gengið hafa yfir sjáum við nú loks ljósið við enda ganganna, og í kjölfarið breytt vinnubrögð sömuleiðis. Niðurskurður mun vonandi von bráðar tilheyra fortíðinni. Framtíðin er samvinnuverkefni bænda, vísindamanna og stjórnvalda.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Stefán Vagn Stefánsson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2023.

Categories
Greinar

Í kjölfar riðusmits

Deila grein

19/04/2023

Í kjölfar riðusmits

Í gærkvöldi (18. apríl 2023) var haldinn upplýsingafundur í Húnaþingi vestra vegna þeirra riðusmita sem komið hafa upp á tveimur sauðfjárbúum þar. Þau smit eru mikið áfall fyrir bændur á þeim bæjum og í raun fyrir alla ábúendur í nágrenninu. Hugur minn er hjá bændum á Bergsstöðum og Syðri-Urriðaá.

Á fundinum komu fram margar athugasemdir sem vert er að taka til greina. Má þar nefna girðingamál, arfgerðargreiningu, upplýsingagjöf, verkferla, rannsóknir, almennt utanumhald og sálfræðiaðstoð.

Umræðan hjá stjórnmálamönnum þarf að snúast um það hvað við getum gert strax. Þá getum við litið til þess að arfgerðargreina allt eða meginþorra alls sauðfjár á landinu til þess að finna þær ær sem hafa vörn gegn riðunni. Þrátt fyrir að það verkefni yrði mjög kostnaðarsamt þá þurfum við að ræða þann möguleika. Einnig þarf að hafa reglubundið viðhald og eftirlit með varnarlínunum. Stór hluti varnarlína eru girðingar. Hér er um að ræða mörg hundruð kílómetra og því tímafrekt að hafa eftirlit og viðhald með þeim en jafnframt nauðsynlegt. Náttúra, veður og menn geta haft áhrif á girðingarnar og þess vegna þarf að skoða þær reglulega. Varnarhólfin eru mörg í kringum landið og Miðfjarðarhólfið var ósýkt. Eitt nærliggjandi hólfa var í forgangi í viðhaldi vegna riðusmita en nú þarf að einblína á hin hólfin líka.

Við þurfum að treysta fagfólkinu okkar til þess að taka ákvarðanir á fyrirliggjandi rannsóknum hverju sinni en megum heldur ekki sofna á verðinum. Það er mikilvægt að leggja mikinn þunga í rannsóknir á riðu og vinna saman að því að styrkja stöðu bænda. Þó að það veki von að finna arfgerð sem veitir vörn gegn riðu þá tekur mörg ár að rækta upp þann eiginleika í heilu hjörðunum. Einnig þarf á sama tíma að líta til annars konar kynbótastarfs, sem margir hafa unnið að í mörg ár eða áratugi.

Upplýsingagjöf og stuðningur til samfélagsins

Það kom einnig fram á fundinum að sveitastjórn, bændur og samfélag hafi ekki fengið nægilegar upplýsingar um stöðuna. Þetta er gagnrýni sem stjórnvöld þurfa að taka til sín, skapa verkferla og koma í veg fyrir að það gerist aftur. Verkferlar þurfa að taka á upplýsingagjöf til bændanna, nærsamfélags, heilbrigðisstofnanna, sveitarfélags, fjölmiðla og ríkisins. Samskiptin þurfa að vera skýr, skipulag eins gott og mögulegt er og stuðningur til staðar frá fyrsta degi.

Riðusmiti hefur oft verið líkt við náttúruhamfarir. Áfallið er slíkt. Þar af leiðandi þarf að tryggja að viðbrögðin séu í samræmi við áfallið. Verkferlar eiga að vera skýrir og utanumhald þarf að vera tryggt.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtis fyrst á visir.is 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Efling verknáms

Deila grein

12/03/2023

Efling verknáms

Lengi hef­ur verið vönt­un á fleiri ein­stak­ling­um með iðnmennt­un hér á landi og, í kjöl­far aðgerða að hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar, hef­ur þeim fjölgað veru­lega sem hafa áhuga á að stunda iðnnám. Talið er að nem­end­um í starfs­námi fjölgi um 18% næstu árin. Þetta er vissu­lega ánægju­leg þróun. Hins veg­ar er nauðsyn­legt að við henni verði brugðist hvað varðar náms­fram­boð og full­nægj­andi innviði fyr­ir hverja náms­leið.

Meira og betra verk­nám

Í síðustu viku op­in­beraði mennta- og barna­málaráðherra, Ásmund­ur Ein­ar Daðason, áform inn­an ráðuneyt­is­ins um að efla verk­nám enn frek­ar og bregðast við of­an­greindri þróun. Ein megin­á­stæða fyr­ir höfn­un í verk­nám hef­ur verið skort­ur á aðstöðu til að taka við. Á síðasta ári sáum við hundruðum ein­stak­linga synjað um aðgengi að iðnnámi vegna þessa, ein­mitt þegar vönt­un­in er mik­il. Því er ljóst að byggja þurfi nauðsyn­lega innviði og stækka ýmsa skóla svo að hægt verði að bregðast við sí­vax­andi aðsókn í verk­náms­leiðir. Ljóst er að auka þurfi námsaðstöðuna um allt að 19.500 fer­metra svo að hægt sé að mæta þeirri fjölg­un sem grein­ing­ar fyr­ir næstu ár sýna fram á.

Veg­ferðin er haf­in

Nú þegar hef­ur rík­is­stjórn­in stækkað hús­næði til verk­náms í sam­ræmi við mark­mið rík­is­stjórn­arsátt­mál­ans. Nýr og stærri Tækni­skóli er langt kom­inn í Hafnar­f­irði, þar sem aðstaðan verður efld til muna og hægt er að taka á móti fleiri nem­end­um. Einnig hef­ur verið gengið frá samn­ingi um stækk­un starfs­námsaðstöðu Fjöl­brauta­skól­ans í Breiðholti. Sú stækk­un nem­ur alls 2.400 fer­metr­um. Auk þessa hafa skref verið tek­in í átt að fjölg­un náms­leiða í Borg­ar­holts­skóla, þá sér­stak­lega í pípu­lögn­um.

Skref fyr­ir skref

Iðngrein­ar hafa lengi verið van­metn­ar hér á landi þar sem lang­flest­ir velja hina hefðbundnu náms­fram­vindu, þ.e. bók­nám að lok­inni fram­halds­skóla­gráðu. Það er ekki nema á síðustu árum sem ungt fólk hef­ur áttað sig á þeim fjöl­mörgu tæki­fær­um sem fel­ast í iðnnámi. Við sjá­um það núna í stór­felldri aukn­ingu aðsókn­ar í slíkt nám. Því er nauðsyn­legt að brugðist verði við og all­ir hafi tæki­færi til að sækja iðnnám rétt eins og bók­nám. Mik­il­væg­asti fasinn er að tryggja nauðsyn­lega innviði.

Svo stórt verk­efni þarfn­ast tíma og verður tekið í skref­um. Um er að ræða tals­verða upp­bygg­ingu, sem mun skila sér marg­falt til baka að lok­um. Þá sér­stak­lega fyr­ir nem­end­ur utan höfuðborg­ar­svæðis­ins, sem hafa ekki horft upp á mik­inn fjölda náms­tæki­færa í iðnnámi nema með því skil­yrði að þeir flytji suður. Verk­efnið er þarft og það er mikið fagnaðarefni að sjá rík­is­stjórn­ina, og þá sér­stak­lega mennta- og barna­málaráðherra, bregðast við með þess­um hætti.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtists fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2023.

Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Deila grein

29/11/2022

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Und­ir liðnum Störf þings­ins í síðustu viku nýtti ég tæki­færið og ræddi um þann lækna­skort sem við búum við hér á landi miðað við þá heil­brigðisþjón­ustu sem við vilj­um veita. Á kom­andi árum eru áhyggj­ur um að skort­ur­inn verði jafn­vel al­var­legri en sá sem við stönd­um frammi fyr­ir í dag. Mann­ekla á heil­brigðis­stofn­un­um er vanda­mál víða og fólks­fjölg­un og öldrun þjóðar­inn­ar mun, eðli máls­ins sam­kvæmt, krefjast auk­inna um­svifa í heil­brigðis­kerf­inu.

Há­skóli Íslands er eini há­skól­inn á Íslandi sem út­skrif­ar lækna en hann get­ur ein­ung­is tekið inn 60 nema á ári. Sá fjöldi næg­ir hins veg­ar ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horf­um fram á. Við bregðumst við, ann­ars veg­ar með því að flytja inn sér­menntað fólk og hins veg­ar með því að tryggja ís­lensk­um náms­mönn­um tæki­færi til lækna­náms og auk­inn­ar sér­hæf­ing­ar. Mik­ill fjöldi ís­lenskra náms­manna held­ur út í nám og meiri­hluti þeirra snýr heim með hald­bæra reynslu og sérþekk­ingu sem sam­fé­lagið nýt­ur góðs af. Íslensk­ir lækna­nem­ar sem stunda nám sitt er­lend­is hafa bent á að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér á landi. Stór hluti náms­gjalda þeirra þarf að greiðast úr eig­in vasa eða með stuðningi frá öðrum, sem veld­ur því að marg­ir missa af tæki­fær­inu til að ger­ast lækn­ar eða neyðast til að hætta í miðju námi. Ávinn­ing­ur sam­fé­lags­ins af því að styðja bet­ur við lækna­nema er­lend­is er mik­ill.

Sér­tæk­ar aðgerðir mennta­sjóðs

Í mennta­sjóði náms­manna er fjallað um sér­stak­ar íviln­an­ir náms­greina. Í 27. grein lag­anna er ráðherra gert heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána vegna til­tek­inna náms­greina. Fyr­ir þeim íviln­un­um liggja ákveðin skil­yrði eins og að upp­lýs­ing­ar liggi fyr­ir um viðvar­andi skort í starfs­stétt eða að skort­ur sé fyr­ir­sjá­an­leg­ur og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af stjórn­völd­um í sam­ráði við hlutaðeig­andi at­vinnu­rek­end­ur um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum.

Þess­ar aðgerðir hafa ekki verið nýtt­ar. Ráðherra hef­ur ekki nýtt þess­ar heim­ild­ir til þess að koma til móts við grein­ar eða byggðir sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Við finn­um helst fyr­ir þessu í heil­brigðis­geir­an­um.

Skort­ur á sér­fræðing­um í sveit­ar­fé­lög­um

Í lög­un­um er einnig fjallað um sér­staka íviln­un vegna náms­greina á sér­stök­um svæðum í 28. grein. Þar er ráðherra heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána til lánþega sem bú­sett­ir eru á svæðum skil­greind­um í sam­ráði við Byggðastofn­un. Skil­yrði fyr­ir íviln­un­um skv. þessu eru að fyr­ir liggi til­laga frá sveit­ar­fé­lagi eða sveit­ar­fé­lög­um til stjórn­valda um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af Byggðastofn­un í sam­ráði við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum. Þá seg­ir enn frem­ur að skil­yrði sé að lánþegi hafi lokið námi og sé bú­sett­ur á skil­greindu svæði og nýti mennt­un sína þar að lág­marki í 50% starfs­hlut­falli í a.m.k. tvö ár.

Það er þörf á sér­fræðimenntuðu fólki í mörg sveit­ar­fé­lög og sveit­ar­fé­lög þurfa að vita að þessi mögu­leiki sé til staðar. Ég vil því hvetja þau sveit­ar­fé­lög sem telja sig upp­fylla fram­an­greind skil­yrði til að óska eft­ir því að þess­ar sér­tæku aðgerðir séu nýtt­ar á þeirra svæði.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 29. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Ertu á sjéns?

Deila grein

26/10/2022

Ertu á sjéns?

Þegar fólk lendir á sjéns, þá er mikilvægt að hafa nokkra hluti á hreinu: Eru allir til í þetta? Hvar eru getnaðarvarnirnar?

Getnaðarvarnir gegna margvíslegum tilgangi. Eins og nafn þeirra segir til um – eiga þær að koma í veg fyrir getnað – en margar aðrar ástæður liggja að baki þess að fólk notar getnaðarvarnir. Sumar þeirra minnka líkur á kynsjúkdómum, aðrar hafa áhrif á hormónastarfsemi og veita fólki meira frelsi yfir sínum eigin líkama.

Fríar getnaðarvarnir

Ég vil að getnaðarvarnir verði ókeypis fyrir einstaklinga sem eru yngri en 25 ára og hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi ásamt 11 öðrum þingmönnum.

Einhverjir spyrja sig eflaust hvers vegna? En svarið er einfalt.

Getnaðarvarnir skipta miklu máli fyrir kynheilbrigði einstaklinga en samkvæmt skýrslum fer notkun smokks og annarra varna dvínandi meðal ungs fólks sem leiðir af sér að tilfellum kynsjúkdóma fer fjölgandi . Auðséð er að framangreint getur haft margs konar afleiðingar og því er mikilvægt að koma til móts við ungt fólk sem mögulega hefur ekki efni á getnaðarvörnum. Ungt fólk á að hafa þann möguleika að geta notað getnaðarvarnir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði.

Önnur Evrópulönd eru að gera þetta

Í fjölda ríkja, sem við berum okkur helst saman við, eru getnaðarvarnir ókeypis. Þó er mismunandi hvaða verjur það eru sem eru aðgengilegar án endurgjalds og hverjum þær eru aðgengilegar með tilliti til aldurs, kyns o.fl. Víða í Evrópu eru getnaðarvarnir aðgengilegar ungmennum þeim að kostnaðarlausu, þar á meðal í Bretlandi, Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Ef við skoðum svo nánara dæmi frá Frakklandi þá voru getnaðarvarnir nýlega gerðar ókeypis fyrir konur sem eru yngri en 25 ára. Meðal röksemda ríkisstjórnar Frakklands fyrir þeirri aðgerð voru áhyggjur um að konur hætti að nota getnaðarvarnir af fjárhagslegum ástæðum.

Vert er að minnast á skýrslu alþjóðlegu rannsóknarinnar Heilsa og líðan skólabarna (e. Health Behaviour in School-Aged Children), sem gerð hefur verið hér á landi frá árinu 2006. Þar kom fram í síðustu könnun að meðal 15 ára ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku segist einn af hverjum fjórum strákum og ein af hverjum sex stelpum hafa stundað kynlíf. Þar kom einnig fram að notkun getnaðarvarna hefði farið minnkandi síðastliðið ár, sem er mikið áhyggjuefni.

Kynheilbrigði

Kynsjúkdómar dreifast auðveldlega milli einstaklinga við samfarir og það getur tekið langan tíma fyrir einkenni þeirra að koma í ljós. Stundum koma þau aldrei í ljós á áberandi hátt og því þurfa einstaklingar að huga að kynheilbrigði í hvívetna, nota verjur og fara reglulega í skoðun ef tilefni er til þess. Kynsjúkdómur getur haft neikvæð áhrif á lífsgæði einstaklings til lífstíðar. Sumir þeirra fylgja viðkomandi alla ævi. Þeir geta leitt til ófrjósemi og ýmissa veikinda.

Ungt fólk á að geta stuðlað að kynheilbrigði og spornað gegn óskipulögðum barneignum án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur.

Kynheilbrigði er nefnilega lýðheilsumál.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst 26. október 2022.