Categories
Fréttir Greinar

Leynihótel

Deila grein

10/05/2024

Leynihótel

Í síðustu viku samþykkti Alþingi frum­varp sem hef­ur áhrif á þann fjölda íbúða sem eru í skamm­tíma­leigu til lengri tíma. Laga­breyt­ing þessi var gerð með það að mark­miði að auka fram­boð íbúðar­hús­næðis og með því stuðla að auknu jafn­vægi á hús­næðismarkaði.

Í dag get­ur hver sem er sett íbúð í sinni eigu í út­leigu í allt að 90 daga. Ef eig­andi hyggst leigja út íbúð sína til lengri tíma í skamm­tíma­leigu hef­ur hann þurft að sækja um rekstr­ar­leyfi gisti­staða. Við sjá­um mörg dæmi þess að ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki kaupi íbúðir til að setja þær í heils­árs­leigu á airbnb eða hjá sam­bæri­leg­um milli­gönguaðila. Í sum­um til­vik­um má sjá að það eru marg­ar íbúðir í sömu blokk í skamm­tíma­leigu fyr­ir eitt fyr­ir­tæki allt árið og því má segja að það sé leyni­hót­el í miðju íbúðahverfi án þess að á því séu þær ör­yggis­kröf­ur og gjöld sem við setj­um á hót­el. Frum­varpið bann­ar rekstr­ar­leyfi gisti­staða í íbúðar­hús­næði í þétt­býli og því er heils­árs­leig­an ekki leng­ur mögu­leiki.

Mis­jöfn staða dreif­býl­is og þétt­býl­is

Fólki hef­ur orðið tíðrætt um fram­boðsskort á íbúðar­hús­næði á þétt­býl­um svæðum lands­ins. Töl­fræðin sýn­ir okk­ur að tals­verður fjöldi íbúða á þétt­býl­um svæðum er nýtt­ur í skamm­tíma­leigu til ferðamanna. Þessi mikla nýt­ing íbúðar­hús­næðis er ein ástæða fram­boðsskorts á höfuðborg­ar­svæðinu. Stjórn­völd hafa ákveðið að bregðast við þessu á þann veg að tak­marka heim­ild­ir til slíkr­ar út­leigu. En skamm­tíma­leig­an hef­ur mis­mun­andi áhrif á svæði lands­ins. Því taldi at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is mik­il­vægt að tak­mörk­un þessi ætti ekki við gist­ingu í dreif­býli, eins og smá­hýsi á sveita­bæj­um og frí­stunda­hús í út­leigu. Tak­mörk­un­in var því ein­skorðuð við þétt­býl svæði. Það var gert til að tryggja að gisti­starf­semi utan þétt­býliskjarna, einkum í sveit­um, geti áfram notið sér­stöðu og stuðlað að bætt­um kjör­um íbúa þeirra svæða.

Við erum að ganga í aðgerðir til að ná betri tök­um á hús­næðismarkaðnum.

Þegar hús­næðisþörf er eins mik­il og raun ber vitni, sér­stak­lega meðal ungs fólks, geta stjórn­völd ekki setið á hönd­un­um og leyft aðilum að kaupa fjölda íbúða ein­ung­is í þeim til­gangi að leigja út til ferðamanna. Sú þróun hef­ur haft þau áhrif að fjöl­marg­ar íbúðir hafa horfið af al­menn­um hús­næðismarkaði, með til­heyr­andi áhrif­um á fram­boð, hús­næðis­verð og jafn­vel leigu­verð. Þetta eru íbúðir sem eru marg­ar í hent­ugri stærð fyr­ir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Því eru það gleðifrétt­ir að þetta frum­varp hafi verið samþykkt.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar og var fram­sögumaður máls­ins í at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2024.