Categories
Greinar

Af hverju Framsókn?

Deila grein

16/09/2021

Af hverju Framsókn?

Þegar greinar dynja á kjósendum í aðdraganda kosninga er gott að fara yfir hið pólitíska svið. Ég ætla ekki að tala um snögglegan áhuga sumra flokka á byggðamálum nú rétt fyrir kosningar heldur ætla ég að færa fyrir því rök af hverju Framsókn er besti kosturinn fyrir Vestfirðinga í þessum kosningum.

Orð og efndir – Liðið kjörtímabil

Á kjörtímabilinu hefur Ásmundur Einar Daðason hefur umbreytt stjórnsýslu þegar viðkemur málefni barna svo eftir er tekið. Ásmundur hefur breytt húsnæðiskerfinu og komið með sveigjanleg úrræði þannig að nú er verið að byggja húsnæði um land allt, þar á meðal á Vestfjörðum. Stofnframlög HMS hafa nýst í sveitafélögum til framkvæmda. Við getum litið til Bolungarvíkur í því sambandi þar er sveitarfélagið að standsetja 15 íbúðir í húsnæði sem sveitarfélagið átti og áður hýsti skrifstofuhúsnæði. Þetta er stærsta fasteignaframkvæmd sem hefur ráðist hefur verið í Bolungarvík í 30 ár þar hefur algjör stöðnun ríkt í uppbyggingu húsnæðis á þeim tíma. Nú síðast tilkynnti Ásmundur Einar um 134 milljóna króna stofnframlag til nemendagarða fyrir Lýðskólann á Flateyri.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur unnið grettistak í menntamálaráðuneytinu. Tryggð var fjármögnun fyrir nýrri námslínu í Háskólasetri Vestfjarða í sjávarbyggðafræði sem gerir Háskólasetrinu kleift að vaxa og styrkir stoðir þess. Ennfremur samþykkti Lilja lög um Lýðsskóla og gerði sérstakan samning um Lýðsskólann á Flateyri sem tryggði rekstur hans til næstu ára.

Vestfirðingar hafa heldur betur orðið vart við veru  Sigurðar Inga í samgönguráðuneytinu. Helstu framkvæmdir sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu 2017-2021 á Vestfjörðum eru:

Vegasamgöngur

 • Dýrafjarðargöng.
 • Strandavegur um Bjarnarfjarðarháls
 • Djúpvegur, Hestfjörður-Seyðisfjörður um Hattardalsá.
 • Örlygshafnarvegur, Skápadalsá-Hvalsker.
 • Dynjandisheiði. Annars vegar um 5,7 km langan kafla við Þverdalsá og hins vegar um 4,3 km langan kafla fyrir Meðalnes
 • Vestfjarðavegur um Teigskóg  Gufudalsá-Skálanes. Endurbygging og breikkun á um 6,6 km kafla frá Gufudalsá að Skálanesi. Kinnarsstaðir-Þórisstaðir. 2,7 km kafli yfir Þorskafjörð. 260 m löngsteypt brú.
 • Djúpadalsvegur. Nýbygging Djúpadalsvegar á um 5,7 km kafla.
 • Vestfjarðavegur um Bjarnadalsá í Önundarfirði
 • Bíldudalsvegur um Botnsá í Tálknafirði

Hafnarmannvirki

 • Bíldudalur – Tenging Kalkþörungabryggju, endurbygging Hafskipabryggju og landfylling austan hafnar.
 • Bolungarvík – Endurbygging Brjóts
 • Suðureyri – Endurbygging Vesturkants
 • Hólmavík – Endurbygging stálþils
 • Ísafjörður – Nýr kantur á Sundabakka (300 m) og dýpkun

Flug

 • Ísafjarðarflugvöllur – Grjótvörn, bílastæði og yfirlögn á flugbraut.
 • Bíldudalsflugvöllur – Klæðning á flugbraut.
 • Reykhólar – Endurnýjun yfirlags
 • Gjögur, viðhald
 • Loftbrú!

Við vitum öll að mikið er eftir enn en þetta eru engu að síður risaskref í rétta átt. Til þess að setja hlutina í samhengi þá voru samanlögð útgjöld í nýframkvæmdir á vegunum á vestursvæði síðustu fjögur ár rétt tæpir 23 milljarðar!

Byggðastefna í verki

Stjórnvöld þarf að skapa íbúum og fyrirtækjum þau skilyrði að þau geti vaxið og dafnað þar sem þau kjósa að setja sig niður. Þess vegna þarf þjónusta við íbúana að vera dreifð um landið og grunninnviðir þurfa að vera til staðar svo sem heilbrigðisþjónusta og menntastofnanir. Ákvörðunarvaldið hefur færst frá landsbyggðinni suður á bóginn og stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar fjarri fólkinu sem þarf að nýta sér þjónustuna. Við höfum sérstaklega upplifað þetta í heilbrigðisþjónustu.

Orkumál

Hvert landssvæði verður að hafa tækifæri til þess að nýta þá möguleika sem eru til staðar á hverju svæði. Vestfirðingar eiga að geta verið sjálfum sér nægir varðandi raforku og fengið að virkja þá kosti sem eru í rammaáætlun og hagkvæmra kosta svo sem í Vatnsfirði. Loftslagsmál eru stærsta viðfangsefni okkar stjórnmálamanna en ef við eigum að geta stundað orkuskipti verður að vera til græn orka til þess að búa til rafeldsneyti fyrir flutningabílana og skipin eða fjölskyldubílana. Orkuskipti án orku eru orðin innantóm.

Fiskeldi

Fiskeldi hefur verið kærkomin innspýting í atvinnulífið á Vestfjörðum. Framsóknarmenn hafa frá upphafi stutt við uppbyggingu greinarinnar, jafnvel þegar greinin átti sér fáa sem enga málsvara. Mikilvægt er að öll umgjörð og regluverk sé eins og best verður á kosið þannig að umhverfisáhrif verði sem minnst. Til þess að tryggja sjálfbærni á öllum sviðum verður líka að horfa á samfélagslega hlutann og þar er lykilatriði að geta tryggt sveitarfélögum sanngjarnar tekjur á móti þeirri uppbyggingu og kostnaði sem fylgir umsvifunum.

Uppboð á kvóta, feigðarflan fyrir sjávarútvegsfyrirtæki  í NV

Í Norðvesturkjördæmi eru nánast eingöngu bolfiskútgerðir og sjávarútvegsfyrirtækin eru flokkuð sem lítil-meðalstór fyrirtæki. Uppboð á kvóta eins og sum framboð boða er dauðadómur yfir litlum- og meðalstjórum bolfiskútgerðarfyrirtæki í Norðvesturkjördæmi sem ættu ekki roð í stærstu sjávarútvegsfyrirtækin sem halda mörg hver á kvóta í uppsjávartegundum líka og njóta þar af leiðandi mikillar arðsemi úr þeirri grein. Það er því vandséð hvernig uppboð á kvóta á að hjálpa hinum dreifðu byggðum Norðvesturkjördæmis. Kvótakerfið er ekki fullkomið en það borgar sig frekar að vinna í annmörkum þess frekar en að færa aflaheimildir úr Norðvesturkjördæmi til stærstu fyrirtækjanna.

Landbúnaður

Í aðdraganda kosninga er vinsælt að vilja umbylta landbúnaðarkerfinu algjörlega en yfirleitt er óútfært hvernig á að auka hag bænda í þeim breytingum. Aukið tollafrelsi á að frelsa bændur en gerir lítið annað en að berskjalda þá gagnvart samkeppni frá öðrum löndum þar sem sýklalyfjanotkun er meiri og kröfur um aðbúnað eru gjarnan allt aðrar. Framsókn hefur staðið með íslenskum landbúnaði og varið hann ágjöf. Það skiptir máli að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Það höfum við fundið í þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin misseri. Sterkt landbúnaðar- og mætvælaráðuneyti skapar tækifæri í auknum umsvifum og blómstrandi nýsköpun í landbúnaði. Íslenskir matvælaframleiðendur þurfa meiri frelsi til að auka virði framleiðslu sinnar og heimila ætti heimaslátrun og vinnslu, en hún þarf að sjálfsögðu að standast kröfur. Tækifærin eru fjölmörg, við þurfum að sjá þau og vinna með þeim.

Setjum X við B á kjördag

Ég hef undanfarin fjögur ár setið á þingi fyrir Framsókn og er stolt af þeim árangri sem við höfum náð í ríkisstjórn. Framsókn hefur haft samvinnu að leiðarljósi í þriggja flokka ríkisstjórn þar sem ólík sjónarmið koma saman og þá fæðast bestu lausnirnar. Framtíðin ræðst á miðjunni. Setjum x við B á kjördag.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður og í framboði fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 16. september 2021.

Categories
Greinar

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Deila grein

15/09/2021

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Á mörgum vinnustöðum hér á landi neyðist eldra fólk til að hætta að vinna fyrr en það vildi vegna reglna um starfslok. Aldurstengdar viðmiðanir varðandi starfslok eiga ekkert erindi í því samfélagi sem við búum í. Það er viðurkennd staðreynd að í dag lifir fólk lengur og að fólk kringum sjötugt er enn margt fullfært um að vinna sína vinnu án vandkvæða. Við gerum eldra fólki og vinnumarkaðinum í heild enga greiða með aldurstengdum viðmiðunum sem þessum.

Framsókn vill miða starfslok við hæfni

Fjölmargir einstaklingar hafa gífurlega margt fram að færa þrátt fyrir að vera komið yfir sjötugt. Fólk verður ekki af reynslu, þekkingu, menntun né dugnaði við ákveðinn afmælisdag. Með þeim reglum sem eru við lýði í dag erum við að neita þeim einstaklingum, sem enn vilja fara út úr húsi, taka þátt í samfélaginu og á atvinnumarkaði, hitta fólk og vinnufélaga og afla tekna (sem stundum er mikil þörf á). Að auki missir vinnumarkaðurinn af starfskrafti sem enn er verðmætur.

Eitt áherslumála Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess. Samtal um starfslok eiga að eiga sér stað meðal vinnuveitanda og starfsmanns, en ekki innan lagabálka ríkisins.

Að eldra fólk vinni án skerðinga

Ásamt þessu er það áherslumál hjá Framsókn að eftirlaunafólk fái að vinna eins og það sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu. Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Fjölmargir eftirlaunaþegar hafa enn brennandi áhuga á að vinna en sjá ekki virði þess eins og staðan er í dag miðað við þær skerðingar sem mæta þeim. Að auki eru brýn þörf á aukatekjum hjá mörgum eftirlaunaþegum. Við eigum ekki að láta eldra fólk gjalda fyrir dugnað.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og situr í 3. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 15. september 2021.

Categories
Greinar

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Deila grein

09/09/2021

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Það er staðreynd að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum víða um land, fyrir utan vaxtarsvæði á suðvesturhorninu, það sem af er þessari öld. Húsnæðisskortur er víða og lágt fasteignaverð hefur fælt fólk frá því að byggja sér húsnæði og þá fer óheillaboltinn að rúlla. Húsnæðisskortur hamlar annarri uppbyggingu eins og í atvinnulífi og það veldur svo sveitarfélögum erfiðleikum að byggja upp innviði sem þarf til að standa undir nauðsynlegri þjónustu og boltinn rúllar. Niðurstaðan er að það vantar alls staðar húsnæði til að eðlileg framþróun eigi sér stað. Á síðasta kjörtímabili hefur þetta smátt og smátt verið að snúast til betri vegar með lausnum sem eflir húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni. Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra hefur staðið þar í stafni í ráðuneyti húsnæðismála. Það er því mikilvægt að áfram verði unnið að þessum málefnum með festu á komandi kjörtímabilum.

Sveigjanleiki í húsnæðismálum

Ekki gilda sömu viðmið um fasteignamarkað á stór-höfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma til móts við sérstakar aðstæður þar. Lykillinn að góðri niðurstöðu í húsnæðismálum er samvinna milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúðakaupum á köldum svæðum. Úrræði sem félags- og barnamálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svarar þeirri gagnrýni málefnalega. Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í nokkrum sveitarfélögum.

Stofnframlög HMS hafa nýst sveitarfélögum til framkvæmda. Við getum litið til Bolungarvíkur í því sambandi, þar er sveitarfélagið að standsetja 15 íbúðir í húsnæði sem sveitarfélagið átti og var skrifstofuhúsnæði. Þetta er stærsta fasteignaframkvæmd sem hefur verið ráðist í, í Bolungarvík í 30 ár en þar hefur algjör stöðnun ríkt í uppbyggingu húsnæðis á þeim tíma.

Hlutdeildarlánin virka

Lög um hlutdeildarlán voru samþykkt á Alþingi á síðasta ári og var undirrituð framsögumaður á málinu í gegnum Velferðarnefnd. Um er að ræða nýjan lánaflokk til kaupa á húsnæði. Hlutdeildarlánin eru tegund lána sem veitt eru með þeim skilmálum að lánað er til tiltekins hlutfalls af verði íbúðarhúsnæðis við fasteignakaup. Þarna opnast gluggi fyrir ungt fólk að kaupa sér sitt eigið húsnæði. Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum, skapast aukinn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggðum. Þetta úrræði hefur nýst gríðarlega vel og mikil eftirspurn hefur verið eftir þessu úrræði um allt land. Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslegra veikra hópa í samfélaginu.

Framsókn til framtíðar

Það má finna yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda til húsnæðismála inn á vefnum tryggð byggð sem er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Framsókn vill vinna áfram með samvinnu og samtal að leiðarljósi milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Framsókn talar fyrir því að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga á hverjum tíma.

Uppbygging á landsbyggðinni hefst með skóflustungu að heimili fyrir fólk sem vill lifa og starfa á landsbyggðinni.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 6. september 2021.

Categories
Greinar

Jafna þarf aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Deila grein

05/09/2021

Jafna þarf aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Nokkuð hefur verið rætt um heilbrigðiskerfið síðustu misseri, hvernig skuli byggja það upp og hvort auka eigi þátt einkageirans. Í dag er fjórðungur kerfisins rekin af einkaaðilum, kerfið sjálft fer sístækkandi með fjölgun íbúa og hækkandi lífaldri ásamt aukum fjölda ferðamanna.  Framsóknarflokkurinn styður blandað kerfi og telur að það sé farsæll kostur til að efla heilbrigðiskerfið í heild. Við þurfum að beina kastljósinu á hvernig sé best að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu og tryggja að allir landsmenn hafi jafnt aðgengi hvarvetna á landinu og óháð efnahag. Það er gríðarlega mikilvægt að fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg sem flestum í nálægð við heimabyggð. Íbúar í dreifðum byggðum þurfa að hafi góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu sem borin er uppi af heilbrigðisstofnunum út um landið.

Fólk vill búa við öryggi

Í nýútkominni skýrslu Byggðastofnunar um byggðafestu og búferlaflutninga sem gerð var meðal íbúa í stærri bæjum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu kemur fram aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegi þungt þegar val á búsetu er metið, eðlilega. Við búum við gott heilbrigðiskerfi sem hefur sýnt það og sannað síðustu misseri að það getur brugðist hratt og örugglega við þegar mikið liggur við. En aðgengi að fæðingarhjálp og aðgengi að sérfræðingum er misjafnt eftir því hvar á landinu fólk býr. Því þarf að efla utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga á landsbyggðinni, þetta er baráttumál sérstaklega í hinum dreifðum byggðum, þar sem erfitt hefur verið að halda úti skurðstofum og fæðingarhjálp.  Öflug bráðaþjónusta utan spítala er nauðsynlegur hlekkur í öflugu heilbrigðiskerfi.

Nýtum okkur tæknina.

Í aðgerðaráætlun sem sett var í tengslum við heilbrigðisstefnu sem gildir til 2030 koma fram áherslur á að aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði bætt með fjarheilbrigðisþjónustu. Fjarheilbrigðisþjónustu fylgja bæði tækifæri og áskoranir. Mótun slíkrar þjónustu þarf að ígrunda vel,  bæði þeirra sem njóta og veita.  Tæknin er til staðar og ætti að geta nýst til að auka gæði og spara bæði tíma og fjármagn og til þess að hún virki þarf hún að styðja þá þjónustu sem fyrir er. Með fjarheilbrigðisþjónustu er hægt að nýta betur þann mannauð sem hver stofnun býr yfir. Þjónustan verður aðgengileg óháð búsetu og fagfólk hefur aðgang að meiri stuðningi í sínu heimahéraði. Fjarheilbrigðisþjónusta kemur þó aldrei í stað þjónustu í heimabyggð, hún getur brúað bilið í mörgum tilfellum og fækkað dýrum ferðum fólks milli landshluta í leit að þjónustu.

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er mikilvægt, það ætti að vera leiðarljós fyrir þá sem óska eftir sæti á Alþingi. Það hefur aldrei verið neitt leyndarmál að við hjá Framsókn viljum gott heilbrigðiskerfi fyrir alla í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Nýr alþjóðaflugvöllur vestur á Mýrum?

Deila grein

10/07/2021

Nýr alþjóðaflugvöllur vestur á Mýrum?

Nú hef­ur eld­gosið á Reykja­nesi staðið í hátt á fjórða mánuð. Það hef­ur tekið sér nokkr­ar kúnst­pás­ur upp á síðkastið en frem­ur en fyrr þá get­um við lítið sagt um hvernig það á eft­ir að haga sér. Lýk­ur því á morg­un? Stend­ur það í 50 ár? Hvar kem­ur það upp næst? Eitt er víst að allt er breytt. Eld­stöð á Reykja­nesskag­an­um hef­ur rumskað af löng­um svefni og við vit­um ekki hvert fram­haldið verður. Sam­gönguráðherra hef­ur rætt um að það þurfi að fara að huga að nýrri flótta­leið af Suður­nesj­um þar sem hraun gæti mögu­lega lokað Suður­strand­ar­vegi á næstu vik­um.

Við þurf­um fleiri flug­velli

Við þurf­um að vera meðvituð um mik­il­vægi þess að byggja upp ann­an alþjóðaflug­völl í ná­lægð við Reykja­vík. Í nóv­em­ber 2019 kom út skýrsla um flug­valla­kosti á suðvest­ur­horni lands­ins. Sú skýrsla var unn­in fjarri hug­mynd­um um jarðhrær­ing­ar eða eld­gos á Reykja­nesi. Í skýrsl­unni kem­ur fram sú meg­in­for­senda að á suðvest­ur­horni lands­ins verði tveir flug­vell­ir sem séu bæði fyr­ir milli­landa- og inn­an­lands­flug. Það er talið mik­il­vægt upp á sam­keppn­is­hæfni lands­byggðar og höfuðborg­ar. Þá seg­ir í skýrsl­unni að það styrki viðskipta­tæki­færi og þjón­ustu við lands­menn. Þá er tæpt á í skýrsl­unni að það þurfi vara­flug­völl fyr­ir Kefla­vík­ur­flug­völl, hann get­ur lokast, ým­ist vegna veðurs, nátt­úru­ham­fara eða slysa. Ak­ur­eyr­arflug­völl­ur og Eg­ilsstaðaflug­völl­ur hafa verið notaðir sem vara­flug­vell­ir og mik­il­vægi þeirra dreg­ur eng­inn í efa í þeim efn­um. Þá þarf áfram að styrkja í fram­hald­inu á þeim at­b­urðum sem hafa orðið á Reykja­nesi.

Ísland er eld­fjalla­eyja, eld­stöðin á Reykja­nesi hef­ur rumskað, hvað er þá til ráða? Það er mik­il­vægt að stjórn­völd bregðist við eins og sam­gönguráðherra hef­ur nú þegar gert með því að hugsa um nýja flótta­leið fyr­ir íbúa Reykja­ness vegna yf­ir­vof­andi at­b­urða. Nú þarf að horfa til framtíðar og við verðum að und­ir­búa okk­ur und­ir að finna nýja staðsetn­ingu á alþjóðleg­um flug­velli. Nú­ver­andi staðsetn­ing er frá­bær við þær aðstæður sem hafa verið uppi á suðvest­ur­horn­inu en það þarf að hugsa upp nýj­ar sviðsmynd­ir. Með fjölg­un ferðamanna og auknu milli­landa­flugi er ekki óraun­hæft að hafa tvo alþjóðaflug­velli á suðvest­ur­horn­inu, hvort sem er fyr­ir elds­um­brot eða ekki.

Svæðið í kring­um Borg­ar­nes er aðlaðandi

Loks er farið að hilla und­ir stór­huga fram­kvæmd við Sunda­braut sem bæt­ir teng­ingu milli höfuðborg­ar­svæðis, Vest­ur­lands og Norður­lands. Unnið er að tvö­föld­un Vest­ur­lands­veg­ar upp í Borg­ar­nes. Sunda­braut gæti verið lokið árið 2030 ef allt geng­ur eft­ir og opn­ar mögu­leika á greiðar og góðar heils­árs­sam­göng­ur, þá sér í lagi við allt Vest­ur­land. Við þess­ar sam­göngu­bæt­ur er ný staðsetn­ing­in fyr­ir alþjóðaflug­völl á Vest­ur­landi raun­hæf­ur kost­ur. Kannski er hent­ugt að setja niður nýj­an alþjóðarflug­völl vest­ur á Mýr­um? Ein­hverj­ir hrökkva kannski við vegna þess­ara skrifa. Eitt er víst, við verðum að þora að setj­ast niður og horfa til framtíðar út frá nýj­um en reynd­ar alda­göml­um staðreynd­um um nátt­úru lands­ins. Orð eru til alls fyrst.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþing­ismaður Fram­sókn­ar­flokks­ins í NV-kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2021.

Categories
Greinar

Verður héraðið læknislaust?

Deila grein

07/07/2021

Verður héraðið læknislaust?

Heilsugæslur um landið eiga að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðisþjónustunni. Þær eru mikilvægur hlekkur og eiga fyrst og fremst að þjóna íbúum viðkomandi sveitarfélags eða hverfis. Fjöldi lækna og starfsfólks á heilsugæslum tekur mið út frá fjölda skráðra íbúa hvers umdæmis fyrir sig. Hvert sveitarfélag eða umdæmi hverrar heilsugæslu getur verið mjög mismunandi að stærð, fjölda íbúa og að landfræði. Vegalengd að næstu heilsugæslu getur verið allt frá nokkrum kílómetrum upp í hundruð kílómetra endana á milli, þá sér í lagi á landsbyggðinni.

Óeðlilegt álag á starfsfólk

Á undanförnum árum hefur reynst erfitt að manna stöður lækna á heilsugæslum víða á landsbyggðinni. Starfsumhverfi heilsugæslunnar er erfitt í fámennum en víðfeðmum héruðum. Læknar sem gefa sig í slíkt umhverfi þurfa að standa langar vaktir og oft og tíðum undir miklu álagi. Til lengdar eru þessar vinnuaðstæður lítt spennandi né heilbrigt umhverfi fyrir fjölskyldufólk. Sólarhringurinn getur verið undir í vinnu, álagið og ábyrgðin mikil. Enginn endist í slíku vinnuumhverfi.

Þrír læknar fyrir allt að tólf þúsund manns

Starfssvæði heilsugæslunnar í Borgarnesi samanstendur af Borgarbyggð, Skorradalshreppi ásamt Eyja- og Miklaholtshreppi. Fjöldi íbúa á starfssvæðinu eru um 3.900 manns en fjöldi lækna við heilsugæslustöðina er að jafnaði þrír. Já, það eiga þrír læknar að þjóna þessu víðfeðma landsvæði, en ekki hefur þó verið fullmannað í þessar stöður undanfarin ár. Þrátt fyrir að íbúar séu skráðir 3900 þá er mikil dulin búseta á svæðinu. Þessi tala getur þrefaldast yfir sumartímann þar sem fjöldi fólks er staðsett í sumarbústöðum vítt og breitt um Borgarfjörð nokkra mánuði á ári. Þá er ótalin sú mikla umferð ferðamanna um svæðið. Læknir sem yfirgefur heilsugæslustöð eftir 8 tíma vinnudag getur átt von á því að fá útkall upp í Húsafell sem er í 62 km. fjarlægð frá Borgarnesi. Hann verður að sinna aðilanum þrátt fyrir að hann sé ekki „skráður“ á  viðkomandi heilsugæslu. Þá liggur þjóðvegur 1 í gegnum svæðið með tilheyrandi umferð sem því fylgir, læknir í Borgarnesi þarf að vera tilbúinn til hendast með sjúkrabíl upp á Holtavörðuheiði um miðja nótt til þess að sinna slysi.

Ástandið alvarlegt

Nú hafa tveir læknar við heilsugæsluna í Borgarnesi sagt starfi sínu lausu. Heilsugæslan í Borgarnesi hefur verið viðurkennd sem kennslustöð og má því ráða inn sérnámslækna eða kandídata sem vinna undir handleiðslu sérfræðilæknis á staðnum.  Eins og staðan er í dag hefur ekki tekist að ráða í þrjár sérfræðistöður lækna. Þriðja staðan hefur hingað til verið skipuð sérnámslækni eða kandídat. Til þess að hægt sé að manna stöðina með kandídötum eða sérnámslæknum þarf að vera sérfræðilæknir á stöðinni. Eins og staðan er núna er ekki búið að ráða sérfræðilækni í fullt starf í haust, hvað tekur þá við?

Íbúar finna nú þegar fyrir miklu álagi á heilsugæslunni, erfitt er að fá tíma hjá lækni og getur biðin talið nokkrar vikur. Það er erfitt að sjá eftir góðum læknum og enn erfiðara þegar er algjör óvissa ríkir um framhaldið. Miklu skiptir að fólk hafi aðgang að lækni sem er á staðnum og þekkir sögu fólks og fjölskyldna. Við vitum öll að einstaklingur sem þekkir vel til er fljótari að setja sig inn í flókar aðstæður heldur en afleysingarlæknar sem koma og fara. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa fastráðna lækna á heilsugæslum.

Horfa þarf á starfsumhverfið í heild

Það er orðið augljóst að breytinga er þörf, það þarf að meta hvert svæði fyrir sig. Það þarf að taka með í reikninginn stærð landsvæðis, umfang, samgöngur og landslag mannlífs og náttúru. Starfssvæði heilsugæsla eru margvísleg og mismunandi um allt land. Ekki er lengur hægt að horfa einungis í íbúatölu þegar meta á starfsumhverfi lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.

Hér áður fyrr létu læknar bjóða sér ýmsar aðstæður en það er ekki boðlegt lengur. Læknar, ljósmæður og þeir sem sinna svæðinu vilja og þurfa að eiga sér eðlilegt fjölskyldulíf ef þeir eiga að endast í starfi í fámennu en víðfeðmu héraði. Fjarlækningar eru góðar og gildar en þeim verður ekki viðkomið ef tilkynnt er um hjartaáfall í Húsafelli eða slys á Holtavörðuheiði. Það þarf að standa vörð um heilsugæsluna, fyrsta skrefið í því væri að meta hvert starfssvæði upp á nýtt þegar horft er til fjölda starfandi lækna og gera vinnuumhverfið meira aðlaðandi. Þannig má betur hlúa að heilsu þjóðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 7. júlí 2021.

Categories
Greinar

Mið­flokkurinn hafnar eflingu á mót­töku flótta­manna

Deila grein

15/06/2021

Mið­flokkurinn hafnar eflingu á mót­töku flótta­manna

Það er gömul saga og ný að sum góð mál klárist ekki fyrir þinglok á Alþingi. Í ár var engin undantekning á því, en sum góð mál komust því miður ekki til framkvæmda. Meðal þeirra mála var frumvarp Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, um móttöku flóttafólks sem hann lagði fram í annað sinn. Undirrituð var framsögumaður málsins fyrir velferðarnefnd Alþingis og hefur því brotið það til mergjar. Málið var samþykkt út úr velferðarnefnd eftir vandaða yfirferð, góðar umsagnir og samhljóm innan nefndarinnar, en að kröfu Miðflokksins við þinglok var málið ekki flutt til afgreiðslu í þingsal. Sagan endurtekur sig frá því í fyrra. Það má ætla að í þeirri kröfu endurspeglist þeirra viðhorft til málefna innflytjenda.

Snýr að því að efla móttöku

Umrætt frumvarp snýr að því að efla móttöku flóttafólks hér á landi á þann hátt að stuðla að aðlögun að íslensku samfélagi. Það er gert með því að efla Fjölmenningarsetur og veita því víðtækara hlutverk en áður, þ.e. að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks og halda utan um boð móttökusveitarfélaga um búsetu og þjónustu. Frumvarpinu var einungis ætlað til að efla móttöku flóttafólks sem þegar er komið til landsins og aðstoða við aðlögun þeirra að íslensku samfélagi, íslensku atvinnulífi og íslenskri tungu. Því var ekki ætlað til að auka fjölda flóttafólks heldur aðstoða þau sem nú þegar eru komin. Af þessu er ljóst að um jákvætt mál sé að ræða sem snýr aðeins að því að koma því fólki sem þegar er hingað komið að komast fljótar inn í samfélagið og aðlagast því.

Miðflokkurinn við sama heygarðshornið

Það var því grátlegt að sjá ákveðinn stjórnmálaflokk vera andstæðan þessu máli og gera sér mat úr því án þess að fjalla efnislega um innihald frumvarpsins eða virða staðreyndir. Frekar nýttu flokksmenn frumvarpið til að kasta hnútum í flóttafólk og ala á ótta með ræðum um erlend glæpagengi og umtalsverða aukningu flóttafólks hér á landi. Það gerðu þeir í pólítískum tilgangi, þ.e. með fylgisaukningu sem sjónarmið. Í þinglokum gerði sá flokkur kröfu um að frumvarpið yrði ekki afgreitt á þingi. Allir flokkar á þingi áttu rétt á slíkri kröfu, og þá taldi Miðflokkurinn sína vel varið í að stoppa eflingu á samræmdri móttöku flóttafólks. Allt byggt á því að ala á ótta með rangfærslum.

Rökin halda ekki vatni

Höfð voru uppi rök um kostnað við frumvarpið. Í ræðum á Alþingi töluðu þingmenn Miðflokksins um að frumvarpinu fylgdi dulinn kostnaður, sem væri svo umtalsverður að ríkið ætti á brattann að sækja við að framkvæma efni þess. Það er ekki fótur fyrir þessum staðhæfingum, en frumvarpið hafði verið kostnaðarmetið, eins og öll stjórnarfrumvörp, og var kostnaðurinn ekki talinn mikill miðað við það sem peningurinn væri að skapa. Einnig er nú þegar búið að ráðstafa peningnum á þennan hátt, en þá ráðstöfun má finna í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Þar kemur aðstoð sveitarfélaga til flóttafólks með aðkomu ríkisins skýrt fram.

Nýtir þjóðfélagsþegnar

Þá kemur dulinn kostnaður við að efla ekki samræmda móttöku flóttafólks til álita. Töluverður kostnaður getur fylgt því að einstaklingur sem kemur til landsins á flótta setjist hér að án fullnægjandi aðlögunar að samfélaginu. Sá einstaklingur, og fjölskylda hans, upplifir sig mögulega ekki sem hluti að íslensku samfélagi, kemst ekki í vinnu eða nám og hefur fáar leiðir til að styrkja samfélagið. Það getur mikill styrkur falist í að efla þá sem koma hér til lands á flótta. Flóttafólk hefur oft margt fram að færa t.d. með vinnuafli, þekkingu og menningu. Það sama má segja um börn þeirra ef þau fá þá menntun sem þau eiga skilið.

Af öllu þessu þá þykir undirrituð það mjög miður að málið fékk ekki afgreiðslu á lokametrunum og vonar því að það verði með fyrstu málum sem samþykkt verða á nýju þingi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. júní 2021.

Categories
Greinar

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Deila grein

08/06/2021

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Í síðustu viku mælti undirrituð fyrir þremur frumvörpum í þingsal sem koma til með að skipta veigamiklu máli fyrir velferð barna. Þessi þrjú frumvörp má setja saman í einn pakka um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, en þau eru afurð mikillar vinnu að hálfu félags- og barnamálaráðherra yfir kjörtímabilið með það að markmiði að bæta hag allra þeirra barna hér á landi sem þurfa á þjónustu að halda. Fylgst verður með velferð barna og metin þörf fyrir þjónustu og sem mikilvægt er að samráð sé á milli þjónustuveitenda með það að markmiði að þjónustan verði samfelld og samþætt í þágu velferðar barna og fjölskyldna þeirra.

Róttækar breytingar í þágu farsældar barna

Til að ná því markmiði þarf róttækar og veigamiklar breytingar á því kerfi sem er til staðar í dag. Rauði þráðurinn í þessum róttæku og veigamiklu breytingum er snemmtæk íhlutun, þ.e. að gripið verði fyrr inn í að þjónusta börn en áður. Einnig er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna. Öll þjónusta til barna í vanda verður stigskipt eftir því hversu mikil þörfin á þjónustu er. Slík „farsældarþjónusta“ er skilgreind allt frá grunnþjónustu, sem stendur öllum börnum til boða, til mjög sérhæfðrar þjónustu sem gert er ráð fyrir að einungis lítill hluti barna þurfi á að halda. Með heildstæðri mynd af stigskiptri þjónustu í þágu farsældar barna er ætlunin að stuðla að meðalhófi, skilvirkni og samfellu í veitingu þjónustu.

Snemmtæk íhlutun

Eins og áður kom fram er snemmtæk íhlutun þungamiðjan þeirra breytinga sem félags- og barnamálaráðherra hefur hrint af stað. Snemmtækri íhlutun hefur verið beitt á síðustu árum, og nokkur sveitarfélög hafa unnið slíka vinnu innan sinna raða. Sú vinna er talin hafa skilað þeim góðum árangri. Snemmtæk íhlutun er mikilvæg á fyrstu æviárunum fyrir allan síðari þroska einstaklingsins og getur því komið í veg fyrir erfiðleika síðar á lífsleiðinni. Í kjölfarið er þeim börnum fyrr veitt þjónusta en kerfið gerir ráð fyrir í dag.

Framtíðin er björt

Það liggur fyrir að kostnaður fylgi róttækum og stórum breytingum á kerfinu. Hins vegar er talið að arðsemin til lengri tíma verði gríðarleg bæði fyrir sveitarfélög og ríki. Ávinningurinn felst í minni inngripum síðar á ævinni og með því að veita umræddan stuðning sem fyrst hjá börnum er verið að skila þeim sterkari inn í fullorðinsárin. Með samþykkt þessara mála félags- og barnamálaráðherra stígum við skref í átt að því markmiði og leggjum hönd á plóg við að auka farsæld barna hér á landi.

Vegna alls þessa bind ég vonir við það að allir þingmenn á Alþingi sjái hversu jákvætt umrædd mál eru og smelli á græna takkann þegar að því kemur. Framtíðin krefst þess.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Breytingar í barna­vernd

Deila grein

07/06/2021

Breytingar í barna­vernd

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra hefur verið samþykkt úr velferðarnefnd. Nái frumvarpið fram að ganga munu meðal annars barnaverndarnefndir eins og við þekkjum þær lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í samráði við sveitarfélögin

Gríðarmikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og allt kjörtímabilið hefur verið haft mikið samráð við hlutaðeigandi aðila vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir. Samráð hefur verið haft við sveitafélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu. Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum, en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breytt um landið. Lágmarksíbúatala að baki hverri barnaverndarþjónustu er miðuð við 1500 manns, við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6000 manns.

Umdæmisráð

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu. Umdæmisráðin skulu vera sérstakar, sjálfstæðar og fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga. Sveitastjórn ber ábyrgð á því að skipa umdæmisráð sem skal starfa í fimm ár. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð enda er lágmarksstærð umdæmisins miðuð við 6000 íbúa. Umdæmisráðið er skipað að lágmarki þremur fagaðilum. Það skal taka ákvarðanir með úrskurði sem barnaverndarmál getur leitt af sér eins og vistun barns utan heimils, forsjársviptingu og umgengni í fóstri og eða vistun. Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Hér er um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Verið er að gera grundvallarbreytingar á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda, því í frumvarpinu felst að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Þetta frumvarp er einnig partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Þá er líka gert ráð fyrir ítarlegri þátttöku barna við meðferð sinna mála því það er réttur barna að fá upplýsingar um sín mál á barnvænan hátt. Barn frá 15 ára aldri getur veitt samþykki fyrir stuðningsúrræðum sem beinast einungis að því sjálfu svo eitthvað sé nefnd.

Hér er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa kerfið til nútímavitundar um réttindi barna.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý eru frambjóðendur til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. júní 2021.

Categories
Greinar

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Deila grein

27/05/2021

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Langþráðar afléttingar á samkomutakmörkunum í vikunni veittu okkur mikið frelsi. Við lögðum grímunni á flestum stöðum og urðum nánari í bókstaflegum skilningi. Í faraldrinum, sem er þó ekki alveg liðinn undir lok, höfum við með hæfni mannsins færst áfram, tekið breytingum og lært margt. En verður allt aftur eins og áður var?

Tæknin hefur sannað sig

Vinnumarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á þessum tíma sem og hugmyndir okkar um hann. Haft er eftir forseta Alþingis að hann telji að kórónuveirufaraldurinn muni hafa varanlega áhrif á þingstörfin. Þá má nú segja að fjöllin hafi færst úr stað. Á meðan á faraldrinum stóð var opnað á fjarvinnslumöguleika sem ekki var áður þekkt í störfum þingsins. Það form sannaði að starfsemi þingsins var í engu lakari en áður. Vinnumarkaðurinn er að breytast og fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína. Farsóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi. Á aðeins einu og hálfu ári hefur margt breyst sem annars hefði tekið nokkur ár.

Skref inn í framtíðina

Sveigjanlegur vinnutími og störf án staðsetningar hefur hlotið viðurkenningu. Hugmyndir okkar um fjögurra veggja starfsstöðvar hafa breyst. Það er mikilvægt að við höldum áfram og undirbúum okkur fyrir áframhaldandi breytingar í þessa átt. Við vitum ekki hvert framtíðin leiðir okkur. Sú hefðbundna leið að mennta sig til ákveðinna starfa, vera komin í öruggt starf 25 ára og fá afhent gullúrið 67 ára fyrir vel unnin störf er ekki lengur sú mynd sem við getum kynnt fyrir börnum okkar. Þau vita betur, þau eru með þetta. „Gigg hagkerfið“ hefur hafið innreið sína. Við þurfum að vera tilbúinn að mennta okkur og endurmennta alla starfsævina og þannig efla færni okkar til að vera með í síbreytilegum heimi.

Samvinnurými

Á undanförnum mánuðum hafa sprottið upp samvinnurými víða um land. Samvinnurými bjóða upp á mismunandi aðild starfsmanna sem hentar hverjum og einum. Þar næst að leiða saman þekkingu og byggja undir félagslega þarfir fólks sem vinna við sín verkefni auk þess sem þau stuðla að jákvæðari samfélagsþróun. Slíkur vinnustaður getur rúmað mismunandi verkefni sem unnin eru vítt og breytt um heiminn. Með aukinni samskiptatækni og háhraðafjarskiptatengingum um allt land skapast tækifæri til að starfa við margvísleg störf víðar en innan fyrir fram ákveðinna veggja.

Samstarf stjórnvalda og háskóla

Stjórnvöld hafa fylgst vel með þessum breytingum og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fylgja þeim eftir. Því hafa stjórnvöld í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Háskólann Íslands sett á laggirnar vefnámskeið um gervigreind. Námskeiðið er opið öllum almenningi og má finna inn á island.is. Markmiðið með námskeiðinu er að gera þekkingu á gervigreind aðgengilega svo fólk finni kraft og tækifæri í nýrri tækni ásamt því að styrkja starfsmöguleika og starfshæfni Íslendinga eins og stendur í kynningunni.

Framtíðin er í okkar höndum, tökum þátt í að móta og njóta.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. maí 2021.