Helstu þjóðarleiðtogar Evrópu eru nú saman komnir í Hörpu til viðræðna og það má með sanni segja að sagan sé að skrifa sig hér á Íslandi, enda ekki oft sem fundir af þessari stærðargráðu eru haldnir hérlendis. Það eru 17 ár síðan Evrópuráðið fundaði með þessum hætti en þetta er í fjórða sinn í 74 ára sögu stofnunarinnar sem leiðtogar aðildarríkja koma saman undir merkjum ráðsins. Umstangið er verulegt og eitthvað sem við höfum svo sannarlega ekki vanist hér áður. Af öllu er að merkja að skipulagið er gott og þeir sem hafa staðið að baki fundinum eiga hrós skilið.
Mikilvæg skilaboð
Evrópuráðið er ekki sprottið upp úr engu, það var sett á fót í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, auka samvinnu innan álfunnar og koma í veg fyrir annað stríð. Á fundi sem þessum leggja leiðtogar pólitískan ágreining til hliðar, byggja upp persónuleg tengsl og móta sameiginlega sýn fyrir frið í Evrópu.
Evrópuráðið hefur mikilvæga hlutverki að gegna við að gæta að mannréttinum, lýðræði og að alþjóðareglur séu virtar. Það er ekki er hægt að ofmeta mikilvægi funda sem þessa. Þegar leiðtogar þjóða safnast saman á einum stað fá þeir einstakt tækifæri til þess að efla skilning, tengjast og byggja upp traust. Á sama tíma senda þeir öflug skilaboð til borgaranna og alþjóðasamfélagsins um mikilvægi þess að standa saman um grundvallar mannréttindi.
Rússar þurfa að bera ábyrgð
Helsta málefni fundarins er að ræða innrás Rússa í Úkraínu, hvernig bæta megi það tjón sem Rússar hafa valdið og hvernig draga megi þá til ábyrgða fyrir þau voðaverk sem framin hafa verið. Eitt af því sem stefnt er að er að koma á fót svokallaðri tjónaskrá þar sem þau sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum innrásarinnar fá það skráð og síðar bætt, en sömuleiðis verður leitað leiða til að draga þau til ábyrgðar sem framið hafa glæpi í Úkraínu. Ef viðræður ganga vel er gert ráð fyrir að undirrituð verði sameiginleg yfirlýsing sem líklega fær nafnið Reykjavíkuryfirlýsingin (e. Reykjavík Declaration).
Ísland eyja friðar
Við eigum að vera stolt yfir því að Ísland hafi verið valið til þess að hýsa þennan merka viðburð, alveg eins og Ísland var valið á sínum tíma til þess að hýsa leiðtogafund milli Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev, en sá fundur er talin hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki og markaði tímamót þar sem tekin voru skref í átt að friði og endalokum kalda stríðsins.
Enn á ný er Ísland og Reykjavík sameiningartákn friðar, það er ekki að ástæðulausu sem Yoko Ono fann Friðarsúlunni heimili á Íslandi, Ísland á að vera, og er, hlutlaus staður þar sem helstu leiðtogar eiga að geta komið saman og lagt áhyggjur sínar á borð og leitað lausna. Það er heiður fyrir okkur að hýsa þessa mikilvægu samkomu, vonandi munu fulltrúar fundarins finna fyrir þeim góða anda sem hér ríkir og hann skili sér áfram í góðri vinnu.
Það eru rétt um 20 ár frá gildistöku laga um fæðingarorlof, frá því að lögin voru fyrst sett hafa þau tekið breytingum í takt við þarfir og auknar kröfur um fjölskylduvænni samfélag. Nú síðast árið 2021 þegar ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tók gildi en þar var fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði. Þegar breytingin var lögð fram á Alþingi voru miklar umræður um skiptinu réttinda á milli foreldra. Háværar raddir voru um að rétt væri að hafa frjálst val foreldra um skiptingu en niðurstaðan varð sú að hvort foreldrið ætti rétt á 6 mánuðum en 6 vikur væru framseljanlegar, þannig að annað gæti tekið 7 og hálfan mánuð.
Aukinn réttur foreldra til fæðingarorlofs var tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Kannanir meðal foreldra hafa sýnt að sjálfstæður réttur foreldra til orlofstöku sé sérstaklega mikilvægur sér í lagi þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili, en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Sem betur fer tókst að halda þessari skiptingu því það sýnir að með henni hvetur það til þess að báðir foreldrar taki jafna ábyrgð á fyrstu mánuðum barnsins.
Fleiri feður taka fæðingarorlof
Frá því að ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi í janúar fyrir tveimur árum hafa aldrei fleiri feður nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs og þar með erum við að færast nær markmiði laganna, sem er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Frelsið er yndislegt en á meðan launajafnrétti hefur ekki verið náð verðum við að beita þeim aðferðum sem gilda til að jafna nýtingu fæðingarorlofs milli foreldra, því alltaf þurfum við að horfa út frá hagsmunum barnsins. Í nýlegri skýrslu frá félags- og vinnumarkaðsráðherra um hvernig hafi tekist til með að uppfylla markið fæðingarorlofslaganna sem voru samþykkt voru árið 2020, sem þá verandi félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason lagði fram, kemur fram að fleiri feður taki fæðingarorlof. Þá segir jafnframt að framseljanlegur réttur til hins foreldrisins fyrir árin 2021 og 22 hafi nær undantekningalítið verið nýttur af móður.
Þróum þetta áfram
Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börnin fá leikskólapláss. Best er að samspilið sé á pari, þess vegna verðum við að halda áfram við að þróa orlofið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er talað um að unnið verði áfram í samvinnu við sveitarfélögin við að brúa þetta bil. Núverandi mennta- og barnamálaráðherra heldur á þessum málum og hefur þegar hafið vinnu við þetta verkefni. Þetta verður alltaf að vera samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga og skiptir verulegu máli fyrir , foreldra, börn og atvinnumarkaðinn að vel takist til.
Fæðingum fækkar
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur dregið verulega úr fæðingum barna og þurfum við að fara aftur á miðja 19. öld til að finna sambærilega fjölda fæddra barna á ári. Við erum hætt að viðhalda okkur til lengri tíma. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 en talið er að það þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda.
Það þýðir lítið fyrir konu sem komin er úr barneign að hvetja til barneigna, jæja! Ég er búin að skila mínu. Mitt verkefnið og stjórnvalda er þó að búa svo í haginn að hvati til fjölgunar sé til staðar því daufur er barnlaus bær. Því er mikilvægt að koma því svo fyrir að foreldrar geti treyst því að á sama tíma og foreldrum sé búið öruggt umhverfi til að njóta fyrstu mánuðina með barninu sé afkomu og atvinnuöryggi ekki ógnað. Að lokum langar mig að hvetja pör hér á landi að taka sér smá kósí-kvöld um helgina, það er víða spáð rigningu og aðeins kólnandi veðri á laugardagskvöldið og því tilvalið að fara snemma undir sæng.
Í lok liðins mánaðar voru staðfest þau gleðilegu tíðindi að Íslensk Erfðagreining muni taka þátt í því að rannsaka riðu í íslensku sauðfé, en riða er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á sauðfé og veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Sjúkdómurinn er erfiður viðureignar og ekki hefur verið fundið upp bóluefni til þess að verjast honum. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi, þegar upp hefur komið riða á bæ, hefur verið að slátra öllu fé á bænum, fara í jarðvegsskipti, hreinsa, brenna og sótthreinsa. Hér er um er að ræða verulega íþyngjandi aðgerð með tilheyrandi áfalli fyrir alla sem málið snertir.
Verndandi arfgerð
Fram til þessa höfum við ekki haft önnur úrræði við að uppræta sjúkdóminn en að aflífa stofninn. Í kjölfarið á því að fundist hefur arfgerð sem er verndandi gegn riðu eru nú loksins möguleikar á breyttri aðferðarfræði við útrýmingu á riðuveiki. ARR-arfgerðin hefur hlotið viðurkenningu sem verndandi arfgerð en til eru fleiri arfgerðir sem ekki eru viðurkenndar en unnið er að rannsóknum á þeim. Það er mat þeirra sem hér skrifa undir að mikilvægt sé að styðja við enn frekari rannsóknir og vinnu við að greina íslenska fjárstofninn. Þannig má rækta upp stofn sem er ónæmur gegn riðunni. Á þeim forsendum hefur Íslensk Erfðagreining nú komið að borðinu.
Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar mikilvæg
Það er mikið fagnaðarefni að fá Íslenska Erfðagreiningu til liðs við sauðfjárbændur, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) og fleiri sem hafa látið sig málið varða. Aðkoma Íslenskrar Erfðagreiningar er mjög mikilvæg þar sem hægt er setja aukinn þunga í að arfgerðagreina íslenska fjárstofninn með öflugra og ódýrari hætti þar sem fyrirtækið hefur yfir að ráða aflmiklum tækjum og sérfræðingum á þessu sviði. Það þekkjum við frá heimsfaraldri covid. Íslensk Erfðagreining sannar nú enn og ný mikilvægi sitt en nú í þágu íslensku sauðkindarinnar.
Ljósið við endann
Verkefnið nú er að finna allar þær kindur sem bera riðuþolna arfgerð. Í framhaldi af því verður svo hægt að dreifa þeim um landið og byggja upp sterkan fjárstofn sem tekur ekki riðu. Fyrirséð er að þetta verkefni komi til með að taka nokkur ár. Þrátt fyrir dimma daga sem gengið hafa yfir sjáum við nú loks ljósið við enda ganganna, og í kjölfarið breytt vinnubrögð sömuleiðis. Niðurskurður mun vonandi von bráðar tilheyra fortíðinni. Framtíðin er samvinnuverkefni bænda, vísindamanna og stjórnvalda.
Markmið núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru metnaðarfull. Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess er stefnt að því að Ísland nái að verða óháð jarðefnaeldsneyti í lofti, láði og legi árið 2050. Til að þessi markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast með stjórnvöldum á árarnar.
Sameiginleg markmið
Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum. Við erum sammála um að tími aðgerða er runninn upp og ég held að við séum meðvituð um ábyrgð okkar allra að þessum markmiðum. En það er ágreiningur um hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að huga að frekari orkuöflun með grænni orku.
Ljóst er að það þarf að fara í umtalsverðar fjárfestingar í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo markmiðin náist. Raforkuöryggi samanstendur af framboði á raforku, eftirspurn og flutningskerfi. Allt þetta þarf að vera til staðar og er stór þáttur í að við getum náð loflagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er að tryggja nægjanlega raforku um allt land.
Hlaða rafmagnsbílinn með jarðefnaeldsneyti
Það virðist sem margir gerir sér ekki grein fyrir að við erum ekki búin að tryggja raforkuöryggi hringinn í kringum landið. Því miður er staðreyndin sú að á sama tíma og við ætlum okkur að verða kolefnishlutlaus erum við að nota milljónir tonna af jarðeldsneyti. Á Vestfjörðum hafa verið brennd yfir 2,1 milljónir lítra af olíu milli áranna 2021-2022 til þess að til að kynda fjarvarmaveitur og tryggja upphitun húsnæðis á svæðinu. Þá er ótalin olían sem fór í að tryggja raforkuöryggi í öflugri varaaflsstöð í Bolungarvík, það má því leiða líkur að því að einhver hafi hlaðið rafmagnsbílinn sinn fyrir vestan með jarðefniseldsneyti.
Raforkuöryggi og framboð á nægri raforku er forsenda efnahagslegra framfara. Auk þess sem nægjanleg græn orkuframleiðsla leiðir okkur að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og er nauðsynleg fyrir orkuskipti í samgöngum og hjá fiskiskipum. Til þess þarf að vera aðgengi að grænni orku hringinn í kringum landið.
Kolefnislosun frá landbúnaði
Þá er kolefnislosun frá landbúnaði metin töluverð, en hún er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Það þarf því að kortleggja sem næst raunverulega langtímakolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi og þörf er á átaki í að mæla hana skipulega sem víðast. Væntanlega þarf að mæla út frá mismunandi jarðvegi og á mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á kolefnislosun frá landbúnaði um allt land, ekki síst til þegar horft er til markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.
Það þarf samtakamátt til að ná árangri í loftslagsmálum og það eru margir þættir sem þarf að horfa til, það er ekki nein ein lausn. Fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal til þess að komast áfram.
Áfallið þegar riðusmit kemur upp í fjárstofni getur verið verulegt og afleiðingarnar af riðusmiti geta verið mjög miklar og erfiðar fyrir bændur. Við sem stöndum hjá sýnum samkennd en getum lítið gert í þessum aðstæðum. Þær reglur og aðferðir sem nú eru í gildi þegar riðuveiki greinist í sauðkind miða að því að aflífa allan fjárstofninn á bænum. Verkferlar MAST snúa að því að greina sjúkdóminn og með staðfestu smiti þarf að aflífa stofninn, ráðast í smitrakningu og hefja hreinsunaraðgerðir á bænum sem tekur nokkurn tíma.
Með nýrri tækni verður vonandi hægt að ráða niðurlögum þessa erfiða sjúkdóms, það er með öflugri arfgerðargreiningu á fjárstofni landsins. Til að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni.
Áfallahjálp
Sem betur fer erum við komin á þann stað að þegar áfall ríður yfir grípur okkur stuðningsnet sem hjálpar okkur aftur á fætur. Þegar stærri áföll eða hamfarir í samfélögum verða eins og náttúruhamfarir þá taka yfir verkferlar í almannahjálp. Áföll geta haft varanleg áhrif og mikið tilfinningalegt álag. Það er því mikilvægt að sækja sér aðstoð sem fyrst til að vinna úr alvarlegum atburðum og koma þannig í veg fyrir vandamál í framtíðinni. Rauði krossinn hefur umsjón með áfallahjálp hér á landi í skipulagi almannavarna á Íslandi. Þetta teymi hefur verið virkjað við stór og smá tilfelli með aðkomu ýmissa fagaðila með góðum árangri.
Samfélag í sárum
Það skiptir máli að hafa hraðar hendur þegar riðutilfelli koma upp, Setja ferlið á stað hratt og örugglega. Hvert tilfelli er einstakt og þegar upp kemur riðutilfelli í einu hólfi getur farið á stað atburðarás sem erfitt er að sjá fyrir endann á. Það er mikið álag á starfsmönnum MAST við slíkar aðstæður. Gæta þarf sérstaklega að því að hafa góð samskipti við fólk sem er að missa lífsviðurværið sitt auk þess sem aðstæður fjölskyldna eru settar í algjört uppnám. Ekki bara á einum bæ, heldur er allt samfélagið undir. Atvinnuörygginu er ógnað, menning og samskipti fara úr skorðum.
Því er mikilvægt að samhliða verkferlum MAST sem eru virkjað þegar riðutilfelli koma upp sé áfallateymi Rauða krossins virkjað til að veita áfallahjálp og veita samfélaginu ráðgjöf. Í nýuppkomnum riðutilfellum í Miðfjarðarhólfi er allt samfélagið undir. Þessu hefur verið líkt við hamförum því þarf að mæta með þeim verkfærum sem þekkt eru til að draga úr afleiðingum sem af þeim hlýst.
Undanfarið hefur borið á gagnrýni á Framsókn vegna aðgerðaleysis eins og það er orðað í húsnæðismálum. Það er eðlilegt að Framsókn sé gagnrýnd því flokkurinn hefur farið með húsnæðismálin síðustu 10 ár en staðreyndin er sú að Framsókn hefur virkilega látið sig húsnæðismál varða því þau eru grundvöllurinn sem heimili landsins byggja sig í kringum.
Þessi grein er ekki til þess falinn að slá út af borðinu að það séu erfiðleikar á húsnæðismarkaði í dag, við gerum okkur fulla grein fyrir því og unnið er hörðum höndum að því að tryggja eðlilega húsnæðisuppbyggingu. En til að við getum metið aðgerðir og aðgerðarleysi þá er mikilvægt að draga saman heildarmyndina og sjá hvort við séum á réttri leið.
Gríðarleg fjölgun íbúa
Við berum okkur jafnan saman við Evrópu og viljum hafa húsnæðismálin í sama ef ekki betra horfi en þar. En til að sjá hvernig við erum að standa okkur er mikilvægt að bera saman rauntölur. Ef við byrjum á íbúaþróun þá þarf ekki að skoða lengi til að sjá að íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við íbúaþróun í Evrópu. Íbúum Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum á meðan íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nærri 40% (ca. 50.000 erlendir ríkisborgarar og 58.000 íslenskir ríkisborgarar) og ef einungis eru skoðuð síðustu ár þá er fækkun í Evrópu, fækkun meðan hraðinn í fjölgun eykst á Íslandi. Ísland er því á allt öðrum stað en þau lönd sem við berum okkur helst saman við, en þar eru tölur um fjölgun eftirfarandi; Danmörk (9,8% fjölgun), Þýskaland (3% fjölgun), Noregur (24,4%), Finnland (8,4%), Bretland (17,3%) og Svíþjóð (16,2%).
Vinsældum og vexti í íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og ein þeim er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Hér í töflu frá HMS og Hagstofunni sést hvernig íbúðauppbyggingin síðustu ára hefur verið. Þetta eru íbúðir sem tekur að jafnaði 2 ár að skila fullbúnum frá því að sótt er um byggingarleyfi. Það er allavega ljóst að í tíð þeirra ríkisstjórna sem sátu á árunum 2007 til 2013 varð til gríðarleg snjóhengja í húsnæðismálum sem við erum enn að glíma við. Ef við hliðrum því tímabili um 2 ár (Sem tekur að byggja) þá sjáum við að tímabilið frá 2009 til 2015 eru met ár í skorti á íbúðum. Aðgerðir síðustu ára hafa því fyrst og fremst miðað að því að mæta þessari uppsöfnuðu þörf til að tryggja nægilegt húsnæði.
Fleiri eignast húsnæði
Gagnrýnt hefur verið að stór hlut þeirra íbúða sem byggðar hafa verið hafi endað hjá eignafólki og leigufélögum í einkaeigu og þannig hafi ávinningurinn í aukinni húsnæðis uppbyggingu fyrst og fremst farið í að okra á leigjendum. Staðreyndir vísa í aðra átt líkt og þessi mynd sýnir, en hér hefur verið tekin saman þróun á eigin húsnæði, einkareknu leiguhúsnæði (einstaklingar, ættingjar og vinir, einkarekin leigufélög, vinnuveitendur og aðrir) og opinberu/félögum (Sveitarfélög, óhagnaðardrifið leiguhúsnæði, búseturéttur og stúdentagarðar).
Þessi mynd sýnir okkur hver þróunin hefur verið í heimilum landsins á árunum 2015-2022 (ath. gögn frá 2016 skortir). Þá sýnir líkindalínan hvert við stefnum, það er í rétta átt. Því miður eru ávallt einhverjir sem reyna að nýta sér erfiða stöðu annarra en grafið sýnir augljóslega að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið síðustu ár öfugt við það sem einhverjir halda fram og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hefur hægt og rólega verið að lagast og þróast í þá átt sem við viljum sjá.
Aðgerðir í þágu heimila
Margvíslegar breytingar hafa verið gerðir síðustu ár með það að markmiðið að auka framboð á íbúðum og bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Má þar nefna lög um almennar íbúðir sem tóku gildi 15. júní 2016 en með þeim var sett á fót nýtt kerfi húsnæðisstuðnings með það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignaminni leigjenda. Árið 2020 komu síðan inn í lögin breytingar til batnaðar varðandi stofnframlög. Þá voru sett árið 2016 lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og tóku þau í gildi 1. júlí 2017. Auk þess hefur verið lögð mikil vinna í að kortleggja markaðinn ásamt því að einfalda reglugerðir og auka samvinnu við sveitarfélögin í sambandi við lóðaúthlutun.
Ef við skoðum hvað þessi lög hafa gert fyrir markaðinn er nokkuð ljóst að þau hafa haft gríðarleg áhrif, sérstaklega hvað varðar leigumarkaðinn. Leigumarkaðurinn náði hámarki árið 2018 þegar 32,2% heimila á Íslandi var á leigumarkaði eða 47.900 heimili. Í fyrra var þetta hlutfall komið niður í 21% og heimilin einungis 34.100.
Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem farið hefur verið í til að fjölga íbúðum, hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og byggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi hafa tekist vel. En þá er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Við erum enn að ráða niður afleiðingar á skorti á stefnu í húsnæðismálum í tíð fyrri ríkisstjórna sem komið var inn á hér að framan. Því til viðbótar erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn til styttri tíma, en okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja við séum ekki að safna í aðra snjóhengju með frekari skort í framtíðinni. Mikilvægast núna er að halda áfram að byggja nægilegt húsnæði yfir höfuð og halda áfram að fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi.
Uppbygging um land allt
Að lokum verðum einnig að ræða um mikilvægi þess að byggja upp íbúðir á sem flestum stöðum á landinu. Við sjáum sveitarfélag eins og Árborg og áður Reykjanesbæ sem hafa glímt við þann vanda að byggja upp nauðsynlega innviði í kjölfarið á fjölgun íbúa, sem dæmi þá hefur frá aldamótum íbúum Árborgar fjölgað um 100% og í Reykjanesbæ um 110% á meðan íbúum Íslands hefur fjölgað um 40%. Víða um land eru nægir innviðir til að taka á móti fleiri íbúum og sum staðar þarf kannski einungis að byggja upp eða við hluta af innviðunum en ekki alla innviði eins og í þeim sveitarfélögum sem vaxið hafa hvað hraðast. Víða um land eru fyrir götur, vatnsveitur, fráveitur, leikskólar, grunnskólar, íþróttamannvirki og önnur þjónusta og það er hagkvæmt að byggja þar upp og fjölga íbúum um allt land. Fyrir utan að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar mun það skila sér í bættri þjónusta fyrir þá íbúa sem fyrir eru.
Eitt af því sem hægt væri að bæta við þær aðgerðir sem eru nú þegar komnar í gang er að kortleggja hvaða sveitarfélög eða byggðakjarnar geta tekið við fleiri íbúum án þess að leggja í mikla innviðauppbyggingu. Sem dæmi má taka að nú er verið að byggja stúdentagarða á Flateyri fyrir lýðskólann. Þar er verið að tryggja leiguhúsnæði á góðum kjörum, við gamla götu með alla innviði, þar er vannýtt pláss bæði á leikskóla og í grunnskóla og þar er sundlaug og íþróttahús til staðar.
Framsókn hefur staðið fyrir öflugum aðgerðum í húsnæðismálum sem skilað hafa árangri, en það er þó nóg eftir, við getum öll verið sammála því að við séum ekki komin á áfangastað og árið 2023 verður erfitt í kjölfar alþjóðlegrar verðbólgu. Það sem þjóðin þarf að spyrja sig er hvort hún sé tilbúin að kjósa yfir sig aðgerðaleysi líkt og var árin 2007-2013 eða halda áfram með þær aðgerðir sem nú eru í gangi, bæta frekar í og tryggja að ekki verði stopp í húsnæðisuppbyggingu.
Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni
Á dögunum bárust okkur þær hræðilegu fréttir að riðusmit hafi greinst Miðfjarðarhólfi, en það svæði hefur verið talið musteri sauðfjárræktar í landinu. Það er ávallt áfall þegar riða greinist í sauðfé og aflífa þarf allan stofninn, áfall sem ekki nokkur bóndi á að þurfa að ganga í gegnum. Miðfjarðarhólf var fram að þessu talið hreint svæði og því er erfitt að kyngja þessum nýju tíðindum og hugur okkar er hjá bændum sem nú þurfa að drepa allt sitt fé nokkrum dögum fyrir sauðburð.
Riða hefur verið greind hér á landi í sauðfé í meira en öld, um er að ræða banvænan og ólæknandi sjúkdóm sem ekki hefur fundist lækning við. Því þarf þegar riða greinist á býli að fella allan stofninn auk þess sem mikillar varúðar þarf að gæta í mörg ár því smit getur dvalið í umhverfi og legið sem falin eldur í áratugi.
Á sama tíma er förgun á dýrahræjum í ólestri og einungis ein brennslustöð til taks á landinu til að taka við dýrahræjum til brennslu. Brennsla er nauðsynleg þegar um sýktar afurðir er að ræða. Þá er heldur ekki ásættanlegt að flytja sýkt dýrahræ milli varnarhólfa til förgunar með tilheyrandi áhættu.
Hin verndandi arfgerð
Þau tímamót urðu á síðasta ári að verndandi arfgerð gegn riðu var fundin í kind hér landi, það er að fundist hafa kindur hér á landi með ákveðnar stökkbreytingar sem eru ónæmar fyrir sjúkdómnum. Þessi breytileiki erfist og því væri hægt að rækta riðu úr íslenska sauðfjárstofninum á nokkrum árum. Til þess að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað öflugt verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni. Því eru það ánægjulegar fréttir að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining hafa sýnt því áhuga að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu í öllu íslensku sauðfé. Íslensk erfðagreining er öflugt fyrirtæki með færa sérfræðinga og tæki og tól til að vinna að slíku verkefni.
Íslenski sauðfjárstofninn er nærri 100 % skrásettur og því hægt að vinna hratt og örugglega við að rækta upp riðþolinn stofn hér á landi. Öflug greining gæti líka komið í veg fyrir að það þyrfti að farga heilbrigðu fé og eins og nú er gert. Hægt yrði að grisja úr sýkt fé og koma þannig í veg fyrir sársaukafullar aðgerðir.
Mikilvægt frumkvæði
Fyrir tveimur árum síðan var farið í að safna sýnum úr kindum. Þetta er vinna sem bændur sjálfir hrundu á stað og kostuðu að frumkvæði og forystu Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar styrkti verkefnið og tekin voru sýni úr tæplega 30.000 kindum víða um land. Með Karólínu hafa unnið fulltrúar frá þýskri rannsóknarmiðstöð, riðusérfræðingar frá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins auk þess sem fleiri erlendir sérfræðingar hafa komið að verkefninu. Um er að ræða frumkvöðlastarf sem getur verið upphafið að breytingu sem beðið hefur verið eftir í áratugi við að útrýma riðu í sauðfé hér á landi.
Verkefni sem skiptir máli
Riðutilfelli hér á landi eru ávallt alvarleg, sérstaklega nú þegar sauðfjárræktun stendur höllum fæti vegna annarra ytri komandi þátta. Síðasta áratug hefur verið erfiður rekstrargrundvöllur í sauðfjárrækt og þær aðstæður sem eru nú uppi í efnahagsmálum hvetja bændur enn frekar til að bregða búi og leita á önnur mið. Riðusmit á öflugustu sauðfjársvæðum landsins er fráhrindandi raunveruleiki fyrir unga bændur að búa við.
Undirrituð telja að ríkið verði því að stiga inn með fjármagn í arfgerðargreingar. Við búum við þá góðu stöðu að hér á landi er til staðar þekking og vilji til þess að vinna á þessum vanda. Það er arðsamt verkefni fyrir ríkið að fara í slíkt verkefni enda fylgir því nokkur kostnaður að fara í niðurskurð á þúsundum kinda á nokkrum árum ásamt því að greiða tilheyrandi bætur.
Íslenska lambakjötið er dýrmæt afurð
Íslenska lambakjötið er merkileg vara og það hefur nýlega verið staðfest en í síðasta mánuði fékk íslenska lambakjötið, fyrst íslenskra afurða, upprunatilvísun og er eina matvaran á landinu sem hlotið hefur slíka merkingu. Um er að ræða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu og er íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum líkt og parmaskinku, parmesanosti, kampavíni og fetaosti. Hér er um að ræða gríðarlega stóra viðurkenningu sem kemur til með að skapa aukin verðmæti íslensk lambakjöts ásamt því að festa í sessi stöðu þess á erlendum mörkuðum.
Viðurkenningin er afrakstur mikillar vinnu sem hófst hjá Bændasamtökunum fyrir sex árum og hún kemur til með að auka virði lambakjötsins og eftirspurn. Hér er um að ræða gríðarmikla sönnun á því sem við þó vissum fyrir, að við erum með dýrmæta afurð hérlendis sem við verðum með öllu hætti að vernda. Þessi viðurkenning blæs okkur vonandi byr í seglin við að styðja frekar við og auka framleiðslu á íslensku lambakjöti til þess að standast aukinni eftirspurn. Ásamt því að leita allra leiða til þess að uppræta riðu hérlendis í eitt skipti fyrir öll.
Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Framsóknar
Formaður Viðreisnar er framsýn kona og hugsar til framtíðar, þar viljum við öll vera. Hún undirstrikar það í grein sinni á Vísi í gær. Viðreisn horfir stíft til Evrópusambandsins þar sem sólin virðist skína skærar og verndartollar eru ekki til, eða hvað?
Evrópusambandið er tollabandalag og var stofnað sem slíkt, sem lýsir sér í niðurfellingu tolla milli ESB ríkja og sameiginlegum ytri tollum gagnvart ríkjum utan sambandsins. Tollar eru ekki séríslenskt fyrirbæri eins og Grýla og Leppalúði en það er oft látið að því liggja í umfjöllun þeirra sem virðast þjást af einskærri þrá og löngun til að leggja af tolla.
Það er kannski ástæða fyrir því að gula góða Cheerios fæst ekki í mörgum löndum ESB. Það er framleitt í Bandaríkjunum og er það líklega vegna hárra innflutningstolla ESB að það er bara of dýrt til að setja á markað í Evrópu.
Gott ef ekki er þá ekki líklega framleitt enn betra morgunkorn innan sambandsins og þau vilja styðja við sína matvöruframleiðendur.
Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða og hlutfallslegir yfirburðir þeirra eru mjög ólíkir. Þjóðir munu að sjálfsögðu áfram vernda framleiðslu sína og störf fólks.
Hafa það sem sannara reynist
Formaður Viðreisnar fullyrðir að verndartollar séu hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Að langstærstum hluta bera innfluttar matvörur ekki verndartolla. Ef rýnt er í íslensku tollskránna og hún borin sama við önnur lönd sem við svo oft berum okkur saman við, má sjá að Ísland leggur ekki á hærri tolla og tollskráin íslenska inniheldur ekki fleiri tollnúmer en hjá löndum sem við berum okkur saman við og er í mörgum tilfellum búið að gera tvíhliða samninga um viðskipti á matvöru sem ekki er lagt á tollar.
Betri er heimafenginn baggi
Formaður Viðreisnar er annt um íslenska matvælaframleiðslu, þar þekki ég hana. Þar er ég líka. Hún nefnir sérstaklega öfluga mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík sem við á Vestfjörðum erum virkilega stolt að. Þrátt fyrir ungt fyrirtæki eru þau búin að koma sér vel fyrir á markaði með öflugt þróunarstarf og nýsköpun að vopni.
Þjóðir leggja á verndartolla til að jafna samkeppnisstöðu innlends landbúnaðar gagnvart innflutningi á sambærilegri vöru. Það þykir sanngjarnt. Það þyrfti ekki að spyrja að framtíðarmöguleikum lítillar mjólkurvinnslu í Bolungarvík ef hún þyrfti að keppa óhindrað við innflutta verksmiðjuframleiðslu frá útlöndum. Við Íslendingar eru heppnir að því leyti að hér ríkir velmegun í samfélaginu. Við viljum horfa til framtíðar og hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum hafa hana til þess að við getum keypt hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður og skapa á sama tíma vinnu fyrir fólkið í landinu.
Matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að hverfa aftur til þess fyrirkomulags strandveiða sem var hér fyrir árið 2018. Það er að segja að aflaheimildum sem ráðstafað er til strandveiða verði skipt upp í fjögur landssvæði. Auk þess er lagt upp með að aflaheimildir hvers landssvæðis og tímabils geti verið innan sama svæðis flutt yfir á næsta tímabil innan fiskveiðiársins. Það þýðir að hvert svæði getur geymt þær aflaheimildir sem ekki tókst að ná á land í þeim mánuði sem liðinn er yfir á næsta mánuð.
Mikil vinna var lögð í þær breytingar sem gerðar voru á kerfinu árið 2018 þar sem landið varð eitt svæði. Helstu breytingar sem þá voru gerðar voru að veiðidagar urðu bundnir við 12 daga í hverjum mánuði á hvern bát þessa fjóra mánuði strandveiðitímabilsins og gilti það meðan hámarksafla væri náð. Einnig var ákvæði sem heimilaði strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla og sá afli myndi þá ekki teljast til viðmunar inn í hámarksafla. Þær breytingar sem voru gerðar voru með stuðningi landssambands smábátaeiganda en vissulega voru háværar raddir um að þetta yrði dauðadómur yfir kerfinu þar sem bátar myndu flykkjast á A- svæðið til þess að veiða þar sem það gæfi meira af sér og heimildir tímabilsins myndu nást strax á fyrstu tveimur mánuðunum.
Breytingar breytinganna vegna
Smábátasjómenn hafa eðli máls samkvæmt mikla skoðun á kerfinu, ekki bara tengt svæðum heldur einnig á flestum útfærslum þess. En svarið við þeirra athugasemdum ætti þó ekki að vera að kollvarpa núverandi kerfi og í raun að taka þá áhættu að markmið kerfisins í heild sé sett í hættu.
Áform matvælaráðherra er að hverfa til fyrra horfs sem veldur í raun meiri misskiptingu milli landssvæða en núverandi kerfi bíður upp á. Ekki er útfært í frumvarpinu hvernig aflaheimildum verði skipt milli landssvæða eða hvaða aðferðum verði beitt við að reikna það út. Erfitt getur reynst að finna út hvaða magn á að fara inn á hvert svæði.
Áður en breytt var úr skiptingu yfir í einn pott gat mismunur á milli svæða verið allt frá 6 dögum en á öðrum 20 dagar og nú hefst aftur kapphlaupið á miðin með ófyrirséðum afleiðingum.
Útkoman alltaf háð óvissu
Árið 2020 tók Byggðastofnun út þær breytingar sem voru gerðar tveimur árum fyrr. Almennt voru svarendur ánægðir með kerfið og þær breytingar sem höfðu verið gerðar. Vestlendingar og Vestfirðingar voru hvað ánægðastir með breytingarnar sem gerðar höfðu verið á strandveiðikerfinu, en Norðlendingar og Austfirðingar síður ánægðir þó meirihluti þeirra taldi þó breytingar á kerfinu til bóta. Ýmsar ábendingar komu fram til þess að bæta kerfið enn betur. Nú hefur matvælaráðherra skipað samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og hefur hún ekki lokið vinnu sinni og því er það úr takt að koma fram með þetta frumvarp á meðan sú vinna stendur yfir.
Að vori er ávallt óvissa hvernig strandveiði komi til með að verða að sumri. Ytri aðstæður er ekki hægt að festa í lög. Veðurfari, gæftum og fiskgengd væri gott að geta stjórnað en það er því miður ekki í boði. Nú ætti að vera að fara í hönd sjötta sumarið eftir að þessa breytingar voru gerðar. Farsælast væri að í haust væri tekið út hvernig til hafi tekist og hvað mætti betur fara í stað þess að rykkja í bakkgírinn án þess að stíga á kúplinguna.
Á dögunum var kynnt skýrsla alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Þar var komið inn á tækifæri og áskoranir í þörungaeldi á Íslandi. Í skýrslunni segir að þörungarækt í heiminum hafi færst í vöxt til að mæta aukinni eftirspurn og bæta framleiðslustýringu. Fjallað er um hvernig skipta megi þörungaeldi í tvær talsvert ólíkar undirgreinar, þ.e. smá- og stórþörungaframleiðslu og svo ólíkar aðferðir sem notaðar eru við ræktun, uppskeru og vinnslu. Vöxtur í smáþörungaeldi er áætlaður verulegur auk nýtingu þörunga úr sjó. Hér erum við því að tala um grein sem getur skilað af sér mörgum milljörðum í þjóðarbúið. Nú standa yfir tilraunir með ræktun á stórþörungum í sjó en í skýrslunni kemur fram að vöntun sé á sértækum reglum og stendur það vexti greinarinnar fyrir þrifum. Í skýrslunni segir að Ísland geti stutt við þörungaeldi með því að fylgja fordæmi nágrannaríkja sem hafa sett stefnur og reglur til að ýta undir sjálfbæran vöxt greinarinnar og í skýrslunni er beint á að sértækt regluverk um smáþörungaframleiðslu á Íslandi sé ekki til en vöntun á því muni sennilega ekki hamla vexti verulega.
Lærum af nágrönnum okkar
Við getum litið til nágranna okkar eins og Norðmanna, Færeyinga, Dana og Skota. Þar hafa aðgerðir verið innleiddar til að styðja við vöxt og snúa þær að því að veita þróunarleyfi og setja skýr reglu- og leyfisveitingakerfi fyrir sjálfbæra stórþörungaframleiðslu. Þetta hefur skilað þeim árangri sem stefnt var að.
Aukum verðmætasköpun við nýtingu þörunga
Í vikunni mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Tillagan felur í sér að Alþingi feli matvælaráðherra, í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun þörunga. Með því að fara yfir lög og reglur við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða landi. Auk þess miðar vinnan að því að efla rannsóknir og nýsköpun um land allt hvað varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim. Einnig er mikilvægt að styrkja eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungarækt innan viðeigandi stofnana. Vaxandi markaður er fyrir þörunga og afurðir þeirra í heiminum, en villtir þörungar eru takmörkuð auðlind. Þetta eru oft á tíðum mjög dýrar vörur og skapa því mikil verðmæti. Hér á Íslandi eru, eins og við vitum öll, kjöraðstæður fyrir bæði öflun og ræktun þörunga úr sjó ásamt ræktun á landi.
Löggjöfin sem við styðjumst enn sem komið er við, er annars vegar lög um fiskeldi, sem nær þá utan um ræktun þörunga á landi, eða alla vega að einhverju leyti. Svo erum við með nýleg lög sem fjalla um nýtingu sjávargróðurs. Mikilvægt er að gera grein fyrir hvernig lög og reglur styðja við sjálfbæra nýtingu á þörungum og hvort lögin nái yfir það verkefni sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að vexti í nýtingu á þörungum. Með úttekt á lögunum má vinna áfram að því að bæta lagarammann, greininni til heilla. Þá er einnig mikilvægt að kanna af fullri alvöru hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.
Markaður fyrir þörunga fer vaxandi
Það þarf að brauðfæða íbúa heimsins. Þar er sjálfbær matvælaframleiðsla lausnin til framtíðar. Á tímum sem nú, er fæðuöryggi í algleymingi. Fleiri skynja án efa mikilvægi öflugrar matvæla- og heilsuefnaframleiðslu hér á landi og eðlilegt er að horfa til þess hvaða frekari tækifæri kunni að vera fyrir hendi fyrir matvælalandið Ísland á komandi árum. Við strendur landsins eru víðfeðmir þaraskógar sem geta orðið enn ein stoðin í eflingu landsins sem matvæla- og bætiefnalands. Þörungategundir eða efni unnin úr þeim eru nú þegar hluti af daglegu lífi flestra Íslendinga þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þörungamjöl eða þörungaþykkni er metið að verðleikum um allan heim og er það flutt héðan lífrænt vottað.
Við höfum gríðarlega mörg og góð tækifæri ef við einbeitum okkur að því hvernig við getum tryggt aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og hann fer vaxandi. Við vitum að þjóðir í Asíu hafa lengi stundað umfangsmikla framleiðslu á þörungum og svæði í Norður-Ameríku eru komin með dágóða reynslu. Hollendingar eru komnir nokkuð framarlega á þessu sviði, bæði varðandi smáþörunga og ræktun þangs á strengjum. Þannig að þjóðir nær og fjær eru komnar vel áleiðis og engin ástæða fyrir okkur að dragast hér aftur úr. Markmiðið er að uppskera villtra þörunga verði sjálfbær. Stuðningur við þörungaframleiðslu er líka stórt byggðamál því tækifæri eru um allt land í greininni.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.