Categories
Greinar

Mið­flokkurinn hafnar eflingu á mót­töku flótta­manna

Deila grein

15/06/2021

Mið­flokkurinn hafnar eflingu á mót­töku flótta­manna

Það er gömul saga og ný að sum góð mál klárist ekki fyrir þinglok á Alþingi. Í ár var engin undantekning á því, en sum góð mál komust því miður ekki til framkvæmda. Meðal þeirra mála var frumvarp Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, um móttöku flóttafólks sem hann lagði fram í annað sinn. Undirrituð var framsögumaður málsins fyrir velferðarnefnd Alþingis og hefur því brotið það til mergjar. Málið var samþykkt út úr velferðarnefnd eftir vandaða yfirferð, góðar umsagnir og samhljóm innan nefndarinnar, en að kröfu Miðflokksins við þinglok var málið ekki flutt til afgreiðslu í þingsal. Sagan endurtekur sig frá því í fyrra. Það má ætla að í þeirri kröfu endurspeglist þeirra viðhorft til málefna innflytjenda.

Snýr að því að efla móttöku

Umrætt frumvarp snýr að því að efla móttöku flóttafólks hér á landi á þann hátt að stuðla að aðlögun að íslensku samfélagi. Það er gert með því að efla Fjölmenningarsetur og veita því víðtækara hlutverk en áður, þ.e. að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks og halda utan um boð móttökusveitarfélaga um búsetu og þjónustu. Frumvarpinu var einungis ætlað til að efla móttöku flóttafólks sem þegar er komið til landsins og aðstoða við aðlögun þeirra að íslensku samfélagi, íslensku atvinnulífi og íslenskri tungu. Því var ekki ætlað til að auka fjölda flóttafólks heldur aðstoða þau sem nú þegar eru komin. Af þessu er ljóst að um jákvætt mál sé að ræða sem snýr aðeins að því að koma því fólki sem þegar er hingað komið að komast fljótar inn í samfélagið og aðlagast því.

Miðflokkurinn við sama heygarðshornið

Það var því grátlegt að sjá ákveðinn stjórnmálaflokk vera andstæðan þessu máli og gera sér mat úr því án þess að fjalla efnislega um innihald frumvarpsins eða virða staðreyndir. Frekar nýttu flokksmenn frumvarpið til að kasta hnútum í flóttafólk og ala á ótta með ræðum um erlend glæpagengi og umtalsverða aukningu flóttafólks hér á landi. Það gerðu þeir í pólítískum tilgangi, þ.e. með fylgisaukningu sem sjónarmið. Í þinglokum gerði sá flokkur kröfu um að frumvarpið yrði ekki afgreitt á þingi. Allir flokkar á þingi áttu rétt á slíkri kröfu, og þá taldi Miðflokkurinn sína vel varið í að stoppa eflingu á samræmdri móttöku flóttafólks. Allt byggt á því að ala á ótta með rangfærslum.

Rökin halda ekki vatni

Höfð voru uppi rök um kostnað við frumvarpið. Í ræðum á Alþingi töluðu þingmenn Miðflokksins um að frumvarpinu fylgdi dulinn kostnaður, sem væri svo umtalsverður að ríkið ætti á brattann að sækja við að framkvæma efni þess. Það er ekki fótur fyrir þessum staðhæfingum, en frumvarpið hafði verið kostnaðarmetið, eins og öll stjórnarfrumvörp, og var kostnaðurinn ekki talinn mikill miðað við það sem peningurinn væri að skapa. Einnig er nú þegar búið að ráðstafa peningnum á þennan hátt, en þá ráðstöfun má finna í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Þar kemur aðstoð sveitarfélaga til flóttafólks með aðkomu ríkisins skýrt fram.

Nýtir þjóðfélagsþegnar

Þá kemur dulinn kostnaður við að efla ekki samræmda móttöku flóttafólks til álita. Töluverður kostnaður getur fylgt því að einstaklingur sem kemur til landsins á flótta setjist hér að án fullnægjandi aðlögunar að samfélaginu. Sá einstaklingur, og fjölskylda hans, upplifir sig mögulega ekki sem hluti að íslensku samfélagi, kemst ekki í vinnu eða nám og hefur fáar leiðir til að styrkja samfélagið. Það getur mikill styrkur falist í að efla þá sem koma hér til lands á flótta. Flóttafólk hefur oft margt fram að færa t.d. með vinnuafli, þekkingu og menningu. Það sama má segja um börn þeirra ef þau fá þá menntun sem þau eiga skilið.

Af öllu þessu þá þykir undirrituð það mjög miður að málið fékk ekki afgreiðslu á lokametrunum og vonar því að það verði með fyrstu málum sem samþykkt verða á nýju þingi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. júní 2021.

Categories
Greinar

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Deila grein

08/06/2021

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Í síðustu viku mælti undirrituð fyrir þremur frumvörpum í þingsal sem koma til með að skipta veigamiklu máli fyrir velferð barna. Þessi þrjú frumvörp má setja saman í einn pakka um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, en þau eru afurð mikillar vinnu að hálfu félags- og barnamálaráðherra yfir kjörtímabilið með það að markmiði að bæta hag allra þeirra barna hér á landi sem þurfa á þjónustu að halda. Fylgst verður með velferð barna og metin þörf fyrir þjónustu og sem mikilvægt er að samráð sé á milli þjónustuveitenda með það að markmiði að þjónustan verði samfelld og samþætt í þágu velferðar barna og fjölskyldna þeirra.

Róttækar breytingar í þágu farsældar barna

Til að ná því markmiði þarf róttækar og veigamiklar breytingar á því kerfi sem er til staðar í dag. Rauði þráðurinn í þessum róttæku og veigamiklu breytingum er snemmtæk íhlutun, þ.e. að gripið verði fyrr inn í að þjónusta börn en áður. Einnig er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna. Öll þjónusta til barna í vanda verður stigskipt eftir því hversu mikil þörfin á þjónustu er. Slík „farsældarþjónusta“ er skilgreind allt frá grunnþjónustu, sem stendur öllum börnum til boða, til mjög sérhæfðrar þjónustu sem gert er ráð fyrir að einungis lítill hluti barna þurfi á að halda. Með heildstæðri mynd af stigskiptri þjónustu í þágu farsældar barna er ætlunin að stuðla að meðalhófi, skilvirkni og samfellu í veitingu þjónustu.

Snemmtæk íhlutun

Eins og áður kom fram er snemmtæk íhlutun þungamiðjan þeirra breytinga sem félags- og barnamálaráðherra hefur hrint af stað. Snemmtækri íhlutun hefur verið beitt á síðustu árum, og nokkur sveitarfélög hafa unnið slíka vinnu innan sinna raða. Sú vinna er talin hafa skilað þeim góðum árangri. Snemmtæk íhlutun er mikilvæg á fyrstu æviárunum fyrir allan síðari þroska einstaklingsins og getur því komið í veg fyrir erfiðleika síðar á lífsleiðinni. Í kjölfarið er þeim börnum fyrr veitt þjónusta en kerfið gerir ráð fyrir í dag.

Framtíðin er björt

Það liggur fyrir að kostnaður fylgi róttækum og stórum breytingum á kerfinu. Hins vegar er talið að arðsemin til lengri tíma verði gríðarleg bæði fyrir sveitarfélög og ríki. Ávinningurinn felst í minni inngripum síðar á ævinni og með því að veita umræddan stuðning sem fyrst hjá börnum er verið að skila þeim sterkari inn í fullorðinsárin. Með samþykkt þessara mála félags- og barnamálaráðherra stígum við skref í átt að því markmiði og leggjum hönd á plóg við að auka farsæld barna hér á landi.

Vegna alls þessa bind ég vonir við það að allir þingmenn á Alþingi sjái hversu jákvætt umrædd mál eru og smelli á græna takkann þegar að því kemur. Framtíðin krefst þess.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Breytingar í barna­vernd

Deila grein

07/06/2021

Breytingar í barna­vernd

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra hefur verið samþykkt úr velferðarnefnd. Nái frumvarpið fram að ganga munu meðal annars barnaverndarnefndir eins og við þekkjum þær lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í samráði við sveitarfélögin

Gríðarmikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og allt kjörtímabilið hefur verið haft mikið samráð við hlutaðeigandi aðila vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir. Samráð hefur verið haft við sveitafélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu. Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum, en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breytt um landið. Lágmarksíbúatala að baki hverri barnaverndarþjónustu er miðuð við 1500 manns, við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6000 manns.

Umdæmisráð

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu. Umdæmisráðin skulu vera sérstakar, sjálfstæðar og fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga. Sveitastjórn ber ábyrgð á því að skipa umdæmisráð sem skal starfa í fimm ár. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð enda er lágmarksstærð umdæmisins miðuð við 6000 íbúa. Umdæmisráðið er skipað að lágmarki þremur fagaðilum. Það skal taka ákvarðanir með úrskurði sem barnaverndarmál getur leitt af sér eins og vistun barns utan heimils, forsjársviptingu og umgengni í fóstri og eða vistun. Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Hér er um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Verið er að gera grundvallarbreytingar á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda, því í frumvarpinu felst að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Þetta frumvarp er einnig partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Þá er líka gert ráð fyrir ítarlegri þátttöku barna við meðferð sinna mála því það er réttur barna að fá upplýsingar um sín mál á barnvænan hátt. Barn frá 15 ára aldri getur veitt samþykki fyrir stuðningsúrræðum sem beinast einungis að því sjálfu svo eitthvað sé nefnd.

Hér er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa kerfið til nútímavitundar um réttindi barna.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý eru frambjóðendur til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. júní 2021.

Categories
Greinar

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Deila grein

27/05/2021

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Langþráðar afléttingar á samkomutakmörkunum í vikunni veittu okkur mikið frelsi. Við lögðum grímunni á flestum stöðum og urðum nánari í bókstaflegum skilningi. Í faraldrinum, sem er þó ekki alveg liðinn undir lok, höfum við með hæfni mannsins færst áfram, tekið breytingum og lært margt. En verður allt aftur eins og áður var?

Tæknin hefur sannað sig

Vinnumarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á þessum tíma sem og hugmyndir okkar um hann. Haft er eftir forseta Alþingis að hann telji að kórónuveirufaraldurinn muni hafa varanlega áhrif á þingstörfin. Þá má nú segja að fjöllin hafi færst úr stað. Á meðan á faraldrinum stóð var opnað á fjarvinnslumöguleika sem ekki var áður þekkt í störfum þingsins. Það form sannaði að starfsemi þingsins var í engu lakari en áður. Vinnumarkaðurinn er að breytast og fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína. Farsóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi. Á aðeins einu og hálfu ári hefur margt breyst sem annars hefði tekið nokkur ár.

Skref inn í framtíðina

Sveigjanlegur vinnutími og störf án staðsetningar hefur hlotið viðurkenningu. Hugmyndir okkar um fjögurra veggja starfsstöðvar hafa breyst. Það er mikilvægt að við höldum áfram og undirbúum okkur fyrir áframhaldandi breytingar í þessa átt. Við vitum ekki hvert framtíðin leiðir okkur. Sú hefðbundna leið að mennta sig til ákveðinna starfa, vera komin í öruggt starf 25 ára og fá afhent gullúrið 67 ára fyrir vel unnin störf er ekki lengur sú mynd sem við getum kynnt fyrir börnum okkar. Þau vita betur, þau eru með þetta. „Gigg hagkerfið“ hefur hafið innreið sína. Við þurfum að vera tilbúinn að mennta okkur og endurmennta alla starfsævina og þannig efla færni okkar til að vera með í síbreytilegum heimi.

Samvinnurými

Á undanförnum mánuðum hafa sprottið upp samvinnurými víða um land. Samvinnurými bjóða upp á mismunandi aðild starfsmanna sem hentar hverjum og einum. Þar næst að leiða saman þekkingu og byggja undir félagslega þarfir fólks sem vinna við sín verkefni auk þess sem þau stuðla að jákvæðari samfélagsþróun. Slíkur vinnustaður getur rúmað mismunandi verkefni sem unnin eru vítt og breytt um heiminn. Með aukinni samskiptatækni og háhraðafjarskiptatengingum um allt land skapast tækifæri til að starfa við margvísleg störf víðar en innan fyrir fram ákveðinna veggja.

Samstarf stjórnvalda og háskóla

Stjórnvöld hafa fylgst vel með þessum breytingum og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fylgja þeim eftir. Því hafa stjórnvöld í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Háskólann Íslands sett á laggirnar vefnámskeið um gervigreind. Námskeiðið er opið öllum almenningi og má finna inn á island.is. Markmiðið með námskeiðinu er að gera þekkingu á gervigreind aðgengilega svo fólk finni kraft og tækifæri í nýrri tækni ásamt því að styrkja starfsmöguleika og starfshæfni Íslendinga eins og stendur í kynningunni.

Framtíðin er í okkar höndum, tökum þátt í að móta og njóta.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. maí 2021.

Categories
Greinar

Klárum leikinn – fyrir fjölskyldur

Deila grein

30/04/2021

Klárum leikinn – fyrir fjölskyldur

Fjölskyldan skipar stóran sess í íslensku samfélagi. Fjölskyldur eru jafn mismunandi eins og þær eru margar. Til þess að skapa gott samfélag er lykilatriði að hlúa vel að fjölskyldum landsins. Það hefur ávallt verið stefna Framsóknarflokksins að styðja við fjölskyldur. Góð fjölskyldueining er undirstaða að framtíð barna. Tekjur heimilisins geta haft áhrif á heilsu og líðan og dregið úr samveru og gæðastundum. Síðasta ár hefur verið erfitt fyrir margar fjölskyldur en nú sér vonandi fyrir endann á þessum faraldri. Bólusetningar ganga vel og áður en við vitum af verða hjól atvinnulífsins aftur kominn í gang, og vonandi öflugri en aldrei fyrr. Þangað til að samfélagið og fjölskyldur landsins hafa komist í gegnum brimskaflinn er stjórnvöldum ljúft og skylt að styðja við fólkið í landinu.

Barnabótaauki

Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðir til þess að styðja við fjölskyldur og atvinnulíf. Hér er um að ræða fjölþættar aðgerðir til þess að styðja bæði við heimili og fyrirtæki á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn. Einn liður í aðgerðum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum Covid-19 er sérstakur barnabótaauki. Allir þeir sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur fá greiddan sérstakan 30 þúsund króna barnabótaauka með hverju barni við álagningu opinberra gjalda einstaklinga í lok maí 2021.

Ferðagjöf

Ferðagjöfin er endurvakin, hún styrkir bæði fjölskyldur til ferðalaga innanlands sem og innlend ferðaþjónustufyrirtæki. Ferðagjöfin verður með sama sniði og í fyrra úrræði, þar sem landsmenn fá fjárhagslegan hvata til að njóta íslenskrar ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan á Íslandi hefur orðið fyrir miklum búsifjum síðastliðið ár og því er stuðningur sem þessi mikilvægur. Ef við náum að koma fyrirtækjum í ferðaþjónustu í gegnum brimið þá verður viðspyrnan hraðari. Í góðu árferði skapar ferðaþjónustan fjölda starfa og miklar gjaldeyristekjur. Ég hvet landsmenn til að nýta ferðagjöfina í að gera eitthvað saman með fjölskyldunni, hvort sem það er stórt eða lítið. Það sem eftir stendur eru vonandi góðar minningar fyrir börn og fullorðna og öflugri ferðaþjónustufyrirtæki í landinu.

Geðheilbrigði þjóðar

Eftir erfiðleika síðasta árs er einnig mikilvægt að huga að geðheilbrigðismálum. Ákveðið hefur verið að leggja 600 m. kr. viðbótarframlag til geðheilbrigðismála fyrir börn og ungmenni ásamt 200 m. kr. vegna aðgerða í aðgerðaráætlun félagsmálaráðuneytisins um viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum Covid-19 á börn, eldri borgara, öryrkja, fólk af erlendum uppruna og öðrum félagslega viðkvæmum hópum. Margir hafa átt erfitt á síðustu misserum og útlit er fyrir að erfiðleikar síðustu mánaða geti valdið eftirköstum. Félagslegt og líkamlegt heilbrigði jafnt sem andlegt og tilfinningalegt jafnvægi er samofið velgengni í einkalífi og starfi. Með því að hlúa að geðheilbrigði hlúum við að fjölskyldum landsins.

Hér hef ég stiklað á stóru, en fleiri aðgerðir eru í pakkanum. Það mikilvægasta af öllu er að standa saman á lokametrum baráttunnar við veiruna. Það sést til lands, við erum að koma í mark. Klárum þetta saman, klárum leikinn!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. apríl 2021.

Categories
Greinar

Framsókn kveikir kertin í svefnherberginu

Deila grein

18/04/2021

Framsókn kveikir kertin í svefnherberginu

Í liðinni viku hvatti þingmaður Viðreisnar landann til að ferðast í svefnherberginu með það að markmiði að fjölga barnsfæðingum á landinu, en fæðingartíðni íslenskra kvenna hefur aldrei verið lægri. Ég get tekið undir með þingmanninum, við þurfum að viðhalda okkur og gott betur. Það má segja að Framsóknarflokkurinn hafi hvatt íbúa landsins til fjölgunar, enda hafa aðstæður barnafjölskyldna stórbatnað á yfirstandandi kjörtímabili.

Undir forystu Framsóknar hefur fæðingarorlof loksins verið aukið í 12 mánuði. Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur og þar til börnin fá leikskólapláss. Þetta bil hefur verið streituvaldandi fyrir foreldra og valdið því að foreldrar og þá sérstaklega konur hafa dottið út af vinnumarkaði um tíma. Víða um land eru sveitarfélögin farin að bjóða upp á leikskólapláss allt niður í 12 mánaða aldur. Á sama tíma hefur feðraorlofið verið styrkt verulega og nærri því að jöfnun fæðingarorlofs milli foreldra sé náð. Með nýjum lögum um fæðingar- og foreldrarorlof náðust fram ýmsar nýjar breytingar í átt að jöfnun og réttlæti. Allt gert í þágu nýbakaðra foreldra og velferð barna.

Farsæld barna

Þá liggur fyrir velferðarnefnd til umfjöllunar frumvarp til laga frá félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Framlagning frumvarpsins er liður í umfangsmiklum breytingum í þágu barna sem hafa verið í undirbúningi í félagsmálaráðuneytinu undir stjórn félags- og barnamálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar. Hér er um mikilvæga og löngu tímabæra breytingar í samþætting þjónustu í þágu barna og snemmtæka stuðning. Með að stigskiptinga þjónustu allt frá fæðingu og til 18 ára aldurs. Með samræmdri stigskiptingu fæst yfirsýn yfir þjónustukerfi og mynd af því hvernig hægt er að tryggja skilvirka og samfellda þjónustu við hæfi allra barna.

Hreiðurgerð

Margir kannast við það að þegar hugað er að fjölgun þá er samhliða farið að huga að hreiðurgerð. Það er okkur mikilvægt að búa fjölskyldunni öruggt skjól til að vaxta og dafna. Mikil gróska hefur verið í úrræðum í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. Má þar nefna nýlega samþykkt úrræði á fasteignamarkaði, hlutdeildarlán. Það er úrræði sem gerir ungu fólki og tekjulágum kleift að eignast eigið húsnæði. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd og hafa farið mjög vel á stað. Eftirspurn eftir þessu úrræði hefur farið fram úr þeim væntingum sem talið var í upphafi, bæði í framboði og eftirspurn á húsnæði. Auk þess hefur verið farið í úrræði til að auka framboð á húsnæði á landsbyggðinni þar sem nýbyggingar hafa verið í lágmarki enda fasteignaverð verið langt undir bygginga kostnaði. Þetta eykur á samkeppnisaðstæður samfélaga út á landi og eykur valfrelsi til búsetu.

Daufur er barnlaus bær

Þá mætti segja að Framsóknarflokkurinn hafi „kveikt kertin“ í svefnherberginu. Við hvetjum ungt fólk kinnroðalaust til barneigna. Stjórnvöld geta ekki búið til börn en þau geta búið svo um að það sé ákjósanlegt að bjóða barn velkomið í heiminn. Góðar stundir.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. apríl 2021.

Categories
Greinar

Tekjur sveitarfélaga af gjaldtöku fiskeldis

Deila grein

30/03/2021

Tekjur sveitarfélaga af gjaldtöku fiskeldis

Fisk­eldi er ný­leg at­vinnu­grein hér á landi sem hef­ur byggst upp á und­an­förn­um ára­tug. Ef fram­leiðsla í fisk­eldi fer í það magn sem burðarþols­getu svæða er af­markað er talið að út­flutn­ings­verðmæti fisk­eld­is geti verið nær 65 millj­örðum kr. Fjár­fest­ing upp á tugi millj­arða króna ligg­ur í grein­inni og frek­ari fjár­fest­ing bíður eft­ir frek­ari leyf­um til rekstr­ar. Mun­ar þar mest um út­flutn­ing á eld­islaxi en út­flutn­ings­verðmæti hans jókst um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% út­flutn­ings­verðmæt­is eldisaf­urða á ár­inu. Nú er svo komið að út­flutn­ing­ur á eld­islaxi skil­ar næst­mest­um verðmæt­um allra fisk­teg­unda sem flutt­ar eru frá Íslandi. Þessi grein hef­ur farið hratt vax­andi á und­an­förn­um ára­tug og má eiga von á að at­vinnu­grein­in skili tug­millj­arða króna verðmæt­um í þjóðarbúið. Svo að allt gangi upp þá þurfa innviðir að vera fyr­ir hendi sem og viðhald á þeim. Þannig má tryggja vöxt grein­ar­inn­ar og sem mest­an ávinn­ing af henni.

Vaxt­ar­verk­ir og innviðaupp­bygg­ing

Á vor­dög­um 2019 voru samþykkt lög um töku gjalds vegna fisk­eld­is í sjó og fisk­eld­is­sjóð. Þar er gert ráð fyr­ir að þriðjung­ur tekna af gjald­töku af fisk­eldi renni á kom­andi árum í fisk­eld­is­sjóð sem sveit­ar­fé­lög geta sótt í til innviðaupp­bygg­ing­ar. Það dug­ar þó skammt fyr­ir þeirri innviðaupp­bygg­ingu sem sveit­ar­fé­lög þurfa að ráðast í svo að koma megi til móts við vax­andi þörf vegna auk­inna um­svifa fisk­eld­is. Lít­il vissa er hjá sveit­ar­fé­lög­um um hve mik­illa tekna er að vænta þar sem sveit­ar­fé­lög­in sækja um hvert fyr­ir sig í sjóðinn og örðugt er að áætla tekj­ur fram í tím­ann.

Sveit­ar­fé­lög­in njóta þess mikla drif­krafts sem fisk­eldið hef­ur í för með sér. Íbúum fjölg­ar, at­vinnu­tæki­færi verða fjöl­breytt­ari og ald­ur­spíra­míd­inn breyt­ist, því að hlut­falls­leg fjölg­un yngra fólks hef­ur orðið í um­rædd­um sveit­ar­fé­lög­um. Þessu fylgja auk­in verk­efni og áskor­an­ir til sveit­ar­fé­laga svo um mun­ar. Sum sam­fé­lög þar sem íbú­um hafði fækkað tak­ast nú á við vaxt­ar­verki í um­fangs­mik­illi og kostnaðarsamri innviðaupp­bygg­ingu.

Heild­ar­grein­ing af gjald­töku

Und­ir­rituð hef­ur lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu sem snýr að því að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi gjald­tök­unn­ar í heild og sér­stak­lega það sem snýr að sveit­ar­fé­lög­um þar sem sjókvía­eldi er stundað og skýra heim­ild­ir sveit­ar­fé­laga til gjald­töku. Til­lag­an snýr ekki að auk­inni gjald­töku held­ur þarf að tryggja að tekj­ur af slíkri gjald­töku standi und­ir nauðsyn­leg­um verk­efn­um þeirra sveit­ar­fé­laga sem standa næst eld­inu ásamt því að tryggð sé sjálf­bærni þeirra hafna og sam­fé­laga þar sem þessi at­vinnu­starf­semi er stunduð. Til­lag­an geng­ur út á að Alþingi álykt­ar að fela sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra og sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra að skipa starfs­hóp til þess að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi sjókvía­eld­is með hliðsjón af gjald­töku af fisk­eldi. Til­lag­an fel­ur einnig í sér end­ur­skoðun á heild­ar­grein­ingu á gjald­töku rík­is og sveit­ar­fé­laga af fisk­eldi og til­lög­ur að laga­breyt­ingu sem skýra heim­ild­ir til töku gjalda til að standa und­ir nauðsyn­legri þjón­ustu rík­is og sveit­ar­fé­laga af sjókvía­eldi. Alþingi verði kynnt skýrsla eigi síðar en í lok árs 2021.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2021.

Categories
Greinar

Vefjagigt – heildræn meðferð

Deila grein

23/03/2021

Vefjagigt – heildræn meðferð

Á haustþingi 2019 var samþykkt þings­álykt­un­ar­til­laga sem und­ir­rituð lagði fram. Með til­lög­unni var heil­brigðisráðherra falið að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu. Mark­miðið með sér­hæfðri end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu er að styrkja grein­ing­ar­ferlið og geta boðið upp á heild­ræna meðferð byggða á niður­stöðum gagn­reyndra rann­sókna.

Það er ánægju­legt að sjá að heil­brigðisráðuneytið hef­ur brugðist við þess­ari til­lögu með ýms­um hætti. Ráðuneytið end­ur­nýjaði samn­ing við Þraut – miðstöð vefjagigt­ar og tengdra sjúk­dóma. Við end­ur­nýj­un samn­ings­ins var lögð sér­stök áhersla á þrennt, þar á meðal var fræðsla til al­menn­ings og starfs­fólks heilsu­gæslu um vefjagigt og er gert ráð fyr­ir að sú vinna hefj­ist á þessu ári. Þá var einnig lögð áhersla á að stytta biðlista eft­ir grein­ing­armati þannig að hefja megi end­ur­hæf­ing­armeðferð fyrr ásamt snemm­tæk­um inn­grip­um til að fyr­ir­byggja fram­gang sjúk­dóms­ins og koma í veg fyr­ir ör­orku.

End­ur­hæf­ing­ar­stefna var sett á síðasta ári og í fram­haldi lögð fram aðgerðaráætl­un til fimm ára. Í aðgerðaráætl­un­inni má finna áhersl­ur um að styrkja þátt end­ur­hæf­ing­ar í grunn­námi heil­brigðis­stétta. Þá er lögð áhersla á stofn­un end­ur­hæf­ing­ar­t­eyma í hverju heil­brigðisum­dæmi sem leggja áherslu á að beita heild­rænni nálg­un við end­ur­hæf­ingu og fyrst um sinn þjón­usta ein­stak­linga með þráláta verki vegna stoðkerf­is­vanda.

Það skipt­ir máli að bjóða upp á heild­ræna meðferð við vefjagigt. Síðastliðið haust var skipaður þverfag­leg­ur starfs­hóp­ur um lang­vinna verki. Hlut­verk hóps­ins er að taka sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda, ald­ur og kyn skjól­stæðinga; meðferðir sem veitt­ar eru, hvar og af hverj­um og gera til­lög­ur að úr­bót­um í þjón­ustu og skipu­lagi sem auðveld­ar aðgengi og ferli sjúk­linga í kerf­inu. Það stend­ur til að starfs­hóp­ur­inn muni skila stöðuskýrslu í næsta mánuði sem mun verða inn­legg í frek­ari vinnu við sér­hæfðari end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu vegna lang­vinnra verkja, þ.m.t. þjón­ustu vegna vefjagigt­ar.

Vefjagigt­ar­grein­ing var tal­in meðvirk­andi þátt­ur í 75% ör­orku hjá 14% allra kvenna sem voru á ör­orku. Örorka vefjagigt­ar­sjúk­linga or­sak­ast oft af sam­verk­andi þátt­um vefjagigt­ar, annarra stoðkerf­is­sjúk­dóma og geðsjúk­dóma. Þetta er lang­vinn­ur sjúk­dóm­ur sem ekki lækn­ast og því fjölg­ar í hópi vefjagigt­ar­sjúk­linga með hækk­andi aldri. Því skipt­ir máli að bregðast við með heild­rænni meðferð sem held­ur sjúk­ling­um virk­ari eins lengi og hægt er.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.

Categories
Greinar

Hinn þögli faraldur

Deila grein

09/03/2021

Hinn þögli faraldur

Ákominn heilaskaði og afleiðingar hans hafa ekki fengið mikið pláss í umræðunni hér á landi. Það sinnuleysi hefur leitt af sér skilningsleysi á afleiðingum hans, bæði innan velferðar- og menntakerfisins sem og á vinnumarkaðnum. Það er því ekki að undra að hann hafi verið kallaður, Hinn þögli faraldur. Í síðustu viku stóð ég fyrir sérstökum umræðum á Alþingi um endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákomin heilaskaða. Ég tel það brýnt og mikilvægt að ræða þessi mál.

Sem betur fer hefur undanfarin misseri orðið þó nokkur vitundarvakning varðandi afleiðingar ákomins heilaskaða. Hér á landi hljóta árlega um 2000 manns heilaáverka, af þeim glíma 200-300 manns við langvarandi afleiðingar og fötlun af þeim sökum. Þá bætast við á ári hverju um 10 einstaklingar sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Þörf er á átaki í forvörnum til þess að koma í veg fyrir slys sem þessi. Íþróttahreyfingin hefur hrint af stað átaki þar sem slagorðið er: Ekki harka af þér höfuðhögg! Þar er mælt er með að einstaklingar leiti strax til bráðamóttöku vegna þess að afleiðingarnar koma oft og tíðum fram síðar.

Það þarf að bregðast við

Heilaskaði getur haft víðtæk og truflandi áhrif á einbeitingu, minni, mál, persónuleika, tilfinningar, hegðun, hæfni til samskipta, innsæi, framtakssemi og geðslag. Önnur möguleg einkenni í kjölfar heilaskaða geta verið flog, skert hormónaframleiðsla, höfuðverkur, svimi, skert hreyfigeta, truflun á skyni og samhæfingu vöðva. Einstaklingar með heilaskaða og sérfræðingar á því sviði hafa haft uppi ákall síðustu ár að bæta þurfi greiningu og skráningu á heilaáverkum og efla sérhæfa íhlutun, meðferð og stuðning við þá sem hafa orðið fyrir skaða af völdum heilaáverka. Hér á landi vantar sárlega heildstæða meðferð og endurhæfingaúrræði.

Það eru fleiri sem sitja uppi með afleiðingarnar

Þeir sem standa næst einstaklingi með ákominn heilaskaða, fjölskylda og vinir sitja einnig uppi með vanda og koma að lokuðum dyrum í samfélaginu. Heilaskaða getur fylgt geðræn vandamál, mörg heilsufarsleg vandamál og félagsleg einangrun. Þessir einstaklingar einangrast þegar þeir fá ekki hvorki meðferð né endurhæfingu. Auka þarf fræðslu, rannsóknir og vitundarvakningu hjá almenningi og innan heilbrigðisgeirans um afleiðingar ákomins heilaskaða.

Eins og fyrr segir eru um 10 einstaklingar sem bætast við árlega sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Þetta eru einstaklingar sem eiga í miklum félagslegum erfiðleikum, missa tengsl við fjölskylduna og oft eru fangelsin þeirra eina skjól. Við þekkjum flest sögu einstaklinga sem falla alls staðar á milli kerfa eftir áföll og ekkert úrræði virðist passa. Mál þessara einstaklinga falla bæði undir félagsleg úrræði sveitarfélaga, heilbrigðiskerfisins og menntakerfis. Flestir þessir einstaklingar eiga sér sögu innan lögreglunnar og búsetuúrræðin eru fá.

Meðferðir hafa sýnt árangur

Atferlistengd taugaendurhæfing hefur gefist vel erlendis og í því samhengi er hægt að horfa til Kanada. Þar er miðað við að endurhæfa færni og sjálfstjórn með það að markmiði að auka sjálfstæði og lífsgæði. Meðferðin felst í því að þjálfa þessa einstaklinga í félagslega viðeigandi hegðun með aðferðum atferlisgreiningar þannig að þeir geti lifað í sátt og samlyndi við aðra í samfélaginu.

Við Háskóla Íslands er í bígerð að setja á fót þverfaglegt nám á MS stigi í endurhæfingavísindum sem ætlað er að taka á m.a. endurhæfingu einstaklinga með ákominn heilaskaða. Það er mikilvægt að mennta upp starfsfólk sem vinnur með einstaklinga á öllum stigum og í allri þjónustu til þess að endurhæfa einstaklinga sem hafa orðið fyrir ákomnum heilaskaða. Það er mikilvægt fyrir líðan þeirra og aðstandanda og ekki síst heildarábati fyrir samfélagið allt.

Við vitum hvað þarf að gera, nú þarf bara að stíga næstu skref.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. mars 2021.

Categories
Greinar

Öflug samvinna um farsæld barna

Deila grein

05/03/2021

Öflug samvinna um farsæld barna

Þessa dagana er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis frumvarp frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Með fylgir frumvarp um stofnun Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Frumvarpið um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna hefur fengið góðan undirbúning með aðkomu margra sérfræðinga og hagsmunaaðila í málefnum barna. Breytingarnar sem lagt er upp með eru að efla stuðningsteymi næst barninu og að samhæfing og vöktun á þjónustu allra kerfa tali saman. Gert er ráð fyrir öflugu farsældarráði, samráðsvettvangi sveitarfélagi með ráðgjöf og eftirlitið með þjónustunni er bætt.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Þegar barn fæðist færum við því hamingjuóskir með vonum um að því farnist vel í lífinu og megi ganga áfallalítið um lífsins götu. Á fyrstu árum barns er lagður sá grunnur sem einstaklingur byggir líf sitt á. Mikilvægt er að heimilið, skólinn, íþrótta- og félagslífið og heilbrigðiskerfið myndi heildstæða umgjörð. Það þarf að horfa heildstætt á þjónustu allan lífsferil barns til fullorðinsára. Mikilvægt er að ábyrgð og frumkvæðisskylda stjórnvalda sé tryggð á öllum stigum. Til þess að tryggja heildstæða umgjörð þarf að fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra, bregðast við þörf þeirra fyrir þjónustu með skilvirkum hætti strax í upphafi og að tryggja að kerfin tali saman með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt. Um þetta snýst frumvarpið. Það skref sem nú er verið að stíga er mikilvægt til farsældar barna.

Samvinna skilar árangri

Búast má við miklum framförum í þjónustu við börn þegar þetta frumvarp verður að lögum. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið. Hér er um að ræða hugmyndir um að þjónusta við börn verði sniðin með það í huga að nálgast hvert barn með þarfir þess og réttindi í huga. Samvinna aðila sem koma að farsæld barna á eftir að borga sig fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið sjálft. Til að ná hámarksábata með breytingunni þarf að auka forvarnir og snemmbæran stuðning.  Koma í veg fyrir áföll í barnæsku sem skilar sér síðar með því að draga úr frekari áföllum á fullorðinsárum. Vissulega liggur nokkur kostnaður bæði fyrir ríki og sveitarfélög með innleiðingunni en ábatinn til lengri tíma er óumdeildur og fer stigvaxandi meðan fleiri einstaklingar hafa fengið þennan grunn. Hagfræðingar tala um að þetta verkefni flokkist með arðbærari verkefnum sem hið opinbera hefur ráðist í. Mesti  ábatinn er sterkari einstaklingur sem hefur vaxið upp til fullorðinsára samhliða traustu neti þjónustu sem hefur gripið einstaklinginn þegar þörf reyndist. Samvinna skilar okkur betri einstaklingum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 4. mars 2021.