Categories
Greinar

Það er mismunandi heitt

Deila grein

02/02/2023

Það er mismunandi heitt

Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Byggðastofnun hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land.

Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hve kostnaður er mismunandi eftir landssvæðum og er margt sem skýrir þann mismun.

Húshitun er munaður

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er sem fyrr að munurinn á milli svæða er mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill , miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreif- og flutningskostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Margir hafa nýtt sér styrki til að setja upp varmadælur og geta því lækkað hitunarkosnað umtalsvert.

Það sem heldur kemur ekki á óvart er að Vestfirðir tróni á toppi hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn og þótti vel sloppið á mögulega enn við.

Sameiginleg auðlind

Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávarins eigi að greiða fyrir þann aðgang. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og það hafa ekki allir aðgang að þeirri auðlind. Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þessari einstöku auðlind þar sem jarðhitinn er og þegar við hófum orkuskipti í húshitun var það mikil umskipti og nú eru um 90% heimila kynt með jarðhita

Á Vestfjörðum eru kynntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kynntar með olíu sem eykur kostnað og losun gróðurhúsalofttegunda eykst. Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Heitt vatn er að finna víða í fjórðungnum og hann þarf að nýta betur. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Að auki eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Nú árið er liðið

Deila grein

11/01/2023

Nú árið er liðið

Við tökum á móti nýju ári og nýju upphafi. Veðurguðirnir sem virtust hafa gleymt sér í sumrinu hrukku í takt í upphafi aðventu og lögðu snjó með kulda yfir landið. Allt hefur sinn tíma og árstíðir hafa sitt hlutverk sem fyrr. Þó kemur það landanum alltaf jafn mikið á óvart þegar fer að snjóa og það í desember. Ófærðin veldur írafári en það er mögulega merki um breytta samfélagsmynd. Fólk er háð greiðum samgöngum, sækir vinnu og skóla í næstu byggðalög og ferðaþjónustan reiðir sig á að samgöngur séu góðar allt árið um kring.

Það eru sannarlega tímamót að taka móti nýju ári, nýju upphafi fylgir uppgjör þess liðna, söknuður og tilhlökkun í senn.

Þannig hefur árið 2022 liðið. Hófst í samkomutakmörkunum og það ótrúlega gerðist að stríð hófst í Evrópu og stendur enn. Okkur finnst það ótrúlegt og það er líkt og mannkynið læri aldrei af sögunni því þrátt fyrir góð áform birtast vond öfl sem ná of oft yfirhöndinni og allir tapa. Óvissan er mikil og áhrifin breiða sig yfir alla Evrópu þar sem enn sér ekki fyrir endann á áhrifunum og hugur okkar er hjá fólki sem býr við ógnir stríðs í Evrópu og reyndar víðar um heiminn. Áhrif stríðsins vara í nokkrar kynslóðir og enginn verður krýndur sigurvegari.

Staðan hér á landi

Heimsfaraldur og áhrif stríðs í Evrópu gætir hér á landi sem víðar. Traustar undirstöður ríkisfjármála eru lykill að því að mæta sveiflum og áskorunum sem þeim fylgja.  Áherslan fram að heimsfaraldri var að greiða niður skuldir og lækka vaxtabirgði. Ríkissjóður stóð sterkur þegar við gengum inn í öldusjó sem gaf okkur möguleika á viðspyrnu og dýrmætu samspili við peningastefnu og vinnumarkað. Við afgreiðslu fjárlaga 2023 erum við viðbúin að sækja fram og halda áfram að byggja upp inniviði samfélagsins og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Miklu skipir að kjaraviðræður í haust gengu með ágætum og má þar þakka vilja allra aðila til að byggja áfram undir velferð fólks í landinu.

Samgöngur

Síðustu fimm ár hefur verið stórsókn í samgöngubótum á Vestfjörðum sem hófust með Dýrafjarðargöngum en áfram skal haldið þangað til að við getum talað um nútímavegi allan Vestfjarðarhringinn. Unnið er að 12-14 km vegbótum á Dynjandisheiðinni og stórframkvæmdir eru í Gufudalssveitinni þar sem framkvæmdir ganga vel en áfangar þar eru fimm. Einum er lokið, þrír eru í framkvæmd og enn á eftir að bjóða út þann síðasta. Allt eru þetta áfangar í að gera samgöngur greiðari fyrir vaxandi samfélag á Vestfjörðum

Sveitarfélög í sveiflu

Sveitastjórnarkosningar settu svip sinn á síðasta ár. Sem fyrr urðu nokkrar breytingar og margt nýtt og öflugt sveitastjórnarfólk tók við keflinu. Við í Framsókn erum gríðarlega þakklát og auðmjúk yfir sigri okkar í sveitarstjórnarkosningunum og erum stolt af kosningabaráttunni um land allt ekki síst af okkar glæsta árangri í höfuðborginni þar sem náðum inn fjórum fulltrúum. Í Ísafjarðarbæ jókst fylgið þótt fulltrúatalan sé sú sama og í Bolungarvík náði okkar kona að leiða M-listann til sigurs sem eru stórtíðindi. Áfram vinnur okkar fólk að því að leiða starfið í samvinnu til að ná fram árangri.

Sterk sveitarfélög

Unnið hefur verið að sameiningu sveitarfélaga á landsvísu og bara á síðasta ári fækkaði þeim um fimm og eru í dag 64 sveitarfélög á landinu. Fjöldi sveitarfélaga á Vestfjörðum eru níu og hafa verið svo síðustu tuttugu árin. Nú hafa tvö þeirra hafið sameiningarviðræður og ef niðurstaðan verður sú að þeim sé betur borgið saman fækkar enn í hópnum. Stjórnvöld hafa unnið að átaki í að styrkja sveitastjórnarstigið með sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra að markmiði. Auk þess þarf alltaf að vinna að því að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að grunnþjónustu. Á síðustu 20 árum hafa vissulega verið breytingar á verkefnum og skyldum sveitarfélaga.  Ber þar hæst flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Þar hafa minni sveitarfélög séð hag sínum betur borgið að vinna að verkefninu saman og breytingar eru að verða á sviði barnaverndar og ný farsældarlög í málefnum barna kalla á nýtt verklag. Auknar skyldur og umsýsla hefur aukist og þar skiptir ekki máli hver stærð sveitarfélagsins er.

Nú stendur til að kanna grundvöll fyrir því að sveitarfélögin á Vestfjörðum sameinist um velferðarþjónustu sem sinni barnaverndarþjónustu, þjónustu við fatlað fólk og móttöku flóttafólks. Byggðasamlög um verkefni og skyldur eru góð og oft nauðsynleg en það er þó staðreynd að lýðræði og aðkoma sveitarfélaganna innan slíkra samlaga færist lengra frá stjórnsýslu hvers sveitarfélags fyrir sig en ella.  Sjókvíeldi á Vestfjörðum kallar á aukna samvinnu sveitarfélaga og ábati að nýrri atvinnugrein skiptir öll sveitarfélag fjórðungsins máli.

Það er gott að staldra við og hækka flugið, líta yfir svæðið og horfa á samvinnu og/eða sameiningu sveitarfélaga út frá nýjum sameiginlegum áskorunum og verkefnum. Það er alltaf gott að taka samtalið og svo ákvörðun út frá því.

Áfram veginn

Áherslan næstu ár er á fólkið í landi og að nýta auð íslensks samfélags hvar á landinu sem fólk býr. Hvert samfélag og hver einstaklingur skiptir máli. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar. Vinna að kerfisbreytingum í þágu barna í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna heldur áfram. Nýta skal sömu hugmyndafræði til að samþætta þjónustu annarra hópa eins og eldra fólks, en það mun án efa skila okkur betri lýðheilsu og meiri virkni út lífið. Þjóðin er að eldast og því þarf sérstaklega að huga að þessum þáttum til að virkni eldra fólks í samfélaginu sé virt. Við þurfum að leiða leiða til að auðvelda fólki að búa lengur heima. Samþætting þjónustu er nauðsynleg til að ná fram virkni og aukinni þátttöku eldra fólks í lifandi samfélagi.

Samfélög í blóma

Það má svo sannarlega segja að það hafi verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarinn áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf sem leiðir af sér að nú vex íbúatalan á ný.

Það eykur slagkraft, ef við í sameiningu í fjórðungnum vinnum að baráttumálum til að geta staðið jafnfætis við önnur landssvæði. Við ætlum okkur ekki að halla okkur aftur og slaka á í ferðalaginu, heldur standa áfram vörð um verkefni sem eru undirstaða frekari vaxtar og samkeppnishæfni fjórðungsins í heild á komandi árum.

Gleðilegt ár.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. janúar 2023.

Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Sam­þætting þjónustu við eldra fólk

Deila grein

08/12/2022

Sam­þætting þjónustu við eldra fólk

Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í breytingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Útkoman úr þeirri vinnu voru farsældarlögin svokölluðu og innleiðing á þeim er farin á stað og lofar góðu. Samstarf um aukna þjónustu í þágu farsældar barna er framtíðarstef í velferð barna til að vaxa sem fullgildir einstaklingar í íslensku samfélagi. Þegar þessar breytingar verða að fullu virkjaðar má búast við miklum framförum í þjónustu við börn. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið sjálf. Þeir sem vinna í þjónustu barna hafa fagnað þessari hugarfarsbreytingu sem lengi hefur verið kallað eftir og þegar var farið að talað um að nýta þessa hugmyndafræði þessa fyrir aðra þjónustuhópa.

Það hefur nú verið gert

Heilbrigðisráðherra ásamt félags- og vinnumarkaðsráðherra ýttu í gær úr vör drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Um er að ræða heild­ar­end­ur­skoðun þjón­ustu við aldraða og eru fimm þætt­ir lagðir til grund­vall­ar: Samþætt­ing, virkni, upp­lýs­ing, þróun og heim­ili. Ber verkefnið heitið – Gott að eldast. Líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar.

Heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa svo sannarlega tekið verkefnið af fullri alvöru upp á sína arma og stendur til að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi vorþingi sem felur í sér aðgerðaráætlun um samþættingu á þjónustu við eldra fólk með það að markmiðið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Um er að ræða samfélagslegt umbótaverkefni sem á að efla þjónustu við eldra fólk og auka samvinnu og samþættingu milli heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu.

Þjónusta á forsendum þjónustuþega

Þjóðin er að eldast og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á að samfélagið þurfi að aðlagast með. Við þurfum að leita nýrra og lausnamiðaðri leiða ásamt því að auka samvinnu og samtal. Það er mikilvægt að þjónusta sé veitt þegar hennar er þörf á forsendum fólksins sjálfs. Forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar til framtíðar. Við viljum að fólki geti látið sig hlakka til efri áranna og síðustu áratugir ævinnar eiga að vera meðal þeirra allra bestu. Það er fátt verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Líkt og með breytingar í þágu farsældar barna er þetta verkefni sem nú er hafið arðbært fyrir þjóðfélagið. En mesti ábatinn er að þegar þessi hugmyndafræði verður komin inn í alla þjónustu sem snýr að eldra fólki því þá verður heldur betur gott að eldast á Íslandi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2022.

Categories
Greinar

Getur þú ekki bara harkað þetta af þér?

Deila grein

01/12/2022

Getur þú ekki bara harkað þetta af þér?

Ánægjulegt og langþráð skref var stigið nú í vikunni þegar Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra staðfesti samning sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu. Samningurinn kveður á um að þær sem eru í brýnustu þörfinni njóti forgangs að aðgerðum.

Endómetríósa er krónískur, fjölkerfa sjúkdómur sem getur verið afar sársaukafullur. Sjúkdómurinn er gjarnan kallaður endó í daglegu tali, en einnig var notast við hugtakið legslímuflakk. Á 20 ára tímabili greindust um 1.400 konur með sjúkdóminn á Íslandi. Má því reikna með að á hverj­um tíma eigi hundruð ef ekki þúsundir kvenna í vanda vegna sjúkdómsins hér á landi, en hjá mörg­um þeirra greinist sjúkdómurinn seint og ekki fyrr en óafturkræfar vefja­skemmdir hafa orðið. Það hefur verið vitað um tíma að nauðsynlegt er að sinna þeim sem greinast með endómetríósu og af því tilefni var stofnað þverfaglegt endómetríósuteymi á Landspítalanum árið 2017. Þá hefur Klíníkin einnig byggt upp sérhæfða þjónustu fyrir endómetríósu og nú er þjónustan enn frekar tryggð með þessum samning.

Aukin fræðsla og þjónusta

Á síðasta þingvetri lagði ég fram þingsályktunartillögu um að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir að efla fræðslu meðal almennings og starfsfólks heilbrigðisstofnananna. Í ályktuninni er ráðherra falið að láta fara fram endurskoðun á heildarskipulagi þjónustunnar með það að markmiði að stytta greinarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð. Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp um úrbætur á þjónustu og meðferð endómetríósu sjúklinga. Hópurinn skilaði tillögum til úrbóta í vor sem nú er verið að vinna úr og hrinda í framkvæmd. Í þeim má m.a. finna tillögur að aukinni fræðslu til heilbrigðisfólks og einstaklinga, skipulagi þjónustunnar og jöfnu aðgengi að sérfræðiþjónustu óháð efnahag. Þarfir fólks með langvinna verki voru sérstaklega teknar fyrir í vinnu hópsins þar sem mikil þörf er fyrir aukna áherslu á heildræna meðhöndlun verkja.

Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu

Núverandi stjórnvöld hafa lagt áherslu á jafnrétti landsmanna að heilbrigðisþjónustu, líkt og kemur fram kemur í heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi á vordögum 2019. Þá er það einnig mikilvægt að huga að heilbrigðisþjónustu út frá kynjum. Kvenheilsa er nýtt teymi innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk teymisins er að sinna heilsufarsvanda og sjúkdómum sem eingöngu eru til staðar hjá konum og er viðbót við þá þjónustu sem er þegar fyrir. Hér er um að ræða mikilvægt skref því fram að þessu hefur lítil athygli beinst að þeim sjúkdómum sem leggjast sérstaklega á konur. Þær hafa mætt höfnun þegar þær leita til heilbrigðiskerfisins og gengið gegnum erfitt greiningarferli, en skortur er á almennri fræðslu um slíka sjúkdóma og þá er líka skortir á þekkingu á meðhöndlun og afleiðingum á þeim sjúkdómum sem leggjast á konur.

Með þessum nýja samning sjúkratrygginga við Klíníkina hefur verið stigið stórt skref sem kemur til með að bæta líf margra kvenna og á sama tíma fá margar konur viðurkenningu á því að það sem hafi verið að hrjá þær í mörg ár sé ekki bara eðlilegir túrverkir. Endómetríósa er sjúkdómur sem þarf oft og tíðum meðferðar við, það dugar ekki alltaf að harka bara af sér.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. desember 2022.

Categories
Greinar

Út með ruslið!

Deila grein

28/11/2022

Út með ruslið!

Aðventa og jólin eru að koma í allri sinni dýrð, samveran lýsir upp skammdegið, gleðin er við völd og sem fyrr bregðumst við felst öll við með því að leggjast í mikla neyslu. Það má auðveldlega halda því fram að líklega sé aldrei meira úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum landsmanna en einmitt á þessum árstíma.

Um komandi áramót taka ný lög um söfnun á meðhöndlun úrgangs í landinu gildi, eða hringrásarhagkerfislögin eins og þau eru kölluð. Þessi lög voru samþykkt á vorþingi 2021. Markmiðið með innleiðingu hringrásarhagkerfisins er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndum.

Ábyrgðin er allra

Sveitarstjórnir fara með stjórnsýslu úrgangsmála í landinu en ábyrgðin er einnig á hendi ríkisins, þ.e. að innviðir séu til staðar og að móta lagaumhverfi sem auðveldar innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Sveitarfélög um allt land hafa unnið að innleiðingunni og eru þau mislangt á veg komin enda er hér um miklar breytingar að ræða. Um helmingur sveitarfélaga hefur nú þegar tekist að innleiða lögbundnar samræmdar merkingar fyrir úrgangsflokka og þar hafa fámenn sveitarfélag ekki staðið sig verr í innleiðingunni en þau stóru. Sveitarfélög og ríki hafa ríka ábyrgð við innleiðinguna en við íbúarnir höfum einnig mikilvægt hlutverk við að tryggja að innleiðingin gangi vel. Við erum jú öll hluti af hringrásinni.

Plast er ekki sama og plast

Að innleiðingu lokinni er gert ráð fyrir að íbúar geti flokkað úrgang sinn enn frekar en nú er gert og þá í fleiri flokka. Þá flokkast samsvarandi efni líkt og plast í fleiri efnisflokka, er það talið nauðsynlegt til þess að endurvinnslu sé betur möguleg. Samhliða þessu er nauðsynlegt að innleiða samræmda merkingu efna. Þá er það ekki nóg að auka ábyrgð heimila og fyrirtækja heldur þarf einnig að auka ábyrgð framleiðenda í lágmarka og bæta umbúðir með það að sjónarmiði að neytendur geti skilað úrgangi og umbúðum til endurvinnslu á réttan hátt. Markmiðið þarf alltaf að vera að auka endurnýtingu og lágmarka urðun, en í dag er því miður verið að urða mikil verðmæti sem felast í umbúðum og fleiru sem hægt væri að endurvinna inn í hringráshagkerfinu.

Nýsköpun er lausn

Aukin umræða um loftlagsmál og innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur þegar skilað sér í aukinni nýsköpun í efnisvinnslu úrgangs. Í því samhengi vil ég nefna verkefnið Bláma á Vestfjörðum þar sem unnið er með hugmyndir á framleiðslu metangass úr lífrænum úrgangi sem fellur til í fjórðungnum og er þónokkur. En lífrænn úrgangur hefur aukist verulega samhliða uppbyggingu á fiskeldi og framleiða má með honum orkugjafa sem þegar skortir á svæðinu. Hér er um að ræða verkefni sem er algjörlega samhljóða markmiðum hringrásarhagkerfisins og spennandi verður að fylgjast með framgangi þess.

Hlutverk okkar er mikilvægt

Líkt og kemur fram í texta sem við öll þekkjum örugglega flest þá erum við aðeins gestir og hótel okkar er jörðin. Við eigum aðeins eina jörð og við eigum ávallt að miða að því að hún verði áfram byggileg fyrir komandi kynslóðir. Þá er það ábyrgð okkar sem gesta á þessari jörð er að taka þátt í að minnka þann úrgang sem urðaður er og taka þátt í möguleikum á meiri endurvinnslu. Okkur ber samfélagsleg skylda til þess að bregðast við í loftlags- og umhverfismálum. Með hringrásarhagkerfinu þurfum við að taka upp nýjan lífstíl sem felur í sér að endurnýta þau hráefni sem við höfum með fjölbreyttum hætti. Það er ekki lengur í boði að henda öllu rusli á haugana heldur þurfum við öll að leggja hendur á plóg til þess að breyta hugarfari og ná þannig jákvæðum árangri til framtíðar.

Categories
Greinar

Ferðaþjónustan kom vel undan vetri

Deila grein

22/11/2022

Ferðaþjónustan kom vel undan vetri

Veturinn er hreint ekkert að á því að síga yfir landið og haustið heldur enn velli þótt aðventan sé handan við hornið. Það er auðvelt að ferðast um landið og það nýta ferðamenn sér. Strax eftir að heimsfaraldurinn rénaði jókst ferðamannastraumur mikið enda fólk komið í þörf fyrir að hleypa heimdraganum. Ferðaþjónustan og aðrar atvinnugreinar hafa brugðist hratt við auknum ferðamannastraumi til landsins eftir heimsfaraldur Covid-19. Við Austurvöll, við Gullfoss, á Vestfjörðum, Austfjörðum og já um allt land hefur mátt sjá hrifnæma ferðamenn sem hafa notið þess að fanga það sem fyrir augu ber.

Stuðningur stjórnvalda í heimsfaraldri

Íslendingar og heimurinn allur stóð frammi fyrir algerlega fordæmalausri stöðu vorið 2020, áhrifin skullu á alla heimsbyggðina af miklum þunga á örskömmum tíma. Íslendingar stóðu frammi fyrir harkalegri niðursveiflu í efnahagslífinu eins og heimurinn allur og fljótt var ljóst að ráðast yrði í aðgerðir án hliðstæðu af hendi stjórnvalda. Með mörgum ákveðnum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Augljóst var að það þyrfti að verja ferðaþjónustufyrirtæki svo niðursveiflan feldi þau ekki sem strá í sviptivindum.

Ráðist var í aðgerðir er fólu í sér m.a. frestun greiddra gjalda og með auknum útgjöldum ríkissjóðs, skattalækkunum og lánafyrirgreiðslu með ríkisábyrgð. Seðlabankinn fór í lækkun stýrivaxta og bindiskyldu. Lagðar voru fram aðgerðir sem var ætlað að vinna gegn atvinnuleysi og tekjumissi einstaklinga með hlutaatvinnuleysisbótum, aðgengi að séreignarsparnaði, frestun skattgreiðslna fyrirtækja og fyrirgreiðslu vegna rekstrarlána til þeirra. Allar þessar aðgerðir voru hluti af fjölmörgum úrræðum er stjórnvöld settu fram. Ferðagjöfin var og nýtt af landanum í glugganum er opnaðist sumarið 2020 og aftur sumarið 2021. Gistináttaskattur var felldur niður tímabundið á tímabilinu og gjalddagar skatts frestað.

Ferðaþjónustan heldur velli

Í dag er ferðaþjónustan á fleygi ferð, kortavelta ferðamanna staðfestir það. Í umræðunni hefur komið fram að hún sé næst því sem var fyrir faraldurinn. Það er mikilsvert að ferðaþjónustan verði aftur grunnstoð í atvinnulífinu og þannig áhrifaþáttur í efnahagsbata út úr Covid. Við erum öll minnug þess hvað gosið í Eyjafjallajökli hafði gríðarlega mikil áhrif á aukin ferðamannastraum til Íslands sem skilaði sér í auknum gjaldeyrisforða og kom okkur hraðar út úr fjármálahruninu. Ferðaþjónustuaðilar eru á því að sjaldan eða aldrei hafi gengið eins vel og liðið sumar. Það er mikill kraftur er býr í íslenskum ferðaþjónustuaðilum, þeir nú sem fyrr eru mjög einbeittir í taka vel á móti okkar ferðamönnum og er möguleikar hvers staðar nýttir til að skapa upplifun og ógleymanlegar minningar.

Árangur aðgerða þegar ljós

Í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um mat á árangri aðgerða heimsfaraldursins kemur fram að stjórnvöld veittu sveitarfélögum þar sem ferðaþjónustan lék stórt hlutverk í atvinnusköpun beinan fjárstuðning.

Tekjufallsstyrkjum sem var ætlað að styðja rekstraraðila sem höfðu orðið fyrir tímabundnu tekjufalli nýttist mjög vel rekstraraðilum í ferðaþjónustu eða 66% hlutdeild af heildarfjárhæð úrræðisins. Eins var með lokunarstyrki en um 87% fjárhæðarinnar fór til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Ríflega helmingur stuðningslána fór til rekstraraðilar í ferðaþjónustu. Einstaklingar starfandi í ferðaþjónustu fengu um 47% af greiddum hlutabótum, flestir þeirra störfuðu í veitingasölu og þjónustu og rekstri gististaða. Heildarniðurstaða af árangri aðgerðapakka stjórnvalda verður þó ekki ljós fyrr en af einhverjum árum liðnum.

Ísland sem ferðamannaland verður til með orðspori um stórbrotna og fallega náttúru og land sem er aðgengilegt og öruggt. Við búum að því að vera gestrisin og það skipti máli að styðja þétt við bakið á atvinnugreininni í heimsfaraldi sem varð til þess að við gátum boðið fólki heim og boðið upp á góðar minningar sem það tekur með sér heim aftur.

Íslendingar hafa lagt mikið á sig til að ná þessum árangri.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst visir.is 22. nóvember 2022.

Categories
Greinar

VESTFIRÐIR Í BLÓMA

Deila grein

09/11/2022

VESTFIRÐIR Í BLÓMA

Það má svo sannarlega segja að það hefur verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarin áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf og nú vex íbúatalan á ný.

Atvinnugrein í vexti

Fiskeldið er ung atvinnugrein á Íslandi, sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur vaxið hratt og nú er svo komið að fiskeldi fer að keppa við hefðbundinn sjávarútveg í verðmæti útflutningsvara. Gera má ráð fyrir að fiskeldið geti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum Vestfjarða innan fárra ára. Vestfirðingar hafa tekið uppbyggingu á fiskeldi fagnandi enda er það grundvöllur vaxtar og kallar á ný og fjölbreyttari störf.  Við í Framsókn höfum staðið með sjálfbærri uppbyggingu greinarinnar frá upphafi.

Það er þó grunnforsenda til þess að samfélögin nái að vaxa með greininni að rétt skilyrði séu fyrir hendi. Einn þáttur í því er að tekjur sveitarfélaga af fiskeldi séu tryggar svo þau geti staðið undir uppbyggingu innviða vegna aukinna umsvifa og fjölgun íbúa. Uppbyggingin hefur verið hröð síðustu ár en svo virðist sem hlutur sveitarfélaganna hafi orðið undir þegar kemur að gjaldtöku. Af því tilefni hefur undirrituð lagt fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi gjaldtökunnar í heild. Áhersla er lögð á að yfirfara  það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað og skýra heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku. Tillagan snýr ekki að aukinni gjaldtöku heldur þarf að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum þeirra sveitarfélaga sem standa næst eldinu, ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð.

Jökulfirðir og fiskeldi

Árið 2004 var merk ákvörðun tekin af stjórnvöldum þegar ákveðið var hvar óhætt væri fyrir umhverfið að stunda fiskeldi. Byrjað var á að loka stærsta hluta strandlengjunnar þannig eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, á Vestfjörðum og í Eyjafirði.

Síðasta sumar var  sett fram tillaga svæðisráðs Vestfjarða um Strandsvæðaskipulag Vestfjarða sem nær frá Bjargtöngum að Straumnesi. Niðurstaðan er sýn vinnuhóps, sem m.a. var skipaður fulltrúum sveitarfélaganna sem ná yfir þetta svæði, hvernig þau vilja sjá framtíðarnýtingu og vernd þess svæðið sem um ræðir. Strandsvæðisskipulag getur náð yfir fiskeldið, nytjastofna, efnistöku eða ferðaþjónustu. Það er mikilvægt að horfa heilt yfir svæðið þá sérstaklega þegar eins umfangsmikil atvinnugrein eins og fiskeldi er á svæðinu.

Í tillögu svæðisráðs er lagt til að ekki verði farið með fiskeldi inn í Jökulfirði og þeir friðaðir fyrir nýtingu. Það hefur verið nokkuð umdeilt sér í lagi þar sem firðirnir þykja liggja vel fyrir fiskeldi. En það er einnig mikilvægt að Vestfirðingar standi vörð um það sem einkennir svæðið og er friðlandið Hornstrandir stór þáttur í sérstöðu fjórðungsins og nauðsynlegt að halda þeim sérkennum til framtíðar.

Við höfum upp á margt að bjóða

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum hefur verið í uppbyggingu og bjartsýni ferðaþjónustuaðila á svæðinu var áþreifanlegur þegar útsýnispallurinn á Bolafjalli var opnaður fyrr í haust. Um er að ræða glæsilegt mannvirki á heimsmælikvarða sem kemur til með að draga að sér verðskuldaða athygli. Þá hafa síðustu ár verið unnin þrekvirki í löngu tímabærum samgöngubótum í á sunnanverðum Vestfjörðum og nú hillir nú undir að hringvegur um Vestfirði verði með heilsárs opnun. Með því verður gjörbylting í ferðaþjónustu og ferðamenn geta sótt fjórðunginn heim allt árið. Tónlist, leiklist og matarmenning er í blóma. Menning og ferðaþjónusta eru nátengd en menning hefur alltaf verið í hávegum höfð á Vestfjörðum. Menning og listir auka aðdráttarafl svæðisins og því mikilvægt að halda áfram að styrkja skapandi greinar því þær móta auk náttúrunnar ásýnd svæðisins.

Já það má með sanni segja að Vestfirðir vaxi á eigin forsendum þessi misserin með því að nýta sér sína sérstöðu, mannlíf og samstöðu. Sérstaðan er mikilvæg en um leið viðkvæm og þarf að varðveita. En ef við náum að gæta að sérstöðunni náum við að viðhalda vexti og sjá samfélögin þroskast í réttum takti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Matarskortur – samvinnuverkefni þjóða

Deila grein

28/10/2022

Matarskortur – samvinnuverkefni þjóða

Í liðnum mánuði lagði undirrituð land undir fót ásamt þremur öðrum þingmönnum. Ferð okkar var heitið á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Þessi heimsókn okkar var virkilega fróðleg og upplýsandi. En meðan á heimsókninni stóð var haldinn neyðarfundur í þinginu þar sem til umræðu var ályktun aðildarríkja þar sem innlimun Rússa á fjórum héruðum í austanverðri Úkraínu var fordæmd. Þessi neyðarfundur var sá 11. frá upphafi en Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945. Hér var því um sögulegan viðburð að ræða, enda lifum við sögulega tíma.

Hungursneyðin eykst

Í ferðinni sóttum við heim nokkrar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna, greina mátti þunga undiröldu hjá stofnunum, enda stríð í Úkraínu, yfirvofandi matvælaskortur í heiminum, afleiðingar Covid og loftslagsváin allt umlykjandi. Í kynningu á starfsemi Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP komu fram sláandi staðreyndir. Búist er við að nærri 350 milljónir manna í 82 löndum standi fram fyrir matvælaskorti á komandi ári og er það nærri fjórðungs aukning frá byrjun þessa árs, þar af eru um helmingur börn. Þessar staðreyndir eru ógnvænlegar.

Þótt við hér á Íslandi búum ekki við hungur eða matarskort, þá erum við samt sem áður hluti af þessari heild. Staðreyndin er sú að matarverð í Evrópu fer hækkandi og á sama tíma er orkuskortur yfirvofandi í álfunni með ófyrirséðum afleiðingum. Framboð á hrávöru minnkar stöðug á meðan Rússar halda Úkraínu í heljargreipum. Þótt framleiðslan haldi áfram í landinu þá eru flutningsleiðir takmarkaðar til Evrópu. Það er áskorun og mjög mikilvægt að halda flutningsleiðum opnum í stríði, að öðrum kosti liggja hráefni undir skemmdum og ná ekki til þeirra sem þurfa nauðsynlega á þeim að halda.

Við erum hluti af stóru myndinni

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sinnir mikilvægum störfum með sinni dyggu aðstoð. Ísland hefur lagt fram fjárhagslegan stuðning við verkefnið og nýlega ákváðu íslensk stjórnvöld að tvöfalda kjarnaframlög sín til tveggja mannúðarstofnana annars vegar til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og til Flóttamannastofnunar UNHCR, vegna alvarlegs mannúðarástands víðs vegar um heim. Viðbótarframlagið nemur alls 200 m.kr. og renna 100 m.kr. til hvorrar stofnunar.

Matvælaáætlun SÞ hefur lagt áherslu á skólamáltíðir. Það er ekki bara mikilvægt að börnin nærist heldur eru skólamáltíðir einnig hvati til að börn mæti í skólann og þannig fengið nauðsynlega fræðslu og eftirfylgni. Auk þess njóta 1500 bændur á svæðinu góðs af átakinu í formi framleiðsluþróunar og geta þar með bætt afkomu sína.

Verðum að fylgjast vel með þróun mála

Hér er ekki verið að fara með heimsósóma og hrakspár. Staðreyndir tala sýnu máli og mikilvægt er að þjóðir heims sameinist um styrkja þau svæði sem þurfa á neyðaraðstoð að halda. Lausn á fyrirliggjandi vanda er meðal annars sú að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna styrki þjóðir til að virkja og nýta sínar auðlindir sem best til að bjarga mannslífum. Það er nefnilega samvinnuverkefni þjóða að lágmarka þann skaða sem er að verða vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem og þegar aðrar hörmungar skekja heiminn. Það er nefnilega mannlegt að standa saman.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. október 2022.

Categories
Greinar

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Deila grein

24/08/2022

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Sem hluti af loftlagsstefnu hafa stjórnvöld nú lagt aukna áherslu á orkuskipti í samgöngum. Samliða orkuskiptunum verður þó ekki litið fram hjá að huga þarf að breyttri gjaldtöku í umferðinni, en núverandi gjaldtaka hér á landi er mest í formi eldsneytisgjalds. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja muni líklega lækka um milljarða króna bara á þessu ári vegna fjölgunar rafbíla.

Í samgönguáætlun sem samþykkt var í fyrra var ákveðið að taka umferðargjald til endurskoðunar samhliða orkuskiptum í samgöngum. Lagt er til að hætt verði með bensín- og dísilgjöld og þess í stað komi einhverskonar notkunargjöld eða veggjöld líkt og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar. Með fyrirliggjandi orkuskiptum komumst við ekki hjá því að taka upp þá umræðu hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðar gjaldtöku af umferðinni.

Rangfærslur á samfélagsmiðlum

Í umfjöllun á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur hefur komið fram að innheimta gjaldtöku í jarðgöngum sé til þess að fjármagna fyrirhuguð jarðgöng á landinu og hefur verið nefnt að upphæð fyrir hverja ferð verði 300 krónur. Þessi upphæð er algjörlega úr lausu lofti gripin enda hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um fjárhæðir í þessum efnum. Útfærsla á notkunargjaldi í jarðgöngum hefur ekki verið ákveðin, áður en það er gert þarf fyrst að fara fram greiningarvinna. Niðurstöður greiningarvinnu gætu falið í sér mismunandi gjöld eftir staðsetningu, gerð og samfélagsaðstæðum eða afslátt til þeirra sem búa við viðkomandi jarðgöng. Við ákvörðunartöku sem þessa þarf að sjálfsögðu að horfa til sjónarmiða sem eðlilegt og réttmætt þykir að taka tillit til, m.a. jafnræðissjónarmiða.

Færeyska leiðin í gjaldtöku í jarðgöngum.

Í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 segir að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga. Þessi leið við framkvæmd jarðganga felur einnig í sér stofnun félags um jarðgangagerð með framlagi frá ríkinu í upphafi en síðan taki notendur þátt í hluta af kostnaði við framkvæmd. En í stefnumótun með endurskoðaðri samgönguáætlun til komandi framtíðar og fjármögnun samgangna var m.a. talað um notendagjöld í jarðgöngum.

Við undirbúningsvinnuna hefur verið horf til hvernig frændur okkar í Færeyjum hafa farið að við uppbyggingu á jarðgöngum. Í Færeyjum er gjaldtaka í neðansjávargöngum og hafa þar verið stofnuð félög til þess að standa straum af gerð þeirra en vegagerð Færeyja hefur síðan eftirlit með þeim. Veggjald í jarðgöng í Færeyjum eru mishá eftir staðsetningu jarðganga en þau eru allt að 100 DKK en veittir eru afslættir fyrir þá sem nýta þau sér mikið líkt og til íbúa nærliggjandi svæða.

Gjaldtaka af umferð í Noregi frá 1960

Norðmenn hafa innheimt veggjöld til að kosta gerð mannvirkjanna í fjölda ára eða allt frá árinu 1960. Um 1200 jarðgöng af ýmsum stærðum og gerðum eru víðs vegar í Noregi og eru veggjöld sérstaklega innheimt af nokkrum þeirra. Um þriðjungur allra veggjalda í Noregi er innheimtur af umferð á Oslóarsvæðinu, gjaldstöðvar þar eru 83 talsins. Í kringum Osló búa 1,2 milljónir manna eða um fjórðungur íbúa landsins. Upphæðir veggjalda eru misháar eftir umferðarmannvirkjum. Skuldastaða vegna stofnkostnaðar við mannvirkin hefur þar áhrif en dýrara er að fara um ný mannvirki en þau eldri. Gjaldflokkar fara einnig eftir stærð, þunga og eldsneytistegund bíla. Lægri veggjöld eru innheimt af bílum sem hvorki gefa frá sér koldíoxíð né nítrógenoxíð. Þá er líka rukkað mismunandi eftir annatíma umferðar.

Við viljum öll gott samgöngukerfi

Það hefur verið stefna núverandi stjórnvalda að hraða framkvæmdum í samgöngum og byggja upp gott og skilvirkt samgöngukerfi um allt land. Til þess að fjármagna allar þessar framkvæmdir er óhjákvæmilegt að taka upp einhverskonar gjald og hefur verið talað um þrjár leiðir við innheimtu notendagjalda: gjaldtöku á þremur meginstofnæðum til og frá höfuðborginni, samvinnuleið (PPP-verkefni) og gjaldtöku í jarðgöngum.

Útfærsla á gjaldtöku af umferð hér á landi, hvort sem það er um jarðgöng, brýr eða önnur umferðarmannvirki hefur ekki verið ákveðin. Áður en það er gert er eðlilegt að það fari fram gagnrýnin og uppbyggilega umræða um allt land. En niðurstaðan verður að vera sú að þegar umferðagjöld verða tekin til endurskoðunar og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem samþykkt var árið 2019 gerir ráð fyrir, verð horft til jafnræðissjónarmiða íbúa landsins. Þannig höldum við áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2022.