Categories
Greinar

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Deila grein

24/08/2022

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Sem hluti af loftlagsstefnu hafa stjórnvöld nú lagt aukna áherslu á orkuskipti í samgöngum. Samliða orkuskiptunum verður þó ekki litið fram hjá að huga þarf að breyttri gjaldtöku í umferðinni, en núverandi gjaldtaka hér á landi er mest í formi eldsneytisgjalds. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja muni líklega lækka um milljarða króna bara á þessu ári vegna fjölgunar rafbíla.

Í samgönguáætlun sem samþykkt var í fyrra var ákveðið að taka umferðargjald til endurskoðunar samhliða orkuskiptum í samgöngum. Lagt er til að hætt verði með bensín- og dísilgjöld og þess í stað komi einhverskonar notkunargjöld eða veggjöld líkt og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar. Með fyrirliggjandi orkuskiptum komumst við ekki hjá því að taka upp þá umræðu hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðar gjaldtöku af umferðinni.

Rangfærslur á samfélagsmiðlum

Í umfjöllun á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur hefur komið fram að innheimta gjaldtöku í jarðgöngum sé til þess að fjármagna fyrirhuguð jarðgöng á landinu og hefur verið nefnt að upphæð fyrir hverja ferð verði 300 krónur. Þessi upphæð er algjörlega úr lausu lofti gripin enda hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um fjárhæðir í þessum efnum. Útfærsla á notkunargjaldi í jarðgöngum hefur ekki verið ákveðin, áður en það er gert þarf fyrst að fara fram greiningarvinna. Niðurstöður greiningarvinnu gætu falið í sér mismunandi gjöld eftir staðsetningu, gerð og samfélagsaðstæðum eða afslátt til þeirra sem búa við viðkomandi jarðgöng. Við ákvörðunartöku sem þessa þarf að sjálfsögðu að horfa til sjónarmiða sem eðlilegt og réttmætt þykir að taka tillit til, m.a. jafnræðissjónarmiða.

Færeyska leiðin í gjaldtöku í jarðgöngum.

Í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 segir að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga. Þessi leið við framkvæmd jarðganga felur einnig í sér stofnun félags um jarðgangagerð með framlagi frá ríkinu í upphafi en síðan taki notendur þátt í hluta af kostnaði við framkvæmd. En í stefnumótun með endurskoðaðri samgönguáætlun til komandi framtíðar og fjármögnun samgangna var m.a. talað um notendagjöld í jarðgöngum.

Við undirbúningsvinnuna hefur verið horf til hvernig frændur okkar í Færeyjum hafa farið að við uppbyggingu á jarðgöngum. Í Færeyjum er gjaldtaka í neðansjávargöngum og hafa þar verið stofnuð félög til þess að standa straum af gerð þeirra en vegagerð Færeyja hefur síðan eftirlit með þeim. Veggjald í jarðgöng í Færeyjum eru mishá eftir staðsetningu jarðganga en þau eru allt að 100 DKK en veittir eru afslættir fyrir þá sem nýta þau sér mikið líkt og til íbúa nærliggjandi svæða.

Gjaldtaka af umferð í Noregi frá 1960

Norðmenn hafa innheimt veggjöld til að kosta gerð mannvirkjanna í fjölda ára eða allt frá árinu 1960. Um 1200 jarðgöng af ýmsum stærðum og gerðum eru víðs vegar í Noregi og eru veggjöld sérstaklega innheimt af nokkrum þeirra. Um þriðjungur allra veggjalda í Noregi er innheimtur af umferð á Oslóarsvæðinu, gjaldstöðvar þar eru 83 talsins. Í kringum Osló búa 1,2 milljónir manna eða um fjórðungur íbúa landsins. Upphæðir veggjalda eru misháar eftir umferðarmannvirkjum. Skuldastaða vegna stofnkostnaðar við mannvirkin hefur þar áhrif en dýrara er að fara um ný mannvirki en þau eldri. Gjaldflokkar fara einnig eftir stærð, þunga og eldsneytistegund bíla. Lægri veggjöld eru innheimt af bílum sem hvorki gefa frá sér koldíoxíð né nítrógenoxíð. Þá er líka rukkað mismunandi eftir annatíma umferðar.

Við viljum öll gott samgöngukerfi

Það hefur verið stefna núverandi stjórnvalda að hraða framkvæmdum í samgöngum og byggja upp gott og skilvirkt samgöngukerfi um allt land. Til þess að fjármagna allar þessar framkvæmdir er óhjákvæmilegt að taka upp einhverskonar gjald og hefur verið talað um þrjár leiðir við innheimtu notendagjalda: gjaldtöku á þremur meginstofnæðum til og frá höfuðborginni, samvinnuleið (PPP-verkefni) og gjaldtöku í jarðgöngum.

Útfærsla á gjaldtöku af umferð hér á landi, hvort sem það er um jarðgöng, brýr eða önnur umferðarmannvirki hefur ekki verið ákveðin. Áður en það er gert er eðlilegt að það fari fram gagnrýnin og uppbyggilega umræða um allt land. En niðurstaðan verður að vera sú að þegar umferðagjöld verða tekin til endurskoðunar og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem samþykkt var árið 2019 gerir ráð fyrir, verð horft til jafnræðissjónarmiða íbúa landsins. Þannig höldum við áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Á­fram veginn á Vest­fjörðum

Deila grein

13/06/2022

Á­fram veginn á Vest­fjörðum

Við Vestfirðingar líkt og íbúar annarra landshluta erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir nú enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og útséð með að sú þróun komi til með að breytast næstu áratugi.

Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að bið eftir samgöngubótum en nú er útlit fyrir að þeir sem búa og stafa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. Framkvæmdir síðustu fimm ára eru þakkaverðar en við Vestfirðingar verðum þó ávallt að vera í baráttugírnum ef við viljum komast til jafns við aðra landshluta hvað varðar nútíma samgöngur.

Milljarða framkvæmdir

Tuttugu milljarð króna metnaðarfullar og langþráðar samgönguframkvæmdir á Vestfjörðum eru nú á áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við 5 ára samgönguáætlun 2020-2024. Á þessu fimm ára tímabili verður fjárfest í vegaframkvæmdum fyrir 18,2 milljarða kr., höfnum og sjóvörnum fyrir tæpan 1,5 milljarð kr. og flugvöllum fyrir 212 milljónir kr. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir.

Já tölum um Dynjandisheiðina

Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi yfir Dynjandisheiði eru nú þegar hafnar. Nýlega var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024, frá Norðdalsá og um háheiðina sem skal vera lokið árið 2024. Þá er lokið fyrsta áfanga, þegar unnir voru 12 km kaflar annars vegar við Þverdalsá og hins vegar kafli fyrir Meðalnesið. Þegar þessum hluta er lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á um 25 km kafla.

Frá opnum Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt halda veginum um heiðina opnum yfir verstu veðramánuðina. Þessi uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður og suðursvæðisins allt árið um kring.

Vegabætur í Gufudalssveit

Þá er enn eitt stórverkefnið hafið í Gufudalssveit og það hillir undir að vegur um Teigskóg verði loksins að veruleika. Vinna er hafin við veginn og þar með er séð fyrir endann á áratuga deilu um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun.

Víðar er unnið að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla í þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir þjóðina í heild sinni, hvort sem það er vegna verðmætra þjóðartekna sem verða til á Vestfjörðum, byggðasjónarmiða eða ferðaþjónustu. Allt hjálpar þetta hvort öðru.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2022

Categories
Greinar

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Deila grein

08/06/2022

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Sú staða sem uppi er í heiminum í dag minnir okkur rækilega á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurnin krefst. Þó er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins.

Íslenskir matvælaframleiðendur í ólgusjó

Staða íslenskra bænda er grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Sauðfjár- og nautgripabændur standa mjög illa og ef ekkert verður að gert þá horfir við algjört hrun í greininni og það mjög hratt. Verð til bænda hefur þróast nær öfugt við vísitölu neysluverðs. Matvælaverð til neytenda hefur hækkað og kemur til með að hækka enn frekar ef ekki verður brugðist rétt við. Verð til kjötframleiðenda hefur lækkað á sama tíma og öll aðföng hafa hækkað verulega. Það er útséð að bændur þurfa að fá afurðaverð hækkað verulega svo hægt sé að halda framleiðslu í jafnvægi, og að óbreyttu kemur það niður á neytendum.

Íslensk matvælaframleiðsla er mikilvæg

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, þörfina og mikilvægi þess að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytt atvinnulíf. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu

Undirrituð vilja minna á tillögu okkar í Framsókn að horft verði til þess að heimila afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþága frá samkeppnisreglum, þ.e. heimild til samvinnu og samstarfs, sambærilegum og hafa verið í mjólkuriðnaði síðustu 17 ár. Leið að lausn snýr að afurðastöðvakerfinu og hagræðingu þess. Þá kalla ófyrirséðar breytingar í heiminum á tafarlausar aðgerðir. Það liggur fyrir að sauðfjárbændur þurfa um 40% hækkun á sínu innleggi í haust, aðeins þá til að standa á sléttu. Sama á við um greinarnar, nautakjöt og svínakjöt. Þessum hækkunum er ekki hægt að hrinda út á markaðinn í því efnahagsástandi sem er í dag. Við þurfum að horfa til þess að stjórnvöld komi að málum.

Tökum sprettinn, fellum niður virðisaukaskattinn tímabundið

Þórarinn Ingi lagði inn hugmynd hjá matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda. Matvælaráðherra hefur tekið undir að hugmyndin sé vel skoðunarverð og ætlar að koma henni á framfæri við spretthópinn sem hluti af tímabundinni lausn.

Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll.

Með því að gera innlendar afurðastöðvar öflugri þannig að þær geti hagrætt í rekstri og hækkað verð til frumframleiðenda ásamt því að koma á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti verða íslenskir kjötframleiðendur styrktir án þess að velta hækkunum inn í verð til neytenda. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu kallar á breyttar áherslur og hvetur okkur til að huga enn frekar að innlendri matvælaframleiðslu. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt, nú sem aldrei fyrr.

Hugum að hagsmunum heildarinnar

Framsókn hefur löngum bent á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman og nú sem aldrei fyrr verðum við að brýna samvinnu og þrótt. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar. Stjórnvöld geta lagt lið með öflugum aðgerðum.

Aukin samvinna í afurðavinnslu myndi styðja við verðhækkanir á afurðum til bænda. Það er það sem þarf til að efla framleiðsluvilja og getu kjötframleiðenda á Íslandi. Þessar tillögur leiða ekki til hærra matvælaverðs til neytenda og halda því einnig við verðbólguna. Þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda og íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson

þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2022

Categories
Greinar

Rétt­lát skipting gjald­töku í fisk­eldi

Deila grein

02/06/2022

Rétt­lát skipting gjald­töku í fisk­eldi

Þingsályktunartillaga mín um endurskoðun á reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis, með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi liggur inni í háttvirtri atvinnuveganefnd þingsins. Þessi tillaga var einnig lögð fram í lok síðasta þings og rataði meginefni hennar inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem stendur að mótuð verði heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Tillagan snýr einfaldlega að því að sú endurskoðun feli í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi.

KPMG tók saman í vetur fyrir samtök sjávarútvegsfyrirtækja greiningu á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi. Þar má sjá að þessar greinar skila þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum. Í greiningunni má líka sjá að skipting tekna á milli ríkis og sveitarfélaga er verulega skökk og hallar þar á sveitarfélögin. Hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtöku í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið 29% á árunum 2016-2020. Útflutningsverðmæti á eldislaxi jukust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á síðasta árinu. Nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næst mestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi. Á Vestfjörðum eru sveitarfélögin, sem hýsa starfsemina í vexti og sá vöxtur kallar á mikla innviðauppbyggingu.

Hraða þarf innviðauppbyggingu

Sveitarfélögin bera hitann og þungann af uppbyggingu innviða og því er það krafan að þau fái stærri hlut af gjaldtöku stjórnvalda. Matvælaráðherra hefur sett af stað vinnu þar sem raungera á stefnu stjórnvalda um að greina þjóðhagslegan ávinning fiskeldis sem og ávinning þeirra byggðarlaga þar sem fiskeldi er stundað. Í framhaldi þarf að skoða sérstaklega gjaldtöku af fiskeldi og skiptingu þeirra gjalda og vinna að stefnumótun í greininni. Þessi greining fer fram samhliða stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á sviði fiskeldis. Stefnt er að því að mat á stöðu og greining á áhrifum, ávinningi, samkeppnisstöðu og gjaldtöku liggi fyrir á sama tíma og niðurstaða Ríkisendurskoðunar.

Stjórnsýsluúttekt á málefnum fiskeldis

Ríkisendurskoðun hefur samþykkt beiðni matvælaráðherra að stofnunin muni framkvæma úttekt á stjórnsýslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og undirstofnana þess á sviði fiskeldis. Er ætlunin að úttektin nái yfir alla stjórnsýslu málaflokksins, allt frá undirbúningi löggjafar og setningu afleiddra reglna til eftirlits með starfsemi fyrirtækja í greininni. Áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar er í vinnslu, en áætlað er að niðurstaða hennar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis á haustmánuðum 2022.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 2. júní 2022

Categories
Greinar

Rangfærslur um kolefnislosun

Deila grein

27/05/2022

Rangfærslur um kolefnislosun


Kolefnislosun í landbúnaði á Íslandi er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar er um að ræða kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar er losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Kolefnislosun frá framræstum jarðvegi hefur verið metin 100% hærri en aðrir þættir innan býlanna og vegur því þungt, svo þungt að margir halda því fram að kolefnisspor íslensks lambakjöts sé meira heldur en innflutts lambakjöts frá Ástralíu, sem er auðvitað fráleitt, enda þarf ekki nema að hugsa það til enda til að sjá að það stenst enga skoðun.

Minni losun en haldið hefur verið fram

Nýlega sendi Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri frá sér skýrslu sem byggir meðal annars á rannsóknum sem gerðar voru á Norðurlandi á kolefnislosun frá framræstu landi. Niðurstöður þeirra rannsókna sýna að fullyrðingar, sem haldið hefur verið á lofti á Íslandi árum saman um losun koltvísýrings og annarra meintra gróðurhúsalofttegunda úr framræstu landi, eru langt frá því að geta staðist. Í skýrslunni segir að losunin sem hér mælist verði að teljast lítil miðað við eldri mælingar sem gerðar hafa verið í framræstum, óræktuðum lífrænum mýrum. Það er full ástæða til að leggja í frekari rannsóknir á þessum málum hér á landi, því það hafa flogið nokkuð háværar fullyrðingar um langtímalosun koltvísýrings úr framræstu landi og mikilvægi þess að endurheimta þau votlendi sem framræst hafa verið á undanförnum áratugum.

Betri kortlagning

Í skýrslunni segir að til að kortleggja sem næst raunverulega langtíma kolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi þurfi að gera átak í að mæla hana skipulega sem víðast. Væntanlega þarf samkvæmt þessi að mæla út frá mismunandi jarðvegi og á mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á þeim þætti um allt land, það er mikilvægt ekki síst til þegar horft er til markmiða stjórnvalda í loftlagsmálum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður

Greinin birtist fyrist í Bændablaðinu 25. maí 2022

Categories
Greinar

Ívilnanir Menntasjóðs vegna skorts á sérmenntuðu fólki

Deila grein

25/05/2022

Ívilnanir Menntasjóðs vegna skorts á sérmenntuðu fólki

Víða um land hefur verið erfitt að manna ákveðnar starfsstéttir, stéttir sem nauðsynlegar eru til að halda uppi ákveðinni grunnþjónustu við íbúa samfélagsins. Ákall er víða á landsbyggðinni eftir heilbrigðismenntuðu fólki, læknum og hjúkrunarfræðingum, sérfræðingum í geðheilsuteymin sem og sérfræðingum á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Ívilnanir Menntasjóðs til sérstakra staða

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi á vorþingi 2020. Um er að ræða heildarendurskoðun á námslánakerfinu og miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Í lögum um Menntasjóð er til staðar heimild um tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána á skilgreindum svæðum. Um er að ræða mikilvægt nýmæli þegar stór svæði eiga í vandræðum með að manna ákveðnar stöður og þörf er á að koma þessu ákvæði í virkni. Til þess að nýta þessa ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi að skortur sé á einstaklingum með menntun í ákveðinni starfsstétt og sá einstaklingur sem þiggur ívilnun þarf að hafa lokið prófgráðu í viðkomandi námsgrein. Þá eru gerðar kröfur um að minnsta kosti 50% starfshlutfall og lengd búsetu að lágmarki tvö ár.

Þörfin er skýr, verkfærið þarf að brýna

Undirrituð lagði fram fyrirspurn til ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þessar tímabundnu ívilnanir við endurgreiðslu námslána og lagði út frá því hvort komið sé að þeim tímapunkti að auglýsa þessar framangreindu ívilnanir.

Í svari ráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi kemur fram að engin skýrsla sé fyrirliggjandi um viðvarandi skort í starfsstétt. Því sé ekki tilefni til þess að auglýsa tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina enda liggi ekki fyrir hjá Byggðastofnun skilgreining á hvaða svæði væru þarna undir. Af þessu tilefni aflaði ég mér upplýsinga frá Byggðastofnun, þar hefur mér verið sagt að vinna sé að fara af stað um þetta mikilvæga mál og er von mín að innan fárra mánaða verði það komið í framkvæmd.

Mikilvæg byggðaaðgerð

Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvæg byggðaaðgerð þessi heimild er. Hvati fyrir byggðarlög sem eiga í stöðugri baráttu við að ná til sín fólki til að sinna mikilvægum störfum og halda uppi grunnþjónustu ásamt keppninni við að ná til sín sérmenntuðu fólk úr öðrum atvinnugreinum til að halda uppi öflugu samfélagi. Þessar ívilnanir efla samkeppnishæfni sveitarfélaga og mikilvægt er að þær verði nýttar sem fyrst þar sem þeirra er þörf.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á Skessuhorni 24. maí 2022

Categories
Greinar

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri – mikilvægur hornsteinn

Deila grein

06/05/2022

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri – mikilvægur hornsteinn

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu á breiðum grunni því við verðum að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Það höfum við fundið í þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin misseri í heimsfaraldri og nú stríði í Evrópu. Þá er það mikilvægt að styrkja íslenska matvælaframleiðslu vegna matvælaheilbrigðis og síðast en ekki síst til að minnka kolefnisspor.

Matvælaöryggið er mikilvægt en einnig hafa loftlagsmál aldrei verið mikilvægari og þar kemur landbúnaðurinn sterkur inn. Þeir sem yrkja landið vita að loftslagsmál eru forsenda þess að líf dafni. Styrkja þarf betur við skógrækt, landgræðslu og fjölbreyttra ræktun til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftlagsmálum. Það skiptir máli að allt landið sé í byggð og bændur eru vörslumenn þeirrar auðlindar sem við eigum allt undir. Með styrkum stuðningi við landbúnað eflum við þróun mannlífs og byggð í landi öllu.

Menntun er máttur

Landbúnaðarskólinn á Hvanneyri á sér langa sögu eða allt frá 1889, þar er dágóð reynsla og þekking sem hefur myndast í gegnum árin. Frá árinu 2005 hefur þar verið Landbúnaðarháskóli og fer þar nú fram öflugt rannsóknar- og menntastarf í þágu landbúnaðar á Íslandi. Mikilvægi menntunar og rannsókna á þeim sviðum sem stunduð er á Hvanneyri hefur líklega sjaldan verið mikilvægari, þegar horft er til þeirra þátta sem ég nefndi í innganginum. Sérstaða skólans eru viðfangsefni hans en það eru náttúra landsins, nýting, viðhald og verndun, eins og segir á heimasíðu skólans. Þá er ánægjulegt að fyrirhugað er að stækka jarðræktarmiðstöðina í Hvanneyri, þar eru gerðar mikilvægar tilraunir og rannsóknir sem spila stórt hlutverk inn í framtíðina. Það má svo sannarlega segja að mikil gróska sé á Hvanneyri.

Gildi og markmið

Þegar rennt er yfir gildi og markmið skólans má sjá að horft er til framtíðar og þeirra aðstæðna sem eru og vænta má hér á norðlægum slóðum í samstarfi við alþjóðlegar rannsóknir og stefnur. Það er í samræmi við núverandi stefnumál stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á að byggja upp innlenda þekkingu á sviði sem nýtist okkur í þeim hagsmunamálum þjóðarinnar. Þá er talað um mikilvægi menntunar í landbúnaði sem stuðlar að fræðslu, ráðgjöf, þróun og nýsköpun. Þá er gott að horfa til framtíðarmarkmiða Landbúnaðarháskólans sem er að skólinn stuðli að aukinni verðmætasköpun og fæðuöryggi til framtíðar með sjálfbærri nýtingu auðlinda. Málefni dagsins eru nefnilega loflagsmál og matvælaöryggi.

Við eigum góða skóla

Aðalsmerki Vesturlands eru tveir öflugir háskólar í Borgarfirði. Það er hlutverk bæði heimamanna og stjórnvalda að halda mikilvægi skólanna á lofti. Rúmlega 130 ára saga skólans á Hvanneyri er okkur kraftur til að halda áfram að styrkja öflugt starf á sviði menntunar og rannsóknar á landsbyggðinni.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. maí 2022.

Categories
Greinar

Reikult er rótlaust þangið

Deila grein

28/04/2022

Reikult er rótlaust þangið

Allt frá því að land byggðist hefur það verið okkur lífsnauðsynlegt að nýta auðlindir okkar til bjargar, bæði á hafi og á landi. Allt í kringum landið er matarkista sem við höfum nýtt okkur bæði til matar og afkomu. Hafið er svo sannarlega gjöful auðlind. Það hefur þó ekki verið fyrr en á síðust árum sem við höfum farið að þróa nýtingu á fleiri tegundum en þessum hefðbundnu og gróska hefur aukist í rannsóknum og þróun á fullnýtingu sjávarafla.

Aukinn þekking og áhugi

Fullnýting á hefðbundnum sjávarafla hefur aukist og er það vel, enda mikilvægt að nýta allan þann afla sem veiða má og auka virði hans sem mest. Samhliða því verðum við jafnframt að horfa til þess að nýta aðrar tegundir og lífmassa sem finnast við strendur landsins. Rannsóknir hafa aukist á sjávargróðri og sjávardýrum eins og þangi og þara, krabba- og skeldýrum. Aukinn þekking er að byggjast upp enda sífellt fleiri sem hafa menntað sig og vilja sinna bæði rannsóknum og nýtingu. Víða um land hafa sprottið upp nýsköpunarsetur sem sinna þróun og með styrk frá háskólum og stjórnvöldum má tryggja betri nýtingu auðlindarinnar.

Sjálfbær þróun náttúruauðlinda

Sjálfbær þróun náttúruauðlinda er eitt af markmiðum stjórnarsáttmála núverndi ríkisstjórnar og fellur þörungaræktun og nýting sjávarþörunga vel þar að. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu sem skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir það til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum undir 2°C. Samfara fjölgun mannkyns, aukinni neyslu og ósjálfbærum aðferðum í ræktun og veiði hefur álag á vistkerfi jarðarinnar aukist gífurlega á undanförnum áratugum. Við þurfum að finna nýjar og betri leiðir til þess að lifa í sátt með náttúrunni.

Regluverk þarf að styðja við aukna verðmætasköpun

Á yfirstandandi þingi hef ég lagt fram þingsályktunartillögu sem gengur út á að styðja við aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Það er hægt að gera með því að fara yfir lög og reglur til þess að styðja við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxta villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi. Til þess að ná árangri á þessu sviði er einnig mikilvægt að styðja við rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðsetningu á vörum úr þeim. Samhliða því þarf svo að styrkja eftirlitaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnanna.

Mikilvægt er að skapa leiðir fyrir fólk til þess að nýta þörunga til framleiðslu á t.d. lífeldsneyti, matvælum, lífefnavörum eða fóðurbæti fyrir dýr sem og líförvandi efnum til ræktunar Fjölmörg tækifæri eru til nýtingar á þessu sviði en svo hægt sé að grípa þau er nauðsynlegt að hefja vinnu við lagfæringar á regluverkinu. Aukin áhugi og þekking er hér á landi á þessu sviði og löggjafinn þarf að vera tilbúin til þess að aðstoða við þessa þróun.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst Bændablaðinu 28. apríl 2022.

Categories
Greinar

Aldrei fór ég suður

Deila grein

08/04/2022

Aldrei fór ég suður

Við getum örugglega öll verið sammála um mikilvægi þess að um allt land séu blómlegar byggðir með hamingjusömum íbúum. Á landsbyggðinni eru starfandi öflug fyrirtæki sem skapa tekjur inn í þjóðarbúið. Lífið á landsbyggðinni er allskonar og kallar á mismunandi nálganir. En ekkert gerist af sjálfu sér, svo við getum haldið öflugum byggðum allt í kringum landið er nauðsynlegt að hafa raunhæfa byggðaáætlun.

Hvað er byggðaáætlun?

Byggðaáætlun leggur grunn að aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði hvað varðar húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, fjarskipta, menntunar og jafnari tækifæri til atvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Með byggðaáætlun má lesa stefna stjórnvalda hverju sinni í byggðamálum. Er hún samhæfing við aðra stefnumótun og áætlunargerð hins opinbera og samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök. Samvinna er lykilinn í að viðhalda sjálfbærni byggða um land allt.

Innviðaráðaherra hefur lagt fram á Alþingi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Byggðaáætlunin er lögð til grundvallar við gerð fjárlaga og í henni má finna metnaðarfull markmið að því marki að landsbyggðin vaxi og dafni.

Heimsmarkmiðin í byggðaáætlun

Sú byggðastefna sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi styðst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem er mannkyn, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Sem leiða okkur að aðalinntakinu sem er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Það er þess vegna sem þau falla svo sérstaklega vel við byggðaáætlun. Því það er mikilvægt að þessar stoðir séu virtar sem leiðarljós til að nálgast jafnrétti til búsetu út frá kröfum okkar og viðmiðum við þau byggðarlög sem við berum okkur saman við.

Vegvísir

Að lokum langaði mig að koma inn á sérstaklega skemmtilega nýjung. En fylgjast má með metnaðarfullum markmiðum íslenskra stjórnvalda í byggða- fjarskipta og samgönguáætlunum á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af innviðaráðuneytinu.  Vefurinn er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingarvefur þar sem hægt er að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri verkefna og árangursmælikvarða.  

Á vefnum er hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu, eða aðgerðir byggðaáætlunar eftir landshlutum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Fyrir áhugafólk um stöðu á  byggðastefnu og aðgerða stjórnvalda í þeim efnum er upplagt að nýta sér þennan vef.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á bb.is 8. apríl 2022.

Categories
Greinar

Að vera vinur í raun

Deila grein

07/04/2022

Að vera vinur í raun

Fæst okkar hefðu trúað því að árið 2022 væri stríð í Evrópu og undirbúa þyrfti komu flóttamanna frá Úkraínu til landsins. Í einum vettvangi er lífi fjölda fólks snúið á hvolf. Í upphafi árs áttu þau venjulegt líf, keyptu í matinn, mættu í skóla og vinnu, héldu barnaafmæli, elskuðu og voru elskuð. Hversdagurinn í reynd en nú tilheyrir hann annarri vídd. Í dag eru þau á flótta frá heimalandinu með ekkert nema handfarangur og sorg í hjarta. Borgir hafa verið lagðar í rúst og saklaust fólk tapað lífinu. Á meðan stjórnvöld bregðast við í alþjóðasamvinnu hefur almenningur á Íslandi fylgist sorgmæddur á þróun mála og fyllst vanmætti. Það er erfitt að fylgjast með úr fjarlægð og geta lítið gert.

Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt við

Íslensk stjórnvöld tóku strax ákvörðun um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu, fyrstu hóparnir eru þessar vikurnar að koma til landsins. 4,6 milljónir barna eru á flótta vegna stríðsins í Úkraínu, þessi börn verða fyrir miklu áfalli og óvíst er hvaða áhrif stríðið kemur til með að hafa á þessi börn og þeirra fjölskyldur, hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar sérstakt viðbragðsteymi ásamt sérstöku vöktunarteymi vegna þess fjölda barna sem komin er og væntanleg eru til landsins. Mikilvægt er að þær fjölskyldur sem hingað koma geti leitað á einn staða varðandi þjónustu við börn. Þau þurfa að finna að tekið sé utan um þau með öllum mögulegum hætti.

Íslenska þjóðin er með stórt hjarta

Þá fyllist ég stolti þegar ég sé viðbrögð fyrirtækja og almennings á Íslandi. Fljótt var ljóst að útvega þyrfti húsnæði fyrir allan þann fjölda fólks sem væntanlegur er til landsins. Nú þegar er búið er að semja um pláss fyrir tvö þúsund einstaklinga á mismunandi stigum dvalar flóttamanna. Er það vel gert á svo stuttum tíma, en enn er þó þörf fyrir meira húsnæði. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að nokkrir aðilar, fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir hafa tekið ákvörðun um að innheimta ekki leigu fyrir húsnæðið sitt.

Síðustu daga hef ég séð inn á hópum á Facebook þar sem unnið er að undirbúningi komu flóttamanna til landsins. Sjálfboðaliðar eru að safna saman fötum, húsgögnum og leikföngum fyrir börn. Allskonar húsbúnaði til þess að búa flóttamönnum fallegt heimili. Þá sá ég að starfsfólk Háskólans á Bifröst ásamt fleiri sjálfboðaliðum gengu úr vinnu til þess að bera inn húsgögn, dusta sængur og búa um rúm. Lítill bangsi var settur ofan á sæng.

Þessi samstaða kemur mér ekki á óvart, en samt sem áður fyllist ég þakklæti að búa í landi sem tekur opnum örmum á móti fólki á flótta og er tilbúið að leggja á sig auka vinnu fyrir aðra. Við erum öll ein stór fjölskylda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2022.