Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir

Deila grein

07/03/2024

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir

Ég er sammála ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar sem kemur inn á að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórnin hafi samþykkt, enda er það í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang. Kjarasamningar eru í vinnslu og þessi aðgerð myndi greiða fyrir gerð þeirra. Það er mikilvægt að þjóðarsátt náist um jafn mikilvæg mál, öllum til heilla. Það væri liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu, enda myndu með því allir vinna, bæði heimili og sveitarfélög. Mörg sveitarfélög í landinu eru skuldug og finna því áþreifanlega fyrir hærri verðbólgu og því vaxtastigi sem nú ríkir í landinu.

Tækifæri til að draga úr ójöfnuði

Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í að jafna kjör og aðstæður barna er að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til þess að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu. Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum, en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum eru þau öll að koma að sama borði.

Munar oft um minna

Börn hér í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 krónur á mánuði fyrir skólamáltíð og er það um 115 þúsund yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og þá frítt fyrir þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230 þúsund yfir veturinn.

Mörg sveitarfélög bjóða nú þegar gjaldfrjálsar skólamáltíðir t.d. Fjarðabyggð og Vogar og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Annar heims­far­aldur

Deila grein

27/02/2024

Annar heims­far­aldur

Við í Framsókn höfum síðustu misseri tekið okkur stöðu og verið óhrædd við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þessar áhyggjur eru ekki úr lausu lofti gripnar. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði að þessu tilefni starfshóp í samvinnu við matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Fyrir þessum hópi var fyrrum sóttvarnarlæknir Þórólfur Guðnason. Hópurinn skilaði af sér fyrr í þessum mánuði.

Flestir kannast við frásögur af því þegar sýklalyf fóru að gagnast mannkyninu það er upp úr 1940, fyrir þann tíma voru berklar, blóðeitrun, lungnabólgur og fleiri sjúkdómar virkilega ógn við líf og heilsu. Það var því bylting þegar sýklalyfin voru uppgötvuð og nýtt í baráttunni við áður lífsógnandi sjúkdóma. Á síðust árum hafa sérfræðingar verið að vara við vaxandi sýklalyfjaónæmi og það er enn vaxandi og er orðið verulegt heilbrigðisvandamál. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum takmarka meðferðarúrræði. Í sumum löndum greinast sýkingar af völdum baktería sem engin sýklalyf vinna á sem skapar ástand sem minnir á aðstæður eins og þær voru áður en sýklalyfin voru fundin upp.

Hvað getum við gert?

Starfshópurinn skilaði af sér fjögurra ára aðgerðaráætlun sem inniheldur sex meginaðgerðir sem samanstanda að því að bæta þekkingu á sýklalyfjaónæmi, auka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Markmið fylgir hverri aðgerð og verkefni. Því fyrr því betra er að ráðist verði af alvöru í þetta verkefni, því betra er að byrgja brunninn og svo framvegis.

Þá kemur það einnig fram í skýrslu hópsins að fæðuöryggi mun enn fremur minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér á landi er með því minnsta sem þekkist í heiminum og hefur það verið staðfesti í eftirliti evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landbúnaði.

Sérstaða íslenskrar matvælaframleiðslu

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu. Undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða og hafa þeir brýnt fyrir okkur að verja þessa einstöku sérstöðu sem við búum við hér á landi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Við þurfum nú og framvegis að styrkja þann grunn sem íslensk matvælaframleiðsla byggir á en ýmsar ógnir steðja að.

Það er því miður staðreynd að innflutningur á nautakjöti jókst um 48% á sl. ári og á kjöti í heild um 17%. Á sama tíma og kjötframleiðsla innanlands var svipuð og árinu á undan og sala í kinda- og nautakjöti dróst saman um 2%. Raunin er sú að innflutt kjötvara er nú byrjuð að taka yfir markaðinn og er orðin að stærri hluta af sölunni í heild. Við þurfum að spyrja okkur, er þetta í takti við tillögur sem áhyggjufullur stýrihópur um aðgerðir til varna útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería bendir á?

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Hrein brjóst og leg­háls

Deila grein

19/02/2024

Hrein brjóst og leg­háls

Forvarnir og skimun gegn krabbameinum er eitt stærsta lýðheilsumál sem sett hefur verið á laggirnar hérlendis. Nýgengi krabbameins hefur aukist og er það mikið áhyggjuefni, hvað veldur því er sérstakt rannsóknarefni út af fyrir sig, margar tilgátur eru uppi og eru þekktar en þær verða ekki raktar hér. Rannsóknir á auknu nýgengi gætu gefið leiðarljós um þá áhættuþætti sem okkur ber að forðast og því mikilvægt að það verði farið í slíkar rannsóknir því þær gagnast okkur öllum.

Breytt fyrirkomulag

Fyrir nokkrum árum var breytt fyrirkomulag á skimunum fyrir brjóstakrabbameini og einnig fyrir leghálskrabbameinum. Skimun var flutt frá Krabbameinsfélaginu sem hefði staðið þá vakt með sóma frá upphafi. Brjóstaskimanir fara nú fram í Brjóstamiðstöð Landspítalans og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá er skimað á öðrum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni eftir sem áður og er það skipulag að finna á vefnum skimanir.is. Öllum konum á aldrinum 40-69 ára er boðin skimum á tveggja ári festi og konum 70-74 ára á þriggja ára fresti. Leghálsskimanir fara reglulega fram á heilsugæslustöðvum um allt land. Þegar breytt fyrirkomulag var í umræðunni urðu margir áhyggjufullir að aðgengi að skimun yrði skert, konur þyrftu um langan veg að fara og hvatning og fræðsla yrði út undan. Eins og rakið var hér að ofan ætti aðgengi kvenna um land allt að vera í svipuðu formi og hefur verið þótt breytingar kalli alltaf á aðlögun.

Berum ábyrgð á eigin heilsu

Það er verulegt áhyggjuefni að dregið hafi úr þátttöku kvenna í skimunum, bæði fyrir brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini. Það er áhyggjuefni sér í lagi þegar nýgengi brjóstakrabbameins hefur aukist. Þetta á við um alla aldurshópa þó mest í yngsta aldurshópunum, en um 240 konur og 4 karlar greinast árlega með brjóstakrabbamein. Þá eru konur í hópi innflytjenda síður líklegar til að mæta í skimun en aðrar. Í Danmörku hefur einnig dregið úr þátttöku kvenna í skimunum á meðan finnskar og sænskar konur standa sig betur.

Inn á Heilsuveru hvers og eins er hægt að sjá skimunarsögu okkar. Ég brýni fyrir konum að kíkja þar inn og sjá hvort og hvenær tímabært er að fara í skimun og setja inn í dagbókina að taka þátt. Þá er það einnig mikilvægt að fylgjast með einkennum og þukla brjóst reglulega og gera viðvart þegar eitthvað óvenjulegt er á seiði.

Þörf er á vitundarvakningu

Minni mæting í skimun kallar á vitundarvakningu , kostnaðurinn er ekki hár en getur verið hamlandi og hægt er að fá þetta endurgreitt frá stéttarfélögum, en þegar það er virkilega þörf á vitundarvakningu ætti að koma á móts við konur, t.d. með gjaldfrjálst í fyrsta sinn og eða fella niður gjald í eitt til tvö ár og sjá hvort mætingin aukist. Aukin fræðsla og þá á fleiri tungumálum en íslensku. Hvað eru frændur okkar Finnar að gera betur? Í rannsókn sem Krabbameinsfélagið lét gera var framtaksleysi eða tímaskortur algengasta ástæðan fyrir því að konur sögðust ekki hafa mætt í skimun. Látum ekki tímaleysi eða framtaksleysi reisa okkur veggi gegn því að mæta skimun, það fer nefnilega svo fjandi mikill tími í krabbameinið sjálft!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Förum var­lega á vegum úti

Deila grein

14/02/2024

Förum var­lega á vegum úti

Banaslys í umferðinni eru orðin 7 sem af er þessu ári en þau voru 8 í heildina, allt árið í fyrra. Þessar staðreyndir kalla á að við stöldrum við og íhugum hvar við getum gert betur. Ef við horfum aftur til aldamóta hefur margt breyst. Árið 2000 voru banaslys í umferðinni 32 talsins, flest þeirra voru í kringum höfuðborgarsvæðið og Akureyri og sömu sögu var að segja árið eftir. Þá eru ótalin þau slys þar sem fólk hefur hlotið örkuml eða varanlegan skaða.

Margt hefur sannarlega breyst á þessari öld, bæði hvað varðar framfarir í samgönguframkvæmdum og umferðarmenningu. Við höfum sett mikið átak í að tvöfalda og bæta vegi á suðvestursvæðinu sem hefur skilað sér í því að færri banaslys hafa orðið á þessum fjölförnu vegum. Við höfum farið í átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir að bættu öryggi, en umferðarþungi hefur aukist gríðarlega á þessari öld. Á árunum 2018- 22 vorum við í fjórða lægsta sæti yfir tölu látinna í umferðarslysum í Evrópu á hverja 100.000 íbúa. Neðar voru Bretland, Svíþjóð og Noregur.

Banaslysin færast út á þjóðvegi landsins

Banaslysum hér á landi hefur fækkað ár frá ári og sérstaklega miðað við umferðaraukningu en hlutfall banaslysa í dreifbýli hefur hækkað úr 40% frá árinu 1975-84 í rúmlega 70% á árunum 2005-14 og enn hefur þetta hlutfall hækkað. Hvað veldur því?

Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hefur kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Lagni ökumannanna sem aka slíkum bifreiðum kemur þeim þó í langflestum tilfellum slysalaust milli landshluta en allir þekkja hvernig er að mæta stórum vöruflutningabílum á kræklóttum vegum landsins, í vondu veðri og reyna að halda einbeitingunni. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið og margir sem keyra hér um landið gera það óvanir þeim aðstæðum sem við búum við. Auk þess hefur verið talað um að stór hluti þeirra bíla sem ferðamenn eru að taka á bílaleigum séu með lægri öryggisstaðla heldur en bílahluti landsmanna.

Breytt þjóðfélagsmynd

Í dag er uppi allt aðrar aðstæður heldur en voru fyrir um aldarfjórðung. Á þeim tíma var samfélagsgerðin önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag, þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf innan byggðarlagsins. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaga og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin lengri leið í skólann og jafnvel í leikskóla og þjónustan færist svo sífellt á færri staði. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Að bæta umferðaröryggi á vegum landsins allt árið um kring kallar á stóraukna vetrarþjónustu og áframhaldandi vegabætur um land allt. Mikilvægt er að auka fræðslu til erlendra ferðamanna sem aka hér um vegi, hér er stærsti hluti vegakerfisins um stórbrotna náttúru landsins sem einmitt markmið ferðamanna er að komast á til að njóta og þjóta.

Eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. febrúar 2024.

Categories
Greinar Nýjast

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Deila grein

12/02/2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við treystum og trúum að þeim kröfum sé framfylgt hér á landi. Það hlýtur því  einnig að vera sjálfsögð krafa að við neytendur getum treyst á að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla. Annað væri ótækt.  Við í Framsókn höfum síðustu misseri tekið okkur stöðu og verið óhrædd við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þessar áhyggjur eru ekki gripnar úr lausu lofti. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði  sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi.

Innflutningur flæðir yfir

Nú er það þannig að innflutningur á nautakjöti jókst um 48%  á sl. ári  og á kjöti í heild um 17%. Kjötframleiðsla innanlands var svipuð og árinu á undan og dróst saman í kinda- og nautakjöti og salan dróst saman um 2%. Staðreyndin er sú að innflutt kjötvara er nú orðin að stærri hluta af sölunni í heild. Samkeppnisstaða íslenskra bænda er sífellt að versna og matvælaöryggi landsins um leið. Samkeppnin er hörð, ekki bara hér á landi heldur einnig út í hinum stóra heimi.

Bændur í Evrópu eru farnir að mótmæla kröftuglega þar sem innflutningur landbúnaðarafurða flæðir yfir landamæri og veikir markaðsaðstæður. Í nágrannalöndum mótmæla bændur stjórnvöldum vegna stöðu sinnar og vekja athygli á að samkeppnisstaða þeirra sé sífellt að veikjast gagnvart innflutningi á matvöru frá nágrannalöndum. Bændur í Frakklandi óttast að mikill innflutningur frá Spáni á grænmeti og ávöxtum dragi úr sölu innlendrar framleiðsluvara enda eru þær falar fyrir mun lægra verð, en það er ekki að ástæðulausu. Á Spáni eru ekki gerðar eins ríkar kröfur á umhverfissjónarmið og þar er notað mun meira af eiturefnum við framleiðsluna. Er það framtíðin sem við viljum? Lægra verð fyrir minni gæði.

Aðgerðaráætlun í matvælaöryggi

Aðgerðaráætlun í matvælaöryggi og vernd búfjárstofna var samþykkt á Alþingi árið 2019 eða fyrir fimm árum. Sú áætlun var í 17. liðum og er ágætt að fara yfir hvað hefur áunnist frá því að hún var sett. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að hamra á mikilvægi matvælaöryggis hér landi. Það sem yfir okkur hefur dunið frá því þessi áætlun leit dagsins ljós hefur einungis dýpkað skilning okkar enn frekar á mikilvægi þess tryggja það. Undirrituð sendi fyrirspurn á matvælaráðherra um stöðu aðgerðanna sem settar voru fram. Í svari ráðherra kom fram að öllum aðgerðunum 17 sé annaðhvort lokið eða eru í framkvæmd til lengri tíma. Aðgerðartillögunum 17 er samt aldrei lokið heldur er þetta leiðarljós sem stöðugt þarf að huga að og uppfæra, bæta við og endurmeta reglulega.

Sýklalyfjaónæmi

Ein aðgerð var að átaki skyldi hrundið á stað til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Árið 2019 var sett á stað vinna í ráðuneytinu við að móta viðbrögð ef greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur í dýrum, sláturafurðum og matvælum.   Í kjölfarið var ákveðið að víkka verkefnið út og skipa nýjan hóp undir forystu Þórólfs Guðnasonar, fyrrverandi sóttvarnalæknis, sem hefur það hlutverk að auka þverfaglegt samstarf á þessu sviði og móta framtíðarsýn í málaflokknum til næstu 10 ára. Þá er hópnum falið að móta aðgerðaáætlun í málefnum sýklalyfjaónæmis til næstu 5 ára og leggja til leiðir til að koma aðgerðum til framkvæmda auk þess að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu um sýklalyfjaónæmi. Hópurinn starfar á vegum heilbrigðisráðuneytisins en verkefnið er unnið í samstarfi þess, matvælaráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Einnig hefur verið gerður samningur við MAST og Tilraunastöð HÍ í meinafræðum á Keldum um að fjármagna og sinna ákveðnum rannsóknum tengdum sýklalyfjaónæmi. Auk þess hafa verið styrkt verkefni í sýklalyfjaónæmi.

Styrkja þarf matvælaöryggi landsins

En eitt er víst og það er að það þarf styrkja matvælaöryggi okkar betur og eins að styrkja samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu. Þá hefur Framsókn enn og aftur lagt fram þingsályktunartillögu sem ber með sér að leyfa innlendum afurðastöðvum í kjöti að vinna saman og sameinast til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Innlend matvöruframleiðsla er heilnæm þar stöndumst við erlendan samburð en við verðum að skapa henni betri samkeppnisstöðu til að standa undir rekstrinum. Að öðrum kosti er ekki svigrúm til nýsköpunar eða framþróunar.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Categories
Fréttir Greinar

Dreifingu fjölpósts hætt

Deila grein

09/01/2024

Dreifingu fjölpósts hætt

Íslandspóstur ákvað að hætta alfarið að dreifa fjölpósti við upphaf árs 2024. Fyrir fjórum árum var hætt að dreifa fjölpósti á suðvesturhorni landsins. Íbúar á því svæði urðu þó ekki varir við það enda er þar virk samkeppni um verkefnið og önnur fyrirtæki tóku að sér að dreifa fjölpósti. Það má hins vegar ætla að víða í dreifbýli og á minni þéttbýlisstöðum muni enginn grípa boltann. Því muni íbúum ekki lengur berast fjölbreytt efni sem hingað til hefur verið dreift með fjölpósti.

Pósturinn segir í tilkynningu að þessi ákvörðun sé í takt við umhverfisstefnu Póstsins og þar með sé verið að draga úr sóun og losun koltvísýrings. Vissulega er það þannig að þeim fækkar sem senda frá sér fjölpóst en nýta þess í stað rafræna miðla til að koma upplýsingum á framfæri. Það er þó erfitt að koma auga á umhverfisábata þar sem landpóstar munu eftir sem áður keyra um dreifbýlið tvisvar í viku.

Sparnaður á kostnað íbúa í dreifbýli eða tekjutap póstsins?

Það er ekki nóg að vísa til umhverfisstefnu þegar kemur að slíkri þjónustuskerðingu á landsbyggðinni. Í nóvember fóru fulltrúar Framsóknar í umhverfis og samgöngunefnd Alþings fram á að nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum um forsendur ákvörðunar Íslandspóst, um að hætta alfarið dreifingu fjölpósts þann 1. janúar 2024. Nefndin óskaði í framhaldi eftir upplýsingum um hvað þessi ákvörðum myndi spara félaginu, annars vegar við að hætta dreifingu fjölpósts í dreifbýli og hins vegar í þéttbýli með 1000 eða færri íbúum. Svarið sem barst var að fyrirtækið sjái ekki ástæðu til að taka saman þær upplýsingar sem beðið var um og vísar til þess að um sé að ræða upplýsingar sem Alþingi eigi ekki rétt á þar sem fyrirtækið væri nú opinbert hlutafélag.

Í tengslum við fyrirspurnina bendir Íslandpóstur á að dreifing fjölpósts fellur ekki undir alþjónustu, sem Íslandspósti er skylt að veita um land allt skv. lögum. Ákvörðun um hvort dreifa eigi fjölpósti eða ekki, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu, þéttbýli eða dreifbýli á landsbyggðinni er því í öllum tilvikum rekstrarleg ákvörðun sem tekin er af stjórn og stjórnendum félagsins. Þessi ákvörðun félagsins sætir því engri sérstakri ytri skoðun, og gildir þá einu hvort um er að ræða Byggðastofnun eða Alþingi.

Dreifum gleðinni

Eitt að slagorðum Íslandspósts er „Dreifum gleðinni“ og hlutverk hans er að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög. Samkvæmt lögum veitir Íslandspóstur viðskiptavinum alhliða póstþjónustu, óháð staðsetningu og framtíðarsýnin er að vera fyrsta val viðskiptavina með því að veita framúrskarandi þjónustu. Íslandspóstur er opinbert fyrirtæki og starfar undir lögum um póstþjónustu. Skylda Póstsins er að veita alþjónustu sem nær til bréfa allt að 2 kg og pakka allt að 10 kg innan lands. Þannig að dreifing fjölpósts fellur ekki þar undir. Eftir breytingarnar verður eftir sem áður hægt að senda markpóst, t.d. bæklinga og auglýsingarefni, sem almennt bréf en hann mun þá lúta skilmálum bréfa varðandi verðskrá, dreifingarplan og nafnamerkingu og kostar því bæði meira að undirbúa sendingar og dreifa þeim. Íslandspóstur dreifir því „fjölpósti“ en gjaldskráin hefur hækkað að því marki að það borgar sig varla að nýta sér þá þjónustu þar sem kostnaðurinn eykst um allt að 600%.

Gleðin daprast þegar ákvörðunin kemur sannarlega niður á þeirri þjónustu sem Pósturinn hefur veitt s.s. við dreifingu héraðsfréttamiðla og Bændablaðsins. Það fer að þrengjast um rekstur slíkra miðla þegar það svarar engan veginn kostnaði að dreifa þeim til lesenda og ólíklegt að þeir nýti póstinn til þess áfram. Hvort skyldi ríkisjóður nú þurfa að greiða minna eða meira með rekstri Íslandspósts eftir þessa ákvörðun?

Dreifum menningu og upplýsingum

Það er staðreynd að bréfapósti hefur fækkað mikið en það má ekki koma niður á þeirri þjónustu sem er þó enn nýtt. Það er mikilvægt hlutverk póstsins að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög og veita þjónustu óháð staðsetningu. Að tengja saman fólk og samfélög er að miðla upplýsingum og fréttum það er m.a. gert með svæðisbundnum miðlum. Félagssamtök gefa einnig út blöð og bæklinga og svo ekki sé talað um blöðunga sem er dreift fyrir kosningar. Þar eru mikilvægar upplýsingar sem þurfa að komast til fólks.

Það er mikilvæg að dreifa gleðinni, upplýsingum og fréttum. Pósturinn hefur staðið sig vel í því hlutverki í aldir og það er mikilvægt að missa ekki sjónar af því. Pósturinn þarf líka að svara því hvað þessi ákvörðun skiptir miklu í rekstrarlegu tilliti og hvað sparast í útblæstri við ákvörðunina. Við hin getum alveg reiknað út hvað þetta þýðir í þjónustuskerðingu fyrir hinar dreifðu byggðir.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sterk og snörp

Deila grein

20/12/2023

Sterk og snörp

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Það getur verið vandasamt á krefjandi tímum, óvissa bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu samhengi. Að mörgu þarf að huga, bregðast við ríkjandi þörfum en ekki síður að gera ráð fyrir hinu óvænt. Það ríkir nokkur spenna í hagkerfinu og hefur það verið í nokkurri sveiflu sem birtist í vaxandi verðbólgu. Sumir vilja kalla þá verðbólgu séríslenska líkt og Grýla en við höfum séð að bólgan sú hefur einnig verið vandamál í Evrópu og vestanhafs. Þó ætlar skömmin að vera þrálátari hér á landi og við því verður að bregðast. Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn, til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtarstig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegnar tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við samþykkjum nú fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi.

Snörp viðbrögð stjórnvalda

Miklar náttúruhamfarir á undanförnum vikum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er hvergi nær lokið. Þá ríkir óvissa vegna stríðsástands í heiminum sem varðar íslenskt samfélag eins og aðrar þjóðir. Þrátt fyrir að nýafstaðinn Covid faraldur sem hafði gríðarleg áhrif á efnahagsumhverfið er staða ríkissjóðs sterk. Við getum tekist á við verkefni, sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi þessa árs, sem eru flókin en jafnframt áríðandi að leysa með hraði.  Við höfum vissulega ekki stjórn á öllu sem gerist, en höfum að sama skapi val um viðbrögð og aðgerðir, það er mikilvægt að muna þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.

Atburðir síðustu þrjú ár á Reykjanesskaga hafa minnt okkur á að Ísland er land elds og ísa, við þekkjum það sem hér búa. Náttúran ríkir og okkar er að læra að lifa við hana, njóta og nýta. Stórir viðburðir eins og snjóflóð, skriðuföll og eldgos eru tíðir og bjóða upp á allskonar áskoranir. Þeir atburðir sem hófust í nóvember hafa valdið því að heilt samfélag þurftu að flýja heimili sín og hefur enn ekki getað snúið aftur. Framhaldið er í óvissu náttúrunnar, þar sem ekki er ljóst hvort eða hvernig framhald verður á hreyfingu landsins. Stjórnvöld vinna nú að ýmsum mótvægisaðgerðum, finna leiðir til aðstoða íbúa og fyrirtæki á svæðinu, vegna tekjuskerðingar, húsnæðis, skóla og ýmiskonar þjónustu en einnig aðstoðar við það fólk til að takast á við óvissuna og áföllin. Það er erfitt að setja sig í þau spor sem íbúar Grindavíkur eru í núna en mikilsvert að hafa hugfast að áfram er óvissa, það snertir okkur öll. Það er gott að finna þann samhug sem ríkir í samfélaginu, þegar kemur að slíkum náttúruhamförum stöndum við saman.

Eitt stórt heimili

Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili, allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og þar á eftir eru sveitarfélög, launakostnaður eru einn stærsti útgjaldaliður í þeim rekstri. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningum með hógværum hækkunum, Sveitarfélögin verða því að vera með hófstilltar hækkanir á gjaldsskrám hagsmunir allra er að ná niður vaxtastiginu því þar liggur ávinningurinn. Sveitarfélögin hafa lengi barist fyrir því að varanleg lausn verði fundinn á halla sveitarfélaga á málaflokki fatlaðs fólks. Því ber að fagna að með 5. ma kr. framlagi á þessu ári og 6. ma. framlagi á næsta ári með lækkun tekjuskatts á móti hækkun á útsvari. Áfram er mikilvægt að horfa til breytilegra þarfa, halda áfram að efla uppbyggingu þjónustunnar í samtalið allar aðila er málin varða.

Treystum íslenska matvælaframleiðslu

Hér á Íslandi búum við enn þá við þá sérstöðu að matvælaframleiðsla í hefðbundnum búgreinum er rekin sem fjölskyldubú og því mikið undir. Nýliðar hafa staðið í miklum fjárfestingum í greininni síðustu ár til að bregðast við hagræðingu og nýjum reglugerðum. Við í Framsókn viljum ekki segja staðar numið við þessa aðgerð, heldur er mikilvægt að tryggja rekstrargrunn landbúnaðarins svo það sé raunverulegur kostur fyrir ungt fólk að koma inn í greinina og tryggja neytendum hér á landi heilnæma vöru.

Það er afar ánægjulegt að í fjáraukalögum fyrir árið 2023 var samþykkt að 2,1 ma. króna framlag til þeirra sem starfa við landbúnað, að tillögu starfshóps sem skipaður var til að bregðast við erfiðri stöðu bænda. Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að mæti breyttu rekstrarumhverfi í landbúnaði og því ánægjulegt að sjá að hér er verið að bregðast við þessari brýnu þörf. Þá er vert að nefna hversu mikilvert það er að finna vitundarvakningu í samfélaginu um að við þurfum að byggja undir íslenska matvælaframleiðslu. Vandi landbúnaðar varðar okkur öll og því þurfa stjórnvöld áfram að byggja undir greinina og hjálpa þannig til við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 18. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Mál­stefna fyrir ís­lenskt tákn­mál

Deila grein

11/12/2023

Mál­stefna fyrir ís­lenskt tákn­mál

Í vikunni mælti menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrir þingsályktunartillögu um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun. Þar er gengið út frá að íslenskt táknmál sé hefðbundið minnihlutamál og fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Stjórnvöld stuðli að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðji að öðru leyti við menningu og menntun táknmálsfólks og táknmálsbarna eins og segir í tillögunni.

Með málstefnu íslensks táknmáls er gert ráð fyrir að hún taki til fimm meginstoða, þ.e. máltöku táknmálsbarna, jákvæðs viðhorfs, fjölgunar umdæma íslensks táknmáls, lagaumhverfis og máltækni. Tillögu um málstefnu fylgir aðgerðaáætlun til þriggja ára. Að þeim árum liðnum verða bæði málstefnan og aðgerðaráætlun endurskoðuð.

Táknmál er ekki einkamál

Táknmál er ekki einkamál heyrnalausra, heldur er það tungumál stórs hóps og opinbert mál hér á landi og því tímabært að táknmáli sé gert hærra undir höfði. Þrátt fyrir að táknmál sé opinbert mál hér á landi er lítil sem engin fræðsla eða kennsla í skólum landsins. Lítið sem ekkert er gert til að kynna og kenna íslenskt táknmál sem og menningu og sögu heyrnarlausra fyrir nemendum, en það er með þetta eins og svo margt annað, því með því að auka fræðslu í samfélaginu myndu fordómar minnka og aukinn skilningur yrði á þörfum náungans.

Táknmál er minnihlutamál og því vegur viðhorf til tungumálsins meira heldur en til meirihlutamáls. Táknmál er ekki einka-mál þeirra sem ekki heyra. Það er heyrnarlausum gagnlaust ef hann getur ekki haft samskipti við aðra á sínu tungumáli. Táknmálið er því mikilvægt inni á heimilum, skóla, vinnustað og í samfélaginu öllu.

Á Íslandi eru tvö opinber tungumál, íslenska og íslenskt táknmál. Það er samt staðreynd að þeir sem tala táknmáli hafa ekki sama aðgengi að þjóðfélaginu og aðrir. Viðhorf til tungumálsins hefur áhrif á stöðu einstaklings í þjóðfélaginu og til að breyta því þarf að breyta viðhorfi þjóðfélagsins til táknmálsins. Jákvæð áhrif stjórnvalda hafa líka áhrif og áðurnefnd þingsályktunartillaga er til þess fallin að bæta viðhorf og gera íslenska táknmálinu hærra undir höfði. Eins og segir í greinagerð með þingsályktunartillögunni, þá er jákvætt viðhorf til íslensks táknmáls grundvöllur þess að táknmálstalandi fólk hafi tækifæri á við aðra og skiptir sköpum fyrir aðgengi aðstandenda og fagfólks að upplýsingum um tungumálið

Talaðu við mig

Þegar barn fæðist heyrnalaust eða einstaklingur missir heyrn er mikilvægt að bæði barnið/einstaklingurinn fái stuðning og ekki bara hann því fjölskyldan og nánasta umhverfi hennar þarfnast líka stuðnings. Í aðgerðaráætlun er talað um að ef barn reynist vera með skerta heyrn verði snemmtækri íhlutun beitt til að tryggja viðkomandi barni og fjölskyldu þess öll úrræði sem koma barninu að gagni. Sé ástæða til, verði foreldrum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna bent á þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þetta er atriði sem getur skipt sköpum fyrir framtíð barns sem fæðist heyrnarlaust. Þá er mikilvægt að þessi úrræði grípi fjölskyldur um allt land. Samskiptamiðstöð hefur verið með slík verkefni á sinni könnu og gefist vel. Bæði við að styðja fjölskyldur og skóla sem viðkomandi þarf að sækja.

Það er ósk mín að þessi málstefna íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun verði virkjuð sem fyrst okkur öllum til bóta.

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2023.