Categories
Greinar

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Deila grein

21/06/2022

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Hlutverk stjórnvalda er að finna leiðir til að byggja traustan grunn fyrir nýsköpun hér á landi. Stuðningur við nýsköpun hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú og ljóst er að hugvit og nýsköpun eru að verða að styrkri stoð í hagkerfi Íslands. Í dag starfa um 12.000 manns í þessum iðnaði eða um 6% vinnandi fólks í landinu. Hugverka- og nýsköpunariðnaðurinn er vaxandi útflutningsstoð sem treystir á fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Treystir á traust og fyrirsjáanlegt umhverfi. Þetta vita stjórnvöld á Íslandi sem hafa sett sér metnaðarfull markmið sem endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að fjölga störfum og gera hugviti hærra undir höfði innan íslensks efnahagslífs.

Framlenging bráðabirgðaákvæða

Þær ívilnanir sem settar voru með bráðabirgðaákvæðum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldur kórónuveru hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi. Ívilnanirnar hafa stuðlað að frekari uppbyggingu öflugrar nýsköpunar í atvinnu og efnahagslífi þjóðarinnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til, í samræmi við tillögur umsagnaraðila, breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir að frádráttarhlutfall myndi haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem hefur verið í gildi en að hámarkskostnaður verði sá sami og lagður var til í frumvarpinu, eða 1.000 milljónir króna í stað 1.100 milljónir króna. Frádráttarhlutfall nýsköpunarfyrirtækja verður því áfram 35 hundraðshlutar frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum. Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðum laganna hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Breytingarnar eru því til þess fallnar að koma til móts við:

a) annars vegar við þau sjónarmið sem höfð voru uppi fyrir nefndinni í umræðum um frumvarpið.

b) hins vegar við þá auknu kröfu um ábyrga stjórn ríkisfjármála í ljósi óvissu um efnahagsþætti, svo sem verðbólgu og vaxtahækkanir.

Fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur

Meiri hlutinn telur mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja sé áfram tryggð eftir því sem dregur úr efnahagslegum áhrifum faraldursins hér á landi og á heimsvísu, en jafnframt að samhliða þessum ívilnunum sé mikilvægt að það fari fram heildarúttekt á árangri þessa verkefnis. Aðeins þannig er hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar þannig hægt sé að stýra enn frekar með hvaða hætti fjármunir ríkisins nýtist til þess að efla þróun og rannsóknir á Íslandi. Fyrirsjáanleiki skipti miklu máli þegar komi að fjárfestingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að breytingar á hlutfalli styrkja, þó ekki séu nema að litlu leyti, geti skipt sköpum þegar kemur að því að laða erlenda sem innlenda aðila að fjárfestingu í íslensku hugviti. OECD vinnur nú að greiningu á stöðu nýsköpunariðnaðarins hér á landi og í framhaldi hennar er nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu um greinina og starfsumhverfi hennar til framtíðar. Við fögnum þessum áfanga og áframhaldandi stuðningi við nýsköpun á Íslandi. Grundvöllur efnahagslegrar velgengni ásamt lausnum við áskorunum framtíðarinnar má finna í nýsköpun, rannsóknum og þróun.

Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. júní 2022.

Categories
Uncategorized

Geðheilbrigði er lýðheilsumál

Deila grein

20/06/2022

Geðheilbrigði er lýðheilsumál

Á lokadögum þingsins var stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 samþykkt. Stefnan ber með sér að rík áhersla er lögð á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðning í heilsueflingu á öllum æviskeiðum.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að auka skuli áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Ýmsu hefur verið áorkað undanfarin ár en ljóst er að enn skortir heildstæða og samhæfða nálgun í geðheilbrigðismálum. Það á við allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfi.

Stefnan tekur mið af framangreindu og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum, sem munu endurspeglast í þeim aðgerðum sem heilbrigðisráðuneytið mun móta.

Það skiptir miklu máli að við leggjum áherslu á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og tryggjum að úrræði verði til staðar sem veitir viðeigandi þjónustu til þeirra barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Aukin þekking og reynsla hefur leitt af sér aukinn skilning á mikilvægi þessa tímabils í lífi einstaklinga.

Gagnreyndar og fyrirbyggjandi aðgerðir

Hvaða varðar geðheilsu og vellíðan er mikilvægt að litið verði til fyrstu 1000 daga barnsins, sbr. skýrslu landlæknis um framtíðarsýn og tillögur að aðgerðum frá því í júní árið 2021.Í henni eru lagðar fram aðgerðir sem brýnt er að ráðast í á næstu árum. Þá er einnig mikilvægt að skoða sóknarfæri til að efla geðheilsu í æsku og líta þar til verndandi þátta sem vega hvað þyngst hvað hana varðar er tengjast æskuárunum.

Varðandi gagnreyndar og fjölbreyttar aðferðir við meðferð geðraskana er mikilvægt að nýta í ljósi bestu þekkingar sem fyrir hendi er hverju sinni. Auk þess ber að leggja áherslu á þverfaglega mönnun og fjölgun fagstétta. Heildræn geðheilbrigðisþjónusta á að vera samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu.

Notendasamráð og mælaborð geðheilsu

Stefnan gerir ráð fyrir stofnun Geðráðs þar sem allir helstu hagsmunaaðilar, stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur koma saman og fjalla um málaflokkinn. Lagt er áherslu á að samhliða stofnun þess taki upp svokallað mælaborð geðheilsu. Slíkur gagnagrunnur væri til þess fallinn að auðvelda vinnslu og aðgengi að upplýsingum um geðheilbrigðismál og átta sig betur á stöðunni hverju sinni.

Með framtíðarsýn að leiðarljósi

Hér er um mikilvægt framfararskref að ræða og með samþykkt þessarar stefnu í geðheilbrigðismálum erum við að senda skýr skilaboð.

Skilaboð um að við ætlum að fjárfesta í geðheilsu fólks. Fjárfesta í fólki. Það skiptir máli að við tökum utan um þennan málaflokk af festu með framtíðarsýn að leiðarljósi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. júní 2022.

Categories
Greinar

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Deila grein

08/06/2022

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Sú staða sem uppi er í heiminum í dag minnir okkur rækilega á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurnin krefst. Þó er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins.

Íslenskir matvælaframleiðendur í ólgusjó

Staða íslenskra bænda er grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Sauðfjár- og nautgripabændur standa mjög illa og ef ekkert verður að gert þá horfir við algjört hrun í greininni og það mjög hratt. Verð til bænda hefur þróast nær öfugt við vísitölu neysluverðs. Matvælaverð til neytenda hefur hækkað og kemur til með að hækka enn frekar ef ekki verður brugðist rétt við. Verð til kjötframleiðenda hefur lækkað á sama tíma og öll aðföng hafa hækkað verulega. Það er útséð að bændur þurfa að fá afurðaverð hækkað verulega svo hægt sé að halda framleiðslu í jafnvægi, og að óbreyttu kemur það niður á neytendum.

Íslensk matvælaframleiðsla er mikilvæg

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, þörfina og mikilvægi þess að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytt atvinnulíf. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu

Undirrituð vilja minna á tillögu okkar í Framsókn að horft verði til þess að heimila afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþága frá samkeppnisreglum, þ.e. heimild til samvinnu og samstarfs, sambærilegum og hafa verið í mjólkuriðnaði síðustu 17 ár. Leið að lausn snýr að afurðastöðvakerfinu og hagræðingu þess. Þá kalla ófyrirséðar breytingar í heiminum á tafarlausar aðgerðir. Það liggur fyrir að sauðfjárbændur þurfa um 40% hækkun á sínu innleggi í haust, aðeins þá til að standa á sléttu. Sama á við um greinarnar, nautakjöt og svínakjöt. Þessum hækkunum er ekki hægt að hrinda út á markaðinn í því efnahagsástandi sem er í dag. Við þurfum að horfa til þess að stjórnvöld komi að málum.

Tökum sprettinn, fellum niður virðisaukaskattinn tímabundið

Þórarinn Ingi lagði inn hugmynd hjá matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda. Matvælaráðherra hefur tekið undir að hugmyndin sé vel skoðunarverð og ætlar að koma henni á framfæri við spretthópinn sem hluti af tímabundinni lausn.

Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll.

Með því að gera innlendar afurðastöðvar öflugri þannig að þær geti hagrætt í rekstri og hækkað verð til frumframleiðenda ásamt því að koma á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti verða íslenskir kjötframleiðendur styrktir án þess að velta hækkunum inn í verð til neytenda. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu kallar á breyttar áherslur og hvetur okkur til að huga enn frekar að innlendri matvælaframleiðslu. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt, nú sem aldrei fyrr.

Hugum að hagsmunum heildarinnar

Framsókn hefur löngum bent á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman og nú sem aldrei fyrr verðum við að brýna samvinnu og þrótt. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar. Stjórnvöld geta lagt lið með öflugum aðgerðum.

Aukin samvinna í afurðavinnslu myndi styðja við verðhækkanir á afurðum til bænda. Það er það sem þarf til að efla framleiðsluvilja og getu kjötframleiðenda á Íslandi. Þessar tillögur leiða ekki til hærra matvælaverðs til neytenda og halda því einnig við verðbólguna. Þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda og íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson

þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2022

Categories
Greinar

Verðum að gera betur!

Deila grein

01/06/2022

Verðum að gera betur!

Á síðustu árum höfum við fylgst með baráttu foreldra og annarra aðstandenda einstaklinga sem látið hafa lífið þar sem lögregla taldi tilefni til að hefja lögreglurannsókn á orsökum andlátsins. Dæmi eru um að lögregla hafi ekki haft heimild til að upplýsa aðstandendur um framvindu rannsóknar máls vegna þess að t.d. foreldri er ekki sjálft aðili að málinu. En núgildandi ákvæði sakamálalaga gera ekki ráð fyrir því að aðstandendur hafi formlega stöðu á neinn hátt gagnvart lögreglu/ákæruvaldi og þar af leiðandi þröngur stakkur sniðinn við að komast til botns í því hvað varð þess valdandi að viðkomandi lést. Við höfum heyrt af því að foreldrar barna sem eru nýorðnir lögráða hafi verið haldið utan við rannsókn mála, fengið litlar sem engar upplýsingar þar sem réttarstaða þeirra sem aðstandandendur hins látna er ekki tryggð að þessu leiti í ákvæðum sakamálalaga eins og staðan er í dag. Í núgildandi lögum öðlast aðstandendur ekki formlega stöðu á neinn hátt gagnvart lögreglu og hafa þar af leiðandi ekki mörg úrræði til að fylgjast með framgangi rannsóknar hjá lögreglu. Úrbóta er verulega þörf því hagsmunirnir eru veigamiklir fyrir eftirlifandi aðstandendur og með réttu ættu að fá að geta farið þess á leit við lögreglu að fá upplýsingar um rannsókn á andláti og framvindu hennar.

Breytingin sem beðið er eftir

Til umræðu á Alþingi hefur verið frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála og fullnustu refsinga. Það frumvarp felur í sér tímamótabreytingar í þágu réttarstöðu brotaþola en ekki síður gefur lögreglu betri verkfæri í hendurnar til að vinna með. Þá á einnig sjá þá réttarbót sem kallað hefur verið eftir og þar eru að finna ákvæði sem bætir réttarstöðu aðstandenda í þeim tilvikum þar sem rannsókn lögreglu beinist að orsök andláts einstaklings.

Umrædd breyting felur í sér að aðstandanda er heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og í ákveðnum tilvikum unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann. Þessar breytingar varða t.d. aukna upplýsingaskyldu lögreglu til fyrirsvarsmanns og gefur lögreglu heimild til að veita réttargæslumanni aðgangi að gögnum.

Það er afar mikilvægt að þessi breyting verði á löggjöfinni og við gefum aðstandendum þá hugarró við erfiðar aðstæður og mikla sorg að geta verið upplýst um hvernig framvindur með rannsókn á andláti sinna nánustu. Nú þegar höfum við séð hávært ákall um að þessi breyting verði á okkar réttarkerfi til og það er mín einlæga von að við getum komið skikki á þau atriði sem að þessum málum snúa og lögregla geti betur starfað í þeim lagaramma sem gildir um þeirra störf. Ljóst er að núverandi löggjöf gerir lögreglu það afar torvelt að upplýsa aðstandendur um framvindu rannsóknar vegna andláts og því getur, eins og gefur að skilja, mjög erfið staða komið upp beggja vegna borðsins.

Við fengum ákall um breytingar, fylgjum ákallinu eftir og það er mín einlæga von að við sjáum þessa breytingu á löggjöfinni verða að veruleika án tafar! Við eigum að gera betur og átta okkur á mikilvægi þess að við uppfærum löggjöfina í takt við þróun samfélagsins. Við þurfum að læra að horfa og hlusta. Við þurfum að breytast!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, er þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júní 2022

Categories
Greinar

Þessi 35% skipta máli fyrir kvikmyndaframleiðslu á Íslandi

Deila grein

24/05/2022

Þessi 35% skipta máli fyrir kvikmyndaframleiðslu á Íslandi

Á Alþingi í dag mælti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Breytingin felur í sér að stærri verkefni, sem uppfylla ákveðin skilyrði sem fram koma í lögunum, geti sótt allt að 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Þau skilyrði eru þrenn en það er að framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefni hér á landi séu að lágmarki 200 milljónir króna. Að um sé að ræða framleiðslu þar sem tökudagar hér á landi séu að lágmarki 30 talsins og heimilt er að telja eftirvinnslutímabil verkefnis hér á landi með í þeirri tölu. Þá að fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu séu að lágmarki 50. Fyrir önnur verkefni sem ekki uppfylla framangreind skilyrði er hlutfallið óbreytt eða 25%.

Þessar tillögur eru í samræmi við þær áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis og málefnaáherslur Framsóknar í aðdraganda kosninga. Aukin heldur er þetta í takt við kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem gefin var út í október 2020.

Endurgreiðslur standa bæði innlendum og erlendum aðilum til boða. Það eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla en þau eru m.a. að viðkomandi kvikmyndaframleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru og/eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.

Sífellt algengara er að þjóðir bjóði upp á sérstakar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og á undanförnum árum hefur hlutfall endurgreiðslu farið hækkandi þar sem samkeppni Íslands er hvað mest á sviði kvikmyndaframleiðslu. Meðal annars er hlutfallið komið upp í 35% á Írlandi og Möltu og er það því mikið hagsmunamál fyrir okkur sem þjóð og okkar samkeppnisstöðu á þessum markaði að lögin séu endurskoðuð í því skyni að sækja fram á þessu sviði. Ógrynni tækifæra felast í því að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi en þessi breyting mun gera íslenskan kvikmyndaiðnað samkeppnishæfan og mun hafa mikla þýðingu fyrir alla hagaðila sem að borðinu koma. Verkefni af þessum toga eru atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðari ímynd og auknum gjaldeyristekjum vegna komu ferðamanna hingað til lands.

Við erum í kjörstöðu til að gera breytingar sem hafa í för með sér fjölmörg ný og spennandi störf og um leið aukum við til muna útflutningsverðmæti þjóðarbúsins og er það mikilvægt og jafnframt gleðilegt. Það á að skipta okkur öllu máli og er okkur mikið hagsmunamál að við beitum okkur fyrir því að fá til okkar stærri og umfangsmeiri kvikmyndaverkefni til vinnslu á Íslandi. Auðséð er að hvatar til kvikmyndagerðar, líkt og hærra endurgreiðsluhlutfall af framleiðslukostnaði, gegna lykilhlutverki í ákvörðunartöku kvikmyndaframleiðenda um staðsetningu verkefnis. Því ætlum við að skapa okkur sess og vera fremst meðal jafningja í kvikmyndaframleiðslu og vera eftirsóknarverður kostur fyrir framleiðendur.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. maí 2022.

Categories
Greinar

Niður­staða í máli Garð­yrkju­skólans á Reykjum

Deila grein

30/04/2022

Niður­staða í máli Garð­yrkju­skólans á Reykjum

Málefni Garðyrkjuskólans á Reykjum hafa heldur betur verið milli tannanna á fólki síðastliðnar vikur og mánuði. Ýmsir aðilar kepptust um að fullyrða um að ekkert væri viðhafst innan ríkisstjórnarinnar og spjótum beint að Framsókn. Auðvitað var það svo ráðherra Framsóknar, Ásmundur Einar Daðason, sem greip boltann og leiddi málið til lykta með árangursríkum hætti sem er garðyrkjunámi á Íslandi til hagsbóta. Verkin tala sínu máli og munu gera það áfram.

Framsókn klárar málið

Á föstudaginn síðastliðinn kynnti mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar, samkomulag um að rekstur starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum yrði tryggður. Fjölbrautaskóli Suðurlands mun taka við umsjón verkefnisins og bjóða öllu starfsfólki Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur sinnt kennslu og tengdum störfum á Reykjum ráðningu frá 1. ágúst 2022.

Þetta er vissulega fagnaðarefni. Samkomulagið mun tryggja áframhaldandi garðyrkjunám á Reykjum og fyrirkomulagið mun efla það enn frekar. Starfsmenn halda sinni vinnu og nemar þurfa ekki að hafa áhyggjur.

Eflt nám og uppbygging

Einnig var ákveðið að umsýsla Reykjatorfunnar og mannvirkja fyrrum Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi flytjist frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna við upphaf haustannar 2022. Það er forsenda þess að hægt sé að nýta svæðið á nýjum vettvangi undir námið. Með því verða húsakostum viðhaldið á réttan máta ásamt því að frekari uppbyggingu má vænta. Næsta ár verða heldur betur spennandi í íslensku garðyrkjunámi.

Einnig verður skipaður starfshópur undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytisins um framtíðarfyrirkomulag og nýtingu á Reykjum og eflingu starfsnáms, rannsókna og nýsköpunarstarfs. Starfshópurinn mun skoða tengingu námsins við atvinnulífið og ákveðið sjálfstæði þess gagnvart FSU. Að loknum störfum skal starfshópurinn skila inn tillögum að úrbótum á starfsemi og frekari eflingu hennar, þá varðandi bæði uppbyggingu á svæðinu, bætta kennslu og bættrar námsaðstöðu (aðstaða, tækjakostur, námsefni o.fl. sem þar á við). Mennta- og barnamálaráðherra getur þá í samvinnu við FSU unnið í átt að gera námið enn öflugra, sem vissulega er starfsmönnum, nemum og garðyrkjunáminu öllu til hagsbóta. Gert er ráð fyrir að tillögur starfshópsins liggi fyrir í desember 2022.

Mikil gróska á náminu

Nú þegar hafa 108 manns innritað sig í starfsnám í garðyrkju og skyldum greinum. Það er greinilegt að áhuginn er til staðar og því er mikilvægt að þessi stóru skref voru stigin í átt að frekari eflingu námsins. Garðyrkjunám þjónar stóru hlutverki í framtíð Íslands, þá bæði varðandi fæðuöryggi og baráttunni við loftlagsbreytingar. Með aðgerðum Framsóknar er verið að stuðla að sjálfbærri framleiðslu íslenskra matvæla og auka tæknivæðingu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. apríl 2022.

Categories
Greinar

Mikilvægi samstöðu

Deila grein

07/03/2022

Mikilvægi samstöðu

Að morgni 24. fe­brú­ar síðastliðins vaknaði heims­byggðin upp við frétt­ir sem settu hug­mynd­ir okk­ar um ör­uggt líf í Evr­ópu til hliðar. Hug­mynd­ir og von­ir um að mann­rétt­indi og lýðræði séu virt í milli­ríkja­sam­skipt­um. Við urðum vör við það að ein­ræðis­herra sem dul­býr sig sem lýðræðis­leg­an leiðtoga stærstu þjóðar Evr­ópu virðist vera al­veg sama um rétt­indi og sjálf­stæði ríkja og hvað þá grund­vall­ar­mann­rétt­indi fólks, hvort sem það séu hans eig­in þegna eða annarra ríkja.

Sátt­máli hinna Sam­einuðu þjóða

Þann 26. júní árið 1945, í kjöl­far seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar var stofn­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna und­ir­ritaður.

Þar seg­ir: „Vér, hinar sam­einuðu þjóðir, staðráðnar í að bjarga kom­andi kyn­slóðum und­an hörm­ung­um ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hef­ur leitt ósegj­an­leg­ar þján­ing­ar yfir mann­kynið, að staðfesta að nýju trú á grund­vall­ar­rétt­indi manna, virðingu þeirra og gildi, jafn­rétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stór­ar eru eða smá­ar, að skapa skil­yrði fyr­ir því, að hægt sé að halda uppi rétt­læti og virðingu fyr­ir skyld­um þeim, er af samn­ingn­um leiðir og öðrum heim­ild­um þjóðarrétt­ar, að stuðla að fé­lags­leg­um fram­förum og bætt­um lífs­kjör­um án frels­is­skerðing­ar og ætl­um í þessu skyni að sýna umb­urðarlyndi og lifa sam­an í friði, svo sem góðum ná­grönn­um sæm­ir, að sam­eina mátt vorn til að varðveita heims­frið og ör­yggi.“

Nóg komið!

Yf­ir­stand­andi hernaðaraðgerðir rúss­nesku rík­is­stjórn­ar­inn­ar gagn­vart úkraínsku þjóðinni stríðir gegn öllu því sem Sam­einuðu þjóðirn­ar standa fyr­ir og stofn­sátt­mál­ans. Of­beldið verður að stöðva og mann­rétt­inda­lög­gjöf og alþjóðleg mann­rétt­indi verða að vera virt, lýðræði og sam­tal sé í for­grunni. António Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, seg­ir að rúss­nesk yf­ir­völd verði að draga herlið sitt út úr Úkraínu án taf­ar og leiðtog­ar þjóðanna beiti sér fyr­ir því að friður verði í Evr­ópu á ný. Það er ekki í boði að gera ekk­ert og með því mynd­um við grafa und­an því sem Sam­einuðu þjóðirn­ar voru stofnaðar utan um í upp­hafi.

Mik­il­vægi sam­stöðunn­ar

Samstaða vest­rænna þjóða á fyrstu dög­um þess­ara átaka og af­drátt­ar­laus stuðning­ur við úkraínsku þjóðina. Íslensk stjórn­völd hafa sýnt það af­drátt­ar­laust vilja sinn til að aðstoða úkraínsku þjóðina og hafa gripið til aðgerða með skýr­um hætti. Það skipt­ir máli í sam­fé­lagi þjóða að við stönd­um sam­an gegn hvers kon­ar ógn gagn­vart ein­staka þjóðum og að við leggj­um okk­ur fram við það að tryggja ör­yggi og frið í alþjóðasam­fé­lag­inu.

Fé­lag Sam­einuðu þjóðanna á Íslandi stend­ur með úkraínsku þjóðinni og for­dæm­ir harðlega árás rúss­neskra yf­ir­valda. Við eig­um öll þann skil­yrðis­lausa grund­vall­ar­rétt að lifa ör­uggu lífi, án áreit­is og að mann­rétt­indi okk­ar séu virt til hlít­ar!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar og formaður Félags UN á Íslandi.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. mars 2022.

Categories
Greinar

Sunnudagarnir þurfa ekki að vera santé

Deila grein

06/03/2022

Sunnudagarnir þurfa ekki að vera santé

Þann 1. mars sl. á 33 ára afmæli bjórsins á Íslandi skrifaði Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður áhugaverða grein á svæði Innherja á Vísi.is þar sem hann hefur tekið að sér hlutverk sagnfræðings og rekur sögu verslunar á Íslandi. Söguskýringar sagnfræðingsins eru býsna einhliða, en það er svo sem ekki nýtt af nálinni að sá ágæti maður feti veg hinnar fullkomnu frjálshyggju. Í grein þessari gerir hann frumvarp mitt um breyttan opnunartíma Vínbúðarinnar að umtalsefni. Það ber að þakka, enda er frumvarpið til bóta og til þess fallið að auka þjónustu við neytendur, sem reynist eitt af helstu hugarefnum hans. Það sem hann skautar hins vegar fimlega fram hjá er akkúrat sú staðreynd að markmið frumvarpsins er að auka þjónustu í fyrirkomulagi þar sem eftirlit með aldri er viðhaft og lýðheilsusjónarmið ráða för. Vínbúðin sýnir þá samfélagslegu ábyrgð sem henni ber og tekur þátt í mikilvægu forvarnarstarfi. Það er vel hægt að auka þjónustu til neytenda til að mynda með því að opna Vínbúðina á sunnudögum án þess að gefa áfengisverslun frjálsa.

Stýrt aðgengi

Á Íslandi höfum við rekið ríkissútsölu á áfengi líkt og í Svíþjóð, Finnlandi og fleiri löndum meðan frjálsara er um söluna í Danmörku. Það er ekki af ástæðulausu sem við viljum halda sölunni í stýrðu umhverfi, sérstaklega þegar við horfum til lýðheilsusjónarmiða. Reynslan hefur sýnt okkur að það reynist vel, ekki eingöngu hér á landi heldur einnig í Svíþjóð en árið 2018 var fýsileiki þess að gera áfengissölu frjálsa skoðaður og niðurstaðan reyndist sú að gallarnir voru fleiri en kostirnir. Það er það sem við viljum – hafa aðgengi og geta verslað áfengi í öruggu umhverfi sem núverandi fyrirkomulagi hefur upp á að bjóða. Með því að rýmka opnunartíma erum við að auka þjónustu verslana Vínbúðarinnar og aðlögum okkur að breyttum tíðaranda og verslunarhegðun en á sama erum við að koma til móts við frjálslyndari sjónarmið án þess að galopna allt upp á gátt og gefa sölu áfengis frjálsa með ófyrirséðum afleiðingum. Fyrrum dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp haustið 2020 sem m.a. kvað á um undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi í smásölu til neytenda og heimilaði netverslun á áfengi í smásölu. Það frumvarp var ekki samþykkt af ríkisstjórn og var því lagt fram að nýju að framangreindu ákvæði frátöldu. Augljóst er að ekki er pólitískur vilji til að stíga það skref til fulls og því er hér komin málamiðlun sem flestir ættu að geta fellt sig við.

Slá hugmyndir um vín í matvöruverslanir út af borðinu

Það virðist gæta einhvers misskilnings hjá fólki hvert markmiðið er með frumvarpi mínu. Það er lagt fram sem tilraun til sáttar milli öfgapóla svo við þurfum ekki ítrekað að takast á um sömu sjónarmiðin, en hér er komið fram nýtt sjónarmið sem flestir ættu að geta fellt sig við. Verði frumvarpið að lögum þurfum við ekki að fylgjast með boðberum hinnar fullkomnu frjálshyggju brotlenda enn og aftur með áform sín um vín í matvöruverslanir því enn er ljóst að ekki er sátt um þá nálgun. Þá verður að huga að lýðheilsusjónarmiðum þegar við tökum þessa umræðu og aukið aðgengi og minna eftirlit er líklegra til að auka neyslu áfengis. Það má einnig færa sterk rök fyrir því að betri bragur er á að hafa þetta í sérverslun þar sem fólk þarf að gera sér ferð í búð til að versla sér áfengi þó það væri ekki nema bara til að nefna af tillitssemi við fólk sem á við áfengisvanda að stríða og er í baráttu við þann sjúkdóm og freistingar í matvöruverslun algjörlega óþarfi. Á Norðurlöndunum er álitið að hömlur á sölu áfengra drykkja séu áhrifarík aðferð til að draga úr þeim skaða sem hlýst af áfengisneyslu og áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Slíkt gerum við með ábyrgum hætti í gegnum núverandi fyrirkomulag og mikilvægt að við séum með öflugar forvarnir og lýðheilsufræðslu.

Þar að auki höldum við uppi heilbrigðri endurnýjun og styðjum við lítil brugghús hér á landi með því að hafa þetta í höndum ríkisins, sem ber að tryggja heilbrigða samkeppni allra sem kjósa að koma vörum sínum á markað hér á landi. Þannig tryggjum við íslenska framleiðslu og okkur í Framsókn leiðist það ekki. Vöðum ekki í villu og svima hinnar „fullkomnu frjálshyggju“. Aukum þjónustu undir tryggu eftirliti, sameinumst um þessa raunhæfu og skynsömu lausn sem mætir ólíkum hagsmunum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. mars 2022.

Categories
Greinar

 Vín­búðir opnar á sunnu­dögum?

Deila grein

22/02/2022

 Vín­búðir opnar á sunnu­dögum?

Um áralangt skeið hafa frjálshyggjan og íhaldssemin tekist á um aðgengi neytenda að áfengi. Málefni sem við fyrstu sýn er ekki það stórt, en hefur orðið einn holdgervinga reipitogsins milli tveggja póla. Því miður hefur lítið breyting orðið í þessum málum þrátt fyrir breyttan tíðaranda. Það má líklega rekja til þess að fólk tekst á um málið með öfgahugmyndum bæði til hægri og vinstri. Eins og oft áður, þá er það skynsemin sem ætti að ráða för. Samvinna allra aðila við leit að lausn sem mætir sjónarmiðum heildarinnar.

Matvöruverslanir eða pöntunarfélög

Frjálshyggjan hefur lengi viljað koma víni í matvöruverslanir og á frjálsan markað. Sem betur fer hefur það ekki gengið eftir. Á sama tíma hafa íhaldsamari öfl viljað óbreytt fyrirkomulag eða jafnvel leita aftur til tíma frekari takmarkana á útsölustöðum og opnunartíma. Eiga þessi sjónarmið bæði rétt á sér en hvorugt kannski í takt við nútímann og skynsemi. Aukið frelsi til verslunar á hverskyns varningi er sú þróun sem við höfum séð á undanförnum áratugum í verslun hér á landi. Á það líka við um verslun með vín sem og annan munað. Pöntunarfélögin heyra sem betur fer sögunni til. Breyttur tíðarandi kallar hins vegar á nýjar nálganir. Breytt neyslumynstur og aukið frelsi í verslun kallar á breytingar. En breytingarnar þurfa ekki endilega að felast í 100% frelsi.

Er til önnur lausn?

Hins vegar spyr maður sig hvort rétt lausn sé að leysa upp ÁTVR og heimila sölu áfengis í næstu búð, næstu bensínstöð eða nánast hvaða verslun sem er? Það er vitað að tækninýjungar hafa leitt til þess að starfsfólki, sem gæti fylgst með hvort einstaklingar séu með aldur til þess að kaupa vín, fækkar í almennum verslunum. Þeir sem eftir eru hafa ekki allir náð 20 ára aldri, en samkvæmt lögum má enginn yngri en 20 ára afgreiða áfengi.

Á meðan er strangt eftirlit til staðar hjá Vínbúðinni þar sem starfsmenn eru bæði með aldur og þekkingu á þeim reglum sem ber að fylgja. Þá fyrst og fremst reglum um aldur. Við viljum ekki auka aðgengi barna að áfengi þó svo að við viljum gera markaðinn þægilegri fyrir neytendur.

Eitt stærsta sjónarmiðið fyrir „vín í búðir“ er það að opnunartími Vínbúðarinnar henti neytendum ekki sérlega vel. Verslunin er ávallt lokuð á sunnudögum og öðrum helgidögum Þjóðkirkjunnar. Þennan hnút getum við auðveldlega leyst.

Já hún er til!

Ég hef lagt fram frumvarp til Alþingis þess efnis að afnema bann á því að áfengisútsölustaðir hafi sínar hurðir opnar á helgidögum. Það eru m.a. allir sunnudagar. Með þessu aukum við þjónustu Vínbúðarinnar enn meir og getum lagt hugmyndina um vín í búðir til hliðar, sú hugmynd um hið fullkomna frelsi er þreytt og skortir ábyrgð. Þarna er komið til móts við frjálslyndari sjónarmið en einnig hugsað til forvarna og eftirlits með áfengissölu. Það er brýnt að við stígum ekki skref aftur á bak í þessum málaflokki. Gerum frjálslyndar breytingar á skynsaman hátt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Stöðvum of­beldi

Deila grein

21/01/2022

Stöðvum of­beldi

Í dag mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Um er að ræða endurflutning en Silja Dögg Gunnarsdóttir fyrrverandi þingmaður Framsóknar hefur lagt málið tvisvar áður fram. Hér er um að ræða samfélagslega mikilvægt mál sem mér finnst brýnt að komist í gegnum þingið. Hver einstaklingur á að geta lifað frjáls og notið lífsins. Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi en engu að síður eru fjölmargir einstaklingar sem búa við daglegt ofbeldi á heimilum sínu. Heimilum sem ættu öllu jafna að vera griðastaður hvers einstaklings.

Heimilisofbeldi í vexti

Frá því Ríkislögreglustjóri opnaði vefgátt Neyðarlínunnar vegna ofbeldis hafa að meðaltali 235 manns heimsótt hana á dag. Samkvæmt tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra er algengt að fólk lesi sér til um andlegt ofbeldi og að ungt fólk afli sér upplýsinga um ofbeldi. 600 sinnum hefur heimsókn í vefgáttina leitt til netspjalls við viðbragðsaðila. Tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu sjö árum sem og tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna heimilisofbeldis.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að líkja má aðstæðum barns sem býr við heimilisofbeldi við aðstæður barns sem býr á stríðshrjáðu svæði. Þá eru þolendur ofbeldis fjórum sinnum líklegri að glíma við geðröskun en þeir sem ekki hafa upplifað ofbeldi. Mikilvægt er að löggjafinn standi með þessum einstaklingum og geri allt sem í hans valdi stendur til þess að verja þolendur heimilisofbeldis.

Hið opinbera þarf að bregðast við

Í þingsályktunartillögunni sem nú liggur fyrir er lagt til að Alþingi feli innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda.

Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft að tilkynna lögreglu um ofbeldi. Þess vegna er brýnt að þeir aðilar sem starfa náið með íbúunum geti tekið frumkvæði að því að grípa inn í með viðeigandi hætti. Þó verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi reynst vel og tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld, er ljóst að formfesta þarf samstarfið í hina áttina, þ.e. milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari forvirkar lagaheimildir til upplýsingamiðlunar.

Okkar er ábyrgðin

Ég bind einlægar vonir við Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu. Löggjafinn þarf að standa með þolendum heimilisofbeldis, stjórnvöld eiga að geta gripið inn í aðstæður án þess að brotaþoli þurfi að vera þátttakandi í aðgerðum. Við verum að geta stöðvað ofbeldi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2022.