Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Deila grein

11/01/2024

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Verðbólga og háir vextir hafa áhrif á samfélagið allt þar sem byrðar fólks og fyrirtækja þyngjast með hverjum deginum. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum að stjórnmálin um heim allan eru með vindinn í fangið þessi misserin. Hækkanir á hækkanir ofan dynja á almenningi víða um heim og við hér á Íslandi erum ekki undanskilin og finnum fyrir þeim. Þá gildir einu hvort við séum að horfa á húsnæðislánin okkar, matarkörfuna, tryggingarnar eða hvað eina annað. Afleiðingar af þessum hækkunum eru að almenningur í landinu fær minna fyrir krónurnar sínar.

Við höfum oft og tíðum rætt um „venjulegt“ fólk og hina „venjulegu“ fjölskyldu; fólkið sem af einhverjum ástæðum fellur oft á milli skips og bryggju í hinni daglegu umræðu. Hér er um að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, hugsar um fjölskylduna, eldar matinn og borgar reikninga. Þessa hversdagslegu hluti og lífið gengur sinn vanagang dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli.

Við teljum að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta haft hátt um stöðuna eða telja sig jafnvel ekki eiga rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á gangandi og það er því til mikils að vinna að grípa inn í og létta undir þeim sem þyngstar bera byrðarnar í því árferði sem nú geisar.

Hvalrekaskattur – „við og þið“ eða „við og hinir“

Okkur hefur verið það tíðrætt síðustu mánuði að ef við ætlum okkur að ná tökum á ástandinu þurfa allir að taka þátt í því verkefni. Að taka þátt þýðir m.a. að stíga ölduna með fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Við erum að sjá mikinn hagnað viðskiptabankanna þriggja þar sem bæði þjónustutekjur og vaxtatekjur þeirra eru að hækka umtalsvert. Þetta er tilkomið vegna þess að vaxtabyrði „venjulegs“ fólks er að aukast. Það er ekki annað að skynja á umræðunni að upplifun fólks sé sú að hér á landi sé að skapast samfélag sem megi kalla „við og þið“ eða „við og hinir“. Við fréttir sem þessar verður það upplifun fólks, sem alls ekki má vanmeta, að hér séu ekki allir að taka þátt og leggja sitt að mörkum til að rétta skútuna og það er vont að finna fyrir þeirri tilfinningu. Almenningur er að taka á sig auknar byrðar með ýmsum hætti og það gengur ekki að hér séu aðilar, stórfyrirtæki og aðrir, sem halda að þeir séu eyland í þessu samfélagi sem við byggjum saman. Við erum í tímabundnu ástandi, sem kallar á óvenjulegar tímabundnar aðgerðir. Af þessari ástæðu teljum við það koma vel til greina að skattleggja hagnað og arðgreiðslur alveg sérstaklega og styðja enn markvissari hætti við þá hópa sem nú standa í miðjum ólgusjó. Annað er hreinlega ósanngjarnt.

Gerð langtíma kjarasamninga

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu til lengri tíma er óumdeilanlega að ná niður vöxtum.

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Þar teljum við meðal annars nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt sem yrði samfélagslega mjög dýrt.

Húsnæðismarkaður í jafnvægi

Líkt og fyrr segir þá heldur enginn hér á fríspili; ekki ríkið, ekki sveitarfélög, ekki Seðlabankinn og ekki fyrirtækin í landinu. Ábyrgðin er okkar allra. Rörsýn Seðlabankans hefur verið of mikil og of mikill skortur er á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og þora að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa haft verulega neikvæð áhrif á framboðshlið húsnæðis og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á öðrum enda. Annars vegar er dýrt að byggja íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er erfitt að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og hefur letjandi áhrif á uppbyggingaraðila og þar með fasteignamarkaðinn sem er alls ekki það sem við þurfum núna. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

Snjóhengja kynslóða er að myndast sem mun svo á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn, stíflan mun bresta og þá, ef ekki verður gefið vel í með annars vegar opinberum aðgerðum líkt og innviðaráðherra hefur ráðist í með aðgerðum í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin, og hins vegar á almennum byggingamarkaði. Þurfum að þora að taka ákvarðanir sem byggja á framtíðarsýn því ef við stígum ekki þessi nauðsynlegu skref þá munum við sjá skarpari sveiflu með tilheyrandi neikvæðum áhrif á landsmenn en þær sem við þegar þekkjum og erum að reyna að komast út úr.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar  
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 10. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Aðdáunarverð samstaða

Deila grein

19/11/2023

Aðdáunarverð samstaða

Við á Íslandi höf­um alltaf verið samof­in nátt­úru­öfl­un­um og upp á náð og mis­kunn móður nátt­úru. Þessa dag­ana erum við hressi­lega minnt á þá staðreynd. Á mánu­dags­kvöld voru sett lög á Alþingi um vernd mik­il­vægra innviða. Með þeim er ráðherra veitt skýr laga­heim­ild til að taka ákvörðun um nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir í þágu al­manna­varna sem miða að því að koma í veg fyr­ir að mik­il­væg­ir innviðir og aðrir al­manna­hags­mun­ir verði fyr­ir tjóni af völd­um nátt­úru­ham­fara sem tengj­ast elds­um­brot­um á Reykja­nesskaga. Um þess­ar mund­ir eru uppi afar sér­stak­ar aðstæður sem nauðsyn­legt er að bregðast hratt og ör­ugg­lega við. Gert er ráð fyr­ir að ráðherra verði heim­ilt að taka ákvörðun um til­greind­ar fram­kvæmd­ir og hrinda þeim af stað án þess að önn­ur lög tor­veldi slíka ákv­arðana­töku.

Aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar

Við aðstæður eins og þær sem upp eru komn­ar þurfa ákv­arðanir að vera fum­laus­ar og upp­lýs­ing­ar til sam­fé­lags­ins á Reykja­nesi skýr­ar og aðgengi­leg­ar. Við þurf­um að hafa í huga í allri umræðu, hvort sem um er að ræða stjórn­völd, fjöl­miðla eða sam­skipti á öðrum op­in­ber­um vett­vangi, að aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar. Íbúar í Grinda­vík hafa þurft að upp­lifa það að lifa í stöðugum ótta við harða jarðskjálfta með til­heyr­andi álagi á and­lega líðan og í ofanálag þurft að yf­ir­gefa heim­ili sín á inn­an við 30 mín­út­um í al­gjörri óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Viðbragðsaðilar á svæðinu eru líka marg­ir hverj­ir íbú­ar í Grinda­vík og álagið mjög mikið á þá á þess­um tím­um. Að vera fyrst­ur með frétt­irn­ar jafn­gild­ir ekki sigri í öll­um til­vik­um.

Það er afar mik­il­vægt að næstu skref sem stig­in eru séu réttu skref­in. Við þurf­um að grípa vel utan um aðstæðurn­ar sem hafa skap­ast á Reykja­nesskaga og við þurf­um að taka vel utan um fólkið. Á sama tíma þurf­um við að passa upp á gagn­sæi og að all­ar upp­lýs­ing­ar sem hlutaðeig­andi aðilar fá séu skýr­ar, því það er eng­um greiði gerður með því að hylma yfir raun­veru­lega stöðu.

Op­inn faðmur sam­fé­lags­ins

Við þetta tæki­færi er hins veg­ar ekki annað hægt en að hrósa því aðdá­un­ar­verða starfi sem átt hef­ur sér stað und­an­farna daga og vik­ur hjá viðbragðsaðilum okk­ar. Við eig­um flott fag­fólk á öll­um sviðum og höf­um ít­rekað orðið vitni að þeim standa vakt­ina við mjög krefj­andi aðstæður. Við höf­um séð það í verki hversu mik­il­vægt það er að all­ar neyðar- og viðbragðsáætlan­ir séu skýr­ar og öll vinna eft­ir þeim hef­ur verið til fyr­ir­mynd­ar.

Það hef­ur einnig verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með sam­fé­lög­um víða um land opna faðminn fyr­ir íbú­um Grinda­vík­ur, þar sem all­ir virðast vilja leggja sitt af mörk­um þegar aðstoðar er þörf. Sam­taka­mátt­ur­inn í sam­fé­lag­inu er sterk­ur þegar hætta steðjar að og þegar áföll dynja yfir. Fyr­ir það get­um við ekki verið annað en þakk­lát.

Hug­ur minn er hjá Grind­vík­ing­um og verður þar áfram. Um þess­ar mund­ir erum við öll Grind­vík­ing­ar og við mun­um halda áfram að virkja hina einu sönnu ís­lensku sam­stöðu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Deila grein

17/09/2023

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Þróun umræðu í samfélaginu síðustu misseri hefur verið um margt umhugsunarverð, stundum byggir umræðan á staðreyndum en oftar en ekki er rangfærslum haldið á lofti. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og akkúrat nú á tímum falsfrétta að allar þær upplýsingar sem unnið er með hverju sinni sé réttar og sannar. Aðeins þannig getum við átt upplýsta og málefnalega umræðu og talað okkur saman að niðurstöðu mála. Ég lít svo á að það sé siðferðileg skylda okkar sem störfum í stjórnmálum að vanda til verka í allri umræðu og kynna okkur allar staðreyndir mála, aðeins þannig getum við tekið upplýsta ákvörðun. Annars er hættan alltaf á að við missum umræðuna út í ómálefnaleg úthróp og á villigötur. Fólk veigrar sér við að taka þátt í umræðunni með þeim afleiðingum að þeir sem hafa hæst ná að stela umræðunni. Við höfum séð þetta gerast oftar en einu sinni og erum líklega flest sammála að þetta sé ekki jákvæð þróun, við þurfum að gera betur.

Orð bera ábyrgð

Við sem höfum fengið það ábyrgðarmikla hlutverk að sitja á Alþingi gerum það í umboði þjóðarinnar. Almenningur gerir þá sjálfsögðu kröfu að á Alþingi fari fram rökræn og skynsamleg umræða. Orð sem eru látin falla í þingsal eða annars staðar úti í samfélaginu af hálfu þingmanna bera svo sannarlega ábyrgð. Almenningur treystir á og býst við að við þingmenn nálgumst alla umræðu af skynsemi og réttum staðreyndum. Okkar hlutverk er að vinna að umbóta- og framfaramálum fyrir þjóðina og það er skylda okkar sem eigum sæti á Alþingi að vera skynsemisröddin og ekki í sandkassaleik. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við sem störfum á Alþingi unnið í sameiningu þvert á flokka að ýmsum framfaramálum í þágu þjóðarinnar. Við erum ekki alltaf sammála en í gengum nefndirnar höfum við oft talað okkur saman að niðurstöðu. Mig langar því að nýta hér tækifærið og hvetja okkur áfram til góðra verka. Stjórnmálin eru oft skemmtileg en þau eru líka krefjandi og sérstaklega á tímum sem þessum þar sem margir eru með þungan róður. Í gegnum allt lífið færum við ákveðnar fórnir fyrir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þetta ferðalag sem lífið er býður ekki alltaf upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags. Við vinnum þó alltaf af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni hverju sinni.

Fyrir samfélagið

Að lokum vil ég hvetja okkur öll til að nálgast verkefnin fram undan með samvinnuhugsjón að leiðarljósi og nálgast umræðuna út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Við ættum að forðast að benda fingrum í allar áttir og reyna heldur eftir fremsta megni að vinna saman, þó að okkur greini oft á um aðferðarfræðina erum við í grunninn sammála um að halda áfram að skapa gott samfélag og forsendur fyrir okkur til að vaxa og dafna. Við munum ekki ná árangri sem samfélag nema við stöndum saman og þar verður samvinnan alltaf að vera rauði þráðurinn hvort sem er á Alþingi eða annars staðar í samfélaginu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. september 2023.

Categories
Greinar

Umferðaröryggi stóreflt!

Deila grein

25/05/2023

Umferðaröryggi stóreflt!

Þann 8. apríl 2020 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka undir samning um annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Hveragerðis. Verkinu átti skv. þeim samningi að ljúka haustið 2023.

Í dag er Suðurlandsvegur orðinn tvöfaldur að stórum hluta en hér er um að ræða nýbyggingu Hringvegarins að hluta og breikkun og endurgerð að hluta á alls 7,1 km kafla. Á þeim kafla sem um ræðir hafa fjölmörg og alvarleg slys átt sér stað í gegnum tíðina. Umferðarþungi mikill og fjölmargir leggja leið sína um hann á degi hverjum til dæmis til vinnu eða í frí austur fyrir Hellisheiði. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Suðurlandsveg. Framkvæmdin hefur óneitanlega mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í heild á Suðurlandi.

Slysatíðni á Suðurlandsvegi hefur verið mikil undanförnum árum og alvarleg umferðarslys verið fleiri en við kærum okkur um. Ferðamenn leggja leið sína á Suðurlandið og samfélagið austan Hellisheiðar er sívaxandi og tækifærin fjölmörg sem þar eru. Fólksfjölgun mikil og stór hluti þeirra sem hafa flutt þangað m.a. sækja störf á Höfuðborgarsvæðið. Það skiptir fólk máli að upplifa öryggi á vegunum okkar og það hefur verið talið grundvöllur að stækkandi vinnusóknarsvæði víða um land. Þar af leiðandi fagna ég því að þessi framkvæmd sé orðin að veruleika en ekki stóð til að hleypa umferð inn á nýja vegarkaflann fyrr en í haust. Nú er svo komið að vegurinn hefur verið formlega opnaður og er verkefnið því um það bil 3 mánuðum á undan áætlun.

Ölfusárbrúin

Þessu til viðbótar mun ný Ölfusárbrú verða að veruleika því þann 6. mars sl. óskaði Vegagerðin eftir þátttakendum í alútboð vegna byggingar nýrrar brúar á Ölfusá ásamt aðliggjandi vegum, vegamótum, brúm og undirgöngum en stefnt er að því að klára verksamning um verkefnið fyrir lok þessa árs. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar taki rúmlega tvö ár og því hægt að áætla að öllu óbreyttu að Sunnlendingar fái að keyra um nýja Ölfusárbrú árið 2026. Þar er annar áfangi sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu og því ánægjulegt að það verkefni sé komið af stað.

Umferðaröryggi er forgangsmál

Það er augljóst að frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tók við samgöngumálunum hér á landi hefur umferðaröryggi aukist til muna en það hefur verið forgangsmál ráðherra og okkar í Framsókn. Við erum hvergi nærri hætt á þessari vegferð og haldið verður stöðugt áfram að bæta samgöngur hér á landi með umferðaröryggi í forgrunni í þeirri vinnu. Ég má til að senda þakkir til Sigurðar Inga, innviðaráðherra, fyrir hans ötulu baráttu í þágu umferðaröryggis og einnig vil ég hrósa öllum þeim sem að verkinu stóðu. Það hefur verið virkilega aðdáunarvert að keyra í gegnum framkvæmdasvæðið á hverjum degi og finna á eigin skinni þær umbætur sem hafa orðið á veginum. Þetta er verkefni sem markar tímamót í vinnu okkar að auknu umferðaröryggi í landinu við finnum öll fyrir umbótum sem þessum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hvar liggur björgunarviljinn?

Deila grein

11/05/2023

Hvar liggur björgunarviljinn?

Allt frá árinu 2019 hefur verið í bígerð tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu með það að markmiði að veita bráðveikum og slösuðum sérhæfða þjónustu með sem skjótustum hætti. Árið 2019 var heilbrigðisráðherra ásamt fjármála- og efnahagsráðherra falið í ríkisstjórn að útfæra fjármögnun og tímasetningu verkefnisins. Síðan eru liðin á að verða fjögur ár en ákveðið var að bíða með verkefnið þegar heimsfaraldur Covid skall á.

Fjármögnun ekki tryggð

Í haust hafði undirrituð í hyggju að setja fram þingsályktunartillögu um tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi, búið var að óska eftir meðflutningsmönnum þegar ég ákvað að draga tillöguna til baka þar sem ég hafði fréttir af því innan úr heilbrigðisráðuneytinu að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra væri á fullu við að vinna að slíku tilraunaverkefni um sjúkraþyrlur í samræmi við tillögur sem Svandís Svavarsdóttir kynnti í ríkisstjórn árið 2019. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafði þegar skipaði samráðshóp samkvæmt tillögu starfshóps frá 2018, um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. En því miður hafa þær tillögur og hugmyndir sem þar hafa komið fram runnið út í sandinn þar sem fjármálaráðherra hefur ekki haft vilja til þess að tryggja fjármögnun verkefnisins. En tilraunaverkefni um sérhæfða sjúkraþyrlu hefur verið lagt fram í fjármálaáætlun síðustu tveggja ára en fjármögnun verkefnisins hefur ekki verið samþykkt. Eðli málsins samkvæmt getur heilbrigðisráðherra ekki tekið verkefnið lengra meðan fjármálaráðherra hefur ekki vilja til þess að tryggja því fjármögnun.

Það þarf að dekka álagssvæði

Landhelgisgæslan sinnir mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og almenningur í landinu vill standa vörð um hana líkt og bersýnilega kom fram þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætlaði sér í vetur að selja eftirlitsvél Landhelgisgæslunnar vegna fjárskorts. Almenningur í landinu vill heldur sjá verkefni landhelgisgæslunnar efld heldur en hitt, enda hefur hún löngum sannað mikilvægi sitt. Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á síðasta þingi kom fram að fyrrgreindur starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem skilaði af sér skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 var sammála um mikilvægi þess að efla sjúkraflutninga með þyrlum en ekki um leiðir að því marki. Meirihlutinn, eða fimm af sjö meðlimum, vildi ná markmiðinu með þyrlum LHG sem einnig sinna leit og björgun en minnihlutinn vildi starfrækja sérstaka sjúkraþyrlu utan Landhelgisgæslunnar.

Sú sem hér skrifa telur afar mikilvægt að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifbýli, sér í lagi á álagssvæðum líkt og á Suðurlandi en útköll á svæðinu vegna slysa og bráðra veikinda hafa aukist verulega vegna sí stækkandi hóps ferðamanna á svæðinu. Yfir sumartímann ríflega þrefaldast fólksfjöldi landshlutans og það á þeim tíma sem sérfræðingar á sjúkrastofnunum eru margir hverjir í sumarfríum og erfitt reynist að tryggja mönnun reynslumikilla starfsmanna á þessu víðfeðma svæði. Ef ekki er hægt að fjármagna sjúkraþyrlu á svæðinu má velta upp þeim möguleika að bæta við starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Suðausturlandi en þannig mætti dekka enn stærra svæði en hægt er í dag og þar með efla björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Það þarf líka að tryggja að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar fái tafarlaust viðhald og viðgerðir þegar svo ber við og að þær séu allar nothæfar. Það skortir ekki vilja eða frumkvæði af hálfu heilbrigðisráðherra í þessu máli og er vel tilbúinn að setja slíkt verkefni af stað. Boltinn er nú hjá fjármálaráðherra sem þarf að svara hvort og þá hvenær hann muni tryggja fjármögnun á sjúkra- eða björgunarþyrlum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eru leikreglurnar sanngjarnar?

Deila grein

08/05/2023

Eru leikreglurnar sanngjarnar?

Hvað ætl­um við að gera og hvernig á að gera það? Það er stóra spurn­ing­in sem all­ir kapp­kosta við að tjá sig um þess­ar mund­ir. Vinnu­markaður­inn kall­ar eft­ir skýr­um aðgerðum stjórn­valda og að kjör fólks séu jöfnuð með ein­hverj­um hætti. Það er út­ópía að halda því fram að full­kom­inn jöfnuður í þróuðu sam­fé­lagi sé mögu­leg­ur. Það er þó hægt að jafna stöðuna með aðgerðum af hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Við stönd­um frammi fyr­ir stór­um verk­efn­um og það er ekk­ert laun­unga­mál. Það þarf að beita sam­vinnu­hugs­un­inni og sam­heldni til að koma bönd­um á verðbólg­una með fjölþætt­um aðgerðum og stuðla að frek­ari kaup­mátt­ar­aukn­ingu hjá venju­legu launa­fólki.

Mennt­un met­in til launa

Ákveðin kjaragliðnun hef­ur átt sér stað en sú þróun hef­ur átt sér stað lengi.

Við þurf­um líka að horf­ast í augu við að þá gliðnun má einnig rekja til hærra mennt­un­arstigs hér á landi. Það er fagnaðarefni að sjá fólk sækja sér aukna þekk­ingu og þar með er það að skila þeirri þekk­ingu í virðis­aukn­ingu fyr­ir sam­fé­lagið. Við vilj­um að mennt­un sé met­in til launa og að það sé hvati til að auka þekk­ingu sína og færni á vinnu­markaði. Það er eðli­legt að slík­ur hvati sé til staðar til að afla sér frek­ari þekk­ing­ar á sínu sviði og fyr­ir aukna þekk­ingu er sann­gjarnt að fá bet­ur greitt. Við eig­um að hvetja fólk til að sækja sér aukna þekk­ingu og þarna á jöfnuður­inn að vera mest­ur. Að all­ir geti aflað sér þekk­ing­ar í formi mennt­un­ar og að það skili sér í laun­um.

Eru sann­gjarn­ar leik­regl­ur til staðar?

Kjaragliðnun­in er mest á milli fjár­magnseig­enda og launa­fólks en á und­an­förn­um tíu árum hafa fjár­magn­s­tekj­ur auk­ist gíf­ur­lega eða um 120% að raun­v­irði. At­vinnu­tekj­ur í hag­kerf­inu juk­ust um 53%.

Ekki er greitt trygg­ing­ar­gjald né út­svar af út­greidd­um arði og mik­ill mun­ur er á milli skatt­lagn­ing­ar á hagnað lögaðila og tekju­skatts. Það er því spurn­ing hvort ekki sé löngu kom­inn tími til að taka þetta til end­ur­skoðunar. Að mínu mati er þess­ari spurn­ingu auðsvarað. Það þarf að girða fyr­ir tekju­til­flutn­ing milli launa og fjár­magn­stekna.

All­ir skila sínu til sam­fé­lags­ins

Er ekki kom­inn tími til að taka sam­talið um það skatt­hlut­fall sem fjár­magnseig­end­ur greiða af út­greidd­um arði? Við þurf­um að skapa sann­gjarn­ara og skil­virk­ara skatt­kerfi og að fjár­magn­s­tekju­skatt­ur verði sett­ur í þrepa­skipt­ingu. Við eig­um að styðja vel við ný­sköp­un­ar­starf­semi auk lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja. Punkt­ur­inn með þess­ari grein er að breiðu bök­in borgi rétt til sam­fé­lags­ins. Við get­um gert mun bet­ur í þeim efn­um og ég kalla eft­ir því hér með.

Við búum jú öll í þessu landi sam­an og ætt­um þar af leiðandi að bera sam­fé­lags­lega ábyrgð sam­an og að all­ir greiði sitt með skil­virk­ari hætti inn í sam­neysl­una. Það á að vera leiðarljósið í þess­um efn­um og við eig­um að búa til sann­gjarn­ari leik­regl­ur í skatt­kerf­inu okk­ar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Það þarf heilt sam­fé­lag

Deila grein

25/04/2023

Það þarf heilt sam­fé­lag

Í þeim aðstæðum og þeim hraða sem samfélagið bíður ungum barnafjölskyldum upp á í dag, reikar hugurinn óhjákvæmilega til annarra tíma. Tíma sem voru kannski ekki einfaldari að neinu leiti, áskoranirnar voru aðrar, fjölskyldusamsetningin var kannski önnur, kröfurnar á foreldra og börn aðrar eða jafnvel öðruvísi. Hraðinn í samfélaginu var þó töluvert frábrugðinn því sem við búum við í dag.

Þegar ég sit og skrifa þennan pistil um málefni sem hefur verið mér hugleikið í nokkurn tíma þá reiknar hugurinn minn til Ísafjarðar í kringum 1991 þar sem ung móðir þá rúmlega sextán ára gömul með stúlkubarn tæplega eins árs, bjó innst inn í firði á Ísafirði, það var vetur, allt á kafi í snjó og faðirinn á sjó. En í vinnu þurfti móðirin að fara með barnið á snjóþotu rúmlega tveggja kílómetra leið inn í bæ. Ekki var mikið um það á þessum tíma að börn væru hjá dagmömmu eða snemma í leikskóla en henni var sú lukka að föðuramma stúlkunnar sá um hana frá þriggja mánaða aldri allt að þeim tímapunkti að hún gat farið á leikskóla rúmlega 2 ára gömul. Ekki einungis móðurinni varð af því gæfa heldur varð stúlkunni enn meiri gæfa að hafa fengið tækifæri til að mynda tengsl við ömmu sína sem urðu órjúfanleg fram yfir dauðadag hennar. Slík tengsl eru mikilvæg og gaf bæði ömmu og stúlku mikið því það eru ýmis gildi, ýmsar lífsreglur og lífsspeki sem aðeins fæst frá ömmu og afa. Því megum við ekki gleyma. Í tilviki þessarar stúlku þá voru fyrstu árin ekki alltaf einföld fyrir foreldra hennar en alltaf var þó ákveðin festa í lífinu sem amman hafði uppá að bjóða, alltaf opinn arm, alltaf góð ráð og stórfjölskyldan kom þar að líka sem reyndist ómetanlegt til framtíðar. Að alast upp í kringum ömmu og afa hefur í för með sér öðruvísi dýpt í lífinu, kennir manni aukna samstöðu, samkennd, virðingu og kærleika sem erfitt er að setja fingur á.

Getum við þetta ein og óstudd

Í dag eigum við það til að gleyma okkur í amstri dagsins, allir þurfa að vera mættir á slaginu, það eru börn sem þurfa á æfingar jafnvel tvær og þrjár á dag svo hittast allir heima í lok dags, það er möndlað eitthvað saman í eldhúsinu til að nærast og svo hlaupa allir frá borðinu í því skyni að sinna frekari verkefnum sem bíða þann daginn. Í tilviki barnanna eru það vinir og leikhittingar en í tilviki foreldranna er það að ná inn hreyfingu í daginn, klára vinnu sem náðist ekki þann daginn en þú ert nú samt viss um að ef þú klárar þetta ekki fyrir miðnætti þá hleypur það frá þér og verður ekki þarna þegar þú mætir daginn eftir. Nú svo þarftu að huga að andlegu heilsunni, líkamlegu og félagslegu því samfélagið krefst þess að við séum öll með næg verkefni og alltaf að, því annars ertu ekki að ná árangri eða hvað? Eða hvað felst í árangri fjölskyldunnar? Er það að allir sjái hversu vel þú stendur þig í lífskapphlaupinu sem er búið að temja okkur eða er það að rækta fjölskylduböndin eða jafnvel heilbrigð blanda af hvoru tveggja? Við heyrum jafnframt af því að foreldrar í dag gera menntakerfið og skólana í auknu mæli ábyrga fyrir uppeldi barnanna okkar en er það raunhæft, að leggja þær kröfur á fólk sem sjálft á börn og fjölskyldu og mætir í vinnuna, gerir sitt allra besta við að mennta börnin okkar í ákveðnum þáttum lífsins og svo segjum við fjölskyldan jæja þá er barnið búið að fá allt sem það þarf þetta árið því það mætti í skólann og fékk ákveðna færni sem er mæld á ákveðinn hátt? Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki kominn tími á að við lítum aðeins inná við. Fjölskyldan hefur ákveðið menntunarhlutverk líka, sem felst í öðruvísi lífsfærni en fæst úr menntakerfinu okkar.

Hverjir bera ábyrgð á börnunum okkar

Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn hefur verið sagt og því er ég sammála. Það þarf heilt samfélag en þá er ég ekki að meina Dúnu í næsta húsi heldur eru það kynslóðirnar sem á undan hafa komið, mamma og pabbi, amma og afi og svo frænkur og frændur. Það er bjargföst trú mín að við höfum tapað ýmsu á þessari vegferð sem við höfum verið á og við ætlum að vera svo sjálfstæð í því að klára okkur sjálf í gegnum uppeldi barnsins að við áttum okkur ekki alveg á því hvað það er sem barnið verður af í gegnum lífið en líka amma og afi.

Á ákveðnum tímapunkti bjuggu þrjár kynslóðir undir einu þaki og allir tóku þátt í að ala upp barnið og kenna því á lífsins áskoranir, hvernig eigi að takast á við þær og hvaða lífsgildi þarf að hafa með sér í bakpokanum á því stórkostlega ferðalagi sem lífið er. Ég held að við ættum að líta aðeins tilbaka og gera okkur öll ábyrg fyrir því að koma að uppeldi barnsins, mynda tengsl milli kynslóða sem eru svo sterk og órjúfanleg að þau haldast fram yfir gröf og dauða. Við berum jú öll ábyrgð á menntun barnanna okkar en fjölskyldan þá allra mestu. Það er ekki bara menntakerfið sem hefur með öllu stærsta hlutverkið í uppeldi barnanna okkar. Það erum við – Fjölskyldan.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 25. apríl 2023.