Categories
Greinar

Íslensk kvikmyndagerð

Deila grein

29/07/2021

Íslensk kvikmyndagerð

Í sum­ar­frí­inu get­ur verið freist­andi að slaka á í sóf­an­um með hlýtt ull­arteppi og þá er gott að geta valið sér ís­lenskt efni til áhorfs. Til dæm­is hafa nýir og spenn­andi þætt­ir um Kötlu átt hug minn all­an þessa dag­ana. Slíkt efni verður þó ekki til af sjálfu sér.

Hlúa þarf að kvik­mynda­gerð líkt og mörgu öðru. Ef grein­inni er veitt at­hygli og pláss hef­ur hún mögu­leika að vaxa og dafna okk­ur öll­um til heilla. Mik­il­vægt er að sveigj­an­legt og kraft­mikið stuðnings­kerfi sé til staðar sem ýtir und­ir já­kvæða þróun í kvik­mynda­gerð. Síðastliðið haust markaði tíma­mót í sögu kvik­mynda­gerðar á Íslandi þegar Lilja Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, lagði fram fyrstu heild­stæðu stefnu ís­lenskra stjórn­valda á sviði kvik­mynda. Mark­miðið með stefn­unni er að skapa auðuga kvik­mynda­menn­ingu sem styrk­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar, efl­ir ís­lenska tungu, býður upp á fjöl­breytt­ari og metnaðarfyllri kvik­mynda­mennt­un, styrk­ir sam­keppn­is­stöðu grein­ar­inn­ar og stuðlar að því að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvik­mynda­gerðar. Með kvik­mynda­stefnu hafa ís­lensk stjórn­völd viður­kennt vax­andi hlut­verk menn­ing­ar, lista og skap­andi greina á Íslandi.

Fram­sókn hef­ur lengi talað fyr­ir mik­il­vægi þess að styðja eigi við kvik­mynda­gerð í land­inu ásamt því að hækka end­ur­greiðslur af fram­leiðslu­kostnaði í 35% líkt og gert er í lönd­um sem keppa við Ísland um verk­efni. Kvik­mynda­gerð hef­ur fyr­ir löngu sannað gildi sitt sem list­grein og at­vinnu­grein. Kraft­mik­il kvik­mynda­menn­ing efl­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar. Kvik­mynd­ir og sjón­varpsþætt­ir eru list­grein sem spegl­ar sam­tím­ann og ger­ir sögu og menn­ing­ar­arfi skil. Ýmiss kon­ar efni er fram­leitt sem bæði er afþrey­ing fyr­ir nú­tím­ann ásamt því að segja mik­il­væga sögu til framtíðar. Mik­il­vægi kvik­mynda­gerðar fyr­ir ís­lenska tungu er ómet­an­legt, en kvik­mynda­gerð skip­ar stór­an sess í því að efla og varðveita ís­lenska tungu.

Ferðavenju­könn­un hef­ur sýnt að tæp­lega 40% þeirra ferðamanna sem hingað koma tóku ákvörðun um að ferðast til Íslands eft­ir að hafa séð landið í sjón­varpi eða á hvíta tjald­inu. Heild­ar­velta ferðaþjón­ust­unn­ar af slík­um ferðamönn­um hleyp­ur á mörg­um millj­örðum. Íslensk kvik­mynda­gerð skap­ar á fjórða þúsund beinna og af­leiddra starfa og laðar að er­lenda fjár­fest­ingu. Í því fel­ast gríðarleg verðmæti fyr­ir rík­is­sjóð. Við í Fram­sókn höf­um talað fyr­ir mik­il­vægi þess að skapa fjöl­breytt at­vinnu­tæki­færi. Kvik­mynda­gerð er skap­andi at­vinnu­grein sem fell­ur vel að þeim hug­mynd­um, en mik­il­vægt er að hún fái viðeig­andi stuðning. Fjórða iðnbylt­ing­in kall­ar eft­ir hug­viti, há­tækni, sköp­un og sjálf­bær­um lausn­um og kvik­mynda­gerð er allt þetta.

Lilja Rann­veig Sig­ur­geirs­dótt­ir, varaþingmaður Fram­sókn­ar og sit­ur í 2. sæti á lista flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. júlí 2021.

Categories
Greinar

Breytingar í barna­vernd

Deila grein

07/06/2021

Breytingar í barna­vernd

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra hefur verið samþykkt úr velferðarnefnd. Nái frumvarpið fram að ganga munu meðal annars barnaverndarnefndir eins og við þekkjum þær lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í samráði við sveitarfélögin

Gríðarmikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og allt kjörtímabilið hefur verið haft mikið samráð við hlutaðeigandi aðila vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir. Samráð hefur verið haft við sveitafélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu. Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum, en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breytt um landið. Lágmarksíbúatala að baki hverri barnaverndarþjónustu er miðuð við 1500 manns, við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6000 manns.

Umdæmisráð

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu. Umdæmisráðin skulu vera sérstakar, sjálfstæðar og fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga. Sveitastjórn ber ábyrgð á því að skipa umdæmisráð sem skal starfa í fimm ár. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð enda er lágmarksstærð umdæmisins miðuð við 6000 íbúa. Umdæmisráðið er skipað að lágmarki þremur fagaðilum. Það skal taka ákvarðanir með úrskurði sem barnaverndarmál getur leitt af sér eins og vistun barns utan heimils, forsjársviptingu og umgengni í fóstri og eða vistun. Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Hér er um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Verið er að gera grundvallarbreytingar á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda, því í frumvarpinu felst að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Þetta frumvarp er einnig partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Þá er líka gert ráð fyrir ítarlegri þátttöku barna við meðferð sinna mála því það er réttur barna að fá upplýsingar um sín mál á barnvænan hátt. Barn frá 15 ára aldri getur veitt samþykki fyrir stuðningsúrræðum sem beinast einungis að því sjálfu svo eitthvað sé nefnd.

Hér er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa kerfið til nútímavitundar um réttindi barna.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý eru frambjóðendur til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. júní 2021.