Categories
Greinar

Blessuð sértu, sveitin mín

Deila grein

20/03/2024

Blessuð sértu, sveitin mín

Sérstaða ís­lenskra mat­vara er ein­stök á heimsvísu þar sem lyfja- og eit­ur­efna­notk­un í land­búnaði á Íslandi er með því minnsta sem þekk­ist í heim­in­um, auk þess sem notk­un vaxt­ar­horm­óna er bönnuð. Það er risa­stórt heil­brigðismál að komið sé í veg fyr­ir út­breiðslu sýkla­lyfja­ónæmra bakt­ería á Íslandi með ströng­um ráðstöf­un­um, en við sjá­um að sýkla­lyfja­ónæmi er ört vax­andi ógn í heim­in­um.

Í fyrra fékk ís­lenskt lamba­kjöt upp­runa­vott­un frá Evr­ópu­sam­band­inu. Um er að ræða vott­un með til­vís­un til upp­runa eða „Protected Designati­on Of Orig­in“ (PDO), og fær ís­lenskt lamba­kjöt nú að bera merki vott­un­ar­inn­ar í markaðssetn­ingu. Það á að stuðla að neyt­enda­vernd, auka virði afurða og koma í veg fyr­ir órétt­mæta viðskipta­hætti.

Aukinn innflutningur vinnur gegn bændum

Innflutningur á kjöti hefur færst í vöxt á undanförnum árum og er það bæði selt í matvöruverslunum hérlendis og einnig á veitingamarkaði, meðal annars mötuneytum og veitingahúsum. Færst hefur og í vöxt að minni kjötvinnslur kaupi slíkar afurðir og endurselji á veitingamarkaði, þíði kjötið sem kemur frosið til landsins, leggi í kryddlög og selji svo til stóreldhúsa og matvöruverslana. Slíkt athæfi, ásamt öðrum innflutningi á kjötvörum, vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda og getur um leið verið afar villandi fyrir neytendur þar sem pakkningar sem erlenda kjötið eru í eru oft á tíðum með íslenskum fánaröndum eða allavega íslenskt nafn á kjötvinnslunni.

Stórauka þarf stuðning við bændur og draga þarf markvisst fram sérstöðu íslenskra matvæla með áherslu á rekjanleika, heilnæmi og gæði. Mikið hefur verið rætt og ritað um landbúnaðinn á undanförnum árum og hafa íslenskir bændur verið að keppa í ójöfnum leik í samkeppni við innflutning þar sem vinnuafl er mun ódýrara víðast hvar annars staðar í heiminum. Íslenskum bændum fækkar með hverju árinu sem líður; íslensku sveitirnar eru að deyja út, meðalaldur bænda hækkar og enginn tekur við. Fæðuöryggið og sjálfbærni þjóðar undir

Fæðuöryggið og sjálfbærni þjóðar undir

Ég held að við séum komin á þann stað að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að stuðla að tilvist matvælaframleiðslu á íslandi. Tel ég að við þurfum að innleiða löggjöf sem gerir að verkum að óheimilt verði að flytja inn til landsins kjötafurðir frá öðrum löndum. Einnig að auka verndartolla á öðrum landbúnaðarvörum sem framleiddar eru hérlendis, meðal annars grænmeti og mjólkurafurðum, með það að markmiði að stórefla innlenda matvælaframleiðslu. Eina rétta í stöðunni væri að leggja áherslu á að auka tollvernd á íslenskum landbúnaðarafurðum til að tryggja tækifæri til atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Við sem þjóð þurfum á því að halda og landsbyggðin þarf á því að halda.

Með því að auka matvælaframleiðslu hérlendis getum við styrkt fæðuöryggi þjóðarinnar. Við þurfum aðgerðir strax og setja í gang markvissa vinnu til þess að minnka innflutning á matvælum hingað til lands, með sjálfbærni og minni útblástur gróðurhúsalofttegunda að leiðarljósi.

Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga
Engið, fjöllin, áin þín,
yndislega sveitin mín,
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga
Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga.

(Sigurður Jónsson frá Arnarvatni)

Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2024.