Categories
Fréttir Greinar

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Deila grein

11/01/2023

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Íþróttir eru gríðarlega mikilvægar þegar kemur að uppeldi barna og unglinga og forvarnargildi þeirra er margsannað. Íþróttafélög um allt land halda úti ómetanlegu starfi sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Þegar Covid-19 faraldurinn reis sem hæst stóð íþróttahreyfingin hins vegar frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum sem höfðu veruleg áhrif á starf íþróttafélaga um allt land.

Af þessum sökum lagði ég fram tillögur þess efnis að ráðist yrði í aðgerðir til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög landsins vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur valdið á starf þeirra.

Nú í byrjun árs er mennta- og barnamálaráðuneytið að ljúka greiðslum á síðustu styrkjum til íþróttahreyfingarinnar til að bæta upp það tekjutap sem hún varð fyrir vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Lokagreiðslan nemur alls 450 milljónum króna. Sambærileg úthlutun að upphæð 450 milljónir króna átti sér stað vorið 2020 og önnur úthlutun að upphæð 300 milljónir króna í árslok sama ár. Þá fengu íþróttafélög rúmlega 1,6 milljarða króna í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Að auki var 100 milljónum sérstaklega úthlutað á fjáraukalögum 2021 til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða sem féllu utan framangreindra styrkja og sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga. Alls nemur stuðningurinn því tæpum þremur milljörðum króna vítt og breitt innan hreyfingarinnar.

Markmiðið með stuðningnum var að gera íþróttafélögum kleift að brúa það gat sem myndaðist þegar allt starf féll niður vegna samkomutakmarkana og að tryggja að sem minnstar raskanir yrðu á íþróttaiðkun barna til lengri tíma litið. Stjórnvöld þurftu að stíga fast til jarðar svo að starfsemi íþróttafélaga myndi ekki leggjast af og að viðspyrnan yrði sem best eftir faraldurinn. Það tókst. Við búum áfram við öflugt íþróttastarf sem þakka má elju starfsfólks og þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að starfi íþróttahreyfingarinnar á hverjum degi. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar 2023.