Categories
Greinar

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Deila grein

12/01/2023

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Verðbólga mæld­ist 9,7% á þriðja árs­fjórðungi og hækk­un hús­næðisliðar­ins var áfram sá þátt­ur sem hafði mest áhrif. Hins veg­ar varð líka nokk­ur hækk­un á verði ým­iss kon­ar þjón­ustu og mat­vöru. Af­leiðing­ar auk­inn­ar verðbólgu eru versn­andi lífs­kjör, auk­inn ójöfnuður og fjár­magns­kostnaður ásamt óróa í fjár­mála­kerf­inu. Það sem er merki­legt við þróun verðbólg­unn­ar er ekki aðeins að hún hafi auk­ist um heim all­an held­ur eru und­ir­liggj­andi or­sak­ir henn­ar, að und­an­skildu hús­næðis­verði hér á landi, af svipuðum toga: Hækk­un alþjóðlegs hrá­ol­íu- og olíu­verðs, fram­boðshnökr­ar ásamt auk­inni eft­ir­spurn í kjöl­far þrótt­mik­illa stuðningsaðgerða í rík­is- og pen­inga­mál­um til að vinna gegn efna­hags­sam­drætt­in­um í tengsl­um við far­sótt­ina. Þróun verðbólg­unn­ar er þó að breyt­ast ef við lít­um á stærstu hag­kerf­in. Verðbólga virðist vera á niður­leið í Evr­ópu, þar sem orku­verð hef­ur hjaðnað, en verðbólguþró­un­in í Banda­ríkj­um virðist áfram vera þrálát og það sama má segja um Ísland. Þessi tvö síðast­nefndu lönd eiga það sam­eig­in­legt að vinnu­markaður­inn er kröft­ug­ur. En hvað veld­ur og hvað er til ráða?

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur verið að veikj­ast en…

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur farið þverr­andi síðustu þrjá ára­tugi, þ.e. verðbólga hef­ur ekki verið eins næm fyr­ir slaka eða þenslu á vinnu­markaðnum. Marg­ar hagrann­sókn­ir benda til þess að skamm­tíma­sam­band verðbólgu og at­vinnu­leys­is hafi verið að fletj­ast út eins og það birt­ist í hag­fræðinni í svo­kallaðri Phillips-kúrfu. Líta má á tvær meg­in­skýr­ing­ar að mínu mati. Ann­ars veg­ar: Auk­in alþjóðavæðing, þar sem ver­öld­in er að ein­hverju leyti orðin að ein­um markaði. Fyr­ir­tæki sem selja vör­ur sín­ar í mörg­um lönd­um og mæta sam­keppni frá er­lend­um fyr­ir­tækj­um séu ólík­legri til að hækka verð sem bygg­ist ein­göngu á inn­lend­um efna­hagsaðstæðum og fram­leiðslu­kostnaður­inn hef­ur lækkað veru­lega með alþjóðavædd­um vinnu­markaði. Tækn­in spil­ar stórt hlut­verk í þessu sam­hengi, eins og fyr­ir­tækið Amazon. Hins veg­ar hef­ur fram­kvæmd pen­inga­stefnu styrkst veru­lega á síðustu ára­tug­um. Ben Bern­ar­ke, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Banda­ríkj­anna, held­ur því fram að for­ysta Pauls Volckers hafi gert þar gæfumun, en þá tókst að festa verðbólgu­vænt­ing­ar al­menn­ings gagn­vart verðbólgu. Niður­stöður rann­sókna Bo­beica o.fl. benda t.d. til þess að traust­ari kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga leiki lyk­il­hlut­verk í því að skýra minnk­andi tengsl milli launa­hækk­ana og verðbólgu í Banda­ríkj­un­um und­an­farna þrjá ára­tugi. Að sama skapi kemst Alþjóðagreiðslu­bank­inn að þess­ari niður­stöðu, þ.e. áhrif launa­hækk­ana á verðbólgu eru minni í lönd­um þar sem verðstöðug­leika hef­ur verið náð en í lönd­um þar sem verðbólga er jafn­an meiri.

…munu vax­andi skort­ur á vinnu­afli og versn­andi verðbólgu­horf­ur breyta því?

Það eru hins veg­ar blik­ur á lofti um að sam­bandið milli verðbólgu og at­vinnu­stigs sé að styrkj­ast að nýju og hin hefðbundna Phil­ips-kúrfa end­ur­fædd. Þrennt kem­ur til: Í fyrsta lagi virðist vinnu­markaður­inn breytt­ur í Banda­ríkj­un­um eft­ir far­sótt­ina. Hag­töl­ur gefa til kynna að marg­ir hafi ekki skilað sér aft­ur inn á vinnu­markaðinn eða ákveðið að breyta um starfs­vett­vang. Að sama skapi eru stór­ir ár­gang­ar að detta út af vinnu­markaðnum sök­um ald­urs. Kenn­ing­ar eru uppi um að fram und­an gæti verið veru­leg­ur skort­ur á vinnu­afli sem muni leiða til launa­hækk­ana og svo kostnaðar­hækk­ana. Fram­leiðni, sam­kvæmt nýj­ustu töl­um, hef­ur einnig minnkað veru­lega. Í öðru lagi, þá hef­ur um nokk­urra ára skeið verið viðskipta- og tækn­i­stríð á milli Banda­ríkj­anna og Kína. Það, ásamt viðvar­andi fram­boðshnökr­um sem komu fyrst upp þegar far­sótt­in skall á, leiðir til þess að ákveðin störf hafa verið að fær­ast aft­ur til Banda­ríkj­anna og kostnaður fer hækk­andi sam­fara því. Í þriðja lagi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Þegar þetta þrennt, bæði skamm­tíma- og lang­tíma­vanda­mál, kem­ur sam­an gæti orðið snún­ara fyr­ir banda­ríska seðlabank­ann að koma bönd­um á verðbólgu.

Ef við lít­um á ís­lenska hag­kerfið í þessu sam­hengi, þá er það sama upp á ten­ingn­um. Mik­il þensla á vinnu­markaði og at­vinnu­leysi lítið. Að sama skapi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Sam­kvæmt síðustu Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands hef­ur hlut­fall þeirra sem bú­ast við að verðbólga verði meiri en 5% á næstu fimm árum hækkað tölu­vert á þessu ári. Það er ný saga og göm­ul að þegar verðbólga er yfir mark­miði í lang­an tíma eykst hætt­an á að kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga veikist og það get­ur tekið lang­an tíma að ná þeim aft­ur niður í mark­mið. Til að koma bönd­um á verðbólg­una þarf að viðhalda góðu sam­ræmi á milli rík­is­fjár­mála og pen­inga­mála. Að sama skapi er mik­il­vægt að tryggja öfl­ugt fjár­mála­kerfi sem tek­ist get­ur á við óróa á fjár­mála­mörkuðum og viðhaldið viðun­andi kjör­um. Það má jafn­framt ekki missa sjón­ar á mik­il­vægi þess að tryggja jafn­vægi í ut­an­rík­is­viðskipt­um og koma þar marg­ir þætt­ir að. Enn frem­ur verður það verk­efni að sjá til þess að fram­boðshlið hag­kerf­is­ins verði ekki hamlandi þátt­ur fyr­ir al­menn­ing og at­vinnu­lífið, en fram­boðshliðin er alltumlykj­andi og skoða verður gaum­gæfi­lega hvar fram­boðshnökra er að finna í hag­kerf­inu til að leysa krafta úr læðingi án þess að það hafi áhrif á verðlagið.

„Eigi skal gráta Björn bónda, held­ur skal safna liði,“ sagði Ólöf Lofts­dótt­ir, kona Björns Þor­leifs­son­ar hirðstjóra, þegar hún frétti að ensk­ir sjó­ræn­ingj­ar hefðu vegið mann sinn vest­ur á Rifi á Snæ­fellsnesi árið 1467. Þessa hvatn­ingu má heim­færa á verðbólguógn­ina og að halda verði áfram að grípa til aðgerða til að hamla því að hún nái fót­festu í ís­lensku efna­hags­lífi með skelfi­leg­um af­leiðing­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. janúar 2023.