Categories
Fréttir Greinar

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Deila grein

11/03/2024

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur mik­il­vægi þess að skapa styðjandi vinnu­um­hverfi fyr­ir fjöl­skyld­ur aldrei verið meira. Sem mennta- og barna­málaráðherra er ég stolt­ur stuðnings­maður þeirr­ar mik­il­vægu vinnu sem áunn­ist hef­ur með ný­und­ir­rituðum kjara­samn­ing­um breiðfylk­ing­ar­inn­ar og sam­taka at­vinnu­lífs­ins, með öfl­ugri aðkomu rík­is og sveit­ar­fé­laga. Þeir samn­ing­ar sem hér um ræðir eru ekki aðeins lög­fræðileg skjöl; þeir eru vitn­is­b­urður um skuld­bind­ingu of­an­greindra aðila við að byggja sam­fé­lag sem met­ur vel­ferð hverr­ar fjöl­skyldu og hvers barns.

Fram­ganga sveit­ar­stjórn­ar­fólks Fram­sókn­ar á þess­ari veg­ferð hef­ur fyllt mig stolti. Enn frem­ur er full ástæða til að hrósa aðilum vinnu­markaðar og þá sér­stak­lega breiðfylk­ing­unni og verka­lýðshreyf­ing­unni í heild fyr­ir að taka skýra af­stöðu með börn­um og fjöl­skyld­um þeirra, en ekki síður að hafa tekið af full­um þunga þátt í því að skapa grund­völl fyr­ir vel­sæld og stöðug­leika í land­inu.

Ég er full­viss um að af­drátt­ar­laus aðkoma rík­is og sveit­ar­fé­laga að samn­ing­un­um hafa í för með sér fram­fara­skref fyr­ir þjóðina og er það á ábyrgð okk­ar allra nú að leggj­ast á eitt til að ná þeim mark­miðum sam­an. Um­fram allt er það mikið fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórn­valda sé skýr áhersla á að fjár­festa í börn­um og barna­fjöl­skyld­um. Það hef­ur aldrei verið brýnna að for­gangsraða í þágu jafnra tæki­færa og lífs­gæða þess hóps, sam­hliða því sem við sjá­um auk­in merki þess að efn­is­leg­ur skort­ur og ójöfnuður meðal barna sé að aukast.

Aðgerðapakki stjórn­valda mun stuðla að aukn­um lífs­gæðum og jöfnuði meðal barna- og fjöl­skyldna. Ein af stærri áhersl­um aðgerðapakk­ans er breyt­ing­ar á barna­bóta­kerf­inu. Barna­bæt­ur verða hækkaðar, sam­hliða því sem dregið verður úr tekju­skerðingu þeirra. Um 10.000 fleiri for­eldr­ar og for­sjáraðilar munu fá greidd­ar barna­bæt­ur.

Öllum börn­um á grunn­skóla­aldri verða tryggðar gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir. Reynsla ná­granna­ríkja á borð við Finn­land hef­ur sýnt að hér er um að ræða risa­stórt skref í átt að aukn­um jöfnuði fyr­ir öll börn. Skóla­kerfið er lang­öflug­asta jöfn­un­ar­tækið okk­ar og með því að fjár­festa í gjald­frjáls­um skóla­máltíðum efl­um við það enn frek­ar. Það er gam­an að geta þess að þessi aðgerð er einnig í sam­ræmi við eitt af áherslu­atriðum Barnaþings. Barnaþings­menn síðustu ára hafa lagt ríka áherslu á að komið verði á gjald­frjáls­um skóla­máltíðum, með jöfnuð að leiðarljósi.

Þá verða fæðing­ar­or­lofs­greiðslur hækkaðar í þrem­ur áföng­um yfir samn­ings­tím­ann, til að treysta mark­miðið um sam­vist­ir barna við báða for­eldra. Þá er samstaða allra samn­ingsaðila um að vinna sam­an að mót­un aðgerða til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla á samn­ings­tím­an­um. Það er okk­ur sem sam­fé­lagi lífs­nauðsyn­legt og þar ber sér­stak­lega að hrósa sveit­ar­fé­lög­un­um fyr­ir vilja þeirra til að ráðast í það verk­efni.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti horn­steinn þess að hægt sé að skapa sam­fé­lag á Íslandi sem gef­ur svig­rúm fyr­ir jafn­vægi í lífi vinn­andi for­eldra og for­sjáraðila. Þeir eru rammi utan um þá þætti sem stuðla að aukn­um lífs­gæðum, sveigj­an­leika vinnu­tíma og sam­vist­um for­eldra og barna. Slík­ar ráðstaf­an­ir gera for­eldr­um kleift að taka virk­ari þátt í lífi barna sinna, allt frá því að mæta á skóla­at­b­urði og að geta verið viðstödd þau augna­blik sem mestu máli skipta.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti upp­skrift að því hvernig sam­fé­lag varðveit­ir gildi sín um það sem skipt­ir mestu máli fyr­ir lífs­gæði og vel­sæld. Það þarf ekki að fara mörg­um orðum hversu stóru hlut­verki slík­ur sam­fé­lags­sátt­máli gegn­ir í lífi barna og fjöl­skyldna. Þegar við horf­um fram á veg­inn skul­um við halda áfram að vinna sam­an – ríkið, sveit­ar­fé­lög­in, at­vinnu­lífið og verka­lýðsfé­lög – til að móta sam­fé­lag sem end­ur­spegl­ar sam­eig­in­leg gildi og von­ir okk­ar. Með þann hugs­un­ar­hátt að leiðarljósi erum við ekki aðeins að auka lífs­gæði nú­ver­andi kyn­slóða, held­ur einnig að ryðja veg­inn fyr­ir framtíð þar sem hvert barn á Íslandi get­ur dafnað.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.