Categories
Greinar

Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi

Deila grein

21/09/2021

Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi

Fólk sem sækist eftir því að komast til áhrifa í samfélaginu gerir það af ýmsum ástæðum. Það er mín reynsla að mörg hver eiga sín hjartans mál sem flest sækja í upplifun og reynslu sína af lífinu. Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég verið ötull talsmaður nýrrar sýnar í heilbrigðismálum. Sýnar sem byggist fyrst og fremst á heilbrigðisvísindum, heilsueflingu og forvörnum. Því er oft haldið fram að hver og ein manneskja beri ábyrgð á eigin heilsu. Það kann að vera að hluta til rétt en ekki að öllu leyti. Hver ber til dæmis ábyrgð á því að barn sem er 8 ára sé 20 kílóum of þungt? Hver ber ábyrgð á fólki sem liggur inni á lungnadeild og glímir við lungnakrabbamein sem rekja má til langvarandi reykinga frá unglingsárum? Hver ber ábyrgð á andlegri vanlíðan barna og hver ber ábyrgð á því að íbúar þessa lands búi við heilsusamlegt umhverfi? Þessar spurningar eru meðal annars viðfangsefni stjórnmálanna. Hvernig við forgangsröðum fjármunum og út frá hvaða forsendum skiptir lykilmáli.

Mín vegferð og barátta fyrir því að bæta heilsu fólks á öllum aldri er engin tilviljun. Innblásturinn sæki ég í mína reynslu af því að berjast sjálfur við heilsufarsleg vandamál sem framar öðru sliga nú heilbrigðiskerfin um heim allan. Á vegferð minni í gegnum þau 42 ár sem ég hef lifað hef ég varið meira en helmingi ævinnar í að glíma við offitu. Raunar var sú yfirþyngd það mikil um tíma að vinir mínir og ættingjar voru farnir að óttast um líf mitt. Offita er sjúkdómur sem hrjáir fleiri og fleiri íbúa á Íslandi með hverju árinu sem líður. Fylgikvillar offitu eru jafnvel enn hættulegri en kílóafjöldi. Þunglyndi, hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki 2, auknar líkur á ákveðnum krabbameinum, heilablóðfallsáhætta og stoðkerfisvandamál og er þá listinn alls ekki tæmdur.

Allir sammála um hvert þarf að stefna, samt gerist lítið

Mikil umræða hefur verið á Íslandi um offitu, fitusmánun og líkamsdýrkun rétt eins og í öðrum vestrænum ríkjum. Sitt sýnist hverjum þegar sú umræða ber á góma. Offita er þó ekki eina heilsufarslega vandamálið sem við þurfum að mæta á næstu árum og áratugum. Lífsstílstengdir sjúkdómar sem hægt er að fyrirbyggja eru mun fleiri og vandinn sem við blasir verði ekkert að gert mun sliga heilbrigðiskerfið. Það er mín upplifun að á undanförnum árum hefur þessum vanda aðallega verið mætt með plástrum og auknum útgjöldum. Skortur er á langtíma hugsjón í málaflokknum og því situr endurskipulagning heilbrigðismála á hakanum. Ég veit ekki um neinn málsmetandi aðila innan heilbrigðiskerfisins sem ekki er málflutningi mínum sammála. Hvar sem ég kem og hver sem hlustar skilur nákvæmlega mín sjónarmið. Veruleikinn er sá að heilsu okkar er ógnað fyrir margra hluta sakir yfir ævina og þær hættur eru flestar þekktar. Úrræðin eru miðuð að skammtímalausnum á meðan starfsemi heilbrigðiskerfisins leggur enn megináherslu á að taka á vandanum þegar skaðinn er skeður.

Erlendis hefur verið mikil umræða um þátt lífsstílstengdra sjúkdóma í dauðsföllum vegna COVID 19. Þessi umræða hefur ekki ratað á fjörur hér á landi sem kemur á óvart. Mun líklegra er að sjúklingar sem glíma við lífsstílstengda sjúkdóma veikist alvarlega eða jafnvel láti lífið úr COVID 19 en þeir sem búa við góða heilsu. Erlendis hefur þessi staðreynd kallað á umræðu um almenna lýðheilsu. Mikilvægt er að sú umræða fari einnig fram hér á landi.

Horfumst í augu við raunveruleikann og bregðumst við

Skortur á upplýstri umræðu um ýmis heilsufarsleg vandamál getur hamlað því að við horfumst í augu við raunveruleikann. Gleggsta dæmið eru offituaðgerðir en það virðist vera þegjandi samþykki í samfélaginu að ræða þær ekki að neinni alvöru. Hvers vegna framkvæmum við þær aðgerðir ekki alfarið hér á landi og niðurgreiðum þær að fullu? Það er væntanlega vegna þeirra fordóma sem samfélagið hefur gagnvart þeim sem glíma við offitu. Hér skal gera skýran greinarmun á þeim sem eru í yfirþyngd og þeim sem glíma við offitu. Magaaðgerðir eru það algengar á Íslandi að óhætt er að fullyrða að sparnaðurinn til lengri tíma sé verulegur svo ekki sé minnst á aukin lífsgæði. Þekkingarleysið á mikilvægi offituaðgerða og fordómar tröllríða samfélaginu án þess að upplýst umræða fari fram um árangur þeirra og áhættu að neinu marki. Fæstir leiða hugann að því hvernig hægt hefði verið að sporna við þeim gríðarlega offituvanda sem hrjáir þjóðina. Offita meðal íslenskra karla hefur til dæmis aukist úr 7,2% í 22,7%, og meðal kvenna úr 9,5% í 19,3% frá árinu 1990.

1/5 fullorðinna Íslendinga glímir nú við offitu. Hér spretta upp fatabúðir sem sértaklega selja föt á þennan stóra hóp enda þróunin hröð og ógnvænleg. Kyrrseta barna eykst á Íslandi en samt sem áður hefur engum dottið í hug að fjölga íþróttatímum í skólum eða auka markvissa hreyfingu barna á Íslandi til þess að veita einhverja mótspyrnu. Eftir hverju erum við að bíða? Er það yfirlýst markmið okkar að stórlega auka útgjöld til heilbrigðismála nánast einvörðungu til þess að mæta byrði lífsstílstengdra sjúkdóma? Varla.

Heilbrigðismál eru pólitísk og það er stjórnmálanna að setja stefnuna

Ég hef heyrt þá umræðu skjóta upp kollinum reglulega að sjúkdómurinn offita sé einhverskonar líkamsvirðingarvandamál. Það skal sannarlega tekið fram að stór hópur hér á landi er í yfirvigt enda mælikvarðinn sem farið er eftir eflaust orðinn úreltur. Smánun, jaðarsetning og lítilsvirðing gagnvart einstaklingum í yfirvigt er ekki vegurinn til batnaðar. Rannsóknir sýna að slíkt viðhorf hefur einmitt gagnstæð áhrif á meðan staðreyndirnar tala sínu máli. Þegar ég var rétt tæp 200 kíló var ég að deyja úr offitu. Þegar ég var 20 kílóum of þungur var ég að stefna í þessa átt og samfélagið dreifði þeim skilaboðum til mín að ekkert væri að óttast. Ekki var því gefinn gaumur að einu né neinu leyti. Engar fyrirbyggjandi meðferðir voru í boði og í öllum mínum læknisheimsóknum man ég aldrei eftir því að læknirinn gæfi yfirvigt minni og síðar offitu neina sértaka athygli. Sem betur fer hefur kerfið tekið við sér og mun algengara er að læknar gefi offitu gaum en þekktist hér áður fyrr. Útgjöld vegna lífsstílstengdra sjúkdóma halda þó áfram að aukast eins og áður sagði og því fljótum við sofandi að feigðarósi.

Heilbrigðismál eru pólitísk eins og svo margt annað í okkar samfélagi. Það að tryggja að Íslendingar séu við sem besta heilsu út æviskeiðið er líklega einhver besta fjárfesting sem hægt er að ráðast í. Ef þú telur mikilvægt að við hefjumst handa við kerfisbreytingar með það að markmiði að efla andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks þá er kosturinn í komandi kosningum augljós.

Jóhann Friðrik Friðriksson, lýðheilsufræðingur og í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 20. september 2021.