Categories
Greinar

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Rannsóknir sýna að menntun er ávísun á aukin lífsgæði einstaklinga og samfélaga. Menntun hefur einnig jákvæð áhrif á heilsufar en heilsa okkar er jú eitt það dýrmætasta sem við eigum. Sá sem ekki er við góða heilsu á í erfiðleikum með að njóta annarra þátta daglegs lífs. Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og því benda rannsóknir til þess að félagsleg umgjörð barna hafi mótandi áhrif á velgengni þeirra á lífsleiðinni. En börn þurfa ekki aðeins menntun. Börn þurfa einnig ást og umhyggju, tækifæri til þess að vera börn og upplifa heiminn í leik og starfi. Börn þurfa að læra samvinnu og öðlast félagsþroska þar sem mikilvægi samstarfs er oft grundvöllur að árangri í lífinu. Börn þurfa virka hreyfingu og þar vega tækifærin til íþróttaiðkunar þungt.

Deila grein

19/02/2021

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Árið 1907 tóku lög um skólaskyldu gildi á Íslandi. Samkvæmt ágætri grein Ragnars Þorsteinssonar, fyrrum fræðslustjóra Reykjavíkurborgar, sem kom út í tilefni af 100 ára afmæli laganna var ekki einhugur um útfærsluna í kringum aldamótin þótt flestum hafi verið það ljóst að mikilvægi menntunar fyrir íslensk börn og almenning væri grundvöllur framfara þjóðarinnar til lengri tíma. Mér vitanlega hefur ekki nokkrum Íslendingi dottið í hug að afnema skólaskyldu né láta sér detta sú fásinna í hug að öll börn ættu ekki að hafa sama rétt til menntunar hér á landi óháð efnahag. Við trúum því og treystum að menntun sé hluti mannréttinda okkar og fjárfestingu í menntun barnanna okkar sé vel varið.

Rannsóknir sýna að menntun er ávísun á aukin lífsgæði einstaklinga og samfélaga. Menntun hefur einnig jákvæð áhrif á heilsufar en heilsa okkar er jú eitt það dýrmætasta sem við eigum. Sá sem ekki er við góða heilsu á í erfiðleikum með að njóta annarra þátta daglegs lífs. Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og því benda rannsóknir til þess að félagsleg umgjörð barna hafi mótandi áhrif á velgengni þeirra á lífsleiðinni. En börn þurfa ekki aðeins menntun. Börn þurfa einnig ást og umhyggju, tækifæri til þess að vera börn og upplifa heiminn í leik og starfi. Börn þurfa að læra samvinnu og öðlast félagsþroska þar sem mikilvægi samstarfs er oft grundvöllur að árangri í lífinu. Börn þurfa virka hreyfingu og þar vega tækifærin til íþróttaiðkunar þungt.

Samkvæmt ÍSÍ má ætla að um 60.000 börn og ungmenni á Íslandi stundi íþróttir en mikilvægi íþrótta er ótvírætt fyrir þroska og heilsu barna auk þess sem forvarnargildi þeirra er staðreynd. Nágrannaþjóðir okkar horfa öfundaraugum á gæði þjálfunar og faglega umgjörð íþróttastarfs hér á landi þar sem áhersla hefur verið lögð á menntun þjálfara og fyrsta flokks aðstöðu. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur um langt skeið lagt mikla áherslu á íþróttir og tómstundir þó svo málaflokkurinn sé ekki lögbundin þjónusta rétt eins og menntakerfið eða velferðarþjónustan. Nýlega var ákveðið að ráðast í gríðarlega metnaðarfulla framkvæmd við Stapaskóla þar sem sundlaug og fullbúið keppnisíþróttahús mun rísa á næstu árum auk þess sem hvatagreiðslur voru hækkaðar og fyrirmyndarsamningar gerðir við íþróttafélögin til þess að efla starf þeirra enn frekar. Fjármunum þessum er vel varið en betur má ef duga skal.

Fyrir rúmri öld var það ákvörðun alþingis að leggja grunninn að menntakerfi okkar til framtíðar. Grunnurinn að íþróttastarfi hér á landi hefur fyrir löngu verið lagður með þrotlausri vinnu sjálfboðaliða en upp á vantar að tryggja öllum börnum og ungmennum gjaldfrjálsar íþróttir hér á landi óháð efnahag þeirra sem að þeim standa. Það er kominn tími til þess að ríkisvaldið viðurkenni mikilvægi íþróttastarfs fyrir lýðheilsu í landinu og fjármagni þennan mikilvæga málaflokk til jafns við sveitarstjórnarstigið. Fyrsta skrefið í þá átt væri mótframlag ríkisins með hverju barni sem stundar íþróttir hér á landi. Langtímaplanið væri svo gjaldfrjálsar íþróttir á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni upp að lögaldri. Nánari útfærsla færi fram í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Arðurinn af fjárfestingunni væri ómetanlegur til langrar framtíðar.

Jóhann Friðrik Friðriksson, er lýðheilsufræðingur og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.