Categories
Greinar

Kæri nágranni!

Það er von mín að þú, kæri nágranni minn í Reykjanesbæ, upplifir öryggi og vitir að það er öryggisnet með sterku fagfólki á öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins sem stendur þétt við bak okkar þegar á reynir. Næstu mánuðir munu mæta okkur með ýmsum áskorunum. En við höfum sýnt og sannað að við gefumst ekki auðveldlega upp og þegar við stöndum aftur á fætur verðum við enn sterkari. Í okkur býr nefnilega ótrúleg seigla. Við þekkjum það vel að þurfa að hjálpa hvert öðru á fætur og gerum það af miklum kærleika og vináttu. Saman getum við gert það!

Deila grein

19/02/2021

Kæri nágranni!

Sem formaður velferðarráðs hef ég fengið að taka þátt í þeirri vinnu að auka lífsgæði í Reykjanesbæ í nánu samstarfi við íbúa og starfsfólk. Fyrir það er ég afskaplega þakklát og stolt af öllum þeim sem ég hef fengið að vinna með í málaflokknum. Við hér í Reykjanesbæ erum lánsöm. Lánsöm af því að hér standa íbúar þétt saman, aðstoða hvern annan og rétta fram hjálparhönd þegar þörf er á. Við erum líka lánsöm því við búum yfir ótrúlegu starfsfólki sem brennur fyrir því að vinna starf sitt af alúð og hefur valið að starfa í málaflokknum af hugsjón. Hugsjón um að það sem þau leggja af mörkum skili sér í því að bæta lífsgæði annarra.

En af hverju leggjum við áherslu á að veita góða velferðarþjónustu? Það er til þess að við íbúar upplifum að öryggisnet sveitarfélagsins grípi okkur þegar við þurfum á því að halda. Öryggi er eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra. Við erum á þessari stundu að ganga í gegnum tíma sem eru, eins og margoft hefur komið fram, fordæmalausir. Öryggi hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en einmitt núna. Á þessari stundu kemur einnig fram að hlutverk samfélagsins í að tryggja öryggi er gríðarlegt þegar einstaklingar og fjölskyldur sem hafa sjaldan eða aldrei þurft að leita eftir stuðningi sveitarfélagsins þurfa nú að gera einmitt það. Það er á þeirri stundu sem mikilvægt er að minna á að velferðarþjónusta er ekki til staðar eingöngu fyrir ákveðna hópa samfélagsins. Hún er og hefur ætíð verið fyrir okkur öll.

Það er von mín að þú, kæri nágranni minn í Reykjanesbæ, upplifir öryggi og vitir að það er öryggisnet með sterku fagfólki á öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins sem stendur þétt við bak okkar þegar á reynir. Næstu mánuðir munu mæta okkur með ýmsum áskorunum. En við höfum sýnt og sannað að við gefumst ekki auðveldlega upp og þegar við stöndum aftur á fætur verðum við enn sterkari. Í okkur býr nefnilega ótrúleg seigla. Við þekkjum það vel að þurfa að hjálpa hvert öðru á fætur og gerum það af miklum kærleika og vináttu. Saman getum við gert það!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar og varabæjarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.