Categories
Greinar

Styðjum lítil og meðalstór fyrirtæki

Deila grein

17/09/2021

Styðjum lítil og meðalstór fyrirtæki

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi og því er mikilvægt að skapa sem bestar aðstæður fyrir þau til að vaxa og dafna. Í viðtali við Ingibjörgu Björnsdóttur, lögfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins og verkefnastjóra Litla Íslands, sem birt var í maí 2020 kom fram að árið 2018 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 69% af heildarlaunum í landinu. Það er því ljóst að það er samfélaginu mikilvægt að efla viðspyrnu þeirra og jafna leikinn.

Þrepaskipting tryggingagjalds og tekjuskatts

Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og við viljum taka upp þrepaskipt tryggingagjald til lækkunar á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því viljum við taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 milljónir króna á ári mætti til dæmis skoða að skattleggja hærra á móti lækkuninni til að draga ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi. Við í Framsókn viljum enn fremur leggja áherslu á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila. Þó þessi gjöld vegi ekki þungt í heildarsamhenginu er ljóst að þau geta verið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki, einkum í upphafi reksturs.

Hvatning til verðmætasköpunar

Þessar skattatillögur Framsóknar verða áherslumál eftir kosningar. Málin þarf að ræða og útfæra nánar í samvinnu við atvinnulífið og mögulega samstarfsflokka. Meginatriðið er að við ætlum að jafna leikinn á fyrirtækjamarkaði með því að jafna stöðuna á milli stóru fyrirtækjanna, sem sum geta hagnast verulega, og minni og meðalstóru fyrirtækjanna til að þau geti haldið blómlegum rekstri áfram. Tillögurnar eru ekki stórtækar og verða ekki til þess að stærri fyrirtæki taki á sig íþyngjandi skattahækkanir heldur er um að ræða hófsamar lausnir.

Á bak við hvert fyrirtæki, bæði lítil og stór, er fólk sem búið er að leggja hart að sér við að skapa bæði sér og samfélaginu verðmæti og það viljum við vernda. Við lítum þannig á að með þessum hætti sé hægt að nota skattkerfið enn betur til þess að hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir

Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á vf.is 17. september 2021.

Categories
Greinar

Kæri nágranni!

Deila grein

19/02/2021

Kæri nágranni!

Sem formaður velferðarráðs hef ég fengið að taka þátt í þeirri vinnu að auka lífsgæði í Reykjanesbæ í nánu samstarfi við íbúa og starfsfólk. Fyrir það er ég afskaplega þakklát og stolt af öllum þeim sem ég hef fengið að vinna með í málaflokknum. Við hér í Reykjanesbæ erum lánsöm. Lánsöm af því að hér standa íbúar þétt saman, aðstoða hvern annan og rétta fram hjálparhönd þegar þörf er á. Við erum líka lánsöm því við búum yfir ótrúlegu starfsfólki sem brennur fyrir því að vinna starf sitt af alúð og hefur valið að starfa í málaflokknum af hugsjón. Hugsjón um að það sem þau leggja af mörkum skili sér í því að bæta lífsgæði annarra.

En af hverju leggjum við áherslu á að veita góða velferðarþjónustu? Það er til þess að við íbúar upplifum að öryggisnet sveitarfélagsins grípi okkur þegar við þurfum á því að halda. Öryggi er eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra. Við erum á þessari stundu að ganga í gegnum tíma sem eru, eins og margoft hefur komið fram, fordæmalausir. Öryggi hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en einmitt núna. Á þessari stundu kemur einnig fram að hlutverk samfélagsins í að tryggja öryggi er gríðarlegt þegar einstaklingar og fjölskyldur sem hafa sjaldan eða aldrei þurft að leita eftir stuðningi sveitarfélagsins þurfa nú að gera einmitt það. Það er á þeirri stundu sem mikilvægt er að minna á að velferðarþjónusta er ekki til staðar eingöngu fyrir ákveðna hópa samfélagsins. Hún er og hefur ætíð verið fyrir okkur öll.

Það er von mín að þú, kæri nágranni minn í Reykjanesbæ, upplifir öryggi og vitir að það er öryggisnet með sterku fagfólki á öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins sem stendur þétt við bak okkar þegar á reynir. Næstu mánuðir munu mæta okkur með ýmsum áskorunum. En við höfum sýnt og sannað að við gefumst ekki auðveldlega upp og þegar við stöndum aftur á fætur verðum við enn sterkari. Í okkur býr nefnilega ótrúleg seigla. Við þekkjum það vel að þurfa að hjálpa hvert öðru á fætur og gerum það af miklum kærleika og vináttu. Saman getum við gert það!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar og varabæjarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.