Categories
Greinar

Sundabraut í samvinnu og sátt

Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist árið 2025 og lokið fyrir árið 2030 og það er það sem að er stefnt. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir samvinnuverkefnum hins opinbera og einkaaðila, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra lagði fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Sundabraut er eitt þeirra sex verkefna sem talað var um sem samvinnuverkefni og hefur Alþingi heimilað Sundabraut sem samvinnuverkefni. Með samvinnuverkefni væri Vegagerðinni heimilt að undangengnu útboði að gera samning við einkaaðila um samvinnuverkefni um framkvæmd um þau verkefni sem tilgreind eru í þeim lögum og hafa í för með sér aukið umferðaröryggi.

Deila grein

18/02/2021

Sundabraut í samvinnu og sátt

Hugmyndin um Sundabraut er ekki ný af nálinni, hún var fyrst sett fram fyrir nærri 50 árum síðan og náði hún inn í aðalskipulag Reykjavíkur fyrir 35 árum. Frá því Sundabraut komst inn á aðalskipulag eru liðin um níu kjörtímabil bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Enn á eftir að útfæra nánar lagningu og hönnun Sundabrautar en þau tímamót eru þó runninn upp að við getum treyst því að af henni verði. Sundabraut kemur til með að auðvelda umferð milli miðborgar og Grafarvogs, létta á umferð á höfuðborgarsvæðinu og stytta leiðir út á land sem og inn á höfuðborgarsvæðið.

Mikilvægi þessa samgöngumannvirkis er ekki bara samgöngubót fyrir höfuðborgina heldur er þetta mikilvæg samgöngubót fyrir Vestlendinga, Vestfirðinga sem og Norðlendinga. Sundabraut hefur áhrif á daglegt líf margra sem búa á Vesturlandi og aka daglega til vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðið og öfugt. Sundabraut styttir vegalengdir og eykur umferðaröryggið, þá mun Sundabraut vafalaust koma til með að bæta almenningssamgöngur.

Víðtæk áhrif

Samkvæmt nýlegri íbúakönnun býr hamingjan á Snæfellsnesi, enginn dregur það í efa. Allar líkur eru á að Sundabraut komi til með að breyta miklu fyrir Vestlendinga en hvort hamingja þeirra aukist mikið skal ekki segja en lengi getur gott batnað. Í könnuninni kom fram að það sem íbúar töldu hamla góðri búsetu sé ástand vegakerfisins. Þrátt fyrir að heimavinna hafi aukist til muna og störf án staðsetningar hafi raungerst í COVID 19, þá hafa samgöngur sífellt meiri áhrif á daglegt líf fólks nú en áður. Af því leiðir að val um búsetu verður metin út frá því. Tvöföldun Vesturlandsvegar og lagning Sundabrautar styrkir val fólks til búsetu á Vesturlandi öllu og þau áhrif gætir lengra. Með Sundabraut opnast einnig auknir möguleikar fyrir nýja staðsetningu fyrirtækja og stofnanna.

Samvinnuverkefni

Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist árið 2025 og lokið fyrir árið 2030 og það er það sem að er stefnt. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir samvinnuverkefnum hins opinbera og einkaaðila, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra lagði fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Sundabraut er eitt þeirra sex verkefna sem talað var um sem samvinnuverkefni og hefur Alþingi heimilað Sundabraut sem samvinnuverkefni. Með samvinnuverkefni væri Vegagerðinni heimilt að undangengnu útboði að gera samning við einkaaðila um samvinnuverkefni um framkvæmd um þau verkefni sem tilgreind eru í þeim lögum og hafa í för með sér aukið umferðaröryggi.

Áfram veginn með Sundabraut.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 17. febrúar 2021.