Categories
Greinar

Hvert er verk­efnið – leiðin út

Deila grein

23/01/2022

Hvert er verk­efnið – leiðin út

Heilbrigðiskerfið okkar stendur nú í ströngu við að takast á við enn eitt afbrigði Covid-19 veirunnar – ómikron. Covid-19 innlagnir og eftirköst veikinda kalla á tvöfalda umönnun auk þess sem heilbrigðisstofnanir verða að vera í stakk búnar til að sinna bráðum veikindum og slysum sem eru ótengd Covid-19.

Fram undan eru lokametrar þessarar bylgju og þá skiptir máli að verkefnið sé skýrt afmarkað svo að við missum ekki sjónar á því hvert við ætlum okkur.

Það er frumskylda stjórnvalda að tryggja þær aðstæður að allir geti sótt sér viðunandi heilbrigðisþjónustu. Við ætlum okkur út úr þessum faraldri og öflugt heilbrigðiskerfi er því forgangsverkefnið.

Við vinnum með spítalanum

Þann 28. desember fór Landspítali á neyðarstig þegar ljóst var að fjölgun Covid-19 tilfella í samfélaginu myndi hafa veruleg áhrif á starfsemi á spítalans. Var sú ákvörðun tekin að vandlega íhuguðu máli, og byggði á meðal annars á niðurstöðu spálíkans sem unnið var í samstarfi við Háskóla Íslands.

Ómikron afbrigði veirunnar er töluvert meira smitandi en önnur afbrigði hafa verið. Það þýðir að starfsfólk á heilbrigðisstofnunum hefur í meira mæli smitast eða lent í sóttkví, með tilheyrandi röskun á getu stofnananna að tryggja fullnægjandi mönnun. Þegar þetta er skrifað eru til að mynda 187 starfsmenn Landspítala í einangrun vegna veirunnar.

Við þessu hefur þurft að bregðast hratt, hafa bæði sjálfstætt starfandi aðilar, heilbrigðisstofnanir um allt land og einstaklingar í bakvarðarsveitum sýnt snör viðbrögð til að tryggja mönnun á Landspítala. Við getum þakkað fyrir að eiga þennan mannskap að, það er ekki sjálfgefið. Þá hefur spítalanum verið veitt svigrúm til að bjóða upp á greiðslur fyrir viðbótarvinnuframlag næstu fjórar vikurnar. Sú aðgerð mun að öllum líkindum auka mönnun um 20-30%.

Saman hefur okkur því tekist að brúa bilið vegna áskorunar um mönnun og Landspítali stendur sterkari.

Styrkur heilbrigðiskerfisins og Covid-19 göngudeildar

Ósérhlífni og hugvit heilbrigðisstarfsfólks þegar á reynir hefur verið aðdáunarvert. Þetta er tíminn þar sem seigla og útsjónarsemi kerfisins skín sem skærast. Hvert sem litið er má sjá að starfsfólk reynir að finna lausnir og vinna saman að því að veita lífsnauðsynlega þjónustu.

Með hugkvæmni og útsjónarsemi, m.a. í formi göngudeildar Covid-19 hefur þjónustan stöðugt verið aðlöguð eftir því sem fagfólkið hefur öðlast betri og dýpri skilning á eðli og eiginleikum veirunnar.

Fjölmargir mjög veikir sjúklingar, sem í nágrannalöndum okkar eru í flestum tilvikum lagðir inn á sjúkrahús, hafa hér á landi fengið meðferð á göngudeildinni og árangurinn er ótvíræður; innlagnir vegna sjúkdómsins eru með því minnsta sem þekkist.

Mikilvægi aðferðafræði Covid-19 göngudeildarinnar sannaði sig enn og aftur á síðustu vikum þegar hún tók við mörg þúsund einstaklingum til viðbótar vegna ómikron og forgangsraðaði þjónustu og meðferð til þeirra sem raunverulega þurftu á henni að halda.

Þá er árangur gjörgæslumeðferðar Covid-19 sjúklinga einnig eftirtektarverður. Meðallegutími er að styttast og innlagnarhlutfallið að minnka. Það vinnur nú með okkur þegar útbreiðslan er jafn mikil og raun ber vitni.

Afléttingar í skrefum

Það er ljóst að bjartari tímar eru í kortunum og við þurfum að stíga varfærin skref í átt að afléttingum. Þrátt fyrir að einkenni ómikron séu vægari og minna sé um sjúkrahúsinnlagnir þá er fólk enn að veikjast. Eiginleikar ómikron veirunnar valda því að mikið er um smit á meðal barna og ungmenna, með tilheyrandi áhrifum á fjölskyldur og samfélagið í heild.

Brýnt er því að skoða hvernig megi létta á sóttvarnarráðstöfunum til að halda samfélaginu sem mest gangandi. Í samráði við sóttvarnalækni eru nú allar mögulegar afléttingar í skoðun með hliðsjón af skynsemi og öryggi. Næstu skref eru að aflétta neyðarstigi spítalans. Áður en það er gert verðum við að vera fullviss um að slíkt sé óhætt. Það verður gert að vel ígrunduðu máli, með hliðsjón af nýjustu spálíkönum og með hliðsjón af gögnum frá okkar færustu sérfræðingum.

Heilbrigðiskerfið í heild sinni er að takast vel á við þessa áskorun en það er eingöngu gert með miklu vinnuframlagi heilbrigðisstarfsfólks, mikilli samvinnu heilbrigðisstofnana um allt land, og með samstilltum aðgerðum – þ.e. sóttvarnaraðgerðum og aðgerðum stjórnvalda til að létta á álagi og tryggja mönnun.

Fram undan eru því afléttingar en við þurfum áfram að vera varkár og feta leiðina út með stuttum en öruggum skrefum.

Við ráðum við stöðuna

Fyrir það er vert að staldra við og þakka fyrir.

Allt samfélagið hefur lagt mikið á sig til að ná þessum árangri sem nú blasir við. Með því að standa saman að sóttvarnaráðstöfunum höfum við náð að hemja vöxt veirunnar, vernda okkar viðkvæmustu hópa og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið.

Þá hefur það hugarfar sem hefur einkennt heilbrigðisstarfsfólk á síðustu vikum verið fyrirmynd fyrir okkur öll á þessum tímapunkti. Með öflugri samstöðu og miklum fórnum almennings og heilbrigðisstarfsfólks ásamt stuðningi heilbrigðisyfirvalda er að takast að koma í veg fyrir óhefta útbreiðslu alvarlegra veikinda hér á landi með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið í landinu.

Það er því fullt tilefni til þess að vera bjartsýn þó að áfram reyni nú á hina margfrægu íslensku seiglu og samvinnu.

Við erum á réttri leið og munum og eigum að feta þá leið saman.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. janúar 2022.

Categories
Greinar

Klárum leikinn

Deila grein

05/03/2021

Klárum leikinn

Að kljást við Kórónaveiruna er auðvitað flóknara verkefni en hver annar fótboltaleikur. Við erum þó á viðkvæmum tímapunkti í þessari baráttu og ég ætla að leyfa mér samlíkinguna við fótboltaleik.

Þjóðin hefur sameinast í verkefninu í heilt ár og náð samstöðu í sóttvörnum. Þess vegna, ásamt harðari aðgerðum á landamærum, getum við nú leyft okkur langþráðar tilslakanir, umfram og á undan flestum öðrum þjóðum.

Það er þó enn mikið atvinnuleysi, tekjufall og sjóðsþurrð hjá fjölmörgum heimilum og fyrirtækjum. Við eigum mikið undir að allir hafi orku til að taka þátt í viðspyrnunni. Hættan er sú næstu þrjá til fjóra mánuði að við föllum í þá gryfju að bíða, og kosningar hafa áhrif hér.

Það eru þekkt viðbrögð á lokamínútum fótboltaleiks þegar liðið hefur barist rosalega í 85 mín., leikurinn stendur í 90 mín. plús. Við erum 1-0 yfir. Við bökkum, bíðum og horfum á dómarann og klukkuna. Einhver kallar „einbeiting“. Gott og vel og verðugt, en hún verður að vera á réttu hlutina. Ekki á klukkuna, dómarann og vonina um að sleppa til. Ekki á prófkjör, stjórnarsáttmálann, kosningar eða hækkandi sól.

Umræðan nú hverfist mikið til um framvindu bólusetninga hér og annars staðar í heiminum, enda algert lykilatriði í baráttunni við veiruna og forsenda þess að koma atvinnulífinu af stað, ná niður atvinnuleysi og endurheimta fyrri efnahagslegan styrk.

Einbeitingin verður að vera á boltann og næsta návígi, næstu sendingu; atvinnulífið, heimilin og fyrirtækin, sumarstörfin fyrir skólafólkið, virkni þeirra sem eru atvinnulausir og að allir verði tilbúnir að taka við ferðamönnum þegar þeir koma. Nú snýst þetta um aukakraft. Einbeitingin felst m.a. í framlengingu úrræða sem eru til staðar og hafa virkað.

Við höfum vikið fjármálareglum til hliðar og aukið svigrúm til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs. Það var gert til þess að mæta efnahagslegum afleiðingum faraldursins, draga úr högginu og mæta óhikað tekjufalli og auknum útgjöldum, sem birtast í fjölmörgum aðgerðum. Markmiðið allan tímann er að koma okkur í gegnum þetta þannig að við verðum öll tilbúin þegar ferðamennirnir koma og viðspyrnan hefst fyrir alvöru.

Nú er ekki tíminn til að bíða! Við ætlum að koma saman út úr þessu með grænt, stafrænt og skapandi hagkerfi.

Klárum leikinn fyrir heimilin og fyrirtækin og viðspyrnuna fyrir íslenskan efnahag.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. mars 2021.

Categories
Greinar

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Deila grein

24/01/2021

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Það er til­efni til að vera bjart­sýn. Ljós er við enda gang­anna með til­komu bólu­efn­is og við vit­um að betri tím­ar eru í vænd­um. Það eru uppi von­ir um að hag­vöxt­ur á heimsvísu muni taka veru­lega við sér vegna tækni­fram­fara. Á Íslandi hafa fram­lög til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina aldrei verið um­fangs­meiri en á þessu ári. Mark­mið stefn­unn­ar eru skýr: Skapa fleiri störf í þekk­ing­ar­grein­um. Megin­á­stæða þess að stjórn­völd fara í þessa veg­ferð er að við höf­um trú á framtíðinni og vilj­um fjár­festa í henni. Fjár­fest­ing­in er arðbær, fjöldi nýrra starfa verður til og fjöl­breytni at­vinnu­lífs­ins eykst. Sam­vinna sveit­ar­fé­laga, mennta­stofn­ana, vís­inda­sam­fé­lags og at­vinnu­lífs­ins verður kjarn­inn í nýrri klasa­stefnu til framtíðar og trygg­ir betri nýt­ingu fjár­muna.

Fjár­fest­ing­in nær 3% af lands­fram­leiðslu

Aukn­ing rík­is­fram­laga til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina hef­ur hækkað um 78% frá 2019. Hér fer sam­an kraft­ur hins op­in­bera og at­vinnu­lífs­ins, þar sem end­ur­greiðslur hafa verið aukn­ar til muna og fyr­ir­tæki í þess­um geira, sem stunda öfl­ug­ar rann­sókn­ir og þró­un­ar­starf, hafa þegar nýtt. Tíma­setn­ing­in á þess­ari stefnu­mörk­un er rétt og eyk­ur lík­urn­ar á því að hlut­fall starfa í þekk­ing­ar­grein­um fari vax­andi á kom­andi árum. Mest­ur vöxt­ur hef­ur verið í tæknifyr­ir­tækj­um á heimsvísu og mun hann halda áfram sök­um þess að tækn­inotk­un hef­ur auk­ist mikið á tím­um kór­ónu­veirunn­ar, hvort sem á við um fjar­kennslu, net­versl­un eða fjar­fundi. Ljóst er að marg­ir eru að nýta tíma sinn bet­ur vegna tækn­inn­ar og þróa nýj­ar aðferðir við störf sín. Sum­ir ganga svo langt að segja að á aðeins nokkr­um mánuðum hafi sta­f­ræn þekk­ing auk­ist meira en nokk­ur hafi gert sér von­ir um á 10 árum og kalla það „10-ára tæknis­tökk­breyt­ing­una“. Afar lík­legt er að mark­miðið um fram­lag hins op­in­bera til rann­sókn­ar og þró­un­ar verði 3% af lands­fram­leiðslu í ár. Þetta mark­mið þótti draum­kennt fyr­ir ekki svo löngu.

Rann­sókna­sjóður aldrei stærri

Til­kynnt hef­ur verið um út­hlut­un styrkja Rann­sókna­sjóðs fyr­ir árið 2021. Alls hljóta 82 ný verk­efni styrk sem er mesti fjöldi frá upp­hafi og jafn­framt hef­ur heild­ar­upp­hæð sem út­hlutað er aldrei verið hærri. Fram­lög til Rann­sókna­sjóðs hafa hækkað en hann er leiðandi sam­keppn­is­sjóður hér á landi sem hef­ur verið starf­rækt­ur frá ár­inu 2004. Hlut­verk sjóðsins er að styrkja vís­inda­rann­sókn­ir og rann­sókn­artengt fram­halds­nám á Íslandi. Síðustu ár hafa fjár­fram­lög til sjóðsins verið um 2,5 millj­arðar kr. en í sam­ræmi við stefnu Vís­inda- og tækni­ráðs sem samþykkt var á síðasta ári voru fjár­veit­ing­ar til sjóðsins hækkaðar í 3,7 millj­arða kr. fyr­ir þetta ár. Árið 2020 var einnig veitt aukafram­lag til sjóðsins vegna áhrifa Covid-19, alls 775,6 millj­ón­ir kr. Styrk­veit­ing­ar til nýrra verk­efna nema á þessu ári 1,3 millj­örðum kr., en þar sem verk­efn­in eru al­mennt til þriggja ára verður heild­ar­fram­lag vegna þeirra um 4 millj­arðar kr. á ár­un­um 2021-2023. Auk nýrra verk­efna koma tæp­lega 2 millj­arðar kr. til greiðslu á ár­inu vegna styrkja til eldri verk­efna. Rann­sókna­sjóður styrk­ir einnig þátt­töku ís­lenskra aðila í mörg­um alþjóðlega sam­fjár­mögnuðum verk­efn­um. Það er afar ánægju­legt að fylgj­ast með verk­efn­un­um og eru þau fjöl­breytt; hátíðni­kerfi; nátt­úru­vá, mer­gæxli, utangena­erfðir og sam­lífi manna og ör­vera.

Við lif­um sann­ar­lega á áhuga­verðum tím­um og það er að birta til!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Willum Þór Þórsson, formaður Þingflokks Framsóknarmanna og formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþingis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.

Categories
Greinar

Hugrekki stýrir för

Deila grein

14/12/2020

Hugrekki stýrir för

Óvæntar aðstæður eru stundum ógnvekjandi. Þær bera með sér áskoranir, sem við getum valið að taka eða hafna. Við slíkar aðstæður sést úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir – hvort þeir takast á við aðsteðjandi vanda með kreppta hnefana og hugann opinn, eða hræðast og láta kylfu ráða kasti.

Frá því Covid-faraldurinn skall á Íslandi í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra. Vilja okkar til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu; heilbrigðis- og hagkerfinu, menntun og menningu, börnum og ungmennum. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægast. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.

Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Atvinnuleysi varð sögulega mikið og í tilraun til að skilja aðstæður mótaði John M. Keynes þá kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tímabundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma, en hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.

Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar vegaframkvæmdir.

Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa hér en víða annars staðar, því þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.

Stjórnvöld sýna hugrekki í þeirri baráttu að lágmarka efnahagssamdráttinn, vernda samfélagið og mynda efnahagslega loftbrú þar til þjóðin verður bólusett. Það er skylda okkar að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til bjargar.

Sjálfbær ríkissjóður eykur farsæld

Staða ríkissjóðs Íslands í upphafi faraldursins var einstök. Skuldir voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, en til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna um 100%. Góður og traustur rekstur hins opinbera undanfarin ár hefur þannig reynst mikil þjóðargæfa, enda býr hann til svigrúmið sem þarf þegar illa árar. Viðvarandi hallarekstur er hins vegar óhugsandi og því er brýnt að ríkissjóður verði sjálfbær, greiði niður skuldir og safni í sjóði að nýju um leið og efnahagskerfið tekur við sér. Þá mun líka reyna á hugrekki stjórnvalda, að skrúfa fyrir útstreymi fjármagns til að tryggja stöðugleika um leið og atvinnulífið þarf að grípa boltann.

Íslenska hagkerfið hefur alla burði til að ná góðri stöðu að nýju. Landið er ríkt að auðlindum og við höfum fjárfest ríkulega í hugverkadrifnum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná aftur fyrri stöðu í ríkisfjármálum, en fyrst þarf að gefa vel inn og komast upp brekkuna fram undan.

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju D. Alfreðsdóttur og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Lilja er varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór er formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.

Categories
Fréttir

Lýðheilsa er fjölþætt og kallar á lausnir á öllum sviðum samfélagsins

Deila grein

16/11/2020

Lýðheilsa er fjölþætt og kallar á lausnir á öllum sviðum samfélagsins

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, sagði á Alþingi í liðinni viku að „[e]itt af því sem við leiðum hugann frekar að við þær aðstæður sem við erum að kljást við er lýðheilsa“. 

Willum Þór sagði lýðheilsu vera fjölþætta, enda snéri hún að líkamlegu, félagslegu og andlegu heilbrigði manna. Minnti hann á að allt íþróttastarf yrði að komast af stað að sem fyrst enda mikilvægasta forvörnin til góðrar lýðheilsu.

„Um leið þakka ég og hrósa stjórnvöldum og skólafólki, ekki síst, fyrir að halda skólastarfi gangandi. Það er ómetanlegt og afar mikilvægt framlag til lýðheilsu,“ sagði Willum Þór.

„Ég vil nota tækifærið hér, virðulegi forseti, til að vekja athygli á skilaboðum Geðhjálpar um undirskriftasöfnun sem er í gangi um að setja geðheilbrigði í forgang. Ég vil um leið hnykkja á þeim aðgerðum sem miða að því að hlúa að geðheilbrigði. Þessi skilaboð eru mikilvæg, ekki síst á þessum tímum og minna okkur um leið á mikilvægi forvarnarstarfs. Ég hef auðvitað ekki tíma hér, á þessum tveimur mínútum, til að fara yfir allar nýjar aðgerðir en allar eru þær góðar. Ég vil nefna heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi sem er algerlega tímabær til að ná utan um málaflokkinn og tryggja samhæfingu ólíkra málefnasviða og í framhaldinu gagnsæi útgjalda og samspil við aðra þætti samfélagsins. Aukinn stuðningur og fræðsla til foreldra og aukin áhersla á þennan þátt í skólakerfinu og stofnun Geðráðs er mikilvægur liður í að fylgja eftir stefnumótun og aðgerðum á þessu sviði,“ sagði Willum Þór að lokum.

  • Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.
Categories
Greinar

Sjald­gæfir sjúk­dómar og lang­veik börn – Tryggjum bætta um­gjörð

Deila grein

29/10/2020

Sjald­gæfir sjúk­dómar og lang­veik börn – Tryggjum bætta um­gjörð

Að greinast með sjúkdóm veldur streitu og kvíða, að greinast með sjaldgæfan sjúkdóm eða takast á við að barnið manns sé að berjast við langvinnan sjúkdóm hlýtur að vera enn meira íþyngjandi. Foreldrar langveikra barna hafa bent á að samhliða því að fást við sjúkdóminn sjálfan og leita lækninga, fari mikil orka í að finna út úr því hvaða þjónustu barnið á rétt á að fá. Auk baráttunnar við sjúkdóminn þurfi einnig að sinna kerfislægum, félagslegum og fjárhagslegum málefnum, sækja um styrki, kanna aðgengi að lyfjum o.s.frv.. Því hafa foreldrar kallað eftir heildstæðri umgjörð, að kerfið grípi þau.

Góð umgjörð skiptir máli

Í Evrópu eru yfir 7000 sjaldgæfir sjúkdómar og yfir 30 miljón einstaklinga sem þjást af sjaldgæfum sjúkdómum. Árlega greinast um 30 börn hér á landi með sjaldgæfa sjúkdóma. Heilbrigðiskerfið þarf að vera í stakk búið til þess að bregðast við sjaldgæfum sjúkdómum svo að þeir sem greinast með þá verða ekki hornreka í samfélaginu. Þekking á sjaldgæfum sjúkdómum er oft fágæt, rannsóknir takmarkaðar og lækning fjarlæg. Sjaldgæfir sjúkdómar eru þungbærir fyrir þá sem greinast en hafa einnig víðtæk áhrif á aðstandendur. Það þarf að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með sjaldgæfa sjúkdóma, allra langveikra barna og aðstandenda þeirra.

Þétta þarf umgjörðina um þennan hóp, bæta aðgengi og stuðning hvort sem er fjárhagslegan, félagslegan eða læknisfræðilegan. Einnig þarf heilbrigðisfólkið okkar hafi aðgang að nýjustu þekkingu, meðferðarúrræðum og lyfjum. Það sem hefur vantað tilfinnanlega hérlendis er samfella í þessum málaflokki þannig að kerfin tali saman, t.d. í formi málastjóra eða tengiliðar sem haldi utan um þræði fyrir foreldra og fjölskyldur langveikra barna.

Sértæk þjónustueining

Undirritaður ásamt tólf öðrum þingmönnum allra flokka sem eiga sæti á Alþingi lagði nýverið fram þingsályktunartillögu um sértæka þjónustueiningu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og langveik börn. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem geri tillögur að fyrirkomulagi sértækrar þjónustueiningar fyrir einstaklinga sem greinast með sjaldgæfa sjúkdóma. Þá er starfshópnum falið að skoða hvort sú þjónustueiningin gæti haft það hlutverk að sinna öllum langveikum börnum og aðstandendum þeirra. Þjónustueiningin er til þess fallin að tryggja að sjúklingar hafi einn viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og til þess að ný þekking og nýjustu rannsóknir skili sér í bættri þjónustu sem byggist á nýjustu gagnreyndu þekkingu hverju sinni.

Í þingsályktunartillögunni er farið fram á að skoðað væri hvort þessi þjónustueining myndi einnig sinna ráðgjöf er varðar félagslega tengd úrræði og stuðning. Þá er starfshópnum falið að skoða hvernig tryggja megi einfaldara og skjótara aðgengi að nauðsynlegum lyfjum vegna sjaldgæfra sjúkdóma.

Stuðningur skiptir öllu

Við þurfum að tryggja öllum gott heilbrigðiskerfi, þeim sem berjast við sjaldgæfa og langvinna sjúkdóma stuðning innan kerfisins. Alvarlegir og langvinnir sjúkdómar hafa varanleg áhrif á líf barna og fjölskyldna þeirra. Kostnaður og álag á fjölskyldur er mikið, gerum betur, hlustum á kallið, bætum umgjörðina og grípum. Áfram veginn.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. október 2020.

Categories
Fréttir

Þriðji geirinn – bætt lýðheilsa!

Deila grein

06/10/2020

Þriðji geirinn – bætt lýðheilsa!

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins á Alþingi í dag þá staðreynd að í fjárlagafrumvarpinu sé áætlað að 2,1 milljarður fari í að styðja þriðja geirann.

„Þriðji geirinn er mjög fjölþættur og afar mikilvægur og ekki síst allt það sjálfboðaliðastarf sem fer fram í þeim geira. Það eru fjölmargar rannsóknir sem staðfesta að þetta styrkir uppvöxt barna og unglinga. Þátttaka í öllu skipulögðu íþrótta- og menningartengdu tómstundastarfi styður við uppvöxt þeirra og bætir lýðheilsu til lengri tíma,“ sagði Willum Þór. 

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, sem snúa að þriðja geiranum. 

„Það er í samræmi við tillögur starfshóps sem skilaði skýrslu um þetta efni og tillögum til að hvetja og styrkja skattalegt umhverfi þriðja geirans. Ég vil fagna þeim viðbrögðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að boða þetta frumvarp,“ sagði Willum. 

Sagði hann starfshópinn hafa komist að því að nágrannaríki okkar væru með víðtækari skattalega hvata en séu á Íslandi. 

„Hér er verið að bregðast við því, og ég vil fagna því,“ sagði Willum að lokum.

Categories
Fréttir

„Það er aldrei sjálfsagt að veita ríkisábyrgð með þessum hætti“

Deila grein

06/09/2020

„Það er aldrei sjálfsagt að veita ríkisábyrgð með þessum hætti“

Willum Þór Þórsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis, ræddi málefni Icelandair og samþykkt Alþingis á ríkisábyrgð til handa félaginu, í Silfrinu ásamt Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, alþingismanni, á RÚV í dag.

„Það er aldrei sjálfsagt að veita ríkisábyrgð með þessum hætti. Það þarf að vega og meta almannahagsmuni og í hverju þeir felast. Ef það er metið skynsamlegt að veita ríkisábyrgð þá er það gert til að tryggja almannahagsmuni og lágmarka áhættu ríkissjóðs,“ sagði Willum Þór.

„Ég held að þær grundvallarforsendur er voru lagðar þegar í upphafi af þeim stýrihóp er vann þetta fyrir ráðuneytin, það voru fjögur ráðuneyti er komu að málinu, þetta er svo samofið íslenskum efnahag, að leggja til grundvallar þær lykilforsendur um að takmarka áhættu ríkisins og að fyrirtækið sjálft sé búið að fara í gegnum alla þá samninga sem ég er að tala um, þ.e. við starfsmenn, kröfuhafa og lykilbirgja og tryggja að þeir séu tilbúnir í þessa vegferð. Það var sú vinna er lá að baki en það var svo fjárlaganefndarinnar alla þessa viku að fara mest megnis yfir samkeppnisforsendur.“

ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hefur samþykkt þessa skilmála.

„Í vinnu fjárlaganefndar voru dregin fram sjónarmið allra þeirra aðilar sem eru að vinna í ferðaþjónustu. Og þegar við erum að tala um almannahagsmuni þá er rekstur Icelandair svo samofin ferðaþjónustunni, sem er svo ólíkt mörgum öðrum greinum. Þegar aðilar í ferðaþjónustu eru að keppa á móti hvor öðrum þá eru þeir háðir hvor öðrum með sína tilvist. Þannig varð nefndin að sanka að sér öll þau hlutlægu gögn sem voru til stuðnings þeirri huglægu ákvörðun er var tekin og verður alltaf í þessu hagsmunamati,“ sagði Willum Þór.

Willum Þór vildi ítreka að þessi ríkisábyrgð væri til þrautavara. „Við erum að kljást við þetta mál og fjölmörg önnur vegna þess að það er mikil óvissa í kringum okkur og að ferðaþjónustan hafi orðið fyrir miklu höggi og allar samgöngur til og frá landinu eru rofnar. Lykilforsendur eru að tryggja þessar samgöngur órofnar. Í öðru lagi þegar markaður kemst í eðlilegra horf eftir allar svona kreppur hefur eftirspurn í ferðaþjónustu og flugi rokið upp, jafn hratt og fór snökt og mikið niður.“