Categories
Greinar

Samningur og sam­vinna um með­ferð við endó­metríósu

Deila grein

01/12/2022

Samningur og sam­vinna um með­ferð við endó­metríósu

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál og áherslumál ríkisstjórnarinnar. Það er mikilvægt að allir hafi jafnt aðgengi að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Aðgengi sé óháð kyni, stöðu, bakgrunni, efnahag og búsetu. Bið eftir heilbrigðisþjónustu eða skert aðgengi getur verið dýrkeypt einstaklingnum og samfélaginu.

Biðlistar endurspegla álag á kerfið og lengdust þeir í heimsfaraldrinum. Ef ekkert er að gert mun gliðna meira á milli þarfarinnar fyrir heilbrigðisþjónustu og þeirrar þjónustu sem að við getum veitt. Það er ljóst að nýta þarf allt heilbrigðiskerfið til þess að vinna á biðlistum og hefur undirbúningur þess efnis verið í forgangi í heilbrigðisráðuneytinu undanfarið.

Til að bregðast við þessari stöðu hafa Sjúkratryggingar Íslands samið við Klíníkina um kaup á endómetríósuaðgerðum til að vinna niður biðlista og bæta aðgengi að þeim óháð efnahag. Það er mikið gleðiefni að samningar hafi náðst um þessar mikilvægu aðgerðir. Eins er samningurinn mikilvægur liður í framtíðarfyrirkomulagi þessara aðgerða og annarra.

Endómetríósa

Endómetríósa er langvinnur, fjölkerfa sjúkdómur sem leggst á einn af hverjum tíu leghafa. Orsökin er óþekkt en sjúkdómurinn getur gengið í erfðir. Því miður er greiningartími sjúkdómsins oft langur þar sem um flókna sjúkdómsmynd er að ræða. Þekkingin á sjúkdómnum er alltaf að aukast en enn er ekki til lækning við honum. Kviðarholsspeglun er bæði notuð til greiningar og meðferðar. Stundum þarfnast hver einstaklingur fleiri en einnar aðgerðar og þær geta verið nokkuð umfangsmiklar þegar fjarlægja þarf til dæmis leg eða eggjastokk.

Samtök um endómetríósu á Íslandi hafa verið ötul við að fræða samfélagið um sjúkdóminn og beita sér fyrir bættri heilbrigðisþjónustu við þá einstaklinga sem eiga við sjúkdóminn að etja. Samtökin hafa allt frá árinu 2006 haft það að leiðarljósi að vinna með heilbrigðisyfirvöldum og heilbrigðisstarfsfólki að markmiðum sínum. Hið óeigingjarna starf félagsins, sem hefur einkennst af yfirvegun og fagmennsku, hefur ekki aðeins leitt til umbóta í heilbrigðisþjónustunni heldur líka vitundarvakningar um sjúkdóminn í samfélaginu almennt.

Teymisvinna

Á Landspítala var stofnað þverfaglegt endómetríósuteymi árið 2017. Nú er Klíníkin einnig að byggja upp sérhæfða þjónustu fyrir þennan sjúkdóm og er jákvætt að úrræðum sé að fjölga og þjónustan að eflast. Einnig gegna aðrar starfsstöðvar, sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknar og heilsugæslan mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu við þennan flókna og langvinnan sjúkdóm.

Það er ljóst að teymisvinna er ekki aðeins nauðsynleg innan heilbrigðisstofnanna heldur líka milli stofnanna, úrræða, félagasamtaka, yfirvalda og einstaklinga. Er þessi samningur því mikilvægt skref í þeirri vegferð að taka saman höndum um að stytta bið og jafna aðgengi. Samvinna og samfella eru lykilbreytur í því að láta heilbrigðiskerfið ganga upp.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á vísir.is 30. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Deila grein

18/11/2022

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Willum Þór Þórsson: „Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.“

Í lífsgæðum eru fólgin verðmæti sem þarf að standa vörð um. Með auknum lífsgæðum og góðu aðgengilegu heilbrigðiskerfi eru lífslíkur við fæðingu á Íslandi orðnar með þeim mestu á heimsvísu. Við getum verið stolt af samfélaginu okkar og því að fá tækifæri til að eldast, en það að eldast vel er langt því frá að vera sjálfsagt.

Lifnaðarhættir Íslendinga hafa breyst og því fylgja nýjar lýðheilsuáskoranir. Óhollt mataræði, of lítil hreyfing, aukin streita og of lítill svefn eru á meðal þessara áskorana. Samfélagslegar breytingar kalla á breytt heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfi sem tekur tillit til öldrunar, fjölþættra veikinda, breytts umhverfis og aukinnar sjúkdómsbyrði.

Lýðheilsa er hornsteinn meiri lífsgæða.

Hvernig gerum við sem flestum kleift að lifa lengur við sem mest lífsgæði? Það er stór spurning og eitt veigamesta svarið er efling lýðheilsu. Lýðheilsa er lykill að sjálfbærni heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Líf einstaklings frá vöggu til grafar er jafnverðmætt á öllum lífsskeiðum. Markmið heilbrigðiskerfisins er að allir fái jafna meðferð, af sömu gæðum, alltaf. Við alla ákvarðanatöku má ekki missa sjónar á því að gæði heilbrigðisþjónustu mynda órofa heild með öryggi, skilvirkni, hagkvæmni, jöfnu aðgengi, þekkingu, nýsköpun og afköstum. Eitt á ekki að útiloka annað. Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Heilbrigðisþing 2022 er helgað lýðheilsu

Heilbrigðisþingið í ár er helgað lýðheilsu. Heilsa eins – hagur allra er yfirskrift þingsins og hún fangar viðfangsefnið vel. Þingið fer fram í dag og það er ánægjulegt að finna hversu mikill áhugi er á viðfangsefninu. Það er hægt að fylgjast með þinginu í streymi á vefsíðunni www.heilbrigdisthing.is en það er húsfyllir á viðburðinn.

Heilbrigðisþingið mun slá tóninn fyrir eitt stærsta áherslumál heilbrigðisráðuneytisins næstu árin. Erindi, þátttakendur og fjölbreytt dagskrá þingsins bera það með sér hversu fjölþætta nálgun þarf til að efla lýðheilsu. Við þurfum öll að hjálpast að. Við þurfum að átta okkur á því að heilsa eins einstaklings snertir okkur öll og því er hagur allra að leggja við hlustir, taka þátt, skilja og framkvæma það sem þarf til að efla eigin heilsu. Lýðheilsa er ekki froða eða pólitískur hráskinnaleikur. Betri lýðheilsa gerir heilbrigðiskerfinu kleift að viðhalda gæðum þrátt fyrir áskoranir framtíðarinnar og með því halda uppi lífsgæðum þjóðarinnar til framtíðar.

Áherslur og áskoranir

Margar áskoranir heilbrigðiskerfisins eru teknar fyrir og greindar í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um framtíðarþróun þjónustu Landspítalans sem kom út í desember 2021. Í skýrslunni, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, er á uppbyggilegan og lausnamiðaðan hátt rætt um leiðir til að auka afköst, hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins með Landspítalann í forgrunni. Þar eru settar fram margar tillögur að aðgerðum sem styðja þessa vegferð að auknum lífsgæðum og gæðum heilbrigðiskerfisins.

Í skýrslunni eru meðal annars málefni aldraðra, geðheilbrigði og endurhæfing sérstaklega tekin fyrir. Í þeim málaflokkum mun þjónustuþörfin aukast hratt á næstu árum og mikill hluti umbóta þarf að eiga sér stað utan spítala, á sviði forvarna og heilsueflingar og með fjölbreyttum úrræðum þvert á velferðarkerfið.

Lýðheilsa í forgrunni allra ákvarðana

Heilbrigðisráðuneytið hefur sett lýðheilsu og forvarnir í forgrunn allrar ákvarðanatöku og hefur lýðheilsuáherslan skilað sér inn í allar nýlega stefnur, aðgerðaáætlanir og áherslumál ráðuneytisins. Það er brýning fyrir önnur ráðuneyti, stofnanir, atvinnulífið og einstaklinga að gera slíkt hið sama.

Í aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu var lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og mikilvægi fræðslu og forvarna. Þar birtist eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar; að viðhalda færni og virkni einstaklinga. Í nýsamþykktri þingsályktunartillögu um geðheilsustefnu til ársins 2030 lýtur einn af fjórum áhersluþáttum hennar að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar. Í nýskipaðri verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er aðgerðaáætlun í smíðum sem mun taka mið af samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks. Með verkefnastjórninni er stigið mikilvægt skref í átt að samvinnu og samþættingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila.

Lýðheilsa á ábyrgð okkar allra

Eins og stendur skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, bæði efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu og forvarnir. Fyrir liggur stefna heilbrigðisráðuneytisins í lýðheilsu til ársins 2030 og verður heilbrigðisþingið vel nýtt til að fá innlegg í aðgerðaáætlun í lýðheilsu sem nú er í mótun. Áætlunin verður síðan kynnt í næsta mánuði ásamt röð viðburða helgaðra forvörnum, heilsueflingu og lýðheilsu á næsta ári.

Lýðheilsa verður aftur á móti ekki efld inni á borði eins ráðuneytis eða nokkurra stofnanna. Samvinnu opinberra aðila, einkaaðila og fólksins í landinu þarf til að finna bestu leiðina að markmiðinu. Við þurfum sem samfélag að taka höndum saman um lýðheilsu. Við þurfum öll að átta okkur á því að þær samfélagslegu breytingar sem við stöndum frammi fyrir munu leggjast þungt á heilbrigðiskerfið ef við eflum ekki lýðheilsu, forvarnir, heilsueflingu og heilsulæsi. Það þarf enga aðgerðaáætlun eða skýrslu til að sjá það. Við getum byrjað strax í dag.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Deila grein

07/10/2022

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Á örfáum áratugum hefur samfélagið borið gæfu til þess að lyfta geðheilbrigðismálum ofar og ofar í forgangsröðuninni. Þar er enginn hópur undanskilinn; allt frá börnum til eldri borgara og allt litrófið þar á milli. Ríkisstjórnin hefur skilgreint geðheilbrigði í víðum skilningi sem eitt af sínum forgangsmálum og þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní með öllum greiddum atkvæðum.

Leikáætlun er nauðsynleg

En hvaða þýðingu hefur geðheilbrigðisstefna til ársins 2030? Stefnan tekur mið af ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og er í henni lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Þannig getum við horft á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi.

Heilbrigðiskerfið er komið með leiðarvísi og skýrt umboð Alþingis til að setja geðheilbrigði á oddinn. Verkefnið er krefjandi og áskoranirnar margar en með réttar áherslur og forgangsröðun færumst við áfram veginn og treystum hag geðheilbrigðisþjónustu um land allt.

Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Fjórþætt nálgun

Fyrsti áhersluþátturinn lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis með áherslu á mikilvægi þess að hlúa að geðheilsunni alla ævi.

Annar áhersluþátturinn lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi milli hlutaðeigandi þjónustuveitendenda.

Þriðji áhersluþátturinn lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda.

Fjórði áhersluþátturinn lýtur að nýsköpun, vísindum og þróun og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Framfarir í geðheilbrigðisþjónustu

Töluverðar framfarir hafa orðið á undanförnum árum. Sérstaklega er varðar upplýsta umræðu. Landspítali og starfsemi tengd honum hefur þar verið leiðandi og þjónusta hans er í stöðugri þróun. Þá hafa ýmis félagasamtök átt stóran þátt í uppbyggilegri, fordómalausri og lausnamiðaðri umræðu. En eins og nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu bendir réttilega á þá eru ennþá grá svæði í þjónustunni og sérstaklega þegar farið er út fyrir veggi þjóðarsjúkrahússins, út í samfélagið og út á landsbyggðina.

Undanfarið hafa verið byggð upp þverfagleg geðheilsuteymi heilsugæslunnar víða um landið sem veita aukna geðþjónustu í samfélaginu. Einnig hafa verið stofnuð sérhæfðari geðteymi á borð við geðheilsuteymi fangelsa og geðheilsuteymi fjölskylduvernd. En það þarf að halda áfram að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu og eyða kerfisbundið út gráu svæðunum.

Áherslan á aukna samfellu þjónustunnar og samvinnu milli þjónustustiga og úrræða innan heilbrigðiskerfisins og annarrar velferðarþjónustu. Þá þarf sérstaklega að huga að því að tryggja fullnægjandi mönnun í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi. Að lokum þarf að tryggja aukið samtal og samræmt upplýsingaflæði á viðeigandi hátt milli mismunandi þjónustuaðila. Kallar það á vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir.

Orð eru til alls fyrst

Opin og fordómalaus umræða um geðheilbrigðismál hefur komið okkur sem samfélagi á betri stað. Umræðan þroskast og þekking eykst. Stefnur eru skrifaðar og síðan er komið að aðgerðum. Við þekkjum öll að þegar lagt er af stað í vegferð umbóta þá fyrst koma raunverulegir brestir kerfisins í ljós. Aðgerðaráætlunin til 2030 mun því leggja áherslu á að ryðja markvisst úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í málaflokknum og styðja við umbætur, samvinnu og jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. október 2022.

Categories
Greinar

Eitt mikil­vægasta verk­færið í verk­færa­kistunni

Deila grein

06/09/2022

Eitt mikil­vægasta verk­færið í verk­færa­kistunni

Endurhæfing er einn mikilvægasti hluti heilbrigðisþjónustu. Tímaleg endurhæfing á réttum stað í heilbrigðiskerfinu skilar sér margfalt til einstaklingsins, aðstandenda og samfélagsins alls. Snemmtæk íhlutun er kall og svar tímans því það er vaxandi fjöldi einstaklinga sem mun þurfa á einhverskonar endurhæfingu að halda á lífsleiðinni.

Heilbrigðisráðuneytið gaf út fimm ára aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu árið 2021. Þegar áætlunin var sett í samráðsgátt stjórnvalda bárust yfir 50 umsagnir sem endurspegla mikilvægi þessa málaflokks og ótal marga snertifleti hans við heilbrigðiskerfið og líf fjölmargra Íslendinga.

Erum öll á sama báti

Þörfin fyrir endurhæfingu eykst með aukinni framþróun í heilbrigðiskerfinu og vaxandi lífaldri þjóða þar sem sjúkdómsbyrði einstaklinga eykst með aldrinum. Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er þriðjungur jarðarbúa með heilsufarsástand sem þarfnast endurhæfingar sem fyrstu meðferð. Þannig má draga úr stigmagnandi þörf á heilbrigðisþjónustu sem getur verið bæði íþyngjandi og kostnaðarsöm. Í þessu samhengi er stoðkerfisvandi efstur á blaði en aðrir sjúkdómsflokkar vega einnig þungt eins og vandi tengdum taugakerfi, skilningarvitum og geði. Við getum öll orðið veik, lent í slysi, orðið fyrir áfalli eða öðru sem veldur færniskerðingu sem takast þarf á við með endurhæfingu. Í þessu samhengi erum við sannarlega öll á sama báti.

Endurhæfing á heima á öllum stigum heilbrigðiskerfisins og hún krefst þverfaglegrar aðkomu sem nær út fyrir ramma heilbrigðiskerfisins eins og við þekkjum hann í dag. Því er mikilvægt er að önnur þjónusta og úrræði tengist á skilvirkan hátt inn í viðeigandi endurhæfingu. Ástæður þess að endurhæfingar er þörf eru yfirleitt heilbrigðistengdar og úrræðin eftir því. Endurhæfing kallar á aðkomu fjölmargra heilbrigðisstétta sem er þungamiðjan en úrræði á vegum félagsþjónustu, atvinnulífs og menntakerfis mynda órofa heild. Í samþættingu þessara þátta felast áskoranir um skipulag og samtal þvert á ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og sveitafélög.

Endurhæfingarráð

Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra hafa tekið höndum saman og skipað endurhæfingarráð til að auka samþættingu, bæta skipulag og auka gæði þjónustu. Ráðinu er meðal annars ætlað að ná betur utan um mismunandi tegundir endurhæfingar, samræma skilgreiningar, skýra tilgang og setja mælanleg markmið um endurhæfingu. Ráðið fylgist með alþjóðlegri þróun og þekkingu og er ráðherrum til ráðgjafar um málefni og stefnumótun tengd endurhæfingu. Einnig er endurhæfingarráði ætlað að tryggja innleiðingu mikilvægra aðgerða í aðgerðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins sem eru á forræði beggja ráðuneyta.

Sem dæmi má nefna aðgerðir sem varða samræmt flokkunarkerfi, matskerfi og tilvísunarkerfi. Það er vegna þess að endurhæfingarþörf einstaklinga þarf að meta á líf-, sál- og félagsfræðilegan máta til að geta gert raunhæfa og markvissa endurhæfingaráætlun þvert á kerfi sem er til þess fallin að bæta heilsu og færni einstaklingsins.

Endurhæfing er eins misjöfn og einstaklingarnir í endurhæfingarþörf eru margir. Endurhæfing getur skilað sigrum sem ekki má vanmeta og geta skipt sköpum fyrir einstaklinginn. Endurhæfing getur líka skipt sköpum fyrir samfélagið þar sem m.a. ótímabært brottfall úr námi eða vinnu getur haft margföldunaráhrif til hins verra á heilsu einstaklingsins, hans nánustu ættingja og aukið kostnað heilbrigðiskerfisins að ósekju. Ekki er síður mikilvægt hvernig endurhæfing nýtist auknum fjölda aldraðra einstaklinga til að endurheimta eða viðhalda færni sinni og þannig sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.

Fjárfest til framtíðar

Endurhæfing getur verið mjög sérhæfð og krafist alls þess sem hátæknisjúkrahús hafa upp á að bjóða. Endurhæfing krefst þekkingar, tækninýjunga, þverfaglegrar nálgunnar og góðrar aðstöðu. Vegna þessa var ánægjulegt að skrifa undir samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun á 3.800 fermetra viðbyggingu við endurhæfingardeild Grensáss í síðustu viku. Einnig hefur verið brugðist við aukinni þörf á endurhæfingarrýmum fyrir eldri einstaklinga með fjölgum á endurhæfingarrýmum á Eir um 20 rými í samtals 44 rými og verið er að taka þau í notkun. Það stendur líka fyrir dyrum opnun á 39 nýjum skammtímaendurhæfingarrýmum á Sólvangi í Hafnarfirði á næstu dögum.

Heilsugæslan sinnir veigamiklu hlutverki í endurhæfingu sem snýr að fræðslu, forvörnum og snemmtækri íhlutun. Eins er mikilvægt að heilsugæslan haldi vel utan um einstaklinga í endurhæfingarþörf, aðstoði við að greina þörfina og vísi áfram á réttan stað í kerfinu. Heilsugæslan gegnir lykilhlutverki við það að halda utan um einstaklinga í öðrum úrræðum og leiða þá í gegnum kerfið þar til kemur að eftirfylgd og viðhaldsmeðferð. Það mikilvæga hlutverk þarf að efla.

Forvarnir og lýðheilsa, færniskerðing og endurhæfing mynda hringrás. Þar sem endurhæfing endar taka forvarnir við. Andleg, líkamleg og félagsleg virkni er samofin öllum þáttum þessarar hringrásar. Eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar ætti að vera það að viðhalda færni og virkni. Það er í senn eitt markmið endurhæfingar og besta forvörnin.

Það er skylda stjórnvalda að tryggja jöfn tækifæri allra til að búa við bestu heilsu sem mögulegt er og endurhæfing er þar eitt mikilvægasta verkfærið í verkfærakistunni okkar.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Categories
Fréttir

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Deila grein

25/08/2022

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Mynd: Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra undirritaði í gær samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun 3.800 fermetra viðbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss. Ráðherra segir þetta enn einn ánægjulegan áfanga í uppbyggingu betra húsnæðis fyrir Landspítala, sjúklinga og starfsfólk Grensáss og þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Gert er ráð fyrir að hönnunarferlið taki um það bil eitt ár og að því loknu verði unnt að hefja verklegar framkvæmdir.

Nordic Office of Architecture og EFLA urðu hlutskörpust í útboði vegna fullnaðarhönnunarinnar þar sem byggt var á matslíkani og verði. Nýbyggingin mun rísa vestan við núverandi aðalbyggingu endurhæfingardeildarinnar. Með henni munu aðstæður til endurhæfingar gjörbreytast og endurhæfingarrýmum fjölga. Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar á endurhæfingarstarfsemi í ljósi framfara í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Þannig hefur þeim fjölgað mikið sem nú lifa með fötlun af völdum sjúkdóma og slysa og þörf fyrir öfluga og góða endurhæfingu fer vaxandi.

Fjölmenni var við undirritun samningsins og gleðin lá í loftinu yfir þessum tímamótum. Heilbrigðisráðherra færði þakkir þeim fjölmörgu sem sýnt hafa í verki öflugan stuðning við starfsemi Grensáss og nefndi sérstaklega Hollvinasamtök Grensáss sem hafa frá stofnun samtakanna árið 2006 reynst starfseminni ómetanlegur bakhjarl.

Samninginn undirrituðu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fyrir hönd Nýs Landspítala ohf.,  Hallgrímur Þór Sigurðsson fyrir hönd Nordic Office of Architecture og Ólafur Ágúst Ingason fyrir hönd EFLU. Vottar að undirskrift voru Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnar Hollvina Grensáss og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 24. ágúst 2022.

Myndir: Heilbrigðisráðuneytið

Categories
Greinar

Eining um stjórn Landspítala

Deila grein

28/06/2022

Eining um stjórn Landspítala

Við stöndum frammi fyrir því að á næstu 20 árum mun Íslendingum yfir 65 ára aldri fjölga um 40 þúsund. Það er ekki valkostur að gera alltaf meira af því sama. Margt sem gekk í fortíð gengur ekki endilega upp í nútíð. Tækni- og vísindaframfarir ásamt vinnuumhverfi sem einkennist af samvinnu og liðsheild eru lykillinn að því að tryggja að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt hlutverki sínu. Landspítalinn verður að aðlagast í samræmi við breyttar þarfir þjóðarinnar. Það var því ánægjulegt að Alþingi samþykkti frumvarp til laga um skipan stjórnar Landspítala.

Rekstur heilbrigðisstofnanna er ekki hefðbundinn fyrirtækjarekstur. Til marks um það hefur nú í lögum verið tryggð aðkoma fagráðs og starfsfólks að stjórninni. Einnig hefur 7 manna notendaráð verið skilgreint til að tryggja rödd notenda þjónustunnar og er það nýmæli og framfaraskref. Gagnvart sjúklingum og starfsfólki Landspítalans mun skipan stjórnar styrkja stefnumótun, rekstur og ákvarðanatöku innan spítalans sem skilar sér í bættu starfsumhverfi, þjónustu og getu kerfisins til að takast á við framtíðaráskoranir.

Sjaldan er einföld lausn á flóknum málum

Meginmarkmið lagasetningarinnar er að styrkja stöðu og hlutverk spítalans í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Landspítalinn er lang stærsti vinnustaður Íslands. Það eru skilgreind um 240 mismunandi störf innan veggja hans, starfsmenn eru um 6000 og heildarvelta hans er um 97 milljarðar á ári. Það er áþekk fjárhæð og mörg stærri félög í Kauphöll Íslands velta. Helstu spítalar Norðurlandanna eru reknir eftir rekstararmódeli þar sem stjórn veitir forstjóra og stjórnendum stuðning og rýni í ákvarðanatöku sinni í samræmi við vilja ráðherra. Slíkt fyrirkomulag tryggir ábyrga og vel ígrundaða ákvarðanatöku. Ekki aðeins út frá rekstri heldur út frá heildarhagsmunum sjúklinga, starfsmanna og þjóðarinnar allrar.

Það er mikilvægt við uppbyggingu íslensks heilbrigðiskerfis að horft sé til erlendra fyrirmynda til þess að læra og tileinka okkur það sem best er gert hjá nágrannaþjóðum okkar. Að stýra heilbrigðisstofnun er flókið og sá sem stendur í stafni hverju sinni þarf að hafa stuðning. Stuðningur þarf að berast úr fleiri en einni átt og því þarf stjórn sem hefur víðtæka reynslu og þekkingu.

Allt að vinna en engu að tapa

Aðlögunarhæfni og þrautseigja heilbrigðiskerfisins hefur margsannað sig og nú síðast í Covid-19 faraldrinum. Stundum þarf að stíga eitt skref aftur á bak til að taka tvö skref áfram. Við höfum sjaldan verið í betri stöðu til að læra af fortíðinni og taka áræðin skref fram á við. Skref sem byggja á traustum og framsýnum rekstri sjúkrahúsa til að undirbúa íslensku þjóðina til framtíðar.

Það hafa allir skilning á því að heilsa þjóðarinnar verður vart metin til fjár. Heilbrigðiskerfið er sameign Íslendinga sem endurspeglaðist í því að í atkvæðagreiðslu þingsins var enginn mótfallinn frumvarpinu. Það er því gleðilegt að jafn breið samstaða hafi náðst um þetta framfararmál til að treysta frekar rekstrargrundvöll Landspítala. Rekstur sem þarf stöðugt að endurmeta til að færa þjóðinni bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. júní 2022.

Categories
Fréttir

Sóltún Heilsusetur opnar 1. september – Nýmæli í öldrunarþjónustu

Deila grein

21/06/2022

Sóltún Heilsusetur opnar 1. september – Nýmæli í öldrunarþjónustu

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Sóltún öldrunarþjónusta ehf. hafa gert með sér samning sem kveður á um nýja tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða. Þjónustan verður veitt í endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Þar verða rými fyrir 39 einstaklinga sem gert er ráð fyrir að dvelji þar skamma hríð og njóti einstaklingsmiðaðrar, heildrænnar og þverfaglegrar endurhæfingar. Markmiðið er að viðhalda og auka virkni viðkomandi í daglegu lífi og efla þannig getu þeirra til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þessa þjónustu.

„Það er mér mikil ánægja að staðfesta samninginn um þessa þjónustu sem ég tel að marki tímamót. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á virkar forvarnir og endurhæfingu eins og hér verður gert og ég sé fyrir mér að þetta geti orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu miklu víðar og um allt land“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Við hlökkum mikið til að bjóða nýtt og spennandi þjónustuúrræði í Sóltúni Heilsusetri á Sólvangi. Með fjölþættri heilsueflingu í skammtímadvöl  er horft til þess að hjálpa fólki að bæta lífsgæði sín, sjálfstæði og hreysti á efri árum og draga úr þörf þess fyrir aðstoð annarra við athafnir daglegs lífs“, segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. 

„Þessi samningur SÍ og Sóltúns öldrunarþjónustu felur í sér einstaklega spennandi nýsköpun sem mun stuðla að því að aldraðir geti haldið lengur getu sinni og færni til að búa á eigin heimili og seinka þar með þörf þeirra til að flytja á hjúkrunarheimili. Þverfagleg endurhæfing með fyrirbyggjandi áherslum þar sem unnið er með virkni fólksins, næringar- og heilsufarsástand er örugglega lykill að góðum árangri“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Fyrirkomulag þjónustunnar sem samningurinn kveður á um felur í sér ákveðin nýmæli. Byggt verður á einstaklingmiðuðum áætlunum sem fela í sér fræðslu, viðtöl sérfæðinga, einstaklings- og hópþjálfun, heilsueflandi þjálfun og virkni. Miðað er við að þeir sem sæki úrræðið njóti að jafnaði endurhæfingar í fjórar vikur en í ákveðnum tilvikum allt að sex vikur. Veitt verður að lágmarki 5 klukkustunda einstaklingsmeðferð og 20 klukkustunda einstaklingamiðuð hópmeðferð á viku fyrir hvern einstakling. Þjónustan verður veitt alla mánuði ársins, alla daga vikunnar að undanskildum 10 dögum ár hvert í kringum jól og áramót.

Dregið úr þörf fyrir bráðaþjónustu og innlagnir á sjúkrahús

Til að byrja með er gert ráð fyrir að heimahjúkrun og heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu geti vísað fólki í þessa þjónustu. Þetta er nýmæli og talið líklegt til að draga úr þörf fyrir heimsóknir á bráðamóttöku.  Þá er einnig horft til þess að með því endurhæfingar- og forvarnarstarfi sem þjónustan felur í sér megi draga úr líkum á alvarlegum heilsubresti sem útheimtir þjónustu á bráðamóttöku eða leiðir til ótímabærrar innlagnar á sjúkrahús. Þjónustunni er þannig ætlað að létta álagi af Landspítala, auka stuðning við aðstandendur aldraðra sem oft eru undir miklu álagi og síðast en ekki síst að bæta lífsgæði þeirra sem þjónustunnar njóta og gera þeim betur kleift að búa lengur heima en ella. 

Starfsemin hefst 1. september

Sóltún Heilsusetur opnar þjónustu sína á Sólvangi þann 1. september næstkomandi í samræmi við samning Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. og Sjúkratrygginga Íslands sem gildir til loka mars 2025. Um greiðsluþátttöku einstaklinga fyrir þá þjónustu sem veitt er samkvæmt samningnum fer samkvæmt reglugerð nr. 1112/2006 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 20. júní 2022

Categories
Greinar

Hvert er verk­efnið – leiðin út

Deila grein

23/01/2022

Hvert er verk­efnið – leiðin út

Heilbrigðiskerfið okkar stendur nú í ströngu við að takast á við enn eitt afbrigði Covid-19 veirunnar – ómikron. Covid-19 innlagnir og eftirköst veikinda kalla á tvöfalda umönnun auk þess sem heilbrigðisstofnanir verða að vera í stakk búnar til að sinna bráðum veikindum og slysum sem eru ótengd Covid-19.

Fram undan eru lokametrar þessarar bylgju og þá skiptir máli að verkefnið sé skýrt afmarkað svo að við missum ekki sjónar á því hvert við ætlum okkur.

Það er frumskylda stjórnvalda að tryggja þær aðstæður að allir geti sótt sér viðunandi heilbrigðisþjónustu. Við ætlum okkur út úr þessum faraldri og öflugt heilbrigðiskerfi er því forgangsverkefnið.

Við vinnum með spítalanum

Þann 28. desember fór Landspítali á neyðarstig þegar ljóst var að fjölgun Covid-19 tilfella í samfélaginu myndi hafa veruleg áhrif á starfsemi á spítalans. Var sú ákvörðun tekin að vandlega íhuguðu máli, og byggði á meðal annars á niðurstöðu spálíkans sem unnið var í samstarfi við Háskóla Íslands.

Ómikron afbrigði veirunnar er töluvert meira smitandi en önnur afbrigði hafa verið. Það þýðir að starfsfólk á heilbrigðisstofnunum hefur í meira mæli smitast eða lent í sóttkví, með tilheyrandi röskun á getu stofnananna að tryggja fullnægjandi mönnun. Þegar þetta er skrifað eru til að mynda 187 starfsmenn Landspítala í einangrun vegna veirunnar.

Við þessu hefur þurft að bregðast hratt, hafa bæði sjálfstætt starfandi aðilar, heilbrigðisstofnanir um allt land og einstaklingar í bakvarðarsveitum sýnt snör viðbrögð til að tryggja mönnun á Landspítala. Við getum þakkað fyrir að eiga þennan mannskap að, það er ekki sjálfgefið. Þá hefur spítalanum verið veitt svigrúm til að bjóða upp á greiðslur fyrir viðbótarvinnuframlag næstu fjórar vikurnar. Sú aðgerð mun að öllum líkindum auka mönnun um 20-30%.

Saman hefur okkur því tekist að brúa bilið vegna áskorunar um mönnun og Landspítali stendur sterkari.

Styrkur heilbrigðiskerfisins og Covid-19 göngudeildar

Ósérhlífni og hugvit heilbrigðisstarfsfólks þegar á reynir hefur verið aðdáunarvert. Þetta er tíminn þar sem seigla og útsjónarsemi kerfisins skín sem skærast. Hvert sem litið er má sjá að starfsfólk reynir að finna lausnir og vinna saman að því að veita lífsnauðsynlega þjónustu.

Með hugkvæmni og útsjónarsemi, m.a. í formi göngudeildar Covid-19 hefur þjónustan stöðugt verið aðlöguð eftir því sem fagfólkið hefur öðlast betri og dýpri skilning á eðli og eiginleikum veirunnar.

Fjölmargir mjög veikir sjúklingar, sem í nágrannalöndum okkar eru í flestum tilvikum lagðir inn á sjúkrahús, hafa hér á landi fengið meðferð á göngudeildinni og árangurinn er ótvíræður; innlagnir vegna sjúkdómsins eru með því minnsta sem þekkist.

Mikilvægi aðferðafræði Covid-19 göngudeildarinnar sannaði sig enn og aftur á síðustu vikum þegar hún tók við mörg þúsund einstaklingum til viðbótar vegna ómikron og forgangsraðaði þjónustu og meðferð til þeirra sem raunverulega þurftu á henni að halda.

Þá er árangur gjörgæslumeðferðar Covid-19 sjúklinga einnig eftirtektarverður. Meðallegutími er að styttast og innlagnarhlutfallið að minnka. Það vinnur nú með okkur þegar útbreiðslan er jafn mikil og raun ber vitni.

Afléttingar í skrefum

Það er ljóst að bjartari tímar eru í kortunum og við þurfum að stíga varfærin skref í átt að afléttingum. Þrátt fyrir að einkenni ómikron séu vægari og minna sé um sjúkrahúsinnlagnir þá er fólk enn að veikjast. Eiginleikar ómikron veirunnar valda því að mikið er um smit á meðal barna og ungmenna, með tilheyrandi áhrifum á fjölskyldur og samfélagið í heild.

Brýnt er því að skoða hvernig megi létta á sóttvarnarráðstöfunum til að halda samfélaginu sem mest gangandi. Í samráði við sóttvarnalækni eru nú allar mögulegar afléttingar í skoðun með hliðsjón af skynsemi og öryggi. Næstu skref eru að aflétta neyðarstigi spítalans. Áður en það er gert verðum við að vera fullviss um að slíkt sé óhætt. Það verður gert að vel ígrunduðu máli, með hliðsjón af nýjustu spálíkönum og með hliðsjón af gögnum frá okkar færustu sérfræðingum.

Heilbrigðiskerfið í heild sinni er að takast vel á við þessa áskorun en það er eingöngu gert með miklu vinnuframlagi heilbrigðisstarfsfólks, mikilli samvinnu heilbrigðisstofnana um allt land, og með samstilltum aðgerðum – þ.e. sóttvarnaraðgerðum og aðgerðum stjórnvalda til að létta á álagi og tryggja mönnun.

Fram undan eru því afléttingar en við þurfum áfram að vera varkár og feta leiðina út með stuttum en öruggum skrefum.

Við ráðum við stöðuna

Fyrir það er vert að staldra við og þakka fyrir.

Allt samfélagið hefur lagt mikið á sig til að ná þessum árangri sem nú blasir við. Með því að standa saman að sóttvarnaráðstöfunum höfum við náð að hemja vöxt veirunnar, vernda okkar viðkvæmustu hópa og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið.

Þá hefur það hugarfar sem hefur einkennt heilbrigðisstarfsfólk á síðustu vikum verið fyrirmynd fyrir okkur öll á þessum tímapunkti. Með öflugri samstöðu og miklum fórnum almennings og heilbrigðisstarfsfólks ásamt stuðningi heilbrigðisyfirvalda er að takast að koma í veg fyrir óhefta útbreiðslu alvarlegra veikinda hér á landi með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið í landinu.

Það er því fullt tilefni til þess að vera bjartsýn þó að áfram reyni nú á hina margfrægu íslensku seiglu og samvinnu.

Við erum á réttri leið og munum og eigum að feta þá leið saman.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. janúar 2022.

Categories
Greinar

Klárum leikinn

Deila grein

05/03/2021

Klárum leikinn

Að kljást við Kórónaveiruna er auðvitað flóknara verkefni en hver annar fótboltaleikur. Við erum þó á viðkvæmum tímapunkti í þessari baráttu og ég ætla að leyfa mér samlíkinguna við fótboltaleik.

Þjóðin hefur sameinast í verkefninu í heilt ár og náð samstöðu í sóttvörnum. Þess vegna, ásamt harðari aðgerðum á landamærum, getum við nú leyft okkur langþráðar tilslakanir, umfram og á undan flestum öðrum þjóðum.

Það er þó enn mikið atvinnuleysi, tekjufall og sjóðsþurrð hjá fjölmörgum heimilum og fyrirtækjum. Við eigum mikið undir að allir hafi orku til að taka þátt í viðspyrnunni. Hættan er sú næstu þrjá til fjóra mánuði að við föllum í þá gryfju að bíða, og kosningar hafa áhrif hér.

Það eru þekkt viðbrögð á lokamínútum fótboltaleiks þegar liðið hefur barist rosalega í 85 mín., leikurinn stendur í 90 mín. plús. Við erum 1-0 yfir. Við bökkum, bíðum og horfum á dómarann og klukkuna. Einhver kallar „einbeiting“. Gott og vel og verðugt, en hún verður að vera á réttu hlutina. Ekki á klukkuna, dómarann og vonina um að sleppa til. Ekki á prófkjör, stjórnarsáttmálann, kosningar eða hækkandi sól.

Umræðan nú hverfist mikið til um framvindu bólusetninga hér og annars staðar í heiminum, enda algert lykilatriði í baráttunni við veiruna og forsenda þess að koma atvinnulífinu af stað, ná niður atvinnuleysi og endurheimta fyrri efnahagslegan styrk.

Einbeitingin verður að vera á boltann og næsta návígi, næstu sendingu; atvinnulífið, heimilin og fyrirtækin, sumarstörfin fyrir skólafólkið, virkni þeirra sem eru atvinnulausir og að allir verði tilbúnir að taka við ferðamönnum þegar þeir koma. Nú snýst þetta um aukakraft. Einbeitingin felst m.a. í framlengingu úrræða sem eru til staðar og hafa virkað.

Við höfum vikið fjármálareglum til hliðar og aukið svigrúm til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs. Það var gert til þess að mæta efnahagslegum afleiðingum faraldursins, draga úr högginu og mæta óhikað tekjufalli og auknum útgjöldum, sem birtast í fjölmörgum aðgerðum. Markmiðið allan tímann er að koma okkur í gegnum þetta þannig að við verðum öll tilbúin þegar ferðamennirnir koma og viðspyrnan hefst fyrir alvöru.

Nú er ekki tíminn til að bíða! Við ætlum að koma saman út úr þessu með grænt, stafrænt og skapandi hagkerfi.

Klárum leikinn fyrir heimilin og fyrirtækin og viðspyrnuna fyrir íslenskan efnahag.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. mars 2021.

Categories
Greinar

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Deila grein

24/01/2021

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Það er til­efni til að vera bjart­sýn. Ljós er við enda gang­anna með til­komu bólu­efn­is og við vit­um að betri tím­ar eru í vænd­um. Það eru uppi von­ir um að hag­vöxt­ur á heimsvísu muni taka veru­lega við sér vegna tækni­fram­fara. Á Íslandi hafa fram­lög til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina aldrei verið um­fangs­meiri en á þessu ári. Mark­mið stefn­unn­ar eru skýr: Skapa fleiri störf í þekk­ing­ar­grein­um. Megin­á­stæða þess að stjórn­völd fara í þessa veg­ferð er að við höf­um trú á framtíðinni og vilj­um fjár­festa í henni. Fjár­fest­ing­in er arðbær, fjöldi nýrra starfa verður til og fjöl­breytni at­vinnu­lífs­ins eykst. Sam­vinna sveit­ar­fé­laga, mennta­stofn­ana, vís­inda­sam­fé­lags og at­vinnu­lífs­ins verður kjarn­inn í nýrri klasa­stefnu til framtíðar og trygg­ir betri nýt­ingu fjár­muna.

Fjár­fest­ing­in nær 3% af lands­fram­leiðslu

Aukn­ing rík­is­fram­laga til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina hef­ur hækkað um 78% frá 2019. Hér fer sam­an kraft­ur hins op­in­bera og at­vinnu­lífs­ins, þar sem end­ur­greiðslur hafa verið aukn­ar til muna og fyr­ir­tæki í þess­um geira, sem stunda öfl­ug­ar rann­sókn­ir og þró­un­ar­starf, hafa þegar nýtt. Tíma­setn­ing­in á þess­ari stefnu­mörk­un er rétt og eyk­ur lík­urn­ar á því að hlut­fall starfa í þekk­ing­ar­grein­um fari vax­andi á kom­andi árum. Mest­ur vöxt­ur hef­ur verið í tæknifyr­ir­tækj­um á heimsvísu og mun hann halda áfram sök­um þess að tækn­inotk­un hef­ur auk­ist mikið á tím­um kór­ónu­veirunn­ar, hvort sem á við um fjar­kennslu, net­versl­un eða fjar­fundi. Ljóst er að marg­ir eru að nýta tíma sinn bet­ur vegna tækn­inn­ar og þróa nýj­ar aðferðir við störf sín. Sum­ir ganga svo langt að segja að á aðeins nokkr­um mánuðum hafi sta­f­ræn þekk­ing auk­ist meira en nokk­ur hafi gert sér von­ir um á 10 árum og kalla það „10-ára tæknis­tökk­breyt­ing­una“. Afar lík­legt er að mark­miðið um fram­lag hins op­in­bera til rann­sókn­ar og þró­un­ar verði 3% af lands­fram­leiðslu í ár. Þetta mark­mið þótti draum­kennt fyr­ir ekki svo löngu.

Rann­sókna­sjóður aldrei stærri

Til­kynnt hef­ur verið um út­hlut­un styrkja Rann­sókna­sjóðs fyr­ir árið 2021. Alls hljóta 82 ný verk­efni styrk sem er mesti fjöldi frá upp­hafi og jafn­framt hef­ur heild­ar­upp­hæð sem út­hlutað er aldrei verið hærri. Fram­lög til Rann­sókna­sjóðs hafa hækkað en hann er leiðandi sam­keppn­is­sjóður hér á landi sem hef­ur verið starf­rækt­ur frá ár­inu 2004. Hlut­verk sjóðsins er að styrkja vís­inda­rann­sókn­ir og rann­sókn­artengt fram­halds­nám á Íslandi. Síðustu ár hafa fjár­fram­lög til sjóðsins verið um 2,5 millj­arðar kr. en í sam­ræmi við stefnu Vís­inda- og tækni­ráðs sem samþykkt var á síðasta ári voru fjár­veit­ing­ar til sjóðsins hækkaðar í 3,7 millj­arða kr. fyr­ir þetta ár. Árið 2020 var einnig veitt aukafram­lag til sjóðsins vegna áhrifa Covid-19, alls 775,6 millj­ón­ir kr. Styrk­veit­ing­ar til nýrra verk­efna nema á þessu ári 1,3 millj­örðum kr., en þar sem verk­efn­in eru al­mennt til þriggja ára verður heild­ar­fram­lag vegna þeirra um 4 millj­arðar kr. á ár­un­um 2021-2023. Auk nýrra verk­efna koma tæp­lega 2 millj­arðar kr. til greiðslu á ár­inu vegna styrkja til eldri verk­efna. Rann­sókna­sjóður styrk­ir einnig þátt­töku ís­lenskra aðila í mörg­um alþjóðlega sam­fjár­mögnuðum verk­efn­um. Það er afar ánægju­legt að fylgj­ast með verk­efn­un­um og eru þau fjöl­breytt; hátíðni­kerfi; nátt­úru­vá, mer­gæxli, utangena­erfðir og sam­lífi manna og ör­vera.

Við lif­um sann­ar­lega á áhuga­verðum tím­um og það er að birta til!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Willum Þór Þórsson, formaður Þingflokks Framsóknarmanna og formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþingis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.