Categories
Fréttir

„Fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar“

Deila grein

20/09/2024

„Fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga á Alþingi um námsgögn, ný heildarlög. Frumvarpið er liður í innleiðingu menntastefnu til ársins 2030 en fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar. Eins felur það í sér umtalsverðar breytingar á útgáfu námsgagna og sumir hafa talað um að þær séu líklega þær mestu sem hafa orðið í áratugi, nái frumvarpið fram að ganga á Alþingi.

Gjaldfrjáls námsgögn

„Uppbygging frumvarpsins tekur að nokkru leyti mið af lögum um námsgögn en í því felast nokkur mikilvæg nýmæli og breytingar sem ég ætla hér að fara yfir. Þar ber helst að nefna að í frumvarpinu er lagt til að öllum börnum að 18 ára aldri standi til boða gjaldfrjáls námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum á Íslandi.

Markmið með gjaldfrjálsum námsgögnum er að tryggja jöfn tækifæri allra barna til náms, sem er jafnframt í samræmi við áherslur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við eitt af markmiðum gildandi menntastefnu. Hingað til hafa gjaldfrjáls námsgögn einvörðungu átt við skyldunám í grunnskóla en í frumvarpinu felst sú grundvallarbreyting að aðgangur að gjaldfrjálsum námsgögnum verður einnig tryggður á leikskóla- og framhaldsskólastigi,“ sagði Ásmundur Einar.

„Þetta er enn eitt skrefið í því að tryggja öllum börnunum okkar jöfn tækifæri í skólakerfinu okkar. Það hlýtur að vera leiðarstef allra þeirra sem hafa hag barnanna okkar fyrir brjósti að tryggja að kostnaður verði aldrei steinn í götu þeirra þegar kemur að menntun og þetta er í raun meðal þeirra grundvallarréttinda sem barnasáttmálinn kveður á um. Risavaxið framfaraskref var tekið með því að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir og er sá sem hér stendur stoltur af því að halda áfram á þeirri pólitísku braut að tryggja að efnahagur komi ekki niður á skólagöngu barna.“

Ræða Ásmundar Einars í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks

Deila grein

20/09/2024

Skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmið tillögunnar er að skapaður verði hvati með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til þess að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna og aukinn hvata til þess.

Tillögugreinin orðast svo:
„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda, hvort sem er á opinberum eða almennum markaði, vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.
Ráðherra geri grein fyrir niðurstöðum starfshópsins í lok maímánaðar 2025.“

Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

Categories
Greinar

Af atvinnumálum í Mosó

Deila grein

19/09/2024

Af atvinnumálum í Mosó

Nú þegar rétt um ár er síðan gildandi atvinnustefna fyrir Mosfellsbæ var samþykkt af bæjarstjórn er tilvalið að taka stöðuna á framvindu verkefna sem því tengjast.
Atvinnustefnan var tímabær fyrir okkar ört vaxandi sveitarfélag, til að skerpa á áherslum í atvinnumálum og ýta undir frekari framþróun og verðmætasköpun í sveitarfélaginu. Svo ekki sé minnst á þau auknu tækifæri og lífsgæði fyrir íbúa sem fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf skapar.

Fyrst ber að nefna þróunarverkefni fyrir Álafosskvos, sem hefur verið í vinnslu síðan í vor í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið gengur út á að greina áfangastaðinn og finna tækifæri til að efla hann enn frekar.
Álafosskvos hefur að geyma mikla sögu og sterkan karakter sem bæjarbúar eru væntanlega flestir sammála um að þurfi að miðla enn betur, hvort sem það er til íbúa eða ferðamanna. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á opnum fundi þann 14. október nk., eru áhugasamir hvattir til að mæta.

Innleiðing á atvinnustefnunni er komin vel á veg og er nú þegar tveimur verkefnum lokið. Annars vegar er það að gera upplýsingar um framboð atvinnulóða og lóðir samkvæmt skipulagi aðgengilegar á vef bæjarins. Hins vegar er það skilgreining á uppbyggingu atvinnu- og menningar í Álafosskvos í samvinnu við íbúasamtök og aðra hagsmunaaðila.
Fleiri verkefni eru svo komin vel af stað, má þar nefna markaðsáætlun fyrir sveitarfélagið, uppfærslu á viðeigandi upplýsingum á vef bæjarins o.fl.
Þróunarverkefnin á Varmársvæðinu og við Háholt 5 eru líka áhugaverð verkefni sem tala vel við atvinnustefnu bæjarins. Markmiðið þar er að kanna áhuga á samstarfi við uppbyggingu á svæðinu, sem býður upp á fjölda möguleika. Þarna er vafalaust spennandi tækifæri fyrir rétta aðila til að koma að uppbyggingu á sögufrægu svæði sem daglega iðar af mannlífi.

Á dögunum skrifuðu öflug fyrirtæki undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á nýjum atvinnukjarna á Korputúni, sem er mjög ánægjulegt. Korputún er vistvottaður atvinnukjarni á 15 ha svæði sem væntingar standa til að byggist upp á um 10 ára tímabili. Svæðið er vel staðsett og mun bjóða upp á mjög góðar samgöngutengingar.

Það er allra hagur að í Mosfellsbæ þrífist blómlegt atvinnulíf, með því að beita sér getur sveitarfélagið haft áhrif og stutt undir frekari vöxt og uppbyggingu.
Við munum halda áfram með innleiðingu á atvinnustefnunni ásamt fleiri verkefnum sem hafa það að markmiði að gera Mosfellbæ að enn eftirsóknarverðari kosti þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 19. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Mammon hefur náð líf­eyris­sjóðum á sitt band

Deila grein

19/09/2024

Mammon hefur náð líf­eyris­sjóðum á sitt band

Hagkaup hefur hafið sölu á áfengi í gegnum vefverslun. Viðskiptavinum gefst nú tækifæri til að kaupa áfengi á netinu og sækja í Skeifuna um leið og þú verslar ostinn og mjólkina. Jú þú getur verslað allan sólahringinn í Skeifunni. Hér hefur Mammon náð lífeyrissjóðunum á sitt band og Hagar eru að stórum hluta í almenningseigu. Með þessari stefnubreytingu er brotið blað og ættu þau félög sem hér um ræðir og eru í almenningseign að svara fyrir það hvort það sé þeirra stefna að brjóta niður það forvarnarstarfs sem hefur verið unnið að í áratugi.

Þetta er ekki fyrsta netverslunin hér á landi heldur fylla þær brátt tuginn. Þrátt fyrir að smásala áfengis sé ólöglegt fyrir utan ÁTVR. Ég myndi ekki æða út á ritvöllinn ef þetta væri almenn vara eins og sokkar eða hveiti. Við erum að tala um aðgengi að áfengi hefur aukist og ný vídd opnast við að þú hafir aðgengi að því allan sólahringinn.

Það er staðreynd að óhófleg áfengisneysla er böl fólks á öllum aldri. Það er talið að allt að 150 manns látist á hverju ári vegna þess. Fjölskyldur splundrast og ofbeldi eykst.

Íslenska forvarnarmódelið

Íslenska forvarnarmódelið er þekkt og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun. Það má segja að það sé orðið útflutningsvara. Haldnar hafa verið ráðstefnur á erlendri grundu þar sem íslenska módelið hefur verið kynnt og árangurinn af því. Danir hafa verið þekktir fyrir frjálsræði í áfengismálum og hægt að kaupa áfengi í öllum matvörubúðum. Nú eru stjórnvöld þar farin að horfa til okkar og nokkur sveitarfélög eru að taka upp forvarnarmódelið.

En hér heima eru öfl sem ætla að hundsa það út frá hugmyndafræðinni um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins getur aldrei orðið meira en það öryggi sem hann býr við.

Áfengisverslun ríkisins vinnur undir strangri löggjöf sem lýtur að því að áfengi sé ekki venjuleg vara heldur vara sem við þurfum að halda frá ungu fólki. ÁTVR er bundin af því að þeir hafa fasta álagningu á áfengi og álagning reiknast af innkaupaverði þeirra frá birgjum. Hagar flytja inn áfengi og eru þá líklega meðal birgja ÁTVR og nú er Hagkaup sem er í eigu Haga komin í samkeppni við ÁTVR á smásölu áfengis á Íslandi.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Deila grein

19/09/2024

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Við í Fram­sókn höf­um lagt áherslu á að vernda hag eldri borg­ara og síðustu ár hafa mik­il­væg skref verið tek­in í átt að því að bæta kjör þeirra. Eitt af þess­um skref­um er til­laga í fjár­lög­um sem nú eru til umræðu í þing­inu. Hækk­un á al­menna frí­tekju­mark­inu fyr­ir eldri borg­ara er mik­il­vægt skref til að stuðla að betri lífs­kjör­um fyr­ir þenn­an hóp. Á sama tíma og þetta skref er tekið er brýnt að greina sér­stak­lega þá ein­stak­linga inn­an hóps­ins sem eiga í mest­um efna­hags­leg­um erfiðleik­um og beina aðstoð til þeirra með mark­viss­ari hætti.

Al­menna frí­tekju­markið nær til allra eldri borg­ara og er það hlut­fall tekna sem eldri borg­ar­ar geta haft án þess að þær hafi áhrif á greiðslur þeirra frá Trygg­inga­stofn­un eða öðrum al­manna­trygg­ing­um. Nú ligg­ur fyr­ir til­laga í fjár­lög­um að hækka frí­tekju­markið, úr 25.000 kr. í 36.500 kr. á mánuði. Hækk­un frí­tekju­marks­ins þýðir að fleiri eldri borg­ar­ar geti haft aukn­ar tekj­ur án þess að þær skerði rétt­indi þeirra til líf­eyr­is­greiðslna. Slík­ar breyt­ing­ar stuðla að meira fjár­hags­legu ör­yggi og bættri af­komu þeirra eldri borg­ara sem eru virk­ir á vinnu­markaði eða hafa aðrar tekju­lind­ir. Hækk­un frí­tekju­marks­ins hef­ur því bein áhrif á lífs­gæði eldri borg­ara og ger­ir þeim kleift að lifa með meiri reisn. Fyr­ir marga er þetta mik­il­vægt, sér­stak­lega þegar horft er til hækk­andi verðlags, auk­ins hús­næðis­kostnaðar og kostnaðar við heil­brigðisþjón­ustu. Þessi hækk­un er tíma­bært skref en einnig er mik­il­vægt að hafa í huga þörf­ina á að halda áfram hækk­un frí­tekju­marks­ins í þrep­um á næstu árum.

Mik­il­vægi mark­vissr­ar aðstoðar

Þrátt fyr­ir þessi mik­il­vægu skref í að bæta lífs­kjör eldri borg­ara er staðreynd­in sú að efna­hags­staða þeirra er mjög mis­mun­andi. Fjár­hags­leg staða eldri borg­ara er al­mennt sterk þar sem sum­ir eiga tölu­verð eigna­söfn eða hafa áunnið sér eft­ir­laun úr líf­eyr­is­sjóðum, en aðrir búa hins veg­ar við fjár­hags­leg­an skort. Ein­stak­ling­ar sem hafa litla sem enga inn­eign í líf­eyr­is­sjóðum, búa við hátt leigu­verð og/​eða eiga ekki íbúðar­hús­næði eða hafa verið utan vinnu­markaðar stór­an hluta ævi sinn­ar, t.d. vegna heim­il­is­starfa eða veik­inda, geta upp­lifað fjár­hags­lega veika stöðu. Því er mik­il­vægt að greina þenn­an hóp sér­stak­lega svo stuðning­ur­inn rati í rétt­an far­veg. Eins mun verða nauðsyn­legt að skoða það bil sem orðið hef­ur á milli lægstu launa og elli­líf­eyr­is. Þenn­an mun verður að minnka í áföng­um yfir næstu ár.

Sam­fé­lags­leg ábyrgð

Sam­fé­lagið ber ríka ábyrgð á að tryggja að all­ir eldri borg­ar­ar fái tæki­færi til að lifa með reisn og ör­yggi á efri árum. Hækk­un frí­tekju­marks­ins er mik­il­vægt skref í þessa átt, en það er jafn­framt brýnt að við gleym­um ekki þeim sem búa við mest­an fjár­hags­leg­an skort eins og áður sagði. Með mark­vissri aðstoð og skýr­ari grein­ingu á þörf­um þessa hóps get­um við byggt upp rétt­lát­ara sam­fé­lag þar sem all­ir eldri borg­ar­ar fá sömu tæki­færi til að njóta ævikvölds­ins. Það er ekki nóg að horfa á meðal­töl­in eða al­menn­ar breyt­ing­ar; við verðum að skilja að það eru hóp­ar sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Með því að sam­eina hækk­un frí­tekju­marks við mark­viss­ar aðgerðir fyr­ir þá sem hafa það verst get­um við tryggt betri lífs­kjör fyr­ir alla eldri borg­ara.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september 2024.

Categories
Fréttir

Mammon hefur náð lífeyrissjóðunum á sitt band

Deila grein

18/09/2024

Mammon hefur náð lífeyrissjóðunum á sitt band

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni í störfum þingsins að hafin sé sala á áfengi í gegnum vefverslun Hagkaups. „Viðskiptavinum gefst nú tækifæri til að kaupa áfengi á netinu og sækja í Skeifuna um leið og þeir kaupa ostinn og mjólkina, sem þeir geta gert í Skeifunni allan sólarhringinn.“

„Hér hefur mammon náð lífeyrissjóðunum á sitt band og Hagar eru að stórum hluta í almenningseigu. Þetta er ekki fyrsta netverslunin hér á landi heldur fylla þær brátt tuginn þrátt fyrir að smásala á áfengi sé ólögleg fyrir utan ÁTVR,“ sagði Halla Signý.

„Ég stæði ekki hér ef þetta væri almenn vara eins og sokkar eða hveiti. Við erum að tala um að aðgengi að áfengi hefur aukist og ný vídd opnast við að þú hafir aðgengi að því allan sólarhringinn. Það er staðreynd að óhófleg áfengisneysla er böl fólks á öllum aldri. Það er talað um að 150 manns látist á hverju ári vegna þess. Fjölskyldur splundrast og ofbeldi eykst.

Íslenska forvarnamódelið er þekkt og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun. Það má segja að það sé orðin útflutningsvara. Haldnar hafa verið ráðstefnur á erlendri grundu þar sem íslenska módelið hefur verið kynnt og árangurinn af því. En hér heima eru öfl sem ætla að hunsa það út frá hugmyndafræði um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins getur aldrei orðið meira en það öryggi sem hann býr við.

ÁTVR vinnur nú undir strangri löggjöf sem lýtur að því að áfengi sé ekki venjuleg vara heldur vara sem við þurfum að halda frá ungu fólki. ÁTVR er bundið af því að þeir hafi fasta álagningu á áfengi og álagning reiknist af innkaupsverði þeirra frá birgjum. Hagar flytja inn áfengi og eru þá líklega meðal birgja ÁTVR. Og nú eru Hagkaup, sem eru í eigu Haga, komin í samkeppni við ÁTVR um smásölu áfengis á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það er margt skrýtið í kýrhausnum,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hagkaup hafa hafið sölu á áfengi í gegnum vefverslun. Viðskiptavinum gefst nú tækifæri til að kaupa áfengi á netinu og sækja í Skeifuna um leið og þeir kaupa ostinn og mjólkina, sem þeir geta gert í Skeifunni allan sólarhringinn. Hér hefur mammon náð lífeyrissjóðunum á sitt band og Hagar eru að stórum hluta í almenningseigu. Þetta er ekki fyrsta netverslunin hér á landi heldur fylla þær brátt tuginn þrátt fyrir að smásala á áfengi sé ólögleg fyrir utan ÁTVR.

Ég stæði ekki hér ef þetta væri almenn vara eins og sokkar eða hveiti. Við erum að tala um að aðgengi að áfengi hefur aukist og ný vídd opnast við að þú hafir aðgengi að því allan sólarhringinn. Það er staðreynd að óhófleg áfengisneysla er böl fólks á öllum aldri. Það er talað um að 150 manns látist á hverju ári vegna þess. Fjölskyldur splundrast og ofbeldi eykst.

Íslenska forvarnamódelið er þekkt og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun. Það má segja að það sé orðin útflutningsvara. Haldnar hafa verið ráðstefnur á erlendri grundu þar sem íslenska módelið hefur verið kynnt og árangurinn af því. En hér heima eru öfl sem ætla að hunsa það út frá hugmyndafræði um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins getur aldrei orðið meira en það öryggi sem hann býr við.

ÁTVR vinnur nú undir strangri löggjöf sem lýtur að því að áfengi sé ekki venjuleg vara heldur vara sem við þurfum að halda frá ungu fólki. ÁTVR er bundið af því að þeir hafi fasta álagningu á áfengi og álagning reiknist af innkaupsverði þeirra frá birgjum. Hagar flytja inn áfengi og eru þá líklega meðal birgja ÁTVR. Og nú eru Hagkaup, sem eru í eigu Haga, komin í samkeppni við ÁTVR um smásölu áfengis á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það er margt skrýtið í kýrhausnum.“

Categories
Fréttir

„Vegir eru lífæðar samfélaga“

Deila grein

18/09/2024

„Vegir eru lífæðar samfélaga“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, gerði að umræðuefni í störfum þingsins stöðu vegakerfisins og það augljósa að þeir séu ekki gerðir fyrir þá þungu umferð, þann fjölda bíla eða þá atvinnuvegi sem um þá aka í dag. Það að ekki hafi tekist að samþykkja nýja samgönguáætlun skapi ýmiss konar vandræði, áframhaldandi gott viðhald og að uppbygging sé á áætlun.

„Við búum svo vel að því að hafa samgönguáætlun þar sem forgangsröðun þingsins kemur fram hvað varðar framkvæmdir í vegamálum. Samgönguáætlun var lögð fram hér á síðasta löggjafarþingi. Hún kláraðist því miður ekki og við sjáum að það hefur skapað ýmiss konar vandamál. Það er ljóst að fyrri samgönguáætlun á að vera enn í gildi,“ sagði Lilja Rannveig.

„En varðandi þessi mál vil ég nefna sérstaklega stöðuna í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Framkvæmdir á Vestfjörðum eru núna stopp. Malarvegir eru flestir á Vesturlandi og Norðvesturlandi og sumir vegir sem hafa bundið slitlag bera einfaldlega ekki þá umferð sem á þeim er og þeim var breytt í malarvegi aftur. Þetta gerðist í sumar í Dalabyggð og hefur nú að mestu verið lagfært. En það er ljóst að þetta getur gerst aftur. Það er ljóst að uppbygging vega í Norðvesturkjördæmi er nauðsynleg og það þarf að gæta að því að það svæði verði ekki undir í samgönguáætlun sem á að koma fram hér í haust.

Vegir eru lífæðar samfélaga og þess vegna þarf fólk að geta treyst á það að viðhald og uppbygging þeirra séu á áætlun og að áætlanir standist,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Nú er mikið rigningarsumar að baki, ef sumar má kalla. Það kom þó ekki í veg fyrir að landsmenn settust undir stýri og keyrðu um landið. Eins og margir landsmenn tóku eftir er staða vegakerfisins þannig að þó að vegir séu á mörgum stöðum mjög góðir þá er augljóst að þeir eru ekki gerðir fyrir þá þungu umferð, þann fjölda bíla eða þá atvinnuvegi sem þeir bera í dag. Við búum svo vel að því að hafa samgönguáætlun þar sem forgangsröðun þingsins kemur fram hvað varðar framkvæmdir í vegamálum. Samgönguáætlun var lögð fram hér á síðasta löggjafarþingi. Hún kláraðist því miður ekki og við sjáum að það hefur skapað ýmiss konar vandamál. Það er ljóst að fyrri samgönguáætlun á að vera enn í gildi.

En varðandi þessi mál vil ég nefna sérstaklega stöðuna í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Framkvæmdir á Vestfjörðum eru núna stopp. Malarvegir eru flestir á Vesturlandi og Norðvesturlandi og sumir vegir sem hafa bundið slitlag bera einfaldlega ekki þá umferð sem á þeim er og þeim var breytt í malarvegi aftur. Þetta gerðist í sumar í Dalabyggð og hefur nú að mestu verið lagfært. En það er ljóst að þetta getur gerst aftur. Það er ljóst að uppbygging vega í Norðvesturkjördæmi er nauðsynleg og það þarf að gæta að því að það svæði verði ekki undir í samgönguáætlun sem á að koma fram hér í haust. Vegir eru lífæðar samfélaga og þess vegna þarf fólk að geta treyst á það að viðhald og uppbygging þeirra séu á áætlun og að áætlanir standist.“

Categories
Fréttir

Húsnæðismál lögreglunnar á Suðurnesjum

Deila grein

17/09/2024

Húsnæðismál lögreglunnar á Suðurnesjum

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins húsnæðismál lögreglunnar á Suðurnesjum, en staða þess sé óviðunandi og að embættið sé annað stærsta embætti landsins og hafi vaxið gríðarlega á undanförnum árum.

„Ég velti fyrir mér hvernig það má vera að ekkert plan liggi fyrir um varanlegt húsnæði heldur sé unnið að þarfagreiningu og bráðabirgðalausnum. Embættið mun ekki gera annað en að vaxa. Svona vinnubrögð eru óboðleg í mínum huga,“ sagði Jóhann Friðrik.

Lögreglufélag Suðurnesja skoraði í yfirlýsingu á Framkvæmdasýsluna og stjórnvöld í vor um úrbætur: „Útkallsliðið deilir nú húsnæði með rannsóknardeild, lögfræðisviði og yfirstjórn sem væri undir eðlilegum kringumstæðum besta staðan ef það húsnæði væri ekki skrifstofurými sem er ætlað rúmlega 40 starfsmönnum en hýsir nú tæplega 70 manns á dagvinnutíma.“

„Í fjármálaáætlun sem við samþykktum í vor ávarpaði meiri hluti fjárlaganefndar nauðsyn þess að setja húsnæðismál embættisins í forgang. Hæstv. dómsmálaráðherra þarf að gera það sem í hennar valdi stendur til að fyrir liggi plan um varanlegt húsnæði sem allra fyrst og hraða vinnu við bráðabirgðaaðstöðu fyrir sunnan. Ég hef áhyggjur af því að óboðleg vinnuaðstaða ofan á aukið álag geri það að verkum að lögreglumenn á Suðurnesjum leiti einfaldlega í önnur störf eða til annarra embætta. Við megum ekki missa frá okkur hæft fólk. Því hvet ég ráðherra til dáða í þessu máli og heiti að sjálfsögðu mínum stuðningi. Tímasetning á nýrri lögreglustöð á Suðurnesjum verður að líta dagsins ljós í haust,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

„Okkar skylda að tryggja þeim besta mögulega grunn til að þroskast og dafna“

Deila grein

17/09/2024

„Okkar skylda að tryggja þeim besta mögulega grunn til að þroskast og dafna“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gerði að umtalsefni, í störfum þingsins, stöðu barna og mikilvægi þess að skapa umgjörð heilbrigðs samfélags með því að kenna þeim samkennd og ábyrgð, samhug og samstöðu og þau finni nærveru og kærleika „svo að þau skilji að samfélagið verður aðeins sterkt þegar við vinnum saman.“

„Áföllin hafa dunið yfir samfélagið okkar undanfarna daga og vikur. Eftir sitjum við mörg hver orðlaus og eflaust fallast mörgum okkar hendur. Áskorunin er stór og ábyrgðin mikil en sú mikilvægasta er ábyrgðin sem við berum gagnvart börnunum okkar og ungmennum,“ sagði Ingibjörg.

„Börnin eru það mikilvægasta í lífi okkar og það er okkar skylda að tryggja þeim besta mögulega grunn til að þroskast og dafna.“

„Þegar upp koma vandamál í uppeldi eða menntun barna okkar höfum við oft tilhneigingu til þess að vísa ábyrgðinni á aðra; ríki, sveitarfélög, kennara, menntakerfið og jafnvel nágranna okkar, í stað þess að líta í eigin barm. En sannleikurinn er sá að við öll, hver sem á í hlut, hvert og eitt, getum gert betur. Börnin okkar þurfa á því að halda. Þau þurfa samveru með okkur, hlustun, stuðning og leiðsögn, sérstaklega á tímum þegar tæknin er farin að rjúfa félagsleg tengsl. Það er okkar hlutverk að tryggja að þau finni fyrir nærveru og kærleika. Við berum ábyrgð á því að kenna börnunum okkar mikilvægi samkenndar og ábyrgðar, sýna þeim hvernig samhugur og samstaða er undirstaða heilbrigðs samfélags svo að þau skilji að samfélagið verður aðeins sterkt þegar við vinnum saman. Stöndum með hvert öðru og öxlum ábyrgð á heildinni, ekki bara okkur sjálfum. Börnin okkar eru einstök, þau standa sig vel og eru framar okkur að mörgu leyti, en við megum ekki gleyma þeim sem þurfa aukna aðstoð og stuðning. Það er okkar sameiginlega ábyrgð að tryggja að enginn verði út undan, að öll börn fái tækifæri til að blómstra, sama hvaða áskorunum þau standa frammi fyrir.“

„Við erum ekki einungis að byggja samfélag fyrir okkur sjálf heldur fyrir komandi kynslóðir. Tökum öll höndum saman, gefum okkur tíma og tryggjum að börnin okkar fái að dafna í öruggu, kærleiksríku og ábyrgðarmiklu samfélagi,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir Greinar

Hver er okkar á­byrgð á of­beldi meðal barna

Deila grein

17/09/2024

Hver er okkar á­byrgð á of­beldi meðal barna

Á síðustu vikum hefur okkur verið tíðrætt um ofbeldi barna gagnvart hvort öðru. Það kemur ekki á óvart í ljósi skelfilegra atburða sem hafa átt sér stað hér á landi þar sem börn ganga í meira mæli með eggvopn á sér.

Það eitt og sér að börn gangi vopnuð, eða telji sig þurfa að gera það, er óásættanleg þróun. Hvort sem að ofbeldi barna og ungmenna hafi aukist eða sé orðið sýnilegra, þá er augljóst að staðan er alvarleg og nauðsynlegt er að grípa í taumana og gera allt sem í okkar valdi stendur. Foreldrar, félagsþjónustan og stjórnvöld þurfa öll að taka höndum saman og stoppa þessa þróun.

Ofbeldi barna og ungmenna

Undanfarin ár hafa stjórnendur innan skólakerfisins lýst yfir áhyggjum af auknu ofbeldi m.a. innan skólalóðarinnar. Það á jafnvel við um börn á yngsta skólastigi. Það sama á við utan skólalóðarinnar og á samfélagsmiðlum. Foreldrar, lögreglan og skólayfirvöld benda öll á það að virðingarleysi barna gagnvart hvort öðru er sífellt meira áberandi þar sem ljót samskipti og líkamlegt ofbeldi færast í aukana.

Hvað er verið að gera?

Síðastliðinn júní kynnti Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, 14 aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna í samvinnu við dómsmálaráðherra. Þar á að leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi. Þessar aðgerðir snúa að auknu forvarnarstarfi, inngripi og meðferð og varða ýmsa aðila innan ríkisins, stjórnsýslunnar og sveitarfélaga.

Viðfangsefnið er víðfeðmt og aðgerðirnar því margskonar og varða m.a. aukna þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna, að mynda verklag fyrir sakhæf og ósakhæf börn og úrræði fyrir þau sem beita alvarlegu ofbeldi, að efla samfélagslögreglu, að auka fræðslu og forvarnir og efla ungmennastarf. Aðgerðir þessar miða að því að fræða börn og ungmenni um afleiðingar, útvega þeim stað þar sem þau geta eflt samskipti í skipulögðu starfi og hvernig eigi að bregðast við þegar ofbeldi á sér stað. Allar þessar aðgerðir eru nauðsynleg skref sem þarf sífellt að endurskoða og meta á meðan á þeim stendur. Hins vegar er ofbeldi barna og ungmenna samfélagslegt mein sem allt samfélagið verður að taka höndum saman við að vinna bug á.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Við erum öll uggandi yfir framangreindri þróun ofbeldis, enda varðar hún okkur öll. Vörumst það að leggjast í skotgrafir og leita að sökudólgum. Þó þurfum við að komast til botns í það hvað veldur, hvar við erum að bregðast og gangast við þeirri ábyrgð. Foreldraeftirlit hvers foreldris fyrir sig með sínu barni og öðrum í sínu nærumhverfi verður að vera öflugt. Samfélagið allt verður að koma saman og vinna að því að kynna börnum okkar fyrir þeim hættum sem stafa af ofbeldi af því tagi sem við heyrum af nánast vikulega. Við þurfum að gangast að okkar ábyrgð sem foreldrar og þar komum við aftur að því að samvera er besta forvörnin eins og okkur hefur verið tíðrætt um undanfarin ár. Foreldrasamfélagið þarf að virkja vel í þessum aðgerðum og hér á landi höfum við góða reynslu af öflugu forvarnarstarfi og aðgerðum til að vinda ofan af óæskilegri hegðun.

Við berum öll ábyrgð á því að koma börnunum okkar vel til manns og kenna þeim samfélagsreglurnar, það gerum við ekki með því að vera fjarverandi sem foreldrar og setja ábyrgðina á aðrar stofnanir eða jafnvel að skella skuldinni á menntakerfið eða heilbrigðiskerfið. Auðvitað þurfum við að hafa öflugt geðheilbrigðiskerfi sem kemur í veg fyrir alvarlegan hegðunarvanda eða vanlíðan meðal barna og ungmenna en það verður ekki fram hjá því litið hver ábyrgð okkar er sem foreldrar.

Við eigum að hafa vökult auga fyrir ofbeldi í okkar nærumhverfi, eiga samtal við ungmennin okkar og grípa einstaklinga í áhættuhópum sem gætu beitt eða lent í ofbeldi. Þegar kemur að velferð barnanna í okkar samfélagi er okkur sem ætlum að vera virkir og góðir þátttakendur í samfélaginu ekkert óviðkomandi, og við eigum að sjá til þess að börnin okkar mótist í rétta átt til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. september 2024.