Categories
Fréttir Greinar

Langþráðri niðurstöðu náð

Deila grein

17/05/2023

Langþráðri niðurstöðu náð

Þau ánægjulegu tíðindi bárust seinni partinn í gær að sáttir hafi náðst vegna fyrirhugaðrar löggjafar ESB um losunarheimildir á flugferðir. Á blaðamannafundi sem Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, og Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra héldu í forsetabústaðnum kom fram að tekið verði tillit til séríslenskra aðstæðna og að Ísland muni hljóta undanþágur sem gildir til tveggja ára og hægt verði að deila á milli flugfélaga.

Hér er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál Íslands frá því EES- samningurinn var tekin upp og íslensk stjórnvöld hafa verið vakin og sofin yfir því að tryggja að Ísland þurfi ekki að undirgangast íþyngjandi losunarskatt sem fyrirhugað var að leggja á flugleggi til og frá landinu. Ef þessum mikilvæga áfanga hefði ekki verið náð hefði verið fyrirséð að kostnaður vegna ferðalaga til og frá landinu hefði hækka umtalsvert, en við sem eyþjóð erum í ólíkri stöðu en flest önnur lönd í Evrópu.

Við þurfum þó að draga úr olíunotkun

Þrátt fyrir að þessu mikilvæga hagsmunamáli hafi verið náð höfum við en verk að vinna. Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftlagsmálum og þar er flugið ekki undanskilið. Stefnt er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Notkun olíu er helsti losunvaldurinn og fer 52% af allir olíunotkun Íslendinga í flug. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að hætta alfarið að nota olíu og unnið er allra leiða til þess. Eigi orkuskiptin að ganga upp er fyrirséð að finna þurfi aðra nýja græna endurnýjanlega orkugjafa í stað olíunnar.

Rafeldsneytisframleiðsla

Sá sem hér skrifar lagði í vetur fram þingsályktunartillögu um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi en framleiðsla rafeldsneytis sem vetnis eða annars rafeldsneytis í formi ammóníaks, metanóls eða metans, eru græn tækifæri sem bíða þess að vera nýtt. Rafeldsneyti má nýta í þyngri farartæki líkt og flugvélar og skip. Auk þess að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innan lands liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þótt framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir.

Mikilvægi þess að Ísland geti orðið sjálfbært er kemur að öflun á rafeldsneyti er ótvírætt eins og núverandi ástand heimsmála sýnir svo rækilega. Sjálfbærni í orkuöflun er þjóðaröryggismál fyrir utan þá þjóðhagslegu hagsmuni sem af því hljótast að framleiða innlenda orkugjafa til notkunar í orkuskiptum Íslendinga. Framtíðartækifærin eru því mikil þegar kemur að framleiðslu á rafeldsneyti og þetta styður við markmið okkar um orkusjálfstæði Íslands og öruggar samgöngur til og frá landi.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sögulegir tímar í dag

Deila grein

17/05/2023

Sögulegir tímar í dag

Helstu þjóðarleiðtogar Evrópu eru nú saman komnir í Hörpu til viðræðna og það má með sanni segja að sagan sé að skrifa sig hér á Íslandi, enda ekki oft sem fundir af þessari stærðargráðu eru haldnir hérlendis. Það eru 17 ár síðan Evrópuráðið fundaði með þessum hætti en þetta er í fjórða sinn í 74 ára sögu stofnunarinnar sem leiðtogar aðildarríkja koma saman undir merkjum ráðsins. Umstangið er verulegt og eitthvað sem við höfum svo sannarlega ekki vanist hér áður. Af öllu er að merkja að skipulagið er gott og þeir sem hafa staðið að baki fundinum eiga hrós skilið.

Mikilvæg skilaboð

Evrópuráðið er ekki sprottið upp úr engu, það var sett á fót í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, auka samvinnu innan álfunnar og koma í veg fyrir annað stríð. Á fundi sem þessum leggja leiðtogar pólitískan ágreining til hliðar, byggja upp persónuleg tengsl og móta sameiginlega sýn fyrir frið í Evrópu.

Evrópuráðið hefur mikilvæga hlutverki að gegna við að gæta að mannréttinum, lýðræði og að alþjóðareglur séu virtar. Það er ekki er hægt að ofmeta mikilvægi funda sem þessa. Þegar leiðtogar þjóða safnast saman á einum stað fá þeir einstakt tækifæri til þess að efla skilning, tengjast og byggja upp traust. Á sama tíma senda þeir öflug skilaboð til borgaranna og alþjóðasamfélagsins um mikilvægi þess að standa saman um grundvallar mannréttindi.

Rússar þurfa að bera ábyrgð

Helsta málefni fundarins er að ræða innrás Rússa í Úkraínu, hvernig bæta megi það tjón sem Rússar hafa valdið og hvernig draga megi þá til ábyrgða fyrir þau voðaverk sem framin hafa verið. Eitt af því sem stefnt er að er að koma á fót svokallaðri tjónaskrá þar sem þau sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum innrásarinnar fá það skráð og síðar bætt, en sömuleiðis verður leitað leiða til að draga þau til ábyrgðar sem framið hafa glæpi í Úkraínu. Ef viðræður ganga vel er gert ráð fyrir að undirrituð verði sameiginleg yfirlýsing sem líklega fær nafnið Reykjavíkuryfirlýsingin (e. Reykjavík Declaration).

Ísland eyja friðar

Við eigum að vera stolt yfir því að Ísland hafi verið valið til þess að hýsa þennan merka viðburð, alveg eins og Ísland var valið á sínum tíma til þess að hýsa leiðtogafund milli Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev, en sá fundur er talin hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki og markaði tímamót þar sem tekin voru skref í átt að friði og endalokum kalda stríðsins.

Enn á ný er Ísland og Reykjavík sameiningartákn friðar, það er ekki að ástæðulausu sem Yoko Ono fann Friðarsúlunni heimili á Íslandi, Ísland á að vera, og er, hlutlaus staður þar sem helstu leiðtogar eiga að geta komið saman og lagt áhyggjur sínar á borð og leitað lausna. Það er heiður fyrir okkur að hýsa þessa mikilvægu samkomu, vonandi munu fulltrúar fundarins finna fyrir þeim góða anda sem hér ríkir og hann skili sér áfram í góðri vinnu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2023.

Categories
Fréttir

Framtíð lýðræðis í Evrópu

Deila grein

17/05/2023

Framtíð lýðræðis í Evrópu

„Við höfum verið að sjá hnignun lýðræðis jafnt og þétt síðustu ár svo staðan núna ætti varla að koma okkur stórkostlega á óvart,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra á málþingi Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um lýðræði fyrir framtíðina sem fór fram í Veröld húsi Vigdísar um helgina.

Á málþinginu sköpuðust góðar umræður um framtíð lýðræðis í Evrópu og hvernig efla megi lýðræðislega menningu og traust á lýðræðisstofnunum í álfunni.

Meðal framsögufólks auk menningar- og viðskiptaráðherra voru Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Alexander Shlyk, sérstakur ráðgjafi Sviatlana Tsikhanovskaya, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, Mariia Mezentseva, formaður úkraínsku landsdeildarinnar á Evrópuráðsþinginu, Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 og Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði mennta, vísinda og menningar.

Ógn steðjar að lýðræðinu

Í vestrænum samfélögum hefur almennt verið sú sýn að lýðræði sé hornsteinn farsælda þrátt fyrir að stjórnarfyrirkomulagið sé ekki gallalaust. Hins vegar hefur ekkert stjórnarfar reynst betra enda byggist það á skýrum lögum, frelsi einstaklinga til athafna og tjáningar, valddreifingu og sjálfstæðum dómstólum ásamt reglubundnum kosningum.

„Staðan í heiminum í dag er sú að fleiri búa við einræði eða um 72% íbúa heimsins samanborið við 50% fyrir áratug samkvæmt greiningu Lýðræðis margbreytileikans. Í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi eru fleiri einræðisríkisstjórnir en lýðræðisríkisstjórnir. Því miður er vaxandi skoðun að annað stjórnarfar en lýðræði geti búið til betri lífskjör,“ sagði ráðherra á málþinginu.

„Þjóðir heims geta ekki horft fram hjá þessu og verða að spyrja sig gagnrýnna spurninga. Ógn steðjar að lýðræðinu og ein birtingarmynd þess er stríðið í Úkraínu. Þá sé mikilvægt að standa vörð um frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsi einstaklinga ásamt því að sporna gegn falsfréttum og hatursorðræðu.“

Mikilvægt að hvetja til þátttöku

Þá var mikið rætt um stöðu minnihlutahópa, bil á milli kynslóða og áhrif loftslagsbreytinga á samfélög. Ráðherra hvatti ungt fólk að gera sig gildandi í umræðunni, taka þátt í stjórnmálum og grasrótarsamtökum og láta rödd sína heyrast sem víðast.

Fram kom í máli Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, að vaxandi áhyggjur séu upp varðandi hnignun lýðræðis í Evrópu. Rússland hafi til að mynda færst frá því að vera lýðræðisríki. Það sé von margra að leiðtogafundurinn í Reykjavík marki ákveðin þáttaskil þegar 46 leiðtogar heimsins sameinast um ákveðna hornsteina lýðræðis. Markmiðið sé að endurvekja, styrkja og í einhverju tilvikum enduruppgötva þá.

„Lýðræðið er fólksins, ekki stjórnmálamanna, og því mikilvægt að hvetja það til að taka þátt og viðhalda lýðræðinu,“ sagði Tiny Kox á málþinginu.

Málþingið er hluti af dagskrá fundar stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins sem kemur saman í Reykjavík í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fer nú fram í Hörpu.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Fundur um málefni ferðaþjónustunnar

Deila grein

16/05/2023

Fundur um málefni ferðaþjónustunnar

Stjórn sveitarstjórnarráðs Framsóknar boðar til fjarfundar með sveitarstjórnarfólki Framsóknar um málefni ferðaþjónustunnar.

Frummælendur verða Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála og varaformaður Framsóknar, Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar og Elías B. Gíslason forstöðumaður hjá Ferðamálastofu.

Ráðherra mun fjalla um mikilvægi ferðaþjónustunnar og vinnu við ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun. Jóhannes mun ræða framtíðarhorfur og nýtt mælaborð ferðaþjónustunnar, en Elías fjallar um ferðamálin frá sjónarhóli Ferðamálastofu.

Fundurinn verður haldinn á TEAMS þriðjudaginn 23. maí kl 20:00.

Þau sem eru áhugasöm að sækja fundinn eru beðin að skrá sig með því að senda póst á framsokn@framsokn.is.

Categories
Fréttir

Aðalfundur Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

15/05/2023

Aðalfundur Framsóknar í Hveragerði

Aðalfundur Framsóknar í Hveragerði verður haldinn miðvikudaginn 24. maí í Reykjadalsskála í Hveragerði. Á dagskrá veru venjuleg aðalfundarstörf.

Áhugasöm um þátttöku í starfinu er bent á að hafa samband við Mörtu Rut Ólafsdóttur, formann félagsins, með því að senda tölvupóst á martarut91@gmail.com.

Bestu kveðjur,
stjórn Framsóknar í Hveragerði

Categories
Fréttir Greinar

Verðum að taka afstöðu

Deila grein

11/05/2023

Verðum að taka afstöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „Sett verða metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi.“ Síðastliðin ár hefur áskrifendum hugmyndafræðinnar um fæðuöryggi fjölgað. Við sjáum þau áhrif sem utanaðkomandi aðstæður geta skapað, þá til dæmis heimsfaraldur COVID og stríð í Evrópu. Atburðir sem Íslendingar hafa engin völd yfir en aðstæðurnar hafa þó áhrif hér á landi. Það verður sífellt mikilvægara að við tryggjum það að við séum sjálfum okkur næg til framtíðar og tryggjum fæðuöryggi landsins með hollu og næringarríku fæði.

Fæðuöryggi byrjar hjá bændum

Öflugur landbúnaður er þýðingarmikill fyrir fæðuöryggi í heimi þar sem aðfangakeðjur eru ótryggar auk þess sem ýmsar aðrar ógnir steðja að. Ef við ætlum að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla þá verðum við að tryggja bændum landsins viðunandi rekstrargrundvöll og afkomu. Keðjan hefst þar. Ef starfsskilyrði bænda eru þess fallin að hrekja fólk úr stéttinni og hafa letjandi áhrif á nýliðun þá munum við væntanlega horfast í augu við talsvert brottfall.

Þrotlaus vinna bænda er ekki sjálfgefin þó svo að margir hafi tekið henni sem sjálfsögðum hlut of lengi. Mikilvægi stuðnings ríkisins til innlendrar matvælaframleiðslu er óumdeilt. Stuðningurinn er ýmist beint eða óbeinn. Sem dæmi má nefna aukna tollvernd á innfluttum afurðum og greiðslumark lögbýla. Þar eigum við langt í land. Innflutningur matvælaafurða hefur stóraukist á síðustu árum og virðist ekki linna, en hann hefur haft lamandi áhrif á innlenda matvælaframleiðslu, sem getur ekki keppt við risavaxinn verksmiðjubúskap sem uppfyllir ekki sömu kröfur og staðla og íslensk framleiðsla stenst. Þá til dæmis hvað varðar sýklalyfjaónæmi. Aukin tollvernd myndi bæði tryggja ríkinu auknar tekjur ásamt því að jafna aðstöðumun innlendrar og erlendrar matvælaframleiðslu.

Alvarleg staða

Við sjáum þá stöðu sem er við líði í innlendri matvælaframleiðslu. Nú berast fregnir að því að innlend kjötframleiðsla hopi mjög skart og jafnframt að miklir rekstrarerfiðleikar séu í mörgum búgreinum. Því er spáð að innlend kjötsala dragist mikið saman á næstu árum. Framangreindur innflutningur og dvínandi rekstrargrundvöllur veldur því að framleiðsla á innlendri kjötafurð stenst ekki undir nauðsynlegri fjárfestingu. Með þessu áframhaldi munum við horfast í augu við gríðarlegan samdrátt í íslenskum landbúnaði, með tilheyrandi skorti á svína-, nauta- og lambakjöti, ef ekki verður gripið til aðgerða. Mörg býli berjast í bökkum og sumir kjósa að hætta. Kynslóðaskipti og nýliðun eru varla möguleg í núverandi rekstar- og skuldaumhverfi.

Þetta er þeim mun sorglegra þar sem mannauðurinn er til staðar. Fullt af áhugasömu og kraftmiklu fólki vill vinna við landbúnað og viðhalda hefðinni, sögunni og hugsjóninni. Íslenskur landbúnaður er nefnilega svo mikið meira en matvælin. Hann er samofinn sögu okkar og hefðum. Gegnum landbúnaðinn miðlum við menningu og sögu landsins. Landbúnaðurinn leggur í raun til litina, lyktina og leiktjöldin á því leiksviði sem innlendir og erlendir ferðamenn sjá. Án landbúnaðarins verður dauflegt um að litast í sveitum. Að mínu viti lýsir það hnípinni þjóð sem nærir ekki þann jarðveg sem landbúnaðinum eru lífsnauðsynlegur.

Hvernig land viljum við byggja?

Málefni landbúnaðarins og fæðuöryggi eru neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál og Íslendingar þurfa að taka afstöðu. Við þurfum að ákveða hvernig land við viljum byggja til framtíðar. Hvort við viljum viðhalda núverandi stöðu og stefna í átt að tómlegri matvælaframleiðslu, en þá er það tímaspursmál hvenær við þurfum að reiða okkur að fullu á innflutning erlendis frá. Eða viljum við byggja upp land þar sem tækifærin eru til staðar, byggðir blómstra og bændur viðhalda gæða framleiðslu með þá sérstöðu sem við Íslendingar þekkjum svo vel.

Ef við veljum seinni afstöðuna þá þurfum við að grípa til alvöru aðgerða eins fljótt og auðið er og bæta rekstrarumhverfi bænda. Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þann 2. maí sl. vakti ég athygli á umræddu ástandi og benti forsætisráðherra á mikilvægi þess að stofnaður verði starfshópur sem fer ítarlega yfir núverandi stöðu og leggur til aðgerðir sem myndu rétta úr kútnum og koma innlendri matvælaframleiðslu aftur í réttan farveg. Ég bind miklar vonir við að slíkur starfshópur verði stofnaður og að þeim aðgerðum, sem hann leggur til, verði fylgt af stjórnvöldum. Þannig tökum við alvöru afstöðu og tryggjum fæðuöryggi landsins, sérstöðu Íslands og tryggjum blómlega byggð um allt land.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greini birtist fyrst í Bændablaðinu 11. maí 2023.

Categories
Fréttir

Vorfundur miðstjórnar

Deila grein

11/05/2023

Vorfundur miðstjórnar

Landsstjórn Framsóknar hefur samþykkt að boða til vorfundar miðstjórnar föstudaginn 2. júní næstkomandi. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík, en að fundi loknum verður móttaka fyrir miðstjórnarfulltrúa að Hverfisgötu 33.

Við viljum ítreka að aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

Þá viljum við biðja þá fulltrúa sem skrá sig að taka fram hvort þeir sjá fram á að taka þátt í kvöldverðarhlaðborði á Grand Hótel.

Fulltrúar greiða sjálfir fyrir matinn við mætingu á fundinn, verð á mann er 6.900 kr.

Þá minnum við á að eftir lagabreytingu flokksins þá er allt sveitarstjórnarfólk Framsóknar sjálfkjörið í miðstjórn.

Drög að dagskrá fundarins:

18:00– Setning fundarins

18:05 – Kosning fundarstjóra og ritara

18:10 –Ræða formanns – Sigurður Ingi Jóhannsson 

18:25 – Ræða varaformanns – Lilja Dögg Alfreðsdóttir 

18:35 – Yfirlit yfir málefna- og innrastarf – Ásmundur Einar Daðason 

18:45 – Almennar stjórnmálaumræður 

20:15 – Kvöldverður á Grand Hótel Reykjavík

21:30 – Móttaka að Hverfisgötu 33 

Categories
Fréttir Greinar

Fæðingarorlof – börn í forgangi

Deila grein

11/05/2023

Fæðingarorlof – börn í forgangi

Það eru rétt um 20 ár frá gildistöku laga um fæðingarorlof, frá því að lögin voru fyrst sett hafa þau tekið breytingum í takt við þarfir og auknar kröfur um fjölskylduvænni samfélag. Nú síðast árið 2021 þegar ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tók gildi en þar var fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði. Þegar breytingin var lögð fram á Alþingi voru miklar umræður um skiptinu réttinda á milli foreldra. Háværar raddir voru um að rétt væri að hafa frjálst val foreldra um skiptingu en niðurstaðan varð sú að hvort foreldrið ætti rétt á 6 mánuðum en 6 vikur væru framseljanlegar, þannig að annað gæti tekið 7 og hálfan mánuð.

Aukinn réttur foreldra til fæðingarorlofs var tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Kannanir meðal foreldra hafa sýnt að sjálfstæður réttur foreldra til orlofstöku sé sérstaklega mikilvægur sér í lagi þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili, en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Sem betur fer tókst að halda þessari skiptingu því það sýnir að með henni hvetur það til þess að báðir foreldrar taki jafna ábyrgð á fyrstu mánuðum barnsins.

Fleiri feður taka fæðingarorlof

Frá því að ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi í janúar fyrir tveimur árum hafa aldrei fleiri feður nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs og þar með erum við að færast nær markmiði laganna, sem er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Frelsið er yndislegt en á meðan launajafnrétti hefur ekki verið náð verðum við að beita þeim aðferðum sem gilda til að jafna nýtingu fæðingarorlofs milli foreldra, því alltaf þurfum við að horfa út frá hagsmunum barnsins. Í nýlegri skýrslu frá félags- og vinnumarkaðsráðherra um hvernig hafi tekist til með að uppfylla markið fæðingarorlofslaganna sem voru samþykkt voru árið 2020, sem þá verandi félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason lagði fram, kemur fram að fleiri feður taki fæðingarorlof. Þá segir jafnframt að framseljanlegur réttur til hins foreldrisins fyrir árin 2021 og 22 hafi nær undantekningalítið verið nýttur af móður.

Þróum þetta áfram

Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börnin fá leikskólapláss. Best er að samspilið sé á pari, þess vegna verðum við að halda áfram við að þróa orlofið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er talað um að unnið verði áfram í samvinnu við sveitarfélögin við að brúa þetta bil. Núverandi mennta- og barnamálaráðherra heldur á þessum málum og hefur þegar hafið vinnu við þetta verkefni. Þetta verður alltaf að vera samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga og skiptir verulegu máli fyrir , foreldra, börn og atvinnumarkaðinn að vel takist til.

Fæðingum fækkar

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur dregið verulega úr fæðingum barna og þurfum við að fara aftur á miðja 19. öld til að finna sambærilega fjölda fæddra barna á ári. Við erum hætt að viðhalda okkur til lengri tíma. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 en talið er að það þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda.

Það þýðir lítið fyrir konu sem komin er úr barneign að hvetja til barneigna, jæja! Ég er búin að skila mínu. Mitt verkefnið og stjórnvalda er þó að búa svo í haginn að hvati til fjölgunar sé til staðar því daufur er barnlaus bær. Því er mikilvægt að koma því svo fyrir að foreldrar geti treyst því að á sama tíma og foreldrum sé búið öruggt umhverfi til að njóta fyrstu mánuðina með barninu sé afkomu og atvinnuöryggi ekki ógnað.  Að lokum langar mig að hvetja pör hér á landi að taka sér smá kósí-kvöld um helgina, það er víða spáð rigningu og aðeins kólnandi veðri á laugardagskvöldið og því tilvalið að fara snemma undir sæng.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á dv.is 11. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hvar liggur björgunarviljinn?

Deila grein

11/05/2023

Hvar liggur björgunarviljinn?

Allt frá árinu 2019 hefur verið í bígerð tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu með það að markmiði að veita bráðveikum og slösuðum sérhæfða þjónustu með sem skjótustum hætti. Árið 2019 var heilbrigðisráðherra ásamt fjármála- og efnahagsráðherra falið í ríkisstjórn að útfæra fjármögnun og tímasetningu verkefnisins. Síðan eru liðin á að verða fjögur ár en ákveðið var að bíða með verkefnið þegar heimsfaraldur Covid skall á.

Fjármögnun ekki tryggð

Í haust hafði undirrituð í hyggju að setja fram þingsályktunartillögu um tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi, búið var að óska eftir meðflutningsmönnum þegar ég ákvað að draga tillöguna til baka þar sem ég hafði fréttir af því innan úr heilbrigðisráðuneytinu að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra væri á fullu við að vinna að slíku tilraunaverkefni um sjúkraþyrlur í samræmi við tillögur sem Svandís Svavarsdóttir kynnti í ríkisstjórn árið 2019. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafði þegar skipaði samráðshóp samkvæmt tillögu starfshóps frá 2018, um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. En því miður hafa þær tillögur og hugmyndir sem þar hafa komið fram runnið út í sandinn þar sem fjármálaráðherra hefur ekki haft vilja til þess að tryggja fjármögnun verkefnisins. En tilraunaverkefni um sérhæfða sjúkraþyrlu hefur verið lagt fram í fjármálaáætlun síðustu tveggja ára en fjármögnun verkefnisins hefur ekki verið samþykkt. Eðli málsins samkvæmt getur heilbrigðisráðherra ekki tekið verkefnið lengra meðan fjármálaráðherra hefur ekki vilja til þess að tryggja því fjármögnun.

Það þarf að dekka álagssvæði

Landhelgisgæslan sinnir mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og almenningur í landinu vill standa vörð um hana líkt og bersýnilega kom fram þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætlaði sér í vetur að selja eftirlitsvél Landhelgisgæslunnar vegna fjárskorts. Almenningur í landinu vill heldur sjá verkefni landhelgisgæslunnar efld heldur en hitt, enda hefur hún löngum sannað mikilvægi sitt. Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á síðasta þingi kom fram að fyrrgreindur starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem skilaði af sér skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 var sammála um mikilvægi þess að efla sjúkraflutninga með þyrlum en ekki um leiðir að því marki. Meirihlutinn, eða fimm af sjö meðlimum, vildi ná markmiðinu með þyrlum LHG sem einnig sinna leit og björgun en minnihlutinn vildi starfrækja sérstaka sjúkraþyrlu utan Landhelgisgæslunnar.

Sú sem hér skrifa telur afar mikilvægt að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifbýli, sér í lagi á álagssvæðum líkt og á Suðurlandi en útköll á svæðinu vegna slysa og bráðra veikinda hafa aukist verulega vegna sí stækkandi hóps ferðamanna á svæðinu. Yfir sumartímann ríflega þrefaldast fólksfjöldi landshlutans og það á þeim tíma sem sérfræðingar á sjúkrastofnunum eru margir hverjir í sumarfríum og erfitt reynist að tryggja mönnun reynslumikilla starfsmanna á þessu víðfeðma svæði. Ef ekki er hægt að fjármagna sjúkraþyrlu á svæðinu má velta upp þeim möguleika að bæta við starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Suðausturlandi en þannig mætti dekka enn stærra svæði en hægt er í dag og þar með efla björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Það þarf líka að tryggja að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar fái tafarlaust viðhald og viðgerðir þegar svo ber við og að þær séu allar nothæfar. Það skortir ekki vilja eða frumkvæði af hálfu heilbrigðisráðherra í þessu máli og er vel tilbúinn að setja slíkt verkefni af stað. Boltinn er nú hjá fjármálaráðherra sem þarf að svara hvort og þá hvenær hann muni tryggja fjármögnun á sjúkra- eða björgunarþyrlum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. maí 2023.

Categories
Fréttir

Myndlistarstefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi

Deila grein

11/05/2023

Myndlistarstefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi

Alþingi samþykkti í gær tillögu Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra til þingsályktunar um myndlistarstefnu til ársins 2030.

Þessari fyrstu myndlistarstefnu er ætlað að efla myndlistarmenningu landsins. Myndlistarstefnan á einnig að stuðla að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bæti lífsgæði og ánægju.

„Þetta mikilvæga skref er eitt af mörgum slíkum sem stigin hafa verið á undanförnum árum til að bæta umhverfi menningar- og skapandi greina á Íslandi. Við höfum unnið með skipulögðum hætti á þessari vegferð og það er gaman að sjá eftirtektarverðan árangur raungerast,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra um þessi tímamót.

Kraftmikil myndlistarmenning

Í myndlistarstefnunni er fjallað um framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt og að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein. Er einnig fjallað sérstaklega um að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

Með myndlistarstefnunni eru lagðar til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.

„Framtíðarsýnin er að myndlist leiki stórt hlutverk í samfélaginu og verði órjúfanlegur hluti af menntun, þroska og daglegu lífi fólks um allt land, óháð aðstæðum,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Mikilvægt að tryggja undirstöðurnar

Þetta hefur verið tíðindamikil vika fyrir menningu og skapandi greinar á Íslandi en fyrr í vikunni samþykkti Alþingi fyrstu heildarlöggjöfina um tónlist og nýja tónlistarstefnu til 2030.

Hagstofan kynnti svo í gær uppfærða menningarvísa þar sem fram kom að rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum voru rúmlega 126 milljarðar árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári.

„Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja undirstöður þessara greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.