Categories
Greinar

Tíma­mót í Reykja­vík

Deila grein

16/01/2024

Tíma­mót í Reykja­vík

Það er með mikilli gleði og eftirvæntingu sem ég óska nýkjörnum borgarstjóra, Einari Þorsteinssyni velfarnaðar í starfi og til hamingju með nýjan starfstitil. Ég er fullviss um að hann muni hér eftir sem áður vinna af heilindum í þágu Reykvíkinga.

Breytingar og samvinna

Í aðdraganda borgarstjóraskiptanna hefur mikið verið rætt um hvaða breytingar þær munu hafa í för með sér. Slík umræða er eðlileg eftir langa valdatíð fráfarandi borgarstjóra. Niðurstaða kosninganna var ákall um breytingar og með nýjum borgarstjóra munu fylgja nýjar áherslur.

Það er þó ekki þannig að við höfum setið auðum höndum síðustu 18 mánuði heldur höfum við unnið að því að breyta til hins betra í Reykjavík frá fyrsta degi okkar í embætti. Má í því samhengi nefna að búið er að hækka frístundastyrkinn í 75 þúsund krónur, stuðningur við dagforeldra hefur aukist töluvert og foreldrar barna eldri en 18 mánaða greiða nú sama gjald hjá dagforeldrum og í leikskólum, næturstrætó fór aftur af stað í Reykjavík, farið var í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir og á fjárhagsáætlun þessa árs er gert ráð fyrir hagnaði, unnið er að framgangi Sundabrautar og Samgöngusáttmáls, sett var af stað viðhaldsátak í skólahúsnæði, snjómokstur hefur verið stórbættur, uppbygging þjóðarhallar er í góðum farvegi og unnið er að fjölgun leikskólaplássa. Þetta er ekki tæmandi talning en gefur góða von um framfarir.

Áskoranirnar framundan eru fjölmargar. Einar hefur sýnt djúpstæðan skilning á þeim áskorunum sem samfélag okkar stendur frammi fyrir hvort sem þær tengjast þróun efnahagsmála, húsnæðisuppbyggingu, sorphirðu eða fjölgun leikskólaplássa. Ég er bjartsýn á að hægt sé að vinna úr þessum verkefnum á farsælan máta með samvinnu að leiðarljósi. Markmiðið er þó í bráð og lengd að hrinda framfaramálum í framkvæmd.

Þakklæti á þessum tímamótum

Borgarstjóraskiptin marka einnig tímamót fyrir Framsókn en þetta er í fyrsta skipti í 107 ára sögu flokksins sem Framsókn mun eiga borgarstjóra. Öflugur framboðslisti Framsóknar í síðustu kosningum undir forystu Einars leiddi til farsælustu niðurstöðu flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi. Við eigum baklandinu og grasrót Framsóknar í Reykjavík allt að þakka fyrir árangur Framsóknar í kosningunum. Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem hafa öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Ég vil á þessum tímamótum þakka fyrir þeirra starf í þágu flokksins en líka þakka borgarbúum fyrir góð og gagnleg samtöl bæði í aðdraganda og eftir kosningar. Við erum hér til að hlusta og vinna í þágu Reykvíkinga. Ég hvet ykkur, borgarbúar, til að halda áfram að heyra í okkur og deila með okkur sýn ykkar. Þannig getum við betur þróað borgina okkar í sameiningu.

Ég þakka einnig fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni fyrir störf hans í þágu borgarbúa um árabil.

Enn og aftur, óska ég Einar Þorsteinssyni til hamingju með borgarstjóratitilinn! Megi starfstími þinn einkennast af velgengni, samvinnu og blómlegri Reykjavík!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. janúar 2024.

Categories
Greinar

Hvernig vilt þú hafa þjónustu við 0-6 ára börn í Reykja­vík?

Deila grein

12/12/2023

Hvernig vilt þú hafa þjónustu við 0-6 ára börn í Reykja­vík?

Ákall er um lausnir frá sveitarfélögum í dagvistunarmálum. Það er nauðsynlegt svo foreldrar geti lagt samfélaginu til vinnuframlag sitt og séð sér og sínum fyrir framfærslu um leið og þau ala upp yngstu kynslóðina. Sömuleiðis eru sjónarmið um að ríki og sveitarfélög auðveldi foreldrum að vera meira með börnum sínum á fyrstu æviárum þeirra.

Ég lít svo á að eitt megin markmið Reykjavíkurborgar sé að auðvelda foreldrum að búa börnum sínum góð vaxtarskilyrði með það að markmiði að auðvelda líf barnafjölskyldna sem oft getur verið flókið og krefjandi. En stóra spurningin er þessi: Hvaða ákvarðanir þarf að taka til þess að líf þessa hóps verði í raun og veru auðveldað og börnum búin betri skilyrði?

Ekki ein lausn sem hentar öllum

Ólík sjónarmið eru uppi í samfélaginu um hvaða leið teljist ,,rétt” til að þjónusta börn á aldrinum 0-6 ára og ólíklegt er að ein lausn henti öllum. Einnig eru ólík sjónarmið um hvort að sveitarfélög eigi að reka samfélagsleg úrræði fyrir þennan aldurshóp eða hvort sveitarfélög eigi fyrst og fremst að undirbúa jarðveginn fyrir slík úrræði til að spretta upp. Spurt er hvort úrræðin eigi að vera leikskólar sem eru sjálfstætt starfandi eða reknir af hinu opinbera? Hvort sjálfstætt starfandi skólar skuli reknir af foreldrum eða atvinnulífinu? Hvort við viljum leggja áherslu á dagforeldra eða umönunargreiðslur til foreldra? Svo fátt eitt sé nefnt. Aukinheldur eru uppi ólíkar hugmyndir um hvernig skipulag þjónustunnar eigi að vera háttað, til dæmis er varðar lengd á viðveru barna. Bent er á jafnréttissjónarmið og starfsumhverfi fagfólks sem sinnir börnunum, á meðan spurt er hvað sé börnum í raun fyrir bestu?

Ef við snúum okkur aftur að spurningunni um það hvernig við ætlum að auðvelda líf fjölskyldufólks þurfum við að svara því hvernig þjónustu við ættum að veita fyrir aldurshópinn. Við þurfum að spyrja hvernig er að vera barn í Reykjavík og hvernig samfélag og þjónustu við viljum byggja upp í kringum börnin okkar á fyrstu æviárum þeirra?

Opið samráð um þjónustu við börn og barnafjölskyldur

Í gildandi samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar segir að skipuleggja eigi borgina út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna. Til að mæta því verkefni hefur verið skipaður stýrihópur um mótun heildstæðrar stefnu um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára. Í þeirri vinnu er víðtækt samráð við forsjáraðila og aðra hagsmunaaðila þýðingarmikið, til að varpa ljósi á núverandi stöðu og áskoranir, ásamt því að fá fram fjölbreytt sjónarmið um lausnir og tækifæri fram á veginn.

Hvernig vilt þú bæta þjónustu við ung börn í Reykjavík?

Mikilvægt er að kalla fram ólík sjónarmið um hvernig best sé að þjónusta aldurshópinn, ásamt því að hafa í huga að ein lausn hentar ekki öllum. Það er því afar ánægjulegt að geta farið í opið samráð um þjónustu við börn á aldrinum 0-6 ára enda skiptir máli að raddir sem flestra heyrist í slíkri vinnu. Ég hvet þig til þess að taka þátt í samráðinu í gegnum samráðsvef borgarinnar og með því hafa áhrif á stefnumótun um umhverfi og aðstæður 0-6 ára barna í Reykjavík.

Það er von mín að þessi stefnumótun muni leiða til fjölbreyttra lausna til framfara. Við þurfum að hafa sterka og ígrundaða framtíðarsýn og setja málefni barna í forgang.

Hlekkur á samráðsvef: https://www.samradsvefur.is/

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og formaður stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaráætlunar um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2023.

Categories
Greinar

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Deila grein

06/09/2023

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Flest okkar þurfa að koma og fara enda vilja sennilega fæst okkar vera alveg föst á sama stað. Í það minnsta þurfum við að eiga þess kost að ferðast hindrunarlítið á milli staða. Það er ólíkt eftir aðstæðum, þörfum og jafnvel tímabilum í lífi fólks hver ferðamátinn er. Ólíkar þarfir og ferðamátar kalla á samfellu í skipulagi og skýra framtíðarsýn. Það þarf að tryggja að innviðirnir tali saman á milli sín og á milli bæjar- og borgarhluta hvort sem um er að ræða eldri byggðir eða ný hverfi. Eitt má ekki vinna gegn öðru.

Tímamót voru mörkuð þegar ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjórum árum. Sáttmála um sameiginlega framtíðarsýn samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn tekur á ofangreindum þáttum og skýrir hvernig við ætlum að byggja upp skilvirka samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Hvar byggja skal brýr, leggja stofnvegi, stýra umferðarljósum o.s.frv. Það sem meira er að sáttmálinn felur í sér áform um bættar samgöngur fyrir alla ferðamáta, en ekki bara bættar almenningssamgöngur eins og stundum er haldið fram. Uppbygging almenningssamganga er þó gífurlega mikilvægur liður í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega m.t.t. aukinnar fólksfjölgunar og aukins álags á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins síðustu ár. Uppbygging innviða fyrir fjölbreytta ferðamáta stuðlar þá að því að fólk hafi raunverulegt val um þann samgöngumáta sem því hentar, hvort sem það er fjölskyldubíllinn eða almenningssamgöngur. Markmiðið er mjög verðugt, að auka öryggi vegfaranda og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga. Við viljum ekki sitja föst tímum saman í umferðinni í stressi yfir því að ná ekki í börnin í leikskóla eða í vinnu í tæka tíð, geta ekki búið við stofnvegi vegna mengunar eða geta ekki treyst á almenningssamgöngur við leik og störf. Við viljum byggja borg sem mætir kröfum samtímans og horfir til framtíðar.

Nú liggur fyrir vinna í uppfærslu sáttmálans enda ljóst að breytingar á verðlagi og verðbólga hefur áhrif á kostnaðaráætlun sáttmálans eins og komið hefur fram í umræðunni síðustu misseri. Það er eðlileg krafa að vel sé haldið utan um fjármögnun og framkvæmdakostnað sáttmálans og unnið sé að uppfærslu sáttmálans með það fyrir augum að tryggja að vel sé farið með almannafé. Af og frá er þó að slá sáttmálann, sem öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og ríkið komu sér saman um, út af borðinu vegna efasemda einstakra aðila um verkefnið. Það er nú einu sinni þannig að meginregla íslensk samningaréttar er að samninga skal halda. Höldum áfram að vinna í takt að þessu stóra samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nú er ekki tíminn til að ganga frá ókláruðu verki þótt á móti blási, eins og fjármálaráðherra orðaði það svo vel nýlega.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.

Categories
Greinar

Ný byggð og flugvöllurinn

Deila grein

04/06/2023

Ný byggð og flugvöllurinn

Um Reykjavíkurflugvöll hefur verið tekist á frá því áður en ég fæddist. Sum hafa verið á móti veru hans í Vatnsmýrinni, önnur ekki talið neinn annan stað koma til greina. Skoðanirnar hafa meðal annars markast af því hvar fólk býr og myndað gjá milli höfuðborgar og landsbyggðar sem og ríki og borgar. Sá skotgrafahernaður sem hefur verið háður hefur ekki verið neinu til framdráttar heldur skapað sundrung og ósætti.

Hafandi búið úti á landi á stað sem reiðir sig mikið á flug til höfuðborgarinnar skil ég umræðuna vel. Flugvöllurinn er samgöngumiðstöð og sennilega margir sem tengja flugvöllinn við fagnaðarfundi við ættingja og vini, upphaf ferðalags eða flutninga á milli landshluta. Tilfinningartengsl eru á milli margra og staðsetningar flugvallarins. Staðsetningin hefur bjargað mörgum mannslífum vegna nálægðar við Landspítalann. Það er lífisins alvara að greiðar flugsamgöngur séu til og frá höfuðborginni og ég þekki ófáa sem eiga líf sitt eða barna þeirra að þakka sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Verandi íbúi í nálægð við flugvöllinn í Vatnsmýri þekki ég líka og skil skoðanir af andstæðum meiði. Þótt mörgum þyki huggulegt að hafa flugvöll í næsta nágrenni við sig og börnum spennandi að sjá flugvélar fljúga yfir borgina finnst öðrum flugvöllurinn engan veginn passa inn í miðja borg og vilja frekar reisa nýja byggð á svæðinu.

Sitt sýnist hverjum en mikilvægt er að byggja alla umræðu um flugvöllinn og staðsetningu hans á rökum og gögnum. Með samkomulagi ríkisins og borgarinnar frá því 2019 á grunni skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorninu skapaðist ákveðin sátt um flugvöllinn. Samkomulagið felur m.a. í sér sátt um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningur og gerð nýs flugvallar, á jafngóðum eða betri stað, stendur yfir, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja og miðað er við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, greindi frá því um nýliðna helgina að ný flugstöð muni rísa á Reykjavíkurflugvelli enda er núverandi flugstöð til lítils sóma fyrir flugvallargesti og þjónar illa nútíma þörfum.

Flug- og rekstraröryggi verður áfram tryggt

Í nýrri skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug– og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar kemur fram að hægt sé að tryggja áframhaldandi flugöryggi með mótvægisaðgerðum þó ný byggð rísi í Skerjafirði. Mótvægisaðgerðirnar eru til þess fallnar að draga úr áhrifum eða áhættu sem annars gæti stafað af nýrri byggð. Vinna við mótvægisaðgerðir er nú þegar hafin og mun þeim verða hrint til framkvæmdar. Fulltrúar Framsóknar í borgarstjórn hafa og munu áfram leggja áherslu á að unnið sé eftir þeim ábendingum sem koma fram í niðurstöðu skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi. Þannig verður tryggt að samkomulag ríkis og borgar frá 2019 um að tryggja flug- og rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldi. Ekki mun því rísa byggð í Vatnsmýrinni sem mun hafa áhrif á flug- og rekstraröryggi flugvallarins.

Innanlandsflug í Reykjavík heldur velli

Reykjavíkurflugvöllur verður áfram samgöngumiðstöð fyrir fólk sem ferðast til og frá höfuðborginni. Þótt ný byggð rísi í Skerjafirði verður áfram lendingarstaður fyrir innanlandsflug í Vatnsmýri.

Sjúkraflugið verður áfram á sínum stað

Sjúkraflug með lendingarstað í návígi við Landspítalann verður áfram tryggt en það er mikilvægt öryggisatriði fyrir fólk um allt land og á sjó. Það er algjört forgangsatriði að flugvöllurinn mæti þörfum sjúkraflugs.

Ný byggð rís

Í nýrri byggð verða reist hús fyrir stúdenta, lágtekjuhópa og aðra. Verið að koma til móts við mikla þörf á húsnæði í Reykjavík og þá sérstaklega fyrir stúdenta í návígi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur m.a. ályktað að það fagni því ,,að niðurstaða skýrslunnar sé skýr um að ekki sé þörf á því að hætta við byggingaráform í Nýja Skerjafirði, heldur sé nóg að grípa til mótvægisaðgerða.” Í ályktun stúdentaráðs kemur jafnframt fram að um 900 stúdentar séu á biðlista eftir húsnæði hjá Félagsstofnun stúdenta. Grænar áherslur í takt við kröfur samtímans eru forgangsatriði í skipulagi hverfisins. Það verður umlukið nýju strandsvæði og milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leiksvæðum og gróðursæld.

Traust og sættir

Í grunninn snýst umræðan um flugvöllinn um traust. Traust til að kjörinna fulltrúa í Reykjavík um að grípa til mótvægisaðgerða til að tryggja að rekstraröryggi flugvallarins skerðist ekki með frekari húsnæðisuppbygging á svæðinu. Nú þegar er hafin vinna til að tryggja að mótvægisaðgerðir verði að veruleika. Flugvöllurinn er mikilvægur fyrir flugsamgöngur til og frá Reykjavík og er brú milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar, sannkölluð tengimiðstöð okkar Íslendinga. Afstaðan er skýr; flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni þar til og ef annar betri kostur finnst. Með mótvægisaðgerðum er komið tækifæri til að sætta sjónarmið, leysa gamlar deilur, tryggja öruggan rekstur flugvallarins og horfa til framtíðar og þeirra miklu áskoranna og verkefna sem landsmenn, sveitarfélög og ríki þurfa að takast á við í náinni framtíð.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. júní 2023.

Categories
Greinar

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Deila grein

08/08/2022

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Fimmtudagar voru áður þekktir sem dagarnir sem sjónvarpið fór í frí. Það var að vísu fyrir mína tíð, en fimmtudagar halda þó áfram að setja mark sitt á frítíma fólks og í dag er fyrsti fimmtudagurinn þar sem opið verður til miðnættis í Laugardalslaug!

Fyrir sundáhugafólk eru þetta svo sannarlega gleðifréttir. Fyrir mig er þetta sérstaklega ánægjulegt. Hugmyndin um miðnæturopnun í sund kviknaði þegar klukkan var alveg að verða tíu eitt kvöld og ég þar með orðin of sein í sund enda fátt betra en að hefja daginn og enda með góðri sundferð. Í vor komst hugmyndin síðan inn á kosningastefnuskrá Framsóknar í Reykjavík og núna er hún orðin að veruleika.

Þó að hér sé ekki um að ræða stóran gjörning í stóra samhenginu þá felast í honum aukin lífsgæði. Sundlaugarnar hafa í gegnum tíðina verið samkomustaður Íslendinga og mörgum finnst fátt betra en að liggja í heita pottinum og slaka á. Núna fáum við aðeins meiri tíma til þess og getum tekið sundsprett um kvöld ef okkur sýnist svo. Þá fá að auki öll börn á grunnskólaaldri frítt í sund í Reykjavík frá og með 1. ágúst. s.l.

Hugmyndin um miðnætursund er ekki bara skemmtileg viðbót til afþreyingar og heilsubótar heldur líka áminning um að við öll getum haft áhrif á nærsamfélagið okkar með því að taka þátt. Ég vil því hvetja þig til að mæta á fundi stjórnmálaflokka og félagasamtaka til að segja frá því hvernig þú telur að bæta megi samfélagið okkar. Í krafti hugmynda og ólíkra sjónarmiða sem í fjöldanum finnast búum við saman til betra samfélag.

Það er glampandi sólskin í Reykjavík og því tilvalið að enda daginn í heitapottinum.

Sjáumst í sundi!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Deila grein

01/05/2022

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá Reykjavík orðin kolefnishlutlaus, fyrst höfuðborga? Væri hverfisskipulag byggt út frá umhverfissjónarmiðum þar sem fólk fær notið náttúru innan hverfis? Væri Reykjavík borg þar sem almenningssamgöngur eru skilvirkar, notendavænar og betri kostur en annar ferðamáti? Væri næturstrætó enn gangandi? Væru hleðslustöðvar aðgengilegar um alla borg til að auðvelda fólki orkuskipti í rafknúin hjól og bíla?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri hér húsnæðisskortur? Væri ungt fólk fast á heimilum foreldra sinna í mörg ár vegna þess að fasteignaverð er uppsprengt eða myndu öll eiga þess kost að eignast þak yfir höfuðið? Ætli hér væri byggt nógu mikið af stúdentaíbúðum þannig að enginn stúdent myndi þurfa að fara á biðlista eftir heimili? Væri ekki líka komin heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðið? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára væri grunnþjónusta í 15 mínútna göngu- eða hjólafjarlægð? Þannig að öll geti sótt grunnþjónustu innan hverfis hvort sem það er leikskóli, grunnskóli, sundlaug, kaffi- og veitingahús eða matvöruverslun.

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá ekki búið að eyða öllum biðlistum á leikskóla? Væru leikskólarnir ekki með sveigjanlegri opnunartíma til að mæta foreldrum á vinnumarkaði eða í námi? Væri búið að tryggja betra starfsumhverfi leikskólakennara? Myndu foreldrar kannski fá að ráða hvenær á sumrin leikskólabörnin þeirra taka sumarfrí eftir því hvenær hentar fjölskyldunni?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að byggja kerfi sem tekur vel á móti innflytjendum og eykur tækifæri fólks af erlendum uppruna til að nýta hæfileika sína? Væri stutt sérstaklega við nýsköpunarstarf, sprotafyrirtæki og aðra atvinnuuppbyggingu fyrir ungt fólk á þeirra forsendum? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að tryggja öryggi kvenna og alls fólks á djamminu?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri innviðir borgarinnar í lagi? Þannig að grunnskólabörn myndu ekki þurfa að sækja skóla í öðru hverfi vegna myglu í sínum hverfisskóla? Væru ungmennahús í öllum hverfum borgarinnar og félagsmiðstöðvastarf eflt? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að jafna leikinn með því að tryggja að frístundakort barna veiti öllum börnum þess kost að stunda þær tómstundir sem þau dreymir um? Væri ekki búið að byggja upp öfluga íþróttaæfingaraðstöðu í öllum hverfum borgarinnar og þjóðarleikvang?

Við sem erfum ákvarðanir dagsins í dag verðum að vera þátttakendur í ákvarðanatöku sem munu varða okkar framtíð. Það er mikilvægt að við nýtum kosningaréttinn okkar og kjósum ungt fólk, að við kjósum Framsókn sem treystir ungu fólki með því að hafa ungt fólk í forystusætum í borginni! Ef þú kýst ekki mun eldra fólk kjósa fyrir þig og ráða þinni framtíð með sinni forgangsröðun á verkefnalista borgarstjórnar. Nýtum kosningaréttinn okkar 14. maí.

Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, 25 ára háskólanemi og skipar 3. sæti á lista Framsóknar í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram 14. maí n.k.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. maí 2022.

Categories
Greinar

Barnasáttmálinn brotinn – óþarfar aðgerðir á kynfærum barna

Deila grein

22/11/2020

Barnasáttmálinn brotinn – óþarfar aðgerðir á kynfærum barna

Dagur mannréttinda barna er í dag, 20. nóvember. Dagurinn er helgaður fræðslu um mannréttindi barna en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur þennan dag fyrir 31 ári. Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég grein í tilefni þessa dags um þá tímaskekkju sem umskurður drengja er og hvernig slíkar aðgerðir samræmast ekki Barnasáttmálanum. Á Íslandi eru óþarfar og óafturkræfar aðgerðir á kynfærum barna enn leyfðar á börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og drengbörnum sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni. Ódæmigerð kyneinkenni (intersex) er meðal annars þegar einstaklingur fæðist með kynfæri, æxlunarfæri og/eða litningamynstur sem falla ekki að dæmigerðum skilgreiningum á karl- eða kvenkyni. Aðgerðir á drengbörnum með dæmigerð kyneinkenni (umskurður) er þegar forhúð er skorin af lim oftast á nýfæddu drengbarni með beittum hníf. Hins vegar var umskurður stúlkubarna gerður refsiverður árið 2005.

Það sem er barninu fyrir bestu?

Umskurður drengja er varanleg og óafturkræf aðgerð sem felur í sér mikil inngrip á kynfærum barns ásamt því að geta valdið barninu sársauka, hættu á sýkingum og varanlegum skaða. Í vissum tilfellum getur verið nauðsynlegt að framkvæma umskurð, til dæmis ef forhúðin er of þröng eða í kjölfar alvarlegra sýkinga. Annað gildir hins vegar um læknisfræðilega óþarfan umskurð þar sem fullkomlega eðlilegur vefur sem gegnir mikilvægu hlutverki í kynfæra- og kynlífsheilbrigði drengabarna er fjarlægður af kynfærum þeirra. Á Íslandi er ekkert regluverk um umskurð drengja og geta því forsjáraðilar tekið ákvörðun um slíka aðgerð.

Rauði þráðurinn í íslenskum barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er að ávallt skuli hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir um hag þess. Barnasáttmálinn kveður einnig á um að börn eigi rétt á að tjá sig um öll þau málefni er þau varða og því samræmist það illa sáttmálanum að foreldrar taki ákvarðanir um óafturkræfar aðgerðir á líkama barns, líkt og umskurður drengja og aðgerðir á intersex börnum án læknisfræðilegrar nauðsynjar eru.

Það kann að vera að drengir vilji láta umskera sig af til að mynda trúar- eða menningarlegum ástæðum en ákvörðun um það verða þeir sjálfir að taka þegar þeir hafa náð aldri og þroska til þess að skilja hvað slíkar aðgerðir geta haft í för með sér. Í því samhengi er vert að árétta að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verndar börn gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði þeirra og skyldar aðildarríki sáttmálans til þess að ryðja slíkum hefðum úr vegi. Hið sama gildir um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ákvörðun um hvort framkvæma eigi aðgerð á þeirra kynfærum ætti vera þeirra.

Nýlega lagði forsætisráðherra fram frumvarp til breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði. Frumvarpið tryggir sjálfsákvörðunarrétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni (intersex) yfir eigin líkama. Um er að ræða mikilvægt og þarft framfaraskref sem ber að fagna. Hins vegar kemur fram í greinargerð frumvarpsins að það nái ekki til barna sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni. Læknisfræðilega óþarfur umskurður drengbarna sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni hefur því verið undanskilinn breytingartillögunni.

Óþarfar aðgerðir á kynfærum barna eru tímaskekkja

Íslendingar ættu að standa fremst þjóða í að verja rétt barna til yfirráða yfir eigin líkama. Ótækt er að forsjáraðilar barna hafi heimild til þess að taka svo afgerandi ákvörðun um kynfæri barna sinna sem eru enn of ung til þess að tjá sig um aðgerðina, séu ekki knýjandi heilsufarsrök fyrir aðgerðinni. Réttur barna yfir eigin líkama og einstaklingsfrelsi á að ganga framar rétti forsjáraðila til að taka óafturkræfar trúar-, tilfinningalegar-, og menningarlegar ákvarðanir um líkama barna. Börn á Íslandi eiga að hafa öruggt skjól og vernd í íslenskum lögum fyrir óþarfa og óafturkræfu inngripi á líkama þeirra.

Ég skora á Alþingi að banna öll læknisfræðileg óþörf inngrip í líkama barna og tryggja þar með öllum börnum sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, laganemi og í stjórn SUF, Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2020.