Categories
Fréttir

„Það þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika“

Deila grein

11/10/2023

„Það þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika“

„Við verðum að halda áfram að vinna, stjórnmálin hér, ríkisstjórnin og Alþingi allt, við verðum að taka höndum saman í þessu mikilvæga verkefni, að ná hér niður verðbólgu og vöxtum vegna þess að það er allra hagur, hvort sem litið er til fólksins í landinu eða fyrirtækja,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi.

Ræddi hann áskoranir er samfélagið þarf að takast á við í efnahagsmálum. Allt of margt sé að hækka, lán, matarkarfan, tryggingarnar o.s.frv.. Jafnframt sé verkefni framundan í vetur hjá aðilum vinnumarkaðarins að koma á nýjum kjarasamningum.

„Nú koma tíðindi af því að við þurfum jafnvel að byggja enn meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er annað verkefni sem við þurfum að takast á hendur og verkefnin eru ærin,“ sagði Ágúst Bjarni og bætti við, „verðbólgan mun lækka, vextir munu lækka og til þess að svo megi verða þá þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika.“

„Svo er það alveg ljóst að á einhverjum tímapunkti í þessu þá munu verkin dæma og ég er alveg viss um það að þegar þau verk eru skoðuð til hlítar þá fær núverandi ríkisstjórn góða dóma,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Þrátt fyrir fréttir morgunsins og ákvörðun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, ákvörðun sem ég ber virðingu fyrir, þá blasa við okkur áskoranir í efnahagsmálum, áskoranir sem við þurfum að takast á við. Hér er verðbólga, hér eru vextir háir. Það er allt að hækka, við finnum það hvert sem við förum, lánin okkar, matarkarfan, tryggingarnar o.s.frv., en það eru ýmis merki á lofti um að við séum þó að stefna í rétta átt. Húsnæðismarkaðurinn er annað. Nú koma tíðindi af því að við þurfum jafnvel að byggja enn meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er annað verkefni sem við þurfum að takast á hendur og verkefnin eru ærin. Ofan á þetta koma kjarasamningar. Þetta er brýnt mál, mjög brýnt. Verðbólgan mun lækka, vextir munu lækka og til þess að svo megi verða þá þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika. Við verðum að halda áfram að vinna, stjórnmálin hér, ríkisstjórnin og Alþingi allt, við verðum að taka höndum saman í þessu mikilvæga verkefni, að ná hér niður verðbólgu og vöxtum vegna þess að það er allra hagur, hvort sem litið er til fólksins í landinu eða fyrirtækja. Svo er það alveg ljóst að á einhverjum tímapunkti í þessu þá munu verkin dæma og ég er alveg viss um það að þegar þau verk eru skoðuð til hlítar þá fær núverandi ríkisstjórn góða dóma.“