Categories
Greinar

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Deila grein

08/06/2021

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Son­ur minn var fermd­ur síðastliðna helgi í Bú­staðakirkju ásamt skóla­fé­lög­um sín­um. Heil röð af stolt­um for­eldr­um, systkin­um, öfum og ömm­um fylgd­ist með þegar þessi ljúfi, hæg­láti og hjarta­góði strák­ur varð að ung­um manni. Mik­il gleðistund!

Hann var sjö ára þegar hann greind­ist með ódæmi­gerða ein­hverfu, reynd­ar hafði grun­ur um hans rösk­un vaknað fyrst þegar hann var þriggja ára en niðurstaðan, sem lá fyr­ir fjór­um árum seinna, er efni í aðra grein. Eins og marg­ir sem eru greind­ir á ein­hverfuróf­inu á hann erfitt með að halda uppi því sem er skil­greint sem „eðli­leg fé­lags­leg sam­skipti“, hvað svo sem það þýðir. En það hef­ur vissu­lega haft áhrif á getu hans til að rækta og halda vin­skap og valdið ákveðinni fé­lags­legri ein­angr­un, sér­stak­lega síðustu árin þegar krakk­ar hætta að vera krakk­ar og verða ung­ling­ar. Sem bet­ur fer hef­ur þessi fé­lags­lega ein­angr­un ekki þró­ast í að hann hafi lent í einelti eða ein­hverju slíku, það þakka ég fyrst og fremst hon­um sjálf­um og skól­un­um tveim­ur, Breiðagerðis- og Rétt­ar­holts­skól­um, og hvernig var haldið utan um hans mál. Þó hef­ur þessi ein­angr­un auk­ist meira sl. þrjú ár. Sem for­eldr­ar höf­um við skilj­an­lega áhyggj­ur af slíkri þróun og Covid hef­ur sett ákveðið strik í reikn­ing­inn þar sem ekki var mögu­leiki fyr­ir hann að sækja skáta­fundi sem hann hef­ur gert síðan hann var sex ára.

Líkt og marg­ir krakk­ar hef­ur son­ur minn mikið dá­læti á tölvu­leikj­um, hann hef­ur sér­staka ánægju af að spila tölvu­leiki þar sem maður bygg­ir upp borg­ir með allri til­heyr­andi þjón­ustu sem hver borg þarf á að halda. Þegar hann spil­ar sína tölvu­leiki ger­ir hann það yf­ir­leitt í slag­togi við aðra spil­ara, ým­ist á Íslandi eða í út­lönd­um, og þá er oft mikið fjör. Eft­ir að hann fór að eiga sam­skipti við aðra á net­inu fór­um við mamma hans að taka eft­ir því að færni hans til að eiga sam­ræður tók mikl­um fram­förum. Það voru samt erfiðir hlut­ir sem þurfti að tækla sem komu upp í kjöl­far tölvu­notk­un­ar­inn­ar; að fylgj­ast með að ekki væri verið að svíkja þar til gerða samn­inga um skil­greind­an skjá­tíma og tryggja að hann stundaði ein­hverja úti­veru á hverj­um degi. Þó að þetta hafi að mestu gengið vel vild­um við ólm fá hjálp við að styðja bet­ur við þetta áhuga­mál hans.

Fyr­ir rétt rúm­um tveim­ur árum fékk ég boð frá vini mín­um um að mæta á kynn­ingu hjá GMI (Game Makers Ice­land). Þar var há­vax­inn ung­ur maður að nafni Ólaf­ur Hrafn Stein­ars­son sem hélt fyr­ir­lest­ur um ný­stofnuð rafíþrótta­sam­tök og þá sýn sem hann og sam­tök­in höfðu á framtíð tölvu­leikja­áhuga­máls­ins á Íslandi. Í er­indi sínu benti Ólaf­ur á að tölvu­leik­ir ættu snerti­flöt við yfir 90% barna og ung­menna í land­inu, en það var áhuga­mál sem bauð upp á næst­um enga skipu­lagða iðkun eða þjálf­un. Á þessu boðaði hann breyt­ing­ar; með vax­andi rafíþróttaum­hverfi á heimsvísu væru for­send­ur fyr­ir því að færa tölvu­leikja­áhuga­málið í skipu­lagt starf sem und­ir­býr rafíþrótta­menn framtíðar­inn­ar á heild­stæðan hátt fyr­ir að tak­ast á við krefj­andi um­hverfi at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um. Þá væri mik­il­vægt að huga að því að byggja heild­stæðan ramma utan um starfið sem miðaði að því að skila já­kvæðum ávinn­ingi til allra iðkenda en ekki bara af­reks­spil­ara. Til þess boðaði Ólaf­ur skil­grein­ingu Rafíþrótta­sam­taka Íslands á rafíþrótt­um sem „heil­brigða iðkun tölvu­leikja í skipu­lögðu starfi“ og að sú iðkun feli í sér að iðkandi upp­lifi sig sem hluta af liði, taki þátt í lík­am­leg­um og and­leg­um æf­ing­um, fái fræðslu um mik­il­vægi og ávinn­ing heil­brigðra spila­hátta og lífs­stíls, allt hlut­ir sem eru mik­il­væg­ir til að feta veg at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um.

Þessi fyr­ir­lest­ur bæði heillaði og sann­færði mig um að þessi nálg­un sem Ólaf­ur kynnti væri skyn­sam­leg og rök­rétt leið til að kenna börn­um heil­brigða tölvu­leikjaiðkun. Svo mjög að ég skráði son minn í rafíþrótta­deild Ármanns. Það leið ekki á löngu þar til ég og móðir hans tók­um eft­ir mikl­um fram­förum. Hann var mun ánægðari al­mennt, sam­skipti við hann á heim­il­inu voru auðveld­ari og hann var far­inn að setja sín­ar eig­in regl­ur varðandi skjá­tíma sem upp­fyll­ir þær regl­ur sem við for­eldr­arn­ir höfðum skil­greint. Ekki nóg með það held­ur mætti þessi flotti strák­ur, sem hef­ur aldrei haft áhuga á iðkun hefðbund­inna íþrótta, einn dag­inn með stolt bros á vör og kvartaði yfir því að vera drep­ast úr harðsperr­um eft­ir rafíþróttaæf­ingu. Hann ákvað svo í vik­unni að kaupa sér lóð og upphíf­inga­stöng fyr­ir ferm­ingar­pen­ing­ana. Það var ótrú­legt fyr­ir mig sem for­eldri að sjá barnið mitt loks­ins blómstra í skipu­lögðu starfi, þegar ein­hver var til­bú­inn að mæta hon­um þar sem hann var stadd­ur í sínu áhuga­máli og hvetja hann til þess að gera meira, reyna meira og að hann geti meira. Þetta var ein­mitt það sem heillaði mig við fyr­ir­lest­ur­inn hans Ólafs og það sem ég tel að við þurf­um meira af; ný­stár­leg­ar aðferðir fyr­ir okk­ar ört breyti­lega sam­fé­lag til þess að taka utan um og fjár­festa í ein­stak­lingn­um til framtíðar.

Ég hlakka til að fylgj­ast með framtíð hans í rafíþrótt­um og framtíð okk­ar í sam­fé­lagi þar sem fjár­fest er í fólk­inu!

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur og skip­ar 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður. adal­steinn@recon.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2021.