Categories
Greinar

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Deila grein

09/06/2021

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Prúðbúin ung­menni, með bros á vör, skjal í hendi og jafn­vel húfu á höfði, hafa und­an­farið sett svip sinn á borg og bæ. Tíma­mót unga fólks­ins eru sér­lega tákn­ræn í þetta skiptið, því skóla­slit og út­skrift­ir eru staðfest­ing á sigri and­ans yfir efn­inu. Staðfest­ing á sam­stöðu skóla­fólks, kenn­ara, skóla­stjórn­enda, nem­enda og kenn­ara í ein­hverri mestu sam­fé­lagskreppu síðari tíma. Á sama tíma ber­ast góðar frétt­ir af bólu­setn­ing­um, at­vinnu­stigið hækk­ar, íþrótta- og menn­ing­ar­líf er komið á skrið og ferðaþjón­ust­an lifn­ar við. Og þegar litið er um öxl rifjast upp vetr­arkveðja Páls Ólafs­son­ar, sem auðveld­lega má yfir færa á Covid-vet­ur­inn sem nú er að baki:

Margt er gott að muna þér

þó mér þú fynd­ist lang­ur.

Farðu vel, þú færðir mér

fögnuð bæði og ang­ur.

Fram und­an er sum­arið í allri sinni dýrð, tími hlýju, birtu og upp­skeru. Og það er óhætt að segja að á hinum póli­tíska vett­vangi séu tún­in græn og upp­sker­an góð. Verk­efna­listi rík­is­stjórn­ar­inn­ar er svo til tæmd­ur. Fram­boðslist­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins eru skipaðir kraft­miklu fólki, þar sem bland­ast sam­an í rétt­um hlut­föll­um fólk úr ólík­um átt­um. Reynslu­bolt­ar úr lands­mál­un­um, dug­mikl­ir sveit­ar­stjórn­ar­menn og ungt fólk með sterk­ar hug­sjón­ir. Við mun­um áfram vinna að fram­förum, berj­ast fyr­ir hags­mun­um fjöl­skyldna af öll­um stærðum og gerðum, og jafna tæki­færi barna til mennt­un­ar.

Barna­mál­in hafa svo sann­ar­lega verið okk­ur hug­leik­in á kjör­tíma­tíma­bil­inu. Barna­málaráðherra hef­ur lyft grett­i­staki og m.a. gert kerf­is­breyt­ing­ar svo hags­mun­ir barna séu í for­gangi, en ekki þarf­ir kerf­is­ins. Í skóla­mál­um hafa skýr­ar lín­ur verið markaðar, þar sem áhersl­an er lögð á ólík­ar þarf­ir barna og stuðning við þá sem þurfa á hon­um að halda. Við vilj­um sjá framúrsk­ar­andi mennta­kerfi og með nýrri mennta­stefnu höf­um við lagt veg­inn í átt að ár­angri.

Þessi vet­ur sem nú er liðinn minnti okk­ur hins veg­ar á að til að ná ár­angri þarf að berj­ast með kjafti og klóm. Við lögðum gríðarlega áherslu á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif­in á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Þessi vet­ur kenndi okk­ur að þegar all­ir leggj­ast á eitt, þá er mennta­kerfið okk­ar gríðarlega sterkt afl sem stend­ur vörð um hags­muni barn­anna á hverj­um ein­asta degi.

Það er því ekki að ástæðulausu að um mann fer gleðistraum­ur, þegar maður sér leik-, grunn-, fram­halds- og há­skóla­út­skrift­ar­mynd­ir á sam­fé­lags­miðlum. Stolt­ir for­eldr­ar og frels­inu fegn­ir ung­ling­ar. Ung­menni sem eiga framtíðina fyr­ir sér, horfa stolt í mynda­vél­ina. Eft­ir erfiðan vet­ur er þetta af­rek okk­ar allra – sam­fé­lags­ins alls – og því má aldrei gleyma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní 2021.