Categories
Greinar

Nýr Mennta­sjóður lands­byggðinni í vil

Deila grein

25/02/2021

Nýr Mennta­sjóður lands­byggðinni í vil

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi sl. vor. Hér er um að ræða heildarendurskoðun námslánakerfisins og miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Þessar breytingar eiga sér langan aðdraganda, fyrri menntamálaráðherrum hefur ekki tekist að koma þeim í gegn en Lilja Alfreðs fékk málið í sínar hendur og náði því áfram.

Nýtt nafn á þessu gamla kerfi segir til um hversu miklar breytingar eru gerðar, með þeim erum við að færast nær því sem gerist í nágrannalöndum okkar í þeim efnum og tímabært var að færa nær nútímaviðmiðum.

Helstu breytingar

Helstu nýmælin eru að inn kemur styrkjakerfi, beinn stuðningur og ívilnanir sem eru undanþegnar lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum, að loknu námi. Þá verður það meginregla að bæði útgreiðsla og afborganir námslána verða mánaðarlegar. Sem styðjandi aðgerðir má nefna beinan stuðning vegna framfærslu barna, en námsmaður á rétt á styrk til framfærslu barns/barna undir 18 ára aldri sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði með hverju barni. Námsmenn sem greiða meðlag með barni undir 18 ára aldri geta einnig fengið styrk vegna meðlagsgreiðslna sem nemur sömu upphæð. Mikilvæg breyting er að ábyrgðamannafyrirkomulag LÍN er afnumið og ábyrgðir á námslánum falla niður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Byggðasjónarmiðin eru áberandi

Fyrir síðustu kosningar lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að byggðajöfnunaraðgerðir væri að finna sem víðast og hægt væri að beita sérstökum íviljunum vegna afborgana á námslánum og þær séu hagstæðari að hluta fyrir þá sem búa í hinum dreifðari byggðum. Þetta atriðið má finna í reglum hins nýja Menntasjóðs. Þar er að finna heimild til að veita rétt til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina, og vegna endurgreiðsla námslána hjá lánþegum sem eru búsettir og starfa á svæðum sem skilgreind eru í samráði við Byggðastofnun. Uppleggið er að lánþegi sem hefur lokið námi og er búsettur á skilgreindu svæði nýti i menntun sína þar að lágmarki í 50% starfshlutfalli í a.m.k. tvö ár.

Byggð um allt land

Ívilnandi aðgerðir sem stjórnvöld setja eru mikilvægt tæki til að hafa áhrif á byggðaþróun og ekki síst til að hafa áhrif á að efla þjónustu í veikum byggðum og styrkja nærsamfélagið. Í Noregi byggir byggðastefna á því að halda öllu landinu í byggð og áhersla lögð á valfrelsi einstaklinga til að velja sér búsetu. Það er mikilvægt að byggja undir sterka samfélagsgerð og fjölbreytta þjónustu. Í Noregi hafa verið notað ívilnandi skattaaðgerðir til að efla byggð. Þar með talið með niðurfellingu eða lækkun á endurgreiðslu námslána með ágætum árangri. Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu ár hvort þessar aðgerðir eigi eftir að skila sér með jafn góðum árangri og hjá frændum okkar í Noregi. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Einstök börn – hjartað í kerfinu

Deila grein

25/02/2021

Einstök börn – hjartað í kerfinu

Undanfarna daga hefur félagið Einstök börn staðið fyrir mikilvægu árveknisátaki undir slagorðinu „Fyrir utan ramma“, en markmið átaksins er meðal annars að auka samfélagslegan skilning á stöðu barna með sjaldgæfa sjúkdóma. Hluti af átakinu hefur falist í því að foreldrar og forráðamenn barna í þessum hópi hafa stigið fram og lýst því að þeim hafi reynst erfitt að eiga við þau stuðningskerfi sem eiga að veita börnunum og fjölskyldum þeirra nauðsynlega þjónustu. Þessi kerfi séu rekin af ólíkum aðilum, ríki og sveitarfélögum, og samskipti milli þessara aðila virðist ekki vera eins markviss og þau gætu verið. Of mikið sé um að foreldrar þurfi að berjast fyrir því að fá nauðsynlega þjónustu, lendi oft á veggjum og brenni út.

Mig langar að þakka Einstökum börnum fyrir starf þeirra og ekki síst fyrir þá mikilvægu brýningu sem árveknisátak þeirra er. Börn og fjölskyldur þeirra eiga ekki að þurfa að upplifa að þau þurfi að berjast við kerfi sem hafa það hlutverk að veita þeim stuðning og ég er sammála því að við, hið opinbera, þurfum að gera betur. Frá því ég tók við embætti ráðherra hefur það einmitt verið mér mikið hjartans mál að tryggja að kerfin okkar starfi saman í þágu barna og fjölskyldna, að þjónusta og stuðningur byggist upp kringum einstaklingana sem þjónustuna þurfa, en að kerfin okkar byggist ekki upp kringum sig sjálf. Í lok árs 2020, með þetta að markmiði, lagði ég fram lagafrumvarp á Alþingi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Fái það frumvarp jákvæða afgreiðslu Alþingis verður vonandi stigið stórt skref í því að tryggja betri stuðning við börn og fjölskyldur þeirra sem geta þá, í stað baráttu við hin mismunandi kerfi samfélagsins, einbeitt sér að þeim áskorunum sem geta mætt börnum með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldum þeirra.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Allir geta lært – en það læra ekki allir eins

Deila grein

23/02/2021

Allir geta lært – en það læra ekki allir eins

Í ís­lensk­um skól­um er gríðarleg­ur kraft­ur og vilji til góðra verka, bæði meðal nem­enda og starfs­fólks. Við vilj­um samt alltaf gera bet­ur og þar vinn­ur margt með okk­ur. Þekk­ing á skóla­starfi hef­ur auk­ist, rann­sókn­ir eru betri og fleiri, tækn­in skap­ar tæki­færi. Staða og náms­ár­ang­ur les­blindra barna er eitt þeirra mála sem hafa verið mér hvað hug­leikn­ust frá því ég tók við embætti mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra árið 2017. Ég trúi því af öllu hjarta að læsi sé lyk­ill­inn að lífs­gæðum og end­ur­spegli hæfni okk­ar til að skynja og skilja um­hverfið og sam­fé­lagið á gagn­rýn­inn hátt. Þess vegna leggj­um við höfuðáherslu á að efla læsi, og á mik­il­vægi þess að mæta öll­um nem­end­um sem glíma við les­blindu og lestr­arörðug­leika. Skiln­ing­ur á eðli les­blindu og áhrifa henn­ar hef­ur auk­ist og það viðhorf fer hverf­andi að sum­ir geti ein­fald­lega ekki lært. Það er skylda og vilji stjórn­valda að hjálpa öll­um börn­um að finna leið til þess að læra, vaxa og blómstra.

Það dug­ar ekki að tala um slík­an vilja, held­ur þurf­um við að setja okk­ur mark­mið og láta hend­ur standa fram úr erm­um. Þess vegna er brýnt að setja metnaðarfulla mennta­stefnu til árs­ins 2030, og inn­leiðing­in er haf­in með skýr­um mark­miðum og aðgerðum til að ná ár­angri! Í mennta­stefn­unni er börn­um og ung­menn­um heitið stuðningi við hæfi sem fyrst á náms­ferl­in­um. Því fyrr sem stuðning­ur­inn er veitt­ur, því betri ár­ang­urs má vænta. Stuðning­ur get­ur beinst að nem­and­an­um sjálf­um eða um­hverfi hans og mik­il­vægt er að laga stuðning­inn að þörf­um viðkvæmra ein­stak­linga og hópa. Á næstu vik­um mun ég leggja til alls­herj­ar-átaks­verk­efni rík­is og sveit­ar­fé­laga, sem felst í því að öll börn á Íslandi fái viðeig­andi stuðning fyr­ir 7 ára ald­ur. Það er for­gangs­mál og sam­taka er það raun­hæft mark­mið.

Þraut­seigja og hug­rekki liggja til grund­vall­ar mennta­stefn­unni. Við meg­um ekki við því að horfa fram hjá kröft­um og hæfi­leik­um allra, því sam­fé­lagið þarf sann­ar­lega á þeim að halda til að vaxa og dafna. Nú á fimmtu­dag­inn verður ný ís­lensk heim­ild­ar­mynd um ungt fólk og les­blindu sýnd á RÚV. Mynd­in er fróðleg og hvetj­andi og von­ir standa til að hún muni vekja umræðu um eðli og al­gengi les­blindu, þau úrræði sem standa til boða og mik­il­vægi þraut­seigj­unn­ar fyr­ir per­sónu­leg­an ár­ang­ur í námi.

Við höf­um áorkað miklu og sjá­um strax já­kvæðar breyt­ing­ar, t.d. með fjölg­un um­sókna í iðnnám, fjölg­un kenn­ara­nema og hækk­un braut­skrán­ing­ar­hlut­falls í fram­halds­skól­um. Það er nóg af verk­efn­um fram und­an, en við get­um engu að síður verið stolt af nem­end­um í ís­lensk­um skól­um, hug­viti þeirra og hug­mynda­flugi, færni og aug­ljós­um sköp­un­ar­krafti. Ef byggt er á styrk­leik­um barna og ung­menna, og við finn­um leiðina sem hent­ar hverj­um og ein­um, þá höf­um við engu að kvíða.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Deila grein

19/02/2021

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Árið 1907 tóku lög um skólaskyldu gildi á Íslandi. Samkvæmt ágætri grein Ragnars Þorsteinssonar, fyrrum fræðslustjóra Reykjavíkurborgar, sem kom út í tilefni af 100 ára afmæli laganna var ekki einhugur um útfærsluna í kringum aldamótin þótt flestum hafi verið það ljóst að mikilvægi menntunar fyrir íslensk börn og almenning væri grundvöllur framfara þjóðarinnar til lengri tíma. Mér vitanlega hefur ekki nokkrum Íslendingi dottið í hug að afnema skólaskyldu né láta sér detta sú fásinna í hug að öll börn ættu ekki að hafa sama rétt til menntunar hér á landi óháð efnahag. Við trúum því og treystum að menntun sé hluti mannréttinda okkar og fjárfestingu í menntun barnanna okkar sé vel varið.

Rannsóknir sýna að menntun er ávísun á aukin lífsgæði einstaklinga og samfélaga. Menntun hefur einnig jákvæð áhrif á heilsufar en heilsa okkar er jú eitt það dýrmætasta sem við eigum. Sá sem ekki er við góða heilsu á í erfiðleikum með að njóta annarra þátta daglegs lífs. Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og því benda rannsóknir til þess að félagsleg umgjörð barna hafi mótandi áhrif á velgengni þeirra á lífsleiðinni. En börn þurfa ekki aðeins menntun. Börn þurfa einnig ást og umhyggju, tækifæri til þess að vera börn og upplifa heiminn í leik og starfi. Börn þurfa að læra samvinnu og öðlast félagsþroska þar sem mikilvægi samstarfs er oft grundvöllur að árangri í lífinu. Börn þurfa virka hreyfingu og þar vega tækifærin til íþróttaiðkunar þungt.

Samkvæmt ÍSÍ má ætla að um 60.000 börn og ungmenni á Íslandi stundi íþróttir en mikilvægi íþrótta er ótvírætt fyrir þroska og heilsu barna auk þess sem forvarnargildi þeirra er staðreynd. Nágrannaþjóðir okkar horfa öfundaraugum á gæði þjálfunar og faglega umgjörð íþróttastarfs hér á landi þar sem áhersla hefur verið lögð á menntun þjálfara og fyrsta flokks aðstöðu. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur um langt skeið lagt mikla áherslu á íþróttir og tómstundir þó svo málaflokkurinn sé ekki lögbundin þjónusta rétt eins og menntakerfið eða velferðarþjónustan. Nýlega var ákveðið að ráðast í gríðarlega metnaðarfulla framkvæmd við Stapaskóla þar sem sundlaug og fullbúið keppnisíþróttahús mun rísa á næstu árum auk þess sem hvatagreiðslur voru hækkaðar og fyrirmyndarsamningar gerðir við íþróttafélögin til þess að efla starf þeirra enn frekar. Fjármunum þessum er vel varið en betur má ef duga skal.

Fyrir rúmri öld var það ákvörðun alþingis að leggja grunninn að menntakerfi okkar til framtíðar. Grunnurinn að íþróttastarfi hér á landi hefur fyrir löngu verið lagður með þrotlausri vinnu sjálfboðaliða en upp á vantar að tryggja öllum börnum og ungmennum gjaldfrjálsar íþróttir hér á landi óháð efnahag þeirra sem að þeim standa. Það er kominn tími til þess að ríkisvaldið viðurkenni mikilvægi íþróttastarfs fyrir lýðheilsu í landinu og fjármagni þennan mikilvæga málaflokk til jafns við sveitarstjórnarstigið. Fyrsta skrefið í þá átt væri mótframlag ríkisins með hverju barni sem stundar íþróttir hér á landi. Langtímaplanið væri svo gjaldfrjálsar íþróttir á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni upp að lögaldri. Nánari útfærsla færi fram í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Arðurinn af fjárfestingunni væri ómetanlegur til langrar framtíðar.

Jóhann Friðrik Friðriksson, er lýðheilsufræðingur og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Kæri nágranni!

Deila grein

19/02/2021

Kæri nágranni!

Sem formaður velferðarráðs hef ég fengið að taka þátt í þeirri vinnu að auka lífsgæði í Reykjanesbæ í nánu samstarfi við íbúa og starfsfólk. Fyrir það er ég afskaplega þakklát og stolt af öllum þeim sem ég hef fengið að vinna með í málaflokknum. Við hér í Reykjanesbæ erum lánsöm. Lánsöm af því að hér standa íbúar þétt saman, aðstoða hvern annan og rétta fram hjálparhönd þegar þörf er á. Við erum líka lánsöm því við búum yfir ótrúlegu starfsfólki sem brennur fyrir því að vinna starf sitt af alúð og hefur valið að starfa í málaflokknum af hugsjón. Hugsjón um að það sem þau leggja af mörkum skili sér í því að bæta lífsgæði annarra.

En af hverju leggjum við áherslu á að veita góða velferðarþjónustu? Það er til þess að við íbúar upplifum að öryggisnet sveitarfélagsins grípi okkur þegar við þurfum á því að halda. Öryggi er eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra. Við erum á þessari stundu að ganga í gegnum tíma sem eru, eins og margoft hefur komið fram, fordæmalausir. Öryggi hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en einmitt núna. Á þessari stundu kemur einnig fram að hlutverk samfélagsins í að tryggja öryggi er gríðarlegt þegar einstaklingar og fjölskyldur sem hafa sjaldan eða aldrei þurft að leita eftir stuðningi sveitarfélagsins þurfa nú að gera einmitt það. Það er á þeirri stundu sem mikilvægt er að minna á að velferðarþjónusta er ekki til staðar eingöngu fyrir ákveðna hópa samfélagsins. Hún er og hefur ætíð verið fyrir okkur öll.

Það er von mín að þú, kæri nágranni minn í Reykjanesbæ, upplifir öryggi og vitir að það er öryggisnet með sterku fagfólki á öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins sem stendur þétt við bak okkar þegar á reynir. Næstu mánuðir munu mæta okkur með ýmsum áskorunum. En við höfum sýnt og sannað að við gefumst ekki auðveldlega upp og þegar við stöndum aftur á fætur verðum við enn sterkari. Í okkur býr nefnilega ótrúleg seigla. Við þekkjum það vel að þurfa að hjálpa hvert öðru á fætur og gerum það af miklum kærleika og vináttu. Saman getum við gert það!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar og varabæjarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Sundabraut í samvinnu og sátt

Deila grein

18/02/2021

Sundabraut í samvinnu og sátt

Hugmyndin um Sundabraut er ekki ný af nálinni, hún var fyrst sett fram fyrir nærri 50 árum síðan og náði hún inn í aðalskipulag Reykjavíkur fyrir 35 árum. Frá því Sundabraut komst inn á aðalskipulag eru liðin um níu kjörtímabil bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Enn á eftir að útfæra nánar lagningu og hönnun Sundabrautar en þau tímamót eru þó runninn upp að við getum treyst því að af henni verði. Sundabraut kemur til með að auðvelda umferð milli miðborgar og Grafarvogs, létta á umferð á höfuðborgarsvæðinu og stytta leiðir út á land sem og inn á höfuðborgarsvæðið.

Mikilvægi þessa samgöngumannvirkis er ekki bara samgöngubót fyrir höfuðborgina heldur er þetta mikilvæg samgöngubót fyrir Vestlendinga, Vestfirðinga sem og Norðlendinga. Sundabraut hefur áhrif á daglegt líf margra sem búa á Vesturlandi og aka daglega til vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðið og öfugt. Sundabraut styttir vegalengdir og eykur umferðaröryggið, þá mun Sundabraut vafalaust koma til með að bæta almenningssamgöngur.

Víðtæk áhrif

Samkvæmt nýlegri íbúakönnun býr hamingjan á Snæfellsnesi, enginn dregur það í efa. Allar líkur eru á að Sundabraut komi til með að breyta miklu fyrir Vestlendinga en hvort hamingja þeirra aukist mikið skal ekki segja en lengi getur gott batnað. Í könnuninni kom fram að það sem íbúar töldu hamla góðri búsetu sé ástand vegakerfisins. Þrátt fyrir að heimavinna hafi aukist til muna og störf án staðsetningar hafi raungerst í COVID 19, þá hafa samgöngur sífellt meiri áhrif á daglegt líf fólks nú en áður. Af því leiðir að val um búsetu verður metin út frá því. Tvöföldun Vesturlandsvegar og lagning Sundabrautar styrkir val fólks til búsetu á Vesturlandi öllu og þau áhrif gætir lengra. Með Sundabraut opnast einnig auknir möguleikar fyrir nýja staðsetningu fyrirtækja og stofnanna.

Samvinnuverkefni

Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist árið 2025 og lokið fyrir árið 2030 og það er það sem að er stefnt. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir samvinnuverkefnum hins opinbera og einkaaðila, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra lagði fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Sundabraut er eitt þeirra sex verkefna sem talað var um sem samvinnuverkefni og hefur Alþingi heimilað Sundabraut sem samvinnuverkefni. Með samvinnuverkefni væri Vegagerðinni heimilt að undangengnu útboði að gera samning við einkaaðila um samvinnuverkefni um framkvæmd um þau verkefni sem tilgreind eru í þeim lögum og hafa í för með sér aukið umferðaröryggi.

Áfram veginn með Sundabraut.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 17. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Sjálfsögðu hlutirnir

Deila grein

18/02/2021

Sjálfsögðu hlutirnir

Lífsgæði, hagsæld, og staða innviða eru nátengd hvert öðru. Í gegnum tíðina höfum við líkast til farið að taka því sem gefnum hlut að búa við trausta og góða innviði, hafa heimilið upplýst allan sólarhringinn, alla daga ársins, vera með háhraða nettengingu, jafnvel víðs fjarri þéttbýli og að úr krananum renni bæði heitt vatn og kalt. Besta neysluvatn í heimi, fyrir 0 krónur. Að við komumst ferðar okkar að vild, bæði innanlands og utan. Að vísu skal það viðurkennt að við höfum ekki enn fundið endanlega lausn á ófærð, en við gerum okkar besta.

En svo gerist allt í einu eitthvað sem fær okkur til að staldra við og muna hvílík verðmæti þetta eru. Á landinu skellur stormur og í nokkra daga missir hluti landsmanna aðgang að hluta þessara innviða; vegir loka, rafmagnið dettur út og fjarskiptasamband rofnar. Algjört neyðarástand skapast. Ástand sem ekki er hægt að sætta sig við.

Endurreisn

Samtök iðnaðarins gaf út innviðaskýrslu árið 2017 í aðdraganda síðustu kosninga. Það var ljómandi góð tímasetning. Í mínum augum var sú skýrsla mjög gagnlegt því hún dró upp mynd af innviðum landsins í sennilega því slakasta ástandi sem þeir hafa verið í langan tíma. Árin á undan, allt frá bankahruni, voru ár vanfjárfestingar í samgönguinnviðum og þeir liðu fyrir og létu á sjá.

Þeir innviðir sem undir mitt ráðuneyti heyra, þjóðvegir, hafnir og flugvellir fengu ekki háa einkunn þá.

Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar var kveðið á um nauðsynlega endurreisn íslenskra samgönguinnviða þar sem uppbyggingu væri hraðað, bæði í nýbyggingu og viðhaldi. Frá því ég tók við embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa framlög í samgönguframkvæmdir aukist hratt.

Vegir, hafnir, flugvellir

Árið 2016, ári áður en umrædd skýrsla kom út, voru heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins 16,4 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Þar af fóru rúmir 6 milljarðar í viðhald. Framlög til viðhalds höfðu haldist á bilinu 4,5-6 milljarðar frá 2010 og jafnvel lengur.

Í ár erum við að gera ráð fyrir að heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins verði 35,5 milljarðar, þar af 11 milljarðar í viðhald, sjá meðfylgjandi töflu.

Framlög til hafnarframkvæmda úr hafnarbótasjóði voru 660 milljónir 2016 og 412 milljónir árið 2017. Á þessu ári verða framlögin rúmir 1,6 milljarðar.

Framlög til flugvalla og flugleiðsögu voru rúmir 1,9 milljarðar 2016 og 1,8 árið 2017. Á þessu ári verða framlögin 4,4 milljarðar. Allar þessar upphæðir eru á sama verðlagi og skiptast í viðhald og nýframkvæmdir í samræmi við ráðgjöf og forgangsröðun þeirra sem til þekkja.

Áfram veginn

Tveimur samgönguáætlunum og einu fjárfestingarátaki síðar fullyrði ég að staðan nú er allt önnur og betri. Það besta er að við erum rétt að byrja. Á næstu árum höfum við lagt grunn að  miklum uppbyggingaráformum um allt land. Nýtum við þar öll trixin í bókinni; stóraukin bein framlög til framkvæmda, þjónustu og viðhalds, aukin þátttaka einkaaðila og einkafjármagns með hinni svokölluðu samvinnuleið (PPP) ásamt möguleika á að nýta sértæka gjaldtöku til enn frekari framfara. Ég ætla að leyfa mér að slá því föstu að næstu 15 ár verði tímabil framfara og uppbyggingar sem muni búa í haginn fyrir hagvexti morgundagsins og lífskjörum framtíðar kynslóða þessa lands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Deila grein

18/02/2021

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Í útvarpsþættinum á Sprengisandi fyrr í vikunni var rætt við Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál. Páll Gunnar ræddi m.a. um mikilvægi þess að samkeppnislögin væru virt, það væri mikilvægt fyrir heildarhagsmuni neytenda. Hann talaði um að það væri lenska í efnahagskreppu að taka samkeppnislögin úr sambandi og grípa til verndartolla sem kæmi síðan niður á nýsköpun, vöruþróun og vöruverði til neytenda.

Undirrituð hafa lagt fram frumvarp til breytinga á búvörulögum þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga þá sé afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þetta frumvarp fæddist ekki í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir heldur var það fyrst lagt fram á haustdögum 2018, löngu áður efnahagskreppa af völdum COVID 19 var í kortunum. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt nú sem aldrei fyrr.

Samræmist EES og ESB

Verði tillagan að lögum er fullvíst að mikil hagræðing getur átt sér stað bæði í slátrun sem og vinnslu á kjöti. Allar líkur eru á að hagræðing sem þessi muni skila betri afkomu afurðastöðva, hærra afurðaverði til bænda og lægra vöruverði til neytenda. Það er ekkert í EES rétti sem kemur í veg fyrir að slíka breytingu megi leiða í lög hér á landi og mikilvægt er að hafa í huga að landbúnaður innan ESB er undanþeginn samkeppnislögum að miklu leiti.

Við erum ekki að finna upp hjólið

Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Árangurinn sést meðal annars af því að heildarþáttaframleiðni í greininni hefur vaxið um 2,2% á ári frá 2000-2018. Til samanburðar má nefna að í grónum atvinnugreinum er slíkur vöxtur að jafnaði um 1% á ári. Árlegur ávinningur af þessum breytingum er um 3 milljarðar króna á ári á verðlagi ársins 2020. Þessum ábata hefur verið skilað til bænda í gegnum afurðaverð og til neytenda í gegnum heildsöluverð mjólkurvara. Þessi undanþága er þannig forsenda stöðugleika og stórfelldrar hagræðingar sem fylgt hefur verið eftir með vöruþróun og nýsköpun sem aftur er forsenda þess að hafa traustan markað fyrir mjólkurvörur meðal neytenda.

Nærsamfélagsframleiðsla og hagsmunir neytenda.

Síðustu misseri hafa kröfur neytenda tekið verulegum breytingum. Margt kemur þar til s.s. aukin vefverslun, kröfur um að draga úr notkun umbúða, minni matarsóun auk áherslu á að minnka kolefnisspor afurða. Neytendur og bændur eru samstíga að horfa í átt til þess að framleiða heilnæmar og hreinar afurðir í nærumhverfi markaðarins. Þetta á jafnt við þau sem neyta dýraafurða sem og grænkera. Hagsmunir bænda og neytenda fara þannig saman og stjórnvöld verða hlýða því kalli. Innlend framleiðsla á það skilið að staðið sé vörð um um hana til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar, og stjórnvöld geta lagt lið með breyttri löggjöf. Aukin samvinna í afurðavinnslu mun leiða af sér aukna vöruþróun og hagræðingu þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda til framtíðar. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Sam­vinna bænda í sölu bú­vara

Deila grein

17/02/2021

Sam­vinna bænda í sölu bú­vara

Um aldir voru ýmsar landbúnaðarafurðir helsta útflutningsvara landsmanna, á eftir skreið. Allt fram að stofnun kaupfélaganna, þess fyrsta fyrir 119 árum (20. febrúar 1882), áttu landsmenn sér engin samtök um slík viðskipti heldur kom hver og einn bóndi fyrir kaupmenn með afurðir sínar. Einokunarverslun danakonungs á tímabilinu 1602 – 1787 sá um að arður af Íslandsverslun skilaði sér refjalaust í fjárhirslur konungs. Eftir lok einokunar tók við tímabil svokallaðrar fríhöndlunar, sem bannaði Íslendingum að versla við aðra en þegna Danakonungs, en hún leiddi til þess að lífinu var haldið í landsmönnum með lægsta mögulega samnefnara á afurðaverði.

Samvinna bænda á sér langa sögu

Á 19. öld hófst alþjóðlega þróun þar sem framleiðendur ýmiss varnings tóku sig saman og bundust samtökum til að sameina krafta sína. Þessa þróun má rekja allt aftur til 1860, fyrst í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríska-Ungverska Keisaradæminu og Bretlandi. Þetta var hluti af alþjóðavæðingu þess tíma. Sauðasala íslenskra bænda var fjárhagsleg lyftistöng til sveita á sínum tíma og grunnurinn að stofnun kaupfélaganna hér á landi. Síðan hefur æði mikið vatn runnið til sjávar. Það vekur nokkra athygli að hlýða á forstjóra Samkeppniseftirlitsins á Íslandi vísa ítrekað til þessarar þróunar á sínum tíma ekki bara hér á landi heldur líka t.d. í Bandaríkjunum eins og hann gerði á fundi sem Félag atvinnurekenda stóð fyrir þann 11. febrúar sl. Raunar var að heyra að hann teldi þetta einmitt mjög gott skipulag fyrir afurðasölumál.

Sami forstjóri eða sú stofnun sem hann veitir forstöðu hefur ítrekað tjáð sig um afurðasölumál í landbúnaði. Í umsögn sem stofnun veitti Alþingi sl. haust um þingmál 376, sjá hér, segir m.a.:

„Hafa ber í huga í þessu sambandi það aðhald sem bændum er kleift að sýna viðsemjendum sínum, þ.e. afurðastöðvum, hefur farið þverrandi. Þannig er t.d. ekki til að dreifa samkeppni í kaupum á mjólk frá bændum, auk þess sem bændur eru ekki lengur eigendur kjötafurðastöðva nema að hluta til og geta því ekki beitt eigendaaðhaldi nema að takmörkuðu leyti.“

Viljandi er Sláturfélag Suðurlands þar talið með fyrirtækjum sem teljast í einkaeigu þó eigendur í A-deild stofnsjóðs (bændur) hafi atkvæðisrétt á stjórnar og aðalfundum og stjórni þannig fyrirtækinu. Einnig telur Samkeppniseftirlitið Sláturfélag Vopnfirðinga hf., Norðlenska ehf. og Fjallalamb hf. með í þessum hópi þó þau séu að verulegu leyti í eigu bænda eða félaga þeirra. Hið rétta er því að stærstur hluti slátrunar á sauðfé, nautgripum og hrossum fer fram í fyrirtækjum sem eru í eigu og/eða stjórnað af bændum. Bændur reka því enn í dag á samstarfsgrunni fyrirtæki sem sjá um vinnslu og sölu afurða þeirra.

Um stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins

En víkjum aðeins að stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins. Sama dag og yfirlýsingar forstjóra þess um verndaraðgerðir á krepputímum rötuðu á síður Viðskiptablaðsins, birtist í því grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, og Maríu Kristjánsdóttur, lögmann, þar sem stjórnsýsluframkvæmd Samkeppniseftirlitsins var gerð að umtalsefni.

Í þessari grein var m.a. vakin athygli á því að samrunaeftirlit stofnunarinnar byggist, líkt og í Noregi og ESB, á tveimur hlutum – fasa I og fasa II; almennt er gert ráð fyrir því að tilkynntir samrunar fari í fasa I en einungis mál sem komi til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni fari í fasa II. Hin furðulega staða er hins vegar uppi að t.a.m. í bæði Noregi og ESB fara 2-3% tilkynntra samruna í fasa II á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44% á tímabilinu 2017-2020. Ekki er hægt að draga af þessu aðra ályktun en að stjórnsýsla Samkeppniseftirlitsins sé mjög frábrugðin stjórnsýslu systurstofnunar þess í Noregi og framkvæmdastjórnar ESB.

Hvað leggur Samkeppniseftirlitið svo til?

Fyrr er vikið að því að stofnun kaupfélaganna virðist forstjóra Samkeppniseftirlitsins hugleikin. En stofnunin hefur einnig bent á aðrar leiðir fyrir bændur til að styrkja stöðu sína í afurðasölumálum. Í fyrr tilvitnaðri umsögn til Alþingis er bent á að með breytingum á regluumhverfi megi gera bændum betur kleift að „…vinna afurðir sínar sjálfir og bjóða þær neytendum á grundvelli eigin hugvits og nýsköpunar. Með því gætu bændur sýnt bæði kjötafurðastöðvum og dagvöruverslunum aukið aðhald.“

Fákeppni á smásölumarkaði

Þessi nálgun Samkeppniseftirlitsins, sem lausn á því viðfangsefni bænda að kaupendur varanna eru að stærstum hluta tvær smásölukeðjur, hljóma nánast útópískar. Verslanir Haga (Bónus og Hagkaup) auk Krónunnar fara með 76% verslunar á smásölustigi hér á landi. Hvernig dettur forstjóra Samkeppniseftirlitsins í hug að það bæti stöðu bænda að mæta á pikköppunum sínum á planinu fyrir framan skrifstofur þessa fyrirtækja með kjöt af heimaslátruðu á pallinum. Kjötið þarf að selja sem fyrst því bændur hafa ekki geymslur fyrir það. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um niðurstöðuna. Stofnun kaupfélaganna á sínum tíma var einmitt ætlað að vera svar við sambærilegri stöðu. Á sama hátt styður t.d. ESB við það að bændur skipuleggi afurðasölustarf sitt með samvinnu – hefur ESB haft það að stefnu sinni allt frá gerð Rómarsáttmálanna 1958. Sameina þarf slagkraft margra til að mæta fákeppni á smásölumarkaði og samkeppni erlendis frá eins og ríkir hér á landi.

Bætum stöðu íslensks landbúnaðar

Aukið svigrúm landbúnaðar í nágrannalöndum okkar til að skipuleggja samstarf í skjóli undanþága frá samkeppnislögum hlýtur að teljast hluti af samkeppnisforskoti hans gagnvart okkar landbúnaði. Samkeppniseftirlitinu væri nær að benda á þennan óeðlilega mun og hvetja stjórnvöld til að minnka hann, fremur en að freista þess að koma í veg fyrir að hann sé jafnaður að hluta með því að auka lítilsháttar svigrúm íslensks landbúnaðar gagnvart samkeppnisreglum.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Spennandi atvinnugrein – ein með öllu

Deila grein

15/02/2021

Spennandi atvinnugrein – ein með öllu

Ástæður sum­argleðinn­ar í minni barnæsku voru marg­ar. Sum­ar voru þær sömu og gleðja börn nú­tím­ans, en sér­stak­lega þótti mörg­um krökk­um í mínu hverfi spenn­andi að kom­ast í skólag­arðana! Þar fengu börn að leika sér í mold og drullu, sam­hliða því að læra að rækta græn­meti sem þau færðu stolt heim til for­eldra sinna þegar sumri tók að halla.

Ein­hverra hluta vegna þóttu skólag­arðarn­ir samt ekki töff og mat­ræktaráhug­inn fjaraði jafn­an út þegar unglings­ár­in nálguðust. Á full­orðins­ár­um kviknaði hann þó hjá mörg­um á ný og á und­an­förn­um árum hafa ma­t­jurta­g­arðar sprottið upp í húsa­görðum um allt land.

Að sama skapi hef­ur neysla á græn­meti stór­auk­ist í land­inu. Mataræðið hef­ur orðið fjöl­breytt­ara og sem bet­ur fer hef­ur skiln­ing­ur á mik­il­vægi þess að fram­leiða mat inn­an­lands auk­ist. Þeir sem velja að gera mat­væla­fram­leiðslu að ævi­starfi hafa átt á bratt­ann að sækja. Hefðbund­inn bú­skap­ur hef­ur víða dreg­ist sam­an og orðræðan í garð inn­lendr­ar mat­væla­fram­leiðslu hef­ur stund­um verið nei­kvæð. Sem bet­ur fer hef­ur það snú­ist við og auk­in inn­lend mat­væla­fram­leiðsla er nú tal­in lífs­nauðsyn­leg og ómet­an­leg af mörg­um ástæðum.

Raun­ar kall­ast hún á við mörg af helstu hags­muna­mál­um þjóðar­inn­ar, og jafn­vel alls heims­ins. Þannig eru um­hverf­isáhrif inn­lendr­ar garðyrkju og annarr­ar mat­væla­fram­leiðslu já­kvæð, í sam­an­b­urði við áhrif­in af inn­flutn­ingi mat­væla. Inn­lend mat­væla­fram­leiðsla stuðlar að fæðuör­yggi þjóðar­inn­ar, sem í eina tíð þóttu óþarfar áhyggj­ur en síðari tíma áföll hafa ótví­rætt sýnt að fæðuör­yggi er raun­veru­legt álita­mál. Með auk­inni og nú­tíma­legri garðyrkju er um­hverf­i­s­vænni ís­lenskri orku sáð í frjó­an svörð, þar sem hug­vit skipt­ir sí­fellt meira máli. Ný­sköp­un í garðyrkju hef­ur skapað áhuga­verð störf, þar sem ís­lensk­ar aðstæður eru nýtt­ar til að há­marka afrakst­ur­inn. Nýt­ing á vatni og orku er marg­falt skil­virk­ari og tækninýj­ung­ar fá að blómstra.

Auk­inn áhugi neyt­enda á græn­meti hef­ur birst í aukn­um inn­flutn­ingi. Íslensk­ir fram­leiðend­ur hafa aukið sína fram­leiðslu, en ekki haldið í við eft­ir­spurn­ina og því hef­ur hlut­deild inn­lendr­ar fram­leiðslu minnkað. Hún er nú um 20% en með mark­viss­um aðgerðum og nú­tíma­leg­um fram­leiðsluaðferðum má auka hana til muna. Þannig er raun­hæft að stefna á 40% hlut­deild árið 2030 og 50% inn­an fimmtán ára. Slík­ur ár­ang­ur hefði mik­il sam­fé­lags­leg áhrif, myndi skapa fjölda starfa og spara gjald­eyri sem ann­ars færi til kaupa á er­lendu græn­meti.

Hug­mynd­ir í þessa veru eru bæði raun­hæf­ar og hag­kvæm­ar. Stjórn­völd eiga að und­ir­búa jarðveg­inn og skapa góð rekstr­ar­skil­yrði. Íslensk­ir fram­leiðend­ur fram­leiða hágæðavöru og þess vegna er framtíðin björt!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar 2021.