Categories
Fréttir Greinar

Væntingastjórnun ríkisstjórnarinnar dregur úr hagvexti

Deila grein

01/06/2025

Væntingastjórnun ríkisstjórnarinnar dregur úr hagvexti

Efna­hags­horf­ur í heims­bú­skapn­um hafa versnað á síðustu miss­er­um, ekki síst vegna óvissu í alþjóðaviðskipt­um. Ný tolla­stefna Banda­ríkj­anna og viðbrögð við henni hafa skapað auk­inn óróa, sem Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn tel­ur munu draga úr hag­vexti um 0,5% á þessu ári og um 0,3% á því næsta. Ef litið er til ná­granna­ríkja eru skuld­ir evr­ópskra ríkja á upp­leið vegna auk­inna út­gjalda til varn­ar­mála, sem vega æ þyngra í rík­is­fjár­mál­um.

Í Bretlandi hef­ur rík­is­fjár­málastaðan verið til umræðu að und­an­förnu. Þar ligg­ur við að lít­il frá­vik í hag­vexti kalli á aðgerðir í formi skatta­hækk­ana eða niður­skurðar að mati AGS. Slík­ar aðstæður und­ir­strika mik­il­vægi þess að stjórn­valdsaðgerðir styðji við efna­hags­leg­an stöðug­leika – ekki hið gagn­stæða.

Á Íslandi hef­ur hag­vöxt­ur síðasta ára­tug­inn verið rúm 3% að meðaltali og kaup­mátt­ur vaxið veru­lega. Heim­il­in hafa al­mennt staðið sterk, en þrálát verðbólga hef­ur sett strik í reikn­ing­inn – þó að hún sé nú far­in að hjaðna. Sam­kvæmt nýj­ustu Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands er spáð 1% hag­vexti á ár­inu, sem er lækk­un um 0,6 pró­sentu­stig frá fyrri spám. At­vinnu­leysi hef­ur einnig auk­ist og mæl­ist nú rúm 4%.

Þá má greina vís­bend­ing­ar um minnk­andi fjár­fest­ing­ar í at­vinnu­líf­inu og hafa hrein ný út­lán til fyr­ir­tækja dreg­ist sam­an. Við þess­ar aðstæður hef­ur rík­is­stjórn­in boðað skatta­hækk­an­ir á helstu út­flutn­ings­grein­ar þjóðarbús­ins. Sam­hliða þessu hef­ur for­sæt­is­ráðherra gefið til kynna að erfiðir tím­ar séu fram und­an í rík­is­fjár­mál­um. Ljóst er að bæði tekju­hlið og gjalda­hlið krefjast end­ur­mats, og margt bend­ir til þess að stefnt sé að niður­skurði í vel­ferðar­mál­um og skatta­hækk­un­um á at­vinnu­lífið.

Sú veg­ferð er vara­söm. Vænt­inga­stjórn­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur þegar haft letj­andi áhrif á rekstr­ar­um­hverfi fyr­ir­tækja, og óviss­an sem rík­ir um framtíðaráform stjórn­ar­inn­ar veld­ur því að mörg fyr­ir­tæki bíða átekta með fjár­fest­ing­ar. Þetta er sér­stak­lega óheppi­legt á tím­um þegar raun­vext­ir eru háir og pen­inga­stefn­an er áfram þétt í taumi. Fyr­ir­huguð Evr­ópu­veg­ferð eyk­ur einnig þessa óvissu í nú­ver­andi tollaum­hverfi alþjóðaviðskipta.

Þegar mik­il óvissa rík­ir á alþjóðavett­vangi er hlut­verk stjórn­valda að skapa festu heima fyr­ir. Því miður virðist rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur ekki ætla að standa und­ir þeirri ábyrgð. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in er óljós og hagræðingaráformin óút­færð, sem eyk­ur óvissu frek­ar en að draga úr henni.

Mark­mið um halla­laus fjár­lög árið 2027 er í sjálfu sér afar lofs­vert en til þess að það ná­ist þarf að leggja meiri áherslu á hag­vöxt og verðmæta­sköp­un. Þar ligg­ur grunn­ur­inn að sjálf­bær­um rík­is­fjár­mál­um. Ef stjórn­völd gleyma þeirri ein­földu staðreynd get­ur veg­ferð þeirra reynst þjóðarbú­inu dýr­keypt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Gríðar­legir hags­munir í húfi

Deila grein

31/05/2025

Gríðar­legir hags­munir í húfi

Orðspor íslensks sjávarútvegs er meðal mikilvægustu verðmæta greinarinnar. Á alþjóðlegum mörkuðum njóta íslenskar fiskafurðir mikils álits, ekki aðeins vegna gæða heldur einnig vegna þess að þær eru afurðir sjálfbærra og ábyrgra veiða. Þetta traust hefur byggst upp áratugum saman með sameiginlegu átaki útgerða, stjórnvalda og vísindastofnana sem hafa lagt áherslu á að tryggja vandaða og gagnsæja nýtingu auðlinda hafsins.

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á strandveiðum er mjög gagnrýniverð, ekki síst vegna vinnubragðanna. Að leggja fram lagabreytingar með engu samráði, undir lok þings, án þess að kalla til vísindasamfélagið eða hagsmunaaðila er óboðlegt. Vinnubrögð sem þessi rjúfa traust og vekja óneitanlega upp um spurningar óstöðugleika og ábyrgðarleysi í íslenskri fiskveiðistjórnun, ekki bara hér innanlands heldur einnig á alþjóðavettvangi.

Ef farið er að sveigja þá stefnu sem hefur verið rækilega mótuð um áratugaskeið, stefnu sem byggð er á vísindalegum grunni mun orðspor íslensks sjávarútvegs skaðast verulega. Útflutningsverðmæti upp á tugi eða hundruð milljarða króna eru í húfi. Kaupendur á erlendum mörkuðum greiða hærra verð fyrir fisk sem kemur frá sjálfbærum og stöðugum veiðisvæðum. Ef sú mynd brestur, getur verðfallið orðið hratt og áhrifin gríðarleg, ekki aðeins á útflutningstekjur heldur einnig á störf sjómanna, fiskverkafólks og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja.

Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að meðhöndla svona mikilvægt mál með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir. Fiskveiðistjórnunarkerfið er einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs og grundvallarbreytingar á því eins og hér er lagt til þarfnast raunverulegs samráðs og vandaðrar vinnu. Tilraunakenndar breytingar í pólitísku skjóli síðustu daga þings er ekki rétt leið. Ríkisstjórnin þarf að axla ábyrgð í þessu máli og við megum ekki undir neinum kringumstæðum hætta orðspori þjóðarinnar, því það getur tekið langan tíma að byggja það upp á ný.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hlutdeildarlánin – skref að réttlátari húsnæðismarkaði

Deila grein

29/05/2025

Hlutdeildarlánin – skref að réttlátari húsnæðismarkaði

Fé­lags- og hús­næðismálaráðherra svaraði ný­verið fyr­ir­spurn sem ég lagði fram á Alþingi um áhrif hlut­deild­ar­lána. Í svar­inu kom skýrt fram að þetta úrræði – sem Fram­sókn setti á lagg­irn­ar til að styðja við fyrstu kaup­end­ur – hef­ur skilað raun­veru­leg­um ár­angri. Það hef­ur sér­stak­lega nýst ungu og tekju­lágu fólki sem ella hefði ekki haft kost á að kaupa sér íbúðar­hús­næði. Hlut­deild­ar­lán­in voru fyrst veitt í lok árs 2020 og síðan þá hafa 1.006 lán verið af­greidd fyr­ir um 10,4 millj­arða króna. Hlut­deild­ar­lán hafa verið veitt í 29 sveit­ar­fé­lög­um víðs veg­ar um landið, þar af flest í Reykja­vík, Hafnar­f­irði og Reykja­nes­bæ.

Hug­mynd­in felst í því að ríkið taki að sér hlut­verk sem for­eldr­ar gegna oft – að styðja ungt fólk við fyrstu fast­eigna­kaup. Flest­ir búa ekki við þær aðstæður að geta leitað til for­eldra sinna um aðstoð við út­borg­un og því stíg­ur ríkið inn með þess­um stuðningi.

Reynsl­an sýn­ir að hlut­deild­ar­lán­in hafa haft mjög já­kvæð áhrif fyr­ir sam­fé­lagið í heild. Rík­is­sjóður á hlut í þess­um eign­um og virði þeirra hef­ur hækkað. Úti­stand­andi hlut­deild­ar­lán eru að upp­haf­legri fjár­hæð um 9,5 millj­arðar. Miðað við þróun fast­eigna­verðs er virði þeirra nú 12,8 millj­arðar og óinn­leyst­ur mis­mun­ur því um 3,3 millj­arðar. Að auki hafa 112 lán þegar verið greidd upp – með að meðaltali 34% hærri end­ur­greiðslu en upp­haf­leg upp­hæð.

Hlut­deild­ar­lán­in hafa því stuðlað að fé­lags­leg­um stöðug­leika og stór­bætt stöðu fjöl­margra án þess að vera fjár­hags­leg byrði fyr­ir ríkið. Þessi nálg­un – að styðja við sér­eign­ar­stefn­una og veita fólki tæki­færi til að byggja upp sjálf­stæði á traust­um grunni – er kjarni þess sem Fram­sókn stend­ur fyr­ir.

Það er ljóst að eft­ir­spurn­in er mik­il og í ljósi góðrar reynslu og sam­fé­lags­legs ávinn­ings er mik­il­vægt að fjölga út­hlutuðum lán­um en áætlað er að um 300 lán verði veitt á þessu ári og um 260 á ári næstu fjög­ur ár. Það þarf einnig að tryggja aukið fjár­magn og sveigj­an­leika, m.a. með ár­legri end­ur­skoðun á tekju­mörk­um og há­marks­verði fast­eigna.

Við í Fram­sókn mun­um halda áfram að beita okk­ur fyr­ir rétt­lát­ari og aðgengi­legri hús­næðismarkaði. Hlut­deild­ar­lán­in hafa sýnt að það er hægt að byggja upp raun­veru­leg tæki­færi fyr­ir fólk – og ávinn­ing fyr­ir sam­fé­lagið allt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Mold sem þyrlað var upp

Deila grein

29/05/2025

Mold sem þyrlað var upp

Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í máli nr. 7/2024 þann 23. maí 2024, þar sem staðfest var að lagabreytingar Alþingis á búvörulögum síðastliðið vor hefðu verið gerðar í samræmi við stjórnarskrá og þingsköp. Jafnframt felldi dómurinn úr gildi niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að málsmeðferð þingsins hefði brotið gegn stjórnarskrá. Ýmsir gagnrýndu breytingarnar harðlega og héldu því fram að málið hefði verið drifið áfram af annarlegum hvötum. Nú er ljóst að sú gagnrýni reyndist haldlaus; staðfesting Hæstaréttar á breytingunum sýnir um leið að engir formgallar voru á málsmeðferð Alþingis í þessu máli.

Lögin fela í sér mikilvæga heimild fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði til að sameinast eða vinna saman í rekstri með það að markmiði að ná fram aukinni hagkvæmni. Reynslan frá mjólkuriðnaðinum sýnir að slík hagræðing getur gagnast bæði bændum, neytendum og fyrirtækjum – hún skilar sér í lægra vöruverði fyrir neytendur, bættri afkomu bænda og hagkvæmari nýtingu fjármuna, sem styrkir stöðu greinarinnar gagnvart innfluttum vörum.

Skilyrt undanþága – ekki frípassi til einokunar

Gagnrýni á lögin hefur einkum beinst að því að þau „heimili einokun“ eða leiði til hærra vöruverðs. Sú gagnrýni stenst ekki nánari skoðun. Lögin setja fjögur skýr skilyrði fyrir samstarfi afurðastöðva:

  • Söfnunarskylda: tryggir að allir framleiðendur hafi jafnan aðgang að afurðastöðvum, óháð staðsetningu.
  • Jöfn viðskiptakjör: gilda gagnvart öllum vinnsluaðilum – hvort sem þeir eru innan eða utan framleiðendafélaga.
  • Frjálst val viðskipta: framleiðendur geta valið sér aðra afurðastöð hvenær sem er.
  • Réttur til hlutaðildar: bændur geta átt viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti (t.d. slátrun) án skuldbindingar um frekara samstarf.

Þessi skilyrði tryggja að lögin þjóni hagsmunum bænda án þess að útiloka minni keppinauta eða veikja samkeppni, þannig að neytendur njóti sanngjarns verðs á markaði.

Íslenskur landbúnaður undir þrýstingi

Landbúnaður á Íslandi hefur lengi glímt við óstöðugt rekstrarumhverfi. Innflutningur á kjöti jókst um 17% á síðasta ári og samkeppnin kemur nú sífellt meira að utan fremur en innanlands. Þeir sem vilja halda íslensku lamba- og nautakjöti á samkeppnishæfu verði verða að viðurkenna að hagræðing og samþjöppun eru ekki ógn, heldur nauðsyn. Ella er hætt við að innlend framleiðsla láti í minni pokann fyrir innflutningi og neytendur þurfi að reiða sig á erlend matvæli.

Deloitte hefur metið að hægt sé að ná 0,9–1,5 milljarða króna hagræðingu með samþjöppun í slátrun og kjötvinnslu. Áætlað er að hagræðingin skili sér þannig: 40% til bænda, 40% til neytenda og 20% til afurðastöðva. Með öðrum orðum: allir græða.

Heilnæmi og sérstaða – íslensk gæði í forgangi

Ísland býr yfir sérstöðu á alþjóðavísu þegar kemur að matvælaöryggi og mjög lágri sýklalyfjanotkun í dýrum. Sú sérstaða er ekki sjálfgefin og nauðsynlegt er að verja hana. Lögin styðja við þá viðleitni – þau gera ekki aðeins bændum kleift að bregðast við samkeppni, heldur tryggja að neytendur hafi áfram aðgang að öruggum, heilnæmum og innlendum matvælum, sem er forsenda matvælaöryggis.

Breytingarnar á búvörulögum eru ekki „lausnin á öllum vandamálum“ – en þær marka mikilvægt skref í rétta átt. Framtíð íslensks landbúnaðar liggur ekki í stöðnun, heldur í þróun. Til að viðhalda öflugri og sjálfbærri matvælaframleiðslu verður að tryggja að greinin búi yfir þeim verkfærum sem til þarf.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 29. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Til hvers var barist?

Deila grein

25/05/2025

Til hvers var barist?

Til að auka hag­sæld og bæta lífs­kjör á Íslandi voru háð þrjú erfið þorska­stríð við Bret­land. Með þraut­seigju, sam­vinnu og framtíðar­sýn tókst að stækka land­helg­ina í 200 míl­ur. Þetta var gert í fjór­um áföng­um. Fyrst úr 3 í 4 sjó­míl­ur árið 1952, 12 míl­ur (1958), 50 míl­ur (1972) og svo loks 200 míl­ur (1976). Þessi sókn Íslend­inga varð að einni mestu lífs­kjara­bót sem ein þjóð hef­ur upp­lifað á svo skömm­um tíma. Allt til árs­ins 2000 komu yfir 60% af gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins frá sjáv­ar­út­vegi, sem gegndi lyk­il­hlut­verki í efna­hags­legu sjálf­stæðu þjóðar­inn­ar. Hæst fór hlut­deild sjáv­ar­út­vegs í vöru­út­flutn­ingi í rúm 97% árið 1949.

Á síðustu 50 árum hef­ur sam­setn­ing út­flutn­ings breyst tölu­vert, og nú koma um 22% gjald­eyristekna frá sjáv­ar­út­vegi. Það hef­ur fært þjóðarbú­inu aukið jafn­vægi og minni sveifl­ur, en um leið sýn­ir þetta hversu mik­il áhrif sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur enn. Gjald­miðill­inn var háður gengi sjáv­ar­af­urða, og sam­keppn­is­hæfni lands­ins réðst að stór­um hluta af af­komu grein­ar­inn­ar. Þær kerf­is­breyt­ing­ar sem gerðar voru á sín­um tíma til að styrkja meg­in­út­flutn­ings­grein þjóðar­inn­ar urðu einnig grunn­ur að því að skapa um­gjörð fyr­ir ný­sköp­un og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf.

Í vik­unni var kynnt­ur nýr samn­ing­ur Evr­ópu­sam­bands­ins við Bret­land. ESB-rík­in hafa áfram aðgang að fiski­miðum Bret­lands næstu tólf árin, sem er veru­leg stefnu­breyt­ing. Bret­ar vildu upp­haf­lega tak­marka aðgang­inn við fjög­ur til fimm ár. Sjáv­ar­út­vegs­stefna ESB hef­ur verið gagn­rýnd og hef­ur skaðað bresk­an sjáv­ar­út­veg veru­lega. For­sæt­is­ráðherra Bret­lands hef­ur sætt harðri gagn­rýni fyr­ir að hafa gefið eft­ir kröf­una um full yf­ir­ráð yfir fiski­miðunum, þó að í staðinn hafi Bret­land fengið aukið aðgengi að mörkuðum fyr­ir vör­ur og þjón­ustu. Fram­lag sjáv­ar­út­vegs í lands­fram­leiðslu Breta er ekki nema 0,14% sam­an­borið við 6% á Íslandi. Mik­il­vægi sjáv­ar­út­vegs fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf er marg­falt og því hags­mun­ir sam­kvæmt því.

Helstu út­flutn­ings­grein­ar okk­ar búa nú við mikla óvissu. Í fyrsta lagi er stefnt að veru­legri skatta­hækk­un án þess að nægi­legt sam­tal eða grein­ing fari fram. Í öðru lagi rík­ir alþjóðleg óvissa vegna nýrr­ar viðskipta­stefnu Banda­ríkj­anna, þar sem erfitt er að sjá fyr­ir þróun mála. Í þriðja lagi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það á stefnu­skrá að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Öll þessi óvissa dreg­ur úr fjár­fest­ingu, minnk­ar hag­vöxt og eyk­ur áhættu í at­vinnu­líf­inu. Tveir af þess­um óvissuþátt­um, skatta­hækk­an­ir og ESB-veg­ferð, eru sjálf­skapaðir og vekja að mörgu leyti undr­un. Gleym­um því ekki að öll hag­sæld þjóðar­inn­ar grund­vall­ast á verðmæta­sköp­un, dugnaði og far­sælli framtíðar­sýn. Evr­ópu­för rík­is­stjórn­ar­inn­ar er ekki leiðin til hag­sæld­ar og við get­um spurt okk­ur, til hvers var bar­ist á dög­um þorska­stríðanna?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. ut­an­rík­is­ráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2025.

Categories
Greinar

Brýn þörf á auknum fjárveitingum vegna sjávarflóða

Deila grein

19/05/2025

Brýn þörf á auknum fjárveitingum vegna sjávarflóða

Sjáv­ar­flóð eru nátt­úru­vá sem Íslend­ing­ar þurfa að búa við og mik­il­vægt er að bregðast við á viðeig­andi hátt. Líkt og í bar­átt­unni við of­an­flóð, þar sem sterk og mark­viss varn­ar­vinna hef­ur skilað góðum ár­angri, er nauðsyn­legt að setja upp öfl­ug­ar sjóvarn­ir til að lág­marka skaða af völd­um sjáv­ar­flóða.

Hækk­andi sjáv­ar­staða og aukn­ar veður­sveifl­ur gera það að verk­um að mik­il­vægi sjóvarna hef­ur aldrei verið meira. Sam­kvæmt áætl­un­um sam­göngu­áætlun­ar er gert ráð fyr­ir að verja 150 millj­ón­um króna ár­lega í sjóvarn­ir á landsvísu. Það er ljóst að þessi upp­hæð er langt frá því að nægja til að mæta þeirri gríðarlegu þörf sem skap­ast hef­ur á und­an­förn­um árum, sér­stak­lega á þeim svæðum sem eru hvað viðkvæm­ust fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Á Suður­nesj­um hafa ít­rekað komið upp til­vik þar sem sjáv­ar­flóð hafa ógnað byggð og innviðum. Í Suður­nesja­bæ varð stór­tjón 1. mars 2025 þegar hafn­ar­mann­virki og aðrar eign­ir urðu fyr­ir mikl­um skaða af völd­um sjáv­ar­flóða. Bænd­ur og land­eig­end­ur urðu fyr­ir veru­legu tjóni og ann­ar golf­völl­ur­inn í sveit­ar­fé­lag­inu var illa leik­inn. Kirkju­g­arðar voru einnig í stór­hættu á að verða fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Ástandið er þannig að jafn­vel þyrfti í raun að nýta alla þá fjár­hæð sem ætluð er í sjóvarn­ir á landsvísu ein­göngu í Suður­nesja­bæ til að tryggja nauðsyn­leg­ar varn­ir þar. Þetta und­ir­strik­ar hversu brýnt það er að end­ur­skoða fjár­mögn­un sjóvarna hér á landi.

Eitt mögu­legt úrræði væri að skoða stofn­un sér­staks sjáv­ar­flóðasjóðs að fyr­ir­mynd of­an­flóðasjóðs. Þannig mætti tryggja sam­ræmda stefnu og stöðugan fjár­hags­leg­an stuðning við varn­ir gegn sjáv­ar­flóðum um landið allt. Að sama skapi mætti horfa til þess að auka fjár­veit­ing­ar rík­is­ins í sjóvarn­ir og setja slíkt á dag­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Þegar horft er til framtíðar er ljóst að vand­inn mun aðeins aukast. Lofts­lags­breyt­ing­ar, hækk­andi sjáv­ar­staða og auk­in tíðni óveðra eru staðreynd­ir sem ekki er hægt að líta fram­hjá. Nú er tím­inn til að bregðast við – áður en kostnaður­inn við aðgerðir verður óviðráðan­leg­ur.

Ég skora á rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokki fólks­ins að setja sjáv­ar­flóð og sjóvarn­ir á dag­skrá. Það er deg­in­um ljós­ara að þörf­in er knýj­andi og hún á aðeins eft­ir að aukast á kom­andi árum. Nú er mik­il­vægt að grípa til aðgerða til að tryggja vernd viðkvæmra svæða fyr­ir sjáv­ar­flóðum.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland er efst á lífskjaralista SÞ

Deila grein

19/05/2025

Ísland er efst á lífskjaralista SÞ

Á sól­rík­um og björt­um dög­um á Íslandi finnst okk­ur flest­um ástæða til að gleðjast yfir land­inu okk­ar og þeim gæðum sem það hef­ur upp á að bjóða. Sjálf hef ég ávallt verið stolt af Íslandi, þeim ár­angri sem náðst hef­ur og þeim tæki­fær­um sem sam­fé­lagið býður upp á. Við búum í öfl­ugu og fram­sæknu sam­fé­lagi sem hef­ur lagt hart að sér við að skapa þau lífs­kjör sem við njót­um í dag. Efna­hags­leg­ar fram­far­ir síðustu ald­ar vekja at­hygli á heimsvísu.

Ný­verið birti Þró­un­ar­áætl­un Sam­einuðu þjóðanna lífs­kjaralista sinn, þar sem horft er til lífs­líka, mennt­un­ar og þjóðartekna á mann. Þar kem­ur fram að Ísland trón­ir nú á toppi list­ans, efst allra ríkja heims. Sam­kvæmt skýrsl­unni hef­ur lífs­kjara­vísi­tala Íslands hækkað um tæp 16%, sem má einkum rekja til auk­inna lífs­líka, lengri skóla­göngu og hækk­un­ar þjóðartekna um 77,3%. Sér­stök áhersla er lögð á áhrif gervi­greind­ar í skýrsl­unni og bent á að hún muni umbreyta nán­ast öll­um þátt­um sam­fé­lags­ins. Há­tekju­ríki, þar á meðal Ísland, eru sögð hafa for­skot vegna þróaðra sta­f­rænna innviða. Þetta set­ur Ísland í ein­stak­lega sterka stöðu til að nýta mögu­leika gervi­greind­ar til sam­fé­lags­legr­ar upp­bygg­ing­ar – með skýrri sýn á þær kerf­is­breyt­ing­ar sem eru fram und­an, meðal ann­ars á vinnu­markaði.

Þessi ár­ang­ur Íslands á lífs­kjaralist­an­um gef­ur til­efni til að staldra við og meta hvað hef­ur verið gert vel. Eitt af því sem skipt­ir sköp­um er öfl­ug þróun mennta­kerf­is­ins, einkum á fram­halds­skóla­stig­inu, þar sem brott­hvarf nem­enda hef­ur dreg­ist veru­lega sam­an á und­an­förn­um árum. Fram kem­ur í skýrsl­unni að þar stend­ur Ísland fram­ar en til að mynda Nor­eg­ur. Síðasta rík­is­stjórn lagði ríka áherslu á að efla fram­halds­skóla­stigið og fjár­festi mark­visst í því – meðal ann­ars með sér­stakri fjár­veit­ingu upp á tæp­an millj­arð króna til að fjár­festa í því að minnka brott­hvarfið í sam­starfi við okk­ar öfl­uga skóla­sam­fé­lagið. Sam­starfið skilaði því að brott­hvarf hef­ur aldrei mælst lægra á Íslandi.

Það er þó ekki síður mik­il­vægt að horfa fram á við. Nú­ver­andi fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ger­ir ráð fyr­ir veru­leg­um niður­skurði til mennta­mála, einkum á fram­halds­skóla­stigi. Sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur, bæði í að draga úr brott­hvarfi og efla verk­nám, stend­ur því tæpt – og þar með einnig þau lífs­kjör sem gera okk­ur kleift að skara fram úr á heimsvísu.

Rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur virðist ekki hafa metnað til að styrkja mennta­kerfið á þeim tím­um þegar mik­il­vægi mennt­un­ar er hvergi meira – á tím­um gervi­greind­ar og tækni­breyt­inga. Verk­stjórn­in geng­ur í það að brjóta niður þann markverða ár­ang­ur sem náðst hef­ur. Fram­sókn legg­ur áherslu á að með öfl­ugu, aðgengi­legu og metnaðarfullu mennta­kerfi tryggj­um við að Ísland verði áfram land tæki­fær­anna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Deila grein

16/05/2025

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Það var ánægju­legt að sækja fund hjá Fé­lagi eldri borg­ara á Ak­ur­eyri (EBAK) síðastliðinn föstu­dag. Rétt rúm­lega hundrað manns mættu – áhuga­sam­ir, upp­lýst­ir og mál­efna­leg­ir. Þar skapaðist gott sam­tal um þau mál sem brenna mest á eldra fólki í dag. Ábend­ing­ar komu víða að og spurn­ing­arn­ar voru marg­ar og skýr­ar. Það var sér­stak­lega áber­andi að umræðan sner­ist ít­rekað að sömu kjarna­mál­un­um: skerðing­um, líf­eyr­is­sjóðum en einnig að heil­brigðisþjón­ustu.

Heyrn­ar­tæki – ekki munaður held­ur nauðsyn

Þegar fólk eld­ist verður þörf­in fyr­ir hjálp­ar­tæki meiri, rætt var um frek­ari niður­greiðslu á gler­aug­um og tannviðgerðum en oft­ast kom upp staða heyrn­ar­tækja og niður­greiðslur þeim tengd­ar. Það er ekki sjálf­gefið að hafa efni á góðum heyrn­ar­tækj­um, sem kosta oft hundruð þúsunda króna og þurfa að end­ur­nýj­ast reglu­lega. Samt er það svo að góð heyrn skipt­ir öllu máli fyr­ir þátt­töku, sam­skipti og lífs­gæði.

Jafn­rétti til þátt­töku í sam­fé­lag­inu

Það þarf ekki langa um­fjöll­un til að átta sig á að aðgengi að heyrn­ar­tækj­um er jafn­rétt­is­mál. Ef ein­stak­ling­ar á efri árum hafa ekki tök á að fjár­magna þessi nauðsyn­legu hjálp­ar­tæki er verið að úti­loka fólk frá eðli­legri þátt­töku í sam­fé­lag­inu – í sam­töl­um, fjöl­skyldu­sam­skipt­um, fé­lags­starfi og fleiru. Þetta hef­ur áhrif á líðan og get­ur leitt til fé­lags­legr­ar ein­angr­un­ar sem við vilj­um öll forðast.

Þess vegna verðum við að skoða hvort hægt sé að gera bet­ur í þess­um efn­um. Horfa til annarra landa, til dæm­is má líta til Bret­lands. Þar sjá einkaaðilar um heyrn­ar­mæl­ing­ar, sjón­mæl­ing­ar og grein­ing­ar, en ríkið tek­ur stærri þátt í kostnaði við hjálp­ar­tæk­in sjálf. Slík skipt­ing get­ur létt á op­in­bera kerf­inu, aukið fram­boð og stuðlað að betri þjón­ustu en ekki síður aukið tæki­færi til frek­ari niður­greiðslu – svo fremi sem gæði og aðgengi eru tryggð.

Hagræðing sem skil­ar sér í aukn­um stuðningi

Þetta er ekki ein­göngu spurn­ing um þjón­ustu – held­ur líka um skil­virkni og hag­kvæmni. Með því að nýta sérþekk­ingu og innviði í kerf­inu öllu, líkt og gert er í Bretlandi og víðar, væri unnt að veita þjón­ust­una hraðar og víðar – og á sama tíma nota þá fjár­muni sem spar­ast til að greiða niður heyrn­ar­tæki sjálf í aukn­um mæli. Slík hagræðing myndi gera rík­is­valdi kleift að styðja bet­ur við eldri borg­ara, sér­stak­lega þá sem eru tekju­lág­ir, án þess að auka heild­ar­kostnað í kerf­inu.

Við þurf­um að ræða þetta op­in­skátt, lausnamiðað og finna leiðir sem virka í ís­lensku sam­hengi. Hvort sem það felst í auk­inni niður­greiðslu, breyttri skipt­ingu á þjón­ustu og tækj­um, reglu­legri skimun, sam­starfi við einkaaðila eða öðrum lausn­um – þá er ljóst að það þarf að bregðast við. Fólk á ekki að þurfa að velja á milli grunnþarfa og þess að geta tekið þátt í sam­tali við barna­börn sín.

Við í Fram­sókn höf­um talað skýrt fyr­ir því að setja mál­efni eldri borg­ara í for­gang – og það ger­um við með því að hlusta, mæta til sam­tals og vinna með þær upp­lýs­ing­ar sem koma frá fólk­inu í land­inu. Fund­ur­inn með EBAK var skýr áminn­ing um að margt hef­ur tek­ist vel, mörg mál eru enn óleyst – en líka vitn­is­b­urður um mik­inn vilja fólks til að leggja sitt af mörk­um til að leysa þau.

Við ætl­um að fylgja mál­um eft­ir. Við ætl­um að vinna með eldra fólki og fé­laga­sam­tök­um þeirra. Og við ætl­um að styðja við öll mál­efna­leg og fram­kvæm­an­leg skref sem miða að bætt­um kjör­um og þjón­ustu þessa hóps.

Heyrn er ekki munaður. Hún er for­senda fyr­ir þátt­töku – og þátt­taka er lífs­gæði.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Leið­réttum kerfis­bundið mis­rétti

Deila grein

15/05/2025

Leið­réttum kerfis­bundið mis­rétti

Í dag eru rafveitur undanþegnar fasteignamati. Það þýðir að stærstur hluti mannvirkja til orkuframleiðslu – svo sem stíflur, lón og önnur tilheyrandi mannvirki – bera ekki fasteignaskatt. Eingöngu er greiddur fasteignaskattur af stöðvarhúsum, og það eitt.

Fasteignaskattur er þó einn af þremur lögbundnum tekjustofnum sveitarfélaga, ásamt útsvari og greiðslum úr Jöfnunarsjóði. Þessi undanþága veldur því að sveitarfélög verða af verulegum tekjum, sérstaklega þau sem hýsa stórar virkjanir.

Nefna má mitt eigið sveitarfélag, Múlaþing. Þar er að finna Kárahnjúkavirkjun. Uppistöðulón hennar, Hálslón, er 57 ferkílómetra stórt – það er allt innan marka Múlaþings, hefur 600 metra fallhæð og afkastagetu upp á 690 megavött. Hálslón er svo stórt að það sést frá geimnum – það er stærra en Bermúdaeyjar.

Til að setja þetta í samhengi: Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, kostaði 146 milljarða króna við upphaf og er núvirt í dag rúmlega 335 milljarðar. Árið 2023 nam hagnaður Landsvirkjunar af grunnrekstri (fyrir skatta) 50 milljörðum króna, og árið þar á undan 40 milljörðum.

Þrátt fyrir þessa gríðarlegu verðmætasköpun fær Múlaþing einungis fasteignaskatt af vatnsréttindum – um 15 milljónir króna á ári. Fljótsdalshreppur fær einnig tekjur af stöðvarhúsi og vatnsréttindum – um 150 milljónir. Samtals fær Austurland því rétt tæplega 170 milljónir í fasteignaskatt vegna þessarar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar.

Það er mikilvægt að minna á að verðmætin verða ekki til í rafmagnslínunum heldur í náttúrunni – þar sem orkan er framleidd, ekki endilega nýtt.

Enn í dag bíðum við eftir þriggja fasa rafmagni á Jökuldal – þótt risavirkjunin sé staðsett í bakgarðinum. Fjöldi starfa vegna raforkuframleiðslunnar er hverfandi – áætlað er að innan við tuttugu störf falli til vegna hennar á Austurlandi. Og ofan á þetta greiðum við háar upphæðir í dreifbýlisgjald raforku.

Nærsamfélög eiga skýlausan rétt á sanngjörnum hlut af þeim verðmætum sem verða til innan þeirra. Því fagna ég sérstaklega þeim áformum innviðaráðherra sem birtust í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni – um að leggja fram frumvarp á haustþingi sem afnemur undanþágu vatnsafls-, jarðvarma- og vindorkuvera frá fasteignamati.

Þetta skref er ekki einungis eðlilegt heldur sanngjarnt og réttlátt.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og stjórnarmaður í Samtökum orkusveitarfélaga.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Deila grein

15/05/2025

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Í vik­unni hóf ég umræðu á Alþingi um hvað ný­legt álit óbyggðanefnd­ar frá 10. apríl sl. þýðir fyr­ir Vest­manna­eyj­ar. Í stuttu máli bygg­ist álitið á því að leiðbein­andi laga­regla fel­ist í loka­málslið 2. kapí­tula reka­bálks Jóns­bók­ar frá 1281: Eyj­ar og sker sem „liggja fyr­ir landi“ telj­ist til þeirr­ar jarðar sem næst ligg­ur, nema sýnt sé fram á annað með lög­gern­ingi.

Út frá þess­ari laga­reglu hef­ur óbyggðanefnd mótað það sjón­ar­mið að eyj­ar og sker sem liggja 2 km eða minna frá landi (frá grunn­línu net­laga jarðar eða heima­eyju), séu eign­ar­land en ekki þjóðlenda. Fyr­ir Vest­manna­eyj­ar eru þetta mik­il tíðindi.

Vissu­lega þarf að horfa þarf til margra þátta við end­an­legt mat á því hvort eyj­ar og sker telj­ist til eign­ar­landa allt í kring­um landið. Þetta breyt­ir ekki því að óbyggðanefnd hef­ur slegið nýj­an og mik­il­væg­an tón.

Rétt­ur­inn er sterk­ur

Ríkið (fjár­mála- og efna­hags­ráðherra) þarf að bregðast án taf­ar við áliti óbyggðanefnd­ar og end­ur­meta kröf­ur sín­ar frá grunni. Eign­ar­rétt­ar­leg staða Vest­manna­eyja er mun skýr­ari en áður og kröf­ur rík­is­ins mun meira íþyngj­andi en víðast hvar ann­ars staðar á land­inu.

Rétt er að minn­ast þess að upp­haf­lega (2024) krafðist ríkið þess að sjálf­ur Heimaklett­ur og Blát­ind­ur – auk hlíða Herjólfs­dals og þar á meðal brekk­an sem Brekku­söng­ur­inn á Þjóðhátíð er kennd­ur við, yrðu viður­kennd sem þjóðlend­ur ásamt nýja hraun­inu.

Eign­ar­rétt­ar­leg staða virðist þó aug­ljós en bær­inn keypti árið 1960 all­ar Vest­manna­eyj­ar (með ör­fá­um und­an­tekn­ing­um), þar með talið út­eyj­ar, af rík­inu, sbr. lög frá 1960 sem heim­iluðu rík­is­stjórn­inni að selja „land allt í Vest­manna­eyj­um“ sem þá var í eigu rík­is­ins.

Órjúf­an­leg­ur hluti af sögu og samtíð Vest­manna­eyja

Hinar mörgu út­eyj­ar sem hér um ræðir voru öld­um sam­an mat­arkista Eyja­manna sem sækja þangað enn þann dag í dag. Úteyj­arn­ar geyma því bæði sögu og lif­andi samtíð heima­fólks og eru órjúf­an­leg­ur hluti Vest­manna­eyja; þar sem hjarta þeirra sann­ar­lega slær, eins og seg­ir í þjóðhátíðarlag­inu.

Kröf­ur end­ur­skoðaðar í tíð Fram­sókn­ar

Íþyngj­andi kröf­ur rík­is­ins voru end­ur­skoðar er Fram­sókn tók við mála­flokkn­um. Á vakt for­manns Fram­sókn­ar var ein­ung­is haldið eft­ir kröf­um í Stór­höfða og þær út­eyj­ar þar sem vafi þótti leika á um eign­ar­rétt og skera þurfti úr um málið. Þeim vanda hef­ur nú að miklu leyti verið ýtt til hliðar með áliti óbyggðanefnd­ar.

Afstaða óbyggðanefnd­ar í höfn – en hvað svo?

Álit óbyggðanefnd­ar er í sinni ein­föld­ustu mynd afar skýrt. Í ljósi hags­muna Vest­manna­eyja og sveit­ar­fé­laga um allt land er mik­il­vægt að kröfu­gerð rík­is­ins verði end­ur­skoðuð hið fyrsta, að hlutaðeig­andi aðilar hefji nýtt sam­tal og málið verði unnið hratt og vel til að eyða allri óvissu.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2025.