Categories
Greinar

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Deila grein

05/12/2020

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Af öll­um þeim gild­um sem mér voru inn­rætt í æsku hef­ur þraut­seigj­an lík­lega reynst mér best. Sá eig­in­leiki að gef­ast ekki upp þótt móti blási, að standa aft­ur upp þegar maður miss­ir fót­anna og trúa því að drop­inn holi stein­inn. Að lær­dóm­ur­inn sem við drög­um af mis­tök­um styrki okk­ur og auki lík­urn­ar á að sett mark ná­ist. Þannig hef ég kom­ist gegn­um áskor­an­ir í lífi og starfi og stund­um náð ár­angri sem mér þótti fjar­læg­ur í upp­hafi.

Seigla hef­ur frá aldaöðli þótt mik­il dyggð. Til henn­ar er vísað með bein­um og óbein­um hætti í helstu trú­ar­rit­um heims­ins, heim­speki og stjórn­mál­um. Jesús Krist­ur og Búdda töluðu um þraut­seigju, John Stu­art Mill um seiglu og Mart­in Lúther King sagði fólki að hlaupa ef það gæti ekki flogið, ganga ef það gæti ekki hlaupið og skríða ef það gæti ekki gengið. Lyk­il­atriði væri, að hreyf­ast fram á við hversu hratt sem maður færi!

Í gömlu mál­tæki seg­ir að þol­in­mæði vinni all­ar þraut­ir, en hitt er nær sanni að þraut­seigj­an geri það. Það dug­ar ekki alltaf að anda ró­lega þegar eitt­hvað bját­ar á, held­ur þarf að bretta upp erm­ar. „Trúðu á sjálfs þíns hönd, en und­ur eigi – upp með plóg­inn, hér er þúfa í vegi,“ orti Ein­ar Ben í hvatn­ing­ar­ljóði til þjóðar­inn­ar fyr­ir 120 árum og þau skila­boð eiga enn við. Þannig mun slag­ur­inn við heims­far­ald­ur aðeins vinn­ast ef við tök­um sam­an hönd­um. Vinn­um sem einn maður að því að tryggja heilsu al­menn­ings, vel­ferð, at­vinnu­stig og mennt­un þeirra sem erfa landið. Það síðast­nefnda hef­ur tek­ist ótrú­lega vel, enda hafa hagaðilar í mennta­kerf­inu unnið náið sam­an, sýnt mikið út­hald og þraut­seigju. Það er því viðeig­andi að þraut­seigj­an sé til­greind sem eitt af gild­um nýrr­ar mennta­stefnu sem nú er rædd á Alþingi.

Meg­in­inn­tak mennta­stefn­unn­ar er að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Þar gild­ir einu bak­grunn­ur fólks, fé­lags­leg­ar aðstæður og meðfædd­ir eig­in­leik­ar, því sam­an ætl­um við að stuðla að jöfn­um tæki­fær­um allra nem­enda. Skipu­leggja mennt­un og skólastarf út frá ólík­um þörf­um fólks og gef­ast ekki upp þótt móti blási. Það er nefni­lega ekki vöggu­gjöf­in sem skýr­ir náms­ár­ang­ur held­ur viðhorfið til mennt­un­ar, vinnusiðferðið og til­trú­in á að náms­geta sé ekki fasti held­ur vaxi þegar hlúð er að henni. Á sama hátt ræðst ár­ang­ur okk­ar í líf­inu ekki af forskrifuðum ör­lög­um, held­ur líka vinn­unni sem við leggj­um á okk­ur, af­stöðu okk­ar til mál­efna og siðferðinu sem við rækt­um með okk­ur.

Stund­um er sagt að seigla sé þjóðarein­kenni Íslend­inga. Hún hafi haldið líf­inu í okk­ur í þúsund ár, á meðan við kúrðum í torf­bæj­um fyrri alda. Vafa­laust er margt til í því, þótt Íslend­ing­ar ein­ir geti tæp­ast slegið eign sinni á seigl­una. Þvert á móti hef­ur hún verið upp­spretta fram­fara um all­an heim og verður það áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Íslenskt eða hvað?

Deila grein

04/12/2020

Íslenskt eða hvað?

Við erum að verða of sein á æfingu. Það er búið að vera brjálað að gera í vinnunni og þegar við áttum okkur á því að það eru 20 mín í æfingu stökkvum við af stað. En þegar við erum að bruna af stað byrjar garnirnar að gaula en matartíminn fór eitthvað fram hjá okkur. Við hoppum í búð á leiðinni. Daði grípur próteindrykk, gulrætur og skyr og Jóhanna dós af sódavatni og samloku. Við teljum okkur bæði meðvituð um okkar mat og viljum kaupa íslenskt og gripum því vörur sem voru kirfilegar merktar á íslensku. Svo er haldið á æfingu og maturinn hámaður í sig á leiðinni. Að æfingu lokinni förum við að skoða umbúðirnar af nestinu sem við höfðum hesthúsað í okkur á núll einni þá kom ýmislegt í ljós. Eða kannski réttara sagt kom ekki í ljós.

Það var nefnilega ekkert skýrt hvort um íslenska vöru væri um að ræða. Umbúðirnar voru allar á íslensku en það kom alls ekki alls staðar fram hvaðan megin innihaldið væri. Jú gulræturnar voru vel merktar að um íslenska ræktun væri að ræða enda eru á Íslandi gerðar kröfur um upprunamerkingar á matjurtum, nautgripakjöti, kjöti af svínum, sauðfé, geitum, alifuglum og á hunangi. Aðrar matvörur þurfa því ekki að tilgreina uppruna á aðal hráefnum eða framleiðslustað.

Þá hófst rannsóknar leiðangurinn um uppruna varanna sem var ekki endilega mjög skýr. Skyrið reyndist íslenskt úr íslenskri mjólk og framleitt hér á landi. Próteindrykkurinn sem var við hliðina á skyrinu í kælinum, merktur íslenskum slagorðum í bak og fyrir reyndist hins vegar framleiddur erlendis og sömu sögu var að segja um sódavatnið. Samlokuna var hins vegar ógerningur að greina. Á öllum vörum voru mismunandi merkingar og sumar hverjar ekki mjög skýrar.

Er ásættanlegt að leggja þurfi upp í slíka greiningarvinnu til að fá réttmætar upplýsingar um vöru sem maður ætlar að leggja sér til munns? Af hverju er ekki kveðið skýrt á um uppruna og framleiðslustað á umbúðum?

Í janúar 2014 skrifuðu Samtök atvinnulífsins, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin undir sáttmála um upprunamerkingar matvæla. Enn í dag er að finna brotalöm á upplýsingum til neytenda er varða uppruna matvæla. Í könnun sem var gerð sama ár kom fram að rúmlega tveir þriðju landsmanna teldu það óásættanlegt að upprunalands hráefnis sé ekki getið á umbúðum unninna matvæla. Könnunin sýndi einnig að áhersla Íslendinga á upprunamerkingar hafði aukist umtalsvert frá fyrri könnunum.

Því miður eru margir enn að einblína á hvernig þeir geta komist hjá því að upplýsa neytendur um réttan uppruna og láta þannig reyna á ýmis lýsingarorð sem geta verið villandi. Ásamt notkun umbúða eða merkja sem líkjast þeim sem eru á vörum sem neytendur bera traust til. Þá ber framleiðendum heldur ekki skylda til að upplýsa neytendur ef framleiðslulandi eða innihaldi er breytt, þannig geta neytendur lagt traust á vöru úr íslenskum hráefnum sem síðan er breytt án sérstakra tilkynninga þar um.

Þegar kemur að upprunamerkingum eru margir hagaðilar sem njóta þess ef að þær merkingar eru réttar og skýrar. Skýr framsetning á uppruna matvæla eykur traust neytenda til framleiðenda, vinnsluaðila og söluaðila. Því ber að fagna frumkvæði þeirra sem hafa merkt vörur skilmerkilega með uppruna matvæla þegar að slíkt er ekki endilega bundið í lög og reglur.

Á sambandsþingi ungra framsóknarmann sem haldið var í október var samþykkt ályktun þar sem krafa var gerð um að matvæli og drykkjarvörur sem seldar eru á Íslandi skuli vera með öruggri og skýrri upprunamerkingu.

Upprunamerkingar eru hagsmunamál allra Íslendinga sem stuðlar að innlendir verðmætasköpun. Þegar þú velur íslenska vöru og þjónustu skilar það sér aftur til þín. Svo við tökum undir það góða slagorð: íslenskt láttu það ganga.

Daði Geir Samúelsson, verkfræðingur og í stjórn SUF, Sambands ungra Framsóknarmanna.

Jóhanna María Sigmundsdóttir, verkefnastjóri og í varastjórn SUF, Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2020.

Categories
Greinar

Fjár­hags­á­ætlun Fjarða­byggðar 2021 – Með fjöl­skyldur í fyrir­rúmi

Deila grein

04/12/2020

Fjár­hags­á­ætlun Fjarða­byggðar 2021 – Með fjöl­skyldur í fyrir­rúmi

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2021, ásamt þriggja ára áætlun 2021 – 2024, var samþykkt eftir síðari umræðu í bæjarstjórn þann 3.desember. Eins og gefur að skilja liggur alltaf mikil vinna að baki gerðar fjárhagsáætlunar hvers árs og koma þar að bæði starfsmenn og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins og vil ég hér í byrjun þakka þeim góð störf.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2021 ber þess að vissu leyti merki að Covid-19 faraldurinn, sem tekist hefur verið á við frá upphafi ársins, hefur haft og mun hafa mikil efnahagsleg áhrif á samfélagið allt. Þannig er áætlað að niðurstaða ársins 2020 verði um 150 milljón krónum lakari í rekstri sveitarfélagsins en gert var ráð fyrir. Er þar fyrst og fremst um að ræða kostnaðarauka sem tilkominn er vegna viðbragða sveitarfélagsins við faraldrinum á árinu sem nú er að verða liðið. Stærsti liðurinn var fjölgun sumarstarfa fyrir námsmenn og atvinnulausa, sem tókst afar vel, og skipti sveitarfélagið miklu máli í ýmsum verkefnum á liðnu sumri. Auk þessa þurfti að fara í kaup á ýmsum búnaði til að gera starfsemi sveitarfélagsins mögulega í samkomutakmörkunum, auka sóttvarnir í stofnunum ásamt því að launakostnaður jókst óhjákvæmilega á meðan mestu takmarkanirnar gengu yfir. Engu að síður er það til fyrirmyndar hvernig starfsfólk sveitarfélagsins hefur gengið að sínum störfum í þessu ástandi, og leyst þau af hendi, þrátt fyrir að áskoranirnar hafi verið margar. Færi ég þeim hér með bestu þakkir bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

En vegna þeirrar óvissu sem uppi er í efnahagsmálum var lagt upp með að stíga varlega til jarðar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2021. Gert er ráð fyrir að hækkun útsvars verði talsvert lægri en spá um almenna launaþróun segir til um og er það gert til að til að borð sé fyrir báru í tekjum sveitarfélagsins. Þá er spá um tekjur hafnarsjóðs varfærin og m.a. ekki gert ráð fyrir loðnuveiðum á árinu 2021, vegna þeirrar óvissu sem uppi er í þeim efnum. Engu að síður tel ég vera ástæðu til bjartsýni miðað við fyrstu niðurstöður úr loðnuleit sem fram hafa farið síðustu daga.

Öflugt fjölskyldusamfélag

Líkt og undanfarin ár leggur fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar áherslu á að viðhalda, og bæta það öfluga fjölskyldusamfélag sem Fjarðabyggð er. Áfram halda gjöld fyrir skólamáltíðir að lækka og stefna okkar er sú að þær verði gjaldfrjálsar frá og með haustinu 2021. Við erum afar stolt af því aðgjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla standast mjög vel samanburð við önnur sveitarfélög og eru þær með þeim hagstæðari sem gerast á landinu.

Á árinu 2021 verður lokið við innleiðingu á Sprett, en það er verkefni sem fjölskyldusvið Fjarðabyggðar hefur unnið við að undanförnu. Með Spretti verður stoðkerfi fjölskyldusviðs stóreflt þar sem snemmtæk íhlutun er markmiðið með hag barna að leiðarljósi. Með þessu verður utanumhald um þá sem þurfa á aðstoð að halda öflugra og um leið gert ráð fyrir að kostnaður muni lækka til framtíðar.

Umfangsmiklar framkvæmdir í þágu fjölskyldna og atvinnulífs

Í Fjarðabyggð hefur fólki fjölgað á undanförnum árum og því fylgir aukinn krafa og þörf í framkvæmdum sem snúa að skólum og íþrótta- og æskulýðsmálum. Líkt og verið hefur síðustu ár gerir fjárhagsáætlun ársins 2021 ráð fyrir umtalsverðum fjárfestingum með þetta að leiðarljósi.

Þannig er gert ráð fyrir byggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði en fjármagn til þess verkefnis kemur frá sölu Rafveitu Reyðarfjarðar sem samþykkt var í árslok 2019. Samhliða byggingunni verður einnig farið í viðgerðir á sundlauginni á Reyðarfirði þannig að hún geti þjónað Grunnskóla Reyðarfjarðar sem skólasundlaug. Er þarna um að ræða fjárfestingar í íþróttamannvirkjum á Reyðarfirði fyrir rúmlega 400 milljónir króna.

Einnig er gert ráð fyrir að farið verði í framkvæmdir í Félagslundi á Reyðarfirði með það í huga að félagsmiðstöðinni Zveskjan verði flutt þangað, ásamt því sem húsnæðið verði nýtt sem salur fyrir leikskólann Lyngholt. Er þetta í samræmi við stefnu bæjarstjórnar um bætta nýtingu eigna sveitarfélagsins, og verður gaman sjá Félagslund glæðast lífi að nýju. Er þetta í samræmi við þau skref sem stigin hafa verið með fjölnýtingu húsnæðis Egilsbúðar á Norðfirði á þessu ári.

Þá verður hafinn vinna við lokahönnun og gerð útboðsgagna vegna stækkunar leikskólans Dalborgar á Eskifirði og munu framkvæmdir hefjast í framhaldi af því. Það verkefni er langþráð, en lengi hefur legið fyrir að húsnæði leikskólans sé of lítið og starfsmannaaðstaða ekki viðundandi.

Einnig er gert ráð fyrir fjárfestingu í nýju skjalasafni Fjarðabyggðar sem kemur til með að vera í Lúðvíkshúsi í Neskaupstað, en skjalasafn Fjarðabyggðar hefur hingað til verið vistað í geymslum á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu sem ekki getur gengið til framtíðar. Jafnframt verður Skjala- og myndasafn Norðfjarðar samþætt skjalasafninu sem verið hefur í leiguhúsnæði frá upphafi.

Áframhald verður á fjárfestingum í ofanflóðavörnum. Unnið verður áfram við þriðja varnargarðinn á Norðfirði og varnir við Lambeyrará á Eskifirði. Fjarðabyggð hefur lagt á það höfuðáherslu að haldið verðu áfram við gerð ofanflóðavarna í sveitarfélaginu og að þeim verði að fullu lokið á næstu árum.

En gott fjölskyldusamfélag mætti sín lítils ef ekki kæmi til hið kraftmikla atvinnulíf sem hér er. Öflugur sjávarútvegur er einn af máttarstólpum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og með sanni má segja að Fjarðabyggð sé miðstöð sjávarútvegs á Íslandi. Fjarðabyggðarhafnir hafa á undanförnum árum fjárfest mikið í bættri hafnaðstöðu. Á árinu 2021 er gert ráð fyrir að það haldi áfram og heildarfjárfesting Fjarðabyggðarhafna verði um 450 milljónir króna. Er þar stærst áframhald uppbyggingu á hafnaraðstöðu við nýtt fiskiðjuver og frystigeymslu Eskju á Eskifirði upp á 330 milljónir króna.

Samtals nema fjárfestingar A- og B hluta rúmlega 1 milljarði króna sem sýna vel þann kraft og þörf sem er í okkar öfluga sveitarfélagi.

Framtíðin er björt!

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar er metnaðarfullt plagg sem sýnir svo ekki verður um villst að Fjarðabyggð er framsækið fjölskyldusamfélag þar sem lögð er áhersla á veita íbúum framúrskarandi þjónustu og um leið að hlúð sé vel að atvinnulífinu.

Í heildina er gert ráð fyrir að rekstur A-hluta skili um 40 milljón króna afgangi, sem er jákvæð niðurstaða miðað við þær efnahagslegu aðstæður sem nú eru uppi. En eins og áður verður aðhald í rekstri sveitarfélagsins viðvarandi á næstu árum og áfram verður leitað hagræðingartækifæra og liggja fyrir markmið í þeim efnum sem unnið verður með á næsta ári. Ávallt verður þó haft að leiðarljósi hagur íbúa í slíkri vinnu, um leið og horft er til þess að rekstur sveitarfélagsins sé sem hagstæðastur. Þannig gerum við gott samfélag enn betra.

Að lokum vil ég þakka starfsmönnum og kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins kærlega fyrir vel unnin störf í fjárhagsáætlunargerð sem og í öðrum störfum sínum fyrir sveitarfélagið. Ég er þess fullviss að þrátt fyrir að nú syrti í álinn um stund í efnahagsmálum sé framtíð Fjarðabyggðar björt.

Með aðventukveðju.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2020.

Categories
Greinar

Höfuðstöðvar RARIK til síns heima

Deila grein

03/12/2020

Höfuðstöðvar RARIK til síns heima

Undirrituð hefur lagt inn þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi álykti að stefna skuli að flutningi höfuðstöðva RARIK á landsbyggðina og að kannað verði á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar RARIK um landið.

Höfuðstöðvar RARIK eru í Reykjavík. Um 90% af dreifikerfi raforku í landinu eru í umsjá RARIK og það í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, Reykjaness og Vestfjarða. Mikilvægi RARIK fyrir samfélagið í heild er óumdeilt, starfsemin er viðamikil og dreifð um allt land. Finna má bækistöðvar félagsins meðal annars á Selfossi, Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Borgarnesi og í Ólafsvík. Meginstarfsemi RARIK fer fram á landsbyggðinni auk þess sem allar virkjanir félagsins eru staðsettar út á landi. Því tel ég að góð rök séu fyrir því að færa höfuðstöðvarnar nær meginstarfsemi félagsins og út á land.

Breyttir tímar

Það ástand sem nú ríkir kallar fólk heim og fjarvinna er orðin staðreynd, störf án staðsetningar er ekki lengur draumsýn heldur viðkennd og jafnvel eftirsótt. Það er ekki langt síðan maður heyrði þau rök að það væri nauðsynlegt að staðsetja svo mikilvægar höfuðstöðvar, líkt og höfuðstöðvar RARIK eru, á höfuðborgarsvæðinu. Þar væri önnur mikilvæg stjórnsýsla sem þyrfti að hafa samskipti við og vegalengdir á milli stjórnsýslustofnana stuttur. En sú viðmiðunarvegalengd hefur heldur betur breyst bara á þessu ári. Flutningur sem þessi gerist þó ekki á einni degi, heldur þarf aðlögunartíma svo vel takist til.

Fjölbreyttari störf á landsbyggðina

Fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hefur lengi verið meginvandamál samfélaga á landsbyggðinni. Meðal helstu ástæðna fólksfækkunarinnar er skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Atvinnuöryggi og fjölbreytni starfa tryggir stöðugleika í íbúafjölda, laðar frekar til sín nýja íbúa og stuðlar að því að ungt fólk snúi heim aftur eftir nám. Skortur á fjölbreytni skekkir hlutfall þeirra aldurshópa sem eru almennt virkastir á vinnumarkaðinum. Þetta leiðir til fækkunar íbúa sem hefur í för með sér skerðingu á útsvarstekjum sveitarfélaga. Samkvæmt nýrri skýrslu frá Byggðastofnun hefur ríkistörfum fjölgað á fimm ára tímabili frá 2013-2019 um 0,8%. Hlutfall stöðugilda ríkistarfa af mannfjölda á vinnualdri er hæst á höfuðborgarsvæðinu, þótt þetta ár gæti birt aðrar tölur en það eru óvenjulegar aðstæður. Það hefur því hallað á landsbyggðina hvað varðar dreifingu ríkisstarfa.

Mikilvægt er að tryggja jöfn búsetuskilyrði um land allt. Með því að dreifa ríkisstörfum jafnt um landið er hægt að nálgast betur markmiðum ríkisstjórnarinnar um að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri ásamt því að halda öllu landinu í blómlegri byggð. Það yrði þó aðeins gert þegar réttu skilyrðin eru fyrir hendi, sem flutningsmenn telja vera fyrir hendi í tilviki flutnings RARIK á landsbyggðina.

Í anda núverndi stjórnarsáttmála

Í sáttmála Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis kemur fram að stefnt sé að því að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri, ásamt því að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Þá kemur fram að horft verði m.a. til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndunum við mótun aðgerða hér á landi. Með því að tryggja landsmönnum jafnan aðgang að atvinnutækifærum og jöfn lífskjör um land allt sköpum við betra samfélag. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 3. desember 2020.

Categories
Greinar

Börnin eiga að vera hjartað í kerfinu – breyting í þágu barna

Deila grein

30/11/2020

Börnin eiga að vera hjartað í kerfinu – breyting í þágu barna

Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er risavaxið og felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Ég er því gríðarlega stoltur og ánægður að kynna frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið ef afurð þessa víðtæka og góða samstarfs þar sem markmiðið er samþætting þjónustu í þágu barna til þess að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn með hagsmunir þeirra að leiðarljósi.

Stefnan sem ég legg til í frumvarpinu er að láta mismunandi kerfi tala betur saman og loka gráum svæðum í þjónustu við börn og fjölskyldur. Í íslensku samfélagi eru of mörg dæmi um að ekki sé gripið nógu snemma inn í aðstæður barna. Einnig hefur verið skortur á því að börnum sé boðinn samþættur stuðningur þvert á stofnanir og kerfi. Í nýju kerfi á barnið, en ekki hver stofnun fyrir sig að vera útgangspunkturinn, þannig að barnið sé hjartað í kerfinu.

Frumvarpið tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Það tekur einnig til þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við börn með fatlanir, svo dæmi séu til tekin.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana, ef á þarf að halda. Með breytingunum er leitast við að tryggja að barn og fjölskylda þess fái upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins og þjónustuveitendur, fjölskyldan og barnið sjálft, eftir atvikum, móti í sameiningu markmið, úrræði og meti árangur.

Lagabreytingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, og uppbygging stofnana til að styðja við samþættinguna eru mikilvæg fyrstu skref, en jafnframt eru breytingar á annarri löggjöf sem tengjast veitingu þjónustu í þágu barna nauðsynlegar. Þar má meðal annars nefna breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, barnaverndarlögum, löggjöf um heilbrigðisþjónustu og skólamál. Þegar frumvörpin verða komin í höfn og orðin að lögum, verður Ísland svo sannarlega ekki eftirbátur annarra ríkja hvað varðar þjónustu við börn og fjölskyldur, heldur forysturíki.

Fyrir áhugasama er hægt að horfa á kynninguna á frumvörpunum á vef Stjórnarráðsins. Kynningin hefst kl. 13.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Ályktun frá LFK vegna bleika skattsins!

Deila grein

29/11/2020

Ályktun frá LFK vegna bleika skattsins!

Landssamband Framsóknarkvenna hvetur stjórnvöld til að hlusta á rödd ungra kvenna um land allt um að afnema „bleika skattinn“.

Skattlagning nauðsynjavara sem helmingur þjóðarinnar þarf að nota er ekki ásættanleg og er mismunun ríkisvalds á þegnum sínum í sinni einföldustu mynd. Fjárhagur heimilanna á ekki að vera valdur því að hluti landsfólks geti ekki nálgast nauðsynjavörur á við tíðavörur þegar á þarf að halda.

LFK hvetur efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að endurskoða afstöðu sína til skattlagningar á tíðavörum og horfa á málið með jafnréttisgleraugum enda starfa þingmenn í þágu alls landsfólks, ekki bara þeirra sem fara ekki á túr.

Hvetur LFK stjórnvöld enn fremur til þess að fylgja Skotum í þessu máli, en nýlega var þar samþykkt frumvarp sem skyldar sveitarfélög til að tryggja öllum þeim sem á þurfa að halda, tíðarvörur á borð við túrtappa, dömubindi, eða margnota tíðarvörur, gjaldfrjálst.

Í það minnsta hvetur LFK stjórnvöld til að gera skólum og öðrum opinberum stofnunum það skylt að bjóða upp á tíðavörur gjaldfrjálst þeim sem þær þurfa að nota”.

Fyrir hönd Landssambands Framsóknarkvenna,

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður LFK.

Categories
Greinar

Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Deila grein

27/11/2020

Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi á vettvangi jafnréttismála og fjölskyldumála um áratugaskeið. Páll Pétursson var félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins þegar gerð var veigamikil breyting á lögum um fæðingarorlof árið 2000. Ísland var þá fyrsta landið í heiminu til að lögbinda rétt beggja foreldra til töku fæðingarorlofs.

Viðamikil endurskoðun

Núverandi félags- og barnamálaráðherra, og þingmaður Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason hefur nú lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Ráðherra skipaði nefnd í ágúst 2019 sem hafði það hlutverk að endurskoða lögin frá árinu 2000 í heild sinni. Alls er gert ráð fyrir að 19,1 milljarði króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

12 mánuðir

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu er lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm.

Undantekningar frá reglunni

Þá eru lagðar til frekari heimildir til yfirfærslu réttinda á milli foreldra þegar annað foreldri getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt sinn rétt til fæðingarorlofs. Það gæti t.d. átt við þegar börn hafa ekki feðruð og þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða verulega takmörkuð á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla.

Styrkur til þeirra sem búa fjarri fæðingarstað

Þá er lagt til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu. Það þýðir aðí þeim tilvikum þegar barnshafandi foreldri þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins getur það fengið fjárhagsstyrk. Því síðastnefnda fagna ég sérstaklega, en á haustþingi 2017  lagði ég fram frumvarp þess efnis að fæðingarorlof þeirra sem þyrftu að hefja töku fæðingarorlofs snemma vegna búsetu fjarri fæðingarstað, yrði lengd sem næmi þeim tíma sem fólk yrði að dvelja fjarri heimili. Þar með yrði réttur barna til samveru við foreldra fyrstu mánuði lífsins tryggður án tillits til búsetu þeirra.

Mögulegar breytingar í meðferð Alþingis

Alþingi hefur nú fengið málið til efnislegrar meðferðar. Það kann að fara svo að gerðar verði einhverjar breytingar á framlögðu frumvarpi ráðherra, því þingmenn kunna að hafa ólíka sýn á einstaka útfærslur laganna. Stóra myndin er hins vegar alltaf sú, að vegna áherslna Framsóknarflokksins mun fæðingarorlof foreldra og þar með réttur barna til samvista við foreldra sína verða lengdur úr 9 mánuðum, eins og staðan var við upphafi kjörtímabilsins 2017,  og í 12 mánuði frá og með komandi áramótum.

Enn eitt framfaraskrefið hefur verið stigið í boði Framsóknarflokksins. Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 25. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Íslenska iðnbyltingin

Deila grein

27/11/2020

Íslenska iðnbyltingin

Sæt­ur ilm­ur­inn af pip­ar­kök­um, randalín­um og smá­kök­um er alltumlykj­andi, enda jól­in á næsta leiti. Ást Íslend­inga á sæt­um kök­um og brauði er þó ekki bund­in við eina árstíð og fátt er betra en að vakna snemma um helg­ar til að skjót­ast í bakarí fyr­ir fjöl­skyld­una. Bera fram nýbakað brauð, álegg og jafn­vel leyfa börn­un­um að sökkva sér í kleinu­hring eða volg­an snúð.

Bak­araiðn á sér langa sögu hér á landi. Árið 1834 stóð kaupmaður­inn Peter C. Knudt­son fyr­ir bygg­ingu húsa á Torf­unni svo­kölluðu, þar sem eitt hús­anna var búið bak­ara­ofni. Þangað réðst til starfa er­lendi bak­ara­meist­ar­inn Tönnies Daniel Bern­höft og Ber­höfts-bakarí varð til. Fram­an af voru ein­ung­is bakaðar nokkr­ar teg­und­ir af brauði, svo sem rúg­brauð, fransk­brauð, súr- og land­brauð, en smám sam­an jókst úr­valið og þótti fjöl­breytt um alda­mót­in 1900. Þar með var grunn­ur­inn lagður að baka­rís­menn­ingu sem er löngu rót­gró­in í sam­fé­lag­inu. Form­legt nám í bak­araiðn hófst í Iðnskól­an­um í Reykja­vík árið 1964 og greina mátti mikla ánægju yfir því að stórt bar­áttu­mál bak­ara­stétt­ar­inn­ar væri í höfn!

Enn má merkja mikla ánægju með ís­lensk bakarí, en ánægj­an nær einnig til annarra iðngreina. Við erum stolt af fag­mennsku þeirra sem lært hafa sína iðn í ís­lensk­um skól­um og loks­ins er okk­ur að tak­ast að ryðja úr vegi kerf­is­læg­um hindr­un­um í starfs­mennta­kerf­inu – nokkuð sem lengi hef­ur verið rætt, án sýni­legs ár­ang­urs fyrr en nú. Kerf­is­breyt­ing­un­um er ætlað að jafna stöðu iðnnáms og bók­náms, fjölga þeim sem mennta sig í takt við eig­in áhuga, auka veg og virðingu iðngreina og upp­fylla bet­ur þarf­ir sam­fé­lags­ins. Þetta er mín mennta­hug­sjón.

Stefnt er að því að frá og með næsta skóla­ári fái iðnmenntaðir sem vilja aðgang að há­skól­um, rétt eins og bók­menntaðir fram­halds­skóla­nem­ar. Í því felst bæði sjálf­sögð og eðli­leg grund­vall­ar­breyt­ing. Önnur slík felst í nýrri aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema en fram­veg­is mun skóla­kerfið tryggja náms­lok nem­enda, sem ráðast ekki af aðstæðum nema til að kom­ast á starfs­samn­ing. Reglu­gerð í þessa veru verður gef­in út á næstu dög­um, en þetta er lík­lega stærsta breyt­ing­in sem orðið hef­ur á starfs­mennta­kerf­inu í ára­tugi. Aukn­um fjár­mun­um hef­ur verið veitt til tækja­kaupa og til að bæta kennsluaðstæður í starfs­mennta­skól­um. Við höf­um ráðist í kynn­ingar­átak með hagaðilum til að vekja at­hygli á starfs- og tækni­námi, skóla­hús­næði verið stækkað og und­ir­bún­ing­ur að nýj­um Tækni­skóla er haf­inn.

Sam­hliða hef­ur ásókn í starfs­nám auk­ist gríðarlega og nú kom­ast færri að en vilja. Ein­hverj­ir kalla það lúxusvanda, en minn ásetn­ing­ur er að tryggja öll­um nám við hæfi, bæði hár­greiðslu­mönn­um og smíðakon­um. Með fjöl­breytta mennt­un og ólíka færni byggj­um við upp sam­fé­lag framtíðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Mikilvægi norræns samstarfs fyrr og nú

Deila grein

27/11/2020

Mikilvægi norræns samstarfs fyrr og nú

Margt hef­ur áunn­ist frá þeim tíma sem Norður­landaráð var stofnað árið 1952 til að bæta sam­vinnu og sam­starf land­anna. Sama ár og Norður­landaráð var stofnað var tekið upp vega­bréfa­frelsi á ferðum inn­an Norður­land­anna og tveim­ur árum síðar gekk sam­eig­in­leg­ur vinnu­markaður Norður­landa í gildi með frjálsri för launa­fólks sem varð und­an­fari innri markaðar Evr­ópu­sam­bands­ins.

Árið 1955 tók Norður­landa­samn­ing­ur­inn um fé­lags­legt ör­yggi gildi. Þá höfðu farið fram viðræður um tolla- og efna­hags­banda­lag milli Norður­land­anna og Evr­ópu­ríkj­anna en í júlí árið 1959 ákváðu stjórn­völd land­anna að taka þau áform af nor­rænni dag­skrá. Tíu dög­um síðar náðu Dan­mörk, Nor­eg­ur og Svíþjóð sam­an um Fríversl­un­ar­sam­tök Evr­ópu (EFTA) en Finn­land gerðist aukaaðili árið 1961. Ekki leið á löngu þar til Dan­ir og Norðmenn sóttu um aðild að EBE, Efna­hags­banda­lagi Evr­ópu. Staðan inn­an EFTA breytt­ist og viðleitni nor­rænna landa til að ger­ast aðilar að EBE ýtti und­ir fast­an sátt­mála um nor­rænt sam­starf. Úr varð að „Nor­ræna stjórn­ar­skrá­in“ var samþykkt í Hels­inki hinn 23. mars árið 1962, svo­nefnd­ur Hels­ing­fors­samn­ing­ur. Þar var því slegið föstu að Norður­landaráð skyldi fá tæki­færi til að tjá sig um mik­ils­verð efni nor­rænn­ar sam­vinnu.

Græn­lend­ing­ar verða aðilar að ráðinu

Árið 1958 var um­fangs­meiru nor­rænu vega­bréfa­sam­bandi komið á sem var und­an­fari Schengen-sam­starfs­ins sem við þekkj­um í dag. Þá varð mun auðveld­ara fyr­ir Norður­landa­búa að ferðast til ná­granna­land­anna. Árið 1962 var nor­ræni lýðheilsu­há­skól­inn vígður í Gauta­borg og fjór­um árum síðar var samn­ing­ur um nor­ræna menn­ing­ar­sjóðinn und­ir­ritaður en sjóðnum var einkum ætlað að styrkja menn­ing­ar­verk­efni með þátt­töku eigi færri en þriggja nor­rænna landa. Í ág­úst árið 1968 var Nor­ræna húsið í Reykja­vík vígt en finnski arki­tekt­inn Al­var Aalto teiknaði það. Tveim­ur árum síðar samþykkti Norður­landaráð að full­trú­ar Álands­eyja og Fær­eyja gætu tekið þátt í störf­um ráðsins í gegn­um lands­deild­ir Dan­merk­ur og Finn­lands. Árið 1984 urðu full­trú­ar Græn­lands einnig aðilar að ráðinu í gegn­um lands­deild danska ríkja­sam­bands­ins.

Hindr­an­ir á landa­mær­um

Það er áhuga­vert að líta til baka rúm 60 ár aft­ur í tím­ann þegar und­an­fara Schengen-sam­starfs­ins var komið á en Norður­landaráð hef­ur ein­mitt á for­mennsku­ár­inu nú í ár bent á að marg­ar nýj­ar hindr­an­ir hafa komið upp á landa­mær­um nor­rænu ríkj­anna í tengsl­um við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn. Þetta hef­ur valdið venju­legu fólki og fyr­ir­tækj­um mikl­um vand­ræðum. Norður­landaráð tel­ur betra að komið sé í veg fyr­ir slík­ar hindr­an­ir og að erfiðleik­ar komi upp með sam­eig­in­leg­um fyr­ir­byggj­andi aðgerðum. Nor­ræna ráðherra­nefnd­in og Norður­landaráð hafa unnið mikið starf á síðustu árum að því að draga úr stjórn­sýslu­hindr­un­um á landa­mær­um ríkj­anna en sér­stakt stjórn­sýslu­hindr­anaráð er að störf­um fyr­ir Nor­rænu ráðherra­nefnd­ina og stjórn­sýslu­hindr­ana­hóp­ur á veg­um Norður­landaráðs.

Áhersla á um­hverf­is­mál

Í lok sjötta ára­tug­ar síðustu ald­ar hófu stjórn­völd ríkj­anna skuld­bind­andi sam­starf með stofn­un Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar en á þeim tíma hafði ráðið opnað skrif­stofu í Stokk­hólmi. Stofn­un Nor­ræna fjár­fest­inga­bank­ans gaf til­efni til fyrsta aukaþings Norður­landaráðs sem haldið var í nóv­em­ber árið 1975 en aðal­bækistöðvar hans voru staðsett­ar í Hels­inki í Finn­landi. Í kjöl­far hins al­var­lega kjarn­orku­slyss sem varð í Tsjerno­byl í Norður-Úkraínu árið 1986 hélt Norður­landaráð tvær stór­ar ráðstefn­ur um um­hverf­is­mál þar sem umræðuefn­in voru meng­un and­rúms­lofts­ins ásamt líf­ríki sjáv­ar. Allt frá þess­um tíma hef­ur verið lögð mik­il áhersla á um­hverf­is­mál í nor­rænu sam­starfi.

Múr­inn fell­ur

Árið 1990, áður en Sov­ét­rík­in liðu und­ir lok og Eystra­salts­rík­in end­ur­heimtu sjálf­stæði sitt, höfðu verið tek­in upp sam­skipti við stjórn­mála­fólk í balt­nesku lönd­un­um. Full­trú­ar Eystra­salts­ríkj­anna sóttu þing Norður­landaráðs í Kaup­manna­höfn í lok fe­brú­ar árið 1991 en mánuði áður hafði dregið til tíðinda í Viln­íus og Riga. Þegar lönd­in end­ur­heimtu sjálf­stæði sitt hófst náið sam­starf Norður­landaráðs við ný systra­sam­tök, Eystra­salts­ríkjaráðið. Smám sam­an jókst einnig sam­starf við rúss­neska þing­menn. Árið 1996 flutti skrif­stofa Norður­landaráðs frá Stokk­hólmi til Kaup­manna­hafn­ar und­ir sama þak og skrif­stofa Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar. Sam­starfið er enn að þró­ast og Norður­landaráð hef­ur myndað tengsl við þing­menn í ýms­um öðrum lönd­um utan Norður­land­anna. Árið 2007 voru tek­in upp sam­skipti við stjórn­ar­and­stöðu og stjórn­völd í Hvíta-Rússlandi. Grunn­gildi nor­rænna sam­fé­laga eru mann­rétt­indi, lýðræði og rétt­ar­ríkið. Það er mik­il­vægt að Norður­lönd­in haldi þess­um gild­um á lofti, ekki síst nú á tím­um þar sem öfga­hyggja fer vax­andi og sótt er að rétt­ar­rík­inu og lýðræðinu. Norður­lönd­in eiga að taka sér meira pláss í alþjóðasam­fé­lag­inu því þar eig­um við er­indi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks og forseti Norðurlandsráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Eitt ár í lífi barns

Deila grein

25/11/2020

Eitt ár í lífi barns

Í gær mælti félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason fyrir frumvarpi um fæðingar- og feðraorlof, þar eru lagðar til breytingar um lengingu á fæðingarorlofi í 12 mánuði. Þau börn sem fæðist núna eftir áramótin eiga rétt að njóta samvista við foreldra sína í heilt ár að jöfnu, eða a.m.k. 5 mánuði og eru 2 mánuðir sem foreldrar geta skipt á milli sín. Einnig eru lagðar fram fleiri breytingar á útfærslu fæðingarorlofsins, þar er að finna tillögur sem komu út úr vinnu nefndar sem félags- og barnamálaráðherra skipaði á síðasta ári og hafði það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni. Sú endurskoðun er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að efla fæðingarorlofskerfið og það hefur tekist því alls er gert ráð fyrir að 19,1 ma. króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

Einstæðir foreldrar

Í frumvarpinu er að finna breytingar sem gefur einstæðum foreldrum tækifæri að nýta sér þann rétt sem foreldris sem af einhverjum ástæðum er ekki til staðar. Líkt og þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum, þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunbann eða þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða hún verulega takmörkuð. Þegar annað foreldrið hefur ekki rétt til töku orlofs í sínu heimaríki er hægt að yfirfæra réttinn milli foreldra.

Fæðingarstyrkur fyrir konur af landsbyggðinni

Það er ekki bara María Mey sem þarf milli byggðarlaga til að eignast barn. Fæðingarstöðum á landinu hefur fækkað á síðustu áratugum og eru nú einungis 8 fæðingardeildir á landinu og ein fæðingarstofa. Konur þurfa ekki lengur að ferðast til fæðingarstaðar á asna en þær þurfa í nokkrum tilfellum að ferðast töluvert. Ef um áhættufæðingu er að ræða þurfa þær að fara til Reykjavíkur og dæmi eru um að konur þurfa að vera fjarri heimili sínu og fjölskyldu jafnvel í nokkrar vikur bæði fyrir og eitthvað eftir fæðingu barns síns. Það er því ánægjulegt að í nýju fæðingarorlofi er gert ráð fyrir fæðingarstyrk í þeim tilvikum og þá er tekið tillit til þess að kona þarf að dvelja í einhvern tíma fyrir áætlaðan fæðingardag fjarri heimili sínu.

Framsókn og fæðingarorlof

Það kemur ekki á óvart að breytingum á fæðingarorlofinu sé komið í framkvæmd á vakt Framsóknarflokksins í ráðuneytinu. Framsóknarflokkurinn hefur á sinni vakt í þessu ráðuneyti stigið stór skref til að bæta réttindi verðandi foreldra, það var Páll Pétursson þáverandi félagsmálaráðherra sem kom því í lög árið 2001 að feður skyldu líka eiga rétt á að taka foreldraorlof. Það þótti mikilvægt að binda í lög rétt barnsins að fá að umgangast báða foreldra sína á fyrstu mánuðum lífs síns.

Tímamótaáfangi

Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur meðal annars fram að lengingin á rétti foreldra til fæðingarorlofs sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Jafnframt kemur fram að ítrekaðar kannanir meðal foreldra sýni að sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs sé sérstaklega mikilvægur þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili, en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Bilið brúað

Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börnin fá leikskólapláss. Þetta bil hefur verið streituvaldandi fyrir foreldra og valdið því að foreldrar og þá sérstaklega konur hafa dottið út af vinnumarkaði um tíma. Víða um land eru sveitarfélögin farin að bjóða upp á leikskólapláss allt niður í 12 mánaða aldur. En fæðingarorlof verður að endurspegla samfélagsgerð á hverjum tíma og því er nauðsynlegt að taka þessi mál upp reglulega til að bæta og aðlaga.

Til hamingju með þetta mikilvæga skref í velferð barna og með því er líka verið að stíga mikilvægt skref í jafnrétti foreldra til að njóta samvista við nýjan fjölskyldumeðlim. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2020.