Categories
Greinar

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Deila grein

24/01/2021

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Það er til­efni til að vera bjart­sýn. Ljós er við enda gang­anna með til­komu bólu­efn­is og við vit­um að betri tím­ar eru í vænd­um. Það eru uppi von­ir um að hag­vöxt­ur á heimsvísu muni taka veru­lega við sér vegna tækni­fram­fara. Á Íslandi hafa fram­lög til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina aldrei verið um­fangs­meiri en á þessu ári. Mark­mið stefn­unn­ar eru skýr: Skapa fleiri störf í þekk­ing­ar­grein­um. Megin­á­stæða þess að stjórn­völd fara í þessa veg­ferð er að við höf­um trú á framtíðinni og vilj­um fjár­festa í henni. Fjár­fest­ing­in er arðbær, fjöldi nýrra starfa verður til og fjöl­breytni at­vinnu­lífs­ins eykst. Sam­vinna sveit­ar­fé­laga, mennta­stofn­ana, vís­inda­sam­fé­lags og at­vinnu­lífs­ins verður kjarn­inn í nýrri klasa­stefnu til framtíðar og trygg­ir betri nýt­ingu fjár­muna.

Fjár­fest­ing­in nær 3% af lands­fram­leiðslu

Aukn­ing rík­is­fram­laga til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina hef­ur hækkað um 78% frá 2019. Hér fer sam­an kraft­ur hins op­in­bera og at­vinnu­lífs­ins, þar sem end­ur­greiðslur hafa verið aukn­ar til muna og fyr­ir­tæki í þess­um geira, sem stunda öfl­ug­ar rann­sókn­ir og þró­un­ar­starf, hafa þegar nýtt. Tíma­setn­ing­in á þess­ari stefnu­mörk­un er rétt og eyk­ur lík­urn­ar á því að hlut­fall starfa í þekk­ing­ar­grein­um fari vax­andi á kom­andi árum. Mest­ur vöxt­ur hef­ur verið í tæknifyr­ir­tækj­um á heimsvísu og mun hann halda áfram sök­um þess að tækn­inotk­un hef­ur auk­ist mikið á tím­um kór­ónu­veirunn­ar, hvort sem á við um fjar­kennslu, net­versl­un eða fjar­fundi. Ljóst er að marg­ir eru að nýta tíma sinn bet­ur vegna tækn­inn­ar og þróa nýj­ar aðferðir við störf sín. Sum­ir ganga svo langt að segja að á aðeins nokkr­um mánuðum hafi sta­f­ræn þekk­ing auk­ist meira en nokk­ur hafi gert sér von­ir um á 10 árum og kalla það „10-ára tæknis­tökk­breyt­ing­una“. Afar lík­legt er að mark­miðið um fram­lag hins op­in­bera til rann­sókn­ar og þró­un­ar verði 3% af lands­fram­leiðslu í ár. Þetta mark­mið þótti draum­kennt fyr­ir ekki svo löngu.

Rann­sókna­sjóður aldrei stærri

Til­kynnt hef­ur verið um út­hlut­un styrkja Rann­sókna­sjóðs fyr­ir árið 2021. Alls hljóta 82 ný verk­efni styrk sem er mesti fjöldi frá upp­hafi og jafn­framt hef­ur heild­ar­upp­hæð sem út­hlutað er aldrei verið hærri. Fram­lög til Rann­sókna­sjóðs hafa hækkað en hann er leiðandi sam­keppn­is­sjóður hér á landi sem hef­ur verið starf­rækt­ur frá ár­inu 2004. Hlut­verk sjóðsins er að styrkja vís­inda­rann­sókn­ir og rann­sókn­artengt fram­halds­nám á Íslandi. Síðustu ár hafa fjár­fram­lög til sjóðsins verið um 2,5 millj­arðar kr. en í sam­ræmi við stefnu Vís­inda- og tækni­ráðs sem samþykkt var á síðasta ári voru fjár­veit­ing­ar til sjóðsins hækkaðar í 3,7 millj­arða kr. fyr­ir þetta ár. Árið 2020 var einnig veitt aukafram­lag til sjóðsins vegna áhrifa Covid-19, alls 775,6 millj­ón­ir kr. Styrk­veit­ing­ar til nýrra verk­efna nema á þessu ári 1,3 millj­örðum kr., en þar sem verk­efn­in eru al­mennt til þriggja ára verður heild­ar­fram­lag vegna þeirra um 4 millj­arðar kr. á ár­un­um 2021-2023. Auk nýrra verk­efna koma tæp­lega 2 millj­arðar kr. til greiðslu á ár­inu vegna styrkja til eldri verk­efna. Rann­sókna­sjóður styrk­ir einnig þátt­töku ís­lenskra aðila í mörg­um alþjóðlega sam­fjár­mögnuðum verk­efn­um. Það er afar ánægju­legt að fylgj­ast með verk­efn­un­um og eru þau fjöl­breytt; hátíðni­kerfi; nátt­úru­vá, mer­gæxli, utangena­erfðir og sam­lífi manna og ör­vera.

Við lif­um sann­ar­lega á áhuga­verðum tím­um og það er að birta til!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Willum Þór Þórsson, formaður Þingflokks Framsóknarmanna og formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþingis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.

Categories
Greinar

Hæfileikar barna í Fellahverfi

Deila grein

21/01/2021

Hæfileikar barna í Fellahverfi

Í upphafi kjörtímabilsins einsetti ég mér að móta sterkari umgjörð í skólakerfinu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku. Við höfum sterkar vísbendingar um að hægt sé að gera betur og þegar er í gangi markviss vinna í þá veru. Ástæðan er einföld: Öll börn eiga jafnan rétt á tækifærum til að blómstra í leik og starfi og það er skylda samfélagsins að veita þeim stuðning sem þurfa. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu og þeir sem ekki ná tökum á því eru í lakari samfélagsstöðu en hinir. Þess vegna þarf að tryggja með öllum tiltækum ráðum góða íslenskukunnáttu allra barna.

Fögnum fjölbreytni í nemendahópum

Á liðnu ári voru kynnt drög að heildstæðri stefnu og tillögur að markvissum aðgerðum til að styrkja stöðu barna með annað móðurmál en íslensku. Þar er meginhugsunin sú, að fjölbreytni í nemendahópum skuli fagna enda efli hún skólastarfi og ólíkir styrkleikar barna skapi margvísleg tækifæri til framþróunar. Slíkt leiði á endanum til betri menntunar fyrir alla. Rík áhersla er á þennan þátt í nýrri menntastefnu fyrir árin 2020-2030.

Nýverið var ýtt úr vör metnaðarfullu verkefni í þessum anda fyrir börn í Fellahverfi í Breiðholti. Þar búa börn með mjög fjölbreyttan bakgrunn og það segir sitt um fjölbreytileikann, að í leik- og grunnskólum eru jafnan töluð um 30 mismunandi tungumál. Um er að ræða þriggja ára samstarfsverkefni lykilaðila; nemenda, skólafólks og -stofnana í hverfinu, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, félags- og barnamálaráðuneytisins, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Markmið verkefnisins er að auka hæfni í íslensku, efla málþroska og styrkja sjálfsmynd barnanna sem um ræðir. Stuðla að aukinni málörvun, meiri orðaforða og betri lesskilningi. Þá á að tryggja betur en áður snemmbæran stuðning við börn, samstarf skóla og frístundaheimila og samfellu í stuðningi milli skólastiga. Þannig á að stuðla að því, að börn í Fellahverfi njóti sömu tækfæra og önnur til menntunar. Verkefnið á að verða fyrirmynd sambærilegra verkefna um allt land og stefnt er að því að nýta reynsluna til að fræða kennara og starfsfólk skóla og frístundaheimila um þær aðferðir sem nýtast best börnum með annað móðurmál en íslensku.

Ný hugsun í málefnum barna

Félags- og barnamálaráðherra vinnur nú að tímamóta aðgerðum í þágu barna, þar sem þjónusta við börn verður stóraukinn og ný hugsun innleidd. Vilji ráðherra stendur til þess að börn njóti fyrsta flokks þjónustu og stuðnings, þar sem ólík kerfi vinni saman með skilvirkum hætti að velferð barnsins. Menntakerfið er einn þeirra hornsteina sem leggja grunninn að framtíð barna og því er brýnt að skólarnir taki mið af ólíkum þörfum í samfélaginu. Að öðrum kosti gætu stórir hópa barna orðið útundan, með neikvæðum afleiðingum fyrir þau sjálf og samfélagið allt. Það er skylda stjórnvalda að laða fram hæfileika allra barna í samfélaginu og finna fjölbreyttum eiginleikum þeirra farveg.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. janúar 2021.

Categories
Greinar

Kvikmyndagerð getur vaxið áfram

Deila grein

20/01/2021

Kvikmyndagerð getur vaxið áfram

Áhrif heims­far­ald­urs á menn­ingu og skap­andi grein­ar um heim all­an hafa verið gríðarleg. Aðstæðurn­ar hafa dregið fram styrk og veik­leika ólíkra greina, en jafn­framt gert fleir­um ljóst hversu efna­hags­legt fót­spor þeirra er stórt.

Mörg ríki leita nú leiða til að efla hug­vits­grein­ar á borð við kvik­mynda-, tón­list­ar- og leikjaiðnað og aðrar list­grein­ar. Tekj­ur þess­ara greina á heimsvísu nema hundraðföld­um þjóðar­tekj­um Íslend­inga, eða um 2 trilljón­um Banda­ríkja­dala á ári. Að auki knýja þær áfram ný­sköp­un og skapa virðis­auka inn­an annarra greina.

Sum­ar skap­andi grein­ar hafa blómstrað í heims­far­aldr­in­um. Þar má nefna leikjaiðnað og aukna alþjóðlega eft­ir­spurn eft­ir kvik­mynduðu efni og tónlist, gegn­um streym­isveit­ur af ýms­um toga. Mis­jafnt er hve mikl­ar tekj­ur skila sér til rétt­hafa, en öll­um er ljóst að mik­il tæki­færi eru til staðar. Þannig er því spáð að tón­list­ar­geir­inn muni tvö­fald­ast að efna­legu verðmæti á næstu árum og á Íslandi hef­ur kvik­myndaiðnaður aldrei verið jafn um­svifa­mik­ill og í fyrra. Þar kom margt til, því auk fag­legra þátta voru ytri aðstæður hag­stæðar fyr­ir er­lenda fram­leiðend­ur. End­ur­greiðslu­kerfið er gott og geng­isþróun var þeim hag­stæð. Ísland var jafn­framt eitt fárra landa sem buðu fulla þjón­ustu, á meðan sum voru nán­ast lokuð vegna heims­far­ald­urs. Hér tókst grein­inni að þróa og tryggja fram­kvæmd á skýr­um sótt­varn­a­regl­um á kvik­mynda­tökustað, halda verk­efn­um gang­andi og laða til lands­ins ný – t.d. banda­rísku MasterClass-net­nám­skeiðsröðina sem ís­lensk­ir kvik­mynda­gerðar­menn hafa unnið og tekið upp í tón­list­ar­hús­inu Hörpu.

Það er mik­il­vægt að Ísland styrki stöðu sína á vax­andi kvik­mynda­markaði. Efli um­gjörð kvik­mynda­fram­leiðslu, byggi á sömu prinsipp­um og áður en taki virk­an þátt í alþjóðlegri sam­keppni um kvik­mynda­verk­efni. Ein­falt end­ur­greiðslu­kerfi er meðal þess sem við eig­um að rækta enn frek­ar. Við ætt­um að hækka end­ur­greiðslu­hlut­fallið, eða nota það sem sveiflu­jafn­ara á móti geng­isþróun. Hlut­fallið gæti orðið allt að 35% þegar staða krón­unn­ar er sterk en að lág­marki 25% þegar krón­an er veik­ari. Einnig mætti hugsa sér stig­hækk­andi end­ur­greiðslur eft­ir stærð verk­efna til að laða stærri verk­efni til lands­ins. Mik­il­vægt er þó að end­ur­greiðslu­kerfið sé sjálf­bært. Þá er brýnt að hraða af­greiðslu mála, til að lág­marka kostnað fram­leiðenda við brú­ar­fjármögn­un sem stend­ur verk­efn­um fyr­ir þrif­um.

Marg­ir alþjóðleg­ir kvik­mynda­fram­leiðend­ur hafa einnig kallað eft­ir betri aðstöðu til upp­töku inn­an­húss árið um kring – kvik­mynda­veri sem í bland við sterk­ara end­ur­greiðslu­kerfi myndi styrkja sam­keppn­is­stöðu Íslands og tryggja okk­ur stærri hlut en áður í tekju- og at­vinnu­skap­andi verk­efn­um. Það er ekki eft­ir neinu að bíða – byrj­um strax.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2021.

Categories
Greinar

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Deila grein

07/01/2021

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Á dögunum rakst ég á grein sem ber heitið „Mikilvægi þess að börnin fari oft í sund og jafnvel stundi sund í tómstundarstarfi.” eftir Guðmund Hafþórsson. Í grófum dráttum fjallar greinin um hversu mikilvæg og góð hreyfing sundið er. Þetta er hreyfing sem þú getur stundað alla ævina, hreyfing sem eykur liðleika og bætir líkamsstöðununa.

Ég tengdi vel við þessa grein enda æfði ég sund á árum áður og bý enn að þeirri frábæru þjálfun. Eftir að hafa lesið greinina rifjaðist upp fyrir mér hugmynd sem ég fékk fyrir nokkru um að gera sundkort í sundlaugar landsins miðlæg. Upphaflega hugmyndin var reyndar sú að nágrannasveitarfélög tækju sig saman og biðu upp á sundkort svæðisbundið. En hvers vegna ekki að taka þetta lengra og bjóða upp á sundkort sem nær yfir allt landið?

Eins og kemur fram í greinninni sem vitnað er til hér að ofan er sund ákaflega góð hreyfing sem hentar fjölbreyttum aldurshópi alla ævi. Sundlaugarnar hafa líka upp á svo margt að bjóða, hvort sem það er sundlaugin sjálf til að synda í, heitu pottarnir, gufan eða rennibrautin. Ekki síst er það félagslegi þátturinn. Samverustund fjölskyldunnar, hitta fólk í pottinum og eiga þar góðar samræður eða bara að njóta kyrrðarinnar þegar enginn annar er.

En hvert væri markmið miðlægs sundkorts? Markmið miðlægs sundkorts væri að auka þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, stuðla að heilsubót og afþreyingu á hagkvæmari máta. Margir hverjir sem sundstaðina sækja reglulega eiga sundkort í fjölmörgum sundlaugum jafnvel víðsvegar um landið. Hver og einn á eflaust sína uppáhalds hverfislaug eða bæjarlaug en með miðlægu sundkorti eykst fjölbreytnin til heilsubótar og afþreyingar. Með aukinni rafrænni þjónustu væri hægt að losa okkur við samanvöðluð pappírskortin úr veskinu og eiga eitt kort í allar laugar með appi í símanum.

Eflaust höfum við áttað okkur enn betur á því hversu mikilvægar sundlaugarnar eru okkur eftir að þær lokuðu tímabundið vegna Covid. Ég mun áfram bíða eftir að mín uppáhalds sundlaug opni en nú er unnið að endurbótum búningsklefa Sundlaugarinnar Laugaskarði í Hveragerði. Það verða eflaust fagnarðarfundir þegar fastagestir hennar geta farið að mæta aftur að framkvæmdum loknum í apríl. Heppilegt væri að geta notað sundkortið sitt á meðan í t.d nágrannasveitarfélaginu Ölfusi. Það væri nú reyndar líka heppilegt ef Hveragerði og Ölfus væru eitt og sama sveitarfélagið en það er efni í aðra grein.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. janúar 2021.

Categories
Greinar

Heimsborg við hafið

Deila grein

07/01/2021

Heimsborg við hafið

Sam­fé­lög verða til úr mörg­um ólík­um þátt­um. Aðstæður eru mót­andi þátt­ur, ekki síst þar sem lands­lag ramm­ar inn bæj­ar­stæði á stór­feng­leg­an en jafn­framt ráðandi hátt. Menn­ing og at­vinnu­hætt­ir ráðast líka af legu sam­fé­laga, í okk­ar til­viki aðgengi að lands­ins gæðum – fiski­miðum, vatni, orku og á síðari tím­um at­vinnu­skap­andi nátt­úru – og sam­göng­um á hverj­um tíma.

Fáir bæir eru feg­urri eða eiga merk­ari sögu en Seyðis­fjörður. Milli him­in­hárra fjalla hef­ur byggst upp öfl­ugt sam­fé­lag, menn­ing­ar­leg­ur horn­steinn og sögu­fræg­ur staður. Þar kom í land fyrsti síma­streng­ur­inn sem tengdi Ísland við um­heim­inn og þaðan hafa ferðalang­ar lengi lagt yfir hafið og gera enn. Teng­ing­in við um­heim­inn er þar sterk og í raun má segja að Seyðis­fjörður sé heims­borg í dul­ar­gervi. Fjöldi er­lendra lista­manna hef­ur dvalið við list­sköp­un í lengri eða skemmri tíma, þar eru veit­ingastaðir á heims­mæli­kv­arða, mann­lífið er blóm­legt og Seyðis­fjörður geym­ir sögu­fræg­ar bygg­ing­ar af er­lend­um upp­runa – lit­rík, nor­skættuð timb­ur­hús frá fyrstu ára­tug­um 20. ald­ar­inn­ar gera Seyðis­fjörð ein­stak­an meðal bæja á Íslandi. Mörg þeirra hafa mikið menn­ing­ar­sögu­legt gildi og njóta friðunar í sam­ræmi við það. Sum hafa fengið glæsi­lega and­lits­lyft­ingu á und­an­förn­um árum og eig­end­ur varið ómæld­um tíma og fé í varðveislu þeirra.

Aur­skriðurn­ar sem féllu á bæ­inn skömmu fyr­ir jól skutu Íslend­ing­um öll­um skelk í bringu og þjóðin fylgd­ist agndofa með frétt­um. Ótrú­leg mildi var að ekki yrði mann­tjón í ham­förun­um og engu lík­ara en al­mættið hafi staðið vörð um bæj­ar­búa. Þeirra bíður nú það verk­efni að bæta hið ver­ald­lega og menn­ing­ar­lega tjón sem varð, græða sár­in og standa sam­an. Stjórn­völd hafa heitið því að styðja Seyðfirðinga og vinna við hreins­un og end­ur­reisn er haf­in.

Brýnt er að bjarga sem mestu af per­sónu­leg­um verðmæt­um íbúa, og jafn­framt er mik­il­vægt fyr­ir sam­fé­lagið að menn­ing­ar­arf­ur­inn glat­ist ekki. Þúsund­ir sögu­legra ljós­mynda í eigu Tækni­m­inja­safns­ins fund­ust heil­ar í aurn­um og vinna við björg­un úr safn­kost­in­um hef­ur gengið vel. Það er menn­ing­in sem ger­ir okk­ur mennsk og hana ber okk­ur að varðveita.

Í dag sæki ég Seyðfirðinga heim, ásamt þjóðminja­verði og for­stjóra Minja­stofn­un­ar, til að sjá aðstæður með eig­in aug­um. Ég er full eft­ir­vænt­ing­ar að hitta kraft­mikið heima­fólk, en kvíði því jafn­framt ör­lítið að standa frammi fyr­ir eyðilegg­ing­unni sem hef­ur orðið. Við vit­um að hús­in geyma merka sögu, bæði fjöl­skyldna og sam­fé­lags­ins alls og það er okk­ar skylda að sýna aðstæðunum áfram virðingu. Það hafa all­ir hlutaðeig­end­ur sann­ar­lega gert hingað til og svo verður áfram. Það mun Þjóðminja­safnið gera sem og Minja­stofn­un, en báðar stofn­an­irn­ar gegna lyk­il­hlut­verki við viðgerð húsa og safn­gripa.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. janúar 2021.

Categories
Greinar

Ónýtir vegir á sunnanverðum Vestfjörðum

Deila grein

05/01/2021

Ónýtir vegir á sunnanverðum Vestfjörðum

Síðustu daga höfum við fylgst með fréttum af miklum slitlagsskemmdum á Bíldudalsvegi, á Mikladal og í Tálknafirði. Þessar fréttir koma líklega ekki á óvart þar sem Bíldudalsvegur í heild sinni var metin ónýtur fyrir nokkru. Þá hefur verið haft eftir svæðisstjóra Vegagerðarinnar að það kosti milljarð að koma veginum í samt lagt aftur. En hvað kostar að gera það ekki?

Þegar litið er til samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum erum við enn stödd á síðust öld og þarf ekki að fjölyrða frekar um það. Til þess að komast á milli byggðakjarna á svæðinu þarf að fara yfir fjallvegi sem eru erfiðir á veturna. Núverandi vegir eru engan veginn byggðir fyrir þá umferð sem þar er. Þungaflutningar eru miklir og almenn umferð hefur aukist vegna atvinnu og þjónustu. Þá eru lokanir á vegum algengar yfir veturna bæði á milli byggðarlaganna þriggja og á Kleifaheiði á Barðastrandavegi. Þessar lokanir hafa mikil áhrif, enda er um eitt vinnusóknarsvæði að ræða.

Jarðgöng er lausnin

Það þarf að skoða af alvöru áætlanir um jarðgöng milli byggðarkjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilliti til byggðaþróunar, daglegrar vinnusóknar og ekki síður vegna aukinnar umsvifa fiskeldis sem skila þjóðarbúinu tugi milljarða í útflutningstekjur þá þurfa samgöngur að vera skilvirkar, öruggar og heilsárs. Jarðgöng frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð yrðu rétt um 3.5 km. og myndu leysa af hólmi umferðamikinn og ónýtan veg um Mikladal. Fleiri jarðgöng eru möguleg og eiga vera á áætlun.

Það er dýrara fyrir þjóðarbúið að aðhafast ekkert í vegamálum á Bíldudalsvegi en að fara í uppbyggingu. Þá er ótalin sú slysahætta sem hlýst af því að hafa slæma vegi. Já vissulega kostar milljarða að byggja upp vegi, en ef þjóðarbúið hefur hug á að nýta sér ágóðann af mikilvægri útflutningsgrein sem stunduð er á svæðinu þarf að byggja upp góðar samgöngur. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. janúar 2021.

Categories
Greinar

Nýtt ár og ný framsókn fyrir landið allt

Deila grein

02/01/2021

Nýtt ár og ný framsókn fyrir landið allt

Ég kom heim úr vinnu einn dag­inn og brotnaði niður og gat ekki hætt að gráta.“ Þetta sagði Anna Sig­ríður Sig­urðardótt­ir í viðtali við Frétta­blaðið rétt fyr­ir jól­in. Í viðtal­inu lýs­ir hún því þegar snjóflóð féll á húsið henn­ar á Flat­eyri í janú­ar síðastliðnum. Dótt­ir Önnu Sig­ríðar bjargaðist giftu­sam­lega úr flóðinu sem fyllti her­bergið henn­ar. Í viðtöl­um strax eft­ir þetta áfall vakti það at­hygli hversu yf­ir­vegaðar þær voru. En áfallið kom síðar, af öllu afli.

Við þekkj­um þetta flest, hvernig hug­ur­inn vinn­ur úr áföll­um, hvernig hann hjálp­ar okk­ur að kom­ast í gegn­um erfiðar aðstæður. Og við vit­um það líka að það er mik­il­vægt að vera meðvitaður um hvaða áhrif áföll hafa á okk­ur og tak­ast á við þau af auðmýkt fyr­ir líf­inu sjálfu. Það verk­efni hafa þær mæðgur einnig tek­ist á við af æðru­leysi. Vil ég óska þeim góðs geng­is í sínu ferðalagi og þakka þeim fyr­ir að veita okk­ur inn­sýn í verk­efni sín.

Við mót­umst öll af þeim áföll­um sem við verðum fyr­ir á lífs­leiðinni og það á líka við um sam­fé­lög. Viðbrögð rík­is­stjórn­ar­inn­ar við þeirri miklu vá sem heims­far­ald­ur­inn er hafa ann­ars veg­ar miðað að því að standa vörð um líf og heilsu fólks og hins veg­ar að því að tryggja eft­ir fremsta megni lífsaf­komu þeirra sem misst hafa vinn­una. Góð staða þjóðarbús­ins sem byggð hafði verið upp af skyn­semi síðustu árin var notuð til þess að standa vörð um störf og skapa störf með um­fangs­mikl­um fram­kvæmd­um rík­is­ins. Verk­efni næstu ára verður fyrst og fremst að skapa at­vinnu til að vinna aft­ur þau miklu lífs­gæði sem við höf­um notið síðustu ár hér á landi. At­vinn­an er grund­völl­ur lífs­gæða.

Af þeim aðgerðum sem ráðist hef­ur verið í hef­ur hluta­bóta­leiðin að öll­um lík­ind­um verið mik­il­væg­ust ásamt fram­leng­ingu á tekju­tengd­um at­vinnu­leys­is­bót­um. Einnig hef­ur verið lögð mik­il áhersla á að vernda þá hópa sem veik­ast standa í sam­fé­lag­inu með stuðningi við barna­fjöl­skyld­ur með lág­ar tekj­ur, ein­greiðslum til barna­fjöl­skyldna, hækk­un at­vinnu­leys­is­bóta, hækk­un ör­orku­bóta og svo mætti áfram telja. Verk­efnið Nám er tæki­færi er einnig mik­il­væg­ur þátt­ur í því að veita at­vinnu­leit­end­um færi á að mennta sig og standa sterk­ar að vígi á at­vinnu­markaði þegar far­aldr­in­um lýk­ur.

Verk­efn­in hafa verið mörg og brýn og sem bet­ur fer hafa stór um­bóta­mál sem ekki tengj­ast far­aldr­in­um náð fram að ganga á ár­inu 2020. Alþingi samþykkti á vor­mánuðum frum­varp mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra um bylt­ingu á náms­lána­kerf­inu með stofn­un mennta­sjóðs sem trygg­ir ung­um náms­mönn­um betri kjör, stór­auk­inn stuðning við barna­fólk og 30% niður­færslu á höfuðstól lána sé námi lokið inn­an ákveðins tíma. Þetta skref er stórt og jafn­ar enn tæki­færi til náms á Íslandi.

Annað stórt um­bóta­verk­efni var leng­ing fæðing­ar­or­lofs í 12 mánuði. Með því held­ur Fram­sókn áfram bar­áttu sinni fyr­ir aukn­um lífs­gæðum fjöl­skyldna á Íslandi en 20 ár eru liðin frá því stór­merk lög Páls heit­ins Pét­urs­son­ar um fæðing­ar­or­lof voru samþykkt á Alþingi sem tryggðu feðrum sér­stak­an rétt á or­lofi. Þau lög sem fé­lags- og barna­málaráðherra hef­ur unnið að allt kjör­tíma­bilið eru stór­kost­legt um­bóta­mál sem trygg­ir barni sam­vist­ir við báða for­eldra á fyrstu mánuðum lífs­ins og er risa­skref í átt til auk­ins jafn­rétt­is.

Hús­næðismál voru eitt af stóru mál­un­um í bar­áttu Fram­sókn­ar fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2017 og bar sú bar­átta ríku­leg­an ávöxt þegar mál fé­lags- og barna­málaráðherra um hlut­deild­ar­lán varð að lög­um. Það fel­ur í sér magnaðar um­bæt­ur fyr­ir efnam­inna fólk og fel­ur í sér að fleiri geta keypt sér þak yfir höfuðið og kom­ist af óhag­stæðum leigu­markaði í eigið hús­næði.

Í sam­göng­un­um varð eitt af stefnu­mál­um Fram­sókn­ar að veru­leika þegar Loft­brú­in var tek­in í gagnið í sept­em­ber síðastliðnum. Í Loft­brú felst að íbú­ar fjarri höfuðborga­svæðinu fá 40% af­slátt af ákveðnum fjölda flug­ferða á ári. Loft­brú­in er stórt skref í því að jafna aðstöðumun byggðanna og ger­ir fólki til dæm­is auðveld­ara að sækja sér lækn­isþjón­ustu og afþrey­ingu í höfuðborg­inni. Stór­sókn er haf­in í upp­bygg­ingu á vega­kerf­inu, höfn­um og flug­völl­um um allt land og má þar sér­stak­lega nefna nýja flug­stöð á Ak­ur­eyri sem veit­ir tæki­færi til að opna nýja gátt í flugi til lands­ins.

Ísland er gott og sterkt sam­fé­lag. Það sýndi sig á þessu um­brota­ári. Samstaða mik­ils meiri­hluta al­menn­ings í sótt­vörn­um og um­hyggja fyr­ir þeim hóp­um sem veik­ast­ir eru fyr­ir sýndi það svo ekki verður um villst. Íslend­ing­ar nýttu líka þá upp­styttu í far­aldr­in­um sem ríkti í sum­ar til að ferðast um fal­lega landið sitt og upp­lifa nátt­úr­una og kynn­ast þeirri mögnuðu upp­bygg­ingu sem orðið hef­ur í ferðaþjón­ustu um landið allt. Þau kynni fólks af land­inu sínu og lönd­um sín­um hring­inn um landið hafa aukið skiln­ing og virðingu okk­ar hvers fyr­ir öðru. Sú reynsla verður mik­il­væg­ur hluti af viðspyrn­unni þegar hún hefst af full­um krafti.

Þróun bólu­efn­is gegn kór­ónu­veirunni hef­ur sýnt hvað þekk­ing vís­ind­anna og sam­taka­mátt­ur­inn get­ur skilað mann­kyn­inu í bar­áttu við vá­gesti. Af hraðri þróun þess get­um við lært margt, ekki síst hvað sam­vinn­an get­ur skilað okk­ur langt. Það hug­ar­far sem ein­kenndi viðbrögð heims­ins á að vera okk­ur fyr­ir­mynd þegar kem­ur að bar­áttu okk­ar gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Hnign­un po­púlí­skra afla um all­an heim vek­ur með manni von um að lönd heims­ins geti sam­ein­ast um aðgerðir til að bjarga heim­in­um. Það verður ekki gert með trú­ar­leg­um refsi­vendi held­ur með því að nýta afl vís­ind­anna og kraft sam­taka­mátt­ar­ins til að finna leiðir til að viðhalda lífs­gæðum án þess að ganga á nátt­úr­una. Eyðing­ar­mátt­ur nátt­úr­unn­ar, hvort sem er í líki veiru eða nátt­úru­ham­fara, vek­ur líka með okk­ur sköp­un­ar­kraft til að mæta þeim verk­efn­um sem fram und­an eru í lofts­lags­mál­um. Sá kraft­ur sem ungt fólk, öðrum frem­ur, hef­ur sýnt í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um er okk­ur öll­um inn­blást­ur.

Með vor­inu mun aft­ur fær­ast líf í ferðaþjón­ustu á Íslandi. Nátt­úr­an og menn­ing­in verða áfram mikið aðdrátt­ar­afl fyr­ir er­lenda gesti og þeir innviðir sem byggðir hafa verið upp bíða þess að kom­ast aft­ur í fulla notk­un. Síðast en ekki síst bíður fólk með mikla þekk­ingu og orku eft­ir því að nýta hæfi­leika sína í ferðaþjón­ust­unni. At­vinnu­grein­ar eins og fisk­eldi, kvik­mynda­gerð og skap­andi grein­ar hafa gríðarleg tæki­færi til að stækka og byggja und­ir lífs­gæði framtíðar­inn­ar í góðu sam­spili við sjáv­ar­út­veg og land­búnað. Framtíðin er björt ef okk­ur tekst að nýta þau tæki­færi sem okk­ur bjóðast.

Já, viðspyrn­an er hand­an við hornið, nú þegar sól hækk­ar á lofti og bólu­setn­ing­ar eru hafn­ar. Ríkið hef­ur ráðist í viðamikl­ar fram­kvæmd­ir, ekki síst á sviði sam­gangna og ný­sköp­un­ar. Sam­göng­ur eru lífæð lands­ins, stór þátt­ur í lífs­gæðum fólks og styrk­ir byggðir og sam­fé­lög. Ný­sköp­un á öll­um sviðum, hvort sem það eru sta­f­ræn­ar lausn­ir í stjórn­sýslu eða stuðning­ur við frjóa sprota í at­vinnu­líf­inu.

Næstu mánuði og ár verður það verk­efni stjórn­mál­anna að vinna úr þeim áföll­um sem gengu yfir okk­ur árið 2020. Þar er efst á blaði að skapa at­vinnu til að standa und­ir frek­ari lífs­gæðasókn fyr­ir Ísland. Líkt og áfall Önnu Sig­ríðar og dótt­ur henn­ar þá mun árið 2020 vera verk­efni sem við vinn­um úr sam­an eft­ir því sem mánuðirn­ir og árin líða. Höggið sem rík­is­sjóður hef­ur tekið á sig vegna far­ald­urs­ins má ekki leiða til þess að sam­heldni þjóðar­inn­ar gliðni og veik­ari hóp­ar sam­fé­lag­ins verði skild­ir eft­ir þegar viðspyrn­an hefst af full­um krafti. Hug­sjón Fram­sókn­ar um gott sam­fé­lag þar sem all­ir hafa tæki­færi til að blómstra í þeim stóru verk­efn­um sem eru fram und­an mun skipta lyk­il­máli. Við mun­um leggja all­an okk­ar kraft og alla okk­ar reynslu í að skapa nýja fram­sókn fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag, nýja fram­sókn fyr­ir fjöl­skyld­ur og fyr­ir­tæki, nýja fram­sókn fyr­ir landið allt.

Ég óska öll­um lands­mönn­um gleðilegs nýs árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2020.

Categories
Greinar

Styrkjum búsetu á landsbyggðinni

Deila grein

30/12/2020

Styrkjum búsetu á landsbyggðinni

Árið 2020 hefur verið mjög sérstakt fyrir okkur öll og sennilega eru margir fegnir því að það renni nú bráðum sitt skeið. Ég er sannfærður um að 2021 verði okkur betra og það eru mjög jákvæð teikn á lofti að svo verði.

Þegar ég horfi yfir árið 2020 og þau verkefni sem við í félagsmálaráðuneytinu höfum verið að vinna, horfi ég til baka stoltur en árið litaðist að mörgu leyti af viðbrögðum við heimsfaraldri Covid-19. Ég er hins vegar mjög ánægður og stoltur af því að hafa náð að koma þremur stórum baráttumálum mínum á dagskrá þrátt fyrir aðstæður í heiminum en þau eiga það öll sameiginlegt að styrkja búsetu á landsbyggðinni.

Aukinn kraftur í húsnæðismál á landsbyggðinni

Í byrjun september var frumvarp mitt um hlutdeildarlán samþykkt en þar erum við að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða ungt fólk og tekjulága inn á fasteignamarkaðinn. Hlutdeildarlánin munu hafa mikil og jákvæð áhrif á fasteignamarkað á landsbyggðinni sem hefur víða verið nálægt frostmarki undanfarna áratugi, en eitt að markmiðunum með þeim er að styrkja það kallað hefur verið köld markaðssvæði. Þá er gaman að sjá kraftinn í framkvæmdum víða um land sem fjármagnaðar eru með stofnframlögum, sérstöku byggðarframlagi og lánum frá HMS, aðgerðir sem samþykktar voru í fyrra. Mér telst til að alls séu 89 íbúðir í byggingu eða undirbúningi víða um land þar sem byggingaraðilar nýta sér þessi úrræði, má þar nefna 12 íbúðir á Húsavík, 10 íbúðir í Bolungarvík, átta íbúðir á Vopnafirði og fjórar á Borgarfirði Eystri.

Sérstakur styrkur til barnshafandi einstaklinga sem búa fjarri þjónustu

Annað stórt mál sem ég er stoltur af eru ný lög um fæðingarorlof en samkvæmt nýju lögunum er fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði, en lögin taka gildi 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm. Ég er mjög ánægður með aukin réttindi fyrir fólk á landsbyggðinni sem býr oftar en ekki fjarri þjónustunni og þarf oft að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins. Með nýju lögunum komum við til móts við þessa hópa og barnshafandi foreldri verður veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar það þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu.

Breyting í þágu barna

Síðast en ekki síst er ég gríðarlega stoltur af þremur frumvörpum sem ég hef lagt fram á Alþingi og miða að því að breyta kerfinu okkar í þágu barna. Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa. Verkefnið er risavaxið og felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að þið njótið hátíðanna með ykkar nánustu.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 28. desember 2020.

Categories
Greinar

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Deila grein

30/12/2020

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, lést 23. nóvember síðastliðinn á Landspítalanum. Páll var í tvígang forseti Norðurlandaráðs, í seinna skiptið árið 1990 þegar starfsemi Norðurlandaráðs markaðist mjög af sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna. Páll vildi fara hægt í sakirnar í sjálfstæðisbaráttu ríkjanna, enda um flókið mál að ræða, en segja má að Páll hafi sett spor því afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu nýtt upphaf í starfi ráðsins.

Miklar umræður urðu í forsætisnefnd ráðsins og á Norðurlandaráðsþingi sem fram fór í Reykjavík snemma árs 1990 um það hvernig Norðurlandaráð gæti best sýnt Lettum, Litháum og Eistlendingum stuðning. Sumir vildu fara varlega í sakirnar til að styggja ekki um of sovésk yfirvöld og þar með knýja fram harkaleg viðbrögð sem gætu komið niður á Eystrasaltslöndunum. Aðrir voru mun róttækari, vildu bjóða Sovétmönnum byrginn og sýna Eistlandi, Lettlandi og Litháen samstöðu og stuðning með skýrum hætti. Þannig lagði einn þingmaður danska Framfaraflokksins til árið 1989 að þeim yrði strax boðin aðild að Norðurlandaráði.

Rætt um umhverfis-, efnahags-, og menningarmál

Í október 1990 fór sendinefnd Norðurlandaráðs undir forystu Páls, þáverandi forseta ráðsins, til Moskvu og síðan til höfuðborga Eystrasaltslandanna. Þetta var tæpu ári áður en yfirvöld í Sovétríkjunum viðurkenndu sjálfstæði ríkjanna. Ferðin vakti mikla athygli og fjölmennur hópur norrænna blaðamanna fylgdi þingmönnunum. Markmið hennar var að kanna hvernig haga mætti samstarfi Norðurlanda við Sovétríkin og Eystrasaltslöndin. Niðurstaðan var sú að heppilegast væri að koma á samvinnu á sviði umhverfis-, lýðheilsu-, mennta- og fjarskiptamála. Jafnframt var rætt um að fræða Eystrasaltslöndin um störf og hlutverk þinga í lýðræðisríkjum, en af skiljanlegum ástæðum skorti nokkuð upp á þekkingu þeirra á þessu sviði. Sendinefndin fundaði með nýjum leiðtogum Eistlands, Lettlands og Litháen. „Okkar erindi var fyrst og fremst að ræða umhverfismál, efnahags- og menningarmál og koma á sambandi,“ sagði Páll í viðtali við Tímann eftir heimsóknina. „Við gátum ekki bannað þeim að tala um pólitík eða um viðhorf sitt til hennar, sem þeir gerðu óspart.”

Ræðan um sjálfstæðisbaráttuna vakti lukku

Henrik Hagemann, þáverandi ritari dönsku landsdeildarinnar, fylgdi sendinefnd Norðurlandaráðs á ferðalaginu og skrifaði löngu síðar um hana í bókinni „Norden sett inifrån”. Þar segir meðal annars frá því þegar þingmennirnir voru í kvöldverði í Ríga í boði máttarstólpa kommúnistaflokksins á staðnum. Páll þurfti að flytja þakkarræðu fyrir hönd sendinefndarinnar. „Han var en stor rund bondemand fra Nordisland, og bensindigheden selv,“ sagði Hagemann um forseta Norðurlandaráðs, „men den dag var han godt nervøs.“ Páll þurfti að koma á framfæri jákvæðum skilaboðum um sjálfstæðisbaráttu landanna en jafnframt þurfti hann að forðast að móðga menn og valda ágreiningi. Hagemann bauðst til að skrifa fyrir hann ræðupunkta en Páll hafnaði því. Hann endaði á því að halda ræðu um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga gegn Dönum. Þetta vakti í fyrstu nokkra furðu hjá gestgjöfunum og eflaust líka norrænu þingmönnunum, en brátt áttuðu menn sig á skilaboðunum: Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu og þeir sem takast á geta síðar náð sáttum og orðið góðir vinir. Ræðan vakti lukku.

Vandrötuð slóð

Af fréttum og greinum í blöðum frá þessum tíma má ráða að Páll vildi fara hægt í sakirnar: „Sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna, sem ég hef persónulega afar mikla samúð með, gerist ekki á augabragði, það hlýtur að þurfa að vera þróun og samningsatriði, en hér er um flókið mál að ræða. Á hinn bóginn hlýtur maður líka að hafa samúð með Gorbatsjov og hans mönnum, sem telja það sitt hlutverk að halda ríkinu saman, því ef ríkið leysist um þá getur þetta einnig logað allt saman í illdeilum. Það er hægt að hugsa sér það, að ef Gorbatsjov sleppti öllu lausu, þá myndi herinn taka málið í sínar hendur. Ég hef ekki trú á að það yrði undir stjórn kommúnista, það gæti alveg eins orðið einhverjir fasistadólgar eftir suður-amerískri fyrirmynd. Til þess má maður ekki hugsa. Þannig að þetta er vandrötuð slóð,“ sagði Páll í ofangreindu viðtali í Tímanum.

Áhrif Norðurlandaráðs vakti mikla athygli

Fulltrúum Eystrasaltsríkjanna var boðið á Norðurlandaráðsþing 1991 og eftir það hófst náið og traust samstarf Norðurlandaráðs við þingin í þessum löndum og samtök þeirra, Eystrasaltsþingið, sem stofnað var að norrænni fyrirmynd. Afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu á ýmsan hátt nýtt upphaf í starfi Norðurlandaráðs sem lengi vel hafði farið mjög varlega í að skipta sér af utanríkismálum. Eftir að Gorbatsjov tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1985 og spenna í samskiptum austurs og vesturs minnkaði var orðið auðveldara fyrir Norðurlönd og Norðurlandaráð að beita sér í sameiningu, ekki síst var staða Finnlands orðin mun frjálsari en áður. Líklega má segja að áhrif Norðurlandaráðs á alþjóðavettvangi hafi aldrei orðið meiri en einmitt á þessum árum í samskiptunum við Eystrasaltslöndin og Sovétríkin og ummæli og athafnir þingmannanna vöktu mikla athygli.

Ýmis af þeim úrlausnarefnum sem Norðurlandaráð og Norðurlönd stóðu frammi fyrir í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna eiga sér eflaust hliðstæður í þeirri stöðu sem löndin eru nú í gagnvart Hvíta-Rússlandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður og forseti Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu í desember 2020.

Categories
Greinar

Háskólinn á Akureyri með tryggt fjármagn til vaxtar

Deila grein

28/12/2020

Háskólinn á Akureyri með tryggt fjármagn til vaxtar

Samkeppnishæfni byggða og þjóða byggir á menntun íbúa, fjárfesting í menntun er því fjárfesting til framtíðar. Skipulag skólastarfs hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár.

Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur, samskiptafærni, vellíðan og forvitni er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla ævi. Grunnurinn er og verður mikilvægur ekki síst ef takast á að grípa tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar. Um allt land er lagður mikilvægur grunnur í leik-, grunn- og tónlistarskólastarfi en allar byggðir landsins þurfa tækifæri til að byggja ofan á grunninn.

Háskólastarf er lykill dreifbýlisins að vísinda- og nýsköpunarsamfélaginu

Öflugt háskólastarf byggir á sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélög. Atvinnuþróun og nýsköpun sem sprettur úr háskólastarfi fer fram í sambúð atvinnuvega og skóla en ekki fjarbúð. Til að landsbyggðirnar hafi raunverulegan aðgang að því fjármagni sem ríkið úthlutar nú í gegnum samkeppnissjóði í vísindum og nýsköpun þarf virkt háskólasamfélag.

Í dreifbýlum samfélögum á norðlægum slóðum hefur þróunin víðast orðið sú að háskólar hafa fengið skilgreint hlutverki í þjónustu við dreifbýl svæði. Þetta hlutverk er á leyst með því að starfrækja net háskólasvæða (campusa), nokkur útibú eða samstarfsnet, má þar benda á Tromsö í Noregi, Oulu í Finnlandi, nokkra skóla í Kanada og dreifbýli Skotlands.

Tækifærin framundan

Nemendum Háskólans á Akureyri hefur fjölgað jafnt og þétt frá 2014, og eru nú rúmlega 2.500 eftir að hafa verið um 1.500 árin 2009-2013. Um 60% nemenda skólans eru nú búsettir á landsbyggðinni en um 40% á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölgun nemenda kallar á aukið fjármagn. Það er því sérstaklega ánægjulegt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2021 var Háskólanum á Akureyri tryggt fjármagn til að fylgja nemendafjölgun síðustu ára eftir og þar með gert mögulegt að efla mannauð skólans og styrkja starfið.

Það er brýnt að auka tengsl háskólasamfélagsins enn frekar við byggðir um allt land. Möguleg leið til þess er að bjóða upp á tæknifræðinám sem byggir ofan á sterkt verknám framhaldskólanna og sífellt tæknivæddara atvinnulíf. Þá verður að finna leiðir til að þjónusta innflytjendur, þannig að þeir geti bæði bætt við sig þekkingu og nýtt þá þekkingu og hæfni sem þeir flytja með sér til landsins.

Menntamálaráðherra hefur boðað breytingu á lögum varðandi aðgangsskilyrði í íslenska háskóla til að auka jafnræði nemenda sem fara mismunandi námsleiðir í bók- og starfsnámi. Þá geta skapast hvatar fyrir háskóla til að skilgreina aðgangsviðmið í mismunandi nám, í samræmi þarfir nemenda og atvinnulífs.

Nýlega undirritaði menntamálaráðherra samning um stofnun háskólaútibús á Austurlandi, með það að markmiði að koma á virku háskólasamfélagi í samstarfi við sveitarfélög og nokkur stór fyrirtæki á svæðinu. Stefnt er að því að kennsla í hagnýtri iðnaðartæknifræði hefjist á Austurlandi haustið 2022 og frumgreinadeild taki til starfa haustið 2021. Þetta verkefni er meðal annars unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Það eru spennandi verkefni framundan við að efla háskólastarf á landsbyggðinni ásamt því að styrkja samstarf skóla og atvinnulífs.

Að lokum vil ég hrósa starfsfólki HA fyrir úthaldið og seigluna og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem ásamt Alþingi greip boltann og tryggði fjármagn til eflingar Háskólans á Akureyri.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér – áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Framsóknarflokkinn.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 23. desember 2020.