Categories
Greinar

Leikskólarnir og lífsgæðin

Deila grein

04/05/2022

Leikskólarnir og lífsgæðin

Það er fátt sem skiptir jafn miklu máli fyrir lífsgæði ungra barnafjölskyldna en metnaðarfull stefna sveitarfélaga í málefnum leikskóla og dagvistunar. Að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla svo foreldrar komist aftur út á vinnumarkaðinn byggir undir öryggi þeirra og sjálfstæði og eykur lífsgæðin. Lág leikskólagjöld eykur ráðstöfunartekjur foreldra og þar með lífsgæðin. Framsækið og vandað starf í góðu húsnæði eykur lífsgleði og lífsgæði barna og eflir þau til framtíðar. Ef við ætlum að auka lífsgæði foreldra og ungra barna þá byrjum við á leikskólunum.

Kostnaðarþátttaka foreldra

Á síðastliðnum áratug hefur kostnaðarþátttaka foreldra farið  úr því að vera 23% af kostnaðinum og niður í 15%. Þetta skiptir máli ekki bara fyrir efnaminni fjölskyldur heldur allt barnafólk sem er að koma undir sig fótunum. Við viljum leita leiða til að lækka þetta hlutfall enn frekar, einkum og sér í lagi fyrir efnaminni fjölskyldur. Gjaldfrír leikskóli á að vera markmið til framtíðar. Við gerum okkur hins vegar líka grein fyrir því að leikskólarnir hafa fengið ærin verkefni á síðustu árum. Við verðum fyrst að klára að brúa bilið og bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks. Við verðum að finna leiðir til að sinna þeim verkefnum vel sem við höfum þegar tekið okkur fyrir hendur.

Á að lögbinda leikskólana?

Við gerum miklar kröfur til leikskólanna enda hefur faglegt starf þeirra blómstrað. Starfsfólk leikskólanna býr yfir mikilli þekkingu, reynslu og menntun. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og þar fer fram mikilvægur undirbúningur fyrir það sem tekur við. Framsókn vill í samvinnu við skólasamfélagið skoða kosti og galla þess að gera elsta árganginn í  leikskólum að skyldubundnu skólastigi. Sérstaklega nú þegar þróunin er sú að það fækkar í árgöngum og pláss skapast í grunnskólum bæjarins. Þetta pláss getum við t.d. nýtt til að taka á móti elstu börnunum í leikskólunum og skapað þannig forskólastig sem undirbýr öll börn jafnt áður en eiginlegt grunnskólanám hefst. Slíkt stig, ef við horfum til framtíðar, yrði að sjálfsögðu gjaldfrjálst. Um leið rýmkar plássið hjá leikskólunum og ávinningurinn því talsverður fyrir bæinn.

Leikskólarnir og farsæld barna

Öll börn eiga að fá að njóta sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Ásmundur Einar Daðason, skóla og barnamálaráðherra, hefur unnið mikið og gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna. Á síðasta ári samþykkti Alþingi frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þetta framfaraskref miðar að snemmtækum stuðningi við börn til að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn. Lögin taka að sjálfsögðu til þeirrar þjónustu sem veitt er í leikskólum rétt eins og öðrum skólastigum. Það er gríðarlega þýðingarmikið að þeim breytingum sem lögin fela í sér verði komið til framkvæmda sem fyrst og innleiðingu lokið.

Það er nefnilega staðreynd, hvernig sem á það er litið, að lífsgæðin byrja á góðum leikskólum.

Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi Framsóknar í fræðslu- og lýðheilsuráði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Leitum víðar í öflugan mannauð

Deila grein

04/05/2022

Leitum víðar í öflugan mannauð

Það er augljóst keppikefli fyrir háskólabæinn Akureyri að hér séu staðsett fleiri störf sem krefjast sérfræðiþekkingar. Við þurfum að kalla ríkið að borðinu og það sem fyrst. Þá er hins vegar gott að hafa í huga að hið opinbera hefur sjálft allan hag af því byggja upp starfsemi sína víðar en í Reykjavík. Um allt land má finna hæft og hæfileikaríkt fólk sem annaðhvort getur ekki eða vill ekki hafa búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Það má því með einföldum hætti stækka þann mannauð sem ríkið getur sótt í og um leið leiðrétta misskiptingu opinberra starfa sem nú er milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Öllum til heilla! 

Missum ekki af tækifærinu 

Ekki er þó nóg að flytja einfaldlega störf, því umhverfið sem við sköpum íslenskri stjórnsýslu þarf að vera gróskumikið og lifandi. Við eigum að vanda vel til verka og umfram allt skapa öflugar starfsstöðvar. Við þurfum að tryggja að opinberir starfsmenn á Akureyri séu, og finnist þeir vera, jafnir starfssystkinum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Við tryggjum það með því að búa okkar fólki samkeppnishæfa og nútímalega starfsaðstöðu sem tekur mið af nýjustu tækni og vinnulagi samtímans. Slík uppbygging er reyndar nauðsynleg – þegar horft er til þess markmiðs að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða heims í stafrænni þjónustu. Við fáum því seint betra tækifæri en einmitt nú til að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins. Missum ekki af því!

Varanlegt framlag til byggðaþróunar á Íslandi

Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera verði til víðar en á höfuðborgarsvæðinu og það er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að tryggja að svo verði ekki. Við í Framsókn viljum fjölga störfum án staðsetningar og við viljum berjast fyrir framsækinni uppbyggingu sem styður við skilvirkari og betri þjónustu við íbúa landsins. Gróskumikill stjórnsýsluklasi á Akureyri verður varanlegt framlag til byggðaþróunar á Íslandi. Ekki veitir af!

Gunnar Már Gunnarsson

Höfundur er verkefnisstjóri í Brothættum byggðum og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri til bæjarstjórnarkosninga.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 3. maí 2022.

Categories
Greinar

Akureyri – þar sem gott er að eldast

Deila grein

16/04/2022

Akureyri – þar sem gott er að eldast

Við í Framsókn viljum gera gott samfélag enn betra – fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að blómstra og búa við góð lífsgæði ævina á enda. Að tryggja rétt okkar allra til farsællar öldrunar er stórt og mikilvægt verkefni, ekki síst í ljósi þess að hlutfall eldra fólks fer hækkandi hér á landi rétt eins og annars staðar í heiminum. Langlífið og aðrar samfélagsbreytingar kalla á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og þjónustu við eldra fólk. Því er mikilvægt að framtíðarsýn okkar um aldursvænt bæjarfélag sé skýr.

Hvernig tryggjum við farsæla öldrun?

Eldri borgarar á Akureyri er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en forsendurnar fyrir sjálfstæðu, innihaldsríku og heilbrigðu lífi eru í grunninn víðast hvar þær sömu þótt aðstæður séu breytilegar. Hvar svo sem við búum – í dreifbýli, borg eða bæ – er mikilvægt að horfa heildstætt til allra þátta samfélagsins. Að í boði sé nægilegt framboð af húsnæði sem hentar þörfum aldraðra er dæmi um aðgerðir sem gera okkur kleift að lifa sjálfbjarga og sjálfstæðu lífi lengur. Samstillt heilbrigðis- og félagsþjónusta styður við það markmið og stuðlar að því að fólk geti búið heima sem lengst. Fjölbreytt félags-, íþrótta-, og tómstundastarf styrkir líkamlega, andlega og félagslega heilsu og vinnur gegn einmanaleika. Samgöngur sem auðvelda þátttöku í félagsstarfi, íþróttum og annarri virkni styðja ekki síður við heilsusamlegar lífsvenjur. Það sama á við um ytra umhverfi okkar, þegar það er aðlaðandi og aðgengilegt og þegar skipulag tekur mið af þörfum og ferðavenjum eldri borgara, styður það þessa þætti. Allt eru þetta undirstöður að farsælli öldrun.

Hver er stefna Framsóknar í málefnum eldri borgara?

Framsókn mun beita sér fyrir því að Akureyri verði aldursvænt samfélag þar sem gott er að eldast. Síðastliðið ár setti Akureyrarbær fram fyrsta hluta aðgerðaáætlunar í málefnum aldraðra sem tekur á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf. Það er brýnt að þær aðgerðir komist til framkvæmda sem fyrst og að hafin verði vinna við annan hluta áætlunarinnar sem horfir m.a. til húsnæðismála. Við leggjum áherslu á að samþætta verkefni og þjónustu ríkis og sveitarfélaga við eldra fólk, t.a.m. með samþættingu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Við viljum skoða nýjar og fjölbreyttar lausnir í þjónustu við eldra fólk og nota tæknina í auknum mæli til að auka lífsgæði og sjálfræði einstaklinga. Þá viljum við að áfram verði unnið að eflingu Birtu og Sölku félagsmiðstöðva fólksins og unnið að stækkun samveru- og þjónustukjarna. Að endingu horfum við til þess að bærinn úthluti lóðum til aðila sem vilja byggja fjárhagslega hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara.

Sameiginleg velferð með samvinnu

Allir eiga að geta elst með reisn og notið þjónustu heima hjá sér eins lengi og heilsa leyfir. Það er áríðandi að ríki, sveitarfélög, þjónustuaðilar og félög aldraðra vinni saman að aukinni farsæld fyrir aldraða og að samstaða sé um sveigjanlega þjónustu í takt við breytilegar þarfir. Við þurfum nýja nálgun í málefnum eldri borgara ef við ætlum að tryggja fjölbreytta þjónustu sem uppfyllir allar gæðakröfur nútímans. Framsókn er framsækinn miðjuflokkur sem vinnur að stefnumálum sínum með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Eru það ekki gildin sem við þurfum að byggja á þegar við sköpum aldursvænt samfélag fyrir okkur öll?

Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi Framsóknar í fræðslu- og lýðheilsuráði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 16. apríl 2022.