Categories
Fréttir

Almannavarnarkerfið okkar og störf björgunarsveitanna

Deila grein

09/12/2015

Almannavarnarkerfið okkar og störf björgunarsveitanna

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um almannavarnakerfið okkar, viðbragðskerfið, og líkt og hv. þm. Óttar Proppé gerði áðan hrósa öllum þeim aðilum sem komu að því að skipuleggja á landsvísu viðbrögðin og viðbúnaðinn fyrir vel unnin störf. Allmargir koma við sögu og því er mikil þörf fyrir mikla samhæfingu, samvinnu og samstöðu. Það má segja að þessir þættir séu með eindæmum í þessu tilviki.
Ríkislögreglustjóri lýsti í samráði við lögreglustjóra landsins í gær yfir óvissustigi í landinu vegna óveðurs. Allir voru vel upplýstar um stöðu mála og meðvitaðar um hvað væri í vændum þar sem öryggi fólks og byggða kynni að vera í hættu. Það sem er kannski mikilvægast í þessu sambandi er viðbragðið og samráðið og það að við upplifum að almannavarnakerfið virkar. Það er ekki sjálfgefið. Ekki er heldur sjálfgefið að upplifa hversu þaulskipulagt og samhæft starfið er og um leið hversu vel upplýsingakerfið virkar. Við upplifum sterkt hversu vel ástandið er vaktað eftir því sem veðurhamurinn gengur yfir og upplýsingar að hafa jafnóðum þar sem staðan er metin í sífellu, hvort sem er hjá Almannavörnum, Veðurstofunni eða Vegagerðinni. Ekki má gleyma þætti fjölmiðla, hvort heldur er hjá fréttastöðvum sjónvarps eða útvarps eða netmiðlum.
Þáttur björgunarsveitanna er auðvitað ómetanlegur og sjálfboðaliðastarfið eins og var á vettvangi í gær, um 700 manns að störfum um allt land, auðvitað ásamt lögreglunni og öðrum viðbragðsaðilum alls staðar með viðbúnað þar sem allir lögðust á eitt um að verja öryggi borgara og eigna. Það var algjörlega til fyrirmyndar, virðulegi forseti, það eru vinnubrögð sem ber að þakka og virða.“
Willum Þór Þórsson — störf þingsins 8. desember 2015.