Lög Framsóknarflokksins
1. kafli ‒ Tilgangur og markmið.
1.1. Framsóknarflokkurinn er stjórnmálaflokkur sem vinnur að því að hafa áhrif á þjóðfélagsskipan á Íslandi samkvæmt þeim markmiðum sem skilgreind eru í grundvallarstefnuskrá flokksins. Starfssvæði flokksins er allt landið en heimilisfang hans er að Hverfisgötu 33, 101 Reykjavík.
2. kafli ‒ Um félagsmenn.
2.1. Félagi í Framsóknarflokknum getur hver sá einstaklingur, sem verður 16 ára á almanaksárinu, orðið sem samþykkir grundvallarstefnuskrá flokksins og er ekki félagi í öðrum stjórnmálaflokki.
2.2. Inntökubeiðnir í flokkinn og úrsagnir úr honum skulu tilkynntar skriflega eða með rafrænum hætti. Beiðni um inntöku eða úrsögn er því aðeins gild að hún sé undirrituð eigin hendi eða send rafrænt af þeim einstaklingi sem óskar inngöngu. Allar inntökubeiðnir og úrsagnir skal tilkynna til skrifstofu Framsóknarflokksins. Tilkynning skrifstofunnar um skráningu gildir sem staðfesting á inngöngu eða úrsögn að teknu tilliti til skilyrða gr. 3.3.
2.3. Félagsmaður skal skráður í aðildarfélag í því sveitarfélagi þar sem hann á lögheimili nema annars sé sérstaklega óskað. Þrátt fyrir að félagsmaður geti verið skráður í aðildarfélag í öðru sveitarfélagi en hann er búsettur í skal atkvæðisréttur við frambjóðendaval fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar fara eftir lögheimili. Ef í sveitarfélagi er starfandi fleiri en eitt aðildarfélag, sem félagsmaður getur átt aðild að, skal gefa honum kost á að velja á milli þeirra.
2.4. Félagaskrá flokksskrifstofunnar ræður kjörgengi og atkvæðisrétti félagsmanna. Hver félagsmaður getur aðeins verið skráður í eitt aðildarfélag en er heimilt að taka þátt í félagsstörfum í fleiri en einu aðildarfélagi.
Þegar félagsmaður flytur lögheimili sitt af félagssvæði þess aðildarfélags, sem hann á aðild að, verður hann sjálfkrafa félagi í því aðildarfélagi sem starfandi er þar sem hann flytur til nema annars sé sérstaklega óskað. Ef fleiri en eitt aðildarfélag eru starfandi í því sveitarfélagi, sem félagsmaður getur átt aðild að, skal gefa félagsmanni kost á að velja á milli þeirra.
2.5. Óski félagsmaður eftir því að skipta um aðildarfélag og hafi heimild til þess samkvæmt lögum þessum skal senda beiðni um slíkt skriflega eða með rafrænum hætti til skrifstofu flokksins. Beiðnin er því aðeins gild að hún sé undirrituð eigin hendi eða send rafrænt af þeim einstaklingi sem óskar að skipta um aðildarfélag.
2.6. Félagsmaður í félagi ungs fólks má ekki eiga aðild að því lengur en út almanaksárið sem hann verður 35 ára. Eftir það verður félagsmaður sjálfkrafa aðili að því aðildarfélagi sem starfar í því sveitarfélagi þar sem félagsmaður á lögheimili eða hefur fasta búsetu meirihluta árs nema félagsmaður óski annars. Ef fleiri en eitt aðildarfélag eru starfandi í því sveitarfélagi, sem félagsmaður getur átt aðild að, skal gefa félagsmanni kost á að velja á milli þeirra.
2.7. Enginn getur gegnt trúnaðarstörfum í stofnunum flokksins eða tekið sæti á framboðslista flokksins til alþingiskosninga án þess að vera félagi í Framsóknarflokknum.
2.8. Fari félagsmaður í framboð til Alþingis fyrir annan stjórnmálaflokk eða stjórnmálasamtök en Framsóknarflokkinn eða gangi til liðs við annan stjórnmálaflokk eða stjórnmálasamtök með opinberum hætti jafngildir það úrsögn úr flokknum.
3. kafli ‒ Um aðildarfélög.
3.1. Almenn framsóknarfélög, félög framsóknarkvenna og félög ungs framsóknarfólks eru grunneiningar Framsóknarflokksins.
3.2. Óski félag aðildar að Framsóknarflokknum skal senda landsstjórn fundargerð stofnfundar, lög félagsins, félagaskrá og skipan stjórnar. Landsstjórn skal eftir atvikum meta hvort nauðsynlegt sé að stofna nýtt félag eða hvetja félagsmenn til að starfa í þeim félögum sem fyrir eru á viðkomandi starfssvæði. Nýtt félag má einungis stofna ef félagsmenn þess eru tíu eða fleiri. Þegar landsstjórn hefur staðfest aðild félagsins öðlast það fullgild réttindi innan flokksins.
3.3. Félög og fulltrúaráð skulu halda aðalfund ár hvert, fyrir 15. maí. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir sem hafa skráð sig í félagið 30 dögum fyrir aðalfund samkvæmt félagatali á skrifstofu flokksins, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Að loknum aðalfundi er stjórn félagsins skylt að senda viðkomandi kjördæmissambandi skýrslu um starf félagsins á síðasta starfsári og upplýsingar um skipan stjórnar. Sé aðalfundur ekki haldinn skv. 1. ml. missir hlutaðeigandi félag rétt til fulltrúa á kjördæmisþing og flokksþing. Sé aðalfundur ekki haldinn skv. 1. ml. skal stjórn kjördæmissambands boða til aðalfundar innan þriggja vikna. Ef slík boðun gengur fram tvö ár í röð skal stjórn kjördæmissambands gera grein fyrir störfum félagsins áður en landsstjórn tekur ákvörðun um slit félags eða það sameinist öðru félagi.
Séu félagsmenn færri en 10 skal stjórn kjördæmissambands gera grein fyrir störfum félags áður en landsstjórn tekur ákvörðun um slit félags eða sameiningu við annað félag.
3.4. Aðildarfélögin setja sér sjálf lög enda samræmist þau lögum hlutaðeigandi kjördæmissambands og lögum Framsóknarflokksins. Félögum er heimilt að innheimta félagsgjöld. Lög aðildarfélags og breytingar á þeim skal leggja fyrir stjórn hlutaðeigandi kjördæmissambands til staðfestingar og öðlast breytingarnar ekki gildi fyrr en að lokinni staðfestingu kjördæmisstjórnarinnar.
3.5. Rísi ágreiningur um hvernig túlka beri lög aðildarfélags sker stjórn félagsins úr með ákvörðun. Kæra má þá ákvörðun til laganefndar Framsóknarflokksins. Ákvörðun félagsstjórnar gildir þó þar til laganefnd hefur kveðið upp úrskurð um málið.
4. kafli ‒ Um kjördæmissambönd.
4.1. Aðildarfélög í hverju kjördæmi hafa með sér samband, kjördæmissamband. Kjördæmissambönd skulu hafa umsjón með og frumkvæði að fundum kjörinna fulltrúa, trúnaðarfólks flokksins og almenns flokksfólks í viðkomandi kjördæmi sem og öðru flokksstarfi. Heimilt er þó að eitt kjördæmissamband starfi fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður.
4.2. Kjördæmissamband skal halda fulltrúafund – kjördæmisþing fyrir 15. apríl ár hvert og að minnsta kosti einn upplýsingafund, með þingmönnum kjördæmis á hverjum þingvetri¹. Ársreikningur kjördæmissambands skal berast skrifstofu fyrir 15. maí ár hvert staðfestur af stjórn og skoðunarmönnum.
¹ Ákvæðið tekur gildi í ársbyrjun 2025.
4.3. Á kjördæmaþingum eiga sæti a.m.k. með atkvæðisrétt:
a) Að lágmarki einn fulltrúi fyrir hverja byrjaða 10 félagsmenn hvers aðildarfélags í kjördæminu. Þó aldrei færri en einn fulltrúi úr hverju sveitarfélagi á félagssvæðinu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala einstakra aðildarfélaga skal miðast við félagaskrá eins og hún liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir kjördæmisþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Aðildarfélög á svæðum þar sem ekki er starfrækt félag ungra Framsóknarmanna skulu leitast við að hlutfall fulltrúa á kjördæmisþing úr hópi ungs fólks sé ekki lægra en hlutfall ungra í félagatali þeirra.
b) Aðalmenn í stjórn hlutaðeigandi kjördæmissambands.
c) Aðalmenn í miðstjórn Framsóknarflokksins sem eiga lögheimili í kjördæminu.
Enn fremur skulu allir félagsmenn í kjördæminu hafa rétt til að sækja kjördæmisþing með málfrelsi og tillögurétt. Eigi síðar en 15 dögum fyrir kjördæmisþing skal stjórn kjördæmissambands skipa starfsnefnd sem tekur á móti tillögum um frambjóðendur sem kosið verður um til trúnaðarstarfa.
4.4. Stjórn hvers kjördæmissambands skal að afloknu kjördæmisþingi senda skrifstofu flokksins skýrslu um störf sambandsins, upplýsingar um hverjir skipa stjórn og aðrar trúnaðarstöður sem og afrit af skýrslum þeirra félaga sem aðild eiga að viðkomandi kjördæmissambandi.
4.5. Framkvæmdastjórn flokksins og framkvæmdastjóri eiga seturétt á þingum og fundum kjördæmissambanda með málfrelsi og tillögurétt.
4.6. Kjördæmissambönd setja sér sjálf lög enda samræmist þau lögum Framsóknarflokksins. Lög kjördæmissambanda og breytingar á þeim skal leggja fyrir landsstjórn flokksins til staðfestingar og öðlast breytingar ekki gildi fyrr en að lokinni staðfestingu landsstjórnar.
4.7. Rísi ágreiningur um hvernig túlka beri lög kjördæmissambands eða reglur um frambjóðendaval sker stjórn viðkomandi kjördæmissambands úr með ákvörðun. Kæra má þá ákvörðun til laganefndar Framsóknarflokksins. Ákvörðun stjórnar kjördæmissambands gildir þó þar til laganefnd hefur kveðið upp úrskurð um málið.
5. kafli ‒ Um aðferð við val á lista.
5.1. Við alþingiskosningar skal kjördæmissamband bjóða fram lista Framsóknarflokksins í sínu kjördæmi. Heimilt er þó, ef eitt kjördæmissamband starfar í Reykjavík, að það bjóði fram á sínum vegum lista Framsóknarflokksins bæði í Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður. Kjördæmisþing sér um framkvæmd vals og gengur frá framboðslista. Reglur um framboð eiga að liggja fyrir a.m.k. 6 mánuðum fyrir reglulegar alþingiskosningar. Reglur um val frambjóðenda geta verið af fimm gerðum: Rafræn kosning; lokað prófkjör; tvöfalt kjördæmisþing; uppstilling; opið prófkjör. Landsstjórn Framsóknarflokksins setur samræmdar reglur sem gilda um alla valkosti í öllum kjördæmum um val vegna framboða til Alþingis og leggur fyrir miðstjórn til samþykktar. Kjörskrá skal lokað 30 dögum fyrir valdag. Framboðsfrestur rennur út 15 dögum fyrir valdag.
Við óreglulegar Alþingiskosningar skulu reglur um framboð liggja fyrir 10 dögum eftir þingrof, kjörskrá vegna vals skal lokað 14 dögum eftir þingrof og framboðsfrestur vegna vals rennur út 14 dögum eftir þingrof.
5.2. Ef ekki tekst að skipa framboðslista fyrir flokkinn í kjördæmi, skv. gr. 5.1., skal framkvæmdastjórn bjóða fram lista Framsóknarflokksins í samráði við stjórn hlutaðeigandi kjördæmissambands.
5.3. Við framboð flokksins til sveitarstjórnarkosninga gildir eftirfarandi:
a) Fulltrúaráð/félagsfundur í hverju sveitarfélagi skal ákveða framboð og aðferð við röðun lista.
b) Reglur um val frambjóðenda geta verið af fjórum gerðum: Rafræn kosning; lokað prófkjör; uppstilling; opið prófkjör. Landsstjórn Framsóknarflokksins setur samræmdar reglur sem gilda um alla valkosti í öllum sveitarfélögum. Kjörskrá skal lokað 30 dögum fyrir valdag. Framboðsfrestur rennur út 15 dögum fyrir valdag.
c) Ef Framsóknarflokkurinn myndar framboð með öðrum flokki/flokkum eða samtökum skal fulltrúaráð/félagsfundur framsóknarfélags setja reglur um það hvernig staðið er að slíku samstarfi við aðra flokka eða samtök í sveitarstjórn.
6. kafli ‒ Um landssambönd.
6.1. Innan Framsóknarflokksins starfa þrjú landssambönd. Samband ungra framsóknarmanna (SUF), Konur í Framsókn og Samband eldri Framsóknarmanna (SEF). Hlutverk landssambandanna er að efla og samræma starf aðildarfélaga sinna og auka þátttöku í flokksstarfi.
6.2. Framkvæmdastjórn flokksins og framkvæmdastjóri eiga seturétt á þingum og fundum landssambandanna með málfrelsi og tillögurétt.
6.3. Landssamböndin setja sér sjálf lög enda samrýmist þau lögum Framsóknarflokksins. Lög landssambandanna og breytingar á þeim skal leggja fyrir landsstjórn flokksins til staðfestingar og öðlast breytingar ekki gildi fyrr en að lokinni staðfestingu landsstjórnar.
6.4. Rísi ágreiningur um hvernig túlka beri lög landssambands sker stjórn sambandsins úr með ákvörðun. Kæra má þá ákvörðun til laganefndar Framsóknarflokksins. Ákvörðun sambandsstjórnar gildir þó þar til laganefnd hefur kveðið upp úrskurð um málið.
7. kafli ‒ Um sveitarstjórnarráð.
7.1. Innan Framsóknarflokksins skal starfa sveitarstjórnarráð. Í sveitarstjórnarráði eiga sæti þrír sveitarstjórnarmenn úr hverju kjördæmi landsins. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir.
7.2. Tilgangur sveitarstjórnarráðs er að efla starfsemi Framsóknarflokksins á sviði sveitarstjórnarmála, að auka samstarf sveitarstjórnarmanna flokksins og vera flokksforystu og þingflokki framsóknarmanna til ráðuneytis.
7.3. Fulltrúar í sveitarstjórnarráði skulu vera aðalmenn í sveitarstjórn, sveitarstjórar eða bæjarstjórar og jafnframt félagsmenn í Framsóknarflokknum. Í þeim kjördæmum, þar sem svo háttar til að færri en 3 einstaklingar uppfylla þessi skilyrði, má kjósa varafulltrúa og eftir atvikum aðalfulltrúa í ráðið úr hópi varamanna í sveitarstjórn. Í þeim tilvikum þegar ekki eru nægjanlega margir aðal- og varamenn til staðar, skal kjósa áheyrnarfulltrúa í þeirra stað. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt í sveitarstjórnarráði.
7.4. Fyrsta reglulega kjördæmisþing eftir sveitarstjórnarkosningar kýs fulltrúa í sveitarstjórnarráð. Kjósa skal fulltrúana á kjördæmisþingi skv. gr. 7.3.
Kjósa skal í einu lagi þannig að þeir þrír, sem efstir verða í kjörinu, skulu verða aðalfulltrúar og þeir þrír, sem næstir koma, verða varafulltrúar. Kjör sveitarstjórnarráðs gildir fram að fyrsta reglulega kjördæmisþingi sem haldið er að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum eftir að kjörið fer fram.
7.5. Sveitarstjórnarráð skal koma saman a.m.k. einu sinni á ári. Landsstjórn kallar ráðið saman til fyrsta fundar að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Á þeim fundi skal ráðið kjósa sér þriggja manna stjórn, formann og tvo meðstjórnendur úr sínum hópi. Stjórnin ber eftir það ábyrgð á starfi ráðsins. Kjör stjórnar gildir þar til lokið er að kjósa í sveitarstjórnarráð að nýju eftir að kjörtímabil þess rennur út, sbr. gr. 7.4.
7.6. Sveitarstjórnarráð skal leggja fram starfsáætlun sem sé kynnt og rædd á miðstjórnarfundi að vori. Sveitarstjórnarráð stendur fyrir ráðstefnu um sveitarstjórnarmál tvisvar á kjörtímabili sveitarstjórna.
8. kafli ‒ Um launþegaráð.
8.1. Innan Framsóknarflokksins skal starfa launþegaráð. Í launþegaráðinu eiga sæti þrír fulltrúar úr hverju kjördæmi landsins. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir.
8.2. Tilgangur launþegaráðs er að efla hlut launþega innan Framsóknarflokksins, vera til ráðuneytis innan flokksins um málefni launafólks og auka samstarf á meðal þeirra Framsóknarmanna sem starfa innan launþegahreyfingarinnar. Stjórn launþegaráðs skal árlega halda fund með kjörnum fulltrúum Framsóknar og aðilum vinnumarkaðarins.
8.3. Kjósa skal fulltrúa í launþegaráð á kjördæmisþingum. Fyrsta reglulega kjördæmisþing eftir alþingiskosningar kýs fulltrúa í launþegaráð. Kjósa skal fulltrúa úr hópi launþega í kjördæminu. Kjósa skal í einu lagi þannig að þeir þrír, sem efstir verða í kjörinu, skulu verða aðalfulltrúar og þeir þrír, sem næstir koma, verða varafulltrúar. Kjör launþegaráðsins gildir fram að fyrsta reglulega kjördæmisþingi sem haldið er að loknum næstu alþingiskosningum eftir að kjörið fer fram.
8.4. Launþegaráð skal koma saman a.m.k. einu sinni á ári. Landsstjórn kallar ráðið saman til fyrsta fundar að afloknum alþingiskosningum. Á þeim fundi skal ráðið kjósa sér þriggja manna stjórn, formann og tvo meðstjórnendur og þrjá til vara úr sínum hópi. Stjórnin ber eftir það ábyrgð á starfi ráðsins. Kjör stjórnar gildir þar til lokið er að kjósa í launþegaráð að nýju eftir að kjörtímabil þess rennur út, sbr. gr. 8.3.
9. kafli ‒ Um flokksþing.
9.1. Framsóknarflokkurinn heldur reglulegt flokksþing sem haustfundur miðstjórnar boðar til, eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs. Framkvæmdastjórn er skylt að boða til flokksþings ef meirihluti kjördæmisþinga óskar þess. Það skal haldið á Suðvesturhorninu innan 45 daga frá því að slík krafa telst réttilega fram komin.
Samþykki flokksþing slit á flokknum samkvæmt ákvæðum greinar 15.11 skal framkvæmdastjórn boða til síðara flokksþings eins fljótt og við verður komið.
9.2. Flokksþing ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans. Á flokksþingi skal ritari flytja skýrslu um starf flokksins frá síðasta þingi og framkvæmdastjóri flytja skýrslu um fjármál flokksins frá sama tímabili.
Drög að málefnum sem álykta skal um á flokksþingi skulu vera tilbúin og berast til flokksfélaga viku fyrir flokksþing.
9.3. Á flokksþingi skal kjósa formann Framsóknarflokksins og skal hann jafnframt vera formaður miðstjórnar flokksins. Þá skal á flokksþingi kjósa varaformann, ritara og tvo skoðunarmenn reikninga. Einnig skal kjósa tvo meðstjórnendur í laganefnd og tvo til vara. Ennfremur skal kjósa tvo meðstjórnendur siðanefndar og tvo til vara.
9.4. Innan flokksins starfar laganefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar, auk tveggja meðstjórnenda sem flokksþing kýs. Formaður skal vera lögfræðimenntaður. Hlutverk nefndarinnar er að skera úr um ágreining sem upp kann að koma um hvernig túlka beri lög þessi, lög einstakra félaga eða sambanda flokksins, sem og reglur um frambjóðendaval. Nefndin skal úrskurða í málum sem kærð eru til hennar skv. nánari ákvæðum í lögum þessum innan 30 daga. Úrskurðir nefndarinnar skulu vera skriflegir.
Ef brýna nauðsyn ber til að fá niðurstöðu eða úrskurð í ágreiningsmálum sem falla undir verksvið nefndarinnar á sem skemmstum tíma má skjóta málum til hennar beint og án málskots til annarra aðila skv. lögum þessum. Nefndin skal við slíkar aðstæður meta sjálfstætt hvort um svo brýnar aðstæður er að ræða að þær réttlæti frávik frá venjulegri málsmeðferð. Úrskurðir laganefndar í ágreinings- eða túlkunarmálum, sem til hennar er skotið, eru endanlegir innan Framsóknarflokksins.
9.5. Innan flokksins starfar siðanefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar, auk tveggja meðstjórnenda sem flokksþing kýs.
Tilkynningar til siðanefndar skulu vera skriflegar. Veita skal þeim sem sætir rannsókn vegna brota á siðareglum andmælarétt og mál skulu nægilega upplýst áður en siðanefnd gefur álit sitt. Siðanefnd gefur rökstutt álit á því hvort siðareglur Framsóknarflokksins hafi verið brotnar innan 30 daga frá því tilkynning berst. Ef um brot sé að ræða skal siðanefnd gefa álit sitt út frá eftirfarandi stigskiptingu: (i) minniháttar brot; (ii) brot; (iii) alvarlegt brot. Brot gegn siðareglum sem jafnframt er brot gegn landslögum skal að jafnaði talið alvarlegt. Afl atkvæða ræður afstöðu siðanefndar, þó skal álit um alvarlegt brot vera einróma. Álit siðanefndar um túlkun á siðareglum Framsóknarflokksins er endanlegt. Hægt er að skjóta atriðum sem varða málsmeðferð siðanefndarinnar til laganefndar Framsóknarflokksins.
Framkvæmdastjórn skal taka fyrir álit siðanefndar um brot á siðareglum og álykta um viðbrögð við þeirri niðurstöðu. Ef um alvarlegt brot sé að ræða skal framkvæmdastjórn að jafnaði álykta um að viðkomandi trúnaðarmaður Framsóknarflokksins sé leystur tímabundið undan öllum trúnaðarstörfum. Ef um alvarlegt brot sé að ræða skal næsti reglulegi miðstjórnarfundur taka fyrir ályktun framkvæmdastjórnar og taka afstöðu til þess hvort viðkomandi trúnaðarmaður skuli ótímabundið leystur undan öllum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Flokksþing setur Framsóknarflokknum siðareglur með sama hætti og lög þessi og teljast allir flokksmenn hafa undirgengist ákvæði þeirra.
9.6. Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala og kjörgengi skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum einstakra aðildarfélaga. Aðildarfélög á svæðum þar sem ekki er starfrækt félag ungra Framsóknarmanna skulu leitast við að hlutfall fulltrúa á flokksþing úr hópi ungs fólks sé ekki lægra en hlutfall ungra í félagatali þeirra. Aðildarfélög skulu tilkynna val sitt á fulltrúum á flokksþing til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett og bera þau ábyrgð á kjörgengi fulltrúa sinna. Við upphaf flokksþings skal kosin kjörbréfanefnd þriggja aðila sem úrskurðar um gildi kjörbréfa og útbýr endanlegan lista yfir réttkjörna flokksþingsfulltrúa með atkvæðisrétt. Ákvörðunum kjörbréfanefndar er unnt að skjóta til flokksþings sem getur fellt þær úr gildi með 2/3 hluta atkvæða. Sérhverjar ákvarðanir flokksþings eru endanlegar og verður gildi þeirra ekki skotið til laganefndar. Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
9.7. Miðstjórnarmenn eiga sæti á flokksþingi með atkvæðisrétti.
10. kafli ‒ Um miðstjórn.
10.1. Miðstjórn fer með umboð flokksins á milli flokksþinga og útfærir meginstefnu hans í landsmálum. Miðstjórn ákvarðar um þátttöku flokksins í ríkisstjórn. Málefnasamning um ríkisstjórnarsamstarf skal leggja fyrir miðstjórn.
10.2. Í miðstjórn eiga sæti:
- Einn fulltrúi fyrir hverja 100 félagsmenn í hverju kjördæmi eða brot úr þeirri tölu umfram 50. Þessir fulltrúar skulu kosnir á kjördæmisþingum til eins árs í senn eftir reglum sem hlutaðeigandi kjördæmissamband setur. Þriðjungur fulltrúanna hið minnsta skal vera úr hópi ungs framsóknarfólks. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir á sama hátt.
- Alþingismenn flokksins og ráðherrar.
- Landsstjórn og framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins.
- Fyrrverandi þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins enda séu þeir félagsmenn.
- Aðalmenn sveitarstjórn, sveitarstjórar eða bæjarstjórar enda séu þeir félagsmenn.
- Stjórn og varastjórn launþegaráðs Framsóknarflokksins, sbr. gr. 8.4.
- Sjö fulltrúar kosnir af landsstjórn.
10.3. Miðstjórn skal boðuð til fundar tvisvar á ári, vor og haust með 30 daga fyrirvara. Vorfundir skulu haldnir í framhaldi af kjördæmaþingum². Þó er heimilt að boða til auka fundar miðstjórnar með skemmri fyrirvara. Á vorfundi skal taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. Aðrir fundir miðstjórnar skulu haldnir þegar landsstjórn flokksins ákveður og eru þeir löglegir ef þar mætir meirihluti miðstjórnarmanna. Einnig er skylt að boða til miðstjórnarfundar ef þriðjungur miðstjórnarmanna krefst þess skriflega. Það ár sem flokksþing er haldið hefur framkvæmdastjórn heimild til að fella niður vorfund miðstjórnar og færa umræðu um félagsstarf flokksins fram til haustfundar³.
² Ákvæðið tekur gildi í ársbyrjun 2025.
³ Ákvæðið tekur gildi í ársbyrjun 2025.
10.4. Á haustfundi miðstjórnar skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn:
a) Fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.
b) Fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.
10.5. Innan miðstjórnar starfar fræðslu- og kynningarnefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. a-lið gr. 10.4. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með framkvæmd kynningar- og fræðslumála Framsóknarflokksins og skal hún sérstaklega leggja áherslu á upplýsingamiðlun innan flokksins. Nefndin skal flytja skýrslu um störf sín á haustfundi miðstjórnar ár hvert.
10.6. Innan miðstjórnar starfar málefnanefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. b-lið gr. 10.5. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins. Nefndin skal flytja skýrslu um störf sín á haustfundi miðstjórnar ár hvert.
10.7. Ef formaður flokksins hverfur úr embætti tekur varaformaður við störfum hans. Miðstjórn skal þá kjósa nýjan varaformann á næsta fundi sínum og gildir kjör hans til næsta flokksþings þar á eftir.
10.8. Ef varaformaður eða ritari hverfa úr embætti þá skal miðstjórn kjósa aðra í þeirra stað á næsta fundi sínum og gildir kjör þeirra fram að næsta flokksþingi þar á eftir.
11. kafli ‒ Um stjórnir og nefndir.
11.1. Framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins skipa formaður flokksins, varaformaður, ritari, formaður þingflokks og formenn SUF, Kvenna í Framsókn og SEF. Framkvæmdastjórn fer með umboð miðstjórnar milli miðstjórnarfunda.
11.2. Landsstjórn flokksins skipa framkvæmdastjórn flokksins, formenn kjördæmissambanda, formaður sveitarstjórnaráðs og formaður launþegaráðs. Formaður og varaformaður kjördæmasambands Reykjavíkur eiga sæti í landsstjórn ef einungis eitt kjördæmasamband starfar í Reykjavík. Ritari Framsóknarflokksins er formaður landsstjórnar. Landsstjórn mótar stefnu um innra starf flokksins og skal funda a.m.k. þrisvar á ári. Landsstjórn skal flytja skýrslu um störf sín á haustfundi miðstjórnar ár hvert.
11.3. Innan flokksins starfar fjármálanefnd sem heyrir undir framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjórn skipar formann og fjórir meðstjórnendur eru kosnir af landsstjórn. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja fjáröflunarstarf Framsóknarflokksins og hafa umsjón með framkvæmd þess í samráði við framkvæmdastjóra. Nefndin skal flytja skýrslu um störf sín á haustfundi miðstjórnar ár hvert.
11.4. Jafnréttisfulltrúi heyrir undir landsstjórn Framsóknarflokksins og kynnir henni árlega stöðu jafnréttismála í flokknum. Jafnréttisfulltrúi er jafnframt formaður jafnréttisnefndar sem skipuð er fulltrúa þingflokks, Kvenna í Framsókn og SUF auk framkvæmdastjóra.
12. kafli ‒ Um þingflokk.
12.1. Þingmenn Framsóknarflokksins mynda með sér þingflokk. Á fundum þingflokks eiga auk þess sæti ráðherrar flokksins, formaður, varaformaður, ritari og framkvæmdastjóri flokksins, formenn landssambanda og í forföllum varamaður þeirra eftir nánara samkomulagi með málfrelsi og tillögurétt. Þingflokkur kýs ráðherra flokksins.
12.2. Þingflokkur kýs sér formann, varaformann og ritara úr sínum hópi í upphafi hvers þings. Að öðru leyti setur þingflokkurinn sér sjálfur starfsreglur enda fari þær ekki í bága við lög þessi. Þær skulu staðfestar af landsstjórn sem og breytingar á þeim.
12.3. Þingflokkur skal halda a.m.k. einn sameiginlegan fund ár hvert með landsstjórn, framkvæmdastjórn, og formönnum fastanefnda, skv. gr. 9.4, 10.5, 10.6 og 11.3.
13. kafli ‒ Um skrifstofu.
13.1. Framsóknarflokkurinn starfrækir skrifstofu sem vinnur að framkvæmd og skipulagningu félagsstarfs flokksins á landsvísu eftir nánari ákvörðunum miðstjórnar, framkvæmdastjórnar og landsstjórnar. Auk þess skal hún vera alhliða þjónustumiðstöð fyrir einstök aðildarfélög og sambönd flokksins í félagsstarfi. Skrifstofan hefur umsjón með félagatali flokksins og útgáfumálum.
13.2. Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra flokksins sem situr fundi framkvæmdastjórnar með málfrelsi og tillögurétt og er hann jafnframt framkvæmdastjóri þingflokks Framsóknarmanna. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk flokksins. Skal framkvæmdastjóri m.a. stýra skrifstofu flokksins og fjármálum hans í samráði við framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjóri ritar firma félagsins.
14. kafli ‒ Um upplýsingaskyldu.
14.1. Allir þeir trúnaðarmenn flokksins sem starfa sinna vegna fá gögn úr félagaskrá Framsóknarflokksins, eiga að fara með upplýsingarnar í trúnaði og er óheimilt að dreifa þeim á einhvern hátt. Vísað er til laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
15. kafli ‒ Ýmis ákvæði.
15.1. Allar kosningar samkvæmt lögum þessum skulu vera skriflegar ef þess er óskað. Heimilt er að hafa kosningar rafrænar ef því verður við komið. Verður þá heimilt að kjósa rafrænt í öllum kosningum innan flokksins, þar með talið á milli tillagna eða frambjóðenda ásamt því að geta samþykkt lista í heild sinni. Atkvæðaseðlar skulu eyðilagðir að lokinni kosningu að liðnum kærufresti.
15.2. Ef ekki er annað tekið fram í lögum þessum skal einfaldur meirihluti ráða ákvörðunum innan Framsóknarflokksins.
15.3. Heimilt er að halda alla fundi og þing samkvæmt lögum þessum, að undanskildu flokksþingi með rafrænum hætti nema utanaðkomandi aðstæður svo sem náttúruhamfarir eða annað slíkt komi í veg fyrir að mögulegt sé að halda flokksþing í eigin persónu. Félagsmenn skulu auðkenna sig með rafrænum skilríkum komi til atkvæðagreiðslu.
15.4. Kjör formanns, varaformanns og ritara á flokksþingi skal fara fram með aðgreindum hætti í skriflegri eða rafrænni óhlutbundinni kosningu. Heimilt er þó að kjósa til tveggja eða þriggja embætta á sama tíma ef flokksþingið samþykkir. Hljóti enginn hreinan meirihluta greiddra atkvæða, þ.e. yfir 50% að meðtöldum auðum atkvæðum og ógildum, í embætti formanns, varaformanns eða ritara, skal þegar í stað fara fram önnur umferð. Eru þá þeir tveir einir í kjöri sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og telst sá kjörinn sem hlýtur fleiri atkvæði í síðari umferðinni.
15.5. Skoðunarmenn reikninga skulu kosnir á flokksþingi úr hópi félagsmanna eftir uppástungu enda liggi fyrir samþykki viðkomandi félaga áður en að kosningu kemur. Skrifleg kosning skal fara fram með sama hætti og við kjör embættismanna flokksins skv. gr. 15.1. ef stungið er upp á fleirum en tveimur. Skoðunarmenn reikninga yfirfara reikning flokksins og öll reikningsgögn fyrir hvert starfsár. Þeir skulu staðfesta árleg reikningsuppgjör flokksins með áritun sinni. Á flokksþingi skal kjósa til tveggja ára löggiltan endurskoðanda sem endurskoðar reikninga flokksins.
15.6. Kjördæmissambönd og flokksfélög skulu ákveða málefnaáherslur flokksins á sínu félagssvæði í héraðs- og bæjarmálum eftir því sem þau telja ástæðu til enda samræmist þær stefnuskrá flokksins.
15.7. Framboð til sveitarstjórnar er í höndum aðildarfélaga í viðkomandi sveitarfélagi. Aðildarfélög ákveða hvaða aðferð skal viðhafa við val frambjóðenda, sjá um framkvæmd valsins og ganga frá framboðslista.
15.8. Rísi ágreiningur um hvernig beri að túlka lög þessi sker landsstjórn úr með ákvörðun. Kæra má þá ákvörðun til laganefndar flokksins. Ákvörðun landsstjórnar ræður þó þar til laganefnd hefur kveðið upp úrskurð um málið.
15.9. Við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista hans skal hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40% nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu. Jafnréttisnefnd og Konur í Framsókn skulu eftir þörfum vera til ráðgjafar um að ná markmiði þessu fram.
15.10. Framboð til setu í fastanefndum flokksins skal berast til skrifstofu sjö dögum fyrir val viðkomandi nefndar og skal þess getið í fundarboði. Ef ekki berast framboð skal landsstjórn tilnefna fulltrúa í viðeigandi nefndir.
15.11. Lög og stefnuskrá Framsóknar skulu vera aðgengileg á að a.m.k. tveimur tungumálum, það skal skrifstofa Framsóknar leitast við að tryggja um annað efni flokksins.
15.12. Öllum þeim sem gegna trúnaðarstörfum í nafni Framsóknarflokksins ber að fylgja lögum og siðareglum sem Framsóknarflokkurinn setur sér.
15.13. Ákvörðun um slit flokksins skal tekin af tveimur flokksþingum í röð. Til samþykktar þarf 2/3 hluta atkvæða á báðum þingum. Seinna flokksþing skal ákveða um ráðstöfun eigna flokksins.
15.14. Lögum þessum verður aðeins breytt á flokksþingi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.
15.15. Allar tillögur til breytinga á lögum þessum þurfa að berast skrifstofu Framsóknarflokksins a.m.k. 15 dögum fyrir flokksþing. Laganefnd skal yfirfara þær tillögur sem berast og skila umsögn til viðkomandi málefnahóps á næsta flokksþingi.
15.16. Lög þessi öðlast gildi að loknu 31. Flokksþingi Framsóknarmanna 2011. Jafnframt falla úr gildi fyrri lög Framsóknarflokksins sem samþykkt voru á 30. Flokksþingi Framsóknarmanna 2009.
Samþykkt á 31. Flokksþingi Framsóknarmanna 2011. Svo breytt á 35. Flokksþingi Framsóknarmanna 2018. Svo breytt á 36. Flokksþingi Framsóknarmanna 2022. Svo breytt á 37. Flokksþingi Framsóknarmanna 2024.
Deila