Flokksþing

Flokksþing

Framsóknarflokkurinn heldur flokksþing annað hvert ár. Skylt er þó að boða til flokksþings ef meirihluti kjördæmisþinganna óskar þess. Flokksþing hefur æðsta vald í málefnum Framsóknarflokksins. Það ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum til næstu tveggja ára og setur flokknum lög. Þar er einnig æðsta stjórn flokksins kosin þ.e. formaður, varaformaður og ritari. Á flokksþingi framsóknarmanna eiga sæti kjörnir fulltrúar flokksfélaga. Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa á flokksþing fyrir hverja byrjaða 15 félagsmenn. Miðstjórnarmenn eru sjálfkjörnir fulltrúar á flokksþing. Næsta flokksþing verður í lok ágúst 2021.

Nefndir flokksþings

Laganefnd

Innan flokksins starfar laganefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar, auk tveggja meðstjórnenda sem flokksþing kýs. Formaður skal vera lögfræðimenntaður. Hlutverk nefndarinnar er að skera úr um ágreining sem upp kann að koma um hvernig túlka beri lög Framsóknarflokksins, lög einstakra félaga eða sambanda flokksins, sem og reglur um frambjóðendaval. Nefndin skal úrskurða í málum sem kærð eru til hennar skv. nánari ákvæðum í lögum þessum innan 30 daga. Úrskurðir nefndarinnar skulu vera skriflegir.

Ef brýna nauðsyn ber til að fá niðurstöðu eða úrskurð í ágreiningsmálum sem falla undir verksvið nefndarinnar á sem skemmstum tíma má skjóta málum til hennar beint og án málskots til annarra aðila skv. lögum þessum. Nefndin skal við slíkar aðstæður meta sjálfstætt hvort um svo brýnar aðstæður er að ræða að þær réttlæti frávik frá venjulegri málsmeðferð. Úrskurðir laganefndar í ágreinings- eða túlkunarmálum, sem til hennar er skotið, eru endanlegir innan Framsóknarflokksins.

Laganefnd skipa: Halldóra Kristín Hauksdóttir, formaður, Þórir Haraldsson, meðstj, Arnar Kristinsson, meðstj, og varamenn eru  Helga Hauksdóttir og Andri Björgvin Arnþórsson.

Siðanefnd

Innan flokksins starfar siðanefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar, auk tveggja meðstjórnenda sem flokksþing kýs. Siðanefnd skal halda trúnað um tilkynningar sem berast nefndinni. Hver sá einstaklingur sem á einhvern hátt er talinn hafa brotið siðareglur Framsóknarflokksins getur kært þá niðurstöðu til laganefndar flokksins sem kveður þá upp endanlegan úrskurð í málinu.

Siðanefnd skipa: Jón Björn Hákonarson, formaður, Lilja Einarsdóttir, meðstj, Valgarður Hilmarsson, meðstj, Elsa Lára Arnardóttir, varam, og Viggó Jónsson, varam.