Categories
Fréttir

Framtíðarskipan húsnæðismála

Deila grein

28/01/2016

Framtíðarskipan húsnæðismála

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Mig langar að fjalla í örstuttu máli um þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti á sumarþingi 2013. Um var að ræða aðgerðaáætlun í tíu liðum þar sem meðal annars átti að taka á skuldavanda heimila, auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.
Liður tillögunnar númer 4 fjallaði um að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra mundi skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórnin hafði meðal annars það hlutverk að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þyrftu.
Verkefnisstjórnin skilaði af sér tillögum árið 2014 og út frá þeirri vinnu komu síðan frumvörp og núna er unnið að þeim frumvörpum í velferðarnefnd. Um er að ræða fjögur frumvörp sem öll varða leigumarkaðsmál hér á landi. Margar umsagnir hafa borist um málin og flestar jákvæðar. Því ber að þakka því viðamikla samráði sem málin fóru í gegnum við vinnslu þeirra. Unnið er hratt og vel að því að klára þessi mál svo þau komist til umræðu og atkvæðagreiðslu í þingsal.
Eins og fram hefur komið í umræðu og kynningu þá eru frumvörpin fjögur:
Frumvarp til laga um almennar íbúðir fyrir efnaminni leigjendur sem felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum.
Frumvarp til laga um húsnæðisbætur sem felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
Auk þess er frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög þar sem verið er að styrkja þau félög og auka íbúalýðræði, og frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala.
Í framhaldi af þessari vinnu taka svo verðtryggingarmálin við og úrlausnir í því hvernig við ætlum að auðvelda fólki að kaupa sér húsnæði. Þar þarf meðal annars að horfa til hvata til sparnaðar og þeirra skilyrði sem sett eru um greiðslumat.“
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins 26. janúar 2016.