„Hæstv. forseti. Kjördæmavika var að venju viðburðarík. Það er gott og hollt að gefa sér tíma til að funda með félagsmönnum og öðrum og fá tækifæri til að hitta félagasamtök og sækja aðra skipulagða viðburði án þess að það stangist á við þétta fundadagskrá þingsins.
Hér í Suðvesturkjördæmi eru húsnæðismálin í brennidepli. Það blasir við að við verðum að hraða vinnu við þau frumvörp sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er með í þinginu og í vinnslu í hv. velferðarnefnd.
Þau frumvörp eru mikilvægur liður í heildarlausn á húsnæðismarkaði. Samhliða liggur fyrir frumvarp í efnahags- og viðskiptanefnd um breytingar á húsnæðislánum til neytenda þar sem aðallega er rætt um kröfur um fagleg vinnubrögð lánveitenda.
Nú fleira verður hins vegar að koma til ef jafnvægi á að skapast á húsnæðismarkaði; markaði þar sem sannarlega er skortur á húsnæði sem birtist í of háu verði sem kemur aðallega niður á leigjendum og þeim sem hyggja á fyrstu kaup.
Samtök iðnaðarins hafa greint þetta ágætlega og bent á uppsafnaða þörf fyrir lítið, ódýrt húsnæði, sniðið fyrir leigjendur og ungt fólk sem er að fara af stað til að koma þaki yfir höfuðið.
Við þurfum að horfa til þessara frumvarpa í heildarsamhengi og sem lið í því að mæta þessari þörf ásamt öðrum nauðsynlegum aðgerðum til að liðka til fyrir auknu framboði af minna húsnæði, ódýrara húsnæði, eins hratt og kostur er.
Það er því sama hvernig á er litið, lögmál framboðs og eftirspurnar gilda í þessu. Þess vegna er svo brýnt að klára frumvarpið um almennar íbúðir því að þar er áformað að auka framboð af slíku húsnæði og það er sannarlega áskorun sem við þurfum að mæta.“
Willum Þór Þórsson – í störfum þingsins 16. febrúar 2016.
Categories
Heildarlausn á húsnæðismarkaði
17/02/2016
Heildarlausn á húsnæðismarkaði