„Virðulegur forseti. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að við eigum ekki að tala illa um ferðaþjónustuna. „Þegar allir horfa í sömu átt standa líkur til að hætta sé á ferðum.“ Þessi orð eru tekin upp úr athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í morgun. Þar er viðtal við Gunnar Gunnarsson, forstöðumann áhættustýringar Creditinfo, sem bendir á hið augljósa, að margir séu að veðja á ferðaþjónustuna í dag. Hótel spretta upp eins og gorkúlur um land allt, þjónusta tengd ferðamennsku dreifir úr sér eins og lúpína.
Gunnar segir að slík hjarðhegðun geti kallað á áhættu sem menn verði að hafa í huga. Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við. Fyrir hrun var áhættan tengd lánum í erlendri mynt á meðan menn höfðu tekjur í íslenskum krónum. Núna er áhættan ekki síst tengd gríðarlegum vexti og uppbyggingu í ferðaþjónustu þó að það kunni að hljóma undarlega. Hér má til dæmis nefna gríðarlega mikla fjölgun hótela. Það þarf ekki annað en að fara í smágöngutúr um miðborgina til að sjá hvað er að gerast. Fjölgun ferðamanna er fagnaðarefni en hvað gerist og hver fær reikninginn að lokum ef illa fer í uppbyggingu?
Fyrir hrun var ekki nægilegur fókus á áhættuþættina. Það sama gildir núna. Forstöðumaður áhættustýringar Creditinfo segir að til dæmis verði að leggja mat á áhrif mögulegrar fækkunar ferðamanna á fasteignaverð hérlendis. Þar liggi áhætta, bæði hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Það er full ástæða til að taka undir þessi orð, þeir sem starfa í ferðaþjónustunni, bankar, lífeyrissjóðir og aðrir verða að staldra við. Rauðu ljósin fara brátt að blikka ef menn halda svona áfram. Vonandi hafa menn lært eitthvað af því sem gerðist hér árið 2008. Setjum ekki öll eggin í sömu körfuna.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 15. mars 2016.
Categories
Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við
15/03/2016
Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við