„Hæstv. forseti. Hér hefur mönnum verið tíðrætt um fordæmalaust ástand í þjóðfélaginu og það er réttmætt því að hér hefur náðst árangur sem ekki eru fordæmi fyrir.
Í upphafi kjörtímabils var um 30 milljarða kr. halli á ríkissjóði. Þar hefur orðið algjör viðsnúningur og viðvarandi afgangur verið á rekstri ríkisins. Með öflugri efnahagsstjórn hefur verðbólga haldist undir 2,5% í tvö ár. Það er árangur sem horfa má til og skiptir landsmenn svo sannarlega máli því hér hefur kaupmáttur aukist meira og hraðar en dæmi eru um áður í sögunni. Raunin er sú að hér hefur orðið kaupmáttaraukning allt að 30% á þremur árum meðan til tíðinda telst í öðrum löndum þegar talað er um árlegar kauphækkanir upp á 2%.
Hæstv. forseti. Ég hef fundið það í samtölum mínum við fólk í landinu að landsmenn finna sannarlega fyrir bættum hag og kunna að meta þann stöðugleika sem hér hefur ríkt. Þá vil ég benda á að svo farsællega hefur tekist að leysa úr eftirstöðvum efnahagshrunsins og áhrifum slitabúa föllnu bankanna að erlend staða þjóðarbúsins er nú betri en hún hefur verið í hálfa öld.
Stefna og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart slitabúum og kröfuhöfum til afnáms hafta hefur skilað svo miklum árangri að furðu sætir erlendis, svo miklum að helsti sérfræðingur heims á sviði skuldaaðlögunar ríkja, Lee Buchheit, segir að árangurinn sé einstakur í fjármálasögu heimsins. Hér er atvinnuleysi með því minnsta sem mælist og skuldastaða heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er orðin ein sú besta á Norðurlöndum í kjölfar aðgerða ríkisstjórnarinnar síðastliðin þrjú ár. Hér munar heimilin heldur betur um þá vel heppnuðu efnahagsaðgerð sem skuldaleiðréttingin var.
Það má með sanni segja að hér sé um fordæmalaust ástand að ræða því að á undraskömmum tíma hefur tekist að byggja traustan grunn að þeirri miklu innviðauppbyggingu sem þarf að halda áfram.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 29. apríl 2016.
Categories
Fordæmalaust ástand
30/04/2016
Fordæmalaust ástand