Categories
Fréttir

Vörumst einkavæðingu

Deila grein

30/04/2016

Vörumst einkavæðingu

Hjálmar Bogi Hafliðason„Hæstv. forseti. Hvernig væri að meta það sem við mælum í staðinn fyrir að elta það? Það fylgir því nefnilega viss áhætta að elta mælikvarðana.
En hvort sem það er einangrun landsins eða annað samkvæmt nýjum alþjóðlegum mælikvörðum um samfélagsgæði, hagsæld þjóða, borga og landsvæða vermir Ísland nú fjórða sæti af 133 þjóðum jarðar. Þetta kom fram á ráðstefnu sem fór fram í Hörpu í gær.
Hugmyndafræðin með listann er að meta það sem skiptir fólk gjarnan mestu máli, svo sem heilsugæsla, menntun, jafnrétti og trú. Þessi lífsgæði samtímans eru ekki sjálfsögð, alls ekki.
Ég segi gjarnan við unglingana sem ég kenni: Þið eruð þeir unglingar sem hafið það hvað best á jörðinni. Ég velti því oft fyrir mér hvort þeir sannarlega trúa þeirri staðreynd.
Það veldur mér hins vegar áhyggjum að þegar kemur að hærri og meiri menntunarmöguleikum skorum við ekki eins hátt og ætla mætti. Lykillinn að áframhaldandi velmegun felst nefnilega í góðri og innihaldsmikilli menntun á hverjum tíma, ekki magni heldur gæðum og fjölbreytileika, að meta hvert starf, allt sem hver og einn leggur til samfélagsins að verðleikum sem hlekk í keðju samtímans.
Við erum sameiginlega ábyrg fyrir gæfu hvers annars, enda mannlegt samfélag mannanna verk, rétt eins og hér á Alþingi.
Okkur birtust í gær fréttir frá Samtökum atvinnulífsins að nú skyldi auka frjálsræði og einkarekstur í mennta- og heilbrigðiskerfinu, orkugeiranum, fjármálakerfinu, og að ríkið ætti að selja hlut sinn í eignum sínum eins og bönkunum, Keflavíkurflugvelli, ÁTVR og orkufyrirtækjum, svo dæmi séu nefnd.
Allt snýst þetta um skynsamlega blandað hagkerfi, ekki að líta svo á að af því að nú gengur okkur vel ættum við að selja með skammtímagróðahagsmuni í huga heldur að líta okkur nær, njóta og meta tilveru okkar og gera enn betur, því að á sama tíma og ójöfnuður minnkar meðal þjóða þá eykst ójöfnuður innan þjóða.
Og aftur: Það er menntunin sem er lykillinn að auðlegð samtímans. Verum þess vegna spurning án augljósra svara. Þannig komumst við ávallt að skynsamlegustu niðurstöðunni, líka á Alþingi.“
Hjálmar Bogi Hafliðason í störfum þingsins 29. apríl 2016.