„Virðulegur forseti. Stuðningur við ríkisstjórnina og báða ríkisstjórnarflokkana eykst samkvæmt könnun Gallup sem birt var í gærkvöldi. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess efnahagsárangurs sem náðst hefur á yfirstandandi kjörtímabili. Fjármálastefna og fjármálaáætlun sem verða til umræðu á eftir staðfesta þau risaskref sem tekin hafa verið og það góðæri sem hér er. Ef menn vilja ekki hlusta á stjórnvöld og telja allt ómögulegt sem frá þeim kemur skulum við vitna í nýja hagspá ASÍ. Alþýðusambandið spáir samfelldum hagvexti hérlendis í átta ár, hann verði 4,9% á þessu ári sem er einn mesti hagvöxtur í vestrænu ríki og að jafnaði 3,8% á næsta og þarnæsta ári. Þetta helst í hendur við lítið atvinnuleysi og verðbólgu sem er undir 2%. Hagur heimilanna hefur batnað og ASÍ telur að einkaneysla muni vaxa um 6% á þessu ári sem er það mesta frá 2007. Því má bæta við að hvergi í Evrópu er jafn mikill tekjujöfnuður og á Íslandi samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.
Við þurfum ekki að líta lengra en til Reykjavíkur til að sjá hvað mun gerast ef Samfylkingin, Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar komast til valda. Rekstur borgarinnar er í fullkomnum ólestri. Þannig var rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári 12 milljörðum kr. lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Niðurstaðan er neikvæð um tæpa 5 milljarða en gert hafði verið ráð fyrir um 7,3 milljarða kr. afgangi.
Þetta er einstakt afrek stjórnarandstöðuflokkanna. Slakur rekstur er síðan afsakaður með því að borgin þurfi að standa við skuldbindingar. Almenningur þarf líka að standa við sínar skuldbindingar, hvort sem það eru lán eða annað.
Í næstu alþingiskosningum verður kosið á milli flokka sem sýna ráðdeild og ábyrgð í fjármálum og þeirra sem kunna ekki að fara með fjármuni. Kjósendur eru sem betur fer skynsamir. Þeir munu varast vinstri slysin.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 3. maí 2016.
Categories
Þeir munu varast vinstri slysin
04/05/2016
Þeir munu varast vinstri slysin