„Hæstv. forseti. Ég fann í fórum mínum þriggja ára gamla ræðu sem mér fannst ástæða til að dusta rykið af, eins og prestar gera. Víða í hinum ýmsu byggðum landsins er skortur á læknum. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Öll viljum við hafa greiðan aðgang að læknisþjónustu og langar mig aftur að benda á ákveðna lausn á því máli.
Á aðalfundi Læknafélags Íslands árið 2012 var ályktað um dreifbýlislækningar, eða héraðslækningar eins og sumir læknar vilja tala um. Í þeirri ályktun var skorað á heilbrigðisráðherra og stendur, með leyfi forseta:
„… að binda í reglugerð heimild til þess að læknir með sérfræðileyfi geti fengið viðurkennda undirsérgreinina dreifbýlislækningar“ og að skilgreina um leið hvað í því felst.
Fram kemur í greinargerð með ályktuninni að lítil endurnýjun hafi átt sér stað meðal heimilislækna í hinum ýmsu byggðum. Jafnframt sé starf læknis í dreifbýli eða héraði að mörgu leyti frábrugðið læknisstarfinu á mölinni. Fámennið veldur einnig því að vaktabyrði er almennt meiri á strjálbýlum svæðum og fjölbreyttari vandamál sem upp koma á vöktum. Á sama tíma eru minni möguleikar á félagslegum og ekki síst faglegum stuðningi kollega í læknastéttinni.
Það kom einmitt fram á fundi á Akureyri fyrir skömmu. Læknar og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana frá strjálbýlum, norðlægum svæðum í Noregi, Kanada, Svíþjóð og Skotlandi ásamt Íslandi komu þar saman. Þar flutti erindi Roger Strasser, rektor Northern Ontario School of Medicine í Kanada. Hann sagði meðal annars að heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum verði að taka frumkvæði til þess að leysa úr vanda við að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa.
Roger Strasser segir, með leyfi forseta: „Mikilvægast er að taka stjórnina og láta hlutina ganga upp fyrir okkur við okkar aðstæður.“
Síðan árið 2003 hefur Sjúkrahúsið á Akureyri tekið formlega þátt í menntun lækna. Nú er lag að taka upp nýja námsgrein enda Ísland strjálbýlt land. Nám í dreifbýlislækningum er nefnilega víða viðurkennt. Ég sé fyrir mér uppbyggingu og styrkingu Háskólans á Akureyri í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri vegna þessa og um leið uppbyggingu og styrkingu heilbrigðisstofnana víða um land.
Það er lykilatriði að taka frumkvæði í þessum málum og sýna ábyrgð öllum til heilla alltaf og alls staðar.“
Hjálmar Bogi Hafliðason í störfum þingsins 12.05.2016.
Categories
Heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum
18/05/2016
Heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum