,,Frú forseti. Góðir landsmenn. Ný ríkisstjórn hefur tekið við á Íslandi og er rétt að óska henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem fyrir liggja og snúa að heill og velferð þjóðarinnar. Sem betur fer tekur stjórnin við góðu búi. Það góða bú varð til á vakt Framsóknarflokksins. Viðreisn kom þar hvergi nærri og ég man ekki til þess að viðhengi hennar, Björt framtíð, hafi lagt mikið til málanna við endurreisn íslensks efnahagslífs. Þó minnist ég þess að fyrrverandi formaður þess flokks lagði fram tillögu til þingsályktunar „um seinkun klukkunnar og bjartari morgna“.
Tvö veigamikil atriði urðu til þess að hlutir fóru að ganga betur á Íslandi eftir að kjörtímabili fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar lauk, bæði mál sem Framsóknarflokkurinn setti á oddinn fyrir kosningarnar 2013. Hið fyrra var hin almenna aðgerð til að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán sem bætti eiginfjárstöðu margra heimila stórkostlega. Er nú svo komið að skuldsetning íslenskra heimila er með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndum — en var áður hæst allra. Hitt er losun hafta sem virðist ætla að takast eins vel og björtustu vonir stóðu til. Þessi tvö risastóru mál lögðu m.a. grunninn að aukinni hagsæld á Íslandi. Það er ágætt fyrir nýja ríkisstjórn að hafa það í huga. Sérstaklega ættu þeir að hugsa sinn gang sem töldu Íslandi best borgið með því að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum, Icesave, og með því að ganga í Evrópusambandið, hið brennandi hús eins og jafnaðarmaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson orðaði það víst. Það er munur á þeim sem vildu rétta íslenskum heimilum hjálparhönd með leiðréttingunni og sækja fé sérstaklega til þess og hinum sem endilega vildu að ríkissjóður greiddi tugmilljarða til að þóknast útlendum kröfuhöfum. Það má eiginlega teljast með nokkrum ólíkindum að slíkir höfðingjar skuli nú stjórna landinu. En vonandi hafa þeir lært af sinni villu.
En hvað um það, nú er daginn farið að lengja og því verða morgnarnir bjartari þó að ekki hafi verið hróflað við klukkunni. Og það mun birta til í ýmsum skilningi ef rétt verður á málum haldið. Í þeim efnum er ekki nóg að fara með hendingar úr skrifum genginna snillinga þó að þeir séu úr Grímsnesinu. Það þarf meira að koma til.
Hæstv. forsætisráðherra varð hér áðan tíðrætt um jafnvægi. Jafnvægi væri annað leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar. Samkvæmt ræðu hæstv. forsætisráðherra er mikilvægt að það þurfi að vera jafnvægi í þjóðfélagsgerðinni. Það er rétt hjá honum, ég er sammála því mati. Í kafla í ræðu hans má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:
„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram þau hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.“
Það var og. Það sem hæstv. forsætisráðherra á líklega við hér er að það sé tilfinning margra að tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki eins gott og það gæti verið. Það kemur á óvart að forsætisráðherra skuli líta svo á að skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu skuli byggjast á hughrifum. Ég held að það sé lítil stemning fyrir svona ályktunum, ekki síst hjá því ágæta fólki sem býr úti á landi og hefur ekki eins góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og þó þeir hafa sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar forsætisráðherra ræðir um jafnvægi væri gott að hafa í huga jafnvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. En ég vil líka taka fram að ég tel enga sérstaka ástæðu til að ætla að það sé honum hulið, þvert á móti.
Virðulegi forseti. Stuðningur við ríkisstjórnina meðal landsmanna hefur nú verið mældur og er fjórðungur ánægður með hana. Þeir sem eru mjög ánægðir eru innan við 10%. Það sem vekur nokkra athygli þegar rýnt er í niðurstöðu Maskínu, sem gerði könnunina, er að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá þeim sem háar tekjur hafa. Þar er hlutfall ánægðra um þriðjungur. Og enn hækkar hlutfall ánægðra þegar hópurinn sem telur sig hafa hærri tekjur en meðaltekjur heimila í landinu er veginn. Þar er ánægjan um 40%. Þetta er í sjálfu sér ekkert vandamál en segir okkur kannski eitthvað um þá skírskotun sem hin nýja stjórn hefur. Og af því að forsætisráðherra var að tala um jafnvægi í ræðu sinni vil ég hvetja hann og ríkisstjórn hans til að huga sérstaklega að þessu.
Það var ekki augljóst eftir kosningar hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, svokallað flækjustig var hátt, aðallega vegna þess að ýmsir höfðu verið með ótímabærar og stórkarlalegar yfirlýsingar fyrir kosningar og jafnvel eftir. Ég vil þó segja hér að ég tel, og er þess raunar fullviss, að aðrir möguleikar hafi verið uppi á borðum. Hægt hefði verið að mynda annars konar stjórn sem hefði mun breiðari pólitíska skírskotun en sú hægri stjórn sem var mynduð undir stjórn og forystu þeirra Engeyjarfrænda. Forsætisráðherra er mætavel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val. En það sem er liðið er liðið. Framtíðin er það sem mestu máli skiptir. Nú er bara að vona að þær traustu undirstöður sem lagðar voru fyrir efnahagslegar framfarir og hagsæld á tíma síðustu ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins haldi.
Ágætu landsmenn. Svo sem fram hefur komið er nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu innviða, t.d. í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngum og ferðaþjónustu svo nokkuð af því helsta sé upp talið. Við þurfum að byggja upp innviði í öruggum skrefum eftir því sem er fjárhagslega skynsamlegt. Verkefni okkar er að auka fé til innviðauppbyggingarinnar samhliða því að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem nú þegar fara til þessara málaflokka.
Mér fannst ýmislegt vanta í stefnuræðu forsætisráðherra og saknaði þess raunar líka í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Mér fannst vanta framsýni í atvinnumál, m.a. um hvernig hægt er að byggja upp öflugt atvinnulíf hringinn í kringum landið, t.d. á grunni menntunar, nýsköpunar, lífhagkerfisins þar sem eru óendanlegir sóknarmöguleikar.
Vinna, vöxtur og velferð, manngildi ofar auðgildi eru einkunnarorð okkar Framsóknarmanna. Til þess að búa til góða velferð verður að vera traust atvinna hringinn í kringum landið, fyrir alla landsmenn. Það er ekki ástæða til að örvænta um framtíð Íslands. Nú sem fyrr höfum við úr miklu að spila og enginn á að þurfa að líða skort. Við munum væntanlega fá meira af því sama á næstu árum. Verðbólga verður lág, hagvöxtur mun halda áfram, kaupmáttur launa mun vonandi styrkjast enn frekar. En það mun koma að því að um hægist. Því er mikilvægt að tryggja hagsmuni okkar sem þjóðar til framtíðar. Það verður best gert í sátt. Fólk má ekki fá þá tilfinningu að sumir séu jafnari en aðrir, vegna ákvarðana sem teknar eru á vettvangi stjórnvalda. Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar. — Góðar stundir.”
Sigurður Ingi Jóhannsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.
Categories
25% stjórnin
25/01/2017
25% stjórnin