Á síðasta kjörtímabili náðist gríðarlega mikilvægur áfangi í þverpólitískri sátt innan velferðarnefndar Alþingis. Sáttin var byggð á lögum um sjúkratryggingar sem höfðu það meginmarkmið að lækka kostnað langveikra einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Það var gríðarlega mikilvægt þar sem mjög hár heilbrigðiskostnaður var mörgum langveikum einstaklingum erfiður.
Öll þekkjum við fréttir af einstaklingum sem hafa þurft að borga mörg hundruð þúsund krónur vegna læknismeðferðar og hefur það, að veikjast alvarlega, sett fjárhag margra þessara einstaklinga í uppnám. Þessi sátt var um að hámarksgreiðslur einstaklinga í heilbrigðiskerfinu yrðu ekki meiri en 50 þúsund á ári en ekki meiri en 33 þúsund á ári fyrir börn, aldraða og öryrkja. Það var því mikið gleðiefni þegar þessi þverpólitíska sátt tókst innan velferðarnefndar en í upphafi var gert ráð fyrir 95,200 hámarksþaki á ári. Þá upphæð gátu nefndarmenn í velferðarnefnd ekki sætt sig við.
Þessi lög tóku gildi þann 1. maí s.l. og nú standast ekki samþykktir þingsins. Lögin eru á þann veg að hámarksþakið er nú 70 þúsund á ári en 46 þúsund á ári fyrir börn, aldraða og öryrkja. Hér er því ekki um að ræða þær upphæðir sem þverpólitísk sátt náðist um innan velferðarnefndar og ekki heldur í samræmi við samþykkt Alþingis sumarið 2016. Það er með öllu óásættanlegt.
Nauðsynlegt er að hámarksþak sjúkratryggðra í heilbrigðiskerfinu verði til samræmis við þá þverpólitísku sátt sem náðist í vinnslu velferðarnefndar og með samþykkt Alþings sumarið 2016. Okkur framsóknarmönnum finnst mikilvægt að næstu skref í átt að betra og sanngjarnara greiðsluþátttökukerfi verði ákveðin í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi.
Þar þarf að setja fram raunhæfa, tímasetta áætlun um hvernig tannlækningar, sálfræðikostnaður og aukinn stuðningur vegna ferðakostnaðar sjúklinga verði felldur undir greiðsluþátttökukerfið. Auk þessa leggjum við framsóknarmenn áherslu á að tímasett verði hvenær greiðsluþátttökukerfi lyfja – og heilbrigðiskostnaðar renni saman í eitt sanngjarnara kerfi. Allar þessar aðgerðir þurfa að vera kostnaðargreindar og að fullu fjármagnaðar.
Elsa Lára Arnardóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Categories
Lækkum kostnað sjúklinga
30/05/2017
Lækkum kostnað sjúklinga